Ég hef reynt að byrja þennan pistil á ýmsum köflum síðasta mánuð. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Í hvert sinn sem ég tel mig hafa fundið flöt á umfjöllunarefninu koma ný tíðindi frá Suður Ameríku sem breyta söguþræðinum. Yfirleitt til hins verra. Jafnan þegar ég tel botninum náð og fer að liðka puttana yfir lyklaborðinu kemur eitthvað enn ótrúlegra úr hörðustu átt. Og þá finnst mér ég þurfa að bíta í puttana í stað þess að liðka þá, og taka mér nokkra daga í að finna nýjan flöt á málinu.
Luis Suarez vill komast frá Liverpool FC. Hann langar ekki að spila lengur fyrir félagið, svo mikið er á hreinu. Hann er ekki fyrsta stjarnan til að taka þá ákvörðun og hann verður pottþétt ekki sú síðasta. Í gegnum tíðina hafa menn yfirgefið Liverpool af ýmsum ástæðum. Sumir hafa farið með höfuðið hátt og skilið við félagið í vinsemd en aðrir hafa skilið eftir sig sviðna jörð. Stuðningsmenn Liverpool, eins og annarra félaga, gleyma seinni hópnum seint og hata fátt jafn mikið og leikmann sem kyssir merki félagsins fyrir framan Kop-stúkuna og stingur sama félag og sömu stúku svo í bakið stuttu seinna. Spyrjið bara Michael Owen eða Fernando Torres.
Hvað um það. Þetta er hvorki ný né frumleg saga. Luis Suarez hefur í tvö og hálft ár talað fallega um allt sem tengist Liverpool-borg, félaginu og stuðningsmönnunum. Hann hefur enda haft ærna ástæðu til – þessi hópur hefur stutt við bakið á honum í gegnum ótrúlegustu hluti. Sá stuðningur fór langt með að kosta King Kenny starfið fyrir ári síðan og hann gerði starf Brendan Rodgers á nýliðnu tímabili ekki auðveldara, svo mikið er víst.
Nánast það eina óumdeilanlega við Suarez er að hann er umdeildur. Sitt sýnist hverjum en það er þó leitun að stuðningshópi sem hefði stutt hann jafn mikið og Púllarar hafa gert síðustu 30 mánuðina. Stundum var rétt að styðja hann – eins og þegar hann var sakfelldur fyrir kynþáttaníð án sönnunargagna. Stundum var líka rangt að styðja hann – eins og þegar hann kom sér enn og aftur í langt bann fyrir að bíta Branislav Ivanovic (enginn vafi lék á sekt þar) og í næsta heimaleik sungu stuðningsmenn í Kop-stúkunni – undirritaður þar á meðal – “he bites who he wants!”
Það hefur kannski ekki alltaf verið gáfulegt eða rétt eða sniðugt að styðja hann en fjandinn hafi það, við höfum stutt hann.
Á móti er kannski hægt að segja að Suarez, sem einn af tíu bestu knattspyrnumönnum heims (hitt sem er óumdeilanlegt við hann) eigi skilið að spila á meðal þeirra bestu og að Liverpool hafi haft tvö og hálft ár til að koma honum þangað en mistekist það illilega. Það er góð og gild athugasemd og klúbburinn verður að gangast við þeirri ábyrgð. Einhverjir gætu sagt að það hefði hjálpað í baráttunni um Meistaradeildarsæti ef Suarez hefði ekki misst úr tuttugu leiki vegna eigin hegðunar (meintrar eða sannaðrar) en, ókei, klúbburinn getur lítið sagt ef einn af tíu bestu leikmönnum heims sé farinn að horfa annað eftir að hafa endað í 7. eða 8. sætinu þriðja árið í röð.
Vandamálið er bara að Suarez hefur lítið sagt um Meistaradeildina. Ég stóð á í The Kop í byrjun maí og fylgdist með þegar hann gekk í jakkafötum yfir völlinn, þá í leikbanni. Völlurinn kom auga á hann og söng lagið hans hástöfum. Hann klappaði fyrir, þakkaði stuðninginn … og hálfum mánuði seinna var hann kominn til Úrúgvæ og byrjaður að merkja við öll atriðin á litlum innkaupalista yfir afsakanirástæður þess að hann þyrfti að yfirgefa Liverpool.
Við skulum fara yfir þennan innkaupalista snöggvast:
- Fjölmiðlar leggja hann í einelti: Ókei, get tekið undir það, en það er ekki Liverpool að kenna. Eineltið var hætt og fólk farið að hrósa honum fyrir frábært tímabil þangað til hann sjálfur kaus að bíta Ivanovic. Þannig að nei, Suarez, þessi afsökun er ekki gild. Síst af öllu þegar þig langar einna helst til Madríd, sennilega eina liðsins sem býður upp á brjálaðri gula pressu.
- Fjölskyldan hans er ofsótt í Englandi: Enn og aftur, Luis. Ekki fara til Manchester (skv. blaðamönnum) í verslunarferð á meðal almennings stuttu eftir að bíta Ivanovic, og vera svo steinhissa á að pöpullinn geri grín að þér úti á götu. Enn og aftur þér að kenna.
- Enginn studdi greyið Suarez í vetur: Einmitt. Segðu King Kenny það.
