Rafa Benítez er nýr knattspyrnustjóri Chelsea (staðfest)!

Ég hef þetta stutt og laggott hérna efst þar sem við erum enn að ræða upphitun fyrir leik Liverpool í næstu færslu. En smellið hér fyrir neðan til að lesa meira um þetta mál.

Rafa Benítez hefur verið ráðinn nýr knattspyrnustjóri Chelsea FC. Lesið þetta tvisvar. Rafa er nýr stjóri Chelsea.

Á meðan maður reynir að melta þessar fréttir langar mig að koma með nokkra punkta:

Í fyrsta lagi, þá skuldar Rafa Benítez Liverpool ekki rassgat. Ég frábið mér öllu tali um að hann sé á einhvern hátt að svíkja lit með þessu. Hann var rekinn frá Liverpool, við hávær mótmæli stórs hluta stuðningsmanna, fyrir tveimur og hálfu ári. Eftir misheppnaða tilraun til að taka við Inter hefur hann svo verið atvinnulaus í tvö ár.

Þann tíma hefur hann notað til að búa í Liverpool-borg með fjölskyldu sinni, ala stelpur sínar upp sem Scousera, hjálpa konu sinni við rekstur góðgerðarstarfsemi hennar, styðja önnur málefni á Mersey-svæðinu, skrifa bók um tíma sinn hjá Liverpool og bara almennt að bíða og vona að glugginn á Liverpool-stjórastöðuna opnaðist aftur.

Það gerðist þó aldrei og eftir alla þessa bið getum við ekki á neinn hátt álasað Rafa fyrir að stökkva á þetta tækifæri. Það eru engin svik í gangi hér. Ég óska honum alls hins besta.

Í öðru lagi, þá á Rafa þetta fyllilega skilið. Eftir að hafa verið svikinn um fjárfestingu til jafns við önnur topplið hjá Valencia, Liverpool og Inter er einfaldlega kominn tími á að hann fái að spreyta sig hjá einu af ríkustu liðum veraldar þar sem peningar eru lítil eða engin fyrirstaða. Hann fær það tækifæri núna.

Í þriðja lagi, þá eiga stuðningsmenn Chelsea þennan stjóra ekki skilið. Bara viðbrögð þeirra á Twitter og í fjölmiðlum í dag bera þess merki að hann er vægast sagt illa liðinn og það er jafnvel búist við að þeir muni baula á hann á sunnudag þegar Manchester City kemur í heimsókn á Stamford Bridge. Ef það gerist eru þeir endanlega búnir að stimpla sig út sem einhver alvöru stuðningsmannahópur að mínu mati. Ég veit ekki hvort Rafa nær árangri eða ekki með þetta lið, mig grunar að hann geri það, en ef hann gerir það þá verður það meira en þessir skítastuðningsmenn sem bauluðu á Hillsborough-þögninni á Wembley í vor og syngja enn um Rafa sem “fat Spanish waiter” eiga skilið.

Í fjórða lagi, þá ætla ég að vona að Rafa taki deildina og rúlli henni upp. Hvort viljið þið frekar geta fengið uppreisn æru við að sjá Rafa vinna deildina með alvöru leikmannahóp í vor eða sjá hann lúta enn og aftur í lægra haldi gegn Manchester United? Ég vona að Rafa og Chelsea vinni þessa deild og ég vona að þeir vinni hana létt. Svo geta þeir losað sig við hann og haldið áfram að eltast við Guardiola. En á meðan Rafa er þarna vona ég að hann stingi upp í þetta lið svo um muni.

Í hnotskurn: Rafa á þetta skilið, ég vona að honum gangi vel þarna og ég vona að stuðningsmenn þeirra læri sem fyrst að þegja og bera virðingu fyrir því hvaða þjálfari var að detta í fangið á þeim.

Djöfull verður samt skrítið að sjá Rafa stýra Fernando Torres … í blárri treyju. Hef ég nokkuð sagt FOKKIÐ YKKUR TOM HICKS OG GEORGE GILLETT nýlega?

88 Comments

  1. Ég vona líka að Rafa vinni titilinn í vor. Við eigum ekki sjéns og þá vinnur Utd ekki á meðan. Ég vildi fá Rafa aftur eftir Kenny fór og vona að hann fái tækifæri í framtíðinni aftur.

  2. Ég hugsa þetta þannig að það er skárra að Benitez vinni PL heldur en [Ferguson – ritskoðað]. Ef menn ætla að fara grenja yfir þessari ráðningu þá geta þeir eins farið að halda með Chelsea. Það er ekki einsog að Rafa færi aftur til Liverpool.

  3. fokka helvíti, samt ekki við meistara Rafa að sakast……átti aldrei að fara frá okkur……

  4. Ja hérna hér. Ótrúlegt.

    Ég skil ekki alveg að Rafa skuli samþykkja það að vera ráðinn sem tímabundinn þjálfari – finnst það furðulegt.

    En ég er sammála um það að Rafa skuldar Liverpool ekkert. Hann var á lausu í sumar, en Liverpool völdu að hefja nýja tíma með Brendan Rodgers í stað þess að fara aftur í Rafa tímabil. Það var að mínu mati rétt ákvörðun.

    Mikið er ég samt ofboðslega glaður að við erum búnir að fara á Stamford Bridge í vetur – ég er sammála Kristjáni að ég vona að Rafa vinni þessa deild frekar en City eða United.

  5. Get ekki alveg verið sammála mönnum um að ég voni að Chelsea vinni deildina í vor … vona klárlega að það verði City!!

    Það yrði slæmt ef að Chelsea ynni deildina … verra ef að United ynni deildina … en það er öllum drullusama um City…

  6. Hef enga trú á Rafa í þessu verkefni, og ég vona Liverpool vinni deildina.

  7. Þetta er bara hið besta mál. Vona að honum gangi sem best. Skiptir okkur ekki nokkru máli lengur enda tæp þrjú ár síðan hann var kominn á endastöð með Liverpool.

  8. Svo vil ég minna menn á það, að þó svo að Benitez sé umdeildur meðal marga stuðningsmanna Liverpool, þá var það hann sem að setti grunninn af þeim ungu leikmönnum sem að eru að slá í gegn hjá okkur í dag:

    Hann á stóran heiður af starfsemi akademíunnar og hann keypti menn á borð við Sterling … hann fékk Suso til Liverpool þegar hann var korter í að skrifa undir hjá Real Madrid… hann keypti Andre Wisdom til Liverpool…

    Við gætum enn átt eftir að þakka Benitez og hans útsjónarsemi mikið… Þar fyrir utan er þetta bara Chelsea … engar líkur á að hann verði þarna í meira en 1-2 season.

  9. Einar Örn #4

    Ég reyndar skil það alveg að hann samþykkir það, maðurinn búinn að vera atvinnulaus í næstum 2 ár og vill byrja að vinna aftur. Vá hvað ég er samt að HATA það að sjá Benítez stjórna Torres í Chelsea treyju, hryllir við mér… En elska þennan mann, vonandi tekur hann þessa leiðindar plastfána aðdáendur og pakkar þeim saman með því að vinna deildina, hann á það skilið!

  10. Þetta verður eitthvað sérstakt þegar að við mætum þeim næst.

