Arsenal á morgun

Einn úrslitaleikur að baki, annar “úrslitaleikur” framundan í hádeginu á morgun. Já, kannski skrítið að tala um úrslitaleik í deildinni í byrjun mars, en engu að síður þá lít ég þannig á málin. Við hreinlega VERÐUM að sigra Arsenal á Anfield á morgun, flóknara er þetta nú ekki. Ef við horfum blákalt á stöðuna eins og hún er í dag, þá erum við 7 stigum á eftir Arsenal og Chelsea sem sitja í 4 og 5 sæti deildarinnar. Við eigum einn leik til góða á þessi lið (Everton á Anfield) og ef við krossleggjum fingur og vonumst til að sigra þann leik, þá eru það 4 stig sem skilja liðin að (auðvitað er enginn leikur unninn fyrirfram, en maður verður að gefa sér ákveðnar forsendur fyrir útreikningum). Vinni Arsenal á morgun, þá er munurinn kominn í heil 10 stig og við gætum náð því niður í 7. Með sigri okkar manna, þá minnkum við forskotið niður í 4 stig og svo hugsanlega í 1 stig. Það liggur því algjörlega í sólgleraugum uppi að við verðum að vinna þennan leik.

Það er hreint út sagt magnað að með sigri þá gæti Arsenal farið að blanda sér í baráttuna um 3 sætið eftir allt það sem á undan er gengið. Með þeirra sigri á morgun og tapi Spurs gegn ManYoo, þá gæti munurinn þar í milli orðið aðeins 4 stig, eitthvað sem var nánast óhugsandi fyrir örstuttu síðan. En þetta sýnir manni svart á hvítu hvað hlutirnir geta breyst fljótt í boltanum. Að sama skapi geta úrslit helgarinnar nánast sett Arsenal úr þeim slag. Þannig að það er ekki eins og að það sé bara mikið undir hjá okkar mönnum á morgun, það nákvæmlega sama má segja um Arsenal.

Þeir hafa nú sigrað í þremur leikjum í röð í deildinni, en höfðu ekki unnið í fjórum í röð þar á undan, á móti kemur að okkar menn hafa aldrei komist á neitt “rönn” í deildinni. Við höfum aldrei náð að sigra nema 2 leiki í röð. Aðal munurinn á liðunum hefur verið sá að við erum að gera allt of mörg jafntefli, heil 9 á móti 4 hjá Nöllurum. Svo þegar horft er á skoruð mörk, þá er munurinn sláandi og segir okkur allt um vandræði okkar fyrir framan mark andstæðinganna. 53 skoruð hjá þeim á móti heilum 29 hjá okkar mönnum. Það er einfaldlega ekki nógu gott og skori menn ekki mörk, þá vinna menn síður leiki. Við höfum reyndar fengið 14 mörkum færra á okkur en þeir, en það ætti ekki að koma neinum á óvart þar sem við erum með eina albestu vörnina í deildinni. En það breytir því einfaldlega ekki að ef menn ætla að vinna leiki, þá þarf að skora mörk, fleiri mörk en andstæðingurinn.

Það eru nú heldur engin kjarneðlisvísindi að það er fyrst og fremst einn maður sem hefur dregið Arsenal vagninn, Robin Van Persie hefur skorað 23 af þessum 53 mörkum þeirra. Næst markahæstur hjá þeim er Walcott með 5 mörk. Ég er nú reyndar á því að Arsenal liðið hefur ekki verið svona illa skipað í mjög mörg ár. Þeir eru ekki margir í þeirra liði sem maður væri til í að skipta inn fyrir byrjunarliðsmann hjá Liverpool ef sterkustu liðin eru tekin. Van Persie að sjálfsögðu, en svo væri það spurning um Arteta vs. Adam. NB. þá er ég að tala um sterkustu 11 hjá hvoru liði. En einstaklingar vinna ekki leiki einir og sér, þetta snýst allt um liðið í heild sinni og taflan lýgur akkúrat engu, Arsenal hafa náð í fleiri stig en Liverpool og því hljóta þeir að vera gera einhverja hluti talsvert betur en okkar menn. Það er þó mín skoðun að Liverpool eigi mun meira inni en þeir, þ.e. að spila nærri full potential.

