Jæja, bara kominn miðvikudagur og lítið sem ekkert í fréttum enn af okkar mönnum. Fyrir utan slúðrið, sem virðist ætla að verða sérlega villt og fáránlegt þetta sumarið. Annars eru okkar menn bara á Melwood að vinna hörðum höndum að því að undirbúa hópinn fyrir bikarúrslitaleikinn, sem er eftir *þrjá daga* núna.
Rafa segir að tímabilið hafi verið gott en að liðið geti bætt sig enn meira. Þá á hann ekki bara við mögulegan bikarsigur um helgina heldur næsta tímabil einnig. Ég er sammála honum. Þótt við höfum hvorki unnið deildina né gert stóra hluti í Evrópu eins og í fyrra er hughreystandi að sjá hversu nálægt Man U og Chelsea við erum komnir. Nú ríður bara á að kaupa/selja rétt, styrkja hópinn þar sem þarf að styrkja hann og byrja svo næstu deildarkeppni í haust af kappi. Ef við hugsum til baka held ég að það sé hægt að setja muninn á okkur og Chelsea í deildinni sl. vetur upp á mjög einfaldan hátt:
1. Þeir unnu einhverja níu eða tíu fyrstu leikina sína í deildinni, á meðan við gerðum hvert jafnteflið á fætur öðrum. Ef menn ætla að vinna Chelsea er það *ekki* góð hugmynd að gefa þeim forskot á sæluna.
2. Í innbyrðis viðureignum: Liverpool, 0 stig – Chelsea, 6 stig.
Með öðrum orðum: ef við hefðum bara unnið þá á Anfield í haust og síðan unnið Middlesbrough og Birmingham í tveimur haustleikjum sem við vorum klaufar að ná ekki að vinna værum við með sjö stigum meira og þeir þremur stigum minna. Sem þýddi að við værum meistarar. Auðvitað dugir ekkert að segja *ef* svona eftirá, en það sýnir okkur hversu nálægt titlinum við erum í raun.
Djibril Cissé segist skuldbundinn Liverpool og ætlar sér ekki að fara neitt. Á endanum ræður hann því ekki heldur Rafa, og ef við fáum gott tilboð í hann og/eða Rafa vill losna við hann, þá fer hann. Ég hef lengi ætlað mér að skrifa pistil um framtíðarhorfur Djib en ég kem mér ekki að því, einfaldlega af því að mér finnst ég skipta um skoðun með hann vikulega. Eftir slappa innkomu í undanúrslitum bikarsins gegn Chelsea vildi ég losna strax við hann, en síðan þá hefur hann leikið virkilega vel og nú væri ég til í að halda honum. Sú skoðun gæti þó alveg eins breyst aftur um helgina. Hann er bara þannig leikmaður að þótt hann eigi stórgóða leiki og/eða innkomur af bekknum reglulega, þá getur hann pirrað mann óendanlega þess á milli. En það er erfitt að gagnrýna mann sem hefur skorað 18 mörk í öllum keppnum í vetur – þar af 9 í deildinni, fleiri en Crouch og helmingi fleiri en Morientes – og það sérstaklega ef tekið er tillit til þess hversu oft hann hefur þurft að byrja á bekknum eða spila á kantinum.
Svo skrifaði Paul Tomkins pistil um bikarúrslitin sem ég mæli með, að venju. Tomkins er, eins og margoft áður hefur komið fram á þessari síðu, besti Liverpool-penninn á netinu í dag og því fyrirtaks upphitun fyrir helgina að kíkja á hans sjónarhorn.
Annars eru stærstu slúðurfréttirnar í Englandi þessa dagana hjá öðrum klúbbum en okkar eigin. Chelsea eru eins og þeir eru, munu bæði losa sig við og kaupa stór nöfn, en stærsta slúðrið þessa dagana er möguleg brottför Ruud van Nistelrooy frá Man U í sumar. Eins og hefur gerst svo oft áður með stórstjörnur United þá virðist Rvn vera kominn í ónáð hjá Sir Alex, en þaðan eiga engir knattspyrnumenn afturkvæmt.
Það yrði allavega spennandi að sjá hvað United myndu gera ef Rvn færi í sumar. Ef hann fer þá er pottþétt að þeir hafa pening og aðdráttarafl til að reyna að fá til sín toppklassa framherja – við myndum eflaust heyra nöfn á borð við Ronaldo (hjá Real Madríd), Adriano og Zlatan Ibrahimovic nefnd í þessu samhenti – en það væri sama hvern þeir myndu kaupa, þeir gætu *engan veginn* verið vissir um að viðkomandi myndi skila þeim jafn mörgum mörkum og RvN. Það myndu fáir geta fyllt hans spor í þeim efnum, mjög fáir. Auk þess erum við á markaðnum að leita að toppklassa framherja í sumar og ég viðurkenni fúslega að ég myndi frekar vilja sleppa við að þurfa að keppa við Man U á þeim markaði. Það er alveg nógu erfitt að kaupa menn á borð við Dirk Kuyt, Michael Owen eða Jermain Defoe án þess að þeir séu að reyna að yfirbjóða okkur.
