Það hefur oft verið talað um það hérna á Kop.is hvort glasið sé hálf fullt eða hálf tómt. Ég verð bara að segja alveg eins og er að þetta hefur frekar snúist um að glasið sé galtómt eða hreinlega fullt, öfgarnar hafa verið þvílíkar undanfarið að það hálfa væri heill hellingur. Á aðra höndina er liðið hreinn hryllingur, meðalmennskan uppmáluð og stútfullt af leikmönnum sem ekkert geta og listar yfir “drasl” sem má henda poppa upp reglulega. Svo eru reyndar sumir (reyndar ekki margir þessa dagana) sem sjá okkar menn vera þá bestu í sínum stöðum sem möguleiki er á. Svona er þetta bara og svona verður það líklega áfram. Það eru nefninlega miklar tilfinningar í spilunum þegar kemur að fótboltanum, og það er einmitt það sem gerir hann svona skemmtilegan.
Ég held að það reyni enginn að halda því fram að Liverpool sé að fara að keppa um titilinn á þessu tímabili. Umrótið hjá félaginu hefur bara verið of mikið undanfarin ár til þess að það sé einhver möguleiki á slíku. En af hverju getum við ekki horft á stöðuna eins og hún er í dag? Það þýðir einfaldlega ekkert að berja höfðinu við steininn og bíða eftir því að hundruðum milljóna punda verði hent í leikmannakaup, það er bara ekki veruleikinn í dag. Það eru ekki mörg félög í heiminum sem hafa þessa svokölluðu Suger Daddy’s, hreinlega örfá. Við sjáum stórveldi í boltanum til margra ára ströggla verulega við að halda í við þróun fótboltans. Ítölsku risarnir hafa hrunið (reyndar eru Juventus að rísa upp á ný) og á Spáni heldur tveggja turna baráttan áfram. Skærustu stjörnurnar eru pikkaðar upp í kippum og hin liðin þurfa að reyna að beita skynsemi og hirða upp góða mola sem eftir verða.
Það verður ekki horft framhjá því að stór mistök voru gerð undir lok síðasta leikmannaglugga, mjög stór. Ég er ennþá á því að þar hafi margir þættir spilað inn í og ekki einhver einn sökudólgur þar á ferðinni. Það eina sem hægt er að gera núna er að reyna að læra af þeim mistökum, því þeim verður bara alls ekki breytt. Við vitum hvaða lið mun spila fram í janúar og nú er bara að gera sem best úr því sem úr er að moða. Ég er einnig á því að það er langt því frá að lið Liverpool í dag sé skipað eintómum meðalskussum. Það er landsliðsmaður í nánast hverri stöðu á vellinum, á bekknum og fyrir utan hóp þegar allir eru heilir. Fulham, Everton og þessi lið sem menn tala um að séu á svipuðum standard og okkar lið, eru að mínu mati með mun veikari hópa og vonandi á það eftir að koma betur og betur í ljós þegar líður á tímabilið og menn fara að læra inn á það kerfi sem Brendan Rodgers vill að menn spili.
Það þýðir ekkert á þessum tímapunkti að miða liðið við hópa hjá liðum eins og Man.City, Chelsea og Man.Utd, þau eru bara einfaldlega með lang sterkustu hópana í dag. Ég er á því að við séum á sömu slóðum þegar kemur að leikmannahópum, og Arsenal og Tottenham. Hvort við náum að skáka þeim á þessu tímabili eða ekki, það er ekkert víst. En það sem er algjörlega á tæru er að það er verið að byggja upp lið á Anfield til framtíðar og vonandi ekki of langt í að það byrji að skila sér í betri árangri inni á vellinum. Maður þreytist seint á því að draga fram stöðuna á félaginu sem var uppi fyrir um tveimur árum síðan. Korter í gjaldþrot, ekkert flóknara en það. Skuldum vafið félag eftir ömurlega skuldsetta yfirtöku trúðanna sem þá “áttu” félagið. Í dag er allt annað uppi á teningnum, þrátt fyrir að núverandi eigendur hafi ekki hent endalausum peningum inn í reksturinn. Félagið er allavega nánast skuldlaust og búið að hreinsa til og sópa úr nokkrum hornum, þó allt sé ekki búið enn. Enn eru nokkrir fjarstæðukenndir samningar í gangi og hreinlega galið að hugsa til þess að þrír nýjir leikmenn, Allen, Assaidi og Borini séu samtals á jafn háum launum og Maxi var á.
