Portsmouth 1-3 Liverpool

Þannig fór um sjóferð þá. Liverpool gerðu hvað þeir gátu til að hrifsa annað sætið af Man U en það tókst ekki. Liverpool vann Portsmouth 3-1 í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á meðan Man U burstaði Charlton 4-0. Lokaumferðin var dramatísk í meira lagi.

Arsenal stal síðasta Meistaradeildarsætinu af Tottenham. Erfitt að vera stuðningsmaður þeirra í dag… Arsenal vann 4-2 sigur á Wigan í skemmtilegum leik sem var sá síðasti sem spilaður verður á Highbury. Besti leikmaður deildarinnar skoraði þrennu, Thierry Henry.

En að Liverpool. Rafa stillti liðinu svona upp í dag:

Dudek

Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise

Gerrard – Alonso – Sissoko – Kewell

Morientes – Fowler

Bekkurinn: Reina, Traore, Cisse, Crouch, Kromkamp.

Fyrri hálfleikur var ekki mikið fyrir augað, eftir því sem ég sá. Hið margrómaða en oft hundleiðinlega miðjuhnoð voru aðalsmerki leiksins og sárafá tækifæri mynduðust upp við mörkin. Besta færi okkar fékk Stevie G þegar hann komst einn gegn Dean Kiely eftir frábæra sendingu frá Riise en Gerrard náði ekki að nýta sér það.

Portsmouth liðið var ný búið að bjarga sér frá falli og hafði að nákvæmlega engu að keppa. Þeir spiluðu bara fyrir stoltið og mér fannst vanta hungur í Liverpool liðið til að ná öðru sætinu. Kannski vissu þeir að Man U var búið að klára Charlton á einhverjum tuttugu mínútum… Besta færi þeirra í fyrri hálfleik fengu þeir um leið og lokaflautan gall en Dudek varði lausan skalla örugglega.

Það sem mesta athygli vakti í fyrri hálfleik voru skelfileg tíðindi. Xabi Alonso var borinn af leikvelli eftir að hafa misstigið sig. Hvort hann missi af úrslitaleiknum um næstu helgi verður bara að koma í ljós, líklega fást fregnir af málinu þegar kvölda tekur, en við vonum það besta. Í það minnsta var hanná bekknum eftir leikinn, og fór því ekki upp á sjúkrahús eða neitt slíkt.

Ég viðurkenni fúslega að hafa flakkað á milli stöðva í síðari hálfleik. Við gátum ekki náð öðru sætinu en staðan var spennandi í keppninni um fjórða sætið. Ég sá því lítið annað af síðari hálfleik hjá okkar mönnum fyrir utan mörkin.

Hver annar en Robbie Fowler kom okkur yfir? Hann hefur svo sannarlega reynst betri en enginn og skoraði sitt fimmta mark á 52. mínútu þegar hann tók við hælspyrnu frá Nando, og setti boltann örugglega í hornið úr vítateignum. Vel að verki staðið hjá okkar manni!

Crouch kom inná fyrir Morientes og átti frábæra innkomu. Hann lagði boltann í netið af stuttu færi eftir að Cisse, sem kom inná sem varamaður líka, sendi fyrir og Kiely sló boltann út. Staðan því orðin 2-0 fyrir Liverpool. Skömmu síðar minnkuðu Portsmouth muninn með ágætu marki en Liverpool átti lokaorðið.

Crouch sendi stundusendingu á Cisse sem hafði allan tímann í heiminum til að gera hvað sem hann vildi. Frakkinn lagði boltann fyrir sig og þrumaði honum síðan í netið. Hvort góðar frammistöður hans undir lok tímabilsins sé að koma í veg fyrir að hann verði seldur í sumar verður bara að koma í ljós. Lokatölur 3-1 fyrir Liverpool.

Maður leiksins: Erfitt val þar sem ég sá leikinn ekki alveg í heild sinni. Crouch átti góða innkomu, Carra og Hyypia stigu varla feilspor og Gerrard var samur við sig auk þess sem Fowler var góður.

Enska úrvalsdeildin er á enda þetta tímabilið. Við á Liverpoolblogginu munum án efa koma til með að gera upp tímabilið á næstu dögum áður en upphitun fyrir sjálfan úrslitaleik FA bikarsins byrjar.

