Hvaða leikmenn koma og hvernig mun liðið líta út?

Núna eru miklar vangaveltur um það hvaða leikmenn munu koma til félagsins sem og hvaða leikmenn verða seldir. Það er oft gaman að velta því fyrir sér hvaða leikmenn Rafa sé að spá í, hvort fjármagnið sé til staðar og hvað sé hæft í því slúðri sem gengur um á netinu. Síðan hefur maður sjálfur sína skoðun á leikmönnum þ.e. hvort þeir eigi að vera í Liverpool eður ei. Rafa hefur sjálfur sagt að hann vilji ganga frá öllum leikmannakaupum fyrir HM en mótið hefst 9. júní næstkomandi. Hlutir sem hafa áhrif á það hvaða leikmenn koma er t.d. hversu mikla peninga hefur Rafa, hverjir verða seldir og hvaða leikaðferð ætlar Rafa að byggja á næstu árin?

Ef við gefum okkur að t.d. Cissé, Morientes, Kromkamp og Traore séu að fara þá er klárt mál að við þurfum framherja. Það er búið að tengja leikmenn eins og Alves, Aurelio, Pennant, Defoe, Bent og A. Johnson við okkur áður. Síðast í gær neitaði Palace 8 millj. punda boði í A. Johnson og tel ég því engar líkur á því að hann sé að koma til okkar fyrir hærri upphæð en það. Persónulega finnst mér Darren Bent ekki nægilega góður fyrir okkur og ef Defoe er ekki nógu góður fyrir Tottenham af hverju ætti hann að vera það fyrir okkur. Þá vil ég heldur halda Cissé.

En höldum áfram vangaveltunum. Ef Alves, Aurelio og t.d. Pennant koma þá erum við komnir með nokkuð massívan hóp og getum skipt um leikaðferðir auðveldlega. Hins vegar stendur eftir spurningin hvaða framherji kemur?

Liðið gæti t.d. litið svona út: (4-4-2)

Reina

Finnan/Alves – Carragher – Hyypia/Agger – Riise/Aurelio

Garcia/Pennant – Sissoko/Gerrard – Alonso – Kewell/Gonzalez

? – Crouch/Fowler

eða svona: (3-5-2)

Reina

Carragher – Hyypia- Agger/Pauletta/?

Alves – Sissoko – Gerrard – Alonso – Aurelio

? – Crouch/Fowler

Eða svona: (4-3-3)

Reina

Finnan/Alves – Carragher – Hyypiä/Agger – Riise/Aurelio

Gerrard – Momo – Xabi
García/Pennant – Crouch/? – Kewell/Gonzalez

Það eru mörg EF í öllum vangaveltum en út frá þessu þá er það algjört lykilatriði að fá framherja til liðsins. Og hvaða framherjar eru nógu góðir, kosta ekki 50 millj. punda og er raunhæft að koma til okkar (t.d. ekki leikmenn frá Man U eða Chelsea).

Ég sé þessa leikmenn sem álitlega kosti:
[David Villa](http://en.wikipedia.org/wiki/David_Villa), er hjá Valencia og myndi kosta 10-15 millj. punda.
[Dirk Kuyt](http://en.wikipedia.org/wiki/Dirk_Kuyt), er hjá Feyenoord og myndi kosta 10-15 millj. punda.
[Klaas Jan Huntelaar](http://en.wikipedia.org/wiki/Klaas_Jan_Huntelaar), er hjá Ajax og myndi kosta 10-15 millj. punda.
[Nicolas Anelka](http://en.wikipedia.org/wiki/Nicolas_Anelka), er hjá Fenerbahçe og myndi kosta 5-8 millj. punda.

Þetta eru allt leikmenn sem við ættum að hafa efni á. Hvað Rafa er að hugsa varðandi framherja hjá okkur er erfitt að spá (hann keypti Crouch á 7 millj. punda) en ég gef mér það að hann vilji fá leikmann sem getur spilað einn frammi og hefur eitthvað annað sem Crouch og Fowler t.d. hafa ekki sem er hraði (ekki samt annar Cissé). Auðvitað væri ekki leiðinlegt ef við gætum verið að tala um Torres, Van Nistelrooy, Henry, Eto´o eða Shevchenko en það er einfaldlega óraunhæft.

Þetta eru allt vangaveltur og verð hugmyndir eru bara eitthvað sem ég gef mér. En ef þetta stefnir í þessa átt en ekki Diouf og Diao ævintýri þá er það mín skoðun að við séum á góðri leið með að gera athlögu að titlinum á næsta tímabili.

