Arsenal 2 Liverpool 0

Tíunda umferð Úrvalsdeildarinnar hófst í dag og okkar menn heimsóttu Arsenal í sannkölluðum toppslag. Eftir tap Chelsea gegn Newcastle fyrr í dag var Liverpool komið í annað sætið á markatölu, tveimur stigum á eftir toppliði Arsenal, og því fram undan barátta um fyrsta sætið. Það fór því miður svo, eftir baráttuleik, að okkar menn máttu þola 2-0 tap gegn toppliðinu.

Brendan Rodgers ætlaði að stilla upp óbreyttu liði frá sigrinum gegn West Brom fyrir viku en þegar Glen Johnson veiktist á leikdag varð hann að taka skjóta ákvörðun. Hann útskýrði þá ákvörðun svo að hann hefði ekki viljað hrókera leikmönnum of mikið til innan liðsins. Ef hann hefði t.d. sett Victor Moses eða Joe Allen inn og fært Jordan Henderson í vængbakvörðinn hægra megin hefði hann verið að riðla skipulaginu sem liðið hafði verið að æfa og undirbúa alla vikuna. Vandamálið var hins vegar að Martin Kelly – eins og sást klárlega á innkomu hans um síðustu helgi – er hvergi nærri í nægu leikformi til að byrja svona leik. Því var brugðið á það ráð að kalla til ungan leikmann sem hafði ekki leikið deildarleik í átján mánuði; Jon Flanagan.

Liðið var annars svona:

Mignolet

Touré – Skrtel – Sakho
Flanagan – Gerrard – Lucas – Cissokho
Henderson
Suarez – Sturridge

Bekkur: Jones, Agger, Kelly, Allen, Coutinho (inn f. Cissokho), Sterling, Moses (inn f. Flanagan).

Arsene Wenger sagði fyrir leik að lykillinn að því að stöðva hina sjóðheitu Suarez og Sturridge væri sá að hindra aðgang Liverpool að fótboltanum. Hann sýndi það líka með liðsvali sínu en hann stillti upp fimm frábærum miðjumönnum – Arteta, Rosicky, Ramsey, Özil og Cazorla – til að kæfa allt miðjuspil okkar manna og halda uppi hápressu. Það gekk enda frábærlega og Wenger vann að mínu mati taktískan sigur með þessu. Þessi leikur tapaðist fyrst og fremst á miðjunni hjá okkar mönnum og út frá því náðu Arsenal-menn fljótlega tökum víðar á vellinum, ekki síst í baráttu bakvarðanna.

Eftir allt stressið varðandi liðsval Flanagan var það ekki hann sem var vandamálið hjá okkar mönnum. Hann sótti framar og ógnaði meira en Cissokho á hinum kantinum og lenti í talsvert minni vandræðum varnarlega, sín megin. Eftir um kortér var orðið nokkuð ljóst í hvað stefndi; þótt hvorugt liðið hefði átt mörg klár færi voru Arsenal-menn með öll völd á miðjunni, héldu boltanum löngum stundum hátt á vellinum og Bakary Sagna virtist hafa Aly Cissokho í vasanum og sótti að vild upp þá hliðina. Fyrra markið kom einmitt þaðan á 19. mínútu, þegar Sagna fékk boltann úti hægra megin, komst framhjá Cissokho og gaf fyrir á Cazorla sem skallaði frábærlega að marki. Boltinn fór í stöngina og hrökk aftur beint fyrir fætur Cazorla sem þakkaði fyrir sig og kláraði frákastið með Mignolet enn liggjandi eftir skallatilraunina. Staðan orðin 1-0 fyrir heimamenn sem voru í stuði og maður óttaðist bara hið versta.

Eftir þetta róaðist leikurinn fljótlega, sem betur fer kannski. Arsenal-menn ógnuðu áfram og flest allt sem þeir gerðu kom í gegnum miðjuspilið, þaðan út til hægri á Sagna og þaðan inn á miðja vörnina. Okkar þrír bestu menn í dag voru reyndar miðverðirnir sem stóðu flestar þessar árásir af sér og það er að mínu mati þeim að þakka að Arsenal skoraði ekki fleiri mörk í þessum leik. Staðan í hálfleik var þó 1-0 fyrir heimamenn og það var nokkuð ljóst að Rodgers yrði að taka stórar ákvarðanir í hálfleik, bæði hvað varðaði liðsval og leikaðferð, til að eiga möguleika eftir hlé.

Rodgers til hróss tók hann þessar ákvarðanir og gerði það vel. Philippe Coutinho tók við af Cissokho í hálfleik og við það fór liðið í 4-4-2 með eins konar demantamiðju þar sem Lucas sat aftast, Gerrard og Henderson fyrir framan hann og Coutinho fremstur og úti til vinstri. Fyrir vikið var seinni hálfleikurinn betri hjá okkar mönnum og Suarez og Sturridge fóru loks að sjá einhvers konar þjónustu frá miðjunni í formi Coutinho. Vörn Arsenal var farin að bakka aðeins og ólíkt fyrri hálfleik voru bæði lið farin að gera sig líkleg, en ekki bara heimaliðið. Það var því gríðarlega svekkjandi að sjá Özil rölta upp hægra megin að varnarlínu okkar, leggja boltann inn á miðjuna fyrir framan teiginn þar sem Ramsey þakkaði fyrir sig og sett’ann óverjandi upp í markhornið fjær. Þetta var á 59. mínútu og þótt forystan hafi bara verið tvö mörk má með sanni segja að þetta hafi nánast gert út um leikinn.

Screen Shot 2013-11-02 at 20.35.43

Okkar menn fengu nokkur færi á síðasta hálftímanum og ef eitthvert þeirra hefði nýst hefði niðurstaðan getað orðið önnur en það féll ekki með okkur í þetta skiptið og Skytturnar fögnuðu verðskulduðum sigri í leikslok. Þeir eru nú með fimm stiga forskot á okkur og Chelsea, okkar menn sitja í 3. sæti á markatölu eins og fyrir helgina og geta ekki farið neðar en í fjórða sæti á morgun ef annað hvort Tottenham eða Everton vinna innbyrðis viðureign þeirra.

MAÐUR LEIKSINS: Eins og ég sagði í upphafi tapaðist þessi leikur fyrst og fremst á miðjunni. Leikaðferðin 3-4-1-2 (eða 3-5-2, þið veljið) hefur verið umdeild en hún hefur verið að virka fyrir okkur og skila stigum. Eins vel og hún virkaði gegn varkáru West Brom-liði á Anfield um seinustu helgi virkaði hún alls ekki hér. Þrír miðjumenn okkar áttu aldrei séns í heimsklassamiðju Arsenal-manna, ekki síst þegar þeir voru fimm gegn þremur okkar og nánast allir þeirra fljótari og kvikari í hugsun og hreyfingum en miðjumennirnir okkar þrír. Þetta var átakanlegt á að horfa til lengdar; Lucas Leiva virkaði hvergi nærri nógu góður til að verjast spili Arsenal-miðjunnar og Steven Gerrard hefur aldrei, ALDREI virkað jafn gamall á velli og hann gerði í kvöld. Jordan Henderson var sennilega skástur þeirra þriggja en samt talsverður eftirbátur Rosicky og Arteta, hvað þá Özil, Ramsey og Cazorla.

Við verðum að hafa í huga að Steven Gerrard er að verða 34 ára. Þegar Gary McAllister kom til Liverpool og vann þrennuna var hann 36 ára og það þótti kraftaverk hve vel hann lék sem aukaleikari í því liði, ekki lykilmaður vegna aldurs. Þegar Paul Scholes og Frank Lampard voru 34 ára voru þeir báðir búnir að missa reglulegt byrjunarsæti sitt í liðum United og Chelsea, þjálfararnir farnir að spara þá og nota meira eftir þörfum sökum aldurs. Það skýtur því aðeins skökku við þegar maður sér Steven Gerrard, á 34. aldursári, leika hverja einustu mínútu fyrir Liverpool í deildinni.

Nú er ég ekki að segja að Gerrard sé orðinn lélegur leikmaður. Hann er enn einn skilvirkasti miðjumaður deildarinnar og leiðtogi sem liðið lítur oft til á velli. En hann er heldur ekki Súpermann – ekki lengur – og það er rangt af okkur, og rangt af þjálfaranum, að ætlast til að hann spili eins og ofurmenni á þessum aldri. Hann hefur fyrst og fremst misst hraða, en einnig líka eitthvað af úthaldinu sem einkenndi hann í svo mörg ár. Þrumuskotin eru færri, langhlaupin til að vinna boltann aftur eru færri, og þegar Mikel Arteta er farinn að þjóta framhjá honum eins og hann sé ekki þarna er eðlilegt að við spyrjum okkur: hvers vegna á Liverpool ekki fljótari miðjumenn? Hvers vegna virðist félagið ekki vera byrjað að plana fyrir lífið eftir Gerrard þegar hann er að komast á háan aldur, knattspyrnulega séð?

Nú er ég ekki að segja að allt sé ómögulegt eftir eitt tap, ekkert frekar en að allt hafi verið fullkomið eftir einn frábæran sigur um síðustu helgi. Liverpool vann West Brom auðveldlega, sem er það sem á að gerast miðað við stöðu og getu þessara tveggja liða í dag. En Liverpool tapaði líka réttilega fyrir Arsenal í dag, sem á að gerast þegar þú horfir á og berð miðjur þessara liða saman. Suarez og Sturridge eru betri framlína en Olivier Giroud, og ég myndi velja miðverðina okkar fram yfir miðverði Arsenal á hvaða leikdegi sem er, en miðjan okkar stenst engan samanburð.

Rodgers lærði af leiknum í dag. Sjáiði til. Skiptingin í hálfleik – fljótur miðjumaður fyrir varnarmann, liðsauki fyrir yfirbugaða miðju okkar – var engin tilviljun. Ég myndi giska á að við sjáum fyrstu leikmannakaupin sem eru gerð sérstaklega með Lífið Eftir Gerrard í huga, strax í janúar. Það er þörf þar á. Gerrard er ennþá leikmaður sem getur stjórnað leikjum gegn minni liðum deildarinnar, en hann á ekki mikið erindi í bestu miðjumenn Englands. Hann er ekki Súpermann lengur. Hann er Gary McAllister.

Þá að öðrum leikmönnum. Eftir allar áhyggjurnar af Flanagan stóð stráksi sig ágætlega í dag. Hann er enginn Johnson en hann var enginn dragbítur á liðinu. Það var Cissokho hins vegar, sá beið algjörlega og á alla vegu lægri hlut í baráttunni gegn Bakary Sagna. Þegar Kristján Atli eyðir þúsund orðum í skítlélega miðjumenn Liverpool og enginn þeirra er lélegasti maður leiksins þá veistu að þú ert búinn að drulla upp á bak, Aly. Ég var einmitt að vona að Cissokho myndi nota meiðsli Enrique til að sýna okkur hvernig alvöru, stöðugur og flottur vinstri bakvörður, lítur út, sérstaklega þar sem ég hef oft á þessari síðu rætt ítarlega um vankosti Enrique sem byrjunarmanns. Þess í stað líður mér, eftir tvær lélegar frammistöður í síðustu þremur leikjum Cissokho, eins og Enrique geti vart komið nógu fljótt til baka. Það eru vonbrigði. Það er enginn að afskrifa Cissokho eftir örfáa leiki en hann þarf að gera mikið, mikið, mikið betur en þetta.

Frammi voru þeir félagar Suarez og Sturridge ákafir en fengu litla þjónustu nema frá Coutinho. Þeir reyndu sitt besta og verða ekki dæmdir af þessum leik. Sama mætti segja um Mignolet sem virkaði stressaður í upphafi leiks en stóð sig heilt yfir mjög vel og verður ekki sakaður um mörkin tvö. Þau skrifast á Cissokho og miðjudekkninguna í fyrra markinu og svo Lucas Leiva í seinna markinu.