YNWA

9 Comments

  1. Fínn endir á annars frekar furðulegu tímabili þar sem markaþurrð breyttist í markaflóð t.d.
    Annars gladdist ég sérstaklega fyrir Fowler sem sýndi hvers vegna hann átti skilið að fá samning við okkar elskaða félag.
    Ég vil þakka ykkur sem reka þetta blogg fyrir veturinn og þá frábæru þjónustu sem þið hafið veitt og það er alveg ljóst að ég mun fylgjast með síðunni í sumar til að fá skammtinn minn af LFC tíðindum.
    En ein spurning að lokum hafið þið hugsað ykkur að covera HM hérna í sumar eða er komið að langþráðu sumarfríi ?

  2. Sorry Hjalti, verð bara að gagnrýna aðeins þessa leikskýrslu þína 🙂

    Byrjar á því að segja þetta: “Besti leikmaður deildarinnar skoraði þrennu”. Stevie G skoraði ekki í dag 😉 Bara til að hafa það á hreinu.

    Svo finnst mér alltaf jafn furðulegt að skrifa skýrslur ef menn sjá ekki leikina. Það er svipað og að dæma kvikmynd útfrá trailer.

    Crouch átti fína innkomu, rétt er það, en þú minnist ekkert á innkomu Cissé sem var rúmlega fín. Carra og Hyypia varla feilspor, jú Carra gerði ekki mistök, en það vantaði greinilega nokkra takka undir Hyypia, því í orðsins fyllstu þá tók hann nokkur feilspor og endaði á höfðinu.

    En hvað Gerrard varðar, hvað þýðir samur við sig? Á einn sinn slakasta dag á tímabilinu, finnst þér hann virkilega hafa verið svona slakan heilt yfir? Er það kannski ástæðan fyrir því að þú talar um Henry í þessu sambandi 😉

    Ekkert bögg, finnst hreinlega það sé betra að sleppa því heldur en að skrifa leikskýrslu ef menn hafa ekki séð leikinn nema að hluta til 🙂 Sorry, no offence though.

  3. hehehe, takk Steini minn 🙂

    Þar sem enginn annar var til að skrifa leikskýrslu þá bara verður þetta að vera svona núna. Betra að þetta komi inn í staðinn fyrir ekki neitt, er það ekki? Ég sá nú alveg mikið af leiknum, en greinilega ekki nóg?! Já og komment kerfið er fyrir ykkur til að koma með ykkar skoðanir, endilega bætið við!

    Ég fer ekkert ofan af því að Henry er besti leikmaður deildarinnar, sama hvað hver segir. Ég veit að Gerrard vann verðlaun fyrir þetta tímabil en mér finnst Henry vera besti leikmaður deildarinnar samt sem áður. 27 mörk í deildinni, ekki slæmt… :biggrin2:

  4. Enn og aftur skil ég ekki hvernig menn geta horft á aðra leiki en Liverpool þegar Liverpool er að spila.

    Mér er nokk sama um þetta fjórða sæti, hvort sem það er Arsenal, Tottemham eða Grimsby sem nær því, sami skítur í mínum augum. Ef það heitir ekki Liverpool þá hef ég ekki áhuga á því!!! :biggrin2:

  5. Enn og aftur skil ég ekki hvernig menn geta horft á aðra leiki en Liverpool þegar Liverpool er að spila.

    Mér er nokk sama um þetta fjórða sæti, hvort sem það er Arsenal, Tottemham eða Grimsby sem nær því, sami skítur í mínum augum. Ef það heitir ekki Liverpool þá hef ég ekki áhuga á því!!! :biggrin2:

  6. Það er kannski réttast að leiðrétta Hjalta og fleiri eflaust…

    Gerrard var valinn PFA Player of the year 2006 sem er leikmaður ársins, ekki tímabilsins.

    Það getur vel verið að Henry sé búin að vera bestur á þessu tímabili en Gerrard var sá besti á síðasta ári.

  7. Rétt Mummi… Skrýtið samt að verðlauna mann fyrir hálft ár! Af hverju eru þessi verðlaun ekki veitt strax eftir áramót 🙂

  8. Flottur sigur og auðvitað setti Fowler eitt stk.

    Núna er bara FA Cup Final eftir… ég hlakka til

  9. Ætla bara að minnast á innkomu Cisse sem lagði upp eitt og skoraði eitt á stuttum tíma

Byrjunarliðið gegn Portsmouth

Smá tölfræði yfir tímabilið