Samkvæmt meiðslalistanum á Physioroom (hversu marktækur sem hann er nú) þá eiga Arsenal að vera með 11 manns í meiðslum. Þar eru efstir á blaði þeir Vermaelen, Van Persie og Rosicky, en þeir eiga víst allir að vera klárir á morgun. Ramsey er sasgður vera úti og það sama má segja um Squillaci (styrkir þá), Coquelin (hver er það?), Mertesacker, Frimpong (er hann ekki í útláni?), Santos, Diaby og svo Wilshere. Ef þessir þrír fyrst nefndu eru heilir á morgun, þá má segja að þeir séu með nánast sitt sterkasta lið (Wilshere ekki tekinn með frekar en við reiknum ekki meira með Lucas). Þannig að þessi tala 11 meiddir er svolítið vafasöm svo ekki sé nú meira sagt. En ég tek reyndar passlega mikið mark á þessum blessaða lista. Hjá okkar mönnum þá er það að frétta að Agger er frá vegna meiðsla og eins og kom fram hér að ofan, þá tekur því varla lengur að tala um Lucas í sambandi við meiðsli þar sem hann spilar ekki meira á tímabilinu. Gerrard og Johnson voru báðir meiddir í vikunni og eru taldir mjög tæpir á að geta spilað, geng svo langt að segja að það sé nánast útilokað að Stevie spili þennan leik. En samkvæmt þessari vefsíðu þá eiga þeir báðir að vera klárir á morgun. Kemur í ljós.

Mikið ferlega vonast ég til þess að okkar menn mæti nú til leiks með blóðbragð í munni eftir að hafa unnið fyrsta bikarinn í tæp 6 ár, síðastliðinn sunnudag. Það hlýtur bara hreinlega að virka sem vítamínsprauta á menn. Inn með bikarinn fyrir leik, sýnum stuðningsmönnum hann, gerum allt vitlaust á Anfield og leyfum Arsenal mönnum að sjá hvernig slíkt lítur út. Það er bara algjörlega ljóst að menn verða að byrja þennan leik á tánum og enda hann á tánum, ekkert annað dugir ætli menn sér sigur á morgun. Arsenal er lið sem er ekki að fara að parkera rútunni inni í sínum teig og því ættum við að geta búist við fínum leik. Við þurfum að pressa þá hátt á vellinum, koma í veg fyrir að þeir nái að nýta hraða sinn, en einmitt það er ég hvað hræddastur við. Mér hefur fundist Enrique ekki vera með sjálfum sér að undanförnu og hef því áhyggur af viðureign hans við Walcott. Persónulega finnst mér sá drengur ekki vera neitt gríðarlega góður fótboltamaður, en hann er með fáránlega mikinn hraða og hefur einu sinni áður slátrað José (þegar hann var hjá Newcastle). Við eigum alveg að geta unnið miðjustríðið hjá þeim, þó Arteta sé mjög lunkinn leikmaður, og svo verða menn bara að líma sig á Van Persie, hann verður einfaldlega að stoppa.

Ég veit hreinlega ekki hvernig á að stilla þessu liði upp. Hefði viljað sjá Carroll uppi á topp, þar sem miðverðir Arsenal hafa ekki mikla hæð og hefði ég viljað herja svolítið á þann þátt. Suárez á svo alltaf að byrja og ég held að þeir Downing og Kuyt komi til með að byrja líka. Kerfið verði því nokkurs konar 4-4-1-1 með Suárez í frjálsri rullu fyrir aftan Carroll. Bellamy spilaði 75 mínútur með Wales í vikunni og því held ég að hann byrji á bekknum. Vörnin velur sig nánast sjálf, held að King Kenny taki ekki sénsinn á Coates í þessum leik og spili því Carra í stað Agger. Ef Johnson er heill, þá spilar hann að sjálfsögðu, en annars verður það Kelly. Stóra spurningin er svo í mínum huga hvort Kenny takinn sénsinn á Gerrard, eigi hann einhvern möguleika á að spila. Leikurinn er gríðarlega mikilvægur, þannig að ég myndi alveg skilja þá ákvörðun (jafn skiljanleg og hún var óskiljanleg ákvörðunin hjá Pearce að láta hann byrja á miðvikudaginn).