  11. Fyrst fékk Roman Torres síðan Benitez… hvað næst? breyta nafni klúbbsins í Liverpool fc?

  12. Úff… Mèr fannst mjög erfitt að sætta mig við það þegar Torres fór til þeirra. Ég held mêr finnist þetta jafnsárt eða jafnvel verra. Hræddur un að ef hann fái tíma og peninga eigi hann eftir að pakka þessari deild saman. Það er þó ekki víst að hann verði “instant success”, við lentum t.d í 5 sæti á fyrsta árini hans. Tekur tíma a kenna mönnum svæðisvörn líka, og svo er spurning hvernig senior leikmenn og stuðningsmenn Chel

  13. Vantaði restina: hvernig senior leikmenn og stuðningsmenn Chelsea taka honum

  14. Óska Rafa bara alls hins besta með Chelsea enda toppmaður þar á ferð.

    Mér finnst þó leiðinlegt að sjá hann hjá Chelsea en ég er kominn með bestu lausnina á því. Rafa stýrir Chelsea út leiktíðina og svo tekur Móri við og Real ræður Benitez.; ) Það væru allir sáttir við það ekki satt?

  15. Minnir að hann hafi unnið 2 titla með Inter (super cup og heimsm.félagsliða) sem er ekkert svo misheppnað à 6 mànuðum.
    Vona bara að honum gangi vel hvar sem hann er nema à móti Liverpool.

  16. Ömurlegt.

    Bara eitt orð yfir þetta. Algerlega sammála pisli Kristjáns Atla að öllu leyti. Rafael Benitez er án vafa í mínum huga einn af fimm bestu taktíkerum heims og með lið í höndunum eins og nú er hjá CFC, sem smellur inn í 4-2-3-1 kerfið sem hann kann nú heldur betur þá mun hann ná árangri.

    Enn ömurlegra er að sjá viðbrögð “plastaranna” í London, en við vitum öll að álit þeirra á honum mun breytast um leið og gengi liðsins verður betra.

    Ég veit ekki hvað margir hér muna eftir því þegar Dalglish vann titilinn með Blackburn á Anfield. Þann dag leið mér SVO KJÁNALEGA. Að sjá Dalglish fagna og maður gladdist ekki með heldur hugsaði bara “af hverju er þessi maður ekki að stjórna mínu liði”. Svoleiðis verður það líka með Chelsea og Rafa…á hreinu alveg.

    Ég hlakka til að sjá viðbrögð bresku og íslensku pressunnar sem talaði Rafa niður við hvert mögulegt tækifæri og veltu sér upp úr “squad-rotation” og “zonal marking”. Svo bíður maður eftir fyrstu ummælum hans um Rauðnef og Wenger vælukjóa.

    Og það er enn jafn súrrealískt að maður sé ekki að taka afstöðu til þess sem samherji hans. Heldur áhorfandi úr fjarlægð.

    Eins og ég sagði.

    ÖMURLEGT!!!

  17. Ha? En hann hefur verið atvinnulaus í 2 ár og ekkert af stóru liðunum mun nokkurntíma ráða hann. Hvað þá reka stjóra sem var hetja sem leikmaður Chelsea og vann bikarinn og meistaradeildina á nokkrum mánuðum…til að fá Benitez!

    Eða hvað? Er þetta kannski ekki alveg jafn lítið nafn í knattsyrnuheiminum og sumir spekingar hér vilja meina/voru að vona? Það er eitt að sjá stuðningsmenn annara liða gagnrýna Benitez en ég fæ alltaf kjánahroll þegar það kemur frá stuðningsmönnum Liverpool.

    Síðan Dalglish var stjóri Liverpool (fyrri tilraunin) hefur enginn stjóri komist nálægt Benitez hjá okkar liði í árangri og bara einn (Dalglish) náð eins vel til stuðningsmanna utanvallar. Ef við spólum baka til ársins 2009 þá væri það allt að því worst case scenario að hugsa sér Benitez og Torres saman hjá Chelsea aðeins þremur árum seinna, hugsið aðeins út í þetta!

    Ég vona að Liverpool komist eins fljótt og hægt er aftur á stall með þessum liðum og langar ekkert til að halda með Chelsea eða City, vill auðvitað frekar að þau vinni heldur en t.d. United en ég fer ekki að veifa plastfána til að styðja Benitez hjá öðru liði í EPL. Hann á ekkert nema virðingu skilið frá stuðningsmönnum Liverpool og gat ekki gefið okkur meiri séns á að fá sig til baka. Í raun engu við orð Kristjáns Atla að bæta hvað þetta varðar en hann er núna hjá Chelsea og fær ekki stuðning frá Liverpool mönnum á meðan.

    Við fengum tvö tækifæri til að leiðrétta Hodgson Harmleikinn sem Purslow kallaði yfir okkur undir handleiðslu Gillett & Hicks. Mikið djöfull vona ég að við fáum ekki að finna illa fyrir því núna. Treysti á að Roman verði jafn þolinmóður og Moratti (eða hann sjálfur) því Benitez sem stjóri Chelsea mun taka tíma að venjast.

    Sjálfur hef ég samt vanalega aðallega áhyggjur af svonalögðu út frá sjónarhóli Liverpool og mikið óskaplega vona ég að þetta verði ekki til þess að menn eins og t.d. Lucas, Agger, Skrtel,Suso, Sterling eða Reina fari ekki í meira mæli að verða orðaðir við Chelsea.

    Þetta kemur engu að síður töluvert á óvart líka út frá sjónarhóli Benitez, hann hefur sett met í að vinna undir ömurlegum eigendum. Vann deildina tvisvar á Spáni með Valencia og fékk samt ekki stuðning stjórnar, fékk haug af gagnslausum bjánum hjá Liverpool (Parry, Purslow, Hicks og Gillett) og svo Moratti hjá Inter, mann sem hefur ráðið Hodgson tvisvar. Hvernig á þetta að ganga hjá Roman? Hvað þá þegar stuðningsmenn liðsins vilja hann alls ekki og klefinn er þekktur fyrir sína pólitík og barnalegu geðsveiflur. Sjáum til hvernig hann nær til leikmanna Chelsea sem allir eru stór nöfn á stórum samningum.

    Breska pressan mun fara á bakið á honum frá degi eitt, það er ljóst. En hjá Chelsea fær hann hinsvegar lið sem gæti hentað hans stíl frábærlega og auðvitað feitan launaseðil ef þetta gengur ekki upp. Eins er þetta inngangur inn í boltann aftur á hæsta leveli.

  18. Virðingarvert sjónarmið að tíunda að Rafa sé ekki skuldbundinn LFC eitt né neitt, og því “frjáls” að taka við Chelski FC, einum af aðal óvinum LFC…gott og blessað að blessa þetta. Rafa góður kall og gömul hetja sem rann sitt skeið hjá LFC og kannski 1-2 seasonum betur.

    (Chelski eru náttúrulega yfir-nöttarar fótboltans þegar kemur að managerum)

    Álit mitt á Chelski í hnotskurn: þegar þeir mæta ManU eða Arsenal, þá er mér sama hver vinnur. Og hvorki Rafa, Torres, Páfinn, Jóhanna af Örk né Hesús Kristur er að fara breyta þar nokkru um….

