Sjónvarpsréttur utan Englands

Þeir ríku verða ríkari…


Helsta fréttin í Englandi núna er hugmynd Ian Ayre fyrir hönd Bandarískra eigenda Liverpool að liðið fái að semja um sjónvarpsútsendingaréttinn frá leikjum sinna liða sjálf. Þá er verið að tala um sjónvarpsréttinn utan Englands en samningur um þann sjónvarpsrétt rennur út á næsta ári og fyrirséð er að næsti samningur verði í fyrsta skipti stærri en samningurinn sem gerður er fyrir sjónvarpsréttinn í Englandi. Það er samið um þetta í sitthvoru lagi og skiptast tekjur af sjónvarpsréttinum erlendis jafnt milli allra liða í deildinni. Eigendur Liverpool eru öfugt við forvera sína sl. áratugi að átta sig betur og betur á hversu stórt vörumerki þeir eru með í höndunum og vilja eðlilega (upp að vissu marki) fullnýta þá möguleika sem félagið hefur og auðvitað gera liðið samkeppnishæft við þau allra stærstu.

Ayre er að horfa á fyrirkomulagið á Spáni þar sem hann sér lið eins og Barcelona og Real Madríd sjá um sína sjónvarpssamninga sjálf og þau græða á tá of fingri meðan lið eins og Manchester og Liverpool, sem ég efast ekkert um að séu engu minna þekkt ef ekki þekktari lið heldur en þau Spænsku á heimsvísu þurfa að deila sjónvarpstekjum jafnt milli 18 annarra liða.

Eða eins og Ayre segir:    

“Is it right that international rights are shared equally between all the clubs?

“At some point we definitely feel there has to be some re-balance on that, because what we are actually doing is disadvantaging ourselves against other big European clubs.

“If Real Madrid or Barcelona or other big European clubs can truly realise their international media value potential, where does that leave Liverpool and Man United? If they just get bigger and generate more, then all the players will start drifting that way, won’t they?

Mjög góður punktur hjá Ayre og flott að sjá okkar menn stefna hátt. Þeir horfa á Barcelona og Real sem keppinauta og vilja fá að keppa við þessi lið á jafnréttisgrundvelli. Ekkert nema eðlilegt að vekja athygli á þessu og kanna þá möguleika sem Liverpool hefur til að afla meiri tekna, það er auðvitað mikið til hans starf og hann er talinn vera mjög góður í sínu starfi.

En hérna hætti ég að láta eins og mér lítist á einhvern hátt vel á þessa hugmynd, satt að segja finnst mér eins og ég hafi verið að lesa pistil eftir ungan sjálfstæðismann frá 2006 og slíkt gerði maður aðeins ef maður var að leita að góðu gríni. Ég vill ekki halda því fram að spænska módelið sé gallað…það er meingallað. Þetta getur ekki annað en stuðlað að því að þau ríku verði ríkari og möguleikar annarra liða en þeirra sem eru á toppnum um þessar mundir eru sama og engar nema til komi moldríkur maður með temmilega mikla athyglissýki og nógu mikinn áhuga á live útgáfunni af Football Manager (með svindlinu). Einokun Barca og Real er mjög óvinsæl á Spáni og þrátt fyrir að þessi lið nái að lokka til sín alla bestu bitana á markaðnum og spili frábæran fótbolta oft á tíðum er deildin á Spáni orðin minna spennandi en sú skoska og ég trúi ekki að forsvarsmenn ensku deilarinnar vilji fara sömu leið. Nógu illa er fjármunum skipt þar í landi nú þegar.

Núna þurfa liðin ekki að skipta tekjum á milli sín á neinn hátt nema sjónvarpstekjum sem koma utan Englands og helmingi sjónvarpstekna innanlands. Sjónvarpstekjum innanlands er skipt þannig að helmingur skiptist jafnt milli allra liða og helmingur eftir fjölda útsendinga og stöðu í deildinni. Þannig fá stóru liðin mun meira í sinn hlut, United fékk t.d. helmingi meira en Blackpool á síðasta ári. Tekjur af sjónvarpsrétti utanlands er skipt jafnt á milli allra liðanna.

Það er ljóst að margir andstæðinga Liverpool muni koma til með að snúa út úr þessari tillögu og saka Liverpool menn um að vera gráðuga eða eins og einn sagði við mig:

Ok, nýju eigendurnir vilja s.s reyna fá easy money því þeir tíma ekki peningum í að koma liðinu á sama stall og Che,City og United. Það hefði verið virkilega gaman að sjá almenn viðbrögð ef fyrri eigendur Liverpool hefðu komið með þessa “tillögu”.

Þetta er ekkert sem Liverpool var einum að detta í hug og eins og staðan er núna er þetta augljóslega ekki að virka ensku liðunum í hag og þau eru að gefa Barca og Real forskot sem þau þyrftu ekki að gefa þeim. Eigendur Liverpool hafa aldrei ætlað sér að fara í keppni við eigendur City eða Chelsea og sjá þetta kannski sem eina af þeim leiðum sem þeir geta farið til að brúa bilið milli félaganna fjárhagslega, þeir ætla sér að láta félagið standa undir sér og láta þann pening sem það aflar renna aftur í starfsemina, það er broslegt að sjá ummæli eins og þau sem ég vitna í enda komin frá Arsenal manni.

