Liverpool 2 – Middlesboro 0

_41108082_morientes2_300.jpgJæja, félagar.

Þetta heldur áfram 🙂

Liverpool unnu semsagt verulega góðan sigur á Middlesboro á Anfield, 2-0.

Þessar leikskýrslur okkar eru allar farnar að líta eins út því þær byrja á upptalningu á tölfræði.

Við höfum núna unnið **sjö leiki í röð** í deildinni. Liverpool vörnin og Pepe Reina jöfnuðu í dag félagsmet með því að halda hreinu í **10 leikjum í röð**.

Reina hefur ekki þurft að hirða boltann úr netinu í 900 mínútur, sem eru **FIMMTÁN KLUKKUTÍMAR!**

Þetta er með hreinum ólíkindum.

Allavegana, Rafa stillti upp liðinu svona:

Reina

Finnan – Hyypiä – Carragher – Riise

Gerrard – Sissoko – Alonso – Kewell

Crouch – Morientes

Liverpool var miklu betra liðið á vellinum. Boro átti ágætis kafla svona frá 5-20. mínútu, en annars var bara eitt lið á vellinum. Boro barðist ágætlega og þeir gáfu okkar mönnum ekki mikinn tíma, en það var bara ekki nóg.

Gerrard var virkilega öflugur framávið á kantinum og Sissoko var traustur á miðjunni og því hafði frekar slakur dagur hjá Xabi Alonso ekki mikil áhrif.

Frammi voru það svo Crouch og Morientes, sem náðu ekki að nýta ótal marktækifæri sem þeir nýttu ekki.

En um miðjan seinni háflleik þá breytti Rafa um taktík. Luis Garcia kom inn fyrir Crouch og þeir og Morientes náðu vel saman. Garcia komst svo upp hægri kantinn, gaf sendingu fyrir og Gerrard lét boltann fara framhjá sér. Boltinn rataði á Morientes, sem tók hann niður og setti hann örugglega í hornið. Nákvæmlega það sem hann þurfti á að halda.

Stuttu seinna kom svo löng sending inn fyrir, sem að Frank Quedrue skallaði óvart á Fernando Morientes, sem fékk boltann fyrir utan vítateig og vippaði glæsilega yfir Schwarzer. Tvö mörk hjá Morientes. Einsog einhver sagði: Form is temporary, class is permanent.

Sami Hyypia meiddist svo þegar að hann og Boateng skölluðu í hausinn á hvor öðrum. Hyypia fór því útaf og Momo kom inní vörnina í nokkrar mínútur en það hafði engin áhrif og Momo virkaði traustur. Sami kom svo inná með sárabindi um ennið og hvað gerir hann í fyrstu snertingu? Jú, hann skallar boltann frá eftir horn.

Djöfull var gaman að sjá Hyypia. Maður getur ekki annað en hlegið að þeim, sem voru að tala um að Sami væri kominn af sínu besta skeiði. Hann er einfaldlega búinn að vera stórkostlegur að undanförnu. Carra fær oftast mesta hrósið, en Sami Hyypia á ekki síður heiður af þessari frábæru frammistöðu varnarinnar.

Þessi árangur varnarinnar er líka allt öðruvísi en sú sterka vörn, sem að hann og Henchoz bjuggu til fyrir nokkrum árum. Þá voru þeir með Didi Hamann, sem varla fór fram fyrir miðju, fyrir framan sig og Liverpool spilaði gríðarlega varfærnislegan bolta. Núna erum við hins vegar að dóminera okkar leiki og það er í raun alls ekki hægt að ásaka okkur um að vera að spila varnarbolta.


**Maður leiksins**: Sko, ég hef verið að velta þessu vali okkar á mönnum leiksins að undanförnu. Það verður æ erfiðara að velja besta mann liðsins. Það er í raun frábært því að Liverpool liðið er að leika sem ein pottþétt heild. Þetta er **LIÐ**!

Gerrard var góður, Riise og Finnan voru virkilega góðir, Sami og Carra traustir, Reina varði vel nokkrum sinnum. Kewell átti góða spretti.

