Birmingham á morgun!

Gleymum Chelsea í smá stund, ég veit þeir eru sennilega okkar hötuðustu óvinir þessi misserin og að við eigum tvo risastóra, gríðarlega mikilvæga leiki við þá í næstu viku, en fyrst er annað atriði á dagskrá: við eigum nefnilega harma að hefna og í hádeginu á morgun ætlar Rafa að leiðrétta einn stærsta misskilning síðasta tímabils – að Birmingham séu betra lið en Liverpool.

Sjáið til, í nóvember-byrjun í fyrra mættum við þeim bláu á Anfield í deildinni. Okkar menn áttu leikinn í 90 mínútur, Muzzy Izzet komst upp með að verja með hendi á marklínunni og við hefðum átt að vera löngu búnir að gera út um leikinn … þegar Darren Anderton skoraði óvænt sigurmark. 0-1 tap á heimavelli, þvert gegn gangi leiksins.

Þremur mánuðum síðar, í febrúar, mættum við þeim bláu aftur og nú á þeirra heimavelli, St Andrews. Ég myndi sennilega jafnvel ganga svo langt og segja að frammistaða okkar manna í þeim leik hafi verið sú lakasta undir stjórn Rafa hingað til, og voru úrslitin eftir því: 2-0 fyrir Birmingham.

Sem sagt, Rafa hefur mætt Steve Bruce tvisvar og tapað í bæði skiptin. Markatalan er 0-3, Rafa í óhag.

Á morgun verður þetta leiðrétt – eða í það minnsta gerð andskoti góð tilraun til.

Birmingham hafa spilað sex leiki í Úrvalsdeildinni hingað til. Þeir hafa unnið 1, gert 2 jafntefli og tapað 3 og eru sem stendur í 13. – 18. sætinu með 5 stig, ásamt fimm öðrum liðum. Það sem er þó merkilegast er að þeir eru enn taplausir á útivelli, hafa unnið einn og gert tvö jafntefli, en hafa tapað öllum þremur heimaleikjum sínum til þessa.

Þá tölfræði má lesa á tvo vegu: (1) þeir geta ekkert á heimavelli og við munum vinna þá á morgun – (2) þeir hljóta að ná í stig í næsta heimaleik sínum, eftir þrjá tapleiki í röð!

Okkar menn mæta vígreifir til leiks á morgun. Eftir fjóra leiki erum við í 11. – 12. sætinu ásamt Aston Villa, með sex stig. Þeir hafa þó leikið tveimur leikjum fleiri en við. Við höfum unnið einn leik og gert þrjú jafntefli, eins og lesendur þessarar síðu vita eflaust. Við höfum ekki enn fengið á okkur mark, sem gefur manni sjálfstraust gegn Forssell, Pandiani, Heskey & Co. á morgun, en á móti höfum við aðeins skorað 1 mark í 4 leikjum, sem hlýtur að hressa móralinn hjá varnarmönnum Birmingham.

Ég hef pælt í því í dag hvernig í ósköpunum Rafa muni kjósa að stilla upp liðinu. Á morgun eru 6 dagar síðan við lékum síðast leik og því ætti enginn að vera neitt sérstaklega þreyttur, en á móti kemur að það eru framundan tveir gríðarlega mikilvægir leikir gegn Chelsea og því spurning hvort Rafa ætli að reyna að spara einhverja ákveðna einstaklinga á morgun.

Ég hef eiginlega komist að þeirri niðurstöðu að svo verði ekki. Ég held að Rafa leggi áherslu á að ná fyrsta útisigrinum á morgun, að skora a.m.k. eitt mark og að liðið spili vel – enda er gott gengi í deildinni besta veganestið fyrir stórleik í Evrópu.

Þannig að ég held að Rafa muni aðeins gera eina breytingu á liðinu sem hóf leik gegn Man U sl. sunnudag:

Reina

Finnan – Carragher – Hyypiä – Warnock

García – Gerrard – Alonso – Riise

Cissé – Crouch

Sem sagt, Pongolle tekur sér stöðu á bekknum og Djibril Cissé fær að vera með frá byrjun á morgun. Mér finnst það líklegt, ekki síst í ljósi þess að Fernando Morientes verður líklega heill og þá væntanlega á bekknum á morgun. Mér gæti þó skjátlast, Rafa gæti einfaldlega valið að stilla upp sama lið og sl. sunnudag og tekið Cissé út úr hópnum fyrir Morientes. Hvað veit maður? Kemur bara í ljós…

MÍN SPÁ: Aggi spurði mig í gær hvernig mér litist á þennan leik, og þegar ég pældi í því kom það mér í raun á óvart en ég hef verið frekar áhyggjulaus í vikunni. Það er frekar lítil spenna í mér fyrir þennan leik. Og ég fór að hugsa með mér, af hverju á þessu stæði?

Ég held að ég sé svona áhyggjulaus vegna þess að við erum ekki að fá á okkur mörk. Vörnin og markvarslan hafa verið pottþétt hingað til og miðjan okkar er byggð á sterkum grunni sem heldur bolta vel og verndar vörnina vel. Þótt við höfum augljóslega átt í vandræðum framar á vellinum þá höfum við haft ákveðinn stöðugleika í vörninni – lið einfaldlega skora ekki gegn okkur þessa dagana.

Þannig að ég er nokkuð viss um að við tökum allavega jafnteflið á morgun. Ef maður síðan notar líkindaleikinn þá bara hreinlega trúi ég því ekki að við náum að spila fimmta leikinn í röð án þess að skora mark úr opnum leik (mark Alonso kom úr aukaspyrnu), þannig að miðað við þessa tröllatrú mína á vörninni okkar og væntingar gagnvart markaskorun finnst mér bara déskoti líklegt að við gerum okkur lítið fyrir og vinnum þennan leik!

0-2 útisigur fyrir okkur, Crouch og Cissé skora bæði mörkin í fyrri hálfleik! 🙂

Áfram Liverpool!!!

6 Comments

  1. Ég spái 0-3 fyrir LFC og er skítsama hver hamrar þeim inn. Þetta á að vera skyldusigur þar sem að B´ham vantar nokkra fastamenn sína þ.á.m. Nicky Butt(f*cker) og Jiri Jari-very-sick þannig að þetta Á að vera kennslubókadæmi um 3 stig.

  2. Held að Josemi komi í bakvörðinn, Finnan fari á kantinn. Cisse kemur fram og Golli út. Einnig fer Riise á bekkinn og Zenden kemur inn. 4-4-2.
    🙂 Sjáum hvað setur. Spái 1-2.

  3. Eiki Fr – þetta átti líka að vera ‘skyldusigur’ í fyrra…

    Það er bara ekkert öruggt í þessari deild. Nema hendurnar á Reina. 😉

  4. Þegar þetta er skrifað er staðan 2 – 1 fyrir Birmingham. Veikleikar liðsins ljósir. Engin ógnun frá hægri kanti. Eini alvöru framherji liðsins sem er í lagi sveltur á bekknum. Og síðan settur á hægri kantinn.
    Drullugangurinn í mannakaupum kominn fram eins og ég spáði ásamt fleirum og hlutum átölur fyrir. 😡 😡 😡 😡

  5. Bíð spenntur eftir leikskýrslunni, 2-2 jafntefli á móti Birmingham, það er slakt, en við töpuðum báðum leikjunum á móti þeim í fyrra þannig að maður verður að reyna að sjá eitthvað jákvætt við þetta.

Sissoko meiddur, Morientes kannski heill (uppfært)

B’ham 2 – L’pool 2