Ég er voðalega hræddur um að Spearing verði látinn byrja inná, en ég fer ekki ofan af þeirri skoðun minni að hann er númeri of lítill í svona leiki (þá er ég ekki að vísa í hæðina á honum). Helst vildi ég sjá þá Henderson og Adam saman inni á miðjunni (ef Gerrard spilar ekki) og þá Kuyt og Downing á sitthvorum kantinum. Luis þar fyrir framan og Andy fremstur. Ég ætla reyndar bara að henda inn liðinu miðað við að þessir tveir séu heilir, þar sem ég reikna með því sama Arsenal megin:

Reina

Johnson – Carragher – Skrtel – Enrique

Gerrard – Adam
Kuyt – Suárez – Downing
Carroll

Bekkurinn: Doni, Kelly, Coates, Spearing, Maxi, Shelvey og Bellamy

En mikið lifandis skelfing þurfum við á sigri að halda á morgun. Ég vil sjá menn alveg dýrvitlausa frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Arsenal eru “there for taking” og við eigum að nýta okkur það. Við unnum í fyrsta skipti á The Emirates í haust og nú er bara að “do the double” sem er ekki algengt þegar Arsenal á í hlut. Stoppum Van Persie, stoppum Arsenal og stingum okkur á kaf í baráttuna um Meistaradeildarsætið.

GAME ON…

36 Comments

  1. Flott upphitun, takk fyrir.

    Ég upplifi þennan leik einmitt líka sem nokkurnskonar úrslitaleik fyrir okkur, við hreinlega verðum að vinna þennan leik ef við ætlum að eiga séns í C.L. sæti í vor.

    Ég horfði á leik Arsenal gegn Tottenham um síðustu helgi, og miðað við hvernig þeir fóru með Tottenham þá get ég ekki verið alltof bjartsýnn.
    Það er hinnsvegar alveg ljóst að Arsenal er brothætt lið og ef okkar menn lifna aðeins við fyrir framan markið þá eigum við góðan séns.

    Spái 1-0 : )

  2. Ég bara get ekki verið jákvæður á þennan leik.. Vonum það bezta

  3. Glæsileg upphitun.

    Maður er drullu smeykur fyrir þennan leik. Alveg hrikalegt ef það vantar 4 lykilmenn í þennan leik (Agger, Gerrard, G.J. og Lucas). Er sammála um að nota Carroll til að djöflast í varnarmönnum Arsenal og skapa usla. Ef Gerrard er með þá vil ég sjá hann sem fremsta miðjumann og með Spearo og Hendo fyrir aftan. Adam kallinn er í mesta lagi varamaður í þessu liði. Bellamy og Kuyt trúi ég að byrji á bekknum. Kuyt spilaði 90 min. á móti Englandi og gæti vantað upp á ferskleikann hjá honum. Suarez, Downing og Carroll eru líklegastir til að byrja sem fremstu þrír. Þetta verður hörkuleikur og mjög mikilvægur. Það er bara plús að leikurinn sé mikilvægur fyrir LFC því þá spila þeir manna best. KOMA SVO!!!

  4. þessi uppstilling hefur sýnt það í nokkur skipti að hún getur ekki skorað, en svosem fátt annað í stöðunni

  5. Frimpong var í útláni en fór heim þegar hann meiddist um daginn…

    Er með hnút í maganum f þennan leik, … Vona hann leysist hægt og rólega eftir því sem líður á leikinnog okkar menn sigli þessu hægt en örugglega í land, … Veit ekki með ykkur, en mér finnst að þegar þeir byrji með miklum látum og skori mark hratt og etv annað í fyrri hálfleik eigi þeir til að láta eins og þetta sé komið og renna harkalega á afturendann …

    YNWA

  6. Flott upphitun!
    Sammála því að þetta sé úrslitaleikur varðandi CL sæti, en ef það á að hafast mega Kenny og félagar ekki við því að missa mikið meira en 4-6 stig það sem eftir er af leiktíðinni, svo það má segja að allir leikir sem eftir eru séu úrslitaleikir… :/

    Öll viðskipti í sumar velta á þessu 4. sæti, svo nú þarf bara að hrökkva í gírinn og byrjað skora á fullu!
    YNWA

