Mótið hefst á morgun og áður en það hefst þurfa auðvitað allir að hafa lesið spá okkar kop.is – penna um niðurstöðu efstu deildar. Í gær fórum við yfir neðri hlutann og í dag er komið að liðunum sem við teljum verða í efri hluta deildarinnar veturinn 2025/2026. Upphitunin fyrir fyrsta deildarleik okkar manna sem er annað kvöld kom svo inn í morgun.
Munið, mest var hægt að fá 180 stig og minnst 9 stig.
10.sæti Crystal Palace 97 stig
Besta spá: 7.sæti Versta spá: 13.sæti
Ernirnir úr Suður-London fljúga svo sannarlega hátt þessa dagana. Fyrsti titill í sögu félagsins kom síðasta vor með sigri á City í úrslitum FA-bikarsins og svo auðvitað löðrunguðu þeir okkur pínu á Wembley um liðna helgina og munu halda Góðgerðarskildinum þetta tímabilið. Það kemur í kjölfar bestu stigasöfnunar í efstu deild hjá félaginu sem er að blómstra undir stjórn Olivers Glasner sem hefur búið til mjög öflugt skyndisóknalið sem er líka óhrætt við að pressa. Það er nokkuð ljóst að hans nafn flýgur hátt í stjóraheiminum og Palace mun þurfa að leggja verulega á sig til að halda honum í starfi. Þeir lentu í mótbyr í sumar þegar UEFA ákvað að þeir fengju ekki sæti í Europa League vegna eignarhaldsmála svo að þeir munu taka sæti í Euro Conference League sem hefði örugglega verið gleði með ef aðstæðurnar væru aðrar. Þeir munu því þurfa að bæta Evrópukvöldum við í dagskrána sínma í vetur. Enn sem komið er hafa ekki orðið marktækar breytingar á leikmannahópnum þeirra, einu kaupin eru á vinstri bakverðinu Borna Sosa og þeir eru að berjast í því að halda lykilmönnum sem eru eftirsóttir hjá stærri liðum. Við erum að eltast við Guehi, Eze undir smásjá Arsenal og Mateta hefur vakið áhuga margra. Við teljum Palace verða á svipuðu róli vel frá botnbaráttu og ekkert of lang frá slagnum um topp 7 sem gefa Evrópusæti, fyrst og síðast því Glasner er verulega hæfur stjóri og kominn með klúbbinn allan með sér í taumi. Það auðvitað mun hafa áhrif hvaða leikmönnum þeir munu halda og hvort þeim tekst að bæta leikjum í Evrópu við sig.
9.sæti Brighton 111 stig
Besta spá: 5.sæti Versta spá: 12.sæti
Erkifjendur Palace sitja í sætinu fyrir ofan þá. Brighton er eiginlega orðið félag sem stærsti hluti ensku liðanna ættu að horfa til þegar kemur að því að búa til samkeppnishæft lið. Hugmyndafræðin síðustu tíu ár og leikmannakaup inn í hana er á þann hátt að það er til fullkominnar eftirbreytni. Þeir hafa fundið leikmenn úr næst efstu eða miðjuskúffunni og byggt þá upp til stærri verkefna sem þeir svo selja með hagnaði áfram og fá nýja í staðinn. Velja sér stjóra sem eru tilbúnir að spila hápressubolta með ungum mönnum og láta lítið sem ekkert koma sér úr jafnvægi. Í sumar seldu þeir Joao Pedro til Chelsea, Adingra fór til Sunderland og Estupinian til AC Milan. Þeir höfðu tryggt sér mikið vængmannsefni, Tommy Watson, frá Sunderland og hafa fylgt hugmyndafræði sinni þegar þeir keyptu vinstri bakvörðinn De Cuyper frá Club Brugge, miðvörðinn Coppola frá Verona og framherjann Kostoulas frá Olympiacos. Þeir halda amk ennþá miðjumanninum Baleba og van Hecke, Mitoma og markmaðurinn Verbruggen verða áfarm vel til í slaginn. Brighton gæti að mati eins okkar verið spútniklið sem tryggði sér þá Meistaradeildarsæti á næst leiktíð. Það er í rauninni þannig að það kæmi ekkert endilega rosa á óvart, félagið á suðurströndinni er orðið hluti þeirra stóru, sem er talsvert afrek þegar horft er til umgjarðar liðsins og sögu.
