Hillsborough og nýji Anfield

manager_dalglish.jpgÉg mæli sterklega með grein einni sem birtist í dag á opinberu síðunni: Hillsborough will stay with me forever.

Greinin er í raun bara útdráttur úr kafla í sjálfsævisögu **Kenny Dalglish** sem kom út fyrir nokkrum árum. Ég veit ekkert hvenær hún kom út nákvæmlega, og vissi reyndar ekki að hann hefði skrifað sögu sína, en eftir að hafa lesið þessa grein dauðlangar mig til að lesa restina af bókinni og ég er jafnvel að spá í að skella mér á hana í sumar. King Kenny er, fyrir mér, frekar skrýtinn karakter í sögu Liverpool af því að hann er á hátindi ferils síns þegar ég er rétt svo of ungur til að muna eftir fótboltahetjum þess tíma, og hann hættir sem stjóri Liverpool svona nokkurn veginn *rétt áður* en ég fer að muna eftir nokkru. Mín fyrsta minning um Liverpool er að hafa horft á 2-0 tapleikinn fyrir Arsenal, þar sem Michael Thomas skoraði gegn okkur og við töpuðum titlinum til þeirra. Og ég er enginn harður Liverpool-sagnfræðingur, en ég *held* að það sé einu eða ári eftir að Dalglish hætti með liðið og Hillsborough gerðist.

Allavega, þannig að ég er rétt of ungur til að muna almennilega eftir Hillsborough. Ég er fæddur 1980. Einar Örn, til dæmis, er tveimur árum eldri en ég og man því örugglega eftir Hillsborough, og þá væntanlega Aggi líka sem er enn eldri. Hjalti er yngri en ég og ætti því eðlilega ekki að muna neitt frekar en ég.

Þannig að, fyrir mann eins og mig sem hefur séð vídjóspólur um atburðinn og sögu Liverpool fyrir mína tíð, og lesið bílhlass af greinum um þennan mikla harmleik, þá fannst mér þessi grein Dalglish stórmerkileg. Ég myndi velja úr henni góða tilvitnun og vitna í hann hér, en textinn í heild sinni er svo stórmerkilegur að ég held að fólk ætti bara að lesa hann *allan*. Frásögn Dalglish af deginum og næstu dögum á eftir er slík að mér fannst eftir að hafa lesið hana algjörlega rétt af honum að hafa hætt sem stjóri Liverpool í kjölfarið. Það var ákvörðun sem ég hafði aldrei skilið til fulls, ég áttaði mig á því að hann treysti sér ekki til að halda áfram, en í þessari grein virkilega *skynjar maður* sjálfur að það var honum ómögulegt að halda áfram.

Frábær grein, endilega lesið hana. Á laugardaginn eru liðin sautján ár síðan þessi mikli harmleikur átti sér stað, sem er ástæðan fyrir því að leikur Liverpool og Blackburn Rovers var færður yfir á sunnudaginn. Þannig að mitt í allri páskagleðinni á laugardaginn, þar sem þið setjist í sófann heima hjá ykkur og horfið á hina leikina í Úrvalsdeildinni, gefið ykkur þá smá tíma til að minnast þess *hvers vegna Liverpool eru ekki að spila þann daginn*.


inside_newstadium.jpgÍ aðeins meira upplífgandi fréttum, þá hefur klúbburinn fengið ‘endur-samþykki’ borgarstjórnar Liverpool-borgar fyrir áætluðum byggingum á nýjum heimavelli liðsins. Fyrra samþykkið var veitt í fyrra en síðan voru sett ný byggingar-lög í Englandi, og því þurfti að sækja um aftur til að fá fullvissu fyrir því að völlurinn stæðist nýju lögin líka.

En allavega, nú er það gengið í gegn og því er klúbbnum frjálst að hefja framkvæmdir þá og þegar þeim hentar, skilst manni. Enn er þó *smámál* ófrágengið, en það er með kostnaðinn á vellinum sem mun kosta um 160 milljónir punda (áætlað, og kostnaður verður örugglega meiri en það). Þannig að allt tal um að fá fjárfesta í klúbbinn er ekki bara til að láta Rafa fá pening til leikmannakaupa, heldur líka til að hægt sé að byggja nýjan völl. Peningar vaxa ekki á trjánum, sko.

Spurning hvort við getum ekki splæst saman í tombólu eða eitthvað? Fimmtíu þúsund krónur eru kannski ekki mikill peningur fyrir okkur, en það gæti gert gæfumuninn hjá klúbbnum. 😉

7 Comments

  1. Eitt sem ég skil ekki í þessu vallarmáli er hvernig upphæð sem er 80m í byrjun geti hækkað í 160m (jafnvel meira) á rúmu ári! Ég er hvorki byggingarverktaki eða með neitt vit á svona löguðu, en mér finnst vera virkilegur þefur af þessu! Hvernig getur svona hlutur blásið út um auka 80m punda (10.432.240.000 ISK)?? Hlýtur að vera eitthvað verulega vanhugað á bak við þessa upprunalegu tölu. Hvað kostaði völlurinn hjá Arsenal t.d. nú eða leikvangurinn sem Bayern byggði? Frekar fishy mál að mínu mati.

  2. Hillsborough var sama ár og Mic***l Th***s markið. Þetta voru undarúrslitin í bikarnum – við unnum síðan Everton í mögnuðum 3-2 úrslitaleik.

    Dalgleish var manager liðsins þegar þetta var.

  3. Þetta var stórfurðulegt ár þegar við töpuðum 0-2 á heimavelli fyrir Arsenal, Hillsborough slysið var náttúrulega ömurlegur atburður og síðan kom magnaður úrslitaleikur gegn Everton.
    Liverpool 3 – 2 Everton
    Hérna koma staðreyndir um þann leik:
    Leikurinn fór fram 20. maí 1989 á Wembley. Það var massagott veður og yfir 80 þús. manns á vellinum.
    Byrjunarliðið:
    Grobbelaar

    Nicol – Ablett – Hansen – Staunton

    Houghton – Whelan – McMahon – Barnes

    Aldridge – Beardsley

    Varamenn: Venison (kom inná fyrir Staunton á 91. mín) og Rush (kom inná fyrir Aldridge á 72. mín).

    Mörkin skoruðu þeir John Aldridge á 4 mín. og síðan Ian Rush á 94. mín og 103. mín. Fyrir Everton skoraði Stuart McCall bæði mörkin (gerði síðan garðinn frægan með Bradford City).

  4. Bæði Hillsborough og tapið fyrir Arsenal var vorið 1989. Liverpool varð svo enskur meistari 1990 (sem er síðasta skiptið sem þeir unnu fram að þessu a.m.k), Dalglish segir svo af sér í byrjun árs 1991.

    Nú er ég sjálfur fæddur 1989 svo það gætu verið villur í þessu en ég er nokkuð viss um þetta.

  5. Snorri þetta ku vera rétt hjá þér. Svona leit lokataflan út þessi tvö ár:
    88-89:
    Lið: Leikir: Mörk: Stig:
    Arsenal 38 73-36 76
    LFC 38 65-28 76
    89-90:
    LFC 38 78-37 79
    Aston V. 38 57-38 70

  6. Finnst engum glatað og ömurlega skammsýnt að vera að byggja 60.000 manna völl(án stækkunarmöguleika) fyrir þennan pening? Eftir að við klárum þennan leikvang erum við enn ca. 20.000 sætum á eftir ManUre. 😡

Gonzalez og atvinnuleyfið

Raúl?