Eins og sést í færslunni hér að neðan hefur dyggasti þjónn Liverpool í áratugi ákveðið að skella skónum á hilluna og í kjölfarið kom stjórinn okkar og tilkynnti okkur það sem við áttum öll að vita. Þú finnur hvergi nýjan Carragher. Einfalt. Mögulega elurðu slíkan mann upp, en hann finnst ekki annars staðar.
Fyrir 10 dögum flaug ég til London í vinnuerindum og náði því að komast á Emirates völlinn til að horfa á okkar ástkæra lið leika gegn Arsenal. Áður en ég kem að leiðtogaumræðu langar mig að minnast á að ég held ég hafi sannfærst þarna um að ég vill frekar byggja upp Anfield en að reisa völl sem er með öllum nýjustu þægindum. Það var ákaflega lítið líf utan við völlinn, langt í næsta “lókal” svo að við stóðum bara í röð til að komast inn á völlinn sjálfan fyrir leik. Þar voru afskaplega fínar setustofur fullar af ráðsettum karlmönnum sem eyddu peningum.
En ENGIN stemming. Inni á vellinum fékk ég sæti beint ofan við “Travelling Kop” og náði því að taka þátt í söngnum með þeim, enda að mestu umkringdur Íslendingum. Í stuttu máli sagt var sá hópur sá eini sem var í stuði, sungu allan tímann. Ekki heyrðist í heimamönnum nema fyrstu mínúturnar eftir jöfnunarmark þeirra, þá kom nokkrum sinnum “Go Arsenal”. Sálarlaus skemmtun að mínu mati, Nallarnir sem maður talaði við á pöbbnum eftir leik (sem var opinn þá) kenndu háu miðaverði og nýjum velli um þetta allt. Svo ég vill Anfield áfram bara og bæta 10 þúsund sætum við og einhverjum millaboxum, byggja barstúku á völlinn fyrir þá sem vilja settlega skemmtun, ég vill troðast og svitna á The Park eða Albert!
En aftur að leiðtogahæfileikum. Við áttum tiltölulega erfitt allan þennan leik. Arsenal voru meira með boltann og sóttu. Eftir 15 mínútur var maður búinn að fatta allt sem Rodgers sagði um það að við værum “quiet team”. Jafn góðir leikmenn og Reina, Johnson og Agger eru þá gustar ekki um þá og Wisdom var augljóslega stressaður. En Carra var mættur. Hann átti aldrei dauðan punkt allar þessar 90 mínútur. Hann var byrjaður að garga og benda um leið og momentið kom sem við urðum að fara að verjast, hvort sem var upp úr föstu atriði eða opnu spili. Í hverju einasta leikstoppi (vegna meiðsla eða skiptinga) var hann hlaupinn í varnarmennina sína eða Lucas til að fara yfir hlutina og Andre Wisdom fékk sérstaka þjónustu. Carra stóð auðvitað næst honum en þegar strákurinn gerði vel fékk hann alltaf hrós eða lítt áberandi fimmu. Algerlega magnað.
Það kom mér enda ekkert á óvart að sjá að Carra var valinn maður leiksins hjá Sky. Og heldur ekki að hann væri ekki nefndur maður leiksins hjá okkur, hans frammistöður þarf að upplifa held ég bara og hann átti kampavínsflöskuna skilda heldur betur.
En Carra er ekki sá eini. Í Arsenal leiknum var annað lýsandi ljós inni á vellinum. Sá er fyrirliðinn okkar hann Steven Gerrard. Sama hlutverk og Carra hefur aftar á vellinum hefur Gerrard ofar. Hann virkar á mann grimmari, lét Hendo, Sturridge og Downing augljóslega heyra það all hressilega á ákveðnum mómentum og svei mér ef hann skammaði ekki Suarez bara líka!
Mér fannst þetta kristallast best á síðustu mínútunum. Gerrard hafði tekið horn fyrir okkur í leiknum og í tveimur slíkum tilvikum í röð um 80.mínútu breikuðu Arsenal hratt, komust í gegnum Lucas og í skyndisóknir sem sköpuðu hættu. Í seinna skiptið einfaldleg trylltist fyrirliðinn við félaga sína. Stuttu seinna fengum við annað horn (í uppbótartíma). Gerrard sagði Suarez að taka það, sá ætlaði eitthvað að nöldra og fékk þá ryksugu í andlitið og mjög skýra bendingu…taktu hornið!!!
