Jæja, það fór svona nokkurn veginn eins og ég spáði. Liverpool enduðu í dag tíu leikja sigurgöngu sína í deildinni með 2-2 jafntefli á útivelli gegn Bolton, sem hafa verið eins konar ólukkulið fyrir okkar menn á síðustu tímabilum. Það kom mér ekki á óvart að þessi leikur skyldi enda með jafntefli, og í raun var fátt sem kom á óvart í þessum leik.
Rafa gerði örfáar breytingar fyrir leikinn í dag, hvíldi meðal annars Alonso, Riise og García, á meðan Cissé gat ekki byrjað inná vegna einhverra smávægilegra eymsla í baki eftir W.B.A.-leikinn. Í þeirra stað komu Didi Hamann, Djimi Traoré og Florent Sinama-Pongolle. En liðið var sem sagt svona:
Finnan – Carragher – Hyypiä – Traoré
Gerrard – Hamann – Sissoko – Kewell
Pongolle – Crouch
BEKKUR: Carson, Riise, Alonso, García, Cissé.
Bolton komust yfir í upphafi leiks, eftir klúður í teignum. Pepe Reina stökk upp til að grípa háa fyrirgjöf en Gary Speed stökk inn í bakið á honum – klár aukaspyrna – svo að Reina náði ekki að grípa. Hann teygði sig strax á eftir boltanum á markteignum og var kominn með hendur á hann, þegar Sami Hyypiä sparkaði í knöttinn svo hann flaug frá Reina og beint á höfuðið á **Radhi Jaidi** sem þakkaði fyrir sig og skallaði beint í markið. Jólagjöf #1, þökk sé dómaranum og Sami Hyypiä.
Okkar menn jöfnuðu svo þegar um 25 mínútur voru til leiksloka. Harry Kewell fékk boltann á miðjunni og átti hnitmiðaða og góða stungusendingu á **Steven Gerrard**. Hann brunaði upp vinstri vænginn og inn á teiginn, þar sem táningurinn O’Brien braut á honum. Víti sem Gerrard skoraði örugglega úr.
Aðeins fimm mínútum síðar voru Bolton-menn komnir yfir aftur. Kevin Davies fékk stungusendingu og var, að mér sýndist, rangstæður en línuvörðurinn flaggaði ekki. Hann gaf í innfyrir vörnina, inná teiginn og gaf þar fastan bolta fyrir markið. Þar kom enginn annar en **El-Hadji Diouf** aðvífandi og skaut boltanum, Reina varði en boltinn hrökk aftur í annað hvort bakið eða hendina á Diouf og þaðan í netið. 2-1 og önnur jólagjöf, í þetta sinn frá dómaranum og/eða línuverðinum.
Nú, þegar um átta mínútur voru eftir gaf Alonso svo háan bolta inn í vítateiginn hægra megin. Þar tók **Luis García** hann niður með góðri fyrstu snertingu og hamraði hann svo í nærhornið. 2-2 og jafnteflið staðreynd.
Fyrir utan það að fjögur mörk voru skoruð kom ekki margt á óvart í þessum leik.
**Meðal þess sem kom ekki á óvart:**
1. El-Hadji Diouf hegðaði sér eins og hálfviti. Lét sig detta svona 20 sinnum í leiknum, reif kjaft við nær alla leikmenn Liverpool, skoraði mark með hendinni og notaði tækifærið til að bauna hressilega á stuðningsmenn Liverpool, sem studdu hann í öllu mótlætinu síðustu tvö ár og klöppuðu mikið fyrir honum á Anfield þótt hann væri ekkert að skora. Það var ömurlegt að sjá hann skora gegn okkur, og tilhugsunin um að hann myndi ná sigurmarkinu var á tímabili óbærileg, en ég verð samt að segja að ég hef aldrei verið jafn feginn að fyrrverandi leikmaður Liverpool skuli ekki lengur spila fyrir klúbbinn. Þessi gæji er trúður og ég get skilið að Gérard Houllier gráti sig í svefn yfir þeim ellefu milljónum punda sem fóru í hann.
2. Bolton spila leiðinlegan, erfiðan, pirrandi, en árangursríkan bolta. Þeir skora mark, leggjast í vörn og dæla boltum fram völlinn, eru með stöðugan leikaraskap og tuddaskap og óþverrabrögð þegar dómarinn sér ekki til – allt sem hægt er að græða á reyna þeir. Þetta er eitt erfiðasta, og leiðinlegasta liðið sem okkar menn þurfa að spila gegn í Úrvalsdeildinni, en það breytir því ekki að það sem þeir eru að gera *virkar*. Því miður, því þetta er ömurleg knattspyrna á að horfa.