- Hann langar í Meistaradeildina: Þarna komum við að merg málsins. Ef hann hefði bara sagt þetta til að byrja með hefðu fáir kvartað enda nokkuð ljóst að einn af bestu leikmönnum heims var aldrei að fara að doka of lengi við hjá liði sem er ekki einu sinni í Evrópudeildinni næsta vetur.
Vandamálið er bara að hann byrjaði á öllu hinu áður en hann fór að tala um Meistaradeildina. Eina gilda og góða afsökunin var grafin undir svoleiðis bakstungum og drullu yfir Atlantshafið, drullu sem varpað var ýmist frá Chile eða Montevideo eða ýmsum borgum Brasilíu og lenti nær undantekningarlaust beint framan í Scouserum nær og fjær. Það var engu líkara en einhver hefði ráðlagt honum að brenna allar brýr að baki sér í Liverpool-borg til að tryggja að félagið gæti ekkert annað gert en að selja hann. Hvort sem hann þáði léleg ráð í þessum efnum eða er bara svona illa innrættur er þetta drulluskítleg helvítis framkoma við stuðningsmannahóp sem á svo sannarlega betra skilið. Ég er bara einn pési í Hafnarfirði á Íslandi og ég var kallaður rasisti út af Luis Suarez. Hvað þá þið hin öll, hvað þá þeir sem sækja leikina hvað oftast, hvað þá samherjar hans og knattspyrnustjórar og yfirmenn og hvaðeina.
Við áttum þetta einfaldlega ekki skilið. Et tu, Luis?
Ég tengi ekki við neinar fréttir í þessari grein af því að sagan virðist breytast stöðugt. Þetta snýst meira um það hversu vel upplýstir um persónu Luis Suarez við Púllarar vorum í vor og hversu gríðarlega miklum vonbrigðum honum hefur samt tekist að valda okkur í sumar. Það er afrek út af fyrir sig að ná að snúa gegn sér nánast eina hópnum sem hafði eitthvað við hann að gera eftir síðustu tvö tímabil.
Mér skilst að Suarez mæti til starfa í Asíu með klúbbnum eftir helgina. Þá kemur væntanlega í ljós hvort að hann fer formlega fram á sölu eða hvort mönnum tekst að sannfæra hann um að vera áfram í eitt ár til viðbótar hjá Liverpool. Það er alveg ljóst að við þurfum á mönnum með hans hæfileika að halda í vetur því slíkir menn vaxa ekki á trjánum, síst af öllu fyrir félag í þeirri stöðu sem Liverpool er.
Það væru því góðar fréttir fyrir fótboltaliðið ef Suarez yrði áfram. Hvort sem það gerist þó eða ekki lýsi ég því hér yfir að ég hef ekkert álit á manninum. Skoraðu þín mörk, Luis, og þegiðu svo. Og ef þú verður áfram, ekki reyna að kyssa barmmerkið eða láta eins og þú sért heiðursmeðlimur Kop-stúkunnar. Og ekki láta það koma þér á óvart þótt lagið þitt hljómi aldrei aftur á Anfield. Við höfum fengið nóg.
Svo er það hin hliðin á þessari ógeðisóperu allri saman. Eftir að hafa daðrað við Real Madríd í rúman mánuð var engra hreyfinga að vænta úr þeirri áttinni. Ef eitthvað er virðist Carlo Ancelotti þjálfari þeirra hvítu vera með Zlatan Ibrahimovic á heilanum. Nú voru góð ráð dýr. Hvað átti Luis greyið nú til bragðs að taka?
Og það var þá sem Arsenal – já, ARSENAL – ákváðu að blanda sér í þessa steypu alla. Þeir buðu 30m punda í hann en því var hafnað. Engu að síður var Suarez fljótur til og lét hafa eftir sér í viðtali í Úrúgvæ í síðustu viku að það væri honum heiður að vera tengdur við klúbb eins og Arsenal og, já, hann gæti alveg hugsað sér það. Hann var nánast tárvotur í þessu viðtali, svo mikil var örvæntingin hjá honum að komast í burtu frá Liverpool.
Eins og hann hefði ekki pirrað okkur nóg var skyndilega í lagi að fara til Arsenal, af öllum félögum. Og það þrátt fyrir að þeir bæti nær engar af þeim ástæðum sem hann gaf fyrir því að verða að fara. Hann vildi jú forða fjölskyldunni frá Englandi og sjálfum sér frá einelti ensku pressunnar (og enskra dómara væntanlega). Það eina sem Arsenal geta boðið honum umfram Liverpool í dag er þátttaka í Meistaradeildinni, og jafnvel hún er ekki beint örugg hjá þeim síðustu tvö árin eða svo.
Raunar eru liðin átta ár síðan Arsenal unnu síðast dollu af einhverju tagi, en á sama tíma hafa Liverpool unnið þrjár. Arsenal hafa verið stöðugri (alltaf í 3. eða 4. sæti) en Liverpool hefur bæði boðið upp á meiri hæðir (barátta um titil, Meistaradeildarbarátta, bikarsigrar) og að sjálfsögðu lægðir (síðustu fjögur helvítis árin). Ekki fær hann heldur mikla launahækkun hjá Arsenal, ekki nema Arsene Wenger hafi fengið högg á höfuðið nýlega og sé í kjölfarið til í að leggja sinni helstu vinnureglu síðasta áratuginn eða svo.
Skítt með það. Arsenal vilja einn besta fótboltamann heims og hann er til í að fara til þeirra. Hvorugt þessara atriða kemur á óvart, sér í lagi þar sem við erum núna búin að sjá feykivel hvers lags drullusokk Suarez hefur að geyma.