Bestu menn okkar í dag voru miðverðirnir þrír. Touré gerði ein eða tvö mistök en var annars fínn á meðan Skrtel og Sakho stigu vart feilspor og án þessara þriggja hefði tapið í dag getað orðið miklu, miklu verra. Það er svolítil þversögn í því að miðverðirnir þrír hafi spilað feykivel í tapi sem sýndi í raun fram á að það er ekki alltaf sniðugt að vera með þrjá miðverði gegn toppklassaliðum en þannig er það nú samt. Ég er efins um leikkerfið eftir daginn en ekki getu þessara þriggja. Rodgers þarf að finna út úr því hvernig hann getur breytt kerfinu án þess að missa þessa þrjá stólpa sem báru liðið uppi í dag. Fyrir það fær hann borgað, ekki ég.

Ojæja. Svo mörg voru þau orð. Svekkjandi tap sem kenndi okkur ýmislegt um Liverpool og stöðu liðsins innan um bestu lið Englands. Við sjáum aðeins skýrar hvað þarf að bæta og hvað er gott. Þessi tapleikur hefur engin stórslysaáhrif á stöðu okkar í deildinni, svo sem, þar sem eins og ég sagði áður verðum við aldrei neðar en í 4. sæti eftir helgina, 1-2 stigum frá öðru sætinu. Fram undan í nóvember eru tveir deildarleikir sem við eigum að vinna og þá höldum við okkar striki nálægt toppnum. Arsenal heimsækja Old Trafford um næstu helgi á meðan við fáum skítlélegt Fulham-lið í heimsókn þannig að kannski verðum við komnir ofan í hálsmálið á Skyttunum aftur eftir viku. Eða kannski hrynur mórallinn hjá Liverpool núna og allt fer til fjandans. Annað eins hefur nú gerst.

Við sjáum hvað er í þetta lið spunnið um næstu helgi. Ef strákunum hans Rodgers er einhver alvara með að skila einhverjum árangri í hús í vetur þá hrista þeir af sér svekkelsið og slátra Fulham á Anfield. Ég neita að íhuga aðrar útkomur í þeim leik. Orrustan í dag tapaðist en stríðið er bara nýhafið. Áfram gakk!

92 Comments

  1. Taktískur harmleikur af Rodgers hálfu að hafa Flanagan í byrjunarliði á kostnað manna eins og Kelly/Agger eda jafnvel Henderson í bakverði.

  2. Horfum á björtu hliðarnar, fengum allavega ekki mark á okkur úr föstu leikatriði í þessum leik

  3. Sleppa bara skýrslu og setja mynd af kúk eftir þessa skitu. BR ekki með þetta, og ENGIN leikmaður Liverpool mætti í þennan leik. ENGIN ! !

    Flanaghan inn á í staðin fyrir Kelly eða Agger, ég meina come on ! !

  4. Slaka sér aðeins, sérstaklega hvað Flanagan varðar. Af bakvörðum Liverpool þá var það ekki hann sem var að valda okkur mestum vonbrigðum í dag heldur sá sem fór útaf í hálfleik.

  5. Ég á erfitt kenna BR um tapið. Arsenal voru bara betri þó mörkin voru frekar ódýr og framlínu par okkar átti off day.
    Hafði tekið jafntelfi sérstaklega eftir tap Chelski og hirða annað sæti af þeim.

  6. Ömurleg frammistaða, ef þetta var stóra prófið þá kolféll liðið, leikmenn og sér í lagi þjálfari. Slakasti maðurinn í mjög slöku liðið var fyrirliðinn okkar, enn og aftur verð ég að segja, því miður.

  7. Enginn heimsendir að tapa á móti Arsenal á Emirates. Höfðum ekki heppnina með okkur og það er alltaf hægt að velta upp þessu “ef” og “hefði”. Atkinson gerði afdrifarík mistök þegar hann stoppaði hraða sókn Liverpool til að spjalda Sagna.

    Það sem ég er hins vegar ósáttur við hvað okkar menn gáfust upp eftir seinna mark Arsenal. Þá var bara game over. Hef áhyggjur af vonlausinu og karakterleysinu hjá mörgum leikmönnum eftir það. Við verðum að læra af þessu og ég treysti því að BR muni taka þetta föstum tökum.

    Annars er alger óþarfi að vera með einhverja bölsýni og svartsýni út af þessum eina leik. Ekki gleyma því að Arsenal áttu toppleik í kvöld á meðan við vorum vægt til tekið slakir. Hey, við eigum eftir að rústa þeim á Anfield, engin spurning.

    Lykilmenn eins og Gerrard og Sturridge áttu dapran leik. Við megum ekki við því í svona stórleikum. Bring on Fulham. Þessi leikur er “bægon”.

  8. 1# alls ekki ,Flanagan var alls ekki slæmur,við töpuðum þessum leik á slæmum leik miðjumanna okkar,sem voru undir í öllum sínum aðgerðum….

  9. Lucas og Gerrard hörmung í kvöld. Flanagan var betri bakvörðurinn í okkar liði.

  10. Looserinn í dag eins og stundum áður var BR. Liðið í 2.sæti deildarinnar mætir til leiks með 9 varnarsinnaða menn. Þetta er ekki smart. Þetta er ekki hugarfar sigurvegara. Þetta er kannski eðlilegt fyrir lið eins og Crystal Palace á útivelli-ekki Liverpool. Eftir höfðinu dansa limirnir. Ef stjórinn vill bara spila vörn en enga sókn-þá vinnur liðið ekki leiki. Arsenal spilaði ekki vel í dag en MUN betur en Liverpool.Af hverju byrja menn eins og Coutinho og Moses á bekknum?? BR er ekki sigurvegari og verður það aldrei. Lið þurfa að þora að vinna til þess að geta verið með á toppnum. AF mörgum slökum í dag held ég að Lucas og Gerrard hafi verið verstir ásamt Cissokho. Gef þeim 2 og 3 í einkunn. Liverpool var með vængbakvarðauppsillingu í dag. Ég man eftir einni fyrirgjöf frá þeim 4 leikmönnum sem reyndu fyrir sér í þeim söðum í dag-þeir komu ALDREI með. Kv. einn svekktur.

  11. Það er erfitt að vera svekktur eftir þetta. Við vorum að spila útileik við Arsenal lið sem verðskuldar toppsætið 100% og það t.a.m. án teljandi framlags frá bakvörðum.

  12. Ég er alls ekki að segja að Flanagan hafi verið einhver meiri dragbítur í kvöld en einhver annar hinsvegar finnst mér að Rodgers hafi úr betri leikmönnum að velja til þess að fylla í þessa stöðu.

    Sérstaklega í ljósi þess að hann hefur ekki spilað mínútu í deildinni á þessu tímabili.

  13. …og kjúklingurinn var síst sá lakari af bakvörðunum, by the way! Völtuðu yfir okkur á miðjunni líka. C’est la vie!

  14. Er ekki svekktur eftir þennan leik…Arsenal sýndi það bara að þeir eru með betra lið á þessum tímapunkti. Liverpool átti aldrei möguleika…allavega mjög litla. Að kenna Flanagan um þennan ósigur er dapurt að mínu mati…..aðrir og stærri leikmenn í byrjunarliði Liverpool sem voru alls ekki að ráða við Arsenal menn. Þessi leikur tapaðist á betri miðju Arsenal manna og ég tel að það ætti að vera forgangsatriði hjá Rodgers að finna betri mann en Henderson og arftaka Gerrard.

  15. Hænan sýndi egginu klárlega hvernig á að spila þennan bolta sem við viljum spila, enda mikið lengri hefð fyrir honum. Við höfum sýnt í vetur að við erum e.t.v. hálfu númeri of litlir fyrir allra best spilandi liðin, en aftur á móti höfum við sýnt að við eigum að geta kláran öll hin, og það er það sem skiptir máli til að enda í topp fjórum.

  16. Ég hef séð Liverpool spila verra á þessu tímabili. Vorum að spila á móti heitasta liðinu í dag á útivelli og við fengum nokkur frábær færi til þess að skora(eins og þeir). Málið var að þeir skora en við ekki.

    Þeir sem kenna bara Flanagan um þetta tap eiginlega lýsa sinni fótboltavisku. Glen Johnson átti að byrja en veiktíst í dag og Rodger ákvað að hreyfa sem minnst við liðinu og lét Flanagan í liðið og var hann ekki lélegasti leikmaður liðsins. Toure hefði ekki gengið vegna þess að hann er hægur og kemst ekki mikið fram, Sterling er búinn að drulla á sig í þessari stöðu og Kelly er of hægur gegn Arsenal í þessari stöðu.

    Mignolet 6 – virkaði í vandræðum með að spyrna frá sér en gat lítið gert í mörkunum.

    Toure 5 – hans lélegasti leikur í Liverpool búning og var næstum því búinn að gefa Arsenal mark.

    Skrtel 8 – okkar lang besti maður í þessum leik. Vann boltan trekk í trekk á jörðu sem og í loftinu(himni) . Bjargaði nokkrum sinnum á mikilvægum augnablikum.

    Sakho 7 – fín leikur en er ekkert tæknitröll en lét vel finna fyrir sér í dag.

    Flanagan 6 – var settur óvænt í liðið og átti ekki frábæran leik en skilaði sínu. Var duglegur upp og niður vængin og skilaði varnarhlutverkinu vel og kom með nokkur fín hlaup.

    Cissckho 5 – ágætur varnarlega en er greinilega ekki í leikæfingu því að hann virkar á mig sem þreyttur/þungur og er ekki of sterkur á boltan

    Lucas 5 – miða við hvað hann var góður í síðstaleik þá var hann lélegur í dag.

    Gerrard 5 – Lélegasti leikur Gerrard á tímabilinu. Klúðraði mörgum sendingum og er það ólíkt honum og náði sér aldrei í gang.

    Henderson 6 – alltaf duglegur, skilaði varnarhlutverkinu vel og átti nokkrar fínar fyrirgjafir en maður vill fara að sjá hann hitta markið(vonandi verður hann okkar Ramsey á næsta tímabili)

    Suarez 7 – hélt varnamönum Arsenal á tánum, var duglegur og vann vel fyrir liðið en hefði átt að skora í þessum leik.

    Sturridge 6 – byrjaði af krafti og var að taka menn á en svo fór smátt og smátt minna fyrir honum og tapaði hann nokkrum sinnum boltanum á klaufanlega hátt.

    Coutinho 6 – átti ágæta innákomu og var að reyna að skapa færi fyrir samherjana en munaði oft bara pínu litlu að það myndi takast.

    Moses 6 – kom með ferskar fætur inní þetta undir lokinn og hefði mátt koma fyrr inná.

    Brendan Rodgers 7 – mér fannst ekkert að því að byrja með Flanagan er búinn að fylgjast með honum í mörg ár og er þetta flottur strákur sem leggur sig alltaf 100% fram og hefur hraða. Ég var líka ánægður með að hann gerði strax skiptingu í hálfleik og breytti aðeins um kerfi og komum við þeim smá á óvart í byrjun síðarihálfleik.
    Jújú stjórar bera ábyrgð á gengi liðs en oft er þetta spurning um stöngin út og stöngin inn í þessum bransa með fullt af Ef og hefðum. Mér finnst Liverpool vera að standa sig undir Rodgers og er hann að gera betri hluti með liðið en ég þorði að vona um.