3. Dómari leiksins var hræðilegur. Þeir fengu að brjóta á Peter Crouch í hvert einasta skipti sem hann fékk boltann, hann dæmdi á nær hverja einustu leikdýfu Dioufy, þeir handléku boltann tvisvar inní sínum eigin vítateig, Gary Speed braut greinilega á Pepe Reina í fyrsta marki leiksins en dómarinn dæmdi ekkert, og Kevin Davies var rangstæður í síðara marki þeirra, sem El-Hadji Diouf skoraði annað hvort með bakinu eða hendinni. Dæmið sjálf, en staðreyndin er samt sú að þessi dómari var djók!
Ég nenni bara varla að kryfja þennan leik mikið meira. Er eiginlega ekki sáttur við jafnteflið, því við vorum eina liðið á vellinum að reyna að spila fótbolta, en ég er meira svona *feginn* að við náðum þó jafntefli, þar sem við höfum verið vanir að tapa fyrir þessu liði þarna. Jafntefli á Reebok Stadium eru bara ágætis úrslit í mínum kokkabókum.
**MAÐUR LEIKSINS:** *Steven Gerrard,* fyrirliði okkar manna. Hann átti í raun ekkert sérstakan leik frekar en aðrir leikmenn liðsins, en þegar svona hálftími var eftir og við enn að tapa 1-0 var eins og hann hrykki skyndilega í annan gír, hann var út um allt að reyna að búa til eitthvað og ógna markinu. Á endanum var það hann sem fiskaði vítið og skoraði jöfnunarmarkið hið fyrra þar úr, og svo var það hann sem vann boltann og gaf á Alonso sem lagði upp seinna jöfnunarmarkið fyrir García. Gerrard átti ekki góðan leik í dag, ekki miðað við sína eigin háu staðla, en hann gerði það sem ætlast er til af fyrirliða og reif liðið upp þegar það þurfti þess með.
Já og ég er búinn að komast að málinu með hrákurnar hjá varamanninum. Hann hefur bara ekki stjórn á þessu og slefaði rosalega í þessi skipti sem hann var að rífa sig í leiknum í dag, já hann virðist eiga við eitthvað vandamál að stríða með munnvatnsframleiðslu, hann var einfaldlega heppinn að fólk fékk þetta ekki í andlitið þegar hann var að rífa sig :laugh: alveg óþolandi grey þessi mann bjálfi og virðist ekki ætla að læra nokkurn skapaðan hlut.
já… ég er búinn að vera útí bandaríkjunum síðan 21.des og þessi síða er búin að redda mér gegnum leikina með smá hjálp frá Soccernet … :biggrin2:
Spáðir frekar auðveldlega að sigurganga okkar myndi enda í þessum leik … e-ð inside scoop..? ég hefði aldrei þorað að spá svona bara útaf hættuni með að “Jinxa” sigurgönguna 🙂 Frekar skrýtið að ég hélt svo innilega með Diouf þegar hann kom til okkar fyrst… allavega, súr úrslit… en þó ekki 0-0 jafntefli eða tap …
Þetta eru mjög ásættanleg úrslit miðað við gang leiksins finnst mér…. hundleiðinlegt Bolton lið en þetta skilar þeim árangri eins og þú bendir á.
Það var ekki einu sinni fyndið hvað Gerrard var mikill yfirburðarmaður í þessum leik að mínu mati, gafst aldrei upp, barðist endalaust og það dreif liðið áfram.
Skelfilegt að sjá þessi mistök hjá Reina og Hyypia, Reina kvartaði nú ekkert yfir broti og enginn annar og ég held að þetta hafi einfaldlega ekki verið aukaspyrna.
Ég sá ekki þessa meintu ranstöðu á Davies en fannst bara lélegt af liðinu að fá þetta mark á sig, slök dekking og Reina fannst mér ekki gera nógu vel, átti annaðhvort að taka fyrirgjöfina eða þá að standa á línunni og taka laust skot Diouf þaðan.
