Fulham á morgun!

Myndin hér að ofan var tekin við leikslok í febrúar sl., á Anfield, þegar við unnum Fulham 3-1 í skemmtilegum leik. Ég tók þessa mynd, enda var ég sjálfur á leiknum, sælla minninga.

Á morgun mætum við Fulham á útivelli í leik sem ég held að sé óhætt að segja að við verðum að vinna. Við höfum til þessa leikið þrjá útileiki á tímabilinu og gert jafntefli í þeim öllum, og á meðan það er ljóst að jafntefli á útivelli er betra en öll töpin í fyrra þá er alveg jafn ljóst að við verðum að fara að vinna þessa útileiki gegn lakari liðum ef við ætlum okkur í toppbaráttuna í deildinni!

Með öðrum orðum, á morgun mætum við Fulham-liði sem hafa átt í bölvuðu basli í haust, misstu tvo af þremur bestu leikmönnum sínum í sumar (Van der Sar og Andy Cole, sá þriðji er Boa Morte) og eru ekki með mikið sjálfstraust þessa dagana. Við, hins vegar, ættum að vera nokkuð hátt uppi eftir gott gengi í Evrópu undanfarið, nærri því meiðslalausan hóp og ágætan sigur í síðasta deildarleik.

Talandi um meiðsli: Steven Gerrard og Harry Kewell koma væntanlega inn í hópinn á morgun; ég geri ráð fyrir að fyrirliðinn komi beint inn í liðið á ný og Kewell þá væntanlega á bekkinn. Spurningin er síðan hver muni víkja frá því á miðvikudag, fyrir Stevie G?

Ég spái því allavega að Rafa muni stilla þessu svona upp:

Reina

Josemi – Carragher – Hyypiä – Warnock

García – Sissoko – Hamann – Zenden
Gerrard
Cissé

BEKKUR: Carson, Alonso og svo efast ég um að nokkur viti hvaða þrjá útileikmenn Rafa velur með þeim á bekkinn.

Finnan er meiddur og því verður Josemi áfram inni, Rafa virðist rótera Traoré og Warnock nokkuð iðulega, sem og Riise og Zenden, og þá ætti innkoma Gerrard að þýða að García færi sig á hægri vænginn (enda sá eini í dag sem getur spilað þá stöðu). Markaskorarinn okkar, Cissé, heldur stöðu sinni frammi og ég spái því að Alonso verði hvíldur á morgun. Rafa hefur allavega hvílt hann oftar en flesta aðra leikmenn liðsins sl. ár, og því kæmi það mér ekkert á óvart þótt hann verði hvíldur á morgun. Ef hann hins vegar verður inni er það væntanlega á kostnað Didi Hamann.

Auðvitað veit ég samt ekkert um þetta – eins og Einar sagði hér um daginn þá er það ekki beint auðveldasta starf í heimi, að giska á byrjunarlið hjá Rafael Benítez. 😉 En það má alltaf reyna.

MÍN SKOÐUN: Útisigur. Mér finnst eins og liðið hafi sýnt ákveðna festu yfir heildina í leikjum í vetur, og fyrir utan Chelsea-tapið höfum við ekki verið að fá mörg mörk á okkur og haft stjórn á flestöllum leikjum. Vonandi erum við nú, eftir tvo sigra í röð, að komast á smá sigurgöngu. Þannig að ég ætla bara að halda mig við spána frá því á miðvikudag: 2-0 fyrir Liverpool og Djibril Cissé heldur áfram að skora! 😉

3 Comments

  1. Já, andskotinn hafi það, við hljótum að vinna þetta á útivelli. Annað er ekki hægt!

    3-0. Cisse, Gerrard og svo Crouch.

  2. Það er alveg ljóst að þessi leikur fer 1-3. Gerrard, Cissé og Kewell koma Liverpool í 0-3 en Helguson skorar sárabótarmark í lokin.

  3. Ég er bjartsýnn á framhaldið hjá Liverpool, tek undir það með ýmsum en hef samt áhyggjur af markaleysi.

    Ég geri hreinlega kröfu um sigur á móti Fulham! Ekkert annað kemur til greina. Ef við ætlum að hala inn stigum til að vera teknir seriously í toppbaráttunni og meistaradeildarsæti þá verðum við að vinna leiki sem þessa. Ekkert “jafntefli er betra en tap”-attitude. Bara sigur.

    Við unnum þá 2-4 í fyrra – miðað við mannskap beggja liða þá er ekki ósanngjarnt að tala um alla vega jafnstóran sigur – helst stærri.

    Ég sé ekki nógu góðan stöðugleika enn hjá okkur… við verðum að fara að spila tvo góða hálfleiki í leikjum. Það væri gaman að sjá það á móti Fulham!

Finnan meiddur

Kewell byrjar!!!