    Góðu fréttirnar eru þær að við erum búnir með þennan leik og þurfum ekki að spila þarna aftur á tímabilinu(nema kannski í bikar). Coutinho er að koma aftur tilbaka eftir meiðsli og vonandi fara Enrique og Glen að komast á fætur því að við erum ekki með breydd í bakkvarðarstöðunum og verða líklega með í næsta leik.
    Við erum líka enþá fyrir ofan Man utd, Man city og annað hvort Everton eða Tottenham eftir 10 leiki í deild og er það ágætur árangur.

    Slæmu : Þarna var tækifæri til þess að stimpla sig inn fyrir alvöru í baráttu um titilinn en það gekk ekki.

  17. Við fórum á útivöll, spiluðum við betra lið og töpuðum. Simple as that. Það er ekki Flanagan að kenna, það er ekki Atkinson að kenna og það er ekki Rodgers að kenna.

  18. Betra lið vann…ósköp einfalt. Engin heimsendir i mínum huga, hefði verið flott að ná í eitt stig en þetta fór eins og það fór. Ótrúlegt að lesa sum af þeim commentum sem komin eru…..auðvitað byrjar nánast sama lið og vann síðasta leik, en ekki hvað!! BR gerði skiptingar til að bæta í sóknarleikinn en hlutirnir gengu bara ekki upp í dag. Hefði viljað sjá meiri baráttu en staðreyndin er bara sú að Arsenal var að spila magnaðan leik í dag. Já og endilega hengjum BR og Flanagan……þvílíkt bull strákar 🙂

  19. Það er nokkuð ljóst að við eigum að spila 4-2-3-1 núna þegar að Coutinho er kominn til baka. Það er sóun að spila með 3 menn í vörn sem kunna ekki neitt nema að verjast.
    Sturridge
    Suarez Coutinho Hendo
    Lucas Gerrard
    xxxxx Sakho Skrtel Johnson
    Mignolet

    Það er ekki hægt að treysta bara á þá Suarez og Sturridge þó svo að þeir séu ótrúlega góðir, það þarf að koma meira frá miðjunni okkar og bakvörðunum.
    Föst leikatriði bæði í sókn og vörn er eitthvað sem þarf að skoða virkilega vel.
    En ég er samt ótrúlega rólegur eftir þennan leik enda hef ég mikla trú á þessu liði og Rodgers þó þetta hafi ekki gengið í dag. Núna er það bara næsti leikur og það þarf að sækja 3 stig þá.

  20. Já … þeir 11 sem fengu traust þjálfarans féllu á prófinu í dag. Mér fannst koma meira líf í þetta þegar BR breytti í hálfleik í gamla kerfið úr hafsentakerfinu en það dugði ekki því miður. Persónulega er ég ósáttastur við gaufaragang Gerrard og Lucas þar sem þeir settust allt of aftarlega og héldu sig þar.
    Ef ég ætti að velja mann leiksins myndi ég velja Mignolet þar sem hann varði oft vel.

    En þetta er enginn heimsendir, þetta er meira staðfesting á því hvar við stöndum, markmiðið er enn skýrt í mínum huga að við verðum að ná einu af topp 4 sætunum, hvað sem það kostar.

  21. Ekkert hægt að kenna Flanagan um þetta tap. Fyrsta markið kom vinstra megin hjá Cissokho og Sakho var hvergi sjáanlegur í því marki heldur. Henderson fékk sæmileg færi en slúttin hjá honum erum eins og hjá Ramsey í fyrra.

  22. Nù skil ég hvernig manu mönnum er bùið að lìða það sem af er ..

  23. Jæja, þannig fór um sjóferð þá.

    Verð að viðurkenna að ég reiknaði aldrei með því að fá nema í mesta lagi eitt stig úr þessum leik. Niðurstaðan var tap og núll stig – og það verðskuldað. Þrátt fyrir flotta byrjun á tímabilinu þá verðum við bara að viðurkenna að við eigum einfaldlega ekki jafn góða fótboltamenn og Arsenal, það sást ansi berlega í þessum leik.

    Menn eins og Kristján Atli og Einar Örn voru að tala um það fyrir leik að þeir vildu ekki fá neinn úr þessu Arsenal-liði nema Özil. Ég var hissa á þessum orðum þeirra, enda eru þeir miklir spekingar báðir tveir. En Liverpool-gleraugun voru sennilega aðeins að þvælast fyrir þeim þar. Í flestum stöðum eru Arsenal einfaldlega með flinkari fótboltamenn.

    Við verðum að fá meira control og meiri ógn frá miðjunni. Gerrard er ekki að gera þetta fyrir okkur lengur, það er engin ógn af honum, bara alveg engin. Henderson er duglegur en hefur ekki gæðin (getur ekki skotið). Þurfum mann eins og Ramsey (sem minnir mig mikið á Gerrard þegar hann var yngri).

    Suarez var einfaldlega ömurlegur í þessum leik, með lélegar sendingar og klúðruð færi. Hans versti leikur í langan tíma. Sturridge var litlu skárri. Hugsanlega má þó kenna döpru miðjuspili um þetta að einhverju leyti.

    Ljósi punkturinn var Coutinho. Hann mun vonandi færa okkur meiri gleði í komandi leikjum. Innkoma Moses var einnig mjög jákvæð.

    Þetta Arsenal-lið er bara frábært og ég sé þá alveg ná að fara alla leið í vor. Wenger er toppþjálfari eins og allir vita og svo eiga þeir inni menn eins og Wilshire, Walcott, Podolski, Diaby, Flamini, Oxlade og Gnabry. Þeir ættu því alveg að hafa breiddina. Tala nú ekki um ef þeir styrkja sig enn meira í janúar.

    Það er því alveg óþarfi að detta í þunglyndi yfir þessum úrslitum, enda bara hljóta menn að hafa séð nú, skýrt og greinilega, að okkar menn eru ekki alveg top class. En þetta er allt á réttri leið. Ef við náum að gera góða hluti í janúar-glugganum, þá ættum við að eiga fínan möguleika á meistaradeildarsæti í vor.

    Hold your head up high, kæru félagar. Þessi leikur er að baki og betra liðið vann. Gírum okkur í næsta leik, við ætlum að slátra Fulham (sem voru ömurlegir á móti united í dag).

    Áfram Liverpool!

  24. Bíð rólegur eftir skýrslu Kristjáns…en fram að því nokkrir.

    Það fyrsta. Alltaf klárt að við værum að fara að spila 3-4-1-2 eins og áður. Johnson veikist og Rodgers velur Flanno. Ég segi það strax að hann var betri kostur en Kelly sem hefur verið ömurlegur í vetur og er alls ekki tilbúinn í heilan leik. Mér fannst Flanno spila vel.

    Eftir fína byrjun náði Arsenal þeim tökum sem þeir vildu. Giroud hélt hafsentunum okkar vel við efnið þannig að enginn þeirra þorði framarlega til að styðja við miðjuna. Þar voru Lucas, Hendo og Gerrard að keppa við Ramsey, Özil, Rosicky og Cazorla. Töpuðu þeirri baráttu. Sérstaklega er hægt að benda á þátt Lucasar í marki Arsenal þar sem Giroud hnýtti tvo hafsenta og Cazorla kom úr djúpinu algerlega aleinn. Mark og við undir.

    Síðustu 20 mínútur fyrri hálfleiks sýndu svo um munaði veikleika leikkerfisins okkar, ég man ekki eftir því hvenær tölfræði sýndi síðast 60-40% okkur í óhag. Arsenal héldu boltanum og okkar miðjumenn voru þreyttir duglega til að loka svæðum.

    Ég var því mjög glaður að sjá Rodgers bregðast strax við og hann tók út réttan bakvörð í stöðunni. Heilt yfir fannst mér allt annað að sjá seinni hálfleik en ákvörðun hans Lucasar míns að fara í það að verða fjórði gegn tveimur en skilja Ramsay eftir var svo kjánaleg að ég svitnaði og 2-0 í andlitið.

    Arsenal liðið leit að mínu mati hrikalega vel út, uppleggið okkar steinlá og við fengum að mínu mati á því sönnun að slíkt leikkerfi gengur ekki gegn svo öflugum senter og Giroud með svona liprum miðjumönnum í kringum sig.

    Fyrirfram hefði ég þegið stig en fljótlega fannst mér ljóst að lítið liti út fyrir að það tækist og þessi ósigur er enginn heimsendir á nokkurn hátt í mínum kolli heldur ástæða til að læra vel inná alls konar hluti sem við þurfum að bæta. Leikmenn sem hafa leikið vel voru líka afar slakir. Toure, Lucas, Gerrard og Sturridge helstir á því blaði og þeir vita alveg af því.

    Vandinn er áfram sá sami að mínu viti þegar við tökum aftur til við að spila með fjögurra manna vörn, hvernig komum við SAS fyrir í því liði auk Coutinho. Það er klárlega okkar besti kostur og hann þurfum við að finna bara sem fyrst, helst í næsta leik gegn Fulham heima.

    Svei mér þá, Wenger gæti bara alveg farið að troða ofaní okkur sem höfum efast um hann. Dagurinn í dag allavega var allavega sá þar sem hann stóðst fyrsta próf vetrarins.

    Upp með hausinn krakkar og áfram!!!

  25. Menn geta ekki komið ósigrinum í dag yfir á Flanagan, skil ekki að menn séu að kvarta yfir leik hans í dag hann var ekki stóra vandamálið í dag. Það veru hinir mennirnir í vörninni sem kostuðu okkur þessi mörkin.

  26. Sælir félagar

    Ég hefi ekki lesið leikskýrslu né kommentin hér fyrir ofan en ætla að tjá mig örstutt um leikinn í dag.

    Í fyrsta lagi; betra liðið vann í dag og ekkert við því að segja.

    Í öðru lagi þá var nánast hver einasti leikmaður LFC að leika undir getu þrátt fyrir vikulanga hvíld.

    Í þriðja lagi er ég ekki sáttur við það að hver einasti leikmaður liðsins okkar skili ekki öllu sem hann á til í svona leik.

    Í fjórða lagi þá nenni ég ekki að tjá mig frekar um leikinn eða einstaka leikmenn en segji eins og er ; ég er ekki sáttur við frammistöðu minna manna í dag hvorki á hliðarlínunni né inni á vellinum.

    Það er nú þannig

    YNWA

  27. Mín skoðun er einfaldlega sú að Lucas og Gerrard mættu ekki í þennan leik, spurning hvort Kapteinninn sé farinn að gefa eftir. Liðið ekki það besta á Englandi þennan laugardaginn. Nú er bara að girða sig í brók, jafntefli hefðu verið góð úrslit fyrir okkur – Tap er enginn heimsendir á þessu tímabili ! og já eitt enn, Móses átti alveg rosalega flotta innkomu 🙂 shit hvað hann var slakur.

  28. Þetta var nokkuð einfalt upplegg hjá Arsenal í dag. Liggja á SAS því þeir eru þeir einu sem skora fyrir Liverpool. Það er mikið áhyggjuefni hjá okkar liði að það koma engin mörk frá miðjunni.

  29. Núna eftir fyrstu tíu leikina er Liverpool með 20 stig. Það gera 2 stig af 3 mögulegum í hverjum leik. Eftir fyrstu tíu leikina í fyrra var Liverpool með 11 stig í 12 sæti, 13 stigum frá toppnum.

    Þetta er ágætt að hafa í huga þó það dragi ekkert úr svekkelsinu yfir því að tapa fyrir Arsenal. Þetta var ágætt tækifæri til að fara á toppinn sem við tókum ekki. Mér fannst Liverpool ekki eins ofboðslega lélegir og flestum hérna og á góðum degi hefðum við sannarlega getað tekið eitthvað úr þessum leik, við fengum alveg færi í dag og vorum mjög óheppnir að markið sem Henderson skoraði í stöðunni 1-0 fékk ekki að standa.