En **Fernando Morientes** var hetjan okkar í dag og hann á skilið að vera maður leiksins. Frábært fyrir Fernando að ná að skora. Núna þegar að Fernando Morientes er farinn að nýta færin sín, þá mega varnarmenn ensku úrvalsdeildarinnar vara sig.

Við erum núna komnir uppí [annað sætið í deildinni](http://soccernet.espn.go.com/tables?league=eng.1&cc=5739) með 31 stig eftir 15 leiki, 9 stigum á eftir Chelsea. Everton gera okkur vonandi greiða og ná stigi gegn Man U, en það myndi duga okkur til að halda öðru sætinu, þar sem við erum með betra markahlutfall en Man U.

Næsti leikur okkar er svo gegn Newcastle í deildinni á annan í jólum á Anfield. Það er svo vonandi að við mætum til leiks gegn Newcastle sem **heimsmeistarar félagsliða**. Við gætum allavegana ekki beðið um betra veganesti til Japan.

34 Comments

  1. Frábært og æðislegt !
    Ég verð nú samt aðeins að koma inná það að þulirnir á EB voru farnir að fara nett í taugarnar á mér.
    Ég nenni enni að fara útí smá atriði því ég reikna með að þið sem horfðuð á útsendingu EB hafið pikkað upp svipaða punkta og ég.
    Svo til að gera daginn enn betri þá skipti ég örsnöggt yfir á Skjá Einn svona rétt til að sjá að Unnur Birna var kosinn ungfrú heimur rétt áðan.
    Til hamingju með það Unnur og karlmenn landsins með að fá það enn einu sinni staðfest að konurnar okkar eru fríðastar allra :blush:

  2. “Ég nenni enni að fara útí”

    ahh.þetta átti að vera nenni ekki…..

  3. Tilhugsunin um að Liverpool sé búið að vinna 7 leiki í röð, halda hreinu 10 leiki í röð og aðeins 2 leikmenn í aðalliðs hóp á meiðslalistanum eins og er, er fokking yndislegt.

    Og einnig tilhugsunin um það að leikmannahópurinn eigi eftir að styrkjast enn meira með 1-2 leikmönnum í janúarbyrjun, það er ekkert leiðinlegt sko.

    Forza Liverpool!

  4. Mér finnst svo leiðinlegt að það sé bara kommentað þegar illa gengur…svo ég ætla að leyfa mér að koma með þetta stutta og hnitmiðaða komment núna:

    🙂 :biggrin: :biggrin2: :laugh: :blush: :tongue: 😉

    Ég hef einfaldlega ekkert nema gott um þetta að segja!

  5. Tja, Hannes, eru ekki flestir að horfa á enska boltann ennþá? Ég var að gefast upp núna þegar að Chelsea skoraði. FOKKING Terry!

    Annars eru þetta vissulega fáránlega fá komment núna 2 tímum eftir leik. 🙂

  6. Frábær frammistaða. Svakalega er liðið að spila vel þessa dagana. Gott að sjá að Morientes og Kewell virðast vera að nálgast sitt besta form.

    Áfram Liverpool!

  7. Það verður bara að segjast alveg eins og er, manni hefur ekki liðið svona í mörg herrans ár. Ég man bara ekki eftir svona miklum stöðugleika síðan á gullaldarárunum, long may it continue.

    Nú er ekki leikur í deildinni fyrr en 2 í jólum, þannig að vonandi fylgjumst við bara með keppinautunum tapa stigum á meðan við bætum í bikarasafnið í Japan.

    Að hugsa núna tilbaka til þess að menn hafi verið að efast um Rafa hérna í haust. Maðurinn veit greinilega upp á hár hvað hann er að gera og maður getur greint svolítinn Valencia brag á Liverpool þessa dagana.

  8. Amen Steini Amen…

    En ég furða mig enn svolítið á þessu með Djibril Cissé… eru hann og Rafa eitthvað ósáttir? Báðir segja að ekkert sé að en samt finnst mér mjög skrýtið að Cissé sé bara á bekknum þrátt fyrir að vera markahæsti leikmaður liðsins, vil sjá hann frammi með Crouch.