En niðurstaðan: Leiðinlegt að enda winning streakið en fínt stig á erfiðum útivelli 🙂
sá enginn annar en ég að Faye (stafs.?) átti að fá rautt í byrjun seinni hálfleiks þegar Nolan fékk gult. Ég gat ekki betur séð en að það hefði verið Faye sem gerði brotið :confused:
Já og annað, þá er ósanngjarnt að ætla að kenna dómaranum um þetta, tvær vítaspyrnur sem við hefðum auðveldlega getað fengið á okkur og Sissoko fannst mér heppinn að fá að hanga inni á vellinum…. 😯
Já verð að vera sammála Hjalta þarna, við megum ekki gleyma þeim punktum þegar farið er yfir leikinn.
En allavega, dirty Bolton-lið og El-Hadji má stikna í helvíti mín vegna. Afsakið frönskuna mína.
Varðandi dómarann:
– Brotið Carra á Davies hefði hugsanlega getað verið vítaspyrna. Man ekki eftir fleiri vafaatriðum í okkar teig.
– Aukaspyrnan, sem Bolton skoruðu fyrra markið úr var stórkostlegt rugl.
– Tvisvar eða þrisvar var Crouch hindraður inní vítategi. Bolton menn settu bara hendurnar út og tóku sér stöðu, líkt og þeir væru að reyna að fá dæmdan ruðning á Crouch.
– Það fór ekki eitt einasta vafa-atriði Crouch í hag. Leikmenn Bolton höfðu leyfi til að klifra uppá hann, bakka aftan í hann og gera í raun hvað sem er til að vinna einvígi við hann á ólöglegan hátt.
– Diouf átti klárlega að fá að minnst eitt gult spjald fyrir að láta sig detta.
– Það var klárlega brotið á Crouch fyrir 2. mark Bolton. Mér sýndist það vera rangstaða, en það var þó erfitt að sjá.
– Faye átti að fá gult spjald númer 2 þegar hann braut á Gerrard í upphafi seinni hálfleiks líkt og Páló bendir á.
– Gula spjaldið á Carragher var rugl.
En þrátt fyrir þetta var ég sæmilega sáttur við jafntefli. Þetta Bolton er hundleiðinlegt en árangursríkt lið. Þeir láta sig detta þegar þeir finna lykt af vítateignum. Þeir reyndu þetta líka gegn Man U en það virkaði ekki jafnvel á móti þeim, enda voru þeir á Old Trafford.
En fínt að fá 10 af 12 stigum útúr þessari jólavertíð. Ef við ætlum að bera okkur saman við Chelsea þá verður maður fljótt geðveikur, þar sem þeir einfaldlega tapa ekki stigum.
En ég er virkilega ánægður með okkar menn að koma tvisvar tilbaka þrátt fyrir allt mótlætið í leiknum. Okkar menn sýndu karakter.
Alveg ótengd leiknum þá langaði mig að sýna ykkur þessa mynd af Josemi þar sem heldur á búning nýja liðsins síns. Hann er farinn! 🙂
http://www.marca.com/fotos_xpresa/villarreal05/josemi060102.jpg
Eitt sem mér finnst alveg mega minnast á en það er hann Kewell. Sjálfstraustið vex með hverjum leik. Hann er byrjaður að taka menn á og eru þetta alveg frábærar fréttir fyrir okkur púlara.
SAM ALLARDYCE er það sem menn eiga að hugsa þegar þeir sjá Bolton Vandræðis. Hann er eilífur nöldurseggur og hundleiðinlegur maður og liðið hans spilar með sama persónuleika sem boðar ekki gott. En ég hef ekki séð leikinn þar sem ég var að vinna í dag og ætla að skoða hann á Football First á eftir og fá að bölva og ragna helvítis eyðimerkurfíflinu sem spilað því miður einu sinni fyrir okkur. Guð hvað ég hata manninn!
finnst engum nema mér að Traore eigi ekki að vera í liðinu??? ekki það að hann sé lélegur… bara ekki nógu góður fyrir Liverpool…
*Ritskoðað (Einar Örn) – já já, gagnrýnum Diouf, hann er fábjáni – en sleppum rasisma.*
Annars sýnist mér á öllu að kewell fari að brillera hvað og hverju. hann var ekki bestur í dag, en lofar mjög góðu. Einnig er Garcia enn og aftur að sanna það sem ég er búinn að halda fram frá því að hann kom til klúbbsins, hann er snillingur.
Einar, ég tók út fyrri partinn af kommentinu, þar sem mér fannst það vera rasismi.