Það sem veldur mér mestum áhyggjum við þennan farsa allan er sú tilhugsun að Liverpool selji hann til Arsenal.
Höfum það alveg á hreinu að ég er að tala um Arsenal. Ekki Manchester City eða Chelsea, heldur Arsenal. Eina topp-4 liðið í deildinni sem hefur unnið minna en við síðustu árin, eina topp-4 liðið þar sem Suarez er langt því frá öruggur með að berjast um nokkra einustu dollu, það lið sem stendur mest ógn af uppgangi Tottenham og (vonandi) okkar manna næstu árin og eina liðið sem er væntanlega ekki að bjóða honum margföld núverandi laun. Eina stórveldið í enskri knattspyrnu sem skammast sín ekki fyrir að fagna fjórða sætinu eins og um titil sé að ræða.
Það er erfitt að berjast við Manchester United, Manchester City og Chelsea í þessum málum. United hafa verið stöðugt besta félag Englands í heila kynslóð en núna er loks vonarglæta um að það breytist aðeins hjá þeim. Hin tvö liðin er bara erfitt að eiga við. Ef Chelsea eða City eiga slæmt tímabil henda þeir bara peningum í vandamálið. Ef lausnin er að kaupa besta leikmann Liverpool á 50m punda og tvöfalda launin hans, þá það. Hvernig getum við barist við það? Stutta svarið er: það er ekki hægt.
En Arsenal? Það er klúbbur sem Liverpool á raunhæfa möguleika á að berjast við um Meistaradeildarsæti og/eða bikarkeppnir á næstu árum. Það er klúbburinn í 4. sæti, sá sem við ættum að vera með í sigtinu og ættum að vera að berjast grimmilega við í þessari baráttu um topp fjóra.
Ég er löngu búinn að sætta mig við það að Luis Suarez fer frá Liverpool, annað hvort í sumar eða eftir ár, og miðað við skítlegt eðli kauða verður eftirsjáin ekki mikil. Við höfum lifað af að missa betri leikmenn en hann og við spjörum okkur líka vel þegar hann er farinn.
En ef Liverpool FC selur hann viljandi og samþykkjandi til Arsenal FC? Ég tísti þau viðbrögð á mánudaginn að ef það gerðist væri ég ekki viss hvort ég hefði geð í mér að horfa á ensku knattspyrnuna næsta vetur og ég er enn þeirrar skoðunar. Það snýst ekki um leikmanninn. Það snýst um að ef sú sala gengur í gegn eru eigendur Liverpool að segja okkur að þeim sé sama þótt þeir styrki okkar helstu keppinauta í deildinni, eins lengi og upphæðin sé rétt.
Spyrjið ykkur hvort Kenny Dalglish eða Bill Shankly hefðu samþykkt slíka sölu. Eða Rafa Benitez. Eða Alex Ferguson. Einmitt.
Þannig að ég er á þeirri línu í dag að mér er nokk sama hvort Suarez fer í sumar eða næsta sumar, eins lengi og það er fyrir gott verð og peningurinn verður settur í leikmenn í staðinn. Bara ekki til Arsenal. Ef það gerist er fótboltinn ekki lengur samkeppni heldur fyrirtækjarekstur. Ef það gerist hef ég ekki lengur áhuga.
Vonandi þarf ég ekki að standa við þau orð. Vonandi eru einhver heilindi eftir innan veggja Liverpool Football Club.
Svo innilega sammála þér.
Frábær pistill.
Hef ekki trú á því að FSG selji LS til ars. Það myndi veikja svo um munar möguleika Liverpool á að komasat í CL og þar af leiðandi sé ég bara ekki business case-ið hjá Liverpool, þeir munu að ég held á endanum getað selt hann fyrir svipaða fjárhæð og ars bíður til annarra liða utan Englands. Semsagt ég sé ekki að þeir græði óeðlilega mikið á því að selja hann til ars né þeir geri virði klúbbsins hærra með því til skemmri eða lengri tíma.
Torres málið hinsvegar sýndi manni að allt er mögulegt í þessum bransa og því er svosum ekkert öruggt.
En mikið hlakka ég til þegar glugginn lokar og þessari vitleysu verður lokið, það er svo ömurlegt að vera í þeirri aðstöðu að klúbburinn manns sé í endalausri varnarbaráttu til þess að halda sínum bestu mönnum.
Frábær pistill !
ég er alveg búinn að sætta mig við það að suarez fari en í augnablikinu er ekkert lið sem er tilbúið að borga 40 plús fyrir hann
real var að kaupa miðjumann fyrir fáránlega upphæð og psg er komið með Cavani þannig að það eru ekki mörg lið sem eru eftir helst chelsea, city eða juventus sem væru til í að borga svona háa upphæð fyrir leikmann sem hefur fengið 18 leikja bann á 2 tímabilum.
Vil ekki sjá þetta [ritskoðað] hjá Arsenal, en eftir þennan pistil, uppfullan af leiðindum og hroka gegn mínu liði þá get ég allavega glaðst yfir því að Kristján Atli mun gráta sig í svefn ef hið skelfilega gerist og hann klæðist rauðu og hvítu.