    Svo er það spurning hvort að Rafa leyfi Pongolle að fara? Hvað gerir hann þá? Dirk Kuyt var efstur á óskalista hans í sumar ef mér skjátlast ekki og ég myndi ekki hata það að fá hann!

    Okkur vantar enn miðjumann, sérstaklega þar sem Bolo verður frá út tímabilið, vonandi kemur Simao þrátt fyrir að Benfica hafi komist áfram…

    Hvað miðvörð varðar þá vantar okkur jú einn slíkan og vonandi kemur einhver ungur, mér lýst vel á Agger til dæmis, en ég held að það þurfi ansi mikið til að slá Hyypia úr liðinu!

    Væri fint að fá Agger sem gæti þá fest sig í sessi, aðlagast enska boltanum aðeins og svo tekið sætið af Hyypia með tíð og tíma….

  9. Mikið rosalega var Cisse fúll þegar hann kom inná.
    🙁

    Annars var þetta frábær leikur hjá okkar mönnum.

    Verst með Crouch. Ég hafði svo mikla trú á honum eftir markið/mörkin um daginn að ég tók veðmál um að hann myndi enda með fleiri mörk en Harewood í lok leiktíðar… það stefnir aldeilis ekki í það.

    En ég tek 3 stig + 0 mörk, í stað 0 stig + 1 mark. 🙂

  10. Hjalti, ég held að það sé augljóst að vandamál Cisse eru tvíþætt.

    1. Hans attitude: Hann kemur inná með fýlusvip og virðist ekki hafa nokkra ánægju af því að spila fyrir liðið þessa dagana. Sjáðu bara svipinn á honum í leiknum í dag. Hann er hefur árslaun okkar í vikulaun og hefur nákvæmlega enga afsökun fyrir því að vera í fýlu þegar hann kemur inná í leik fyrir Liverpool!
    2. Rafa vill klárlega hafa sentera, sem að vinna líka fyrir liðið. Það má vel vera að Cisse skori flest mörkin, en hversu furðulega sem það hljómar, þá efast ég um að það sé nóg fyrir Rafa. Hann vill sjá menn vinna fyrir liðið og er ekki tilbúinn að hafa “stjörnur”, sem að vinna fyrir lítið liðið. Sjáðu bara hvernig Morientes (sem hefur verið toppmaður í spænsku deildinni og Meistaradeildinni) er að vinna einsog brjálæðingur fyrir liðið. Hann er að sækja boltana aftur, fer í tæklingar og er að vinna bolta.

    Ég held að Cisse gæti alveg komið sér í náðina hjá Rafa ef hann bara vildi. Það, sem hann þarf að gera er að reyna að hafa gaman af hlutunum og gera sitt besta úr þeim tækifærum, sem hann fær. Ef hann ætlar hins vegar að spila með hangandi haus, þá er tilgangslaust fyrir hann að vera áfram.

    Og með að okkur vanti miðjumann, þá ertu væntanlega að tala við kantmann. Ég leyfi mér að fullyrða að ekkert lið á Englandi (ok, hugsanlega Chelsea) sé með fjóra jafngóða miðjumenn og við. En Simao myndi svo sannarlega styrkja þetta lið. Það verður svo fróðlegt að sjá hvað Benitez gerir í framherjamálum.

  11. Einar, ég var bara að meina svona almennt þegar vel gengur koma færri komment hérna en þegar illa gengur. En það er náttúrulega bara vegna þess að maður hefur yfir svo litlu að kvarta – nema þá einna helst í kringum Cissé og Pongolle. Mér finnst hreinlega að Rafa ætti að rótera þeim öllum fjórum jafnt. En hann virðist reyndar vita sjálfur hvað sé best fyrir liðið – og sýnir það bara með úrslitum leikja! :tongue:

  12. Jæja, hér kemur síðbúið komment þar sem við sem vinnum næturvaktir þurftum að sofa fyrir og eftir leik 🙂

    Þetta var frábær leikur og frábær sigur. Middlesbrough-menn gerðu okkur þetta erfitt og voru sterkari mótherjar en sennilega flest lið sem við höfum mætt undanfarnar vikur í deildinni, en það sýndi styrk okkar manna og karakter að við skyldum samt innbyrða góðan sigur. Maður var reyndar farinn að naga neglurnar aðeins undir það síðasta, en þegar Morientes skoraði var mér stórlétt.