Almenn viðbrögð Liverpool manna væru líklega svipuð og þau eru núna, misjöfn eftir því hvern þú spyrð en það kannski sýnir hversu snjallir þessar fyrirmyndir græðginnar voru að þeim datt þetta ekki einu sinni í hug.

Það verður fróðlegt að sjá hvert þessi umræða fer enda stórt mál hér á ferð. Ayre virðist alls ekki njóta stuðnings með þessa tillögu og ekki einu sinni frá Chelsea og United sem bæði hafa gefið frá sér neikvæð fyrstu viðbrögð þó ég vilji sjá eigendur þeirra félaga tjá sig um þetta. Ef ég skil þetta rétt þarf samþykki 2/3 liðanna í deildinni til að samþykkja að breyta fyrirkomulaginu og ég yrði mjög hissa ef það samþykki fengist.

Ég get a.m.k. ekki séð þessa tillögu vera í anda Liverpool FC eða stuðningsmanna liðsins, græðgivæðingin hefur náð alveg nógu langt innan fótboltans og frekar vill maður sjá spánverjana taka upp enska fyrirkomulagið heldur en öfugt. Þetta fyrirkomulag gæti til lengri tíma drepið niður deildirnar eins og við þekkjum þær í dag enda ekkert gaman að fylgjast með deild sem annaðhvort Celtic eða Rangers / Barca eða Real (o.s.frv.) vinnur. Súper deild með svona NBA fyrirkomulagi gæti þessvegna fæðst út frá þessari þróun með stærstu liðum Evrópu og þeim sem eiga nógu ríka eigendur er slíkt væri stofnað.

Endilega deilið ykkar skoðun á þessu, eftir að þið hafið hlustað á podcastið frá því í gærkvöldi.

33 Comments

  1. http://www.guardian.co.uk/football/2011/oct/12/manchester-united-chelsea-liverpool-breakaway 

    Samkv þessu þá munu chel$kí og manure ekki samþ þetta, og það þarf samþ 14 liða í deildinni til að þetta verði að veruleika. En mitt eigið mat á þessu er að liðið skapar næstmesta áhorf á ensku deildina af öllum liðum á eftir manure, og á að fá næstmest af hagnaði deildarinnar fyrir sjónvarpstekjur. Persónulega þá væri ég til í að sjá meirihluta þess sem ég borga fyrir enska boltann renna til Liverpool og myndi klárlega borga nánast hvaða verð sem er til að tryggja mér alla leiki Liverpool , hvað þá ef meirihluti þess penings myndi renna til liðsins. 

  2. Taka upp þyska modelið.  Þar hafa stuðningsmenn mikið að segja um deildina.  

    Enska deildin er minnst spennandi allra deilda, ef litið er a titlasöfnun einstakra liða.   4 lið orðið meistarar siðan PL var stofnuð, 5 lið a sama tima a spani, 5 a Italiu, 5 i Hollandi,  6 i þyskalandi, 8 i Frakklandi. 

    Stigamunur milli liða er mun minni i þyskalandi en annarsstaðar.  Faheyrt er að lið sigri deild 15-20 stigum a undan liðum i 2.-3. sæti.  Þar eru skoruð flest mörk að meðaltali i Evropu.  Peningadreifing, og launaþak hefur þar mikið að segja.  

  3. Sem United maður, hef ég verið mikið á móti svona fyrirkomulagi, þrátt fyrir United myndi líklegast hagnast mest á þessu á Englandi. Aðallega vegna þess hve leiðinlegur spænski boltinn er, two horse race eða stærri útgáfan af skosku deildinni. Kemur mér einnig á óvart að Liverpool séu fyrstir til að fara þessa leið. Held að þetta væri skref niður á við fyrir fótboltann. Maður er greinilega orðinn helvítis jafnaðarmaður. 

  4. Já, þetta er ábyggilega mun flóknara en það hljómar…en maður væri alveg til að kaupa einugnis leiki til þess að horfa á Liverpool en maður getur það með því að kaupa áskrift af lfc.tv, right? Þar getur maður séð alla leiki.
    En ég skil samt conceptið hér í færslunni.

    Forvitnilegt að sjá hvernig þetta fer 🙂

    YNWA – King Kenny we trust! 

  5. Sælir félagar

    Æ – ég veit það ekki.  Peningamál eru einhver leiðinlegustu mál sem ég ræði.  Jú auðvitað eru peningar drifkraftur samfélagsins en um leið eitthvert mesta eyðingarafl þess sama samfélags.  Má þar einfaldlega vísa til hrunsins og þeirrar kreppu sem af því leiddi og ekki er séð út úr ennþá.  Ég treysti því öðrum betur en sjálfum mér í þessum efnum.  Þar með “sting ég höfðinu í steininn” frekar en “kasta grjóti úr steinhúsi”.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  6. Sem Liverpool stuðningsmaður  er ég mjög ósammála þessari hugmynd, en þetta er þó alveg rétt sem hann bendir á með Barca og Real, það er eins og þau séu að veiða lax með sprengiefni þarna á Spáni. Lýst vel á fyrirkomulagið eins og það er, en vildi sjá breytingu á þessu á Spáni svo spænski boltinn verði aftur áhorfanlegur. 

  7. Mín cent í þessa umræðu.  Fyrir það fyrsta þá bara skil ég gjörsamlega ekki what the fuzz is all about.  Ian Ayre segir sína skoðun á skiptingu tekna og hún er mótuð af því að Liverpool án nokkurs vafa sér til þess að svona gríðarlegar fjárhæðir eru greiddar fyrir sjónvarpsréttinn utan Bretlands.  Hann lítur á þetta út frá sjónarhóli Liverpool, enda er hann að stjórna því fyrirtæki.  Höfum það hugfast.