Hvaða hroka gegn Arsenal? Flestir Arsenal vinir mínir (fullmargir) er nú eiginlega sammála því að það væri stórundarlegt hjá Liverpool að selja sinn besta leikmann til þeirra. Að ná Arsenal er eins og staðan er í dag raunhæfasta leið Liverpool inn í meistaradeildina og það næst ekki með því að styrkja þá með okkar besta leikmanni. Arsenal menn af öllum liðum ættu að vita þetta manna best eftir að hafa selt sína bestu menn til City, United og Chelsea undanfarin 8 ár eða svo.
Það er erfitt að eiga við risaboð frá City og Chelsea og ef slíkt kemur og er yfir væntingum hátt er skiljanlegt ef félagið tekur því. Suarez verður þar með hinn nýji Owen eða Torres. Tilboðum frá Arsenal (og t.d. Tottenham) á varla að svara.
Suarez var ekkert lítið sáttur og tilbúinn að skrifa undir nýjan samning fyrir síðasta tímabil og á því dágóðan tíma eftir af núverandi samningi. Það eina sem hefur breyst síðan hann skrifaði undir þennan samning er að hann var að koma sér aðeins í náðina hjá fjölmiðlum og öðrum er hann tók upp á því 26 ára gamall að bíta andstæðinginn, AFTUR. Eftir það vorkenni ég honum minna en ekki neitt að vera “neyddur” til að standa við samninginn sinn og spila áfram fyrir Liverpool ef það hentar okkur betur.
Félagið er með öll tromp á hendi. Við viljum ekki selja hann og eigum það mikið eftir af samningi að það þarf ekkert að hlusta á tilboð sem henta Liverpool ekki. Ég er sammála KAR með að ég hef sætt mig við að hann er að fara en ég sætti mig alls ekki við hvaða forsendur þeirrar brottfarar sem er.
Eina sem getur breytt stöðunni er ef það er klásúla í samningi Suarez um að hann geti farið fyrir X mikla upphæð en m.v. örvæntinguna hjá honum í sumar fyrir framan hljóðnema efa ég að svo sé. Eins er nokkuð ljóst að klúbburinn er ekki að fara gera neitt fyrr en Suarez fer skriflega fram á sölu og afsalar sér þar með tryggðarbónus sem samningurinn hans segir til um, enda á hann ekkert slíkt skilið.
Það yrði síðan ekkert mál fyrir mig að hafa Suarez áfram hjá okkur meðan hann skorar mörk er mér skítsama hvort hann er ánægður eða ekki. Þetta er kjáni en hann er enn sem komið er okkar kjáni.
En ef ég ætti að leggja undir myndi ég segja það nokkuð ljóst að hann er að fara til Real Madríd núna í sumar og þeir hafi unnið alla grunnvinnu fyrir þann díl nema semja um kaupverð, hugsanlega veltur þetta líka á því að Real selji Higuain til að fjármagna kaupin og skapa pláss í sóknarlínunni. Liðin eru núna í póker og Liverpool vinnur það spil vonandi. Hvað nýjan stjóra varðar og áhuga hann á Suarez efa ég að hann, ekki frekar en aðrir stjórar Real, hafi mikið um það að segja. Suarez er risanafn og Suarez er nafn sem selur treyjur og býr til fyrirsagnir. Þannig leikmenn vilja Real Madríd.
Enginn er stærri en klúbburinn !!! og nú er hljóðið orðið annað því Arsenal vill hann halló hafnarfjörður!!!
Ég vill ekki sjá menn spila aðalleik fyrir Liverpool sem hafa engan áhuga á því… takk fyrir allt sem þú gerðir Suarez… en þetta er komið gott.
Nú skulum við vona að BR standi við stóru orðin og komi inn með teamplayers fyrst hann er búin að ná í squadplayers….
Suarez má fara hvert sem er fyrir mér og nánast fyrir hvaða pening sem er.
Kv. Einn þreyttur á að verja 26 krakka.
26 ára krakka átti þetta nú að vera
Getum vid gleypt allt þetta hrátt sem er sagt um Suarez í fjölmiðlum ? Ég held ekki, hann verður áfram hjá liverpool og við komumst í CL næsta ár. Ekki panikka elskurnar. Bíðum eftir að hann komi til liðs við liðið.
Hvaða leiðindi og hroka gagnvart Arsenal sérðu í þessum pistli, Joe?
Ekki tók ég eftir neinu slíku en er alveg opin fyrir röksemdum. Tala bara fyrir sjálfan mig, en ég held að flestir Liverpool menn bera ágætis virðingu fyrir klúbbnum þínum. Annað en gagnvart Shitty og Chel$ki.
Suarez er að fara, en ég gæti allt eins trúað að það yrði ekki fyrr en í janúar, þar sem hann er jú gjaldgengur í Meistaradeildina. Persónulega held ég að það gæti verið ágætis kostur fyrir okkur.
Ég trú á því að Suarez fari á loka degi gluggans og við stöndum uppi í svipaðri stöðu og á síðasta ári, missum okkar besta leikmann og fáum engan í staðinn.
Nr. 12
Þannig að þú ert að segja að Liverpool eigi bara að gefast upp á því að reyna við a.m.k. 4 sætið og selja bara sína bestu menn til liðanna fyrir ofan okkur enda Liverpool hvort eð er ekki komist í topp 4 sl. 4 ár.
Með svona hugarfari er nokkuð ljóst að félagið færi aldrei hærra en 6.-8. sæti og líklega bara neðar. Vona að þeir sem eiga Liverpool og stjórni því hafi miklu meiri metnað en þetta.