    Wenger fannst mér sjá gjörsamlega við Rodgers í dag samt og þessu leikkerfi okkar sem var endanlega dauðadæmt held ég þegar Jonnson veiktist.

    Það er lykilatriði að hafa bakverði sem geta sótt af viti og hjálpað miðjunni. Wenger hrúgaði bara miðjumönnum fyrir aftan gríðarlega sterkan Giroud og þeir náðu að lágmarka hættuna af Suarez og Sturridge með því að leyfa okkur ekkert að vera með boltann.

    Þeir bræður fengu reyndar alveg færi en áttu gjörsamlega off dag. Ef þeir eru ekki í stuði er ekki mikil von að þetta leikkerfi skili miklu.

    Satt að segja fannst mér stundum svo langt bil á milli miðju og sóknar í fyrri hálfleik að þetta virkaði eins og kick and run á köflum hjá Liverpool. Gegn þessari miðju Arsenal var það of mikið að hafa tvo upp á topp. Á móti virtist vörnin ekki hafa guðmund um hver ætti að gera hvað sem sást mjög vel í fyrra marki Arsenal og reyndar líka seinna markinu.

    Frammistaða leikmanna:

    Mignolet: 6 – Hann virkaði ekki sannfærandi í dag, skilaði boltanum ekki vel í leik, átti nokkur útspörk beint á leikmenn Arsenal. Á móti skrifast þessi mörk ekki á Mignolet og hann varði nokkrum sinnum mjög vel.

    Flanagan: 5,5 – Hann gerði ekkert af sér og barðist vel. Sóknarlega var hann ekki að bæta miklu við en honum til varnar var ekkert gríðarlega mikið úrval af sendingarmöguleikum þegar hann rauk upp.

    Toure: 4 – Versti leikur Kolo Toure fyrir Liverpool. Hann var bara alls ekki í takti í dag og varnarleikur hans í öðru marki Arsenal hroðalegur. Hlóð meira að segja í “Jæja Toure” á twitter.

    Skrtel: 6,5 – Ágætur í dag gegn mjög erfiðum andstæðing. Arsenal komst bara tvisvar almennilega í gegn í þessum leik sem er óvenjulega lítið fyrir þá.

    Sakho: 5,5 – Hann var ekki í góðu sync-i við Cissokho í fyrra marki Arsenal og virkaði smá flækjufótur á köflum í fyrri hálfleik. Stóð sig betur í seinni hálfleik en bætti afskaplega litlu við sóknarlega sem bakvörður í seinni hálfleik.

    Cissokho: 3,5 – Ég er ekki viss um að hann hafi gert nokkurn skapaðan hlut vel í dag og fór réttilega útaf í hálfleik. Segir allt sem segja þarf að þegar stjórinn ákveður að breyta um taktík í hálfleik að það hafi verið Cissokho sem fór útaf, ekki Jon Flanagan. Veikasti hlekkurinn í dag í stöðu sem var alveg crusial fyrir leikkerfið okkar. Gef honum þó það að andstæðingurinn í dag var nokkuð góður.

    Lucas Leiva: 5,5 – Einn af slakari leikjum hans og hann átti í miklu basli gegn ákaflega líflegri miðju Arsenal. Var langt á milli hans og Gerrard og þá virðist stundum vanta kraft. Hann var ekki að koma vel út í sinni dekkninu í fyrra marki Arsenal.

    Gerrard: 5 – Ég hef áhyggjur af Gerrard. Hann var alls ekki góður í dag og áhorfandi á kölfum. Tapaði í baráttunni á miðjunni.

    Henderson: 5 – Hans versti leikur í ár. Náði ekki að spila eins framarlega og þessi staða krefst af honum. Hann skoraði samt gott mark sem hefði átt að standa og eins komst hann í mjög gott færi en það var eins og rafhlaðan á honum hefði klárast þegar hann komst inn á teig.

    Sturridge: 6 – Persónulega hefði ég tekið hann útaf í seinni hálfleik, þétt miðjuna og reynt að komast upp þannig. Hann var ekkert alslæmur í þessum leik en Arsenal náði að loka vel á hann enda oft 2 gegn 5-6 leikmönnum Arsenal. Pressa Liverpool var mjög léleg í dag, það verður oft þannig þegar miðjan er undirmönnuð.

    Suarez: 7 – Okkar líflegasti leikmaður og hann hefði á góðum degi alveg getað klárað þennan leik fyrir okkur, þetta var bara ekki góður dagur.

    Coutinho. 6,5 – Var ógnandi og breytti leik Liverpool til batnaðar, dugði ekki til í dag en það er gjörsamlega frábært að hann sé kominn aftur. Hann verður líklega til þess að Rodgers breytir aftur um leikkerfi.

  30. Sammála Magga við litum betur út í seinni hálfleik og þetta er verkefni í mótun,ekki heimsendir.Týbískt að Sagna nái loksins fyrirgjöf af kantinum og það þurfti að vera þessi leikur .Niðurstaðan er þessi miðjan varð okkur að falli í dag ekki vörnin Áfram Liverpool!

  31. Gaman að sjá sanna púllara hér drulla yfir liðið sitt.
    Þetta er LIVERPOOL og eg stend með þeim hvernig sem gengur.
    Elska þá jafn mikið eins og mína fjölskyldu.
    þú drullar ekki yfir börnin þín þegar þeim gengur illa, settu Liverpool í sama flokk.
    YNWA

  32. Hvar var Kelly í dag? Átti klárlega að byrja í stað Flanagan.

    En annars hef ég aldrei séð Sturridge jafn dapran og í dag, Hann var einfaldlega sorglegur í alla staði og mér fannst Gerrard einnig gera í brók. Okkur vantar klárlega meiri samkeppni í framlínuna og meiri breidd.

  33. Hver er næsti leikur? Ég er hættur að pæla í þessum, við breytum engu með því að nöldra og nöldra, þessi leikur er búinn.

  34. Við töpuðum leiknum á miðjunni og vorum þar í eltingarleik allan leikinn, það er augljóst. Höfum bara ekki þann stöðugleika þar sem þarf til að vera í alvöru toppbaráttu enn. Voru frábærir gegn WBA en hræðilegir strax leikinn eftir. Miðjumennirnir tóku nær engin hlaup án bolta og fengu SAS því litla þjónustu nær allan leikinn.

    Gerrard og Lucas miðjukombóið okkar er bara ekki í topp 3 klassa að mínu mati. Því miður. Annan skortir algerlega leikskilning og hinn er of líkamlega veikur til að geta borðið topplið stöðugt uppi. Þegar við lentum 2-0 undir gafst t.d. fyrirliðinn Gerrard svo bara upp og við sóttum varla eftir það. Bara vitleysa að kenna Flanagan eða Rodgers um þetta tap. Það var hárrétt að rugla ekki of mikið í varnarleikskipulaginu rétt fyrir leik. Menn eru nú alltaf að kalla eftir því að Liverpool eigi að gefa krökkum úr akademíunni séns. Svo þegar það gerist þá hafa menn allt á hornum sér.

    Annars var þetta nú bara 1 leikur af 38. Slökum á. Enska deildin er langhlaup. Alvöru sigurvegarar dvelja ekki of lengi við töp heldur herða sig upp. Vorum ekki að taka gegn meisturunum áðan, Arsenal mun hrynja eins og alltaf í jan-feb. Tökum núna gott rönn til áramóta þegar Coutinho er kominn tilbaka. Svo fáum við liðstyrk í janúarglugganum og verðum töluvert sterkari í seinni hlutanum. Það er auðvinnanlegur leikur næstu helgi gegn Fulham á Anfield og svo alvöru test gegn Everton úti.

    Nú skal herða jarlinn og halda út í storminn… Áfram Liverpool!

  35. Babu segir:
    02.11.2013 kl. 20:31

    Núna eftir fyrstu tíu leikina er Liverpool með 20 stig. Það gera 2
    stig af 3 mögulegum í hverjum leik. Eftir fyrstu tíu leikina í fyrra
    var Liverpool með 11 stig í 12 sæti, 13 stigum frá toppnum.

    Það hlýtur samt að verða að hafa í huga, við hvaða lið er verið að spila í þessum fyrstu tíu leikjum. Ef ég man rétt þá var byrjunarprógrammið mun erfiðara í fyrra heldur en í ár, þ.e. við mættum mun sterkari liðum í fyrstu leikjunum.

    Er hins vegar sammála varðandi það að 2 stig í leik er nokkuð gott – og ef við náum að halda því út tímabilið er ansi líklegt að við endum í topp fjórum.

  36. Leikskýrslan er loksins komin inn. Ég „neyddist“ til að borða grillmat með stórfjölskyldunni og koma dótturinni í háttinn áður en ég gat skýrslað. Það var ágætt svo sem, ég gat komið smá lagi á pælingarnar eftir þennan leik. Þurfti að tjá mig sérstaklega um miðjumennina okkar og leikkerfið, meðal annars.

  37. Algerlega frábær leikskýrsla Kristján Atli og ég tek undir hvert orð þarna.

    Lærdómur er lykilorðið hér. Við töpuðum þessi leik vegna yfirburða þeirra á miðjunni. Gerrard þarf að fá reglulega hvíld og við þurfum að finna nýjan “Superman” á miðjuna, þ.e. fara að undirbúa lífið án Gerrard.

    Ég vil enn og aftur árétta að ég er tiltölulega rólegur þrátt fyrir þetta tap. Það er líka fínt viðtal við BR á heimasíðu klúbbsins og hann viðurkennir bara að þeir töpuðu fyrir beta liði í kvöld. Simple as that. BR er enginn asni og hann veit nákvæmlega að við eigum enn nokkuð í land með að ná þeim stöðugleika sem við erum að sækjast eftir. Þetta var að mínu mati alls ekki versti leikurinn okkar á þessu tímabili. Það mun vissulega reyna á okkar lið á næstu tveimur mánuðum, mjög erfitt prógramm framundan. En ef við vinnum heimaleikina okkar og náum að gera eitt og eitt jafntefli við hin top-liðin á útivelli þá verðum við í góðum málum.

    Fáum okkur einn til tvo bjóra í kvöld og slökum á. Þetta tap í kvöld er enginn heimsendir og ég er enn þeirra skoðunar að liðið sé á réttri leið. Er strax farinn að hlakka til næsta leiks og (bjór)glasið mitt er hálffullt núna………í alvörunni! 🙂

  38. allt liðið lélegt í dag… En það þarf að fá einhvern í að skeina sérstaklega þeim henderson ,gerrard,cissoko,toure og lucas!!! þvílík skita hjá þessum leikmönnum…. Til SKAMMAR!!! ömurlegur leikur takk bless

  39. Nr. 37

    Mikil ósköp, mun erfiðara prógramm á síðasta tímabili og liðið mikið verr undirbúið fyrir tímabilið heldur en núna í ár. Á móti erum við með 2 stig af 3 mögulegum sem er fínt og það hefur ekkert alltaf verið sjálfgefið að klára þessi lið. Af síðustu 38 leikjum hefur Liverpool náð í 70 stig.

    Liverpool er með 4 eða 5 stigum meira núna eftir þessa leiki m.v. sömu leiki í fyrra. Arsenal var að ég held fyrst núna að bæta árangur sinn m.v. sömu leiki í fyrra. Fá 3 stig í dag en fengu bara 1 í fyrra. (ekki 100% viss með þetta samt).

    Annars er ég fullkomlega sammála leikskýrslu og þá sérstaklega pælingum varðandi Gerrard. Mikið meira vit í KAR þegar hann er nýbúinn að borða.