    Þetta er ekki eins og margir hafa viljað túlka það útfrá heimskulegum fyrirsögnum um að Liverpool vilji brjóta sig fá þessu setup-i sem er á deildinni í dag, Ayre hefur einungis sagt að hann telji að LFC eigi að fá stærri bita af kökunni.  En hvað þarf til að breyta þessu?  Það þurfa 14 fokkings lið af 20 að samþykkja það.  Þó svo að Ayre viðri sína skoðun, þá er ekki eins og að það sé eitthvað sem gengur heilt yfir öll önnur lið.  Mér er nokk sama hvort “kvótað” hefur verið í einhverja hjá Chelski og ManYoo, það skal enginn segja mér það að þau lið tækju því ekki opnum örmum að fá að semja um sjónvarpsrétt sinn sjálf og fá þar með meiri aur í kassann.  Mér finnst það hræsni að halda öðru fram.

    Svo er það allt önnur umræða að ræða um hvað sé best fyrir ensku deildina í heild sinni, það er gott debate og alveg þess virði að taka.  En að menn skuli virkilega vera (ekki endilega hérna inni) yfir sig hneykslaðir á Ayre að koma þessari skoðun sinni á framfæri, finnst mér hreinlega heimskulegt.  Sorry to say.

    Þannig að ég segi bara enn og aftur, WHAT THE HELL IS ALL THE FUZZ ABOUT? 

  8. Sammála Steina hér.
     
    Það er ekkert að því að þessi umræða sé í gangi hjá Ayre, því þegar engir eru sykurpabbarnir á bakvið liðin þá er það jú þannig að þeir sem eru vinsælastir þéna mest.  Allavega í öðrum fyrirtækjarekstri.  Við vitum öll að það horfa fleiri á leiki Liverpool en Fulham á Íslandi og það er einfaldlega það sem Ayre er að ræða um.
     
    Hins vegar er það svo samkeppnishæfni deildarinnar – við sjáum hvaða áhrif þetta hefur á spænsku deildina, en um leið sjáum við stöðu Barca í evrópsku samhengi og það er Ayre líka að tala um.
     
    Auðvitað á enginn að spyrja City eða Chelsea um neitt sem tengist eðlilegri fjármálavitund, þeir eru einfaldlega ekki marktækir á þeim leikvelli og svo er dálítið sérstakt að heyra af Unitedmönnum, þar sem í raun er bara verið að tala um vægara G&H eignarhald á félaginu.
     
    Þetta er jú í samhengi við það að Liverpool FC, eitt stærsta vörumerki enska boltans, var við að verða gjaldþrota fyrir um ári síðan eins og Ayre er að tala um og það hlýtur að vera eðlilegt að hann tali um það sem hann telur gera fyrirtæki sitt samkeppnishæfara svo það þurfi ekki að ganga í gegnum sama viðbjóð og við upplifðum í fyrra.  Ættum kannski að taka þráð um kaflana úr bókinni hans Pepe og ummæli Ayre um þá þrautagöngu, en umræðan hlýtur að vera í lagi og ekki til þess fallinn að menn argi upp.  Þegar Roman og Arabarnir hætta að leika sér með sín fyrirtæki munu þau líka hugsa um hvað heldur þeim á floti.
     
    Ég kýs þó ennþá það kerfi að enska deildin sé samkeppnishæf innan sinna marka, en það hljóta allir að sjá straum hágæðaleikmanna til Barca og Real, sem er auðvitað að stórum hluta vegna þess að þangað renna margfaldar upphæðir fyrir sjónvarpsrétt miðað við önnur stórlið í Evrópu.  Enda held ég að Barca – Real verði úrslitaleikur CL í vetur nema þau lendi saman á leiðinni…

  9. Mér finnst þetta alls ekkert galin hugmynd. Auðvitað eiga stærstu liðin að fá stóran hluta af þessu þar sem menn eru að borga þessa peninga til þessa að horfa á þau.

    Varðandi það að þetta verði bara two horse race eins og á spáni. Alltaf tala aðdáendur enskra liða (á Íslandi) um það að Spænska deildin sé svo agalega óspennandi þar sem þessi tvö séu að rústa öllu. Ég sem frekar hlutlaus aðili um ensku deildina sé bara ekki alla kepnina sem er þar. Í hvert einasta skipti síðustu guð má vita hvað mörg ár þá spáir maður Man U titli og svo er bara spurning hvaða lið (eintala) verður í raceinu við þá.

    Svo þegar talað er um hversu mikla yfirburði Barca og Real hafa í evópu útaf þessum peningum. Nú veit ég ekki alveg með allar fjárhæðir en ég er nú ekki viss um að Barca séu að borga svona svaðaleg laun miðað við stærstu klúbbana á Englandi. Veit bara að Cesc þurfti að taka launalækkun til að koma til Barca. Eru Barca búnir að versla svo miklu meira en stóru ensku liðin síðustu ár. Held að yfirburðir þeirra á Spáni hafi svolítið mikið að gera með La Masia. Í ár þá hafa 70% marka þeirra verið skoruð af strákum úr akademíunni.