  19. Ég er farinn að halda með Chelsea i toppbarattummi. Flott lið með flottan þjalfara

  20. Það er akkúrat málið Maggi, liðið sem að Chelsea er með núna hentar honum mjög vel. Leikmennirnir þekkja kerfið, þeir tala margir spænsku( sem mun hjálpa) og svo er Torres í liðinu.

    Ég tel það mjög líklegt að chelsea muni versla sér miðjumann í Janúar glugganum sem að kæmi í stað Mikael. Þá væri þetta lið blautur draumur fyrir Rafa. Terry mun án efa taka komu rafa fagnandi…sem og lampard því að ég tel þá vera leikmenn sem að hann mundi vilja nota.

    Einar, Rafa sér leik á borði. Hann tekur við liðinu í hálft ár, liði sem að hann ætti að geta náð árangri strax með ( þeas þeir punktar sem ég hef áður tekið fram) og sannað sig þannig fyrir drauma verkefnunum. Það þarf enginn að segja mér það að hann hafi séð alla leiki Chelsea síðan að honum bauðst að taka við þeim í fyrra. Rafa er smáatriðis maður og hann er búinn að undirbúa sig 100% fyrir þetta. Við skulum alveg muna það að hann er búinn að atvinnulaus í tvö ár að bíða eftir rétta tækifærinu. Þetta er það.

    Eins og ég segi, stuðningsmenn Chelsea eiga eftir að sjá hvað hann er klár þjálfari á næstu mánuðum…þeas ef þeir eyðileggja þetta ekki fyrir sjálfum sér með heimskulegum neikvæðis hrópum og almennum kjánaskap.

  21. Kenning 1: Planið hjá benitez er auðvitað að fylgja Mourinho eftir til allra liða þangað til að hann endar hjá liðinu, sem honum langar mest af öllu að þjálfa. Real Madrid.

    Kenning 2: Eða þá sú kenning að Rafa sé ennþá Liverpool maður og að planið sé að hann fari til Chelsea í nokkra mánuði, selji okkur Oscar, Hazard og Mata á 5 milljónir punda og hætti svo. Hljómar það ekki bara vel?

    Annars er ég umtalsvert minna æstur yfir þessu en Torres kaupunum. Torres kaupin komu skyndilega og algjörlega óvænt. Ég hef hins vegar haft 3 ár til þess að undirbúa mig undir þann dag (sem ég vissi að myndi koma) að Rafa myndi taka við öðru ensku liði. Ég bjóst alltaf við því að það yrði Tottenham, en það að það sé hjá Chelsea er mér eiginlega nokk sama um eftir allan þennan tíma.

  22. …svo verður að segjast að nú hækkaði potturinn fyrir FSG.

    Yfir til ykkar FSG, Janúar glugginn verður RISA stór fyrir ykkur.

  23. Það hefði í raun verið verra ef hann hefði tekið við klúbb eins og Tottenham. Við erum ekki í neinni samkeppni við Chelsea eins og staðan er í dag og það eitt að Rafa geti keppt við Rauðnef á jafnréttisgrundvelli er bara hið besta mál.

    Já svo lengi sem hann lætur okkar menn í friði.

  24. Ætli það sé ekki óhætt að setja Torres sem captein í fantacy liðið núna.

  25. Ég spái að Rafa fái langtímasamning í vor eftir tímabilið en verði svo rekinn ehhhhh… njaaaaa… sirka einhvern tímann á bilinu 20. – 28. október næsta haust. Ok?

  26. Það skemmtilegasta við þetta allt verður samt að sjá London pressuna byrja að skrifa pistla um það hversu góður og vanmetinn þjálfari Rafa Benitez. Ég spái því að fyrstu slíkir pistlar fari að detta inn fyrir miðnætti í kvöld.

  27. Ekki búinn að lesa kommentin hérna en ég verð bara að segja ertu ekki að fokking grínast Kristján Atli ertu virkilega að óska þess að Chelsea verði meistari nei hættu nú alveg. Mér gæti reyndar ekki verið meira sama hver stjórnar þessu liði en mun aldrei óska þess að þeir vinni titilinn ekki frekar en United. Benitez er bara fyrrum stjóri Liverpool ber engar tilfinningar til hans og fyrir mér skiptir það mig ekki máli hvað hann gerir svo lengi sem það komi ekki niður á Liverpool.

  28. Einar Örn #4
    tímabundin ráðning er eina ráðningin sem á sér stað hjá Chelsea 🙂
    Fær 4 season, vetur, vor, sumar og haust…. þessi er að sjálfsögðu stolinn.

  29. Vil óska Chelsea mönnum til hamingju með nýja stjórann. Þetta er mikill fagmaður. Ég hef grun um að undir stjórn Benitez muni Fernando nokkur Torres hrökkva í fluggírinn.

  30. celski á ekki svona góðan stjóra skilið. Bara hvað allt þetta ráðningarferli var stutt segir mér að Rafa fái fúlgur fjár fyrir þetta tímabil, eða þá að þetta sé það sem roman ætli sér að gera, ráða bara stjóra fyrir hvert tímabil, gett ágætlega með di matteo síðast, tveir bikarar.

  31. Spái því að Lampard eigi eftir að ganga í endurnýjun lífdaga undir Benitez. Ég hef ekkert fyrir mér í því, just a hunch 🙂

  32. það er allavega eitt sem er alveg borðleggjandi…….. núna fer torres í gang!!

  33. Rafa Benitez:“Chelsea is a big club with fantastic players, every manager wants to coach a such a big team. I would never take that job, in respect for my former team at Liverpool, no matter what. For me there is only club in England, and that’s Liverpool.”

    Þetta sagði Rafa þegar AVB var rekinn, hljómar smá kjánalega núna.

    En ég held að Rafa sé ráðinn út tímabilið og Pep taki svo við þeim eftir sísonið. Allavega ætti Rafa að geta blásið einhverju lífi í Torres og mikið svakalega held ég að Torres sé glaður akkúrat í dag.
    Annars gæti mér ekki verið meira sama hvaða lið Spánverjinn þjálfar, en hvað segja aðdáendur hans ef hann fer sömu leið með Chelsea og Inter?

  34. Liverpool fc er en að horfa upp á afrakstur Rafa Benítez nærri 3 árum eftir að hann hverfur á brott!.

    Tek undir með pistla höfundi:FOKKIÐ YKKUR TOM HICKS OG GEORGE GILLETT

    Það er svakalega erfitt að sjá hann taka við öðru félagi á Englandi en um leið frábært að hann fái loksins tækifæri á að þjálfa klúbb á hæðsta leveli.

    Verst fyrir hann er að eigandi Chelsea er álíka mikið gimp og Hicks og George.

    Ég hlakka allavega til að sjá þennan meistara um helgar!

  35. Það verða blendnar tilfinningar ef Torres fer að raða inn mörkum núna.En ég treysti á Brendan nokkurn Rodgers hann á eftir að verða einn af farsælustu stjórum okkar ástkæra félags.

  36. Ég byrjaði að fylgjast með Liverpool af einhverju viti á þeim tíma sem Rafa tók við liðinu og ég hef verið harður stuðningsmaður hans síðan. ég varð fyrir vonbrigðum í sumar þegar hann var ekki ráðinn aftur til Liverpool þannig að þetta verður erfitt fyrir mig og eflaust marg aðra að sjá honum ganga vel í London.