  40. Djöfull. Einhverra hluta vegna vantaði seinni hluta lokapunktsins um Gerrard þannig að ég var að bæta honum við skýrsluna:

    “Hann er ekki Súpermann lengur. Hann er Gary McAllister.”

    Betra svona.

    Annars sé ég á ummælunum að menn gefa Touré og Sakho margir meiri gagnrýni en ég. Touré átti vissulega slæm mistök sem gáfu Giroud næstum mark í seinni hálfleik en annars sá ég lítið að leik hans. Babú segir að Sakho hafi ekki verið í sync-i við Cissokho í fyrra marki Arsenal en þar er ég ósammála; Sakho gerir rétt í að stíga út og reyna að loka á sendinguna frá Ramsey upp kantinn. Cissokho missir þar Sagna upp og eftir eru tveir miðverðir okkar (Skrtel og Touré) gegn Giroud einum frá Arsenal. Sendingin er svo fyrir aftan þá þrjá á Cazorla sem kemur í „seinni bylgjunni“ inn af miðjunni og Lucas, Gerrard og Henderson hvergi nærri. Að ætla að skrifa það mark að einhverju leyti á Sakho er fáránlegt að mínu mati.

    Ég stend við mína skoðun: fyrir utan ein mistök Touré voru miðverðirnir þrír okkar bestu menn í kvöld. Miðjumennirnir okkar skelfilegir og Cissokho versti maður vallarins. Aðrir undir pari en mismikið þó.

    Ég hlakka til að sjá hvaða fljóta miðjumann við kaupum í janúar.

  41. Ekki góður dagur á skrifstofunni. Ég veit ekki hvort er betra, skítabragðið eftir að hafa verið betri og tapað eða eftir að hafa verið yfirspilaður, á köflum, og tapað.

    Skot hér að ofan, sérstaklega allra fyrstu kommentunum rétt eftir leik um Brendan Rodgers og, ennþá óskiljanlegra, Flanno eru fáránleg og dæma sig sjálf. Flanno var, eins og KAR bendir réttilega á, alls ekki veiki punkturinn í okkar liði í dag. Og það er ekki Brendan að kenna að 75%+ okkar manna gátu ekki tekið á móti bolta öðruvísi en að snerting nr. # 2 var tækling. Ég veit allavega ekki um neitt leikkerfi sem gerir ráð fyrir því. Þetta var bara ekki okkar dagur, réðum ekki við pressu Arsenal manna.

    Ummæli #3:

    BR ekki með þetta, og ENGIN leikmaður Liverpool mætti í þennan leik.
    ENGIN ! !

    Flanaghan inn á í staðin fyrir Kelly eða Agger, ég meina come on ! !

    Hvað gerði Flanno rangt í dag ? Hvað hefur þú séð frá miðvörðunum Kelly og Agger s.l. 2 ár sem bendir til þess að þeir hefði gert betur en Flanno í dag. Sem var alls ekki einn af okkar verstu mönnum.

    Ummæli #12

    Looserinn í dag eins og stundum áður var BR. Liðið í 2.sæti
    deildarinnar mætir til leiks með 9 varnarsinnaða menn.

    Þannig að þú ert á þeirri skoðun að okkar lið sé það mikið betra en Arsenal að þetta hafi verið skyldusigur, á útivelli á Emirates gegn toppliðinu ?

    Tólfan heldur áfram:

    Ef stjórinn vill bara spila vörn en enga sókn-þá vinnur liðið ekki
    leiki. Arsenal spilaði ekki vel í dag en MUN betur en Liverpool.Af
    hverju byrja menn eins og Coutinho og Moses á bekknum?? BR er ekki
    sigurvegari og verður það aldrei. Lið þurfa að þora að vinna til þess
    að geta verið með á toppnum.

    1) Brendan bara spila vörn, ekki sókn. Hefur þú búið í helli síðustu 18 mánuði ?

    2) Þar sem þú hefur verið í helli síðustu mánuði þá skal ég svara Coutinho og Moses spurningunni fyrir þig. Liðið spilaði sinn langbesta leik fyrir viku síðan. Sömu menn fengu því traustið áfram, shocking i know. Moses hefur einnig átt slaka síðust 3 leiki (út úr stöðu) og Coutinho var að koma til baka eftir meiðsli.

    3) Brendan er ekki sigurvegari og verður það aldrei. Nei einmitt, það er auðvitað á allra vitorði að Liverpool er með langbesta hópinn. Logi Ólafs gæti gert þá að englandsmeisturum. Rek´ann ! Í alvöru, andaðu áður en þú ælir á lyklaborðið.

    Og aftur, vinur minn í nr. #12

    Kv. einn svekktur.

    Skal laga þetta fyrir þig :

    Kv. einn veruleikafirrtur

    Þetta var nokkurn veginn í samræmi við það sem við höfum átt að venjast á Emirates síðustu ár. Arsenal spilar alltaf eins, þeir þurfa ekki alltaf tæklara eins og Masch eða afturliggjandi miðjumann eins og Lucas, þeir snýta þessum köllum og hlaupa í kringum þá. Þeir eru ávalt með einn striker og þrjá fljótandi þar fyrir aftan, tvo svo sem “hreinrænktaða” miðjumenn. Það gefur því auga leið að þeir eru fljótir að fara úr 3-4 manna sóknarlínu í fimm manna miðju. Þeir voru því oft 5v3 í dag, sérstaklega erfitt ef þú ert ekki með topp topp klassa vængbakverði sem eru í leikformi og ráða við öll þessi hlaup og allt þetta svæði.

    Cissokho. Ég veit það ekki, ég gagnrýndi hann eftir WBA leikinn. Hann gerði lítið til að sannfæra mig í dag, þvert á móti. Held að gagnrýnendur Enrique geti verið nægilega miklir menn til að viðurkenna að við söknuðum hans í dag, jafn mikið ef ekki meira en við söknuðum Glen Johnson.

    Það var ekki margt jákvætt í þessum leik. Það versta við þetta, og sem fór hvað mest í taugarnar á mér var andleysi okkar miðjumanna. Man sérstaklega eftir einu atviki í fyrri hálfleik þegar Lucas missti boltann aftarlega á miðjunni, það tók hann tvær sec í að ákveða að nenna hlaupinu til baka, sem hann gerði svo á hálfum hraða. Með 3-4 Arsenal menn fyrir framan sig hlaupandi á vörnina.

    Tek undir allt sem KAR segir um Gerrard í sinni skýrslu og þá stöðu sem hann og klúbburinn er í dag. En ég ítreka líka það sem ég sagði í byrjun tímabils, og þetta er ekki sett fram í pirringi eftir leik, þetta er stórt stórt tímabil hjá Lucas einnig. Eins mikið álit og ég hef nú á honum, þá er alls ekki útséð með að við fáum að sjá þann leikmann aftur og við sáum undir stjórn Kenny. Við þurfum að fá hann til baka og Allen þarf að stíga upp.

    Annars er lítið við þessu að segja, ég bjóst við tapi. Tap varð niðurstaðan. Óþarfi að velta sér uppúr því mikið lengur. Fjórða sætið kemur ekki til með að ráðast á nóvemberkvöldi á Emirates. Þrjú stig gegn Fulham, takk.

  42. Virkilega flott skýrsla. Ekki oft sem ég er svona sammála. Það má ekki taka af Arsenal að þeir eru að spila vel. Flanagan þarf að læra þetta wingback hlutverk betur, annars var hann að skila ágætis vinnu. Einn leikur tapaður en nóg eftir af mótinu ennþá.
    YNWA!

  43. Þetta tap er nú enginn heimsendir fyrir mér. Liverpool tapaði gegn miklu mun betra liði í dag. Fyrstu 11 hjá Arsenal eru einfaldlega betri en fyrstu 11 hjá Liverpool.

    Fyrir mér er þetta einfalt dæmi. Liverpool þarf að ná í 10 stig úr hverjum 5 leikjum sem þeir spila á tímabilinu. Það gera 70 stig úr 35 leikjum og þá eiga þeir 3 leiki inni til að gera betur en þessi 70 stig. Að meðaltali hefur þessi stigafjöldi dugað til 4. sætis(gleymum toppbaráttu og byrjum á byrjuninni sem er að komast í meistaradeild!) undanfarin 5 ár og ég býst ekki við neinu öðru á þessu tímabili.

    Liverpool eru núna komnir með 20 stig eftir 10 leiki svo þeir eru að ná þessum stigum sem ég tala um.

    Næstu leikir eru:
    Fulham heima
    Everton úti
    Hull úti
    Norwich heima
    West Ham heima

    10 stig úr þessum leikjum og þá verð ég sáttur við fyrstu 15 leiki tímabilsins þrátt fyrir tap í dag! 🙂

  44. Hætta að spila þetta helv… kerfi strax.. Skil ekki þetta bull í Brendan!
    Hann verður að fara að spila 4-3-3 og hætta þessu bulli.. Þetta bitnar bara á miðjunni okkar þetta helv kerfi sem hann er að spila með liðið núna og við megum ekki við því… Það er vel hægt að hafa, sturridge, Suarez, Courinho og Gerrard í liðinu í 4-3-3…. Vona að ég sjái það kerfi í næsta leik

  45. Sælir félagar

    Þá er runnið af manni ergelsið eftir leikinn og maður farinn að sjá hlutina af meira raunsæi. Annars vara erindið núna fyrst og fremst að þakka fyrir alveg frábæra leikskýrslu.

    Það er nú þannig

    YNWA

  46. Í fyrsta lagi alveg rólegir strákar!
    Hérna eru þrjár hugleiðingar varðandi leikinn:

    1. Liverpool var að spila við topplið deildarinnar á útivelli, þeir áttu virkilega góðan dag og Wengar vann taktísku baráttuna í þetta skiptið. Wenger er nú enginn nýliði í bransanum og því alveg hægt að fyrirgefa Rogers að ná ekki að hafa yfirhöndina í þetta skiptið.

    2. 3-5-2 kerfið krefst gríðarlega mikils af bakvörðunum því þeir þurfa bæði að skila miklvægu sóknarhlutverki til að bæta upp fyrir að hafa ekki vængmenn og einnig að skila varnarhlutverki. Flanagan og Cissoko skiluðu einfaldlega engu sóknarlega og Cissoko var einnig slakur varnarlega. Þegar Rogers ekki eru betri valkostir til staðar gengur 3-5.2 kerfið einfaldlega ekki nógu vel. Johnson og Enrique eru einfaldlega miklu betri kostir og þegar þeir eru ekki til staðar, sérstaklega þegar báða vantar ætti ekki að spila þetta kerfi. Rogers vissi hins ekki af því að Johnson myndi veikjast rétt fyrir leik og hann er ennþá að komast að því hvað Cissoko getur og því verður að sýna því skilning.

    3. Gerrard er of hægur fyrir eins hraða og góða miðjumenn og Arsenal hefur en það þýðir samt alls ekki að hans tími sé liðinn. Hann er gríðarlega mikilvægur og jafnvel þó að hann sé aðeins hægari þá bætir hann ennþá oftast upp fyrir það með öðrum kostum. Hins vegar væri frábært að hafa einhvern nógu góðan til þess að leysa hann af. Will Huges hjá Derby er gríðarlega spennandi kostur og það væri frábært að kaupa hann í janúar og leyfa honum að læra af Gerrard (idolinu hans) og taka svo smátt og smátt við af honum.

    En það er enginn ástæða til að fara á taugum og missa sig yfir einum leik. í næsta leik getur Rogers líklega byrjað með Coutinho, Enrique og Johnson og getur því í fyrsta skiptið byrjað með sitt sterkasta lið og því enginn ástæða til annars en að vera bjartsýnn 🙂

  47. Flott skýrsla KAR.

    En þú planar ekkert að fá nýjan Gerrard, maðurinn er annar tveggja bestu í sögu LFC og við skulum ekki láta okkur dreyma um að fá annan svona mann á næstu 10 – 15 árunum. En vissulega þarf að fara að minnka á honum álagið.