8.sæti Newcastle 121 stig
Besta spá: 5.sæti Versta spá: 10.sæti
Newcastle áttu líklega stærsta árið í sinni sögu, allavega í nútímanum, síðasta vetur þegar þeir unnu sinn fyrsta bikar í meira en 70 ár og tryggðu sér svo Meistaradeildarsæti. Við þekkjum öll hitann í áhangendum þeirra og hvað þeir eru tilbúnir að leggja á sig fyrir félagið sem hefur verið í heilmiklu og góðu sambandi við sína aðdáendur í gegnum söguna. Allt í blóma er það ekki? Uuuuuuu – svolítið sérstakt, því sumarið hefur að mestu verið ein samfelld vonbrigði á leikmannamarkaðnum. Auðvitað er þar stærst að þeirra langstærsta stjarna, Alexander Isak, virðist algerlega ákveðinn í því að fara til Liverpool en það hefur líka verið sagan þeirra endalausa að leikmenn sem þeir hafa fengið samþykkt tilboð í hafa snúið sér annað. Það eru alls konar sögur um hvers vegna það er, hvort sem er eignarhaldið sem er mjög umdeilt, eða bara það að leikmenn telja Newcastle hafa “skotið yfir markið” í fyrra og ekki líklegir til árangurs í vetur. Nú í vikunni fengu þeir loksins hafsentinn sem þá vantaði þegar Malick Thiaw kom frá AC Mílan, áður höfðu Anthony Elanga (Forest) og markmaðurinn Ramsdale (Southampton) farið gegn straumnum og samþykkt að leika á St. James Park í vetur. Miðað við æfingaleiki verður Ramsdale í markinu og Elanga kemur með hraða á vænginn. Þeir seldu Longstaff til Leeds og ákváðu að semja ekki aftur við Callum Wilson svo þeirra staða er sú að til að hleypa Isak í burt fyrir metfé þurfa þeir að finna einn eða tvo framherja. Newcastle er auðvitað í raun ríkasta félag heims og bar FFP-reglurnar sem koma í veg fyrir að þeir safni öllum leikmannamarkaðnum til sín. Það er enn töluvert eftir af glugganum og þeir munu rembast eins og rjúpan við staur til að bæta í hópinn, vonandi með fjármagn frá sölu á Isak inn í FFP-reglurnar. Við í heildina spáum þeim utan Evrópusæta í vor, þar mun Meistaradeildin hafa áhrif og ákveðið óþol núna í haust á meðan að rykið sest. Stjórinn Howe veit hvað hann syngur og félagið er klárlega topp tíu lið í Englandi eins og mál standa núna. Eigum við að segja þetta áttunda sæti og svo amk eitt gott bikar-run?
7.sæti Aston Villa 122 stig
Besta spá: 5.sæti Versta spá: 10.sæti
Það verður markatölumunur sem sker úr á milli Villa og Newcastle um lokasætið sem deildarárangur tryggir í Evrópukeppni. Semsagt ef að bikarkeppnirnar tvær falla í skaut topp 6 liða mun þetta sæti tryggja þátttöku í amk Euro Conference League í vetur og mögulega Europa League. Við erum hér að svo langstærstum hluta að horfa til stjórans Emery sem hefur bara alltaf náð árangri með sín lið þó hann hafi aldrei unnið stóru titlana. Liðin hans er ólseig og líkamlega sterk lið sem sækja hratt upp völlinn og eru tilbúin að leggja á sig það sem þarf til. Þeir hafa verið í smá basli með FFP-reglurnar og í sumar hefur rauni bara einn biti bæst í leikmannahópinn þegar Evann Guessand, framherji frá Nice skrifar undir. Þeir hafa enn ekki selt leikmenn sem þeir munu þurfa til að kaupa inn en það virðist klárt að Jacob Ramsey sé á leið til Newcastle og bæði Leon Bailey og Morgan Rogers hafa líka verið undir smásjá annarra liða. Markmaðurinn Martinez virtist á förum en er ennþá staðsettur í Birminghamborg þegar þetta er skrifað. Villa var í bardaga um Meistaradeildarsæti fram á síðustu vikurnar í fyrra og náðu verulegum árangri þar líka þegar þeir komust alla leið í 8 liða úrslit. Þeir munu taka þátt í uppáhalds keppni Emery í vetur, Europa League, og eru klárlega eitt líklegasta sigurliðið þar. Það er auðvitað háð því að Emery geti sótt þá leikmenn sem hann telur virka núna í ágústlok og að lykilmenn haldist heilir.