    Einnig langar mig að nefna sérstaklega **Pepe Reina** í dag. Hann hefur ekki haft mikið að gera undanfarið vegna frábærrar varnar fyrir framan sig, og yfirburða okkar manna á vellinum, en í dag þurfti hann að taka á honum stóra sínum tvisvar og hann brást við í bæði skiptin með heimsklassamarkvörslu. Það er alveg óskiljanlegt hvernig Mark Viduka gat klúðrað að koma þeim yfir, og ef það hefði tekist hefði þessi leikur getað orðið að martröð.

    Þannig að … heill sé Pepe Reina! Húrra! Húrra! Húúúrrraaaaaa!!! 😉

    Gaman að vera Púllari þessa dagana …

  13. Þessi hegðun Cisse hjálpar honum ekkert nema síður sé, hann virðist vera staðráðinn í að koma sér útúr húsi á Anfield með þessu áframhaldi.
    Mér finnst hann ágætis leikmaður en hann sjálfur virðist vera með miklar ranghugmyndir um eigin getu og hvernig á að spila fótbolta. Liðsheildin er það sem skiptir mestu máli en hann virðist ekki skilja það né hversu heppinn hann er að vera spila fyrir Liverpool FC.
    Skipti á honum og Dirk Kuyt væri mikil bragarbót fyrir liðið.

    Annars frábær sigur í dag, Móri flottur að setja tvö og er allur að koma til. Reina er frábær markmaður, vörnin ótrúlega solid, miðjan dugleg og alltaf líkleg til að skora og sóknin orðin bara nokkuð góð. Þetta er bara beautiful…..!

  14. Sæmilegur leikur en mjög góður sigur. Þetta lið er farið að sýna ótrúlegan karakter með því að klára þessa leiki þar sem þeir eru ekki að sýna neina stjörnutakta (sbr. þessi leikur, city og villa – leikir sem hefðu án efa endað með jafntefli eða tapi í fyrra) og það er ekki hægt annað en að vera mjög bjartsýnn með framhaldið. Þetta er í fyrsta sinn í mjög langan tíma sem ég hreinlega er farinn að eiga von á liverpool sigri í hverjum leik.

    Það eina sem ég get sett út á varðandi þennan leik er þessi ákaflega dapra ákvörðun Steve Bennet að reka Riggot útaf, mér fannst þetta brot engan veginn verðskulda gult spjald og hefði sennilega orðið öskureiður hefði þetta hent einhvern Liverpool leikmanninn. En þetta hafði svo sem engin áhrif á leikinn og ekki eins og þetta eyðileggi þennan fína dag sem gerði ekkert nema batna við það að arsenal tapaði fyrir newcastle núna rétt áðan. Nú þurfa bara everton og manutd að gera jafntefli á morgun og þá er þessi helgi nær fullkomnuð.

  15. Virklega góður sigur og við náðum að færa yfirburðina okkar í mörk… frábært! Morientes þurfti á þessum mörkum að halda. Örugg 3 stig í hús. Ekki langt síðan sem við hefðum gert jafntefli eða jafnvel tapað þessum leik ósanngjarnt.

    Hvað varða liðið í heild þá er frábært að sjá Reina í markinu… hefur lítið að gera allan leikinn en 2 koma dauðafæri og hann er á tánum og með einbeitingu allan leikinn (ekkert James syndrome hérna).

    Vörnin öll massív og miðjan sókndjörf. Sóknarlínan ekki sú markheppnasta og mér fannst Crouch ekkert spes í dag hins vegar vann Morientes mikið fyrir liðið og gafst aldrei upp. Gríðarlega vinnsla og frábær leikmaður.