Annars sanmmála með Kewell, hann er orðinn mun beittari og áræðnari. Nokkur skipti þar sem hann tætti Bolton vörnina í sig. Það sem vantaði hjá honum var síðasta snertingin. Það gerði það að verkum að leikurinn hans var ekket spes í stað þess að vera meiriháttar.
Og gaman að Garcia skyldi skora markið sérstaklega eftir að hafa verið svona slappur í síðasta leik.
Jæja það hlaut að koma að þessu. Liðið virkaði þreytt og engin furða. Bolton menn fengu náttúrulega aukafrí vegna “bilunar” í hitakerfi vallarins um daginn og það telur allt saman.
Það var ekki fyrr en Alonso kom inná að liðið og Gerrard ekki síst hrukku í gang og þá kannaðist maður við þá.
Mörkin Bolton manna voru ömurleg bæði tvö og mikil heppni í þeim báðum. Aukaspyrnan sem fyrra markið kom úr var algjört rugl en það afsakar svo sem ekki klúðrið hjá Reyna og Hyppia.
Dómarinn var slappur og kom það niður á báðum liðum. Hefði auðveldlega getað dæmt víti á Carra og fullt af öðrum vafasömum dómum og auðvitað átti Faye að fjúka útaf fyrir tvö gul þegar vitlaus maður fékk gult eftir brot á Gerrard. Ótrúlegt hvað Diouf fékk mikið af aukaspyrnum fyrir að detta án þess að brotið væri á honum. Jafn ótrúlegt hvað lítið er dæmt á menn fyrir að hanga á Crouch.
Diouf er alveg gjörsamlega handónýtur og punktur.
Bolton menn voru svo sem ekkert grófari en okkar menn og er ekki ólíklegt að Gerrard og Sissoko gætu lent í vandræðum ef FA fara að skoða ásetning af þeirra hálfu í brotum á Nolan og Diouf.
Hvað er síðan málið með liverpool og hornspyrnur. Við erum með ágætis skalla og spyrnumenn en samt kemur ótrúlega lítið úr hornspyrnum. Væri gaman að sjá tölfræði yfir hornspyrnur og skoruð mörk.
Mér finnst fáránlegt að ætla að kenna dómaranum og Hyypia um fyrsta markið. Í fyrsta lagi var ekkert brot þarna og í öðru lagi þá er Hyypia að fara að hreinsa eftir þessu fáránlegu mistök Reina en um leið og Hyypia er að fara að sparka í boltann þá grípur Reina hann. Efast um að Hyypia eða nokkur annar hafi slík viðbrögð að geta stöðvað fótinn alveg við boltann. Reina átti þetta mark, alveg klárt mál.
Guð minn almáttugur hvað El Hadji Dive er leiðinlegur leikmaður!! Hann á SVO vel heima í þessu Bolton liði, ömurlegur fótbolti. Hann gengur bara út á spilla fyrir andstæðingum sínum með ruddaskap, dýfingum, nöldri o.s.f.v. og vona að þetta pirri andstæðingin nógu mikið til að þeir fari að gera mistök.
Mikið andskoti gat ég látið dómarann pirra mig í dag, ég er alveg viss um að þetta var bæði brot á Crouch og lika rangstaða þegar Bolton skoraði seinna markið.
Það var alveg ferlegt að fá tvö aulamörk á sig í leiknum, þau fást ekki ódýrari.
En samt sem áður frábær karakter hjá liðinu að koma til baka og jafna. Ég get svo sem ekki kvartað yfir úrslitunum, ég einhvern veginn bjóst við þeim. En andskotinn við áttum samt að vinna þetta drullulið í leiknum.
Nú sá ég ekki leikinn en las þó að gerrard hefði stigið á Nolan í leiknum og einnig sissoko á Diouf, og að gerrard atvikið hefði þó sérstaklega verið heldur gróft.
Í tilviki Gerrard á móti Nolan þá gat Gerrard ekki gert annað en að stíga á hann þarsem hann dettur undir Gerrard og ekki séns fyrir hann að stíga annars staðar en á hann einhversstaðar.
Já, nákvæmlega – ég veit að ég er Gerrard aðdáandi og er því ekki alveg hlutlaus, en mér fannst hann ekki geta gert neitt í brotinu á Nolan. Gerrard var (að mig minnir) að stökkva uppúr tæklingu, Nolan rennur undir hann, og Gerrard lendir á honum.