    Hins vegar er 3-5-2 leikkerfi ekki leikkerfi miðjumannsins og við skulum dæma þetta betur eftir næstu 5 leiki, er sannfærður um það að við sjáum nú aðra útfærslu og vera bara að vera róleg líka þegar kemur að leikmönnunum, þeir eru enn að læra með Brendan og FSG. Allir held ég bara…

    Gerrard verður í lykilhlutverki hjá okkur í vetur og með Englandi á HM. Svo sjáum við til næsta haust hvort að Coutinho verður ekki sá sem teikna á mest upp í sókninni, en hann verður auðvitað enginn Gerrard. Kannski þurfum við að kaupa okkur einn góðan M-C leikmann til að hleypa Brazzanum lausum.

    En den tid den sorg, skýrslan er með þetta allt saman…

  48. Sælir. Óþarfi að sökkva sér í þunglyndi yfir þessu, Arsenal skoruðu fyrsta markið og stjórnuðu leiknum eftir það, erfitt að snúa leik við þar sem við erum marki undir og undirmannaðir á miðjunni. Svo verð ég nú að gera athugasemdir við þennan samanburð hjá þér Kristján. Mundiru ekki skipta á neinum miðverði í Liverpool fyrir neinn hjá Arsenal? Koscielny er að snýta framherja eftir framherja þessa dagana og Bayern vildu fá hann í sumar, ég efast ekki um að hann yrði miðvörður númer 1 hjá Liverpool en svo er annað mál með stóra Þjóðverjann hann er góður liðsmaður í ákveðnu leikkerfi en alls ekki í hvaða leikkerfi sem er.

    Svo held ég að Giroud sé eðlilega verra sóknarpar en SAS en það er afþví hann er einn en þeir tveir. Saman upp á topp, SAS og Giroud yrði stórhættuleg þriggja manna framlína og ég held að það sé erfitt að bera saman stóran og sterkan framherja við gullmolana okkar.

  49. Flott skýrsla hjá KAR.

    Eina sem ég vil bæta við þetta er hversu ánægður ég var að sjá aftur sendingagetuna hjá Coutinho, hann er baneitraður þó svo að það hafi ekki skilað tilsettum árangri í dag.

  50. Enska pressan hlýtur að kalla sóknarparið okkar S.O.S. eftir þennan leik, aleinir og leitandi eftir aðstoð….

  51. Geri orð Siguróla vinar míns að mínum vinnum ekki rsenal með Henderson á Lucas á miðjunni. það kom á daginn þeir eru ekki í Liverpoolklassa leikurinn tapaðist á miðjunni

  52. Það er því miður svo að það er sama hvaða leikkerfi stjórinn stillir upp ef að hausinn er ekki rétt skrúfaður á leikmenn. Trekk í trekk klúðruðu menn stuttum og oft á tíðum einföldum sendingum, fóru ekki af neinum krafti í tæklingar og voru bara á eftir í öllum aðgerðum. Ef menn eru ekki tilbúnir til að berjast í svona leik að þá er hann (nema með mikilli heppni) alltaf dæmdur til að tapast.

    Reyndar væri líka fínt að fara sjá mann taka hornspyrnur frá vinstri sem drífa yfir fyrsta varnarmann, Coutinho var ekki alveg að meika það þar.

  53. Gerrard annar tveggja bestu í sögu Liverpool? 😀

    Er þetta ekki alveg örugglega grín Maggi?

  54. Held að Rodgers ætti kannski aðeins að minnka ljósabekkjarferðir sínar sem virðast hafa færst töluvert í aukana á þessu tímabili.

  55. Ferlegur dagur á skrifstofunni en eins og einhver sagði í síðustu viku þá segir þessi leikur ekki alla söguna um gang liðsins í vetur heldur miklu frekur þessir fyrstu 10 leikir og er sá árangur bara vel ásættanlegur.

    Ég tek undir leikskýrsluna og það var alveg ljóst að miðjan okkar átti aldrei roð við yfirmannaða miðju Ars. Í mínum huga er Henderson hörku leikmaður sem ég vil alla jafna sjá í hóp sem oftast en það er ekki hægt að horfa framhjá því að frammávið hefur hann verið klaufskur og ekki nýtt sín færi. Þegar við sjáum bæði Lucas og Gerrard vera passíva og ekki mikið að hafa sig í frammi sóknarlega þá verður tilfinnanlega mikil pressa á sóknardúettinn okkar og þeir einfaldlega munu ekki geta höndlað þá pressu alla leikdaga.

    Á góðum degi hefði Coutinho akkúrat verið vopnið sem við þurftum en það féll ekki í dag fyrir hann. Ég áfellist ekki BR fyrir leikskipulag enda spilaði hann fleiri en eina taktík og hvorugt virkaði. Hann skýrði ákv sína varðandi Flanagan og sú ákvörðun átti við fín rök að styðjast hvort sem menn eru sammála henni eður ei. Liðið virtist einhvern vegin aldrei eiga break sem er vissulega svekkjandi því þetta var nokkurn veginn okkar sterkasti hópur.

    Án þess að búast við einhverjum stórkostlegum breytingum fyrir næsta leik þá væri samt gaman að sá smá róteringu á miðjumönnunum. Helst eru það allen og alberto sem gætu komið inn. Þrátt fyrir að Gerrard og Lucas séu hörkuleikmenn þá er ekki sjálfgefið að þeir eigi að leika alla leiki.

    Einhvern veginn fannst mér samt bara ars liðið eiga þetta meira skilið í dag því miður. Ég er mun svekktari yfir hinum töpuðu stigunum í deildinni. Við áttum held ég ekki mikið skilið út úr þessum leik.

  56. Betra liðið vann í dag. Það er bara þannig og alls ekkeret hægt að kenna Flanagan um það neitt.

    En getur einhver sagt mér hvað var málið með þessa “sendingu” hjá Sturridge þvert yfir völlinn og að því er virtist í áttina að Rodgers? Var svo sýndur í mynd næstu 10 sek á eftir eða svo með manndrápssvip á andlitinu? Þetta var svona ca á 85 min.

  57. Outsmarted, outplayed and outrunned!! Það var á köflum átakanlegt að horfa á miðjusnillinga Arsenal yfirspila okkar menn í dag! Betra liðið vann í dag!
    YNWA

  58. Auðvita kom að því að við mundum tapa leik og þá erum við búnir að því og bara bjart framundan, eða þannig. 🙂

  59. þvi miður vinnum við ekkert með þessa midju henderson ekki nogu góður þvi midur og lucas getur ekkert og hefur aldrei , gerrad er of gamall. verðum að fá nyja menn inn

  60. Æi Magnús, hallo við töðuðum í gær og þá er flestir ónýtir að þínu áliti . ef við hefðum unnið og markið sem viðskoruðum sem var löglegt þá væri Gerrard og allir hinir frábærir en það var ekki þessi dagur hjá Liv í gær og við erum í 2-3 sæti og hættum að væla , þetta er bara sæla.
    +

  61. Sælt veri fólkið. Þetta fór á annan veg en ég hafði ætlað. Spáði 0-3 og hélt að Henderson myndi skora fyrsta markið áður en SAS fengi sín tvö.

    Spá mín var þó ekki svo galin. Drengurinn Henderson óð snemma í leiknum inn í vítateig andstæðinganna og þeir viku hver af öðrum til hliðar. Ekki var það þó vegna skriðþunga hans og kappsemi heldur þeirrar vissu að hann myndi aldrei þora að hlaða í ærlegt skot. Svo er hann stóð eins og Móse á botni Rauðhafsins þurfti hann ekki annað en að láta vaða. Hvað gerðist? Hann puðraði boltanum laflaust framhjá. Skammarlegt.

    Síðar í leiknum var sá pólski í markinu jafnan kominn fjóra metra út þegar Henderson hugðist senda fyrir. Ein gabbhreyfing og hann hefði getað þrumað beint á nærstöngina. Nei, ragmennska hans er jafn áreiðanleg og úrverkið á Big Ben.

    Er ekki hægt að skipta þessu merarhjarta út fyrir eitthvað haldbetra? Hvað á það að taka langan tíma að breyta þessu vinnudýri í ærlegan fótboltamann?

    Auðvitað er sárt að hugsa til þess að fullkomlega löglegt mark skyldi af honum dæmt þegar dómarinn stöðvaði leik og spjaldaði Sagna.

    Ljósið í myrkrinu var innkoma Kútínjós sem hleypti nýju lífi í leikinn. Einnig Skörtel sem átti stórleik og Mignolett vann sannarlega fyrir laununum sínum.

    Sárt að horfa upp á andstæðinginn spila samkvæmt formúlu BR – posession, patience, pressure, penetration. Við höfðum ekkert af þessu, nema það síðasta á köflum, eins og fram hefur komið. En úr því varð minna en ekki neitt.

  62. Nei Gunni, ekkert djók.

    Get ekki gert upp á milli Gerrard og Dalglish. Enn svekktur að hafa tapað leiknum en er samt líka enn á því að mjög margt lærðum við sem mun nýtast í þeirri baráttu sem við ætlum að heyja í vetur.

    Skulum ekki detta oní gröf að úthrópa leikmenn okkar, held að það ætti ekki að verða okkar háttur elskurnar…ef við höldum því stiga-recordi sem er í gangi núna þá verðum við á miklu betri stað en við höfum verið síðustu ár.

  63. Já þetta var sannarlega fúlt tap. Ég held að flest hafi verið sagt hér að ofan og í skýrslunni. Leikurinn tapaðist fyrst og fremst á miðjunni. Það var líka ákveðinn vendipunktur þegar annars mjög góður dómari leiksins stöðvaði að því er virtist dauðafæri okkar manna til að gefa Sagna gult spjald. Kannski að Maggi geti frætt okkur um réttmæti þeirrar ákvörðunar. Er hægt að gefa gult eftir næsta “phase of play” þegar boltinn er úr umferð?

    Að því sögðu þá þýðir ekkert að blammera Lucas, Gerrard og Henderson. Þeir hafa yfirleitt spilað vel í vetur, voru verulega undirmannaðir í gær, voru þannig séð að spila þrír gegn fimm miðjumönnum Arsenal, sem spiluðu nánast allir sentralt megnið af leiknum þótt Rosicky hafi stundum dregið sig út í kant. Það opinberaðist í báðum mörkunum því í fyrra markinu fylgdi enginn Cazorla koma úr djúpinu og í seinna markinu var enginn þeirra nálægt Ramsey.

    Það breytir þó ekki því að núna eru tvær stöður sem þarf sérstaklega að stoppa í. Það er miðjan, fá flinkan miðjumann inn, líka til að setja þrýsting og samkeppni á Gerrard, Lucas og Henderson. Það verður að segjast eins og er að þeir þrír virka sem óttalegir tréhestar við hliðina á miðjumönnum Arsenal.

    Það er líka rétt sem kemur fram hér að ofan að Liverpool þarf núna að byrja að huga að lífinu eftir Gerrard. Ég veit svosem ekki hver verður í því hlutverki að taka við af honum. Henderson er líklegur til þess, hann er enn mjög ungur og á eftir að taka miklum framförum og bæta gæðum í sinn leik, sérstaklega upp við og inni í vítateig andstæðinganna. Hann er kandídat í það. Við þurfum engu að síður að kaupa nýjan miðjumann sem getur látið boltann ganga í einni snertingu en sem getur líka varist vel. Slíkur miðjumaður er ekkert úti um allt.