    Ég vona og held að Benitez sé að nota þetta tækifæri til þess að minna fótbolta heiminn á það hversu góður stjóri hann er og noti svo þann árangur sem hann nær á næstu 6 mánuðum til þess að fynna sér betri vinnu, hans vegna vona ég að það verði Real Madrid

  37. Ég held að ef hann nær ekki bikar á þessu tímabili þá fái hann ekki áframhaldandi samning. Ég held að Abramovich sé bara að hugsa að fylla upp í þangað til Guardiola tekur við.

  38. en hvað segja aðdáendur hans ef hann fer sömu leið með Chelsea og Inter?

    Að hann var besti stjóri Liverpool sl. tvo áratugi og brottrekstur hans (til að fá Hodgson í staðin) voru ein mestu mistök sem gerð hafa verið hjá Liverpool í seinni tíð. Þetta breytir engu um það. Ertu ekki annars að meira aðdáendurhans meðal stuðningsmanna Liverpool?

    Annars er jafnan skautað ansi létt yfir þessa örfáu mánuði sem hann fékk hjá Inter, meiðslavandræði liðsins og brotin leikmannakaups loforð Moratti.

  39. (18)
    “Hvað þá reka stjóra sem var hetja sem leikmaður Chelsea og vann bikarinn og meistaradeildina á nokkrum mánuðum…til að fá Benitez!”

    Er þetta ekki þannig að Roman er óþolinmóður og Matteo er rekinn vegna þess að Chelsea féll úr meistaradeildinni og hefur verið að gefa eftir í deildinni. Roman fékk tækifæri til að ráða Rafa áður en hann réði Villa Boas og Matteo. Hann hefur ekki verið sérlega æstur í Rafa hinga til og gerir ekki langtímasamning við Rafa, heldur býður honum caretaker stöðu, því væntanlega bindur hann vonir við að geta ráðið Guardiola eða Mourinho í sumar.

  40. Það sem menn geta misst sig. Rafa var þjálfari Liverpool. Ekki lengur. Mér er nokk sama þó hann þjálfi eitthvað miðlungslið í London, hann þarf salt í grautinn eins og hver annar.
    Horfið á dæmið í dag. Við erum með BR og við stöndum við bakið á honum. Við viljum sjá hann ná árangri með okkar lið í næsta leik. Annað skiptir ekki máli.
    Hvort við vinnum lið sem Rafa þjálfar eða ekki er aukaatriði, bara að við vinnum helvítis leikinn.
    Gangi kallinum vel perónulega því ekki viljum við mönnum illt en við lifum við nýjan veruleika með okkar mönnum og það er það eina sem skiptir máli.
    Meira að segja nokkuð spennandi veruleika 🙂
    YNWA

  41. Eigum við ekki að slaka aðeins á yfir þessu. Rétt er það að Benitez skuldar Liverpool F.C. nákvæmlega ekki neitt. Hann hefur augljóslega verið að bíða eftir kallinu frá eigendum Liverpool í knattspyrnustjórastöðuna á nýjan leik, bæði eftir að ævintýrið með Hodgson tók enda, sem og þegar Kóngurinn yfirgaf stjórastöðuna. En Benitez fékk 0 símtöl frá eigendum liðsins við þær breytingar.

    Það þarf ekki að grafa lengi eftir þeim staðreyndum að Rafael Benitez er Liverpool-maður, og verður það alltaf og er hann svo sannarlega alltaf velkominn í þann hóp, og það þrátt fyrir að vera notaður sem klósettpappír núna þar til það hentar Guardiola að mæta í vinnu aftur, sem stjóri hjá Chelsea, sem gerist væntanlega næsta sumar. Ég held að Rafael Benitez verði ekki stjóri aftur hjá Liverpool, hann átti sína góðu tíma með Liverpool-liðið og komið var illa fram við hann af fyrri eigendum, sbr. Klinsmann málið en ég oft á tíðum gjörsamlega þoldi ekki taktíkina hans og eins skildi ég stundum lítið í leikmannakaupum hjá honum, og leikmannastefnu. Þar nægir að nefna draum hans um að losna við Xabi Alonso frá liðinu. Það fyrirgef ég Benitez aldrei, því það liggur fyrir að Alonso vildi aldrei fara frá Anfield. En þetta var það sem Benitez taldi best fyrir liðið þá, og það var hans skoðun og eflaust fleirri stuðningsmanna liðsins.

    Það verður auðvitað afar skringilegt að sjá hann í stóru jakkafötunum sínum með sennilega blátt bindi í vetur, með handahreyfingar til handa Terry, Torres og þeirra bláklæddu en ég óska honum ekki neins ills með liðið, finnst bara leiðinlegt að þetta hafi þurft að fara svona. Þurfa svo að fara til Inter, sem þá voru þrefaldir meistarar, ítalíu, bikar og síðast en ekki síst evrópumeistarar, og reyna að halda þar dampi tókst ekki og var sá tími vandræðalegur fyrir Benitez, sem á endanum þýddi að hann varð drekinn um jólin 2010.

    Þá gerðist………ekki neitt.

    Hann hefur verið án liðs í tvö ár, og það hlýtur að vera skrítið m.v. hversu frábær stjóri hann er, að eitthvert liðið sé ekki búið að hrifsa hann til sín. Það kom mér á óvart að RDM skyldi hafa verið rekinn frá Chelsea, þrátt fyrir eigandann að liðinu en 1 árs samningur hans í vor, eftir að hafa kysst á evrópubikarinn, sem og enska bikarinn, þýddi í rauninni bara “mér er andskotans sama um þessa titla sem þú færðir mér, ég þoli þig samt ekki og ætla mér ekki að hafa þig lengi í vinnu hjá mér”.

    Þannig að, Rafael Benitez er tekinn við Chelsea, og ég vorkenni honum með það verkefni. Ég held að Benitez og eigandi liðsins séu eins ólíkir og hægt er að hafa þá, Benitez í planinu sínu á meðan Abramovich vill helst fá bikar í hendurnar á 2ja daga fresti, og tel ég Benitez góðan að fá að stýra liðinu fram í lok tímabils.

  42. Svo við höfum það alveg á hreinu þá erum við EKKI AÐ FARA AÐ ÓSKA ÞESS AÐ CHELSEA VINNI DEILDINA frekar en Man U eða önnur lið en Liverpool. Við gefumst aldrei upp á meðan við eigum séns. Lúserar hugsa um að gera aðeins betur í fyrra og að við eigum ekki séns miðað við mannskap. Liverpool ætlar að vinna deildina alltaf þangað til að tölfræðimöguleiki er ekki til staðar sama hvað fokking er raunhæft eða ekki. PUNKTUR…

    Síðan er Rafa ekkert að fara að gera fyrir þetta lið frekar en Inter með einhverjar ofur launaðar vanmetnar stjörnur og stuðningsmenn sem trúa ekki á hann. Rafa þreyfst á ást sinni á Liverpool og ást stuðningsmanna á honum en það gaf honum alltaf auka búst. Er nýbúinn að lesa bókina hans og þetta er rauður þráður í gegn hvað hann elskar klúbbinn.

    Rafa er líka þannig stjóri að hann þarf tíma til að byggja upp lið og það er morgun ljóst að hann fær það ekki hjá Chelsea. Þetta er panic move hjá eiganda sem virkilega fattaði ekki að liðið var að spila miklu betra undir stjórn Di Matteo en nokkurn tíma AVB. Við högnumst bara á því að hann skiptir um mann í brúnni og ruglar þannig liðskipan.