25 Comments

  1. Eru þetta nú ekki leikmenn (nema Dirk K) sem allir þyrftu að sanna sig í þessari deild og/eða eru bara ekki það sem við leitum að.

    David Villa er vissulega öflugur leikmaður en samt er ég viss um að hann þyrfti mikinn tíma til að aðlagast, ef hann á annað borð myndi gera það.

    Dirk K er öflugastur þessara manna sem eru hér að ofan. Hann á einhver óskiljanlegan hátt virðist þó vilja fara til Newcastle. Myndi vera mjög sáttur við að fá hann til okkar.

    Klaas Jan Huntelaar er öflugur en ég set sama spurningamerkið við hann og David villa.

    Anelka!!! Kemur ekki til greina. Ég hélt að við værum að reyna að styrkja okkar lið…

    Ég vil endilega sjá mjög öflugann leikmann ef við ætlum að losa okkur við Cisse. Ég vil alveg óhikað gefa þeim manni séns á næsta tímabili. Enginn þessara manna nema Dirk K er betri en hann, og er ég alveg til í að rökræða það ef þess þarf.

    Við höldum Crouch, Cisse og Fowler. Er mikill aðdáandi Fowlers en skil samt ekki alltaf hversu mikið menn treysta á hann hérna. Þetta er maður sem er augljóslega kominn yfir sitt besta, en þó eru mikil not í honum ennþá. Samt sé ég hann ekki spila neitt svakalega marga leiki á næsta tímabili. Hann verður okkar 3-4 striker.

    Morientes verður að fara. Ég hugsa bara að ég geti ekki horft á fleiri leiki þar sem hann spilar með. Hann gæti ekki verið lengra frá sínu besta en hann hefur sýnt með okkar liði.

  2. Þetta á frekar heima í þessum þræði en síðasta 🙂 :

    Hvað er að frétta af leikmannakaupum okkar, Ballack er kominn til C$$$$$$$, Berbatov til Tottenham og í dag keyptu Arsenal Tomas Rosicky (talað um 6 millj punda, ef rétt er þá er það gjafaverð). Þetta eru allt heimsklassa leikmenn í mínum huga. Allt leikmenn sem Liverpool hefði auðveldlega getað notað.

    Benites vildi vera búinn að kaupa leikmenn fyrir HM, það þýðir að LFC hafa ekki marga daga til stefnu.

    Vonandi erum við ekki að horfa upp á sumar eins og það síðasta þar sem stjórnarmenn Liverpool voru dregnir á asnaeyrunum fram að lokun leikmannagluggans.

    p.s. væri ekki svona harðorður ef Benites hefði ekki talað um að hann vildi helst klára að kaupa leikmenn fyrir HM.

    Kveðja Krizzi

  3. Af hverju segirðu að Torres sé óraunhæfur kostur. Umboðsmaður hans hefur nú þegar sagt að allar líkur séu á því að hann verði ekki hjá Atletico Madrid á næsta tímabili. Ég hugsa að Liverpool væri mjög góður kostur fyrir hann. Mér lýst nú ekkert á að fá þá Kuyt,Anelka og Huntelaar. Hugsa að Torres og Villa séu tveir mjög góðir kostir. En í kapphlaupinu um Torres er ekki ólíklegt að við þurfum að berjast við lið eins og man utd,Chelsea og fleiri stórlið. Þá er bara að sjá hversu gott aðdráttarafl Benitez og Liverpool hafa með alla sína spænsku leikmenn.

  4. Þegar nafn Torres hefur verið nefnt undanfarinn misseri þá eru það oftast lið eins og Real Madrid eða Barcelona nefnd. Ef við myndum hins vegar takast að fá hann þá yrði það frábært. Tel það samt óraunhæft miðað við að ég heyrði nefnt 25 millj. punda fyrir drenginn.

    Dirk Kuyt nefndi að hann gæti alveg hugsað sér að spila með Newcastle sem og þetta er haft eftir honum í Sunday Mirror (alls ekki taka það blað alvarlega). Dirk Kuyt hefur verið fyrirliði Feyenoord undanfarið og bæði spilað sem framherji eða framliggjandi miðjumaður. Sá hann spila um daginn í tapleik gegn Ajax og hann bar af í sínu liði. Skorað 2 góð mörk í leiknum einnig. Sterkur, duglegur og leiðtogi. Er vongóður um að hann myndi standa sig vel í Englandi.

    Huntelaar hefur átt frábært tímabil í vetur í Hollandi og frá því hann kom til Ajax hefur hann skorað 16 mörk í 15 leikjum. Þetta er markaskorari af guðs náð og um það snýst málið fyrir framherja, að skora mörk.