Ég er farinn að hafa áhyggjur af þessum glugga, ég sé ekki betur en við erum að missa einn besta leikmann heims, auk Carra, og ég sé ekkert sem er að koma í staðinn, ef fer sem horfir þá mun leikmannaglugginn skila margra milljóna hagnaði fyrir félagið og veikari hóp, hvert fer svo hagnaðurinn? nú til usa, er þetta eitthvað sem við höfum upplifað áður, enhver???
Væri ekki flottur díll fyrir Liverpool að fá Higuain frá Real og pening fyrir Suarez?
Það er því miður ekkert nýtt að við séum að missa okkar besta mann correct me if I’m wrong.
Liverpool fans player of the year
2008-2009 Alonso (seldur til Madrid ágúst 2009)
2009-2010 Torres (seldur til Chelsea jan 2011)
2010-2011 Leiva (meiðsli í nóv 2011) (Meireles PFA fans player of the year bað um að fara í ágúst 2011 eftir að hafa kynnst bekknum)
2011-2012 Skrtel (settur á bekkinn)
2012-2013 Suarez (já hann er farinn)
http://visir.is/rodgers-aetlar-ekki-ad-missa-suarez/article/2013130719236
Djöfull sem ég vona að BR nái að tala hann til elsku kallinn. Tímabilið yrði hreinlega ónýtt ef ég hefði ekki strák bjána eins og LS til að pirra mig yfir og dýrka í leiðinni, fullkomið combó sem býr í þessum manni!
Hver myndi ekki sakna röflsins í honum?eða handarpatinu hans sem hann tekur þegar honum finnst hann ekki fá það sem hann á skilið.
Nú eða hver vill ekki halda áfram að pirra sig á því þegar hann gefur ekki boltann eða skýtur í tréverkið?
Og hver vill ekki hafa manninn sem klobbar kuntur eins og Terry og fleirri?
Og hver myndi ekki sakna 20+ markana hans?
Þið sem segið að hann eigi bara að selja og gleyma og grafa, þið eruð annsi fljótir að gleyma snilldinni sem býr í þessum vitleysing.
Ég er eins fullviss og mögulegt er, að allir þeir sem hér skrifa, ekki hvað síst pistlahöfundur, myndu gera nákvæmleg það sama og Suarez og það sem Torres gerði og Owen. Þessir menn eru atvinnumenn í knattspyrnu, það virðist oft fara framhjá mönnum í hatursumræðunni, og ferill þeirra er að hámarki 25 ár sem slíkir. Það er, a.m.k. mér, vel skiljanlegt að þeir reyni að gera sem mest úr þeim ferli og þéna sem mest. Það sem fer mest í taugarnar á mér eru menn sem standa sig ekki í vinnunni, slíka menn þurfum við ekki í Liverpool og við eigum að standa að baki okkar mönnum, sama hvað.
Best væri fyrir Liverpool að losna sem fyrst við vandræðagemlinginn Suarez og byggja upp lið með hann sem lengt í burtu!!!!!!!!!!!!!!!!!!
Þetta snýst einfaldlega um að selja ekki bestu leikmennina til samkeppnisaðila. City og Chelsea eru bara á því peninga “leveli” að ómögulegt er að hafna tilboðum þaðan EN aldrei seljum við okkar bestu menn til Arsenal eða United. Enginn hroki gegn Arsenal, félag sem ég virði endalaust bara common sense að styrkja ekki þá sem við erum að keppa mest við. Arsenal mega fá Jay Spearing 🙂
Nr. 17
Og hvað? Eiga stuðningsmenn liðsins sem þeir hafa þegið laun hjá, kysst merkið og notið hylli að klappa fyrir þeim og kyssa bless þegar þeir vilja fara til erkifjendanna? Það er ekki einu sinni þannig á almennum vinnumarkaði og ekki reyna að halda því fram að fótbolti sé eitthvað eins og almennur vinnumarkaður.
Þessi pistill útskýrir ágætlega afhverju þessar tilraunir Suarez mæta svona “litlum” skilningi og samúðin meðal púllara er svona lítil. Hefði hann bara sagt að hann vildi fara til liðs í meistaradeildinni og fá miklu hærri laun væri þetta mun minna mál og skilið yrði við Suarez á sæmilega góðum nótum. Þrátt fyrir að fáir leikmenn hafi fengið eins mikinn stuðning í sögunni eins og Suarez frá stuðningsmönnum Liverpool.
Hann er að reyna grafa undan sambandi sínu við Liverpool og gott og vel, honum er að takast það ágætlega.
Owen naut smá skilnings þar til hann gekk til liðs við United, það gerir maður einfaldlega ekki sem uppalinn leikmaður og hetja hjá Liverpool án þess að slíta öll tengsl við stuðningsmenn félagsins. Hann um það, hann var ekki það vinsæll hjá Liverpool hvort eð er.
Flestir held ég að skilji Torres alveg en hann fór illa af stað í viðtölum strax við komuna til Chelesa fékk eðlilega ekkert vingjarnlegt send off frá stuðningsmönnum Liverpool, Chelsea hafa verið einna helstu erkifjendur Liverpool sl áratug, sérstaklega árin áður en Torres kom og fór frá Liverpool.
Hvernig er það, bannið hans í byrjun tímabilsins á bara við PL, right? -Svo eins og ég skil þetta þá stæðist það enn ef hann yrði keyptur til Arsenal. En það myndi “fyrnast” ef hann færi til Real Madrid.