    Athyglisvert að þegar markið kom þá vorum við manni færri…

    Cisse dæmið allt er furðulegt og fyrir mér er það augljóst að Rafa treystir honum ekki. Rafa sagði ekki fyrir löngu að það er stór munur á að skora mörk fyrir lið sem vinnur leiki eða lið sem vinnur titla. Heyr Heyr

    Ég treysti Rafa fyrir því sem hann er að gera og hvort sem Cisse verður seldur í janúar, í sumar eða verður áfram… fine! Rafa stjórna og gerir það vel. Hann hefur sínar ástæður og veit meira um leikmennina og hvernig einstaklinga þeir hafa að geyma en ég.

    Frábær og sannfærandi sigur og ég hlakka mikið til BOXING DAY!

  16. Ég hreinlega verð að minnast á annað dæmi um lélega dómgæslu en það varðar leik Newcastle og Arsenal í dag. Dómarinn rak Gilberto Silva útaf með sitt annað gula spjald fyrir litlar sakir að mínu mati en svo kemur Alan Shearer með svakalega tæklingu á Sol Campbell skömmu síðar en fær varla tiltal! Skelfilega lélegt fannst mér….. Silva útaf og Arsenal tapaði.

    Annars var þetta flott hjá Newcastle sem ég vitaskuld studdi í leiknum, ef Arsenal hefðu unnið hefðu þeir verið aðeins tveimur stigum frá okkur þannig að kudos Solano… 😉

  17. Frábær úrslit og fjörið heldur áfram. ég sé alveg fyrir mér að chelskí fari að gera meira af jafnteflum á næstunni og þá gæti bilið minnkað á milli okkar!

    1. Chelsea 16 14 1 1 35:7 43
    2. Liverpool 15 9 4 2 20:8 31

    Varðandi vesenið á Cissé þá er þetta óþolandi ástand. Ef hann verður seldur í janúar þá tel ég ráðlagt að hvíla öll kaup á frönskum leikmönnum á næstu misserum. Verslum frekar þýsk gæði! Má ég mæla með Ballack og Kurani?

    YNWA!

  18. Frábær úrslit og fínn leikur hjá okkar mönnum. Sissoko fannst mér hrikalega góður í dag og gjörsamlega kaup ársins í deildinni.

    Frábært hvað miðjan og framherjarnir stoppa margar sóknir án þess að brjóta á mönnum.

    Langar líka að hrósa Steve Bennet fyrir fína frammistöðu sem sýndi sig á þann hátt að á 60 mínútu tók ég fyrst eftir hver var að dæma leikinn.

    Væntingar til japansferðar eru eftirfarandi:
    Engin meiðsli
    Liðið verði ekki of lengi að jafna sig eftirá og tapi ekki tempóinu sem það er á.

    Sigur í mótinu væri bónus en samt aukaatriði.

    :biggrin: :biggrin: :biggrin: :biggrin: :biggrin:

  19. Jamm, Hjalti – dómarinn í Arsenal-Newcastle leiknum lét Shearer komast upp með alltof mikið. Shearer fær reyndar almennt séð að komast upp með meira en flestir framherjar.

    En mikið var þetta gott hjá Newcastle að vinna þá. Núna erum við komnir með 5 stiga forskot á Arsenal og þeir eiga ekki einu sinni sjens á að ná okkur á meðan við verðum í Japan. :biggrin2:

    Bara verst hvernig Chelsea hefur náð að vinna tvo síðustu leiki 1-0 með mörkum frá Terry. Þeir hafa núna leikið á heimavelli við Boro og Wigan, sömu lið og við höfum mætt á Anfield í síðustu tveimur leikjum. Þeir unnu þá 1-0, en við 2-0 og 3-0. Ég hef séð alla leikina 4 og það er enginn vafi í mínum huga að Liverpool hefur leikið umtalsvert betur en Chelsea í þeim.