    Rafa átti frábær hjá Liverpool og hann fær alltaf okkar massa virðingu fyrir það sem hann gerði fyrir klúbbinn á meðan hann stjórnaði og hvernig hann talaði um kúbbinn og stóð á bak við hann eftir hann hætti. Hvort hann hefur ennþá sem til þarf til að stjórna topp kúbbi á Englandi er spurning. Chelsea er ekki rétta liðið miðað við hvaða tíma hann þarf.

    Ég óska Rafa Benítez allt það besta en Chelsea allt það versta. Liverpool mun ég ætið óska allt hið besta á meðan ég lifi. Chelsea mun aldrei ná neinum árangri í vetur þótt að Rafa stjórni þeim út tímabili og þetta er bara tækifæri fyrir Liverpool að bæta stöðu sína á meðal efstu liða finnst að eigandi Chelsea er fábjáni og kýs skyndilausnir í stað stöðuleika.

    ÁFRAM LIVERPOOL!!!

  43. Ég furða mig bara á þessu að því leytinu til að ég skil ekki að nokkur maður skuli vilja vinna fyrir Chelsea eða Man City. Ef menn eru nógu góðir fyrir þessi félög geta þeir verið hvar sem er á súperlaunum hvort sem er, algjör óþarfi að kynda undir hnignun knattspyrnu. Við erum ekki að safna fyrir Playstation hérna. Æ, en whatever.

  44. Ef ég man rétt þá töluðu þið KOP pennar einhverntíman um að þetta væri svona lose/lose staða fyrir okkur að sjá Rafa taka við öðru liði. Ef hann stendur sig illa þá koma allir og ulla framan í okkur vegna trúar okkar á hann. Ef hann stendur sig vel og vinnur titla þá grenjum við enn meira en við gerum í dag yfir þessum Fábj$%”#& sem létu hann fara frá okkur.

    Hvað um það. Það sem Fuglinn vísar í #36 er nú væntanlega bara það sem maðurinn segir þegar hann telur sig enn eiga séns að taka við Liverpool aftur. Þá talar hann eðlilega fallega til okkar.

    Mín skoðun á því hvað er síðan að fara að gerast hjá CFC eftir þetta tímabil er að Roman er öruggelga eins og strákhvolpur með nýtilkomna greddu að reyna við Guariola en ég held að hann fari miklu frekar til MCFC eftir þetta tímabil. Þar er Tixi kominn inn og þeir þekkjast er það ekki. MCFC hafa þó ekki farið í þann leik að reka þjálfara eins og þeir skitpa um sokka. Það hefur Roman hinsvegar gert og það þótt það séu ekkert smá nöfn í þjálfaraheiminum sem hafa tekið við því liði. Rafa nýtir því þetta tækifæri til að koma sér af stað aftur. Hann hefur engu að tapa með því að taka við þessu liði. Roman rekur hvort eð er alla sem í þetta fara en ef Rafa nær árángri þá sýnir hann öðrum eigendum að hann getur þetta alveg.

    En svo maður vitni í lokin í mótmælandann: Heilvítis Fokking Fokk af þessum álfum að reka Rafa um árið. Þýðir samt ekkert að fást um það. Brendan er núna og hann fær stuðninginn.

  45. Þegar KR vann deildina á Íslandi í fyrra sagði leikmaður annars liðs við mig: “það er einhvern veginn pínulítið erfiðara að hata KR með toppmann eins og Rúnar Kristinsson við stjórnvölinn.” Ég er ekki frá því að núna í morgunsárið líði mér pínulítið eins gagnvart Chelsea. En bara pínulítið!

    Ef valið stendur eingöngu á milli Chelsea og ManU um hvort liðið stendur uppi sem Englandsmeistari í vor, þá er engin spurning að minn hugur liggur í London any day of the week and twice on Sundays! Hins vegar er ég nokkuð sammála Johnny #11 að mér er eiginlega alveg sama um City og ber engar tilfinningar til þeirra, hvorki góðar né slæmar. Ef valið stendur eingöngu á milli þessara þriggja myndi ég því helst vilja sjá City klára þetta.

    Ég tek þó fyllilega undir með Fóa #47 að það er ekki háttur okkar Liverpool manna að kasta inn handklæðinu fyrr en öll nótt er úti og vel rúmlega það, vissulega er ekkert sem bendir til þess um þessar mundir að við séum að fara að blanda okkur í toppbaráttu, en ég neita að fara að ræða í einhverri alvöru um hvaða annað lið ég vona að vinni deildina fyrr en okkar tölfræðimöguleiki er úti enn eitt árið.

    Ég hef alltaf haft mikið álit á Rafa sem knattspyrnustjóra og þótti sárt að sjá hann fara á sínum tíma. Ég óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi, en höfum þó alveg á hreinu að laugardaginn 20. apríl 2013 verður hann, ásamt 11 tindátum í bláum treyjum, höfuðóvinur númer eitt!

  46. Aðal kanónurnar á Kop.is halda áfram að lofa Rafa vin okkar. Hann er það sem vantar hjá LFC og með honum væri liðið væntanlega nr. 1?

    Verður gaman að sjá hvernig hann verður þarna hjá Chelsea. Ef allt er eðlilegt, miðað við lof og annað, þá er Chelsea að fara að vinna deildina nokkuð sannfærandi. Verður forvitnilegt.

  47. Nr. 51

    Vertu ekki að snúa útúr. Þessu hefur enginn haldið fram en ég fullyrði að dýfan hefði alls ekki verið eins djúp með Benitez við stýrið alla tíð og meira vald heldur en vanvitar eins og Purslow, fullyrði það. En hann þurfti að fara til að (allt of) margir stuðningsmenn Liverpool áttuðu sig á því.

  48. Stb (#51) – það er enginn að segja að Rafa væri á toppnum með Liverpool í dag. Hicks og Gillett fóru það illa með liðið að það hefði alltaf tekið dýfu og gerði. Ég er hins vegar sannfærður um að 7.-8. sætið sem hefur verið hlutskipti okkar sl. þrjú tímabil er meiri lægð en það sem Rafa hefði skilað. Hann var rekinn fyrir að lenda í 7. sæti 2010 en liðið hefur tekið enn meiri dýfu eftir það.

    Ég hef fulla trú á Rodgers í dag en ég stend ennþá við þá skoðun að það var rangt að láta Rafa fara á sínum tíma. Það er ekki þar með sagt að hann nái árangri hjá Chelsea og sú skoðun mín að það hafi verið rangt að reka Rafa mun ekkert breytast hvort sem hann rústar deildinni eða skítur á sig í Brúnni.

    Hvernig er það annars, Stb, liggur þú bara í dvala mánuðum saman á milli þess sem þér gefst tækifæri til að skjóta á Rafa og okkur „Rafa-dýrkendurna“ á Kop.is?

  49. Góður punktur hjá Stb nr. 51. Miðað við ofurtrú Liverpool aðdáenda á Rafa Benites, þá hlýtur að vera gullöld í vændum hjá Chelsea. Menn hafa alltaf haldið því fram hér að ef Rafa hefði bara fengið meiri pening hjá Liverpool og fengið að kaupa sína fyrstu valkosti þá hefði sagan orðið allt önnur. Núna fer hann til Chelsea, þar sem nú þegar er FULLT af heimsklassa leikmönnum og til haugur af seðlum. Núna bara hlýtur hann að gera frábæra hluti hjá Chelsea er það ekki?