Auðvitað vilja allir stuðningsmenn félagsins að liðið sé í toppbaráttunni og að berjast um alla þá titla sem í boði eru. Metnaðurinn er ennþá til staðar og þó svo að leikmannahópurinn sé sterkur, þá er klárt mál að sumar stöður í liðinu þarf að styrkja. En það er gagnslaust nema eitthvað plan sé í gangi, það þarf að fá inn menn sem falla inn í þessa áætlun. Við eigum eftir að sjá slatta af leikmönnum sem við viljum fá, fara annað, klárt mál. Í boltanum í dag þá snýst allt fyrst og síðast um peninga og hafir þú ekki endalaust af þeim, þá er bara eitt að gera, og það er að gera þetta af skynsemi og útsjónarsemi. Akkúrat það hafa til að mynda Wenger og Arsenal gert síðustu árin. Þeir hafa lent í þeirri ömurlegu hringavitleysu að þurfa að selja sína bestu menn frá sér á hverju tímabili, en alltaf ná þeir í nýja mola sem slá í gegn. Það sem þá hefur vantað upp á til að dæmið gangi endanlega upp er að halda sínum mannskap og það hefur verið að takast hjá okkar mönnum undanfarið, þ.e.a.s. eftir nýtt eignarhald á félaginu. Lykilmenn hafa verið að skrifa undir langtíma samninga og þeim ekki leyft að detta á síðasta ár eins og gerst hefur nokkuð oft hjá Arsenal.
Glasið er nefninlega langt frá því að vera tómt, það er líka talsvert frá því að vera fullt, en það er ekki heldur bara hálft. Það má segja að aðeins Carra sé kominn á aldur, þó svo að alltaf styttist í ferlinum hjá fyrirliðanum okkar. Aðrir leikmenn eru á besta fótboltaaldri og þar fyrir neðan, sem sagt, leikmannahópurinn er sterkur. Ég hugsa dæmið oft þannig þegar ég er að fara yfir það hvernig við stöndum að vígi gagnvart andstæðingum okkar, hvaða leikmenn þeirra kæmu til með að styrkja byrjunarlið okkar? Sem sagt kæmu inn með meiri gæði en leikmaðurinn sem fyrir er í viðkomandi stöðu. Það er alltaf hægt að finna einn og einn, en ekki marga fyrir utan þessi þrjú lið sem ég tel vera í sérflokki þegar kemur að leikmannahópum. Eins er hægt að hugsa þetta í hina áttina, okkar menn inn í hin liðin. Útfrá þessu vil ég meina að leikmannahópur Liverpool FC sé á pari við Tottenham og Arsenal (besta byrjunarlið Newcastle reyndar ansi sterkt), á eftir Chelsea, Man.City og Man.Utd og talsvert fyrir ofan önnur lið í deildinni.
Nú mun þetta bara snúast um það hvernig Brendan Rodgers tekst til með að stokka þennan hóp okkar saman og þegar horft er til framtíðar, hvernig hann nær að styrkja þær stöður sem þurfa á styrkingu að halda. Liðið á eftir að misstíga sig í vetur, alveg pottþétt mál og það nokkrum sinnum. Það verður hreinlega ekki hjá því komist. En ég er algjörlega harðákveðinn í því að horfa björtum augum á framtíð félagsins og njóta þess að horfa á liðið spila í vetur því ég er gjörsamlega handviss um það að loksins sé félagið í heild sinni komið á rétta leið á nýjan leik. Maður mun fussa og frussa yfir slökum frammistöðum liðsins eða einstaka manna í liðinu í vetur og gleðjast óendanlega þess á milli, en gamla tuggan um þolinmæði á svo sannarlega við og eins að Róm var ekki byggð á hverjum degi (eða einhvern veginn þannig). Við stuðningsmenn verðum áfram ósammála um einstaka hluti, þannig er það og þannig mun það verða, en munum eitt, við viljum öll það sama. Reynum samt sem áður að varast það að brjóta allt niður þegar á móti blæs og kannski tapa sér ekki algjörlega í gleðinni þegar vel gengur. Ræðum málin en reynum að hafa smá vott af skynsemi þegar við gerum það.
Liverpool FC er fótboltafélag og menn þurfa að vinna sem ein heild, hvort sem um ræðir eigendur, stjórnendur, þjálfara, leikmenn eða stuðningsmenn.
Loksins er nú þessu landsleikjahléi lokið, það var einfaldlega að gera mig brjálaðan og maður getur ekki beðið eftir að deildin hefjist að nýju um helgina. Sunderland á laugardaginn og mikið skelfilega vona ég að þrjú stig lendi í hús og að þar með komist tímabilið okkar á skrið.
Góður pistill hjá SSteini. Með árunum hef ég alltaf orðið meira og meira sammála honum, sérstaklega á það þó við í podkastinu.