    Að lokum vil ég bara segja að ég hef ótrúlega gaman að því að sjá lið koma upp með hjálp sykurpabba (City, Chelsea og Malaga) Það veitir risunum smá aðhald. En stóru liðin þurfa alltaf að fá stærstan hluta kökunnar því að í mínu tilviki þá vil ég alltaf sjá leiki á milli Liverpool og United sem toppleiki en ekki baráttuna um 12 sætið. Ég sé nefnilega engan sjarma í Stoke-Bolton í Mars um efsta sætið.

     

  10. Sá eina mögulega hlið á þessu þegar ég skoðaði þráðinn á RAWK varðandi þetta. Hann var að þetta gæti tengst lögsókn H&G og hvernig þeir réttlæti það að söluverðið hafi verið epic swindle !!!
    Þ.e. að H&G réttlæti sína bull upphæð sem þeir töldu sig eiga rétt á út frá því að Liverpool gæti samið um sinn eigin sjónvarpsrétt. Nú Kemur Ian með þessa uppástungu sem mun aldrei verða samþykkt og því sýna fram á að H&G hafi einfaldlega rangt fyrir sér.

  11. Þetta er mjög áhugaverð hugmynd hjá Ian Ayre þar sem en og aftur farið tala um sjónvarpsrétt á ensku deildina fyrir viku síðan birst þess frétt : 
    http://www.guardian.co.uk/media/2011/oct/04/premier-league-tv-coverage?intcmp=239

    þar sem í fréttinni segir  að maður frá íslandi gæti keypt sjónvarpsrétt frá önnur lönd á evrópu:
    Hér er áhugaverð grein um þetta mál sem Tomkins Times birtist :
    http://tomkinstimes.com/2011/09/4th-october-premier-league-broadcasting-d-day/
     
     Hér er um tvær greinar um Hugmynd Ian Ayre : 
    http://www.guardian.co.uk/football/blog/2011/oct/11/liverpool-tv-breakaway
    http://www.guardian.co.uk/football/blog/2011/oct/12/premier-league-foreign-tv-rights

    Mér finnst þetta mjög fyndið ef maður frá bretlandi getur keypt enska boltann annars staðar en skysports hví ætti þá fólk frá evrópu og asíu, annars staðar frá heiminum ekki geta rétt hjá Liverpool FC

    Það verður mjög áhugaverð sjá hvernig viðbrögð FA og Premier League á þessi tvö mál um sjónvarpsrétt á enska boltann. 

  12. Ég er sammála Babu í þessu, finnst þetta ekki vera ‘Liverpool way’ og vil alls ekki sjá bilið milli ‘top x’ og hinna breikka meir í ensku deildinni, og hvað þá verða líkt og á Spáni. Það er sorglegt hvað knattspyrnan er orðin ofurseld peningum, maður heldur ekki orðið með knatspyrnufélagi heldur fyrirtæki. Ef fyrirtækið leitar ekki allra leiða til að auka tekjur og hagnað þá einfaldlega verða þeir undir í baráttunni við hina og það skilar sér beint í gengi á vellinum. Sorglegt en satt og það má endilega reyna að sporna við þessari þróun, í stað þess að ‘viðra skoðanir’ sem þessar líkt og Ayre gerir.
     
    Frá sjónarhóli fjárfestanna skilur maður þetta hinsvegar 100%, klúbburinn er fjárfesting og sjónvarpsréttirnir eru ein stærsta tekjulindin.

  13. Sammála sigga (nr 12)Þessi dómur sem féll um daginn á eftir að gjörbreyta rekstrarumhverfi félaganna allavega þeirra sem stóla á þessar tekjur og eru ekki með þeim mun sterkari eigendur.En persónulega finnst mér nú svolítill sjarmi yfir því að litlu liðin fái jafn mikið og ¨”risarnir”þetta er nú nógu erfitt hjá þeim fyrir

  14. Ég skil mæta vel hvað Ayre er að fara og af hverju hann vill þetta. Er sömuleiðis sammála Steina hér að ofan, þessi æsingur í kringum þetta – mikið voðalega er hann óþarfur eitthvað. Maðurinn kemur fram fyrir hönd félags/fyrirtækis síns og kemur með tillögu að leið fyrir félagið/fyrirtæki sitt (og mögulega 3-5 önnur félög) til að fá auknar tekjur í veltu félagsins. Það er ekkert óeðlilegt við það, hann kom með uppástungu en hann er ekkert að þvinga mann og annan í þetta.

    Sjónvarpsréttir voru stór þáttur í rekstri FSG á Red Sox, öðruvísi situation hérna kannski enda gjörólíkar íþróttir. Því kemur þessi uppástunga af hálfu Liverpool mér ekkert rosalega á óvart. Þarna býðst aukinn peningur fyrir eitt af tveimur langstærstu og vinsælustu félögunum í Englandi. Bæði félög gætu grætt helling á þessari aðferð – og svo auðivtað nokkur önnur líka.

    Fyrir mitt leyti þá er þetta svolítið að Liverpool, ásamt Manchester United, eru að promota deildina hvað mest, eiga mun stærri stuðningsmannahópa út um allan heim en önnur félög deildarinnar og er oftar en ekki ein aðalástæðan fyrir því að menn kaupi sér áskrift af enska boltanum – því finnst mér alls ekkert óeðlilegt ef þau félög myndu vilja fá stærri sneið af kökunni sem þau eyddu lang mestum tíma, vinnu og hráefni í að baka.