    Ef þetta fer allt á versta veg, þá verður fróðlegt að sjá hvernig ákveðnir aðilar hér inni reyna að snúa þessu þannig að þetta hafi verið öllum öðrum að kenna heldur en Rafa. Það er allavega búið að skrifa söguna hérna þannig að sjálfur Jésús hefði ekki getað gert neitt við þetta Inter lið haustið 2010, ríkjandi Ítalíu og Evrópumeistara.

    Það skal þó tekið fram að ég kann vel við Rafa og er þakklátur fyrir alla þá góðu hluti sem hann gerði fyrir Liverpool. Hann er í fullum rétti til að taka við Chelsea og skuldar Liverpool ekki neitt. Óska honum alls hins besta í nýju starfi.

  50. Veit ekki alveg hvað mér finnst…

    Ég var ekki Rafa maður í lokin, en mér finnst hann algjört gull af manni í dag, maður þroskast. Hann er náttúrlega eldrauður út í gegn, og þvílíkt góður maður.

    Finnst skrítið og hálf óþægilegt að hann taki við liði sem maður hatar, en alls ekkert fúll út í hann. Skil hann vel, og skil vel af hverju hann velur að taka við tímabundið. Honum vanntaði bara eitthvað kick start í ferilinn sinn aftur, og ég vona innilega að það gengur hjá honum, þó ekki á móti okkur auðvitað.
    Vonandi skammar hann samt torres fyrir að hafa farið frá okkur..

    Good luck Rafa!

  51. Rafa var ágætur en við höfum rogers í dag og mér líst miklu betur á hann vona bara að hann verði hjá okkur næstu 30 árin

  52. Það verður fróðlegt að sjá Rafa fagna ekki mörkum Chelsea í vetur.

  53. Ég er og hef alltaf verið mikill Rafa maður og tek undir með þeim sem halda því fram að Liverpool hefði aldrei tekið eins mikla dýfu ef hann hefði verið við stjórnvölinn.

    Aftur á móti er ég alls ekki viss um að hann nái árangri hjá Chelsea. Stuðningsmenn Chelsea virðast upp til hópa vera anti-Rafa menn og það eitt gæti sett strik í reikninginn hjá Rafa þar á bæ. En að sjálfsögðu gæti það breyst ef honum gengur vel þarna. Er samt mjög efins um það.

    Olíukóngurinn vill bara einn stjóra á brúnna og aðeins einn… Guardiola, og hann hættir ekki fyrr en hann fær hann til sín.

  54. Líka sagan sýnir sig að Benítez er ekki gæji sem nær strax árangri hann þarf 1-2 tímabil til að smíða saman sitt lið og fá að gera það sem hann vill gera. Þannig nær hann árangri, leikmenn þurfa tíma til að læra inná Benítez. Mér líkar mjög vel við Benítez en hann er ekki þjálfari sem á að ráða sem skyndilausn þegar þú ræður Benítez verðuru að hafa næstu 4-5 ár í huga.

  55. Líka sagan sýnir sig að Benítez er ekki gæji sem nær strax árangri hann þarf 1-2 tímabil til að smíða saman sitt lið og fá að gera það sem hann vill gera.

    Kemur þessi speki út frá þessu eina (eða 2.) tímabilum sem hann tók í að vinna fyrsta titil í sögu Valencia eða þegar hann gerði Liverpool strax að Evrópumeisturum?

    Skil hvað þú meinar svosem en hjá Chelsea þarf hann ekki að byggja upp lið og alls ekki eins hægt og hann þurfti að gera hjá Liverpool.

  56. Maður fékk undarlegan hroll við þessa fréttir. Alls ekki þann sára svikahroll sem bakstungan frá Torres gaf manni. Enda tel ég ekki að Rafa skuldi okkur neitt eftir að fá ekki símtalið sem hann vonaðist eftir í sumar. Maðurinn þarf að vinna og það er sóun á snilligáfu ef hann atvinnulaus til lengdar.

    Þetta er meira svona aumingjahrollur yfir þessari undarlegu stöðu. Auðvitað er Chelskí stór klúbbur í toppbaráttu og allt það. Áskorun fyrir alla þjálfara. En að vissu leyti er Rafa að niðurlægja sjálfan sig og kyngja sínum prinsippum. Eins og vitnað er til hér að ofan þá er örstutt síðan hann sagðist aldrei myndi þjálfa Chelskí vegna virðingu fyrir LFC. Innantómt núna og þarf að kyngja öllum fyrri ummælum um auðrónana í London. Ekki bara það heldur þá bera plastfánaberarnir enga virðingu fyrir Rafa og beinlínis hata hann. Verður hann púaður á sínum fyrsta heimaleik?

    Allt þetta ætlar Rafa að leggja á sig, kyngja og umbera fyrir…… skammtímasamning hjá drekameistaranum Róman. Að vera flöffer fyrir Guardiola er aumt hlutskipti fyrir stoltan stjóra og góðmenni líkt og Rafa. Sorglega desperat. Þetta er líkt og Bjöggi Thor myndi borga Sóleyju Tómas háa summu fyrir að dansa strippdans. Jú jú, rauðsokkan fengi vænan skilding fyrir viðvikið en bossinn væri ber og prinsippin ónýt. Og í raun sjón sem enginn vildi sjá, en bæði Púlarar og Chelskí-menn hugsa nákvæmlega það sama um þessa ráðningu.

    Ég óska Rafa alls hins besta og í mínum huga er það að ná nægilegum aur og árangri til að geta flúið syndabælið á Brúnni sem fyrst. Kannski verða þjálfarabítti hjá Chelskí og Madrid í sumar, hver veit. En það kemur ekki til greina að halda með Chelskí í deildinni. Við eigum helst að vonast til þess að þeir verði sem lægst til að LFC eigi sem bestan séns á CL-sæti. Rafa má vinna deildarbikarinn mín vegna enda við dottnir úr þeirri keppni. En það væri t.d. alveg agalegt að mæta þeim í FA Cup og er það ekki alveg ritað í stjörnurnar að það gerist núna? Auðvitað er allt skárra en að ManYoo vinni titilinn en þar sem að ég er ekki að fá sand af seðlum fyrir mín prinsipp þá ætla ég að leyfa mér að styðja ekki rúbluræningjana samt sem áður.

    En það er greinilega ekkert heilagt í boltanum og allt getur gerst. Enn einn lærdómurinn um það.

    You’ll Never Walk Alone Rafa

  57. Hverjum er ekki sama þótt Rafa Benítez sé orðinn þjálfari Chelsea. Skiptir það einhverju máli í alvöru? Tek undir með #51 hættið að lofa Rafa.

