Uppgjör Liverpoolbloggsins á tímabilinu 2005/06

Bjartasta Vonin: MOMO SISSOKO

momo_tackles_eidur.jpg

Það þarf ekki að koma neinum á óvart hvaða leikmann við hér á Liverpoolblogginu töldum vera **björtustu vonina** upp á framtíðarhorfur liðsins að gera. Ef við hugsum til baka yfir tímabilið þá held ég að ég sé ekkert ósanngjarn þegar ég segi að það var bara einn leikmaður sem komst nálægt því að hafa jafn mikil áhrif á spilamennsku Liverpool og Steven Gerrard gerði. Sá leikmaður, dömur mínar og herrar, er hinn rétt rúmlega tvítugi **MOHAMMED SISSOKO**.

Og að hugsa sér að hann var næstum því genginn vil liðs við Everton síðasta sumar!

Rafa Benítez var greinilega ekki til í að láta keppinautana í Bítlaborginni fá þennan kappa, og keypti hann sjálfur. Upphaflega voru menn ekki vissir hvort það ætti að fagna þessum kaupum eða hvað, og sumir fengu illan bifur á þessu þegar Rafa lýsti Momo sem hinum næsta Patrick Vieira. Við höfum heyrt slíkar samlíkingar áður, ekki satt?

En það tók ekki nema einn deildarleik eða svo fyrir flesta að sannfærast um að þarna væri stórstjarna á ferðinni. Fyrsti deildarleikur, [0-0 jafntefli á útivelli gegn Middlesbrough](http://www.kop.is/gamalt/2005/08/13/18.54.15/), og Momo átti einhverjar þrjú þúsund átta hundruð og sjötíu tæklingar í þeim leik og var réttilega valinn maður leiksins hér á Liverpool blogginu. Það var í fyrsta sinn sem hann hlaut þann heiður, en langt því frá það síðasta.

Momo er langt því frá að vera orðinn fullgerður knattspyrnumaður. Við megum ekki gleyma því að hann er bara tuttugu og eins árs gamall; hann getur bætt hjá sér sendingarnar, þarf að laga skottæknina hjá sér og mætti fara að skora eins og eitt eða tvö mörk á næsta ári. En af svo ungum miðjumanni þá minnir hann mig um margt á þá Steven Gerrard og Patrick Vieira, þegar þeir voru á sama aldri; báðir voru þeir farnir að dóminera miðjubaráttuna í nær hverjum einasta leik á þessum aldri, en báðir áttu þó eftir að taka ótrúlegum framförum og vaxa sem knattspyrnumenn á næstu 4-5 árum þar á eftir. Tilhugsunin um að Momo muni taka sömu framförum og þeir Gerrard og Vieira gerðu á 20-25 ára aldrinum er nóg til að fá mann til að titra.

**STIGIN FÉLLU SVO:**
1. Mohammed Sissoko – 12 stig (fullt hús)
2. José Manuel Reina – 4 stig
3. Daniel Agger – 3 stig

**EINSTAKLINGSLISTAR:**

**Einar Örn:**
1. Momo Sissoko

**Kristján Atli:**
1. Momo Sissoko
2. Pepe Reina
3. Paul Anderson

**Hjalti:**
1. Momo Sissoko
2. Pepe Reina
3. Daniel Agger

**Aggi:**
1. Momo Sissoko
2. Daniel Agger
3. Paul Anderson

Hvað finnst mönnum svo? 🙂

11 Comments

  1. Hann á þetta fullkomlega skilið. Maður var orðin mjög svo smeikur um hann þegar að hann meiddist á auga en hann sýndi það og sannaði þegar að hann kom til baka að þarna var enginn kjúlli á ferð. Held að hann eigi eftir að verða með þeim stærstu þarna í boltanum.

  2. Þetta segir sig næstum sjálft…svo frábær hefur Sissoko verið.

    Hvernig er sjónin hjá Momo núna…ég heyrði einhver staðar að hann væri ekki með 100% eftir slysið í vetur..?? Er möguleiki að þetta geti haft áhrif á ferilinn hjá honum?? Langar bara að heyra ykkar skoðun …mighty Liverpool bloggarar.. 🙂

  3. Þetta segir sig alveg sjálft, rússnesk kosning svo að segja 🙂

    Ég sá Anderson spila úrslitaleik youth cup gegn Man City og hann lofar góðu.

  4. Hann segir sjálfur að hann sjái um 80 % á skaddaða auganu !

    Með hverjum leiknum er Sissoko að taka áhættu með því að nota ekki hlífðargleraugun sem honum var ætlast til þess að nota. Ef Sissoko fær aftur högg á augað gæti það orðið honum dýrkeypt.

    En sammála ykkir bloggurunum, Sissoko á án efa skilið þennan titil, Agger kæmi sterklega til greina ef hann hefði spilað meira.

    1. Sissoko
    2. Agger
    3. Reina

  5. Sissoko er eiginlega sá eini sem kemur til greina – alveg frábær kaup. Svo vonar maður að ungu strákarnir sem Benitez er búinn að fá í varaliðið komi sterkir upp – les fína dóma um t.d. Paul Andersson, Jack Hobbs, G. Antwi, o.fl. Allavega ánægður með stefnuna að hafa ungt varalið, held það skili betri (og vonandi fleiri) ungum strákum upp í aðalliðið. Það jafnast fátt á sjá stráka koma upp úr yngri liðum og gera það gott (Fowler, Owen, Gerrard…).

  6. Carra, ekki gleyma Carra (Biggun).

    Frábært að Liverpool náði að næla í þennan snjalla leikmann, er ansi hræddur um að tímabilið hefði endað verr án Sissoko. Vonandi heldur hann áfram að bæta sig, þá aðalega skottæknina og sendingarnar.

    Kv
    Krizzi

  7. Tja…þar sem að Carragher er að nálgast þrítugt er nún varla hægt að tala um hann sem björtustu vonina 🙂

  8. Steven Geir, Krizzi var að tala um þessa setningu:

    >Það jafnast fátt á sjá stráka koma upp úr yngri liðum og gera það gott (Fowler, Owen, Gerrard…).

    Þarna vantar væntanlega Carra inní.

Guily?

Slúður og væl