Er þetta rétt skilið eða?
joey barton þurfti að taka út sitt bann í frakklandi þannig að það er örugglega eins á spáni
Arsenal gerði eitt gríntilboð, önnu félög hafa ekkert gert. Nýi Chelsea stjórnn segist vilja einn mann og það er ekki okkar maður heldur kubbur í Man U.
Sé ekki að þessi dýrbítur sé að fara eitt né neitt, því miður. Væri alveg til í að fá 40mills fyrir hann. Kaupa einn til tvo alvörumenn fyrir þann pening
Persónulega er maður alveg búinn að sætta sig við það að kappinn fari en það er ekki þar með sagt að maður sjái liðið í betri málum eftir það. Því það er enginn sem getur komið með rök fyrir því að það muni hagnast Liverpool að missa sinn markahæsta og besta mann liðsins.
Hvað sem tautar og raular vill maður fara að fá vissu fyrir því opinberlega að hann fari eða verði. Auðvitað hefur kappinn sagt/gert ýmislegt sem stuðningsmennirnir eru ekki sáttir við en það breytir því ekki að hann var okkar besti maður seinasta tímabils.
Annars er þetta alger gúrkutíð…aftur er verið að linka Grikkjann sterka við okkur samkvæmt Bild. Annars er afskaplega lítið að frétta virðist vera….
YNWA – Team of Carraghers
Hvað sem um Suarez má segja er allavega á hreinu að PR er ekki hans sterka hlið. Hann er að reyna að vera rosa klár og hanna atburðarrás en tilburðirnir eru í besta falli aulalegir.
Auðvitað hefur allt það sem á undan er gengið afhjúpað persónuleikann Suarez. Það virðist ekki mikið um prinsipp í smáu eða stóru. Hann virðist ekki hugsa langt fram í tímann heldur fylgja eðlisávísun án þess að pæla mikið í afleiðingunum.
Ég hugsa að flestum sé farið eins og mér að standa í dag slétt á sama um hvað verður um Suarez. Ef hann spilar áfram fyrir LFC munum við fagna mörkunum auðvitað en mójóið er farið.
Það sama gildir um aðra aðdáendur hvar sem hann lendir að lokum. Þeir elska mörkin hans en ekki markaskorarann. Engin vill svona hugarfar hjá sínu liði. The thrill is gone eins og BB King kvað.
suarez kann bara ekki að höndla frægðina!!!!
hann er með allskonar vitleysu inná vellinum og það ætti hverjum manni að vera það ljóst að hann myndi vera með asnalega tilburði utan vallar líka….
hvernig var þetta nú þegar hann varði með hendi á hm og kom urugvæ áfram!!!!
það var nú litla fjaðrafokið eftir það…
bitið í hollensku deildinni, rasista uppákoman með evruna, fokkjú puttinn og bitið í ensku deildinni!!
eftir allar þessar uppákomur þá voru nánast engin viðtöl við hann… og ef þau voru þá voru þau mjög innihaldslítil
maðurinn er gangandi hamfarir og það er sjaldnast lognmolla í kringum hann… ok gott og vel getum svosem viðurkennt það að atvinnumannaferill manna er ekki mjög langur í þessari grein einsog einhver benti á EN!!!
Babú, þetta er venjulegur vinnumarkaður, þeirra venjulegi vinnumarkaður. Ég bara get ekki skilið þessa heift sem alltaf virðist koma upp ef leikmenn Liverpool, Manure og fárra annarra liða skipta um félög. Owen-dæmið er einmitt sönnun þess hve þetta er venjulegur vinnumarkaður; maðurinn fékk ekki vinnu, meira að segja ekki hjá sínu gamla félag, og tók besta boðinu, gerist ekki einfaldara og að úthúða manninum fyrir það er meiri barnaskapur en orðum taki.
Kristján E það eru miklu meiri tilfinningar í þessu og það er allt annað að fara til man u eftir að hafa verið hjá Liverpool heldur en að fara að dæla bensíni hjá Olís eftir að hafa verið hjá Shell. Og Owen fékk alveg önnur tilboð, hann bara þóttist alls ekki geta framfleytt fjölskyldunni og hestunum á þeim.
Brendan Rodgers er a.m.k. nákvæmlega á sömu línu og stuðningsmenn Liverpool og var góður í viðtali í Indónesíu í kvöld. Suarez fær að hafa mikið fyrir því að komast í burtu ef hann vill svona ólmur gera það, svo mikið er víst.
http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/brendan-rodgers-luis-suarez-owes-5144091#.Uehe-aKDUQw.twitter
Frábær grein! Bravó
Ánægjulegt að Brendan er að gefa það út að Suarez er ekki til sölu en hann verður líka að passa sig að segjast vera með fullkomna stjórn á stöðunni. Suarez getur lagt inn sölubeiðni, farið í verkfall eða neitað að spila.
Það er mjög varhugavert að vera með óánægðan leikmann hjá sér. Það gerir engum hollt. En það vill svo til að hann er besti leikmaður liðsins og auðvitað verður allt reynt til að halda honum hjá félaginu því það er eiginlega nokkuð ljóst að arftaki hans verður ekki eins góður.
Eg er orðin astfangim af Rodgers, þetta viðtal við hann varðandi suarez er BRILLIANT…
eg var mjog glaður þeð soluna a cavani til PSG þvi eg vonaði að okkar menn myndu lyta a það sem dæmi ef suarez ætti að fara og það virðast þeir vera að gera.