    Gallinn er jú sá að þá myndi fjármagn til minni liða deildarinnar minnka og allt það. Það yrði samt líklega aldrei eins slæmt og spænska deildin held ég, einfaldlega því það eru 5-6 stór lið í ensku með stóran aðdáendahóp út um allan heim- á Spáni eru þetta í rauninni bara tvö lið sem fá þetta áhorf og pening fyrir það.

    Allavega það eru að koma þessar Financial Fair Play reglur þar sem félög mega eyða tekjum sínum en ekki umfram þeim, það er því ekkert skrítið ef félög skoða möguleika á að auka tekjur sínar og nota ýmsar aðferðir sem hafa ekki tíðkast áður (Man Utd og stór samningur við DHL við að auglýsa á æfingatreyjum þeirra) eða geta jafnvel talist hálf ósanngjarnar eða óheiðarlegar (Man City og Etihad Stadium). Þetta er “dog eat dog world” svo stundum þarf einhver brögð eða róttækar aðgerðir til að fá mikilvægan aur.

    Ég ætla að gefa Ayre hrós fyrir þá vinnu sem hann hefur unnið fyrir Liverpool hingað til. Hann hefur tekið stórar ákvarðanir, náð fram mögnuðum auglýsingasamningum, komið auknum tekjum í félagið og virðist enn vera að skoða allar mögulegar leiðir til að auka þetta fjármagn enn meira. Menn mega mín vegna rífast yfir “yfirgangi” hans og “löngun til að eyðileggja Úrvalsdeildina”, hann ber hag Liverpool fyrir brjósti og það kann ég vel að meta.

  15. Skulum bara átta okkur á því að þessi knattspyrnufélög í dag eru ekkert annað en fyrirtæki, sama hvað það heitir. Því er eðlilegt að þeir sem reka fyrirtækið leiti allra leiða til að ná sem mestum gróða.

  16. Það hlýtur amk að vera sanngjarnt skref að breyta úthlutun tekna fyrir erlenda réttinn til jafns við reglur sem gilda um innlendan rétt. Þ.e. að árangur hafi eitthvað að segja með upphæð. 

    Annars finnst mér ekkert fráleitt að liðin fái að selja sinn sjónvarpsrétt sjálf. Ef við viljum algjöra jafnaðarstefnu í þessu, væri þá ekki réttast að aðgangseyrinum yrði skipt jafnt líka? (sem náttúrulega ekki nokkrum manni þætti eðlilegt) 

  17. Fyrir mitt leiti finnst mér þetta ekki sniðugt. Jú auðvita á Ian Ayre að reyna hámarka tekjur fyrirtækisins sem Liverpool er og ekkert að því. En ég hef fylgdist mikið með spænska boltanum fyrir svona 3 árum. Í dag er allt brjálað yfir því hvað Barca og Real fá stóran part af kökunni. Vissulega eru flestir að horfa á þau lið en deildin er yfir höfuð leiðinleg og eini leikurinn sem vert er orðið að horfa á er Barca – Real og Real – Barca.
    Ég hef gaman af því að vita til þess að jafnvel þó Liverpool sé að spila við United, Chelsea, Wolves, Stoke, Newcastle og öll lið deildarinnar, þá eru 90% líkur að ég fái spennandi leik. Ef ég horfi á leik með barca eða real þar sem þessi lið keppa ekki við hvort annað, þá er sama spenna í því að fylgjast með hvort Messi eða Ronaldo skori þrennu eða ekki.

    Flott hjá Ian Ayre að reyna hámarka hagnað en sem mikill áhuga maður um fótbolta og ensku deildarinnar segi ég nei við þessari hugmynd.

  18. Mjög eðlilegt að Ian Ayre setji þessa hugmynd upp. Boston Red Sox og New York Yankees reka sjónvarpsstöðvar (NESN og YES) sem græða á tá og fingri á einkarétti á 95% leikja liðs síns. Þessi tvö lið eru þau langríkustu í MLB en hafnaboltinn er þannig íþrótt að ekki er mikill munur milli þeirra verstu og bestu. Besta liðið í vetur vann 102 leiki, tapaði 60 og datt út í fyrstu umferð í úrslitakeppninni. Hins vegar ætti hann einnig að vita að þessu er ekki til að skipta í NBA og NFL.

    NFL er príma dæmi um jöfnuð í landi kapítalismans. Þar semur deildin fyrir hönd liðanna um sjónvarpssamning. CBS og NBC eru með sunnudagsleikina og ESPN eru með mánudagsleikina. Gífurlegar fjárhæðir eru fyrir þessa samninga og renna þeir peningar jafnt til liðanna. Treyjusalan er eins. Þó að flestir myndu kaupa treyjurnar af Tom Brady og Peyton Manning þá fara peningarnir ekki til Patriots eða Colts; þeir skiptast jafnt á milli liðanna. Á leikjunum sjálfum þá skiptast peningarnir 60/40, heimalið/útilið. Hægt er að bæta við “hörðu” launaþaki sem gefur upp ákveðna launatölu sem liðin mega ekki fara yfir, sem og leiðir til þess að hindra að leikmenn flýji Denver og Jacksonville til heillandi borga líkt og New York, Miami eða San Fransisco. Í NBA er farið að bera á þessu og eiga lið eins og Charlotte, Utah og Cleveland í mestu erfiðleikum með að halda sínum stjörnum.