    David Villa hef ég minnst séð af þessum drengjum sem ég taldi upp en Rafa virðist þekkja spænska markaðinn vel og við erum ítrekað “linkaðir” við þennan dreng. Hann er lykilmaður hjá Valencia og hefur staðið sig vel í La Liga. Gæti verið skipti á honum og Morientes?

    Nicolas Anelka er góður leikmaður og sýndi það þegar hann var hjá okkur. Hann er fantafljótur og hefur einnig tækni (sem Cissé hefur ekki). Vissulega hefur hann átt í sínum erfiðleikum og klárlega ekki tekið góðar ákvarðanir varðandi sinn knattspyrnuferil. EN ég tel að ef hann fengi tækifærið hjá alvöru félagi og hann fær traustið þá er ég þess fullviss að hann myndi standa sig. Hann hefur klárlega sannað sig sem klassa framherji í ensku deildinni. Eitt mikilvægt atriði, hann gæti fengist miklu miklu ódýrara en hinir sem ég hef talið upp. [Hérna er hægt að sjá hvað sagt var um drenginn nýverið á official síðunni.](http://www.liverpoolfc.tv/news/drilldown/N152430060523-1133.htm)

  5. Er ekki fullsnemmt að vera að stilla upp liðinu í grænu römmunum með öllum þessum skástrikum og spurningamerkjum? 🙂

    Segjum sem svo að allt slúðrið sé satt og að þeir aðalliðsmenn sem fari séu Morientes, Cissé, Pongolle, Traoré, García, Hamann og Kromkamp.

    Þá myndi ég segja að það þyrfti tvo bakverði í stað Kromkamp og Traoré, auk Pauletta í miðvörðinn; *Alves og Aurelio*.

    Miðjan væri frábær með Gerrard, Alonso, Sissoko og Zenden. Vinstri kanturinn góður með Kewell og Gonzalez. En á hægri væri enginn og því þörf á tveimur mönnum; *Simao og Pennant*. (Efast um að Chelsea selji okkur Wright-Phillips).

    Frammi væru bara tveir menn eftir og því þörf á tveimur nýjum heimsklassa; *Dirk Kuyt og Michael Owen*

    Sóknarlínan: Crouch, Fowler, Kuyt og Owen.

    Getur bara ekki klikkað! :biggrin:

    Þá sýnist mér að við værum að selja fyrir u.þ.b. 25M punda og kaupa fyrir ca. 40M punda.
    :rolleyes:

  6. Djöfull þoli ég ekki þegar er verið að gera lítið úr Cissé!! Það er bara óþolandi að Liverpool maður vill ekki hafa þennan mann í sínu liði! ókei..Þegar að hann fékk að spila þá spilaði hann yfirleitt sem kantmaður en samt nær hann að skora nálægt 20 mörkum yfir tímabilið! Og það er nákvæmlega það sem við þurfum! Hugsiði ykkur ef hann hefði spilað hvern einasta leik og alltaf frammi einsog félagi okkar Big Crouch! þá hefðum við örugglega séð 20-30 mörk frá þessum leikmanni! en allavena þá er þetta bara min skoðun og vonandi virðið þið hana!!

  7. Aggi – af hverju er óraunhæft að Liverpool borgi 25 millj. punda fyrir leikmann? Eru Barcelona og Real Madrid ekki liðin sem við viljum vera að keppast um leikmenn við? Ég verð bara að viðurkenna að ég skil ekki svona. Kannski lifi ég í útópíu heimi og raunveruleikinn er sá að við séum að keppa við Tottenham og Newcastle um leikmenn. Mikið svakalega vona ég samt ekki.

    Ég er samt sammála þér með Anelka. Toppleikmaður sem hefur sannað sig á hæsta leveli.

    Er ekki samt eitthvað að fara að gerast í leikmannamálum? Þetta fer nú að verða hálf skrítið allt saman.

    Svo vantar okkur framherja – ekki miðjumenn. Væri til í nýja bakverði en það er engin nauðsyn á meðan þær stöður eru þokkalega mannaðar. Og hvenær ætla menn svo að koma því inn í hausinn á sér að okkur vantar ekki hægri kantmann. Koma nýs kantmanns myndi þýða að Alonso eða Sissoko myndu detta út og það vil ég bara alls ekki. Okkur vantar framherja og það er ekkert að gerast. Ekkert. Vona samt að ég þurfi að éta þetta ofan í mig.