Eg er buin að segja i allt sumar suarez ma fara min vegna en ekki fyrir 35-40-45 mills eða eitthvað alika faranlega upphæð.. fyrir hnn eiga að fast lagmark það sama og fellst fyrir cavani og reyndar ef heil bru er i þessu þa er suarez reyndar margfalt betri knattspyrnumaður en cavani svo omkar menn ættu að geta farið fram a 60-70 milljonir miðað við það em gefum okkur að hamn hafi lækkað i verði vegna hegðunar þa sætti eg mig við 55 milljónir.
Tek það skýrt fram samt að suarez er að minu mati besti leikmaður i sogu liverpool og hann vill eg alls ekki missa.
Ertu þá að tala um í sögu síðasta tímabils eða? Enn sem komið er kemst hann ekki einu sinni í sömu setningu og gaurinn þarna á miðjunni hjá okkur. Þessi sem hefur verið þar sl. 14-15 ár.
Sammála Babu. Suarez er ekki besti leikmaður í sögu Liverpool. Kæmist kannski í topp 10. En fyrir mér er nú enn bara einn leikmaður sem á þennan titil og hann heitir Kenny Dalglish. Er ekki að fara að sjá neinn slá hann út af þeim stalli í bráð.
En annars er ég ekki að skilja þessa móðursýki hér í Liverpool mönnum. Ég hef lesið nokkur af þessum viðtölum við Suarez og linkaði hér á eitt fyrir ekki svo löngu og ég hef ekki séð hann vera að drulla yfir einn né neinn og ég sá hann ekki slefa yfir Arsenal eins og Kristján Atli talar um. Í því viðtali sagðist hann vera stoltur af því að Arsenal sýndi sér áhuga því þá væri hann greinilega metin af verðleikum í ensku deildinni.
Breska pressan er hins vegar búin að ákveða að Suarez ætlar að fara og á meðan að hann skilar ekki inn beiðni um sölu þá er ég ekki að sjá hann fara frá Liverpool. Real Madrid finnst mér ekki líklegt til að kaupa hann eins og staðan er núna og City og Chelsea eru ekki einu sinni að lykta í áttina að honum.
Er Suraez ekki bara heiðarlegur í þeim viðtölum sem hann fer í hann talar um að hann vilji spila í CL (eins og líklega allir sem spila fótoblta í dag). Hann segir jafnframt að hann gæti alveg farið ef það kemur tilboð í hann. Ég þreytist aldrei að á að tala um þegar Beckham sagðist frekar hætta í fótbolta en að spila með öðru liði en Untied, viku seinna var hann seldur til Real og er nú bara ný hættur að spila fótbolta 10 árum seinna.
Menn mega alveg slaka á í þessari Suarez umræðu og bíða með að drulla yfir hann þangað til hann er þá farinn frá félaginu. Ekki gleypa við öllu sem breska pressan segir.
Babú nei eg er að tala um að suarez se að mínu mati besti knattspyrnumaður i sögu liverpool en ekki a siðasta timabili..
Gerrard er stórkostlegur knattspyrnumaður en að minu mati er engin i sogu Liverpool jafn goður og fjolhæfur og luiz suarez.
Eins og Maggi orðaði það frábærlega fyrir einhverju siðan þa er suarez listamaður.
En þetta er bara mitt mat sem eg stend fastur a
Hjartanlega sammála Auðunni varðandi þetta Suarez mál, og ég sem hélt að Auðunn væri aðallega útlitið.
Ég er líka alveg sammála Auðunni, allt sem er birt á netinu er tekið úr samhengi, hélt að allir vissu það, en það er greinilega svona auðvelt að æsa ykkur upp og allir taka til handa og fóta ef það kemur frétt um kauða sem er svo illa skrifuð og svo mikið tekið úr samhengi, slaka á fólk, hraunið yfir manninn þegar hann farinn og skoðið viðtölin í heild sinni framvegis
Mér finnst Suarez snilld, allt sem hann gerir, bitin, hendin, vesenið, snilldin, mörkin. Gerir lífið mitt bara svo miklu skemmtilegra.
finn pistill en algjörlega fáranlegt að segja að bullið hja suarez afi farið langt með að kosta kónginn starfið
Auðunn Gunnar hittir hér naglann á höfuðið. Ég skil vel hvað Kristján Atli er að fara með pistlinum og hann hefur svo sannarlega gefið tilefni til þess að menn velti vöngum en líkt og Auðunn Gunnar og fleiri hafa væntanlega gert, þá sá ég fyrsta fréttamannafundinn þar sem Suarez var að tala um þessa hluti og þetta var svoleiðis rifið gjörsamlega úr öllu samhengi, settar inn fáránlegar fyrirsagnir a la fotbolti.net og í þokkabót kolvitlaust þýtt í ensku pressunni, m.a. frá Sky. Þar var hann talinn vera að skjóta á liðsfélaga sína og þjálfara þegar hann var að skjóta til baka á pressuna og kvarta yfir því hvernig hún kom fram við hann. Við eigum að vita hvernig breska pressan virkar, hún gengur út á að selja fyrirsagnir. Núna heitir þetta “Latest on Suarez transfer saga” og þá flykkist Tjallinn út í búð til að kaupa Daily Mail eða hvað það blað sem er með mest djúsí fyrirsögnina. Fyrr í sumar var þetta “Suarez wants to leave” og fleira í þá áttina. Fagmennskan er engin, siðareglurnar eru engar, allt gengur út á að selja blaðið, líkt og kom fram í Murdoch-réttarhöldunum fyrir ekki svo löngu síðan.