    Þetta er ekki hægt í enska boltanum. Lið falla og komast upp um deildir og frjálst flæði er fyrir leikmenn að fara til annarra landa ef lög og reglur meina þeim bestu að fá þau laun sem þeir telja sig eiga skilið.  Það er varla hægt í dag að byggja lið upp frá grunni með góðu unglingastarfi og skynsömum kaupum. Allir bestu bitarnir eru hrifsaðir til stærstu liðanna og ójöfnuðurinn er alger. Þeir dagar eru liðnir þar sem botnbaráttulið eins og Southampton rassskellir Englandsmeistarana 6-3 eða að lið eins Watford komi upp um deild og árið eftir endi þeir í öðru sæti í deildinni með lítið annað en John Barnes í farteskinu.

    Það þýðir svo sum ekkert að væla yfir þessu. Hins vegar finnst mér fótboltinn í dag orðinn leiðinlegur og farinn að snúast allt of mikið um peninga og sykurpabba. Þá vil ég frekar fylgjast með íþróttagreinum þar sem fleiri en þrjú lið koma til greina sem meistarar.

  19. Alveg sammála honum Wigan gaurnum… Villi ekki sjá þessa reglu á englandi, halda áfram eins og þetta er og deildin heldur áfram að vera sú lang sterkasta og mest spennandi.

    Skil þó alveg hvað  Ian Ayre er að fara, en verðum að líta á heildarmyndina líka.

    YNWA 

  20. @óliprik ertu þá lika sammala honum um að Liverpool FC eyðileggji enska fótboltan ?

    Ef hann segir að Liverpool og þessi top 5 hin lið eyðileggji Enska fótboltan þá er maðurinn nautheimskur, það er liverpool og þessi hin top 5 lið í viðbót sem gerir enska boltan svona skemmtilegan en ekki eitthvað lið sem er með 10,000 áhorfendur á leik sem er það leiðinegasta sem er vitað um. þessi maður talar bara með rassinum sko ekki neinu öðru.  

  21. @Andri Þór: Nei slakur féélagi… Finnst þér líklegt að ég sem mjöög mikill Liverpool aðdáandi myndi finnast það? Er bara sammála því að það ætti ekki að breyta þessari reglu því það minkar þar af leiðandi fjármagn í minni klúbbana, og þá verður deildin ekki eins jöfn og sterk og hún er í dag. Eins og er bennt á Spænsku deildina, þar eru tvö eða í mestalagi þrjú lið að spila.

  22. Það setur að mér óhug þegar ég less þessa frétt og skynja að Ayre sé alvara með þessum hugmyndum. Þetta er gjörsamlega fráleit hugmynd og út úr öllu korti. Nefni sem dæmi að Liverpool fékk 55,2m árið 2010 á meðan að United fékk mest og fékk 60,4m. Þannig að það er eitthvað annað en sjónvarpsréttarpeningar sem útskýra gengi liða.
    Svo les ég frétt um að John Henry hafi hreint ekki haft eina einustu hugmynd um Liverpool þegar hann keypti félagið og þá fer ég að leggja tvo og tvo saman.
    Aldrei hefði mér dottið í hug að þeir væru jafn clueless um enska boltann og raun ber vitni. Þrátt fyrir allt það góða sem gerst hefur síðan Henry tók við eignarhaldinu þá er ég farinn að óttast þekkingarleysi hans og hans manna.
    Sjáum hvað setur.

  23. Ef að við værum með stjórnendur sem leituðu ekki allra leiða til að auka tekjur félagsins þá ætti að skipta þeim út pronto.

    Þetta er hugmynd sem er búið að varpa fram og þarf að ræða án móðursýkiskasta frá eigendum annarra liða og smáliða. Stóra spurningin er hvort að það sé mögulega til eitthvað combo á svona reglu/rétti og annarri reglu eða reglum sem jafna möguleika liða í deild. Held það sé varla til nokkur sem hefur áhuga á að enska deildin endi eins og sú spænska eða hvað þá eins og sú skoska 😉

    En hver man eftir þjálfara liðs í spænsku (fyrir utan Real M og Barca) sem gerði sitt lið að spænskum meistara???

  24. Er samt einhver hérna sem telur að Wigan og Blackburn séu sterkari en lið úr neðri helmingi la liga?

  25. Ætti Liverpool ekki bara að byrja á að einbeita sér að vera samkeppnishæfir við ManU, Chelsea og co áður en við förum að hafa áhyggjur af Barca og Real. 

    Er annars einhver leikur á morugn ?

  26. KOMMMMOOOOON!!!
    Rúmur sólarhringur í leikinn eina og við erum að blaðra um fjárhagsskipan og tekjustrauma klúbba á meginlandi Evrópu.

    Fokkeddí fokk – eru menn að meina þetta?

  27. Nr. 28 leibbins
    Það er upphitun væntanleg í dag, degi fyrir leik eins og hefð hefur verið fyrir lengi.
    Fyrir neðan þessa færslu er rúmlega klukkutíma podcast sem einblínir nánast eingöngu á United leikinn og þar fyrir neðan opinn þráður með léttum skotum á United.
    Yfir hverju ertu að væla?

  28. Hélt það væri augljóst, kannski er maður orðinn of góðu vanur.
    En fyrir mitt leiti, og flestra púllara og Ógeðsjester United manna sem ég þekki, þá eru þessir leikir hápunktarnir á tímabilinu. Það er auðvitað ósanngjarnt af manni að gera þær kröfur á stjórnendur þessarar ágætu síðu að vikuna fyrir þessa leiki sé allt undirlagt af umfjöllun um þá. En þannig er það nú bara samt – með réttu eða röngu.
    Mér finnst reyndar óvenju dauft yfir allri umfjöllun fyrir þennan leik – ekki bara hér heldur allsstaðar. Veit ekki hverju veldur. Eru fleiri með þetta á tilfinningunni?