Hvar staðsetti Gerrard sig? Við hlið Lucasar. Boltinn fór ekki þangað og stuttu seinna var flautað af, en þessi framkoma og útfærsla fyrirliðans veit ég ekki hvort sást í sjónvarpinu en hún sannaði það fyrir mér sem maður hefur alltaf lesið, SG er fyrirliðinn sem allir hlusta á og fara eftir. Mér fannst þetta frábært að sjá…alveg gæsahúð og allt þegar Suarez skokkaði að taka hornið!
Þeir sem hafa spilað fótbolta muna eftir svona týpum, sem hjálpa manni í vanda, skipuleggja inni á vellinum og halda manni á tánum þegar maður er að slá slöku við. Mitt mat er að hvert lið þarf 2 svona menn inni á vellinum og nú er ljóst að annar okkar, sá sem enn einu sinni heldur “betri” fótboltamönnum utan við liðið er að kveðja.
Mikið vona ég að áður en ég hætti að fylgjast með boltanum þá fáum við upp karaktera eins og Jamie Carragher og Steven Gerrard. Og ég ætla að njóta hverrar einustu sekúndu sem þeir eru í treyjunni.
Því við eigum leiðtoga í liðinu okkar sem aðrir horfa til, nokkuð sem skiptir máli. Því maður kaupir ekki leiðtogahæfileika!!!
Rétt!
Þeta er allt hárrétt og litlu í raun að bæta við. Ég er svo heppinn að fá að sjá Carra í “aksjon” á móti Everton 2006 og þar var á hreinu hver réð og hver ekki, ég tala nú ekki um eftir að Gerrard var rekinn útaf .
Vonandi fá Liverpool-kynslóðirnar á eftir okkur að upplifa að sjá sinn Carragher eða Gerrard, án þess væri boltinn ansi fátæklegur.
Carragher á bara að vera mættur á næsta undirbúnings tímabil sem hluti af þjálfarateyminu. Helst starfa innan akademíunar líka og koma þessu hugarfari inn hjá leikmönnum strax í byrjun.
Flottur pistill Maggi og allt hverju orði sannara.
Frábær pistill, ætli þetta sé ekki bara næsta verkefni Carra, taka menn í Öskur-æfingar til að efla samskipti 🙂
En nú er bara að leggja allt púður í að landa Mats Hummels frá Dortmund í sumar, skilst að hann sé vel öskrandi. Svo bara þýskunámskeið á línuna! 😀
Þú getur alveg keypt leikmann úr öðru liði sem hefur leiðtogahæfileika, ég blæs á þetta rugl.
Hefði Gerrard farið til Chelsea á sýnum tíma þá hefðu þeir keypt leiðtogahæfileika.
flott skrif
Gerrard og Carra eru kóngarnir á Anfield og sem betur fer kemur þeim vel saman 🙂
Flottur pistill
Er einhver af ungu strákunum með þessa hæfileika?
Kelly, Flanagan, Robinson, Wisdom, Coates, Allen, Henderson, Sterling, Suso, Borini, Cautinho, Yesil, Coady, Morgan?
Það hlýtur bara að vera, en þangað til að einhver af þeim taki við hlutverki Carra verða eldri leikmennirnir að stíga upp. Gerrard gerir þetta ekki einn. Þið sem hafið verið svo lánsamir að fara reglulega á leiki upplýsið nú okkur hina.
Hvaða leikmaður er líklegastur til að taka að sér forystuhlutverk Carra?
Henderson hefur allavega verið fyrirliði enska u-21 liðsins. Það eru þá einhverjir leiðtogahæfileikar þar.
Sammála Dick Kuyt í nr. 6. Blæs á svona þvælu, er ekki kominn tími á að víkka sjóndeildarhringinn örlítið.
Það er kannski hægt að kaupa leikmann með leiðtogahæfileika, en ég sé ekki að það verði á nokkurn hátt svipað og sá leiðtogi sem Carra er fyrir Liverpool. Heimalningur með hæfileika og með þennan karakter… óborganlegt myndi ég halda!
Heyr Heyr !
góður pistill!!