  8. Sóknarlínan: Crouch, Fowler, Kuyt og Owen.—-Hannes tarna er eg hrikalega sammala ter og reyndar med flest allt, en eg tel oliklegt ad simao komi til okkar, to tad vaeri magnad.

  9. Það eru tveir punktar í þessu sem mig langar til að drepa á:

    1. Við erum, eins og staðan er *í dag*, ekki klúbbur sem getur boðið 20+ milljónir punda í einn leikmann. Þetta er ekki spurning um hugarfar heldur staðreyndir. Ef eitthvað gerist í fjárfestingarmálum er hugsanlegt að við verðum þannig klúbbur, um skamma hríð, en jafnvel þá efa ég það því dágóð summa af væntanlegri fjárfestingu yrði hvort eð er frátekin fyrir byggingu nýja vallarins. Þannig að *jafnvel þótt* við fengjum rosa fjárfestingu í sumar, sem virðist ekkert vera að miðast áfram frekar en fyrri daginn, þá yrðum við líklega samt ekki klúbbur sem býður 20+ milljónir í einn leikmann. Enda hefur Rafa sannað það með leikmönnum á borð við Xabi Alonso, Momo Sissoko, Pepe Reina og Mark Gonzalez (ef hann stenst væntingar) að við þurfum ekki að eyða 25 milljónum í alla menn eins og Chelsea til að geta keppt við þá.

    2. Nicolas Anelka er *frábær* leikmaður. Hann er hins vegar ekki nærri því nógu góður til að geta spilað fyrir Liverpool, af einni góðri ástæðu: hugarfarið. ‘Le Sulk’ eins og samlandar hans kalla hann er allt of fastur í því að hugsa bara um eigið rassgat til að geta fúkerað í liðssjón þeirri sem Rafa aðhyllist. Auðvitað getur þetta vaxið að honum og ef það gerðist yrði hann hiklaust mjög aðlaðandi kostur fyrir okkur, en á meðan hann heldur áfram að hegða sér eins ár eftir ár sé ég ekki af hverju við ættum að borga svo mikið sem milljón fyrir hann. Sjáið bara nýjasta klúbbinn, hann var ekki fyrr lentur í Tyrklandi að hann var farinn að kvarta undan því að hann þyrfti að vera í stærri og sterkari deild og hjá stærra liði. Hvað haldiði að myndi gerast ef Rafa eyddi einhverjum 4-8 milljónum punda í hann og **vogaði sér** svo að hafa hann ekki alltaf í byrjunarliðinu?

  10. Alltaf gaman að pæla í svona löguðu.

    Ég skil samt ekki þetta panic hérna. Menn að fara á taugum yfir því að Arsenal, Chelsea og Tottenham séu búin að tryggja sér eitt stykki leikmann hvert? Við erum nú þegar með þrjá í pokanum sem ekki hafa spilað ennþá fyrir liðið og nokkrir í sigtinu og þó svo að Rafa hafi sagt að það væri ákjósanlegast að klára sem flest fyrir HM, þá er ekki þar með sagt að það takist.

    Varðandi listann hjá Agga í byrjun, þá er þér alveg óhætt að stroka David Villa út af honum. Ekki sammála mönnum um að þar vanti á gæði, heldur er hann nýbúinn að krota nafn sitt á nýjan 5 ára samning með buy out clause frá helv… Þannig að það er alveg óhætt að stroka hann út af öllum svona listum.

    Svipað dæmi er upp á teningnum hjá Huntelaar. Reyndar auðveldara að bjóða það hátt að Ajax geti ekki neitað, en það er afar hæpið, enda kom hann bara til þeirra í janúar.

    Anelka er líka off, og það algjörlega. Ef hann væri á leiðinni, þá þyrfti að rifta samningi Robbie sem er ný undirritaður. Þeir gjörsamlega hatast og eiga ekki eftir að spila saman aftur nema eitthvað mikið komi til. Robbie gjörsamlega þolir ekki þann mann.

    Varðandi það að Kromkamp sé að fara. Hefur einhver einhverjar alvöru fregnir af því? Eitthvað annað en slúður sem hefur myndast á spjallborðum heimsins? Ekki það að ég viti hugmynd um það, hef bara ekki séð neitt sem ýjar að því að svo sé.

    Held reyndar að Didi fari ekki neitt. Hann klára eitt ár í viðbót hjá okkur, enda stórkostlegur karakter að hafa í liðinu og vann sér inn eins árs framlengingu.

    Er handviss um að annar eða báðir af þeim Pennant og Victor komi til liðsins í sumar. Eins held ég að fyrr frjósi í helv…. heldur en að Owen komi til Liverpool þetta sumarið.