  7. Ég hef talsverða trú á því að bæði Glen og Stevie G. muni byrja þennan leik. Ég held einfaldlega að leikurinn sé of mikilvægur til að menn láti „smávægileg“ meiðsl stoppa sig. Ég hef jafnframt talsverða trú á því að KK byrji með þrjá menn á miðri miðjunni, Stevi G og Adam verða þar pottþétt og svo læðist að mér sá grunur að Henderson vilji bæta upp fyrir deildarbikarleikinn og frammistöðu sína þar og fá sæti í byrjunarliðinu (hins vegar kæmi mér það ekkert á óvart ef Spearing yrði látinn hlaupa úr sér lungun í sextíu til sjötíu mínútur). Miðjan hjá Arsenal hefur ekki verið traustvekjandi í vetur og í ljósi þess að Ramsey verður ekki með v/meiðsla þá liggur þetta í augum uppi, að mínu mati, miðjan er veiki bletturinn og á hann verður að hamra.
    Suarez verður því einn frammi með þá Kuyt og Downing sér við hlið. Bellamy og Carroll geta síðan breytt leiksskipulaginu ef illa gengur. Ég hef alla trú á því að Liverpool muni verða með yfirhöndina í leiknum, meira með boltann og Arsenal reyni að beita skyndisóknum, eins og þeir hafa gert á þessu tímabili með misjöfnum árangri. Útkoman veltur eiginlega öll á hversu vel Walcott spilar og hvernig þeim gengur að finna Van Persie í fæturnar. Ef að Persie verður í góðum takti við leikinn getur þetta orðið ansi erfitt en ef miðvörðunum tekst að stoppa hann af þá á LFC að geta tekið þennan leik ef þeir nýta færin.

  8. Sælir félagar

    Takk fyrir góða upphitun og ég er eins fleiri skíthræddur við þennan leik. Aðallega er það hraði Arse sem ég hræðist og svo Van Persie. Ef tekst að gelda hann og pressa þá hátt uppi er þó góður séns.

    Ég er einn af þeim sem ekki eru mjög hrifnir af Enrique. Ekki það að hann er líklega skársti vinstri bak sem við höfum haft lengi en það segir meira um menn í þeirri stöðu en margt annað. Ég er þó hrifnari ag Glen Johnson þar og vil hann þeim megin í þessum leik og svo Kelly á hægri. Að öðru leyti veit ég ekki annað en áætlun SSteins ætti að standa ef meiðsli trufla ekki.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  9. Þetta verður alvöru á morgum,ég er drullu smeikur fyrir þennan leik,þó að Arsenal sé lýkt og við búinn að vera í basli þá hefur þeim gengið betur en við í síðustu leikjum,eftir afleita byrjun hjá þeim á tímabilinu þá hafa þeir verið að styrkjast og styrkjast með hverjum leik meðan við erum búnir að vera alveg frá byrjum jó jó,,,,, þetta var flott upphitun en ég er nú ekki sammála SSteinn, ég vildi skipta við Arsenal á fleirri en 2 leikmönnum, þó að ég sé heitur Púlari þá fynnst mér Arsenal hafa enn í dag mun fleiri gæðaleikmenn en við því miður,annað sem ég hræðist á morgum er Adam,mér finnst hann frekar dapur varnarlega og gegn svona hröðu og léttleikandi liði þá óttast ég að hann muni eiga í vanda,ef Kuyt verður á hægri kanti þá verðum við í vanda,hann nýtist ílla þar, ég hefði viljað sjá Bellamy og Dawning á köntunum og Carrol og Kuyt skiptast á að vera með Suarez í 4 4 2 , ég tek undir að Enrigue gæti lent í vanda í vörnini, kannski væri gott að hafa Johnson vinstra megin og Kelly hægra megin, þó að Johnson sé betri í sóknini en vörnini þá gæti hann frekar stoppað þá hættu sem ég held að Arsenal muni setja á hægri kantinn.Áfram Liverpool koma svo og taka þennan mikilvæga leik.

  10. Þetta er einn mikilvægasti leikurinn um 4. sætið.

    ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

  11. Allveg er það ótrúlegt hvað Enrique fær mikla gagnrýni á sig eftir nokkra lélega leiki uppá síðkastið. Ég treysti Enrique fullkomnlega í þetta verkefni gegn Walcott. Hann hleypur ekkert hægt og hefur held ég alveg líkamsþyngdina til ýta Walcott frá sér 😉 Samkvæmt því sem ég er búinn að finna á netinu að þá er Walcott 68 kg og Enrique 76. (Hugsa samt að Enrique sé þyngri) En ekki veit ég um það. Svo finnst mér eins og að þegar Walcott er að spila á móti örðum liðum en Liverpool að þá tala allir um að hann hlaupi bara með boltann útaf vellinum en allt í einu þegar það er komið að því að hann fari að keppa á móti Liverpool að þá sé hann bara orðin “heimsklassaleikmaður” sem Enrique ræður ekki við.