  20. Laukrétt Einar, ég hvet hér með þessa frábæru síðu að koma með pistil um muninn á Chelsea og Liverpool, bæði leikmönnum, stjórum og öðru, til dæmis hægt að taka fyrir spilamennsku, stuðningsmenn o.fl :biggrin2:

    Ég myndi gera það ef ég væri ekki alltof niðursökkinn í próflestur 🙁

  21. Mér finnst leiðinlegt hvað menn eru viljugir í að tuða yfir Chelsea, enn leiðinlegra ef menn ætla að fara að gera allsherjar samanburð á Liverpool og þeim til að sanna eitthvað. Chelsea eru efstir, Liverpool eru í öðru sæti. Það þarf engan frekari samanburð til að sjá muninn, þó þessi munur sé vonandi bara tímabundinn. Skiptir þar engu hverjir eru með fleiri eða dyggari stuðningsmenn, viðkunnanlegri eða klárari stjóra eða neitt annað. Chelsea er topp-lið, ég skil ekki hvers vegna menn vilja endalaust reyna að finna leiðir til að halda öðru fram. “Já, þeir eru kannski ofar á töflunni…en þeir eru í ljótum búningum og stuðningsmenn þeirra eru allir holgómar!”.

    Liverpool virðist stefna í að verða aftur eitt besta liðið á Englandi. Það þarf ekkert að vera alltaf að tala um Chelsea, það ber bara vott um minnimáttarkennd. Að mínu mati hafa áhangendur Liverpool enga ástæðu til að hafa minnimáttarkennd þessa dagana og því ætti ekki að þurfa að tuða yfir Chelsea.

    Þessi síða er frábær (fyrir utan Chelsea tuðið) og ég kíki á hana á hverjum degi, þó ég kommenti sem betur fer sjaldan. Takk fyrir að halda henni gangandi 🙂

  22. Ég var ekkert að tala um að tuða yfir Chelsea eða gera lítið úr þeim.. ég held að svona pistill gæti verið skemmtileg lesning.

    Hvor er betri Gerrard eða Lampard? Terry eða Carragher? Gaman að skoða tölfræði, hverjir senda betur og skjóta betur á markið og sitthvað fleira. Ef svona pistill er vel skrifaður getur hann verið mjög fróðleg og skemmtileg lesning og eins er gaman að bridda upp á nýjungum :tongue:

    Varðandi “Chelsea tuðið”, þá átta ég mig ekki alveg á hvað þú ert að fara.. ég held að Mourinho með sínar yfirlýsingar og Essien með sínar morðóðu tæklingar bjóði alveg upp á smá umræðu og hef alls ekki tekið eftir þessu tuði sem þú talar um…

  23. veit einhver hvað heimsmetið í að halda hreinu lengi er :rolleyes: gaman væri ef við gætum bætt það :biggrin:

  24. Já, þrælgóður sigur í dag og nokkuð sannfærandi í raun þrátt fyrir smá svona kuldahroll fyrstu 20 mínúturnar. Við síðan komum til baka og í raun réðum leiknum. Seinni hálfleikur var í raun engin spurning. Ég samt sá aldrei ÖLL þessi færi sem við vorum að fá og þá aðallega Sour Kráds-inn. Hann “höffar” og “pöffar” þangað til að hann blæs varnir andstæðinganna niður og hann má í raun eiga það greyið að hann er álíka vinnuhestur og Carragher er. Það í raun fleytir honum áfram og fær mig til að fyrirgefa honum það að vera stór og asnalegur en 110% fyrir liðið. Ég er orðinn sáttur með Sour Krádsinn.

  25. >Chelsea eru efstir, Liverpool eru í öðru sæti. Það þarf engan frekari samanburð til að sjá muninn, þó þessi munur sé vonandi bara tímabundinn

    Toggi, ég veit ekki hvort þetta var eitthvað skot á mig. En allavegana, það sem ég vildi benda á er að einsog liðin eru að spila í dag, þá er munurinn á töflunni óþarflega mikill.

    Ég er langt frá því að halda því fram að við höfum verið betri en Chelsea í deildinni, því við byrjuðum þetta tímabil hryllilega. En núna erum við að mínu mati að spila á sama level-i.