Sælir félagar
Frábær pistill Maggi og hvert orð satt og rétt. Þeir sem efast eiga mikið ólært um leiðtogahæfileika og það exstra sem það er að vera uppalinn og hafa liðið sitt í blóðinu.
Auðvitað er hægt að fá menn með leiðtoga hæfileika inn í lið. En hvar slær hjarta þeirra, hvar er sál þeirra og tryggð. Þetta getur í einstaka tilfellum verið til staðar hjá aðkeyptum mönnum en það tekur langan tíma. Og það er ekki runnið þeim í merg og blóð og allra síst á tímum þar sem peningar ráða oftast mestu um hvar þeir lenda.
Tryggð Carra og barátta, ódrepandi vilji og virðing fyrir liðinu, sögu þess og framtíð er honum í blóð borið vegna uppruna hans í háborg fótboltans, Liverpool.
Það er nú þannig
YNWA Carra
Það er nú þannig
Þetta er nú meiri bull pistillinn. Með þeim slappari sem hafa komið hér á kop.is
AEG NR 15
“Þetta er nú meiri bull pistillinn. Með þeim slappari sem hafa komið hér á kop.is”
Það er kannski hægt að útskýra stafsetninguna sem yður þóknaðist ekki í þessum pistlli? Var orðum ekki raðað í réttri röð eða VEISTU EKKI HVAÐ KOP.IS skrifar um?
En takk Maggi fyrir öll þín skrif og allir skrifarar EN sumir skammast sín fyrir að nota gleraugu
Verð að vera sammála nr 15 hérna að ofan.
Hvernig dettur greinarhöfundi í hug að ræða um Jamie Carragher á þessari síðu?? Eða Anfield og kosti og galla nýs leikvangs?? Og hvað þá Steven Gerrard?? Hver nennir að lesa um hann??
Nei kæru síðuhaldarar…við viljum fá meira neikvæðnisraus um FSG og Brendan Rodgers. Væri ekki hægt að skella í eina grein um meðalmennsku Liverpool og hvað fyrirliðinn okkar er búinn á því og metnaðarleysið sem olli því að við drulluðum á okkur í þessu Wesley Snjeider máli?
Með von um meiri leiðindi hér inni, kveðja Gunnar
Sammála 17 meiri leiðindi hér inn, og endilega gerið AEG að pistlahöfundi!
Ég tel það nærri ómögulegt að kaupa leiðtoga eins og Carragher sem er með Liverpool í blóðinu og hefur alltaf sett Liverpool í fyrsta sæti.
En ég hugsa að það sé smá möguleiki á því að við höfum þó komist ansi nálægt því þegar við keyptum Luis nokkurn Suarez, sem virðist elska Liverpool og vilji allt fyrir klúbbinn gera. En það verður tíminn einn að leiða í ljós, Ef hann verður hjá okkur næsta vetur þá held ég að hann sé eftir að vilja klífa hæstu fjöll fyrir klúbbinn okkar og verða lengi hjá okkur.
En sannur leiðtogi er hann með sína baráttu og ástríðu fyrir leiknum og er sá maður sem maður treystir að leggi sig alltaf 110% fram í hverjum einasta leik .
Og er hann líklegasti arftaki fyrirliðabandsins þegar Gerrard og Carra hverfa á braut.
Daniel Agger kemst næst tessum mönnum hvad vardar ást â fêlaginu og èg gæti sed Agger taka vid sem varafyrirlidi.
Hvað sem hver segir þá hefur þessi pistill lög að mæla. Fyrir nokkrum vikum fjölluðum við um lið með þrastarhjörtu og Brendan Rodgers kallaði það quiet team. Það er vissulega hægt að kaupa leiðtogahæfileika en þú kaupir ekki loyalty (hvernig þýðir maður það?), ástríðu fyrir klúbbnum eða þessi tengsl sem Carra hefur haft við stuðningsmenn alla tíð. Þótt knattspyrnuleg gæði séu kannski farin að minnka hjá meistaranum þá hefur hann líka slíkt vit á fótbolta og slíkan skilning að fáir haffsentar í heiminum ná að búa til þetta kombó af leikmanni sem hann er og hefur verið síðustu árin.
Mikilvægi hans fyrir liðið hefur sjaldan verið meira (nema ef vera skyldi í Istanbul 2005) vegna samsetningar þess. Liðið er ungt og brothætt og það eru ekki margir sterkir karakterar í því. Það sannast hvað best með því að liðið á erfitt með að koma til baka eftir að hafa lent undir.
