Upphitunin kemur óvenju seint í þetta skiptið. Ástæður þess eru að bæði ég og Kristján höfum verið á kafi í vinnu. Ég var að koma heim eftir vinnu á veitingastaðnum mínum. Gríðarlega hressandi að eyða síðasta laugardagskvöldinu fyrir jól í að skera kjúkling. En Kristján er enn upptekinn og því er það mitt hlutverk að skrifa upphitun.
Liverpool leikur semsagt í fyrramálið til úrslita um titilinn “heimsmeistarar félagsliða” við [Sao Paulo](http://www.saopaulofc.net/mundial/index.asp) frá Brasilíu. Á morgun verður því gert út um hvaða félagslið sé það besta í heimi.
Liverpool hefur aldrei unnið þennan titil og er þetta eini alvöru titillinn, sem vantar í safnið hjá þessu sigursælasta liði enskrar knattspyrnu. Það er vonandi að á morgun takist okkur að fullkomna safnið á Anfield.
Við mætum semsagt Suður-Ameríkumeisturum Sao Paulo, sem eru einmitt frá borginni Sao Paulo, stærstu borg Suður-Ameríku. Það vill svo skemmtilega til að ég hef komið til þeirrar borgar, en dvaldi þar aðeins í einn dag, þar sem að þar er frekar lítið að sjá fyrir saklausa túrista einsog mig, sem hafði meiri áhuga á að sjá sætar brasilískar stelpur í bikiníi heldur en einhverja risastórborg
En allavegana, Sao Paulo nær því ekki einu sinni að vera vinsælasta liðið í Sao Paulo, því að Corinthians er vinsælasta liðið í borginni.
Sao Paulo eru auðvitað í Japan útaf sigri þeirra í Copa Libertadores, sem er keppnin um besta félagslið í Suður-Ameríku. Þar komu þeir nokkuð á óvart með því að vera á meistarar, því flestir bjuggust við að River Plate eða Boca Juniors frá Argentínu myndu vinna.
En Sao Paulo unnu River Plate í undanúrslitum og svo brasilíska liðið Atletico Paranense í úrslitunum. Titillinn var þeirra þriðji Copa Libertadores titill.
Þetta Sao Paulo lið er gríðarlega sterkt. Markvörður Sao Paulo er mjög vinsæll og nokkuð sérstakur. Auk þess að vera markvörður liðsins, þá er hann líka sérfræðingur liðsins í aukaspyrnum og vítaspyrnum. Ef að Sao Paulo fá aukaspyrnur á hættulegum stöðum gegn okkur megum við eiga von á að sjá hann skokka upp völlinn til að taka þær. Einn þekktasti leikmaður þeirra er svo sennilega hægri bakvörðurinn Cicinho, sem var [orðaður við okkur síðasta sumar](http://www.kop.is/gamalt/2005/08/21/11.12.31/). Samkvæmt því, sem ég hef lesið þá er þetta mikið sóknarlið, en gallinn er bara sá að ég hef aldrei séð þetta lið spila. Ég gæti því gert tvennt í svona upphitun: 1) besservissað endalaust um eitthvað, sem ég veit ekkert um. *eða* 2) viðurkennt að ég viti ekki neitt.
Ég held að ég velji seinni kostinn.
En Liverpool þekki ég hins vegar ágætlega. Rafa spilaði ekki alveg með sitt sterkasta lið í síðasta leik, en ég held að hann tefli fram sínu allra sterkasta liði á morgun. Og ég ætla að leyfa mér að spá því að Rafa sjái þessa 11 menn sem sína sterkustu 11.
Finnan – Hyypiä – Carragher – Riise
Gerrard – Sissoko – Alonso – Kewell
Crouch – Garcia
Semsagt, að bæði Cisse og Morientes verði á bekknum. Ég gæti svosem alveg haft rangt fyrir mér. Auðvitað gæti Cisse verið þarna inn, þar sem hann lék vel í síðasta leik. Einnig gæti Garcia verið á vinstri kantinum. En einhvern veginn hef ég tilfinningu fyrir þessu.
En allavegana, á morgun er leikur strax þegar ég vakna. Ég *elska* það að geta vaknað og farið beint inní stofu og kveikt á Liverpool í sjónvarpinu. Ekki er verra að það skuli vera þegar að Liverpool getur orðið **heimsmeistari félagasliða**. Við vitum öll hverjir eru bestir, en núna er tími fyrir okkar menn að sanna það fyrir heiminum.
**Áfram Liverpool!**
Ef að Sao Paolo er mikið sóknarlið eins og þú segir, þá myndi ég frekar halda að hann hafi Riise á kantinum og Traore/Warnock í bakverði eins og hann gerir t.d. alltaf gegn þessum allra bestu liðum í enska (Traore gegn Chelsea, Warnock gegn Man Utd)
þeir stilla upp fimm manna vörn samkvæmt benitez. það hljómar ekki svo ýkja sókndjarft.
ég sá nú leik þeirra á móti Al Jittihad og þó þeir séu með svo kallaða 5 manna vörn, sem mér síndist þó reyndar vera 4 manna í þeim leik, þá eru bakverðirnir meira kanntmenn. Þeir voru báðir bakverðirnir Cicinho og Junior(minnir að hann heiti það allavegana) að spila mjög mjög framarlega. Svo ég myndi kannski frekar sega að þeir séu með 3 manna vörn, sjáum sammt bara til á morgun hvernig þeir spila, spila væntanlega eitthvað aðeins öðruvísi geggn okkur þar sem við erum nú töluvert betra lið en Al Jittihad.