Varðandi Sissoko og brotið á Diouf, þá hélt Diouf boltanum þegar hann lá í jörðinni og Sissoko braut á honum. Hann hefði átt að fá gult spjald, en svo fékk hann gult spjald nokkru síðar fyrir afskaplega lítið brot, þannig að dómarinn hefur eflaust munað eftir því (eða allavegana man ég atburðarásina svona).
Ég er sammála FDM, það var greinilega enginn ásetningur hjá Gerrard !
Annars fannst mér frá fyrstu mínútu eitthvað skrítið í gangi hjá LFC, þeir virkuðu ekki nærri eins áhveðnir eins og undanfarið og tilfinningin sem ég fékk var að þetta yrði basl leikur.
Persónulega kenni ég Hyypia algerlega um fyrsta markið og ég get ekki sagt að mér hafi fundist að brotið hafi verið á Reina í því marki !
Annars var þessi leikur hræðilegur að mörgu leiti fyrir Hyypia, hann gerði mörg mistök og svo var mjög áberandi hversu seinn hann er á sprettinum þegar hann var að elta Diouf.
En svona er þetta bara, það hlaut að koma að þessu en djöfull er ég samt ánægður með að við komum tvisvar til baka í leiknum og að við erum brjálaðir með jafntefli, fyrir góðum mánuði síðan hefðum við verið sáttir við það :blush:
Þá er bara að vona að Arsenal taki Manure á morgun því að það er alveg ljóst að keppnin stendur nú um annað sætið í deildinni !
Einar Örn, þú mátt túlka rit mín eins og þú vilt. Samt sem áður finnst ég mér hafa rétt til þess að kalla manninn slíkum nöfnum, þegar mér finnst hann í andlegum þroska mesta lagi vera jafningi þess. Maðurinn ber enga virðingu hvorki fyrir íþróttinni, liðsfélugum, mótspilurum og áhorfendum.
Þar sem skrift þessi fer fyrir brjóstið á þér skal ég af tillitsemi við þig og aðra lesendur ritskoða sjálfan mig áður en ég staðfesti skoðanir mínar.
Einar, þú mátt kalla hann fífl og fávita og öllum þeim nöfnum. En hitt fannst mér ekki við hæfi, sérstaklega þar sem við höfum hér harðlega gagnrýnt þá áhorfendur, sem hafa gert apahljóð á völlunum þegar að Cisse eða Heskey hafa verið að spila í Austur-Evrópu.
Það getur vel verið að apakommentið hafi ekki verið hugsað sem rasismi hjá þér, en í tengslum við það, sem ég minnist á hér að ofan, þá finnst mér það vera það.
Það er orðið aaansi langt síðan við ritskoðuðum ummæli, þannig að við látum nánast allt ganga hérna. En þetta var too much (að mínu mati) og ég vona að þú sýnir því skilning.
Jú Árni, ég er alveg sammála þér að Traoré sé ekki nógu góður fyrir þetta lið, það er bara alveg á hreinu.
Ég fékk strax vonda tilfiningu fyrir leiknum þegar ég sá liðsuppstillinguna.
1. Traoré er að mínu mati sá sísti af okkar vinstri bakvörðum
2. Sissoko og Hamann á miðjuni, bíddu hva vorum við að spila á móti Barcelona, þeir eru báðir með mjög takmarkað frammlag til sóknarinnar, báðir alveg 100% sitjandi miðjumenn. Og eiga ekki að taka báðar miðju stöðurnar á móti Bolton.
3. Of mikil rótering á liðinu miðað við hvað þetta var erfiður leikur, ef Rafa hefur ætlað að hvíla menn eins og Alonso hefði það verið betra í síðasta leik á móti W.B.A. Alonso er bara svo rosalega mikilvægur fyrir okkur, sérstaklega á útivöllum þar sem hanns baneitruðu sendingar geta gjörsamlega upp úr þurru gert mark.
Vil sammt benda á að þetta eru bara mínar hugleiðingar og ég vil ekki með neinu móti gagnrína Rafa því hann er snillingur frá A-Ö.
Jæja nú er Josemi farinn og ég mindi ekki syrgja það mikið ef Traoré yrði næstur til að víkja fyrir betri leikmanni. Hann er ekki nógu góður fyrir Liverpool. Er það?
Hey….annar Doddi hérna….hmm? Jæja, anyways, sá ekki leikinn og fyrirfram hefði maður átt að vera glaður með eitt stig frá Reebok. Heyrist samt á flestum að stigin hefðu átt að vera þrjú – og geri fastlega ráð fyrir því að þar ríki hlutleysi…
Við verðum bara að koma fílefldir til baka og fara að vinna aftur. Við getum náð Man U að stigum en markatalan okkar er lakari. Engar árar í bát, heldur nota spælinguna til að kalla fram sigra í næstu leikjum.