    Annars eru Chelsea Englandsmeistarar og við virðumst lenda á móti þeim í öllum keppnum, þannig að það er bara eðlilegt að við skulum bera okkur saman við þá og fjalla mikið um þá.

  26. Einar þú segir: ” hafði frekar slakur dagur hjá Xabi Alonso ekki mikil áhrif”. Þessu er ég ekki sammála. Xabi er þessa dagana í meira varnarhlutverki en oft áður. Svipað og Hamann. Xabi átti mjög góðan leik í dag þó ekki hafi borið mikið á honum. Þetta aukna varnarhlutverk er væntanlega að undirlagi Rafa og ekkert nema gott um að segja ef marka má velgengnina í undanförnum leikjum.

    Áfram Rauðir.

  27. Ég saknaði samt svolítið að sjá sendingarnar hans ekki njóta sín í þessum leik…. en hann skilar vissulega alltaf sínu þrátt fyrir að eiga ekki sinn besta dag í dag að mínu mati…

  28. Jæja, loksins kem ég einhverjum ummælum hér á blað. Hef lesið þessa síðu síðustu mánuði og svei mér þá, ég held ég hafi orðið meiri LIVERPOOL áhangandi fyrir vikið hef samt verið það síðustu 10 ár allavega. En bara svo það sé á hreinu að Einar, Kristján og Aggi eiga þvílíkt hrós skilið, þetta er alveg frábær síða!!! En ég er einnig mjög sáttur við liðið þessa dagana, var að koma frá London og keypti mér loksins treyju (Evróputreyjuna) og var að hugsa um að setja nafn aftan á hana en svo þegar ég hugsaði um það þá gat ég ekki fundið eitt nafn til að setja þar sem mér finnst liðið sem heild vera svo flott að það væri ekki hægt að gera upp á milli þeirra. Það er bara vonandi að liðið haldi þessu áfram og einnig að strákarnir haldi þessari síðu eins flottri eins og undanfarið!!!
    Lifi Liverpool!!!!
    kv

  29. Munurinn á liðunum í deildinni er sá að á meðan við gerðum nokkur jafntefli í upphafi tímabils unnu þeir einhverja níu eða tíu fyrstu leikina. Síðan unnu þeir okkur á Anfield, í svokölluðum sex stiga leik. Ef við hefðum t.d. unnið hann væru þeir með þremur stigum minna og við þremur meira. Þá væru Chelsea bara sex stigum á undan okkur og við með leik til góða.

    Það er munurinn. Þeir byrjuðu tímabilið betur og unnu leikinn við okkur (við *verðum* að jafna það út í útileiknum ef við ætlum okkur titil í vor) en eftir því sem hefur liðið á tímabilið hefur þetta jafnast út. Í dag eru þetta þau lið í deildinni sem eru jafn-líklegust til að sigra, jafn-líklegust til að halda hreinu og jafn-líklegust til að dóminera leiki.

    Chelsea eru hins vegar ennþá talsvert líklegri en við til að vinna titilinn, einfaldlega af því að þeir hafa gert það áður (af sömu ástæðu hljótum við að teljast líklegri í Evrópu) og af því að þeir hafa sem stendur 12 stiga forskot á næsta lið, Liverpool.

    Þetta kemur að mínu mati peningum og Abramovitch ekkert við, né tuðinu í Mourinho (sem Einar, Aggi og ég erum duglegir að kvarta yfir, en kemur spilamennsku Chelsea-liðsins ekkert við). Abramovitch dældi peningum í liðið undir stjórn Ranieri og þá unnu þeir enga titla. Þeir eru þar sem þeir eru í dag, sem lið, af því að þeir eiga það skilið.

    Þeir eru hins vegar þar sem þeir eru í dag *sem klúbbur* á algjörlega óverðskulduðum forsendum, en það er önnur saga.