    Annars spái ég 0-0 jafntefli í hundleiðinlegum leik.

  12. Hádegisleikur eftir þungan leik á sunnudag og leik á miðvikudag hjá mjög mörgum góðum leikmönnum okkar … segir mér að þetta verður þungur og erfiður úrslitaleikur.
    Vona að menn taki hraunið á þetta og rölti með bikarinn fyrir framan nefið á nöllunum eins og einn hring á Anfield bara til að strá salti.
    Maginn í mér er nervus fyrir leikinn en eins og var í pulsu podcastinu ykkar, þá er Arsavin farinn og því á maður ekki að óttast þá eða hvað? RVP á móti Jamie Carra….. frekar unfair. En hva. RVP var meiddur … Já !

  13. Flott upphitun að venju hjá ykkur…

    Held að þessi leikur verði járn í járn fyrstu 60-65 min.
    Vona að Carroll verði á topp og Suarez í holunni fyrir aftan hann.

    Tökum þennan leik 2-1 með mörkum frá Andy Carroll og Charlie Adam(Ekki úr víti) 🙂

    YNWA!!!

  14. Wenger farinn að skammast yfir því að sínir menn þurftu að spila alltof margar mínútur í þessum landsleikjum segir manni það að hann er farinn að undirbúa sig fyrir tap sem er fínt.Leikurinn fer 2-0 Suarez með fyrra og enginn annar en Kuyt með það seinna

  15. Enrique er klárlega betri varnarmaður en Johnson. Eru menn orðnir svona gleymnir? Enrique hafði Walcott að fífli í fyrri leik þessara liða á leiktíðinni.

  16. Wasssssup!Þegar menn segja”verðum að vinna þennan leik “þá töpum við eða gerum jafntefli!!!kommon allir að spá tapi og þá tökum við þetta!!Og ekki segja að þetta sé mikilvægasti leikur tímabilsins,menn eru búnir að segja það frá því við spiluðum við Sunderland í fyrsta leiknum…..æi bítterinn

  17. gæti eitthver meistari sagt mér hvar ég get horft á leikin í Stavanger,Noregi ?
    ég er við tjörnina í miðbænum, 🙂

  18. Ég er drullustressaður og svartsýnn fyrir þennan leik. Held að við náum varla að vinna hann, ekki nema kop eigi stórleik í dag og sjúgi boltann í netið. Okkar lið er óútreiknanlegt og ef við erum án Agger, Gerrard og Johnson, auk auðvitað Lucas, þá er ekki von á góðu. Fer reyndar eftir því hvernig lið Arsenal kemur með til leiks. Mér finnst allavega jafntefli líklegustu úrslitin en vonast auðvitað eftir sigri.

  19. Því miður eru Enrigue og Johnson báðir frekar slappir varnarlega,þegar ég minntist á að hafa Johnson vinstra megin í dag og Kelly hægra megin þá finnst mér það sterkara bakvarðapar fyrir þennan leik , Enrigue er búin að vera óvenju slappur í síðustu leikjum , ég veit að við höfum verið í mörg ár í vandræðum með þessa stöðu hjá okkur og ég og flestir töldum að nú væri loksins komin rétti maðurinn í þessa stöðu ,,,enn Enrigue hefur verið ótrúlega slappur í síðustu leikjum því miður og þar hefur skapast mikil hætta og mörk upp á síðkastið, oft þegar hætta hefur skapast þar hefur hann ekki verið til staðar heldur langt á eftir. Sá leikmaður sem ég hef hrifist mest af í vetur er Bellamy, frábærir leikir með honum og sóknarþungin hefur vaxið ótrúlega þegar hann er inná ,maður sem er alltaf að búa einkvað til og getur tekið menn á , eins er hann góður skot og spyrnumaður,eitt er alveg víst þetta verður hörku leikur og ég spái mörkum í dag og að leikurinn verði hraður þar sem bæði lið leggi allt kapp á að sigra í dag,,, YNWA.

  20. Er staddur á Akureyri, hvar er best að horfa á leikinn?

  21. Kristján Kristjánsson, Sportvitinn er víst málið þar hjá Liverpoolmönnum

  22. í draumi mínum í nótt var mér sagt að við vinnum, skorum 3 mörk, kuyt með tvö og hvort bellars eða adam hafi ekki verið með það þriðja.