    En það er svo sannarlega hægt að segja að silly season sé formlega hafið :biggrin2:

  11. Ef menn eru að óska eftir að fá Anelka í liðið þá legg ég til að menn lesi ævisögu Robbie Fowlers. Þar lýsir hann ljómandi vel hvers konar karakter Anelka er og ég held að það réttlæti alveg fullkomlega af hverju Houllier lét hann fara. Réttlætir vissulega ekki hvern hann fékk í staðinn en það er annað mál.

    Einnig finnst mér þessi röksemdafærsla að ef að Cisse hefði spilað frammi í allan vetur þá hefði hann skorað svo og svo mörg mörk frekar kjánaleg. Mín skoðun er sú að þó hann hefði kannski skorað fleiri mörk en Crouch og Morientes þá hefði liðið skorað færri mörk. Maðurinn gjörsamlega getur ekki spilað boltanum og varnarlega gerir hann ekki neitt. Ég held að Benitez sé frekar að spá í að liðið vinni leikina frekar en að einhver einn maður nái 30 mörkum á tímabili.

  12. Grétar: Ég tel mig ekki að vera að gera lítið úr Cissé, mér finnst hann bara ekki passa inní þann leikstíl sem Rafa vill hafa hjá Liverpool sem og hann hefur klárlega ekki verið fullkomlega með hugann við efnið í ALLAN vetur. En já hann skorað ágætismörk í vetur og var að spila sem kantur. En ég stend við fyrri orð mín, passar ekki inní leikstíl Rafa. Seldur.

    Hössi: Ég geri orð Kristjáns Atla að mínum varðandi af hverju Liverpool borgi ekki 20+ millj. punda fyrir leikmenn.

    Kristján Atli og SSteinn: Anelka er klárlega meira virði en millj. punda. Ég meina við borguðum 7 millj. punda fyrir Crouch! Hvað varðar meint hatur á milli Fowlers og Anelka þá talar Fowler meira um það að Anelka hafi verið mikill einspilari og sjaldan gefið boltann. Hafi ekki tekið þátt í því sem liðið var að gera og eiginlega “loner”. Ennfremur að Anelka hafi viljað meina að Fowler þoldi sig ekki, eitthvað sem Fowler segir að sé rangt. Ég hugsaði samt um þetta og er næstum fullviss að Fowler sjálfur hafi nú ekki verið sá auðveldasti á þessum tíma hjá Keegan (Man City). Ég er ekki að segja að Anelka komi og reyndar er það frekar ólíklegt, það sem ég var með þessu að gera er að velta upp möguleikum og reyna að setja mig í spor Rafa (eins og það sé hægt). Er hægt að kaupa leikmann sem er ekki of dýr, hefur sýnt að hann getur spilað í ensku og staðið sig. Og ekki verra að þessi leikmaður sé tilbúinn að sanna sig og leggja sig x-tra fram… svipað og ég upplifði þegar hann kom til okkar á sínum tíma.

    Í lokinn þá tel ég á hreinu að því miður séu engar líkur á því að Owen komi í sumar eða þau næstu. Let´s move on…

  13. Aggi og Kristján Atli – ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg af hverju við getum ekki borgað 20+ fyrir leikmenn. Öll liðin í kringum okkur geta það og þá er ég að tala um manu, ars og chelsea. Kannski erfitt að keppa við chelsea en hvað þá um hin. Í síðustu tveim gluggum höfum við nánast engu eytt miðað við þann standard sem við viljum vera á.

    Einhvern tímann var því haldið fram hér á spjallborðinu að verið væri að hlaða í risakaup með því að sitja á hesti sínum síðustu tvö season. Ef svo er ekki þá getum við gleymt því að keppa við ars og manu á næsta tímabili hvað þá chelsea.

    Að mínu mati er þetta “loser talk” en ekki taka því persónulega. Kannski er staðan bara þessi – en þá er líka staðan sú að við keppumst bara um að komast í CL á næsta ári.

    Ég er svo sammála Agga með Anelka. Mér gæti ekki verið sama um hvort einhverjum líki vel við hann eða ekki. Ég veit bara að hann er frábær leikmaður – enn ungur – og veit (eins og Fowler) að hann þarf að hafa fyrir hlutunum til að spila með stærsta klúbbi í heiminum.

    Áfram Liverpool!

  14. Hvaða leikmann hefur Arsenal verið að kaupa á 20+?

    Man.Utd og Chelsea eru í sérflokki þegar kemur að peningum og það veit hvert mannsbarn út af hverju það er. Ég skora á þig að bera saman þær fjárhæðir sem við höfum eytt í leikmannakaup síðustu árin og berðu það saman við öll önnur lið á Englandi fyrir utan þessi tvö sem ég nefndi fyrst.