Ég held að eftir nokkur ár muni fólk sjá að akkúrat þetta tímabil hafi verið það mikilvægasta hjá okkur í langan tíma. Við erum með toppleikmenn þó breidd vanti – veturinn í vetur er tiltölulega pressulaus og snýst um að gera ungu leikmennina betri sem og að koma liðinu í keppnishæfa stöðu fyrir næsta vetur. Ég hef trú á að BR muni gera það og að liðið muni bæta sig mjög yfir veturinn, jafnt og þétt.
Við stöndum alltaf af okkur strominn. Áfram Liverpool!
Flott grein og ég er allveg samála þér svo hef ég bullandi trú á Rogers og þetta er tímabilið til að fá þessa gutta inn úr unglinga starfinu við verðum bara að horfa fram ekki aftur! áfram Liverpool!
Hef mikla trú á framtíð Liverpool og læt mig hana varða sem stuðningsmaður.
Ég tel hinsvegar að umræða sem er blönduð af skynsemi og öfgum sér mjög skemmtileg.. Daginn sem umræðan um klúbbinn okkar verður flöt er dagurinn sem síður á borð við KOP.is verða commentalausar. Mér finnst allt í lagi að menn komi frá sér sinni líðan varðandi klúbbinn og allt sem hann snertir. Hvort sem menn eru að drepast úr gleði eða svartsýni. Stundum á maður bara ekki til orð hvað okkar menn eru ótrúlega góðir í fótbolta og stundum er maður bara þrumulostinn yfir því að okkar menn hreinlega hafi gleymt því hvernig á að spila fótbolta. Ég mun alltaf styðja skrautlega umræðu og stundum ekkert svo svakalaega málefnalega , svo lengi að inn á milli sé hún mjög málefnaleg. Hinvegar mun ég aldrei styðja blammeringar á comment annarra einstaklinga eða persónulegar árásir.
Ég held að málið sé að það er verið að hella í glasið, oft eru það nú einmitt besta “mómentið” Við skulum taka því þannig og njóta
Kom þessi pistilll ekki fyrir nokkrum dögum? Mig minnir það en ég finn hann ekki.
Jú, rétt Kalli, ég skrifaði hann á mánudagskvöldið, setti hann inn á þriðjudagsmorgun, en svo kom Hillsborough dæmið allt þann daginn og mér fannst ekki viðeigandi að hafa pistil inni um annað en það mál þann daginn og tók hann því út aftur.
Það er komið smá gin í glasið, tonicið er allt eftir. Það var samt einhver af eigendunum sem henti sítrónunni útí í lok leikmannagluggans og maður er enn hálf súr eftir hann, en shit happens.
Erfiður leikur um helgina. Það er alltaf erfitt að mæta liðum sem Martin O´Neil stjórnar. Maður verður að vona það besta, eins og alltaf.
YNWA
Áfram Liverpool!
Er í bjartsýniskasti, ég held að þetta verði nokkuð stór sigur hjá okkur á morgun 1-3, einhvern veginn finn ég það á mér. Vill meina að glasið sé hálf fullt, smá samæfing og 2 sóknarmenn í hópinn og við getum farið að keppa um topp 4.
Góða helgi.
Fyrir þá sem hafa áhuga hefur fyrsti þáttur af heimildamyndaröðinni Being Liverpool lekið á netið: http://vimeo.com/49443761
Fyrsti þátturinn lofar góðu – mjög vönduð og persónuleg sýn á liðið og liðsmennina.
Glasið er hálftómt ef miðað er við gengi liðsins síðustu ára.En glasið er barmafullt ef maður lítur á sögu liðsins,núverandi uppbyggingu svo maður tali nú ekki um karakter stuðningsmanna.
En ef við lítum á leikinn á morgun þá er það aðalmálið að fara að halda hreinu.Spurningin er verður það hægt með 4-3-3.Alltaf hræddur við Martin oneill.Vonandi fer sigurganga liðsins af stað með þessum leik.Y.N.W.A
Flottur pistill Steini.
Er samt SANNFÆRÐUR um það að eigendurnir og bara þeir klikkuðu siðasta dag gluggans og reyndar er svo skithrlddur um að þeir fari með felagið nkl eins og fyrri eigendur að það halfa vlri nog.
Það er margt mjog jakvætt hja felaginu okkar, hef rosalega tru a stjoranum okkar en hef ahyggjur af þvi að dæmið hja honum gæti klikkað og þa eingongu ef hann fær ekki fullann stuðning eigendanna. Eigendurnir hafa klarlega brugðist honum i sumar og það liklega oftar en einu sinni og það er mjog mikið ahyggjuefni.
Hef það a tilfinningunni að þetta timabil standi og falli með þvi hvort Sahin finnur sig eða ekki, ef hann spilar jafn vel og i Þyskalandi og fer að leggja upp og skora mork held eg að liðið gæti nað finum arangri i vetur en hins vegar ef Sahin mun ekki finna sig hef eg miklar ahyggjur af soknarleiknum. Held að best se að setja Gerrard út hægra megin og nota þa Allenn, Sahin og Shelvey a miðjunni.