    Þetta má alveg rætast.

    áfram Liverpool!

  23. Karlinn hlýtur að vera búinn að fatta að Gerrard og Adam geta ekki verið einir inni á miðri miðjunni. 5 mörk fengin á sig gegn Bolton og Cardiff segja alveg nóg. Vonandi kemur Hendorson inn, annaðhvort með þeim eða í staðinn fyrir annan hvorn.

  24. Byrjunarliðið.
    Liverpool Starting XI :Reina, Kelly, Carragher, Skrtel, Enrique, Spearing, Adam, Kuyt, Henderson, Downing, Suarez

  25. Dabbi Guðjóns #21

    Liverpool klúbburinn í Stavanger hittist á efri hæð Beverlys niðri við Vågen. mættu snemma, mikið af fólki yfirleitt.

    kv
    Haffi

  26. Sælir félagar

    Ég vil ekkert vera að tala illa um Enrique og það er þannig með leikmenn að gengi þeirra er svona upp og niður. Þó hann hafi verið að sumu leyti dapur að undanförnu þá getur hann alveg komið af krafti inn í þennan leik.

    Hitt er annað að mér finnst hann bara ekki nógu góður leikmaður. Mér finnst hann slakur sóknarlega, tekur menn helst aldrei á á síðasta þriðjungi heldur snýr við, leitar inn á miðjuna og gefur boltann eða tapar honum. Þetta hægir sóknir og dregur úr þeim kraft. Ef svo ólíklega vill til að hann komi boltanum fyrir eru það oftast hægir fallhlífarboltar sem skapa litla sem enga hættu. Þetta finnst mér vera reglan hjá honum sóknarlega þó sem betur fer séu undantekningar þar á. Svo er hann afar slakur skotmaður enda man ég ekki eftir að hann hafi skorað mark fyrir sitt gamla lið og ekki fyrir okkur.

    Varnarlega er hann oftast í lagi og stundum ansi góður. En þar á hann líka til skelfileg mistök. Oftast verða þau þannig að hann ætlar að stíga sóknarmanninn frá boltanum. Ef það mistekst þá er sóknarmaðurinn kominn inn fyrir hann og getur lagt boltann óáreittur hvert sem hann vill í teignum. Eins á hann það til að vera algerlega úti á þekju þegar andstæðingurinn sækir inn frá miðjunni.

    Hinsvegar kom hann inn í þetta lið af miklum krafti í haust og stóð sig ótrúlega vel. Við vorum öll í sjöunda himni yfir því að vera búin að fá LOKSINS klassa-vinstri bak. Að mínu mati hefur Enrique ekki staðið undir því, því miður. Hann er samt það næst besta sem við höfum þeim megin á eftir Johnson. Við sáum hvernig gekk í eftir áramótin síðast þegar Johnson kom inn í vinsti bakvarðarstöðuna. Hann stóð sig frábærlega þar og var jafnvel betri sóknarlega vinstra megin en hægra megin og mikið betri varnarlega.

    Mitt mat og svo sem ekkert um það að segja í sjálfu sér nema dunda sér við að vera sammála eða ósammála mér.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  27. Er að einhverju leyti sammála þér, Sigkarl, það er nú bara þannig. Enrique átti til að mynda markið gegn United alveg skuldlaus og hann virðist vera ragur við að fara af fullum krafti í tæklingar, óttinn við að gera mistök virðist vera sterkur factor hjá honum.
    Hins vegar eru slæmur fréttirnar í dag þær að Captain Fantastic er ekki í leikmannahópnum og ekki heldur Glen Johnson, sem hefur verið einn allra besti leikmaður LFC á þessu tímabili….ég treysti hins vegar Suarez fyllilega til að klára þennan leik og trúi því að bæði Carragher og Kelly eigi eftir að nýta sitt tækifæri til fullnustu….

  28. Liverpool: Reina, Kelly, Enrique, Skrtel, Carragher, Spearing, Adam, Henderson, Downing, Kuyt, Suarez. Subs: Doni, Bellamy, Shelvey, Coates, Flanagan, Maxi, Carroll.

    Enginn Gerrard, enginn agger og enginn johnson..

  29. Hvar eru Apple/Mac menn að streama leikinn? Mínar síður firstrow (liggur niðri) og veelte eru ekki að gera gott mót núna.

Mottumars

Liðið gegn Arsenal: