Barcelona: Evrópumeistarar 2006!

Jæja, stórleik kvöldsins lauk með því að Spánarmeistarar **BARCELONA** tóku við tigninni Meistarar Evrópu, sem eins og Einar Örn minnti svo hressilega á í síðustu færslu hafði verið okkar titill síðustu fimmtíu og eina vikuna. 🙂

Þetta var frekar skrýtinn leikur. Fyrirfram bjuggust flestir við að Börsungar myndu sigra vegna þess að þeir væru einfaldlega betra liðið af tveimur stórgóðum, en menn vissu þó vel að Arsenal gætu tekið þetta. Þetta fór þó öðruvísi en búist var við, heldur betur. Jens Lehmann var rekinn útaf eftir um 20 mínútur og Arsenal-menn máttu þola það að spila einum færri í 70 mínútur. Engu að síður komust þeir yfir og héldu forskotinu allt þar til kortér var eftir af leiknum, en þá gerði varamaðurinn Henke Larsson útslagið fyrir Börsunga og bjó til sigur fyrir þá með tveimur stoðsendingum á fimm mínútna kafla, fyrst fyrir Samuel Eto’o og svo fyrir Luciano Belletti. Sem sagt, Börsungar Evrópumeistarar en það var erfið fæðing, og maður verður eiginlega að segja að þótt betra liðið hafi unnið þá hefðu Arsenal sennilega átt skilið að sigra þennan leik, því þeir voru betri aðilinn fram að brottvísun Lehmann og stóðu sig eins og hetjur eftir það.

Dómgæslan í þessum leik verður eflaust skeggrædd á kaffistofum víðs vegar um heim næstu daga, en Norðmaðurinn Terje Hauge var ekki góður í þessum leik. Til að mynda var hann að mínu mati of fljótur að dæma brot á Lehmann þegar hann var rekinn útaf – góður dómari hefði leyft leiknum að halda áfram, beitt hagnaði, og dæmt svo. Rétt eins og í fyrra þegar Petr Cech braut á Milan Baros og hefði átt að fá rautt spjald og við víti, þá lét dómarinn leikinn halda áfram og við skoruðum mark upp úr hagnaðinum. Í kvöld skoraði Ludovic Giuly algjörlega löglegt mark sem hefði átt að koma Barca 1-0 yfir eftir 20 mínútna leik, en Hauge tók það mark af Börsungum vegna þess að hann dæmdi of snemma.

Og eftir sitja Arsenal-menn og velta þessari eilífu spurningu fyrir sér: *Hvað ef?* Hvað ef Hauge hefði leyft markinu að standa og haldið Lehmann inná vellinum með gult spjald? Hefðu þeir átt meiri séns 1-0 undir en með fullmannað lið, en þeir gerðu með stöðuna áfram 0-0 og einum færri í 70 mínútur? Þeir fóru langleiðina með að vinna þennan leik einum færri en á endanum vantaði kraftinn til að klára leikinn, enda tekur það toll að vera manni færri. Kannski hefði þeim farnast betur ef mark Giuly hefði fengið að standa. Hver veit?

Svo er það maður þessa leiks að mínu mati, hinn ótrúlegi Thierry Henry. Hann fékk nokkur ágæt tækifæri til að tvöfalda forskot Arsenal í þessum leik en nýtti þau ekki, sem reyndist dýrt þegar Börsungar loks jöfnuðu. Eins og þeir hjá BBC velta fyrir sér: gæti klúður Henrys í stöðunni 1-0 hafa gert út um framtíð hans hjá Arsenal? Það kemur eflaust í ljós á næstu dögum/vikum, en við getum allavega búið okkur undir hið óumflýjanlega. Enska pressan mun ekki ræða mikið annað fyrr en hann tekur ákvörðun af eða á.

En allavega, út frá mínu persónulega sjónarmiði er ég hæstánægður með þessi lok Evróputímabilsins. Ef eitthvað lið átti að taka við krúnunni Meistarar Evrópu af mínum heittelskuðu Liverpool gat ég ekki hugsað mér betra lið en Barcelona. Ég óska öðrum Barca-aðdáendum, sem og sjálfum mér, hjartanlega til hamingju með þetta! 🙂

Tímabilið er sem sagt opinberlega á enda og nú er lítið annað að gera en að taka saman það markverðasta. Það munum við hér á blogginu gera næstu daga er við lítum um öxl og sjáum hvað var gott og slæmt við nýafstaðið tímabil hjá liðinu okkar, Liverpool FC.

Þar fyrir utan er ekki mikið til að hlakka til næstu vikurnar. HM í knattspyrnu og slúðurtímabilið, en að öðru leyti er ekki mikið að gerast í knattspyrnuheiminum, er það? 🙂

4 Comments

  1. Jammm, ágætis sigur hjá Barca. Reyndar sennilega lélegasti leikurinn hjá Barca í Meistaradeildinni í ár. En þeir hafa verið besta liðið hingað til og áttu skilið að vinna.