  58. Babu þú gleymir Houllier hann vann 5 dollur á einu ári. það gerði hr Benitez aldrei. Bara svona til að taka Benitezleppinn frá öðru auganu á þér 🙂

  59. Svosem sammála Peter Beardsley hér. Rafa er að taka/gyrða vel niður fyrir sig að ganga svona á hönd djöfulsins.

    Á hinn bóginn fær hann hjá Chelsea loksins þann leikmannahóp sem hann á skilið að þjálfa og það hlýtur að hafa verið nógu spennandi tilhugsun fyrir hann. Hugsunin um að þjálfa leikmenn eins og Hazard og Oscar hlýtur að vera lokkandi fyrir hvaða knattspyrnuþjálfara sem er. Það sakar auk þess örugglega ekki að vera með Spánverjana Fernando Torres og Juan Mata í liðinu, hjálpar mjög til að ná stjórn og aga á hópinn og koma sínum hugmyndum strax í framkvæmd.

    Ef hann hefði ekki fengið starf fljótlega hjá stórum klúbbi hefði hans orðspor líka beðið töluverðan hnekki og hann bara gleymst. Góður árangur með Chelsea og hann er strax kominn aftur inní hringiðuna.

    Er ekkert viss um að hann spili endilega leikkerfið 4-2-3-1. Gæti dottið í tígulmiðju eða farið í einhvern blússandi sóknarleik með þessa góðu sóknarbakverði sem hann hefur nú. Svo verður mjög spennandi að hvort hann fær að kaupa einhverja leikmenn í janúar. Mun hann kannski hjálpa Liverpool og kaupa Downing, Pacheco og Cole af okkur á uppsprengdu verði?!

    Annars helvíti skemmtileg grein hérna um endurkomu Rafa Benitez í enska boltann! Welcome back Rafa…

    Þetta verður vægast sagt áhugaverður vetur með Benitez þarna á Brúnni. 🙂

  60. Er fullkomlega sammála Babu í þessari Benitez umræðu !! mikil mistök að reka hann ! hann var góður stjóri. Fótboltinn í dag snýst að svo stórum hluta um eignarhald! Eignarhaldið á Liverpool var gott (reyndar byggt á lánum) Fyrstu á Benitez en svo kom bankahrun og þá frundi eignarhaldið og stuðningur við liðið það var ekki Benitez að kenna !! Chelsea voru ekkert serstakir fyrir Roman A en eftir að hann kom með pening þá hefur liðið verið stórkostlegt !! sama með City og sama með paris. sjáið bara Milan nuna voru rosalegir svo minkuðu peningastuðningurinn og sjáiði þá í dag !! Fótbolti snýst um peninga !! Hefðu Kanarnir keypt liðið af gillett og Hicks ári-einu og hálfu fyrr væri Benitez enn hjá okkur og liðið sterkara POTTÞÉTT !!!!!!!!! ENN þá að þessu http://fotbolti.net/news/22-11-2012/benitez-2007-mun-aldrei-taka-vid-chelsea

  61. Nr. 63

    Um hvað ertu að tala? (nb. Houllier var á góðri leið með liðið á sínum tíma). Hann tók svo Senegala sumarið sitt sem varð honum að falli (sem og annað).

    Hann er samt ekkert á stalli með Benitez, eða þú ert sá fyrsti sem ég heyri tala um það.

  62. Mikið svakalega eru menn að missa sig í Benitez nostalgíunni. Það mætti skilja svo að árangur hans eða ekki árangur sé alfarið einhverjum öðrum að kenna en honum sjálfum, er ekki allt í lagi? Má endalaust þakka honum sigrana en kenna öðrum um töpin? Alveg klárt mál að G&H og þeirra meðreiðarsveinur klúðruðu málum hægri/vinstri en Benitez gerði það nú líka og ég man nú ekki betur en að síðasta tímabilið hans hafi verið ansi dapurt, og hver var breytingin á milli ára, jú,helv.. seldi Xabi Alonso eftir að hafa verið búinn að reyna að bola honum í burtu í nokkur ár. Benitez eyðilagði besta lið sem við höfum átt lengi, liðið sem lenti í öðru sæti, liðið sem hefði átt að vinna dolluna það árið.
    Svo vil ég einnig benda á það að hann tók við mjög, mjög góðu búi af Hector Cuper þegar hann tók við liði Valencia og þurfti bara að bæta í hér og þar þannig sá árangur sem þar náðist var byggður á því góða búi.
    Var mikill aðdáandi þessa Valencia liðs og mjög glaður þegar Liverpool réði Benitez en hann olli mér að mestu miklum vonbrigðum, vann með liðinu marga góða sigra en hann var algerlega búinn að missa tökin á þessu í lokin og mikið var ég feginn þegar hann var látinn hætta en að sjálfsögðu klúðruðu menn feitt þegar eftirmaðurinn var afhjúpaður. Hatast við Chelzcki meira við þessar fréttir en fyrr, vona að þeim gangi allt í óhag núna sem endranær. Get og mun aldrei vonast til þess að aðrir en mínir menn vinni eitt né neitt.

  63. Houllier:

    FA Cup (1): 2000–01
    League Cup (1): 2000–01, 2002–03
    FA Community Shield (1) : 2001
    UEFA Cup (1): 2000–01
    UEFA Super Cup (1): 2001

    Rafa Benitez:

    FA Cup (1): 2005–06
    FA Community Shield (1): 2006
    UEFA Champions League (1): 2004–05
    UEFA Super Cup (1): 2005

  64. Hreinlega skil ekki þegar verið er að tala um einhver svik þegar kemur að þessari íþrótt/business.
    Það að manager sem er rekinn úr starfi sínu, hefur verið án stjórastöður í tæp tvö ár, og tekur síðan við öðru liði sem býður honum starf hefur ekkert með svik að gera. Hallast meira að geðheilsu fólks sem kemur með svona stór, gildishlaðin orð og mæli með því að það hætti að fylgjast með knattspyrnu.

    Burtséð frá því öllu, þá er ég enginn Rafa aðdáandi. Hann fær samt kredit fyrir margt og þá helst það að leiða liðið til stærstu titla klúbbsins undanfarna áratugi + að tryggja okkur fullt af gæðaleikmönnum sem nú eru farnir að láta til sín taka.

    Auðvitað gerði hann mistök á leikmannamarkaðinum en ég held að á stóru voginni þá vegi hið jákvæða meira en hið neikvæða.

    En það sem gerði mig fráhverfan klúbbnum og hans stjóratíð var hinn leiðinlegi bolti sem allra jafnan var boðið upp á. Þó að við unnum fleiri leiki, enda með talsvert betri mannskap, þá fannst manni oft á tíðum að áhorf á leikina væri bara tímasóun. Þetta var svo boring.
    Það voru helst ákveðin augnablik sem ávallt stóðu upp úr, annaðhvort Torres eða Gerrard, en oftast nær drepleiðinlegur varnarbolti og alltaf var reynt að verja forskotið ef það náðist.

    Það sem fyllti mælinn hjá mér, persónulega voru hans síðusta eitt og hálft tímabil hjá klúbbnum. Tímabilið 2008-2009 er okkar besti árangur lengi vel en fellur alltaf í skuggan á því hruni sem varð á liðinu eftir áramót. Skelfilegt að fylgjast með því og því minna sem talað er um tímabilið 2009-2010, því betra.

    Tilfinningin var sú að einhver hnignum var hjá klúbbnum og það var ekki eingöngu tengt þáverandi eigendum. Benitez var búinn að missa það og eitt er að umbera leiðinlega spilamennsku sem skilar þó einhverjum árangri en allt annað að geta þolað leiðinlega spilamennsku sem skilar litlu sem engu.

