Allez Allez!

Í júlí 1998 varð Gérard Houllier stjóri Liverpool FC. Sex árum síðar, þann 24. maí 2004, hefur Houllier yfirgefið Anfield í síðasta sinn sem stjóri. Þetta eru að sjálfsögðu risavaxnar fréttir fyrir alla aðdáendur Liverpool FC – en þó er varla hægt að segja að þetta hafi verið óvænt…

Eftir að hafa byrjað vel í sinni stjórnartíð var Gérard Houllier nánast kominn í dýrðlingatölu á Anfield eftir að hafa unnið þrennuna vorið 2001. Haustið sama ár hófst ný leiktíð svo með tveimur titlum til viðbótar og svo virtist sem lið Houllier væri gjörsamlega óstöðvandi. En þá reið áfallið yfir – í nóvembermánuði í leik á Anfield gegn Leeds Utd fékk Houllier hjartaáfall og var í lífshættu. Þurfti fjórfalda hjáveituaðgerð til að bjarga lífi hans og tók það hann rúmlega hálft ár að jafna sig. Hann sneri aftur gegn Roma í Meistaradeildinni á Anfield í ógleymanlegum leik og endaði liðið það vor í öðru sæti í deildinni. Síðan þá hefur hins vegar meira og minna allt gengið á afturfótunum fyrir Houllier og nú, aðeins tveimur árum síðar, er hann orðinn atvinnulaus.

Vissulega var kominn tími á að hann hætti – en þó er ekki laust við að ég finni til mikils trega. Liverpool-aðdáendur um heim allan bera mikla virðingu fyrir manninum sem bókstaflega dró Liverpool-liðið með sér inn í nýja öld knattspyrnunnar og án hins mikla starfs sem hann hefur unnið fyrir klúbbinn utan vallar væri Rauði Herinn aðeins hálfdrættingur á við það massífa félag sem það er í dag. Svo mikið er víst og verður nafn Houllier héðan í frá ætíð endurómað í takt við frábært starfsumhverfi leikmanna, þjálfara og annarra starfsmanna hjá Liverpool FC. Honum verður seint nóg þakkað fyrir það.

Innan vallar var árangurinn ekki mikið síðri. Sex titlar á sex árum segja sína sögu og skilur Houllier eftir sig margar frábærar minningar sem stjóri. Nokkrar af þeim helstu eru, að mínu mati, sem hér segir:

Þrennan – vorið 2001. Það var ólýsanlega gaman að vera aðdáandi Liverpool á þessum maímánuði. Eftir mikla titlaþurrð undanfarin ár (aðeins tveir á 11 árum) var liðið skyndilega komið í úrslit í FA-bikarnum, þar sem sigur vannst á frækinn hátt gegn Arsenal, í Deildarbikarnum þar sem Birmingham voru lagðir í vítaspyrnukeppni og síðast en ekki síst í UEFA Cup, þar sem spænska liðið Alavés var lagt með gullmarki, 5:4 í – þori ég að fullyrða – besta úrslitaleik í Evrópukeppni fyrr og síðar. Þetta vor var mikið fagnað!

Endurkoman – vorið 2002. Eftir hálfs-árs fjarveru kom Houllier öllum á óvart með því að leiða lið sitt út á völlinn í leiknum gegn AS Roma frá Ítalíu – leik sem varð að vinnast ef Liverpool ætluðu sér áfram í keppninni. Hann gekk út á völlinn, náfölur og veiklegur að sjá, og allt varð vitlaust! Áhorfendurnir trylltust og þegar hann gekk til sætis síns varð fyrir honum Fabio Capello, sá goðsagnakenndi ítalski þjálfari Rómverja. Capello gerði sér lítið fyrir og faðmaði Frakkann snjalla, sem komst greinilega við, og hvíslaði hvatningarorð að honum. Við pabbi sátum heima alveg agndofa yfir þessu og það liggur við að maður tárist þegar maður hugsar um þetta til baka … svo frábært var þetta kvöld. Nú, leikmennirnir svöruðu múgæsingi áhorfenda og krafti þeim sem fylgdi Houllier … og unnu Rómverja þetta kvöldið. Emile Heskey, sem nú er einnig horfinn á braut, spilaði hér sinn besta leik í treyju Liverpool og var frammistaða liðsins fullkomin!

Og síðast en ekki síst … Deildarbikarinn 2003, eftir frábæran (og mjög svo verðskuldaðan) sigur á erkifjendunum í ManU!!! Þessi leikur var yndislegur, frábær, og það var ómetanlegt að geta montað sig og reygt frammi fyrir öllum þeim sem ég þekki sem styðja þetta viðbjóðslið úr Manchester-borg. Æðislegt.

Þannig að nú þegar stjórnartíð Houllier er á enda runnin get ég með stolti sagt: takk fyrir allt Gérard! Þú munt seint gleymast meðal okkar hörðustu stuðningsamanna Liverpool FC.

Au revoir Houllier

Mourinho