Suarez er enginn engill og eflaust fer hann frá liðinu fyrr en seinna. En hann er í dag Liverpool-leikmaður og mér finnst fullkomlega ótímabært að byrja að drulla yfir hann meðan hann er enn á bókum félagsins.
Eina stórveldið sem leyfir sér að fagna fjórða sætinu eins og um titill sé að ræða segir þú Kristján. Setjum þetta í annað samhengi segjum sem svo að Liverpool sé að berjast við Everton um meistaradeildarsæti og búnir að vera að elta þá allt seasonið og munurinn 10-13 stig,síðan stíga nokkrir leikmenn Everton upp og segja að nú sé Everton orðið betra lið en Liverpool og á sama stalli burt séð frá allri sögu félagana. Síðan endar Liverpool á að spila síðustu 10 leikina á tímabilinu vinna 8 og gera 2 jafntefli og ná 4 sætinu á stigs mun við Everton ætlar þú Kristján og aðrir poolarar að segja mér að þið mynduð ekki fagna því vel og haldið þið að leikmenn Liverpool myndu bara fara inn í klefa og fá sér einn hámark saman?
Ég ætla skrifa hérna smá, en vill taka það fram að ég er ekki Arsenal stuðningsmaður þó að vissulega sést vel að ég hallist að Arsenal og ég neita því ekki en ég er bara knattspyrnuáhugamaður
Liverpool eyðir og eyðir peningum og falla jafnframt neðar og neðar í gæðaflokknum og knattspyrnugeta liðsins er ekki mikil. Engin afsökun né ástæða er til fyrir þessari lægð ef svo má kalla þetta, liðið varð bara að einhverju lélegu miðjudeildar lið og þið stuðningsmenn sættið ykkur ekki við það, kannski…kannski munu þið einhverntíman ná sömu hæðum en mér finnst það mjög ólíklegt og er ég búinn að afskrifa þetta lið langt fram í tímann. Hinsvegar vita allir af hverju Arsenal hafa ekki verið eins góðir og þeir voru, hvort sem þið viðurkennið það eða ekki. Það eru fá lið í heiminum sem gætu byggt nýjan völl að sömu stærðargráðu fyrir sama pening og hann kostaði án þess að detta í lægð. Það er ekki til það lið í heiminum sem myndi ekki gjörsamlega missa það og tapa áttum við svona mikla fjárfestingu NEMA það sé einhver arabískur olíufursti eða rússnenskur billjoner til að greiða þetta. En sú var ekki raunin hjá Arsenal, vissulega hefðu þeir geta látið Usmanov borga þetta, einn ríkasta mann heims sem myndi flissa þegar hann myndi sjá inn á bankabók Abramovich. En það gerðu þeir ekki, þeir kusu að fara lengri leiðina og halda í heiðarlegan klúbbreksturinn. Lið sem ekki voru í sömu framkvæmdum og þeir og höfðu óverðskuldaðar óraunverulega fjármuni nýttu sér ástandið og fengu stórstjörnunar til sín sem Arsenal höfðu keypt sem unga drengi algjörlega óþekkta. Þetta hefur verið raunin ár eftir ár, Wenger reynir að byggja upp samkeppnishæft lið fyrir lítin pening en nær því aldrei. Samt hefur liðið ekki endað neðar en 4 sætið og verið fastur liður í meistaradeildinni og það er nú meira en að segja það. Vissulega virðist eins og Arsenal hefur ekki getað rassgat síðustu 8 ár og að það sé vandræðalegt að missa frá sér besta leikmanninn sinn til liðs sem hefur ekki unnið titil í 8 ár, vissulega er það satt ef þú ert heilalaus fáviti eða þessi klassíski ,,delusional scouser”. En ef þið eruð hugsandi fólk þá ættu þið að sjá að þetta er frekar magnað hvernig klúbburinn hefur spjarað sig. Ekki gat LFC það þó svo að þeir væru bara að fá gefins peninga.
Það er ekkert skrítið við það að Suarez vilji fara til Arsenal það er mun meira upp á að bjóða fyrir leikmann á hans kalíberi. Spennandi líka fyrir hann að fara spila undir alvöru knattspyrnustjóra, einn af þeim bestu í heimi. Arsenal hefur nú komið sér í góða fjárhagslega stöðu og geta nú farið að keppast um bestu bitana á markaðinum og það vita það allir að fyrst þeir hafa verið að ógna titlinum öll þessi ár með enga peninga og unga leikmenn, þá þarf engan snilling til að sjá hversu stór hættulegt þetta lið er núna með peninga og góðann grunn með heilan her af ungum landsliðsmönnum sem hafa verið að keppa með A-landsliðum í langan tíma t.d Wilshere, Walcott og Chamberlain, og ef Suarez er fyrsti leikmaðurinn sem þeir kaupa eftir að hafa fengið fjármuni þá ætti öll evrópa að taka þá sem máttugan samkeppnisaðila þegar kemur að transfer glugganum, því þetta er bara byrjunin hjá þeim. Mætti líkja þessu við risa sem hefur verið í dvala síðustu 8 ár og er nú kominn aftur en sterkari og ætlar sér stóra hluti.