    En nú er karlinn kominn til þessa ömurlega klúbbs Chelsea. Það mun ekki hafa nein áhrif á mínar skoðannir á bæði þeim klúbbi né Rafa sjálfum. Ég mun aldrei hvetja Chelsea (eða Man City) til dáða vegna þess að mér finnst það sem klúbbarnir standa fyrir vera eyðileggja þessa íþrótt sem er mér kær.

    Þannig að ekki ætla ég að óska honum velfarnaðar í starfi en myndi pottþétt gera það ef hann hefði tekið við öðrum klúbbi.

  65. Það eru auðvitað verulega blendnar tilfinningar hjá flestum held ég. Ég var sammála brottvikningunni á sínum tíma, fannst frá desember liðið vera á hraðri niðurleið og Benítez virtist ekki hafa ráð á könnu sinni til að breyta gengi liðsins til hins betra. Hluti leikmanna var gjörsamlega búinn á því hjá félaginu (Riise t.d.) og svo misstum við auðvitað Alonso og Arbeloa og Barry/Keane farsinn fór náttúrulega illa með karlinn. Það sem við vissum ekki var það sem var í gangi á bak við tjöldin með Parry/Purslow leikmannaklúðrin og að hann hafi í sjálfu sér verið í sömu aðstöðu hjá Liverpool og Valencia, að fá lampa þegar hann bað um sófa.

    Þetta leiddi síðan til uppsagnar og í hönd fóru verstu tímar klúbbsins í áratugi. Sennilega verra en þegar Souness var framkvæmdastjóri.

    Það er samt alveg rétt að þegar þetta er skoðað þá var margt sem fór í taugarnar á mönnum, bæði þeim sem mæra hann hér og öðrum. Skiptingar voru skrýtnar og seinar, ekkert plan b og fleira slíkt.

    Þegar þetta er síðan skoðað í smá fjarlægð þá er samt alveg ljóst eins og fjallað er um að hann er besti stjórinn sem við höfum haft síðan 1990. Það sem fór í taugarnar á fólki voru minniháttar mál miðað við árangurinn sem hann náði og ef sumarið 2009 hefði gengið betur þá væri hann mögulega enn með klúbbinn, og hefði jafnvel náð titli 2010. Hvort sumarið hafi verið honum að kenna eða Parry/Purslow/Gillett/Hicks er erfitt að meta en það varð augljóslega banabiti hans hjá klúbbnum. Eftir það lá leiðin niður á við og er fyrst að komast hægt upp á við aftur núna upp á síðkastið.

    Benítez á alla okkar virðingu skilda og ég vona að Anfield taki vel á móti honum, syngi fyrir hann fyrir leik en snúi sér svo að því að styðja sína menn. Sama gildir um Torres, hann skoraði fullt af mörkum fyrir okkur og gladdi okkur mjög í nokkur ár, en hann vildi titla sem hann fékk ekki á Anfield en hann hefur fengið þá á Stamford. Mjög eðlilegt fyrir metnaðarfullan knattspyrnumann.

  66. Rafa hefur alla mína virðingu, hann er klárlega okkar besti stjóri síðan 1990 og það verður gaman að fylgjast með honum sem stjóra Chelsea þar sem hann fær að kaupa þá leikmenn sem hann vill kaupa ekki eins og hjá Liverpool þá þurfti hann oft að kaupa kost númer 2-3.

  67. Babu nr 66.

    Myndirðu ganga svo langt að segja að Houllier hafi orðið Sene-galinn þetta sumar?

  68. Er bara ekki að fatta suma hér. Rafa fékk fimm ár og var ekki að brillera, og liðið seman tók við eftir það hrapaði hratt niður, enda látinn taka pokann sinn. Rafa mátti fara og enda ansi mikill hrokagikkur.

  69. 76

    Bikararnir sem að Benitez vann voru ‘stærri’ að mínu mati. Meistaradeildinn er þarna og mér finnst það vera vinningurinn.

  70. Skoðaðu þetta bara KAR minn. Varðandi meintan dvala minn mánuðum saman þá er ég ekki einn af þeim sem skrifar við hverja einustu færslu, heldur frekar þegar ég sé þörf á því að kommenta eða þegar mér langar að koma einhverju frá mér. Án þess að ég skrái það sérstaklega hjá mér hvenær ég skrifaði seinast held ég að það sé ekki svo langt síðan ég skrifaði hérna seinast.

    Skoðaðu bara hver seinustu ummæli mín hafa verið, sérstaklega hvenær seinustu ummæli mín um Rafa voru. Ég er nefnilega einn af þessum sem hafa verið málaðir svo agalega neikvæðir. Láttu mig endilega vita.

  71. Liðið er komið,fínt að fá inn nýja færslu. Benitez haters er svo uppiskroppa með rök að núna er Houllier orðin betri eða jafn góður og Benitez var.

  72. Benitez fanatiscm

    Benitez haters + Benitez lovers.

    Same shit, different opinions.

  73. Rafa Bentiez eyðilagði inter og ég vona ad hann geri það líka við chelsea.

  74. Það eina sem ég hef til málanna að leggja hér, er að Benitez er ekkert að fara að bjarga Torres sem leikmanni. Liverpool seldi á hárréttum tíma fyrir topp, toppverð. Sprengikrafturinn sem hann rústaði Rio með á sínum tíma er einfaldlega farinn, og hann verður aldrei jafngóður og hann var með L´Pool. Verst fyrir ykkur að þið ákváðuð að splæsa öllum gróðanum í Carroll í staðinn fyrir ( einhverjir tveir aðrir ungir topp strikerar í evrópu) Ætli Llorente og Levandowski hefðu ekki kostað 35 millur samtals á þessum tíma?

  75. Ég var Rafa hater, en er það ekki í dag eftir að hafa kynnt mér G&H. Mér finnst samt fyndið hvað menn fara í mikla vörn þegar sett er út á Benitez. Liverpool gat spilað mjög skemmtilegan bolta og grútleiðinlegan bolta undir honum. Hann er enganveginn heilagur. Ég hlakka til að sjá hvort hann mun láta Hazard, Mata og Oscar bakka lengst aftur í sweeper.

    Ég vona að honum gangi mjög illa, enda er allt rangt við Chelsea.

  76. Tja sá franski hefur tvo deildarbikara umfram þann spænska. Á móti kemur þó að Benitez vann þann STÓRA og kom liðinu aftur í úrslitaleik um hann, á meðan Houllier vann minni evrópubikarinn. Báðir náðu öðru sæti í deildinni en deildargengið var vonbrigði í tíð þeirra beggja. Rafa kom liðinu einu sinni í úrslit leage cup. Vinningshlutfall GH var 50,8% en RB 55,4%.

    Ég trega hvorugan manninn og er hlutlaus í þessum efnum. Houller vann fleiri titla og eru “Rafa haters” þess vegna ekki uppiskroppa með nein rök. Rafa elskendur geta þó bent á þann STÓRA og hærra vinningshlutfall.

    Þeir stýrðu liðinu á líka lengi. Houller keypti leikmenn fyrir: £130.9m og seldi fyrir 60,3. Rafa keypti £223m en seldi fyrir £159.3m. Miðað við markaðinn og verðbólgu þá hafði Houller í raun meiri pening til leikmannakaupa.

Young Boys á morgun

Byrjunarliðið gegn Young Boys