  15. Reyes minnir mig að hafi farið til Arsenal upphaflega á einhverjar 10 milljónir punda, en það þátti víst að geta vaxið upp í 17,5 eða 18 milljónir punda byggt á frammistöðu og öðru slíku. Tek samt fram að ég hef ekkert fyrir mér í því, minnir bara að það hafi verið circa þessar upphæðir sem var talað um.

  16. Mér skilst að upphæðin gæti mest orðið um 17 millur punda, ef allar árangurs og leikjafjöldaklásúlur verða virkjaðar.

    Eins og staðan er núna (samkvæmt well informed Arsenal félaga mínum) þá er ekki búið að greiða meira fyrir hann en við greiddum fyrir Cissé.

  17. SSteinn – ég skal bara orða þetta þannig með ars að þeir hafi verið að eyða meiri pening í leikmenn en Liverpool. Annars er pointið það að til þess að keppa við öll liðin þrjú verðum við að kaupa betri leikmenn en þau.

    Af hverju er svo ekki hægt að keppa við manu á þessum grundvelli? Þeir eru ekki með óþrjótandi peningalind eins og Chelsea.

    Áfram Liverpool!

  18. Já er það Hössi? Hvernig í ósköpunum færðu það út? Gögn hér að neðan eru annars vegar tekin af lfchistory.net og hins vegar af Soccerbase, Arseweb og arsenal.is:

    Liverpool eyðsla í leikmenn:

    1999
    29.700.000

    2000
    32.500.000

    2001
    18.050.000

    2002
    19.150.000

    2003
    11.500.000

    2004
    36.200.000

    2005
    28.530.000

    2006
    6.050.000

    Arsenal:

    1999
    26.450.000

    2000
    28.200.000

    2001
    28.600.000

    2002
    6.600.000

    2003
    250.000

    2004
    13.950.000

    2005
    11.350.000

    2006
    12.000.000

    Á 7 árum, þá hefur Arsenal eytt meira einu sinni, eða árið 2001. Þeir eyddu svo meiru en við í janúar, en sjáum til hvernig árið í heild verður.

    Samtals á þessum 7 og hálfu árum hefur Liverpool eytt 181.680.000 í leikmannakaup á móti 127.400.000 hjá Arsenal.

    Af hverju að fullyrða um hluti sem menn hafa ekki hugmynd um. Þú talaði fyrst um 20+ mann en fórst svo í eitthvað annað sem var líka alveg kolvitlaust. Bæði lið hafa brotið 10 milljón punda múrinn 4 sinnum á þessum árum og hvorugt hefur farið yfir 15 milljónir punda.

    Varðandi Man.Utd. þá þarf nú ekki að fjölyrða mikið um það hvað 70.000 manna völlur gefur meira í aðra hönd heldur en 44.000 manna völlur. Þar er himinn og haf á milli og marg oft hefur líka verið talað um að til að vera fullkomlega samkeppnisfærir, þá þurfi að fara á stærri völl. Hélt þetta segði sig sjálft.

  19. SSteinn – þú fyrirgefur hvað ég er seinn til svars. Ég hreinlega hélt að umræðunni væri lokið og hef því ekki kíkt inn á þennan þráð lengi.

    Ég vil svo taka það fram eins og ég segi hér að ofan að pointið með öllu þessu spjalli mínu er það að ef við ætlum að keppa við þessi þrjú lið sem nefnd eru hér að ofan þá þurfum við að kaupa betri leikmenn en þau – svo einfalt er það.

    Ég skil svo ekki hvernig þú nennir að hafa fyrir því að taka út einn punkt og rekja hann ofan í mig. Hvort sem þetta með Ars er rétt eða rangt hjá mér þá stendur það sem ég segi að ef Liverpool keppir ekki við þessi lið um leikmenn þá keppum við heldur ekki við þau um enska deildarmeistaratitilinn. Það er samt gaman að ég skyldi hafa rétt fyrir mér varðandi manu og chelsea. Ég skal samt viðurkenna að ég byggði þær upplýsingar einnig á minni og tilfinningu. Ég hafði ekki kannað það sérstaklega á öðrum netsíðum. Geri samt ráð fyrir að þú hafir tékkað á því fyrir mig.