6.sæti Tottenham 123 stig
Besta spá: 5.sæti Versta spá: 13.sæti
Evrópudeildarmeistarar Tottenham verða hástökkvarar í vetur enda fordæmalaust lélegt tímabil í fyrra að baki. Tímabil sem kostaði Ange Postecoglu starfið sitt og kynnir á sviðið í Norður-London nýjan stjóra í honum Thomas Frank, það verður forvitnilegt að sjá hvort að 66°North jakkarnir fái að vera á þeirri hliðarlínu eins og hjá Brentford! Þeir auðvitað unnu þennan titil í Evrópu og það eitt og sér lyfti öllum óveðursskýjunum í Norður-London svo að þeir koma inn í veturinn með ákveðið sjálfstraust þó að deildin hafi verið hörmung. Þeir urðu fyrir áfalli nú nýverið þegar James Maddison sleit krossbönd og úrslitaleikur Super Cup í gær sýndi að gömul Spurs element eru enn til staðar, fá á sig 2 mörk á síðustu 5 mínútunum til að missa leikinn í vítakeppni sem þeir töpuðu, hvað er meira Spurs en það? Fyrirliðinn Son er farinn til USA en í staðinn hefur Frank sótt Joao Palhinha frá Bayern og Mohammed Kudus frá West Ham, leikmenn sem eru með hátt þak og munu styrkja Spurs. Meiðslavandræði Spurs í fyrra var rannsóknarefni svo ef að þeim gengur betur að halda mönnum heilum er fullt af hæfileikaleikmönnum sem geta komið Spurs í alvöru baráttu um Meistaradeildarsæti og eftir að titill vinnst er styttra í þann næsta, gott bikar-run er líklegt á þessum bæ. Svo höfum við líka tröllatrú á Thomas Frank. Hann er mjög einbeittur og flottur taktíker. Hann kann að finna leikmenn inn í ákveðin hlutverk og nýtur mikillar virðingar meðal sinna leikmanna, nú er hann að fá sitt stóra breik og mun standa sig vel þar. Í baráttu um Meistaradeildarsæti fram í síðustu umferð en enda utan topp fimm.
5.sæti Man United 128 stig
Besta spá: 5.sæti Versta spá: 9.sæti
Ef okkar spá gengur eftir munu Manchester United leika í Meistaradeildinni haustið 2026. Það var auðvitað beinlínis dásamlegt að fylgjast með þeim á síðasta tímabili (fyrir utan leikinn á Anfield) og öllum þeim farsa sem þar fór fram. Eignarhald United heldur áfram að gleðja og ansi margt í ranni félagsins virðist vera við rotmörk, bæði hjá félaginu almennt og í leikmannamálum. Þeir eru sannarlega ofmannaðir leikmönnum sem þeir eru að losa sig við (eða reyna það a.m.k.) – Rashford farinn en þeir eru aktívt að reyna að selja Garnacho, Anthony og Sancho auk þess að hlusta eftir tilboðum í Höjlund, Zirksee og jafnvel einhverja fleiri. Enda búnir að fjárfesta duglega áfram og enn nú í sumar, Matheus Cunha (Wolves), Bryan Mbeumo (Brentford) og Benjamin Sesko (RB Leipzig) eru nýja framlínan sem kostaði þá um 200 milljónir punda og eiga að gera töluvert betur en þeir sem á útleið eru. Eyðsla United síðustu ár er auðvitað stjarnfræðileg og uppflettirit í lélegum leikmannakaupum en við erum held ég nokkuð bjartsýnir fyrir hönd United. Það að komast aftur inn í Meistaradeild er auðvitað lágmarkskrafan sem lögð er á félagið og stjórann Amorim og við segjum það muni takast. Það hjálpar þeim vissulega að álagið í vetur verður minna því þeir munu taka öll Evrópukvöldin á pöbbnum að horfa á hin liðin og fá því miklu meiri tíma til undirbúnings milli leikja. Amorim var talið eitt mesta stjóraefni heims þegar hann mætti á Old Trafford og við teljum einurð hans og hugmyndafræði verða lykilinn að því að það verður leiðinlegra fyrir okkur að horfa á þá í vetur. Eins og sést teljum við verða rosalega keppni um 5.sætið sem líklega mun gefa Meistaradeildarsæti og lítið má bregða útaf. Við vonum allir níu að United tapi þeirri keppni!