Ég endurtek það sem ég bað um hérna við síðasta þráð, við þurfum að kveðja þennan mikla meistara með sæmd þegar hann leggur skóna upp á hina margfrægu hillu.
Hvað er Javier Zanetti annað en keyptur leiðtogi?
Gerrard og Carragher komast ekki með tærnar þar sem sá leikmaður hefur hælana.
Sælir félagar
Kaldhæðni Gunnars Ágústs#17 svarar í reynd öllu bulli um þennan frábæra pistil Magga. Það þarf því ekki fleiri orð þar um. Ívar Örn hefur einnig bent á það að gera þurfi Carra hátt undir höfði þegar hann að lokum leggur skóna á þá frægu hillu. Það má líta á pistil Magga sem aðdraganda að því uppgjöri. Ég hlakka til að lesa það þegar og þá.
Það er nú þannig
YNWA
Eru menn hér í alvörunni að rífast um það hvort hægt sé að kaupa eða ekki kaupa leiðtogahæfileika?!
Þetta er álíka “gáfulegt” rifrildi og þegar menn hér voru að rífast um hvort maður væri á þessu eða hinu aldursárinu!
Án djóks, þetta er náttúrulega bara tittlingaskítur (bæði rifrildin) og menn greinilega orðnir uppiskroppa með umræðuefni þegar ÞETTA er orðið að hitamáli.
Ég þekki pistlahöfund nákvæmlega ekkert, nema ég sá hann einu sinni í Útsvari. Ég held samt að ég geti alveg vottað það, að hann meinti þetta ekki svona bókstaflega eins og menn taka því hér. Lásu menn annars ekki pistilinn hjá Magga? Mér fannst það koma alveg kýrskýrt fram þar hvers konar leikmaður – og leiðtogi – Carra er. En auðvitað vilja menn rífast um eina setningu sem, án samhengis, er hægt að túlka fram og til baka.
Carra á heiður skilinn fyrir allt sitt starf til Liverpool FC. Hans framlag hefur verið ómetanlegt og ómælanlegt í alla staði og fyrir það á hann virðingu okkar allra skilið, sama hvort hann sé að 36. eða 37. aldursári (já Carl Berg, þessu er beint sérstaklega til þín!!!) 🙂
Maggi fær líka þakkir frá mér fyrir góðan pistil um þennan heiðursmann sem Carra er. Mjög skemmtilegur pistill og ánægjulegt að lesa hann.
Homer
Hver er Javier Zanetti?
Svo spurði ég bara Google frænda og veit það núna 🙂
Fyrirliði Inter til margra ára
Eina sem ég segi við þessum pistli er takk fyrir og ég er sammála.
Svo finnst mér bara frábært hvað síðuhaldarar standa sig vel í að pistlagerð fyrir okkur, áfram svona.
Það er nýr Carragher í unglingaliðum Liverpool eins og sást í Being Liverpool… Hver veit nema við fáum annan Carra.
Ég er ekki alveg að átta mig á þeim sem drulla yfir pistilinn með því að rífast um fyrirsögnina. Held, eins og komið hefur verið inn á, að þeir menn hafi ekki nennt að lesa pistilinn eða komnir upp með boxhanskana áður en þeir lásu hann.
En samt smá um að “kaupa leiðtogahæfileika”
Liverpool hefur keypt og er með leikmenn sem eru “leiðtogar” úr sínum fyrri liðum.
Torres, Kuyt og Suarez voru allir fyrirliðar þeirra liða sem þeir voru keyptir frá. Agger og Lucas eru/hafa verið fyrirliðar sinna landsliða og Henderson í U 21. Downing, Allen, Henderson og Adams voru allir keyptir vegna þess að þeir stóðu upp úr hjá sínum liðum.
Og hvað svo?…. Eru þessir menn þá keyptir leiðtogar? Ég hef ekki séð þessa menn stjórna Liverpool á vellinum. Kuyt komst næst því. Það er ekki þar með sagt að hinir séu lélegir leikmenn, þeir eru bara ekki að stjórnast í leikmönnunum í kring um sig.
Með framtíðarleiðtoga, þá geri ég mér enn vonir um að Kelly sé sá maður 🙂