Ferðaskýrsla: Liverpool – Everton

Kop.is-gengið (frá vinstri): Babú, SSteinn, Kristján Atli og Maggi
Kop.is-gengið (frá vinstri): Babú, SSteinn, Kristján Atli og Maggi
Það eru núna rúm sex ár (!!) síðan Kop.is-gengið hélt síðast saman í ferð til Liverpool. Í mars 2007 fór ég ásamt Einari Erni, Sigursteini og Hjalta í pílagrímsferð sem skilaði miklu skemmtilegu en líka tveimur 0-1 töpum á heimavelli gegn Man Utd (John O’Shit…) og Barcelona Guðjohnsen. Oj. Síðan þá hefur „gengið“ tekið ákveðnum breytingum: Hjalti hélt á vit nýrra ævintýra (eða var seldur þar sem hann skoraði ekki nógu mikið) og í hans stað hafa fyrir lifandis löngu síðan komið Babú og Maggi.

Í þetta sinn forfallaðist Einar Örn á síðustu metrunum og því hélt ég utan ásamt Sigursteini, Magga og Babú og nú skyldi gert betur en síðast, bæði innan og utan vallar. Það er skemmst frá því að segja að við strákarnir toppuðum fyrri ferðina auðveldlega en liðinu gekk ekki mikið betur en síðast. Allir höfum við nú farið á völlinn fyrir, á milli og eftir þessar ferðir og séð liðið skora og vinna við önnur tæksifæri en það er engu að síður ömurlegt að ferðast alla þessa leið til þess að horfa á markaleysi og andlausa spilamennsku í 90 mínútur. Það verður að hafa það, það er aldrei á vísan að róa í knattspyrnuleikjum og menn taka alltaf ákveðna áhættu. Svona er þetta bara.

Öllu öðru gátum við stjórnað og gerðum það af stakri snilld. Hér, í punktaformi, koma nokkrir helstu topparnir í frábærri helgi en um leið minni ég á að við höfum uppfært borgarvísinn okkar með nýjustu veitinga- og skemmtistöðunum sem við mælum með. Ef þið eruð á leiðinni til Bítlaborgarinnar mæli ég með að þið kíkið á það og fáið góð meðmæli.

Hópurinn orðinn vel smurður (Frá vinstri: SSteinn, Babú, Kristján Atli og Maggi).
Hópurinn orðinn vel smurður (Frá vinstri: SSteinn, Babú, Kristján Atli og Maggi).
Og þá að punktunum, í engri sérstakri röð:

* Strákarnir myndu kjöldraga mig ef ég byrjaði þetta ekki á að minnast á Bierkeller. Þessi staður er í miðbænum, á hæðinni fyrir ofan sportbar Carra og við hliðina á Hilton-hótelinu. Það er auðvelt að finna hann og ég mana hvern mann til að missa ekki andlitið í gólfið þegar þangað er komið inn. Ekki inn á barinn fremst, og ekki upp stigann að spilaborðunum heldur inn í stóra salinn þar fyrir innan þar sem ríkir októberfest-stemning allt árið um kring. Við eyddum óeðlilega stórum hluta helgarinnar þarna inni og vorum enn orðlausir yfir því hversu skemmtilegur staður þetta er þegar við héldum heim.

* Við vorum fjórir á okkar eigin vegum en þarna úti var um 40 manna hópur Íslendinga (og annað eins á leiðinni á Man Utd – Chelsea) og mikið af fólki sem við skemmtum okkur vel með. Við þökkum þeim öllum fyrir samverustundirnar en ég verð að kasta sérstakri kveðju á Blikafeðgana Indriða og Andra, þá Guðjón og Kobba styrktaraðila okkar hjá Humarsölunni og fjölskylduna frá Snæfellsnesinu.

* Þakka Sveini Waage einnig fyrir að vera gangandi lestarslys. Drengurinn er ruglfyndinn og léttklikkaður en á sama tíma og maður hlær dáist ég að því að hann skuli ekki hafa verið laminn svona tvisvar í þessari ferð. Takk fyrir okkur, Sveinn, og skammastu þín! Þú veist hvað þú gerðir…

* Babú setti mörg met í þessari ferð en eitt það eftirminnilegasta er að sofna á pítsustað um miðjan föstudag og finna samt orku til að djamma fram eftir kvöldi.