    Arsenal átti þennan sigur skilinn, óska þeim til hamingju með það. Nú hefur pakkinn á eftir þeim þést nokkuð með sigrum Manchesterliðanna og töpum hjá liðunum í 2-3 sæti. Arsenal mun misstíga sig eins og vanalega þegar veðrið fer að versna. Vonandi náum við að halda okkur þarna í topp 4 amk. út þennan mánuð, helst sem lengst inn í desember.

  64. Það er ekkert að hjá okkur og miðjan var kannski ekki að mata framherja eins og ætlast er til en tilhvers er miðja andstæðinga, jú til að tækla okkar miðju og þeir í Liv eiga eftir að skoða það en engin talar um markið sem við skoruðum sem var löglegt,, Held ég að Suarez hafi tekið og Henderson skoraði úr en dómarinn var ekki búinn að tala um flautið hjá sér, en kannski er ég ekki að fara með rétt mál

  65. Finnst liðið okkar ekki vera með neina lélega leikmenn en það vantar ennþá upp á samæfinguna sérstaklega hjá Cissokho og Sakho. Við höfum verið að fá á okkur mörk vinstra megin og það finnst mér Brendan þurfi að laga (ef hann getur).

  66. Lucas Leiva virtist vera á góðri leið með að þróast upp í sterkan leikmann á sínum tíma, en sú þróun hélt ekki áfram eftir slæm meiðsli tímabilið 2011-2012. Hann er ekki sami leikmaður og hann var, og þó var geta hans umdeilanleg meðal fjölmargra Liverpoolaðdáenda þegar hann var upp á sitt besta. Í dag á hann ekki séns í bestu miðjumennina í PL. Hann les leikinn illa og virkar hægur og þreyttur. Við verðum að fá nýjan mann inn í þessa stöðu strax í janúar. Joe Allen hefur verið lítið skárri, en ég er þó á því að það eigi að gefa honum nokkra leiki núna. Hann verður varla verri en Lucas. Allen á að fá sinn lokaséns núna, og ef hann nær ekki að rífa sig upp þá eigum við að selja hann strax í janúar.

  67. Sælir félagar

    Mér er ómögulegt að skilja það sem verið er að segja um Henderson og Lucas og reyndar einnig Flannagan. Þó Hendo hafi klúðrað upplögðu færi var hann einn skásti leikmaður LFC í þessum leik. Lucas hefur átt betri dag en leikur hans í síðasta leik þar á undan sýnir hvað hann getur. Flanno kallinn gerði ekkert af sér enda komu mörkin ekki í gegnum mistök hans.

    Miðjan var undirmönnuð og allan leikinn undir áföllum þó breytingar í leikhléi hafi bææt þar nokkuð úr.

    Það er nú þannig

    YNWA

  68. Mæli með þessum pistli: http://www.thisisanfield.com/2013/11/reality-checks-top-4-hopes-man-team-mirror/
    Smá tilvitnun:
    The Top 4 is still well and truly in Liverpool’s reach. The matches against the other contenders may seem to matter, but consider this. In that dramatic title chase in 2008-09, the Mancs lost to Liverpool twice. They took 5 points off teams 2nd-4th, Liverpool took 14. They took 11 points off teams in 5th-7th, Liverpool took 12. The important difference? The rest of the league. Liverpool took 60 points off teams 7th-20th; the Mancs got 74 against the teams you’d expect them to beat. THAT won them the league. I’ll bet they’d willingly lose 4-1 at Old Trafford every season if they kept taking 74 points off the bottom 14 sides.”

  69. Athyglisverð ummæli um Gerrard í leiksskýrslunni – og reyndar hér í ummælum einnig. Tek fram, að ég hef ekki séð leikinn, þannig ég ætla ekkert að fjalla um frammistöðuna.

    Hins vegar vil ég benda KAR á eitt. Þegar hann segir þetta…

    Þegar Paul Scholes og Frank Lampard voru 34 ára voru þeir báðir búnir
    að missa reglulegt byrjunarsæti sitt í liðum United og Chelsea,
    þjálfararnir farnir að spara þá og nota meira eftir þörfum sökum
    aldurs. Það skýtur því aðeins skökku við þegar maður sér Steven
    Gerrard, á 34. aldursári, leika hverja einustu mínútu fyrir Liverpool
    í deildinni.

    … þá er KAR greinilega að gleyma því, að Gerrard var, er og hefur alltaf verið svona 4x betri leikmaður en bæði Lampard og Scholes. Þú berð ekkert saman epli og sítrónur 🙂

    Og sanniði til, Stevie á vafalítið eftir að stinga allhressilega upp í ykkur á komandi vikum og mánuðum!

    Aldrei, aldrei, aldrei afskrifa fyrirliða okkar. Hann átti greinilega einn lélegan leik. Og hvað? Hann hefur oft átt “einn” lélegan leik, og svo 10 aðra þar sem hann ber af í gæðum. Og ég endurtek mig bara, hann á eftir að sýna okkur að hann er laaaaaaangt frá því að vera eitthvað búinn á því.

    Homer

  70. Fann þetta um hvenær þarf að bíða eftir að dómarinn flauti til að taka aukaspyrnu. Miðað við þetta þá var það út í hött af dómaranum að láta endurtaka aukaspyrnuna sem Suarez fékk.

    Graham Poll
    Premiership referee

    First you have to deal with the principle of a free-kick.

    If the attacking team are fouled then it is they who hold the advantage.

    With a free-kick around the penalty area, we always ask the players whether they want it quick or slow.

    This is their window of opportunity to surprise the defence.

    Thierry Henry scores in a 2-0 win over Aston Villa last January
    Henry scored the same way against Villa last season
    If they want it quick, then they have given up the right to re-take it, no matter if it hits a defender who's three yards away.

    The same goes if they kick it over the bar. They only get one chance.

    The flip side is if they want it slow, they can't then take it while I count out the ten yards for the wall.

    They must wait for my whistle.

    There is nothing in the laws of the game that say we have to indicate for the free-kick to be taken.

    It's just like when someone wants to take a free-kick anywhere else on the field.

    As long as the ball is stationary and in the right place then the attacking team can take it as quickly as they like.

    http://news.bbc.co.uk/sportacademy/hi/sa/football/features/newsid_3409000/3409567.stm

  71. Leikurinn var vægast sagt mikil vonbrigði, eftir 90 flottar mín gegn West Brom. Hins vegar finnst mér sérstakt að afskrifa Gerrard og Lucas sem báðir áttu góðan leik í síðustu umferð.

    Ég er nokkuð viss um að viðbrögð manna við að sjá Gerrard á bekknum í gær, hefði verið svipuð og að sjá Flanagan í byrjunarliðinu.

    Vissulega þarf að kaupa öfluga miðjumenn í janúar og hef ég fulla trú á að BR muni gera það.

    Ég er viss um að Gerrard eigi eftir að sanna að hann eigi fullt erindi í liðið á þessari leiktíð, en vissulega má gagngrýna kallinn, sem átti slæman leik í gær. Ég held að hann hafi ekkert verið sáttur með spilamennsku sína né liðsins, þegar hann lagðist á koddann í gær. En þetta var tap en alls enginn heimsendir.

    “Impossible is nothing”

    YNWA!

  72. Jæja, það fór sem fór. Fátt við því að segja að tapa fyrir Arsenal á Emirates, water under the bridge.

    Næstu fimm leikir eru allir saman afskaplega winable, Everto leikurinn auðvitað sýnu erfiðastur. Okkur hefur þó gengið fjári vel undanfarin ár gegn þeim óþvegnu þannig að ég er nokkuð viss um að við lendum allavega einu stigi. Varðandi þessa fimm leiki, ég get ekki fyrir mitt litla líf séð annað en að við fáum 11-13 stig úr þeim. Þrír heimaleikir gegn slökum liðum Fulham, Norwich og West Ham og síðan útileikir gegn Hull og Everton. Þetta verða annaðvort 3 sigrar og tvö jafntefli eða fjórir sigrar og jafntefli. Garanterað.. 😀

    Þar sem ég hef rétt fyrir mér þá setur þetta okkur í 31 til 33 stig eftir 15 leiki sem eru þá ríflega 2 stig í leik að meðaltali. Í kjölfarið koma svo auðvitað leikir sem munu reyna verulega á gegn Tottenham úti, síðan “léttur” heimaleikur gegn Cardiff og svo er það auðvitað jólavesenið, útileikir gegn City og Chelsea. Það er þarna sem við fáum að vita úr hverju liðið okkar er gert, ég vonna innilega að þeir séu ekki gerðir úr kalkúkafyllingu því að þá er voðinn vís.

  73. Er alls ekki að missa mig yfir þessu tapi, Arsenal er einfaldlega með betra lið á þessum tímapunkti.. Fannst Flanno standa sig vel en sama get ég ekkí sagt um cissoko. Hans stærsti galli er að hann er einfaldlega lélegur, og ég spái því að það verði langt þangað til við sjáum hann aftur í rauðu treyjunni, jafnvel aldrei aftur. Skulum heldur ekki gleyma að Johnson er gríðarlega mikilvægur og hans var saknað og Cautinho ekki í leikformi. Við erum í vandamálum meðan við erum ekki með góða bakverði og meðan Enrique er frá vil ég að Agger spili stöðuna, hvort sem við spilum með wing baks eða ekki. Áðurnefndur Cissoko má fara heim, hann er verri en enginn.

    Við munum læra af þessum leik og enginn meira en Brendan, tippa á 4-3-1-2 kerfi í næsta leik, Agger og Allen inn, Cautinho í holunni, Cissoko ekki í hóp, Toure og Henderson/Lucas á bekknum.

    YNWA

  74. sælir bræður,
    1.Rodgers….þú spilar ekki 3-5-2, með Cissokho og Flanagan …gjörsamlega glórulaust
    2. miðja með takmarkaða, meðalmennsku fótboltamenn ( fáránlegir á síðasta þriðjung) Lucas og Henderson
    3. Gerard okkar langbesti miðjumaður………miðað við þennan leik, þá er eitthvað að ?
    4. enn einu sinni erum við að kaupa meðalmennsku….alberto,aspas, cissokho,sakho,allen,borini (Arsenal keypti Özil)
    5. Kelly, Wisdom og Flanagan….eru í besta falli, fínir án bolta
    6.liðið í gær, hefði átt að vera: 4-4-2
    Mignolet
    Henderson Toure Agger Cissokho
    Lucas Allen
    Gerrard
    coutinho suarez sturridge
    Eina staðan hans Henderson er hægri bakvörður
    Cissokho bara vegna þess að Enrique er meiddur……..
    verðum að hætta að kaupa magn og einbeita okkur að gæðum,alberto,aspas,sakho og cissoko hvað kostuðu þeir ?
    henderson, allen og borini, hvað kostuðu þeir?
    tvenn frábær kaup hjá Brendan eru Sturidge og Coutinho….

    Liverpool,verður aldrei á meðal þeirra bestu á Englandi með miðjumenn eins og Lucas og Henderson…hef sagt þetta í 3-4. ár, við verðum að opna augun(sérstaklega Brendan) horfðu fram í tímann, Gerrard er að verða búinn,þá eigum við Lucas og Henderson……assist 0-2 á tímabili, mörk 0-2 á tímabili!!!! svo tökum við Wilshere og Ramsey hjá Arsenal…..hvort vilið þið? þeir sem velja fyrri kostinn, sættið ykkur þá við 7-10 sæti ár eftir ár….average miðja kallar á average árangur

  75. Að sjá Barry spila með Everton í leiknum núna, þvílíkur leikmaður, Everton eru með mjög sterkt lið.

  76. Færin okkar í gær komu úr klafsi en ekki góðu spili og Liverpool reyndi of mikið á einstaklingsframtök. Það sem Arsenal hefur framyfir okkur er að þeir eru með miðjumenn sem geta skorað.