    Aukaspyrnudómurinn var að mínu mati Barca í óhag (þrátt fyrir að Höddi Magg hefði ekki jafnað sig fyrir hönd Arsenal allan leikinn). Ef við hefðum verið að tala um *víta*spyrnu og rautt spjald, þá hefði ég kannski valið það. En í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, þá vel ég mark umfram aukaspyrnu og rautt spjald.

    Þessi dómari var slappur og Arsenal markið náttúrulega djók, en mér finnst fáránlegt hjá Henry að kenna dómaranum um tapið. Og ég verð að gera athugasemd við að gefa framherja, sem klúðrar tveimur bestu færunum í leiknum, viðurkenningu fyrir að vera maður leiksins. Já, Henry var frábær – en hann klúðraði líka tveim bestu möguleikum síns liðs.

    Larsson átti náttúrulega frábæra innkomu og það er magnað að Barca geti unnið án þess að Ronaldinho sýni nokkurn skapaðan hlut.

    Ég hafði alltaf á tilfinningunni að Arsenal hefðu eitthvað með sér líkt og við í fyrra. En París er ekki Istanbúl og Arsenal er ekki Liverpool og því fór sem fór. Gott mál fyrir okkur Barca aðdáendur.

    **Til hamingju, Barca** 🙂

  2. Finnst það nú soldið hart hjá Henry að vera að kenna dómaranum um þetta tap ?! (hvað er t.d. málið með að Wenger vælir eftir hvern einasta leik) Hann minnist ekkert á það að aukaspyrnan sem þeir skoruðu upp úr var auðvitað bara bull!

    Annars var jú dómarinn að vísu slakur en ekki hann dæmdi ekki bara Arsenal í óhag! Ef ég væri í Barca hefði ég tekið markið í staðinn fyrir aukaspyrnu og rautt spjald! Fyllilega sanngjarn sigur í leik þar sem betra liðið vann!

    Wenger getur nú líka sjálfum sér um kennt fyrir ömurlegar skiptingar! Af hverju tók hann Fabregas útaf ?! Hvar var van Persie ?! Riijkard (stafs.) gerði hins vegar allt rétt í þeim efnum enda skiluðu allar skiptingarnar hans sér mjög vel ! Krúsíal atriði að klúðra þessum skiptingum ekki svona eins og asni! Sjáum t.d. bara í fyrra þegar við tókum þetta, allar skiptingarnar hans Rafa heppnuðust 100% og hvor vann ?!

  3. Frábær úrslit og sanngjarn sigur. Vissulega var dómarinn ekki besti maðurinn á vellinum og Barcelona átti hreinlega ekki góðan dag. En það dugði samt til sigurs, sem sýnir hversu öflugt liðið er! Þetta var ekki dómaranum að kenna. Mér finnst ótrúlegt að lesa ummæli Henrys á BBC um að dómarinn hafi verið úrslitavaldurinn! Í sama viðtali segist Henry hafa verið sammála því að senda Lehmann út af!!! : “It was a clear sending-off for Jens but if they didn’t want us to win, they should have just said it from the start…”

    Henry kvartaði undan varnarmönnum Barca og að þeir hafi verið sparkandi hann niður, en hvað gerðu varnarmenn Arse… sama hlut! Og þegar Henry fer að tala um eins og asnalegur skólakrakki…”… kannski ég ætti að læra að láta mig falla næst…”, þá missir maður virkilega virðingu fyrir honum sem spilara. Sérstaklega með tilliti til þess að mark Arse… kom upp úr feykilega góðri og ýktri dýfu Eboue!

    Ég get satt best að segja ekki valið mann leiksins afgerandi. Liggur við að ég velji Larsson eða Valdez fyrir nokkrar stórkostlegar markvörslur … annars var þetta furðulegur leikur og Barca í algerri meðalmennsku – og leikurinn vitanlega klössum neðar í gæðum heldur en leikurinn í fyrra.

    En ég myndi ekkert gráta það að fá Henry yfir í Barca…

  4. Ég horfði nú bara á Liverpool – AC Milan í kvöld (Arsenal – Barca hvað??) ……þvílík snilld. Leikur sem hægt er að horfa á aftur og aftur og aftur og aftur og…….og alltaf er eins og maður sé að horfa á hann í fyrsta sinn. Spenna, drama, skemmtun og gæsahúð.

    Takk fyrir frábært tímabil. Þessi síða er búin að vera frábær í vetur, þið sem stjórnið henni hafið þúsund þakkir fyrir og rúmlega það.

Evrópumeistarar!

Alves á leiðinni?