Áfram Liverpool!
Nú er ég búinn að fylgjast með þessari síðu nú í soldin tíma, og hefur fundist menn ná að horfa ótrúlega óhlutdrægt á málin, miðað við það hversu miklir l´pool aðdáendur þið eruð. En mér finnst menn fara aðeins fram úr sér hérna, Bolton hefði getað fengið allavega eina vítaspyrnu. Þegar Carra tók (var það ekki Davies??) og tæklaði kappan niður í teignum, oft hefur maður nú séð víti dæmt í þessari aðstöðu, og ef að þetta hefði verið hinu megin þá væru skrifin öðruvísi hérna. Fyrra markið var bara klúður frá upphafi til enda enginn sjáanleg brot sem að þess virði er að væla yfir. Seinna markið var bara sóknarmaður nýtur vafans!! Eitthvað sem að hefur alveg vantað í boltann hingað til er að leyfa sóknarmönnunum aðeins að dansa á limmini. Guð veit hvað varnarmenn komast upp með í viðskiptum sínum við sóknarmenn. Já strákar Diouf er bara svona og það þýðir ekki að pirra sig yfir honum. Niðurstaðan er einföld Bolton spilaði sinn bolta og gerðu betur en liverpool, óheppni að skora ekki úr einhverju af þessum skotum utan af velli en svona er nú boltinn. Og jú ég er Liverpool aðdáandi og þakka f´rabæra síðu og haldið áfram þessu frábæra verki.
Jón Frímann, svo ég vitni í sjálfan mig:
>Brotið Carra á Davies hefði hugsanlega getað verið vítaspyrna.
Varðandi fyrra markið þá set ég aðallega spurningarmerki við aukaspyrnuna, sem leiddi til marksins.
>Seinna markið var bara sóknarmaður nýtur vafans!! Eitthvað sem að hefur alveg vantað í boltann hingað til er að leyfa sóknarmönnunum aðeins að dansa á limmini. Guð veit hvað varnarmenn komast upp með í viðskiptum sínum við sóknarmenn.
Hvað meinarðu með því? Það var brotið á Peter Crouch. Hefði hann þá sem sóknarmaður átt að njóta vafans.
Annars held ég að við höfum tvisvar á þessari leiktíð kvartað yfir dómara í leikskýrslum, þannig að við gerum það ekki nema okkur sé verulega misboðið. Það voru tvö atriði, sem féllu okkur í hag – það er brotið hjá Carra (þó það hefði ekki nauðsynlega verið vítaspyrna, þá hefði verið hægt að dæma hana. Og að Sissoko hafi sloppið við spjald – en hann fékk þó spjald örstuttu seinna.
Öll önnur vafa-atriði féllu Bolton í hag.
Benitez lætur nú Traoré oftast vera í vinstri bakverði þegar hann er að keppa á móti betri liðum (eins og hann gerði á móti Chelsea og núna Bolton). Því myndi ég halda að honum finnist hann vera besti varnarmaðurinn af þeim vinstri bakvörðum sem hann hefur úr að velja þó að Riise og Warnock séu betri sóknarlega.
Þetta er a.m.k. mín kenning… I might be wrong, or I might be right.
Annars hef ég alltaf haft ágætar mætur á Traoré og finnst hann vera fínn leikmaður.
Næstu leikir í deildinni: 14. jan Tottenham og 22. jan man u. Var ekki bara fínt að fá “smá skell” fyrir þessa leiki, fá hungrið aðeins uppí mönnum aftur, það vill oft verða að þegar að svona sigur ganga gnegur yfir að þá gleyma menn sér aðeins, ekki að það þurfi að mótivera leikmenn Liverpool mikið fyrir leikina við man u eða eins og sir ferguson sagði: “Ég lít á leikina við Liverpool sem stór leiki frekar en leikina við Chelsea og Arsenal, þó ekki væri nema bara vegna þeirrar stórkostlegrar sögu sem þau eiga að baki”, klassa maður þar á ferð miðað við Móró hjá Chelsea og Wælir hjá Arsenal. Takk enn og aftur fyrir síðuna og umræðu hornið hérna á henni.
Áramótakveðjur Stjáni