Þegar leikjatölvan spítti út dagskrá þessa tímabils var hún ekkert að spara stóru leikina í fyrstu umferðunum. Um næstu helgi mætast Liverpool og Arsenal en fyrst þurfa okkar menn að fara í heimsókn til Eddie Howe og lærisveina hans. Það er örlítið drama í gangi milli þessara liða eins og stendur, ef ske kynni að það hafi farið fram hjá einhverjum,
Andstæðingurinn: Newcastle United
“Mo’ money mo’ problems” lýsir ágætlega stöðunni hjá Newcastle. Það eru fjögur ár síðan þeir losnuðu við Mike Asheley og sáu fram á nýja gullöld. Vissulega hefur nánast allt batnað í tengslum við félagið, en þeir bera sig líklega mest saman við Manchester City. Fjórum árum eftir sú yfirtöku voru City orðnir Englandsmeistarar. Sem betur fer er búið að herða reglur um fjármuni töluvert. Þó Newcastle séu á uppleið er töluvert í að maður sjái þá berjast um deildina, stuðningsmönnum þeirra til mikils ama.
Síðasta tímabil tóku þeir stór skref í rétta átt. Þó það væri deildarbikarinn, var það risa risa risa augnablik fyrir klúbbinn að lyfta alvöru bikar í fyrsta sinn síðan 1955. Þar að auki náðu þeir í fimmta sætið í deildinni, sem tryggði þeim Meistaradeildarbolta og töluverðar fjárhæðir.
Af hverju er þá umræðan á netinu eins og allt logi stafnanna á milli innan félagsins?
Í stuttu máli er svarið Alexander Isak og að sjálfsmynd liðsins passar ekki við raunveruleikann. Hér er að vert að taka fram að þessi hluti pistilsins er skrifaður nokkrum dögum fyrir birtingu. Ég tek það fram því að í allt sumar er ekkert búið að gerast milli Newcastle og Liverpool á nokkura daga fresti og erfitt að giska hvað gerist fram á sunnudaginn, þó líklegast sé að ekkert gerist fyrr en leik er lokið á mánudagskvöld.
Í lok síðasta tímabils virtust Newcastle menn telja að sökum Meistaradeildarsætisins, þá myndu þeir geta haldið stórstjörnunni sinni, Alexander Ísak. Hann sjálfur virðist hins vegar vera búin að ákveða að færa sig um set, helst til Liverpool.
Það sem hefur fylgt, í fjölmiðlum, samfélagsmiðlum og við samningsborð ein flóknasta sápuópera síðustu ára og sú langflóknasta sem Liverpool hefur átt hlut að. Ísak vill fara, Liverpool vill borga en ekki of mikið, Newcastle vill annaðhvort halda honum eða fá nóg til að kaupa 2-3 sóknarmenn fyrir og allir sem Newcastle vill kaupa af hugsa “já það er met peningur á leið til ykkar, við smyrjum 30% á verðið” og þó nokkrir sem Newcastle hafa gert tilboð í hafa ákveðið að halda á önnur mið, þó ástæðurnar séu óljósar og mismunandi. Það er engan vegin augljóst hvort vandamálin hafi verið að tilboðin hafi verið léleg eða að samningarmenn Newcastle hafi klúðrar hverjum samningnum á fætur öðrum.
Það er hávær orðrómur um að Ísak hafi verið hlunnfarinn um nýjan samning fyrir ári og í stað þess hafi honum verið lofað að hann fengi að fara í sumar. Hann hefur brugðist við öllu þessu með því að um það bil fara í verkfall, þó sumir vilji meina að Howe hafi sagt honum að halda sig heima. Það sem Howe hefur pottþétt ekki gert er að segja Ísak að koma með bombur á samfélagsmiðla um að hann muni aldrei spila fyrir liðið.
Einhverjir vilja meina að Liverpool séu að leika sama leik með honum og Real lék með Trent, sumir kenna Liverpool um að hafa stolið Ekitike, aðrir benda á að Newcastle séu að leika sama leik með Wissa og Liverpool eru að spila með Ísak. Já og Newcastle eru víst í veseni með eyðslureglurnar og stuðningsmenn þeirra á netinu hafa verið afar hátt um hversu ósanngjarnt það er að eigendur megi ekki eyða eins og þeir vilja.
Hver veit hvað er satt. Fyrir þá sem hafa gaman af glugga-sápuóperum hlýtur þetta vera toppurinn á tilverunni. Það sem óumdeilanlegt er að það eru miklar tilfinningar í spilinu, þetta virðist hafa klofið leikmannahóp Newcastle og stuðningsmenn liðsins hata Ísak og Liverpool þessa stundina. Að fá þá, á St. James Park á mánudagskvöldi núna eru ekki kjöraðstæður fyrir Liverpool þó illu sé best aflokið. Völlurinn er einn erfiðasti völlur landsins að heimsækja og nokkuð ljóst að hann verður sjóðandi á mánudagskvöldið.
Fyrsti leikur tímabilsins hjá þeim svart-hvítu var baráttueikur við Aston Villa sem endaði í 0-0. Hvort sem það var vegna þess að allir voru með hugan við dramað í kringum Ísak eða ekki, þá skrifuðu allir fjölmiðlar um að níu-skorturinn hefði verið augljós hjá Newcastle. Í kjölfarið gerðu þeir nýtt tilboð í Wissa, sem Brentford skutu niður nánast samstundis.
Væntanlega lýkur þessu öllu í vikunni, það styttist í að glugginn loki og það eru ansi mög viðskipti sem eiga eftir að eiga sér stað fyrir það. En fyrst þarf að leika leikinn. Leikir þessara liða hafa oft verið stórfenglegir. 4-3 leikurinn 1996 hefur oft verið kallaður besti leikur í sögu deildarinnar, 1-2 leikurinn á St James Park fyrir tveimur árum var ótrúlegur, það var líka 3-3 leikur fyrir stuttu og 4-2. Fyrir utan einn leik árið 2020 þarf að fara aftur til ársins 1974 til að finna markarlaust jafntefli, og megnið af þeim tíma hafa liðin verið í sömu deild!
Okkar menn
Eru Liverpool augljósir titilkandídatar eða þunnskipaðir með meingallaða vörn? Það er ekki alveg skýrt, en að fara á St. James Park verður risa próf fyrir liðið. Slot hefur sagt í fjölmiðlum að hann sé afar sáttur með hópinn, á meðan Van Dijk og Salah sögðu báðir á PFA verðlaununum að þeir vildu sjá styrkingu í hópinn.
Nú þegar Arne hefur viku á milli leikja er ekki mikil þörf á að rúlla hópnum. Frimpong og Bradley eru þó meiddir, þannig að hægri bakvarðarstaðan er smá höfuðverkur. Gomez er líklega næsti kostur því kröftum Szoboszlai er betur varið á miðjunni. Það er mikil gleði að Gravenberch snúi aftur. Væntanlega verður hann í djúpa með Dominik og Wirtz í holunni, Gakpo út á kanti og Ekitike fremstan. Ég spái MacAllister ekki liðið þar sem hann virtist hreinlega ekki tilbúin í tímabilið fyrir viku síðan.
Þannig að liðið verður svona:
Spá.
Þetta endar í einhverri vitleysu. Ég ætla að spá því að sóknarlína Liverpool sundurtæti Newcastle snemma, Liverpool kemst í 2-0 en leikar enda 3-2.
Við höfum átt í basli með líkamlega sterka miðjuna þeirra, miklu basli.
Það mun gera gæfumuninn hvernig miðjunni er stillt upp og hvernig okkar mönnum gengur í þeirri baráttu.