4.sæti Chelsea 155 stig
Besta spá: 3.sæti Versta spá: 4.sæti
Það er afgerandi munur á heimsmeisturum Chelsea og United í fjórða sætinu. Það er hægt að upplýsa það hér að fjögur efstu liðin voru þar hjá okkur öllum, níu pennar semsagt sammála um afgerandi fjögur bestu liðin í vetur. Af þeim enda Chelsea í fjórða sætinu eins og þeir voru í fyrra. Það var töluvert upp-og-niður í þeirra húsi síðasta tímabil, stöðugleikinn lítill sem enginn en lokaniðurstaðan auðvitað býsna góð, endurkoma í Meistaradeildina og svo sigur í heimsmeistarakeppni félagsliða í Bandaríkjunum í sumar. Að venju er leikmannahringekjan á Brúnni endalaus. Framherjarnir Delap (Ipswich – 30M) og Joao Pedro (Brighton – 55M) munu skipta með sér níustöðunni, vængmaðurinn Jamie Gittens (Dortmund – 50M) og varnarmaðurinn Jorrel Hato (Ajax – 35M) verða líka hluti aðalliðsins en þeir keyptu líka nokkra unga leikmenn dýrum dómum sem þeir hafa nú þegar lánað (marga til sinna venslaliða) eða munu líklega gera það fyrir gluggalok. Það er hugmyndafræði Chelsea auðvita og þeir hafa heldur betur selt líka. Joao Felix, Broja, Madueke, Dewsbury-Hall, Kepa og fleiri minni spámenn hafa verið látnir fara til að balancera bækurnar og það er alveg þannig ennþá að Chelsea eru orðaðir við fullt af leikmönnum sem eru lausir á markaðnum, og virðast vera til í að selja frá sér líka. Farsi vissulega, en stjórinn Maresca náði að vinna vel úr þessari stöðu í fyrra og við teljum svo verða aftur í vetur. Það eru mikil einstaklingsgæði í þessu liði sem mun einfaldlega skila sér í fleiri leikjum en færri og Chelsea verður sannarlega einn hluti fjóreykisins sem mun skera sig úr í vetur. Þeir eru líka klárlega með sjálfstraust til að fara langt í Meistaradeildinni.
3.sæti Arsenal 167 stig
Besta spá: 1.sæti Versta spá: 4.sæti
Þetta verður að verða árið hans Arteta. Silfurverðlaun síðustu tvö ár og enn á ný opið tékkhefti (fyrir þá sem vita hvað það er) í sumar. Risabitar komnir til liðsins í formi Zubimendi og Gyökeres auk þess sem öflug nöfn bæta við breiddina, Kepa í markinu og Nörgaard inn á miðjuna. Á móti hefur enginn sem hefur verið í lykilhlutverki hvatt þá, helst kannski að dólgurinn Partey hafi gert eitthvað tilkall til liðsins í fyrra en þó ekki. Þetta er einfald, Arsenal vilja verða meistarar en hafa síðustu tvö ár misst botninn úr leik sínum þegar í lokaslaginn er komið, bæði í deild og öðrum keppnum. Arteta sjálfur lætur eins og allt sé í blóma en það er bara ekki þannig vinur. Ef þeir vinna ekki deildina verður sjóðheitt undir honum, ef þeir vinna ekkert verður hann látinn fara. Tveir okkar spá þeim sem meisturum svo það er alls ekkert útilokað en heilt yfir erum við á því að Arsenal falli um eitt sæti í töflunni milli ára!