    Allavega, Chelsea eru að spila nákvæmlega jafn vel og við þessa dagana – ekkert betur, ekkert verr – en eru samt sem áður sigurstranglegri í deildinni af því að þeir hafa 12 stiga forskot og hafa unnið hana áður. Ef við lítum á deildina sem opna og spennandi héðan í frá er ljóst að við gáfum þeim 9-12 stiga forgjöf (fer eftir hvernig leikurinn sem við eigum inni fer) og það er bara okkar að vinna þessa forgjöf til baka á næstu sjö mánuðum.

    Hef samt litlar áhyggjur af Chelsea, og finnst enn ótímabært að tala um titilvonir. Við eigum bara einn leik eftir við þá og vinnum aldrei titilinn nema að vinna hann – en ef hann tapast, þá eigum við bara að hugsa um okkar eigin leiki og halda áfram að bæta okkur og sigra í öðrum leikjum. Ef við gerum það náum við öðru sætinu án teljandi erfiðleika. Það myndi ég kalla raunhæft markmið í stöðunni í dag, það að vonast eftir að Chelsea gefi frá sér 10+ stiga forskot í deildinni er bara ekki raunhæft eins og er. En auðvitað veit maður aldrei, Arsenal voru ekki líklegir til að gefa sitt forskot frá sér í fyrra og sjáið hvað gerðist þar. Maður veit aldrei 🙂

  30. Nei Einar, ég hafði ekkert hugsað mér þetta sem neitt sérstakt skot á þig eða neinn annan, ef útí það er farið. Mér finnst samanburður á Chelsea og okkur svosem alveg í lagi, en mér leiðist oft hvað menn eiga það til að setja sig í tuð stellingar yfir þeim. Mér finnst það óþarfi, þar sem Liverpool er að spila vel og Chelsea sem lið á skilið að vera þar sem þeir eru, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

    En ég færi nú varla að skjóta á þig meðan þú ert í miðju hjálparstarfi, það væri nú varla við hæfi 😉

  31. Æji, þetta [komment](http://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/12/10/liverpool_2_middlesboro_0/#28052) hjá mér kom einsog ég væri eitthvað fúll, Toggi. Þetta var svona meira pæling hjá mér hvort þér fyndist Chelsea nöldrið vera í höfundum síðunnar eða lesendum.

    Annars skildi ég vel punktinn þinn og satt best að segja er ég líka orðinn verulega þreyttur á Chelsea. En oft þegar við erum að leita að efni, þá liggja þeir vel við höggi. 🙂

    Og varðandi Xabi Alonso, þá er standardinn á honum umtalsvert hærri en á öðrum leikmönnum í mínum huga. Það sýnir hversu góður hann hefur verið. Hann er t.d. settur í [liði vikunnar á Sky](http://home.skysports.com/list.asp?hlid=333348&clid=&channel=football_home&title=Team+of+the+weekend (ásamt Morientes og Carragher), þrátt fyrir að mér hafi ekki fundist hann neitt sérstakur *miðað við að þetta er Xabi Alonso*. Sendingarnar hans voru ekki að virka jafnvel og vanalega.

    Takk fyrir hrósið, Óli. 🙂

  32. Á Sissoko að halda áfram að vera vanmetnasti leikmaður Liverpool???
    Hann átti frábæran leik í gær. Það er honum að þakka að Gerrard geti farið á kantinn þannig að miðjan hrynji ekki.

  33. Ég verð bara að draga til baka ummæli mín þar sem ég sagði að lítið væri kommentað hér þegar vel gengi! :blush:

    En þar sem ég sé ekki leikinn var ég einmitt mikið búinn að vera að spá í því af hverju þið töluðuð allir um að Sissoko hefði átt stórleik og Alonso slakan leik en Sky hefðu gefið þeim síðarnefnda 8 í einkunn og Momo 6.. :rolleyes:

  34. Mikið rosalega hló ég þegar Sissoko tæklaði barrett(man ekki alveg hvað hann heitir) og hann hrinti honum hann var svo reiður og þá kom Sissoko með þennan svip sem mér finnst svo fyndinn og saklaus. Suddaleg tækling og svo svipurinn sem er svo saklaus.

Liðið geng Boro komið

Hvað segja Liverpool menn sjálfir um HM félagsliða?