Okkur hefur ekki gengið vel i siðustu leikjum gegn Sunderland og eg er skithræddur við leikinn a morgun. Vona samt það besta og kannski komin timi til að okkar menn haldi hreinu og skori nokkur mork til tilbreytingar.
Horfði á pilotinn að af Being: Liverpool. Mjög svo góður og skemmtilegur þáttur og gefur manni góða sýn á líf leikmanna og hugsjón Brendan Rodgers. Hlakka mikið til að sjá næsta þátt!
Var að horfa á þáttinn þegar honum var deletað af síðunni. Átti tíu mín eftir…en þetta var fínt svo sem. Ekki jafn hrikalegt og ég hafði kviðið fyrir.
…En guð minn góður hvað Brendan Rodgers finnst gaman að tala. Ég sveiflast sífellt í skoðun á þessum manni. Í t.d. þessum þætti þá finnst mér ég vera horfa á þátt af The Office. Langar stundum að biðja hann að tala aaaaaaðððeins minna. Myndin af honum í stofunni hjá sér var t.d. ótrúlega súrt dæmi.
Maðurinn talar eins og legend og eru “fight for my life” / “train dogs” dæmi um setningar sem hann reynir að troða í sem flest viðtöl. Mjög Shankly-legur talandi á honum.
Ég vona stöðugt að þetta sé hinn nýji Shankly og allt sem að hann talar um verði framtíðar kvót á bannerum í Nýja Anfield en ég verð alltaf meira og meira efins á honum.
…en hey! fótboltinn hans er allavegna skemmtilegur og þetta verður mjög skemmtilegt tímabil, hvernig sem gengur!!! Þetta er allt saman svolítið nuts.
Hér er Þátturinn fyrir þá sem ekke eru búnir að sjá hann.
Auðvitað horfum við á glasið okkar hálffullt, við bara breytum um drykk!
Við erum ekki að fara að keppa af alvöru um titil, það er klárt og ég held við séum ekki að fara að berjast af krafti um Meistaradeildarsæti. Því miður.
En þá er bara að horfa á hitt og treysta á að sýn Rodgers, leikstíll og áherslur muni skila okkur fram á veginn og fyllum glasið af þeim drykk. Eftir 1.september þá er bara ekkert annað í boði en að hálffylla glasið, bölva því sem að baki er og sjá jákvætt út úr liðinu sínu. Auðvitað getum við geymt í bakhnakkanum ýmislegt en að sjálfsögðu er þá núna kominn tími á að hleypa ungum mönnum að og byggja liðið og klúbbinn upp í gegnum það.
Var að horfa á FRÁBÆRAN sigur U-21s árs liðs okkar gegn Chelsea á útivelli. 1-4 sigur í flottum fótboltaleik þar sem við hreinlega rúlluðum yfir flott Chelsealið. Sá nýja Þjóðverjann, hann var flottur að koma sér í færi sem hann svo því miður nýtti ekki vel en er örugglega leikmaður sem verður gaman að fylgjast með. En Robinson, Visdom, Adorjan og Morgan voru þeir sem ég horfði mest eftir að við ættum að sjá í Europa League og svo er leikmaður í U-18 ára liðinu okkar sem spilar líka með U-21 sem ég vill bara fara að sjá í hópnum.
Sá heitir Michael Ngoo og var leikmaður sem Benitez sjálfur vildi kaupa 15 ára frá Southend. Hann kom inná í stöðunni 0-0 þegar hálftími var eftir (í stað nýliðans) og varnarmenn Chelsea réðu EKKERT við þennan stóra strák sem er gríðarlega góður með boltann miðað við líkamsvöxt og skoraði flott mark í lokin. Þessi strákur er ekki mjög hraður en allt annað held ég að geti gengið líkamlega. Stór, sterkur, áræðinn og með mikið sjálfstraust.
Svo við fyllum glasið, af ungum mönnum, og sættum okkur við kosti þess og galla að vera með mikið af svoleiðis leikmönnum.
Ekki nokkur spurning!
Sammála síðasta ræðumanni,Adorjan og Ngoo bestu menn vallarins.Morgan átti til að missa boltann oft klaufalega en átti fína spretti inn á milli,framtíðin er björt:)
Takk fyrir SSteinn .
Ég ætla að verða bjartsýnn á framtíðina og hugsa jákvætt til okkar manna.
Er nokkuð viss um að við séum á réttri leið þrátt fyrir áföll.
Við erum BESTI KLÚBBURINN. ÁFRAM LIVERPOOL.