    Ég skal svo líka viðurkenna að það að Ars hafi eytti minna í leikmenn en við kemur mér verulega á óvart. Ef svo er – sem ég rengi ekkert sérstaklega – er það bara til marks um það hversu slakir forsvarmenn Liverpool eru. Kannski hafa ars menn heldur ekki eins mikla þörf á dýrum leikmönnum þessi ár þar sem þeir hafa verið með afar sterkt lið.

    Varðandi það að vera ekki að fullyrða um hluti sem maður hefur ekki hugmynd um þá áskil ég mér nú bara rétt til þess. Þú hefðir nú reyndar getað sleppt þessari athugasemd. Ég lít alls ekki á mig sem einhverskonar gúrú í Liverpool fræðunum og hef ekki komið á Anfield né hitt Moors og Parry. Ég hef aftur á móti afar sterkar skoðanir á Liverpool almennt, leikmönnum, leikskipulagi og þess háttar. Ef þú hins vegar telur að menn eigi ekki að fullyrða um hluti sem menn hafi ekki hugmynd um þá bið ég þig bara að líta í eigin barm. Ég er þess eiginlega bara fullviss að þú hafir einhvern tíman komið með rangar staðhæfingar án þess að ég geti fullyrt nokkuð þar um. Man bara í augnablikinu eftir því að einhvern tíman fullyrtir þú að Eiður hefði ekki spilað sem senter með Chelsea í vetur. Mig minnir að einhver maggigunn hafi séð um að leiðrétta þá vitleysu. Ég hef reyndar ekki kannað það sérstaklega hvort það sé rétt hjá honum. Geng bara út frá því. Byggi þetta á minni.

    Varðandi manu þá átta ég mig alveg á af hverju þeir hafa meira milli handana en Liverpool. Ég vil samt taka fram að eins og þeim tókst að komast fyrir ofan okkur hvað innkomu varðar þá getum við einnig komist upp fyrir þá. Ég hélt reynar að það væri liðin tíð með komu Glazier feðga auk þess sem mér finnst við hafa litlu eytt að undanförnu.

    Ég vil líka enn og aftur taka það fram að ef við viljum stíga skrefi lengra þá verðum við að kaupa heimsklassa leikmenn. Og þeir leikmenn kosta peninga. Mikið rosalega vona ég að Rafa lendi ekki í því sama hjá Liver og hann lenti í hjá Valencia að hann fái lampa þegar hann biðji um sófa.

    Ég verð svo að viðurkenna að mér finnst þetta skrítið spjall en sá mig bara knúinn til að svara þessu. Sérstaklega þegar skorað er á mann á öðrum þráðum hér á síðunni. 😉

  20. Þetta er ekki rétt hjá þér SSteinn, Arsenal hefur eytt meira í leikmenn en þú fullyrðir.

    Skoðum þetta betur:

    1999 : 26.450.000 það er rétt hjá þér.

    2000 : 28.200.000 það er líka rétt.

    2001 : 29.100.00 auk þess að fá Sol Campell “frítt”. En hann kom ekki alveg frítt því þeir borguðu honum 120 þúsund pund á viku, sem gerir ca. 5.8 millj punda á ári.

    2002 : 10.150.000. Þarna ert þú að gera ráð fyrir því að Arsenal hafi borgað 2,1 milljón punda fyrir Pascal Cygan. En samkvæmt mínum upplýsingum borguðu þeir nær 5,5 millj punda fyrir hann.

    2003 : 3.650.000. Á því ári kaupa þeir Clichy, Lehmann (2,5 m) og Senderos (1-2 m). Það er ekki uppgefið á hvað Senderos kom á en miðað við samkeppnina sem Arsenal fékk um undirskrift hans, meðal annars frá AC Milan þá trúi ég ekki öðru en hann hafi kostað lágmark 1 millj punda.

    2004 : 14.200.000 til 23.700.000. Þessi tala er á reiki þar sem Reyes var keyptur á þessu ári. Reyes var keyptur á 10.5 millj punda sem getur síðan hækkað í 20 millj punda. Sú hækkun fer eftir fjölda leikja, mörkum skoruðum og árangri liðsins.

    Reyes kom til Arsenal á tímabilinu 2003/2004 í janúar, það tímabil enduðu Arsenal sem meistarar án þess að tapa leik. Á því tímabili spilaði hann 17 leiki/4mörk (deild og bikar) + 4 leiki í meistaradeildinni.

    Tímabilið 2004/2005 enduðu Arsenal í 2. sæti og urðu bikarmeistarar. Þá spilaði hann 37 leiki/11 mörk/11 stoðsendingar + 8 leiki í meistaradeildinni.