  29. Hvað eru menn að væla yfir því að spænski boltinn sé bara með tvö lið sem keppa um titilinn frá því að þessi blessaða Úrvalsdeild var stofnuð hafa 4 lið á englandi unnið titilinn United, Chelsea, Arsenal og Blackburn á sama tíma á Spáni hafa 5 lið unnið La Liga. Barcelona, Real, Atletico, Deportivo og Valencia. Síðan 2004 hafa bara tvö lið unnið þessar deildir Ensku deildina Man U og Chelsea, Spænsku Real og Barca. Valencia vann tímablið 2003-2004 líkt og Arsenal gerði í Englandi.
    2004-2005 vann Chelsea með 95 stigum 12 stigum á undan Arsenal, 18 stig í 3.sæti, En Barcelona með 84 stig 4 stigum á undan Real 19 stigum á undan 3. sæti
    2005-2006 vann Chelsea með 91 sitgi 8 stigum á undan United, 9 stig í 3. sæti (Liverpool). Barcelona með 82 stig 12 stigum á undan Real, 13 stig í 3 sæti
    2006-2007 vann United með 89 stig 6 stigum á undan Chelsea, 21 stig í 3. sæti(Liverpool). Real með 76 stig jafn mörg og Barca, 5 stig í 3. sæti
    2007-2008 vann United með 87 stig 2 stigum meira en Chelsea 4 stig í 3. sæti. Real með 85 stig 8 meira en Villarreal 18 stig í 3. sæti.
    2008-2009 vann United með 90 stigum 4 stigum meira en Liverpool. 7 stig í 3 sæti. Barcelona með 87 stig 9 meira en Real, 17 stig í 3 sæti.
    2009-2010 vann Chelsea 86 stig 1 stigi meira en United. 11 stig í 3. sæti. Barcelona með 99 stig 3 stigum meira en Real. 28 stig í 3 sæti.
    2010-2011 vann United 80 stig 9 stigum meira en Chelsea og City sem var í 3. Barcelona með 96 stig 4 stigum meira en Real 25 stig í 3 sæti.
     
    Á þessu sést að yfirburðir Barca og Real hafa ekkert verið minni en United og Chelsea undan farin ár. Yfirburðir Barca hafa verið mjög mikklir undan farin 3 ár og það hefur sennilega minnst að gera með hvað þeir fá mikinn pening fyrir sjónvarpsáhorf.
    Þetta er alveg áhugaverð hugmynd og ég get bara ekki séð að þetta skemmi þennan enskabolta eitthvað meira en hann hefur þegar verið skemmdur. Það eru hins vegar engar líkur á því að þetta nái í gegn. En ég get bara ekki skilið afhverju menn eru eitthvað að drulla yfir Spænska boltan til að sýna fram á hvað þetta er léleg hugmynd því fyrir utan síðustu 3 ár þá hefur hann síst verið minna spennandi en sá enski. Og oftast hefur La Liga verið unnið með færri stigum en sú enska sem segir mannir að toppliðin eru að tapa fleiri leikjum þar en á Englandi.

  30. Ég held að vangaveltur Ayre séu ekki beint hugsaðar til þess að LFC væri raunverulega að brjóta sig frá heildarsamninginum um sjónvarpsréttinn. Ekki strax í það minnsta. Hins vegar er hann að kasta fram hugmyndinni um að þau lið sem raunverulega skaffi peninginn í PL njóti þess meira. Sjónvarpsdíllinn innan Englands endurspeglar þessa skiptingu þar sem liðið sem mest er horft á fær hæstu upphæðina. Er það skelfilega ósanngjarnt? Erlendi díllinn rennur út í lok næsta tímabils og mann grunar helst að Ayre sé með þessu að varpa fram þeirri skiptingu sem framtíðarfyrirkomulagi eða þá LFC fái sjálfir lausari hendur til að afla sér margmiðlunartekna.

    Kannski bjóst Ayre við meiri stuðningi hinna toppklúbbanna en hann veit líka sem er að þau eru ekki í sömu stöðu og LFC sem væri ásamt Manchester United líklegast til að græða mest á breyttri skiptingu útaf vinsældum. Chelskí og Man City hafa sína sykurfeður sem borga afskriftirnar þar til FFP kikkar inn og peningaprentvélin hjá ManYoo er það öflug að þá munar ekki um þetta strax, sérstaklega ef erkifjandi þeirra myndi stórgræða á því. En þögn Arsenal og Tottenham er augljóst merki um að þeir hugsi líkt og LFC enda er þeirra rekstur sjálfbær og metnaðarfullur.

    Hin augljósu mótrök eru að enginn vill að PL endi eins og La Liga eða skoska deildin. En er það eitthvað svo líklegt? Í Skotlandi eru bæði stórliðin í langstærstu borginni, Glasgow. Flestir áhorfendur, stærsti markaðurinn. Þar hafa Glasgow-liðin unnið samanlagt 96 af 115 titlum í sögu deildarinnar. Sama má segja á Spáni þar sem tvær langstærstu borgirnar eru Madrid og Barcelona og þrjú lið þaðan hafa unnið 61 af 80 titlum í sögu deildarinnar. Þessi staða er ekkert sérlega ný af nálinni og hefur verið löngu áður en sjónvarpstekjurnar fóru að flæða inn, jafnvel þó að stöku önnur lið vinni staka titla inn á milli. Hins vegar ýkja peningarnir bilið milli ríkra og fátækra, en spænsku liðin eru samt heimsþekkt fyrir skelfilegan rekstur og að eyða um efni fram.