Nú, stærsta frétt sumarsins **verður** samt pottþétt ákvörðun Thierry Henry, en hann hefur sagst munu ákveða sig áður en HM í Þýskalandi hefst. Sem er eftir rétt rúman mánuð núna, þannig að eftir leik Arsenal og Barcelona í Meistaradeildinni eftir viku getum við búist við því að allt verði vitlaust í fjölmiðlafári í kringum Thierry. Einn Arsenal-aðdáandi tók saman ágætis pistil þar sem hann ber saman bæði Arsenal og Barcelona, sem er talinn nær öruggur áfangastaður Henry *ef* hann ákveður að fara. Þótt mér þyki þessi grein vera frekar hliðholl Arsenal (eðlilega, maðurinn styður þá og vill halda Henry) þá er samt gaman að sjá þetta tekið svona saman.
Og talandi um úrslitaleiki í Evrópu, þá er víst “stórleikur” í kvöld. Nýji landsliðsþjálfari Englendinga, Steve McClaren, stýrir sínum mönnum í Middlesbrough í síðasta leik sínum. Það er úrslitaleikur Evrópukeppni félagsliða, í Eindhoven í Hollandi, gegn Sevilla frá Spáni. Ég vildi að ég gæti sagst halda með öðru liðinu en ég geri það í rauninni ekki. Middlesbrough leika yfirleitt frekar leiðinlega og varnarsinnaða knattspyrnu en hafa þó einhvern leynigír sem þeir geta stundum dottið í og skorað haug af mörkum. Á móti er Sevilla-liðið frekar sókndjarft, og framherjinn þeirra – Freddie Kanouté – ætti að þekkja vel til Boro-manna, en þeir eru líka þekktir fyrir mikinn leikaraskap og óþolandi tafir og þess háttar.
Þannig að ég sé fyrir mér 1-0 sigur fyrir öðru hvoru liðinu; Middlesbrough komast yfir og verjast svo að hætti McClaren (til hamingju England – **frábært** val) eða þá að Sevilla komast yfir og eyða svo tímanum á alla mögulega vegu. Hvort heldur sem er þá nenni ég ekki að horfa á þennan leik. Bíð hins vegar spenntur eftir þeim stóra eftir viku.
Jæja, nóg í bili. Standið nú upp frá tölvunni og heilsið upp á sólina – ég er varla sá eini sem eyðir allt of miklum tíma fyrir framan tölvuskjá, hmmm? 🙂
Ég vona að Boro hafi sigur. Leið þeirra í úrslitaleikinn hefur verið ævintýraleg og það er eitthvað sem stuðningsmenn Liverpool þekkja mjög vel!
Ég hélt að STÆRSTI leikurinn á tímabilinu væri eftir 4 daga en ekki viku……… :rolleyes:
Hvað kemur það okkur við, sem fans LFC, hvað spánskt lið gerir á mótir einhverju Lundúnaliði….. (þó held ég að þetta sé góð leið fyrir Henry að sjá sína nýju samherja) :confused:
XABI PRIETO verði okkur að góðu.
Það verður nú seint sagt um Middlesborough að þeir séu Lundúnalið.
Held líka að hann hafi verið að tala um Arsenal….þeir eru öruglega frá London er það ekki?
Stigafjöldi LFC í deildinni nú í ár hefur oft verið nóg (og ætti að vera nóg) til að vinna deildina. Málið er að Chelsea hefur bara hækkað stuðulinn svo mikið að bilið á milli topp 4 liðanna er orðið svo mikið að restin af deildinni er bara miðlungs í samanburði.
Ég er sammála þér með Cissé en ég skipti um skoðun um hann nánast í hvert skipti sem ég fer að pæla í hans málum. Ef Rafa reynir að nýta hann eins og hann hefur gert í lok tímabilsins þá tel ég að hann geti reynst okkur vel sem “einn af hópnum”. Þegar ég meina “einn af hópnum” er ég að meina liðsheild 25 leikmanna sem allir vilja ná sama takmarkinu, þ.e. sigra deildina og vinna dollur og fórna sér fyrir liðið.
Og ég var virkilega ánægður að sjá Sevilla eyðaleggja Boro í gær. Það liggur á borðinu hvað mig varðar að McLaren er engan veginn nægilega góður stjóri og spurning hvernig hann höndlar stjörnurnar. Sevilla voru mun betri og sanngjarn sigur hjá þeim og 4-0 var bara það sem koma skal eftir að Sevilla gerði annað markið.
Það sem mér finnst áhugaverðast með gengi Liverpool í deildinni í ár er að ef tímabilið hefði byrjað um miðjan október væri Liverpool meistari miðað við árangur liða í deildinni á því tímabili 🙂
Það er vissulega sláandi tölfræði, Matti. Eins og ég segi, vegna þess að Chelsea hafa haft þetta 7-15 stiga forskot á okkur í allan vetur og haldið því meira og minna þá finnst fólki eins og þeir hafi unnið þessa deild með yfirburðum. En þá er fólk að gleyma því að við vorum orðnir einhverjum 20 stigum á eftir þeim eftir septembermánuð.
Við erum nær deildarsigri en fólk gerir sér grein fyrir. 🙂