2.sæti Manchester City 169 stig
Besta spá: 1.sæti Versta spá: 4.sæti
Sorry Pep minn, þetta er ekki þitt ár…allavega ekki ef við allir saman höfum rétt fyrir okkur. Tveir okkar telja þó að Pep muni endurheimta meistarabikarinn en það er sagt með súru bragði sannarlega. Það má alveg færa fyrir því rök að Pep hafi “tankað” titlinum í janúar í fyrra þegar hann keypti inn leikmenn og fór að láta spila strax þrátt fyrir að vera kannski ekki alveg tilbúnir. Í sumar missti hann svo De Bruyne og losaði Grealish og Walker burt (voru orðnir deadwood) áður en hann henti út peningum í Reijnders (AC Milan – 47M) og Cherki (Lyon – 34M) til að styrkja miðjuna, vinstri bakvörðurinn Ait-Nouri kom frá Úlfunum og markmaðurinn Trafford var sóttur heim frá Burnley. City eru enn á markaðnum, heitasti orðrómurinn er um Donnaruma en líka að þeir séu að horfa til Rogers hjá Villa í svipuðum díl og með Trafford og að skoða valkosti í hægri bak og miðju. Þeir endurheimta auðvitað Rodri sem þeir söknuðu gríðarlega og það er auðvitað algerlega ljóst að Pep hefur ýmislegt að sanna í vetur eftir fyrsta titlalausa árið í hans sögu hjá City. Þeir verða á allt öðrum og betri stað en í fyrra og munu keppa um titilinn til loka.
MEISTARAR LIVERPOOL 175 stig
Besta spá: 1.sæti Versta spá: 3.sæti
Besta liðið í fyrra og besti leikmannaglugginn. Einfalt. Er það ekki? Auðvitað galið sumar sem hófst á stórkostlegum kaupum á Wirtz, Kherkez og Frimpong, djúpur öldudalur þegar Diogo Jota lést af slysförum og síðan upp aftur á hestinn þegar við kaupum Ekitike og erum að sækja fast á Alexander Isak. Þessar klukkustundirnar bíðum við frétta af staðfestingu á kaupum á efnilegasta hafsent Ítala og erum í störukeppni við Palace um fyrirliðann þeirra, Marc Guehi. Við auðvitað misstum líka leikmenn í Darwin og Diaz og munum væntanlega selja nokkra í viðbót sem ekki eru líklegir í lykilhlutverk í vetur. Heilt yfir erum við á því að við séum að sigla inn í mikið velgengniskeið hjá okkar mönnum, auk þess að vinna deildina verðum við framarlega í Meistaradeild og minnsta kosti í einum bikarúrslitum.
Framtíðin er rauð!!!
Þar með getur mótið hafist – spáin er klár! Upphitun er komin í loftið fyrir fyrsta leik í EPL sem verður á morgun gegn Bournemouth og framundan eru 10 mánuðir af frábærum fótbolta!!!
Sælir félagar
Enn eru kop-arar að spá MU langt yfir getu þess miðlungaliðs. Einnig eru menn að spá Arsenal langt yfir getu en svona er þetta bara. Mín spá frá 1. til 8. sætis er svona og þar eru þessi lið á sínum stað:
1. Liverpool
2. Man. City
3. Chelsea
4, Arsenal
5. Tottenham
6 Newcastle
7. A. Villa
8. Man.United
Það er ekki ástæða til að fara neðar í spánni því átta efstu sætin eru þau sem skipta máli. Þess vegna spái ég bara um þau en öll önnur sæti skipta mig engu 🙂
Það er nú þannig
YNWA