    Það eru meiri líkindi milli Englands, Þýskalands og Ítalíu hvað fleiri stærri borgir varðar og þar með dreifðari fótboltahagsæld, þó að alltaf sé það bundið við stærstu borgirnar eins og eðlilegt er. England og Þýskaland hafa verið hvað líkust síðustu áratugi með ManYoo og Bayern Munchen í sérflokki og þau lið vinna annan hvern titil meðan 4-5 lið hafa geta veitt þeim keppni til skiptis. Ef fleiri topplið á Englandi fengju hærri tekjur gæti það lífgað toppbaráttuna við, sérstaklega þegar/ef Sir Alex hættir einhvern tímann. Lið eins og Tottenham sem er áhugavert áhorfs gæti fengið auknar tekjur og jafnvel líka mest spennandi millistærðar liðin með stóran fanbase innan Englands og sögulega stemmningu, lið eins og Newcastle, Everton, Aston Villa, Stoke o.fl.

    Hins vegar er afar líklegt að þetta myndi bitna á smæstu fiskunum eins og Wigan, Blackburn og Bolton. Væri þá LFC að ræna frá þeim fátækustu og gefa þeim ríkustu? Já, má vel vera en íþróttir í Evrópu hafa aldrei verið sérlega mikið fyrir jafnaðmennsku þó að það sé ágætt markmið í samfélaginu sjálfu. Það er það sem gerir þær meira spennandi, einhver fellur meðan annar fagnar. Eins og ABBA söng: The winner takes it all, the loser standing small. Mér finnst að vissu leyti að breyting á skiptingunni gæti orðið til nettrar ormahreinsunar sem myndi bara hressa deildina við. Nú skal það tekið fram að ég ber mikla virðingu fyrir underdogs sem tekst að hífa sig upp við brjálaðan fögnuð heimafólks í smábæjunum. Gott dæmi um þetta er Burnley og Blackpool sem voru óskoraðir yndisaukar í deildinni. 

    En sum þessara liða eru bara afætur og gera lítið sem ekkert fyrir hinn almenna áhanganda sem vill ALDREI horfa á þessi lið nema það sé að mæta einhverju af toppliðunum. Hæst hefur eigandi og stjóri mestu afætunnar af þeim öllum: Wigan. Dave Whelan tókst með sínum einkasjóðum að koma þeim upp um deild fyrir 5 árum eða svo. Þetta er lið sem kemur frá rugby-bæ og í fyrra var áhorfendafjöldinn um 18 þús. að meðaltali á 25 þús.manna heimavöll sem þeir deila með rugby-liðinu (og hefur hærri mætingu). Fólkið í bænum hefur ekki einu sinni áhuga á að drattast á leikina og völlurinn oft hálftómur, nema þegar toppliðin mæta. Til skammar! Þeir hafa litla sögu, enga stemmningu eða áhangendur að ráði. Hafa engan derby-leik og öllum í raun sama um Wigan. Eina ástæðan fyrir því að þeir hanga uppi er sú að þeir fá háa upphæð árlega úr sameiginlegum sjóð sem í raun er skapaður af heimsvinsældum toppliðanna. Bolton og Blackburn eru ekki jafn slæm en þau eru samt oft með slakan stuðning og koma frá algerum skítapleisum (trúið mér, ég hef farið á báða staði).

    Í raun er ósanngjarnt að sveitaómögum eins og Wigan er haldið uppi á kostnað annarra meðan áhugaverðari, sögulegri og betur studd lið í neðri deildunum berast í bökkum með komast upp á sínu Championship-budgeti. Lið eins og Leeds, Southampton, West Ham, Derby, Nott. Forrest ofl. Þetta eru lið sem eiga meira heima í PL og myndu gefa eitthvað af sér umfram það að bara hanga uppi ár eftir ár. Ég er sannfærður um að þessi lið fengju alveg sæmilega kökusneið af áhorfskökunni ef þau færu upp og því væri deildin betur sett ef stokkað upp væri upp í skiptingunni. Kakan gæti jafnvel stækkað 🙂

    Löng vangavelta, þakka þeim sem hlýddu

  31. EF LFC naer thessu i gegn (sem gerist aldrei!) er ljost ad buid er ad fokka upp EPL systeminu sem tok morg ar ad setja a fot med godum arangri. Mer finnst eiginlega ut ur kortinu ad  Ayre hafi i raun vidrad thetta svona beint ut i stadinn fyrir ad halda thessu innanbuda. Graedgin tekur a sig nyja mynd og er eg sattur vid ad sja deildina eins og hun er i dag med jafnar tekjur a milli allra, enda engir sma aurar sem lid fa fyrir ad spila i EPL.

    Stoke City er t.d. gott daemi um hvernig thetta system hefur gert litid lid ad rotgronu og sterku urvalsdeildarlidi. Their hafa “Uppfaert” sig a naesta stig baedi hvad adstodu vardar sem og leikmenn (sbr. sl. leikmannaglugga er their keyptu allt sem var til solu nanast). Ut af bordinu med tessa graedgi, Ayre!

Kop.is Podcast #7

Man.Utd á morgun