    Tímabilið 2005/2006 spiluðu Arsenal til úrslita í meistaradeildinni og enduðu í 4 sæti. Á því tímabili spilaði hann 31 leik/5mörk/10 stoðsendingar + 11 leiki í meistaradeildinni.

    Miðað við þessar tölur er mjög ólíklegt að Arsenal sé ekki búið að borga Sevilla meirihluta greiðslunnar. Því síðan hann kom hefur liðið og hann náð mjög góðum árangri(munið að greiðslan var árangurstengd).

    2005 : 11.350.000 það er rétt hjá þér.

    2006 : 27.000.000. þá komu Diaby(2 m), Adebayor(7 m), Walcott(12 m) og Rosicky(6-7 m). Ég set 12 á Walcott því hann er kominn í landsliðið og allir eru að spá honum glæstri framtíð.

    Samkvæmt þessu hefur Arsenal eytt á 7 árum 158.900.000 í leikmenn.

    Kv
    Krizzi

  21. Hössi við erum sammála um það að við þurfum að kaupa leikmenn og það gæða leikmenn. Ég er þó á því að það sé mikilvægara að kaupa RÉTTA leikmenn sem henta liðinu, fremur en að kaupa einhver nöfn. Við höfum ekki efni á því að gera mistök sem eru jafn dýr og þau sem Man.Utd og Chelsea hafa verið að gera. Afskrifa tugmilljónir punda (Veron x2, Mutu og fleiri). En engu að síður þá þakka ég þér fyrir gott og málefnalegt svar Hössi.

    Þú talar um að ég hafi tekið eitthvað eitt út úr þínu máli og krufið það. Ég svaraði bæði Chelsea og ManYoo commentinu og þú verður að viðurkenna það að mál þitt byggðist á þessu sem þú slengdir fram. Einn af þessum þremur punktum var einfaldlega rangur og því setti ég inn þessar tölur.

    Krizzi, ef við ætlum að fara að taka signing on fees og laun líka, þá þarf heldur betur að uppfæra allar tölur í þessu öllu saman. Getur ekki tekið Sol Campbell út úr og reiknað hann svona. Málið snerist um hvað kaupverð leikmanna væri, enda eru hitt tölur sem ekki séns er að ráða í.

    Ég byggði allar mínar Arsenal tölur á Soccerbase, Arseweb og arsenal.is. Ef þú getur sýnt mér fram á einhverjar aðrar og betri heimildir, þá be my guest. Ég hélt að það segði sig sjálft að ég var að tala um þær tölur sem borgaðar voru á hverju ári fyrir sig. Reyes átti mest að komast í 17 milljónir punda með öllu saman, þannig að líklega ættu einar 4-5 millur punda að dreifast á árin þarna á eftir, viðurkenni það en það kom ekki fram.

    2003 er alveg hægt að hækka talsvert mikið, en samt er það langt fyrir neðan öll stórliða mörk í eyðslu. Eins og áður sagði, þá studdist ég við þær upplýsingar sem ég fann á netinu. Ef þú veist betur, then so be it, my bad.

    Varðandi þetta ár, þá reiknaði ég með þessum 7 millum í Adebayor. Arsenal eru engu að síður bara búnir að borga 5 millur í Theo og það veit enginn í dag hversu mikið af þessum 12 þeir munu borga. 12 er það mesta sem þeir gætu hugsanlega þurft að borga og því skil ég ekki að þú skulir taka fulla greiðslu þar. Ég tók svo Rosicky ekki með, enda ekki ennþá búið að ganga formlega frá því og ég ákvað að halda úti öllum leikmannakaupum sem eru að fara fram núna í sumar.

    Staðreyndin er eftir sem áður sú að það er algjör undantekning ef Arsenal fær úr meiri peningum að spila í leikmannakaup á hverju ári heldur en Liverpool. Það var bottom line-ið og það stendur ennþá.

  22. SSteinn.

    Sol Campell var ekki inn í mínum tölum yfir eyðslu árið 2001. Ég var einfaldlega að benda á þá staðreynd að þeir fengu hann á því ári, meira svona til fróðleiks. En auðvitað hljóta launagreiðslur hans að hafa haft áhrif á hversu mikinn pening Arsenal hafði til leikmannakaupa. Þetta sama var sagt um Liverpool eftir að þeir sömdu síðast við Gerrard.

    En hann Wenger má eiga það hann hefur gott auga fyrir ungum og ódýrum snillingum.

    Vonandi eigum við eftir að sjá svipuð snilldar kaup hjá Benites á næstu árum.

    Kv Krizzi

Uppgjör Liverpoolbloggsins á tímabilinu 2005/06

Traore á leið burtu en ekki Morientes?