* Sigursteinn er víst þekktur sem einn reyndasti fararstjóri sem sögur fara af en það stöðvaði hann ekki í að draga okkur strákana beint inn á tattúráðstefnu á Adelphi-hótelinu á föstudagskvöldinu. Babú setti í kjölfarið Íslandsmet í tuði og ég hélt að það þyrfti að skilja þá að það sem eftir lifði helgar. Sem betur fer sameinaði bjórinn þá fljótlega.

* Maggi svaf fyrstu nóttina í baðkerinu inná hótelherberginu okkar. Við vitum hvorugur hvernig hann komst þangað eða hvers vegna. Ég vil ekki vita það.

* Við vorum að ræða Luis Suarez inná The Park fyrir leik þegar Babú tók sig til og beit mig í höndina. Fast. Það eru fimm dagar síðan og ég er ennþá marinn á handarbakinu. Hann er í banni frá Kop.is fram í september.

* Uppgötvun ferðarinnar er sú að heit, kínversk sósa læknar þynnku betur en allt. Ég, ööö, las það einhvers staðar í tímariti.

* Sigursteinn á sér tvífara í enskri knattspyrnu og hann er víst eitthvað viðkvæmur fyrir þeirri samlíkingu, blessaður. Ég hafði heyrt af þessu áður og alltaf fundist Steini taka þessu vel miðað við um hvern er að ræða (nafn hans verður ekki nefnt hér) en þegar hann var grillaður af svona fjórum Scouserum á sunnudagskvöldið sá ég pirringinn sem býr í honum. Mig langar að þessu tilefni að benda fólki á að Steini er sláandi líkur öllum bestu leikmönnum í sögu Liverpool og gerið honum þann greiða að kalla hann Mr Fowler næst þegar þið hittið hann. Greyið hefur þjáðst nóg.

* Maggi rakar sig tvisvar á dag. Ég efast um eigin karlmennsku.

* „Það kemur sá tími í hvers manns lífi að hann bara verður að pissa í ruslafötu.“

* Scouserarnir elska Rafa ennþá. Látið engan segja ykkur annað. Þeir syngja nafn hans á meðan lið Rodgers er að spila illa. Þessu ástarsambandi er ekki lokið. Það kann að taka einhver ár en Rafa mun stýra Liverpool aftur. Þetta er eins og Dalglish-kláðinn sem við fengum loks að klóra í fyrra. Menn klæjar undan Rafa og einn daginn munu þeir klóra sér.

* Síðasta punktinn fær eini Liverpool-leikmaðurinn sem við sáum í þessari ferð, en við hittum hinn eiturhressa Jay Spearing dansandi uppi á bekkjum á Bierkeller. Steini fór og talaði við hann en þeir skildu hvorugur það sem hinn segir. Enda ekki við öðru að búast þegar Hornfirðingar og Scouserar ræða saman. Hér eru sönnunargögnin, takið eftir kvennabúrinu sem Spearing er að dansa með:

IMG_0713Nóg af punktum í bili. Að lokum langar mig að enda þetta á Liverpool-borg. Hún kom mér skemmtilega á óvart í þessari ferð. Þegar ég fór fyrst út á leik árið 1997, þá sautján ára, kom mér á óvart hversu mikið skítapleis Liverpool-borg var. Næstu árin á eftir virkaði hún á mig eins og skítug iðnaðarborg sem maður lét sig hafa að heimsækja til að komast á Liverpool-leik. En fyrir svona tíu árum var ráðist í mikla endurreisn á borginni þar sem hún hafði verið valin Menningarborg Evrópu árið 2008. Ég man eftir að fara út 2005 og aftur 2007 og vera hissa í bæði skiptin á því hvað hún hafði batnað. Svo heimsótti ég hana síðast í maí 2009 og var enn og aftur hissa.

Nú, fjórum árum síðar, sneri ég aftur og það er skemmst frá því að segja að í dag finnst mér Liverpool-borg vera frábær, heillandi lítil borg að heimsækja. Hún er kósí, miðbærinn er ekki of stór og auðvelt að labba allt, það er haugur af flottum veitingastöðum og verslunum og verðlagið er almennt betra en í London. Þá er alltaf gaman að labba Albert Docks, heimsækja Bítlasafnið, skoða parísarhjólið (eins og minni útgáfa af London Eye), fara í ferjuna yfir Mersey-ána, ganga um Stanley Park og skoða Anfield og Goodison á sitt hvorum endanum og næturlífið er orðið frábært þarna miðsvæðis. Ekki skemmir fyrir að hafa svo haug af flottum hótelum á góðu verði og rúsínan í pylsuendanum, eins og ég talaði um í upphafi pistilsins, er hinn snarbilaði Bierkeller.

Ég hef alltaf verið hvað hrifnastur af Dublin af borgum Bretlandseyja, með Glasgow og Manchester í humátt þar á eftir og Liverpool eftirbátur þeirra en í dag myndi ég hiklaust setja Liverpool á sama stall og Dublin og kannski Glasgow líka. Þetta eru litlar, kósý og menningarlegar borgir þar sem ýmislegt er hægt að gera.

Ég gæti í dag hiklaust mælt með Liverpool-borg sem góðum áfangastað fyrir ungt fólk eða fjölskyldur sem hafa jafnvel engan áhuga á fótbolta. Leikurinn er langt því frá eina ástæðan til að heimsækja borgina í dag og það er í fyrsta sinn sem ég get með góðri samvisku sagt það.

Liverpool-borg, Scouserar og þeir Íslendingar sem ég hitti um síðustu helgi, ég þakka bara fyrir mig.

Sjáumst aftur í haust. 🙂

E.s.:
Læt þetta fylgja með í lokin. Við fórum út til að kveðja Jamie Carragher en áttuðum okkur ekki á því að á sama tíma sáum við David Moyes stýra Everton í síðasta skipti á Anfield. Næst snýr hann þangað sem enn stærri erkióvinur í úlpu Manchester United í haust. Við sáum þessa skemmtilegu klósettrúllu á flakki milli manna á The Park og smelltum af mynd. Þetta er orðið safngripur í dag:

IMG_0718Skyldueign á hvert Liverpool-heimili.

7 Comments

  1. Hljómar eins og mjög skemmtileg ferð sem þið fóruð í!
    Ég fór einnig á Liverpool leik á þessu tímabili og ég hef verið heppnari með stemmningu en það var Liverpool – Zenit sem við unnum 3-1 en var því miður ekki nóg.

    Ég man að eftir leikinn var fólk að drekka bjór og klóra sér í hausnum hvernig í andskotanum við komumst ekki áfram með þessari spilamennsku.

  2. Blessaðir félagar

    Þetta var glæsileg ferð fyrir utan leikinn og það er búið að vera heiður að kynnast ykkur. Ég var síðast í Liverpool 2006-2007 og finnst borgin hafa tekið miklum stakkaskiptum síðan til hins betra. Maður getur farið að réttlæta fleiri ferðir til borgarinar og látið konuna þukla á flíkum í miðbænum meðan maður fer á leiki.Þá var ansi gaman að fá danskennslu hjá Jay Spearing á Bierkeller og Agger bað að heilsa ykkur og þakkaði ykkur fyrir góða síðu þegar ég hitti hann á lestarstöðinni á leiðinni heim

  3. Glæsileg færsla 🙂

    Ég vil meina að við höfum samt skemmt okkur vel á Barelona-leiknum, enda komumst við áfram í Meistaradeildinni þrátt fyrir tapið. Þetta var því súrsætt 🙂

  4. Takk fyrir ad deila ferdasogunni, tetta hefur verid god ferd hja ykkur. Ekki spurning ad madur eigi eftir ad nyta borgarvisinn sidar meir.
    En mikid skil eg vel ad heimamenn tali vel um Rafa, tad var allt miklu skemmtilegra tegar ad hann var. Mikid sakna eg hans – eg væri i skyjunum ef hann tæki vid lidinu einhvern tima aftur, helst fyrir næsta season.

  5. Virkilega skemmtileg lesning og gaman ad sjá svona fallega vini; sjaldséd sjón!

  6. Já frábær ferð og tek ég undir vel flest í þessari ferðasögu. Ég vil þó leiðrétta eitt. Babu setti eftirminnilegt Íslandsmet í tuði, það er alveg hárrétt. En það var ekki vegna þess að hann datt inn á tattoo og piercing ráðstefnuna, nei, mér sýndist hann bara fýla það nokkuð vel. Nei, hann setti Íslandsmetið (ég vil meina að þetta hafi verið allavega Evrópumet og jafnvel heimsmet) í tuði þegar honum varð ljóst að við værum að fara af þessum merka viðburði og að við ætluðum að labba í meira en 30 sekúndur. Held við höfum labbað ca 600 metra og það var honum algjörlega ofviða.

    Annars er Bierkeller ein merkasta uppgötvun sem ég hef kynnst á öllum mínum fjölmörgu ferðum til borgarinnar.

Alex Ferguson hættir hjá Man Utd!

Fulham á morgun