    Gerrard er búinn að spila hverja einustu mínútu á tímabilinu. Það sést langar leiðir að hann hefur ekki lappirnar í þetta lengur, enda komust leikmenn Arsenal of auðveldlega bakvið miðjuna okkar. Munurinn á liðunum er sá að Arsenal er með slappa vörn en það góða miðju til að skýla hana. Liverpool hefur góða vörn en of slappa miðju til að skýla vörninni. Lucas var svipaður og Gerrard, hvar var hann í marki Ramsey og þegar Cazorla skoraði? Það var enginn að elta þessa leikmenn.

    Sáuð það í leiknum í gær að Arsenal spilaði ekki með neinn varnarsinnaðann miðjumann en náðu samt að yfirspila okkur á miðjunni. Ég styð Rodgers og finnst hann gera margt gott, enda erum við í 2. sæti. Ég vona hinsvegar að hann taki hausinn á sér útúr rassgatinu á Gerrard og hvíli hann í næsta leik.

  77. Vissulega vonbrigði hvernig þessi leikur fór. Margt til í þeirri gagnrýni sem kemur fram á liðið þó mér finnist margir missa sig full langt í neikvæðninni. Arsenal virkuðu einfaldlega mjög flottir og eru til alls líklegir í vetur. Ég skrifaði fyrir leikinn að þeir væru slakari en Che og City en hef efasemdir um þau orð í dag.

  78. http://espnfc.com/blog/_/name/liverpool/id/1891?cc=5739

    Algerlega frábær grein skrifuð af David Usher, skyldulesning! Við eigum auðvitað að anda með nefinu og hafa í huga að við vorum að spila á útivelli á móti heitasta liðinu í deildinni um þessar mundir. Einn sigurleikur í síðustu 10 leikjum okkar á Emirates segir sína sögu. Ekkert stórslys hér. Hann bendir réttilega á að þó að SAS og miðjumenn okkar hafi ekki náð sér á strik þá áttum við þónokkuð af færum í leiknum og með smáheppni hefðum við getað fengið eitthvað út úr honum. Hvernig hefði þessi leikur farið ef SAS og miðjumenn okkar hefðu náð sér á strik?

    Hann bendir líka réttilega á að leikur þessara liða á Anfield eftir áramótin verði mun mikilvægari leikur fyrir okkur.

    Ég er einfaldlega ekki sammála þessum sleggjudómum margra “stuðningsmanna” hérna inni að þessi leikur hafi afhjúpað hversu breitt bilið er á milli okkar og Arsenal.

    En endilega lesið þessa grein. Hún er mjög góð.

  79. Fyrir mér var fyrsta alvöru prófraun Liverpool á tímabilinu leikurinn við W.B.A, það var gríðalega mikilvægt að vinna þann leik til að geta mætt Arsenal á Emirates aðeins 2 stigum á eftir þeim. Liverpool rúllaði upp W.B.A eins og allir vita og persónulega var ég nokkuð slakur fyrir Arsenal leikinn. 0-2 er ásættanlegt, þetta var engin niðurlæging. Arsenal er bara með hörku lið sem ég spái að nái meistaradeildarsæti í ár.

    Úrslit Liverpool eru eftir bókinni þetta tímabil. Við höfum unnið liðin sem verða í neðri hluta deildarinnar. Tapað nokkrum stigum móti liðum sem eru að keppa við okkur um evrópusæti, sem er eðlilegt. Plúsinn er Man Utd leikurinn og þess vegna erum við í 3 sæti með 20 stig.

    Ég er sáttur með Rodgers, tel það ennþá kraftaverk ef hann nær Meistaradeild með þetta lið á þessu tímabili.

    Næsti leikur er á heimavelli gegn Fulham, það er leikur sem verður að vinnast. Liðið verður bara að halda áfram að spila sinn bolta og þá á sá leikur að vinnast og Liverpool fer í 23 stig, sem væri skratti gott.

  80. Segi það núna, að ef Sendaros verður í vörn Fulham í næsta leik vinnur Liverpool þann leik 8-0.

  81. Stærsta vandamálið er að við verjumst svo aftarlega og erum allveg hættir að pressa á boltann. Um leið og Arsenal kom inná okkar vallarhelming voru hafsentarnir komnir á Vítateigslínuna og miðjumennirnir okkar þar nokkrum metrum fyrir framan. Miðjumenn Arsenal fá bara að vera með boltann á okkar vallarhelmimng án þess að við förum í þá. Miðjumenn okkar hlaupa að boltamanninum hjá Arsenal en stoppa bara síðan fyrir framan hann og gera ekki neitt. Staðinn fyrir að fara í manninn og reyna að taka af honum boltann.
    Það sínir kannski stöðu Allen í hópnum í dag að þegar miðjumenn okkar geta ekkert í þessum leik þá fær hann ekki séns á að koma inná.
    Mér finnst við bara vera alltof varkáir og spila alltof aftarlega og allveg hættir að pressa framarlega og ég hef miklar áhyggjur af því. Ég held að stærsti sénsinn á því að ná í meistarardeildarsæti felist í því að vera hugrakur og sækja á lið, pressa hátt.
    YNWA.

  82. Hörð gagrína í okkur hér á þessu þræði.

    finnst þetta yfir það heila hafa verið sangjarnt, liverpool var ekkert að spila illa, arsenal var bara að spila verulega vel, síðan í stöðunni 1 0 var tekið af okkur löglegt mark, það hefði sjáfsagt breytt leiknum ef það hefði staðið.

  83. Vorum teknir í nefið!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

    ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!!!!!

  84. Jæja þar fóru næstu 3 leikir í súginn. Ætla menn ekki að læra að hætta að vera með yfirlýsingar utanvallar og drulla á sig innanvallar, í staðin fyrir að steinþeigja bara og láta árangurinn á vellinum svara svona spurningum.

    Liverpool getur orðið meistari

  85. Ég var bjartsýnn fyrir leikinn og varð fyrir vonbrigðum með nokkur atriði í þessum leik. Eins og skýrsluhöfundur sem og fleiri benda réttilega á að þá tapaðist baráttan á miðjunni, því miður. Ég er algjörlega fullviss um að þetta verði okkur til tekna til framtíðar. BR og co. munu læra af þessu og svo er annar vinkill en hann er sá að við erum ekki ennþá komnir með okkar sterkasta lið. Það vantaði Glen og Enrique ásamt því að Coutinho er að koma til baka. Svo eigum við Allen inni eftir meiðslasögu sína.

    Við áttum nokkur góð færi í þessum leik og allir hljóta að taka undir það að ef 1-2 af þeim hefðu nýst þá hefði verið annar leikur í gangi fyrir okkar menn. Það er nú ekki á hverjum degi sem liðið okkar skorar ekki og verður örugglega ekki oft á þessari leiktíð.

    Það sem mér fannst hvað mest svekkjandi við mörkin tvö var að við gátum hæglega komið í veg fyrir þau en það var eins og það vantaði gredduna í boltann, skil það reyndar ekki en spánverjinn hjá arsanal var drulluheppinn að fá boltann beint í lappirnar eftir stangarskotið, svo skorar ramsey ekki svona mark nema á nokkurra ára fresti. Við áttum skilið að fá hagnaðarregluna í okkar vil og þá hefðum við getað klárað þá sókn auk þess sem Suarez skaut í stöng og Henderson skaut framhjá í upplögðu færi.

    Það sást mjög vel í seinni hálfleik hvað Coutinho er hugmyndaríkur í sóknarleik sínum, það verður erfitt fyrir andstæðinga okkar framvegis að halda hreinu með hann plús SAS á toppnum. Coutinho er nefnilega þannig leikmaður að hann getur stjórnað leiknum með útsjónarsemi sinni, tækni, hlaupum og eitruðu sendingum.

    Ég er hlynntur því sem BR er að gera en vissulega má endalaust rífast um leikskipulagið. Kannski hefði verið skynsamlegra að stíga varlega til jarðar á
    þessum erfiða útivelli og spila þéttan varnarleik og beita skyndisóknum EN ég er ákaflega hlynntur ófeimnum sóknarleik enda erum við með gríðarlega sterka markaskorara sem skora mikið úr alls kyns færum.

    Valdi K #48 er með þetta hvað varðar leikkerfið að mínu mati. Enrique og Glen leysa 3-5-2 kerfið miklu betur en Cissokho og Flanagan. Það vantaði töluvert upp á að hafa þá ekki enda eru þeir öskuduglegir á endilögu köntunum

    Hvað stöðu liðsins okkar varðar að þá hefði ég alltaf tekið fyrirfram 6-2-2 eftir 10 leiki í haust og held að flestir hefðu gert það líka!

    Að mínu mati var þetta ekki stóra prófið enda situr Liverpool í þriðja sæti deildarinnar eftir 10 leiki eða rétt rúmlega fjórðung mótsins. Sú staða segir okkur að við eigum fullt erindi í topp fjögur slaginn. Annað væri vanmat á liðinu okkar og það er ekki í boði.

    Flest toppliðin eru að ,,misstíga” sig. chelskí og tottenham töpuðu stigum um helgina og er það gott. Svo má ekki gleyma því að verulegt álag verður á þessum liðum sem eru í evrópuslagnum og það mun klárlega tikka þegar líður á tímabilið. Á meðan getur liðið okkar unnið meira í deildinni og náð mannskapnum úr meiðslum.

    Næstu fimm leikir eða svo munu trúlega sigta út þau lið sem verða í topp fjögur slagnum í vor. Hef ekki trú á að southampton og everton haldi mikið lengur út þessa frábæru byrjun sína á tímabilinu. manjú eru að skríða jafnt og þétt upp í pakkann sem og man sittí en ég hef ekki mikla trú á þeim síðarnefndu. Vona innilega reyndar að bæði liðin frá manchester munu halda áfram að sitja eftir fram eftir tímabilinu. Ofan á bætist svo mikið álag vegna CL og bikarkeppnanna. Ég hef tröllatrú á okkar mönnum í þessum slag og það verður gríðarlega sterkt að halda haus fram til áramóta með góðum úrslitum enda eigum við von á styrkingu á hópnum í janúar.

    Næsti leikur gegn fulham verður úrslitaleikur fyrir okkur. Þá mun koma í ljós hvort hugurinn fylgji ekki máli. Ég er mjög ánægður með komment okkar manna eftir leikinn þar sem þeir lofa fullri einbeitinu í næsta leik og betrumbótum. Þetta er rétt hugarfar enda stíga sigurvegarar upp eftir áfall en liggja ekki í gólfinu, grenjandi.

    Varðandi Gerrard að þá fyndist mér ekki vitlaust að hafa hann meira sem holding midfielder, hann er ekki lengur box to box miðjumaður og hefur misst hraðann. Coutinho og Henderson eru miklu meira hreyfanlegir en Gerrard og þá nýist hans styrkur betur, tæklingar, líkamlegur styrkur í að vinna návígi, skallaeinvígi og flottar sendingar fram á við. Hann er klassa betri í þessu en Allen og Lucas.

    Næsti leikur er gríðarlega mikilvægur upp á framhaldið að gera, hef fulla trú á að menn haldi áfram á þessu góðu gengi. Tap á emirates er enginn heimsendir heldur hlekkur í keðjunni sem styrkir liðið okkar til framtíðar.

    Y.N.W.A.

  86. Það er eitt sem ég skil ekki og það eru kaupin á Joe Allen, afhverju var Liverpool að kaupa hann ef þeir vilja ekki nota hann. Ég skil ekki kaupin á Allen og Borini því að Liverpool borgaði mikið fyrir þá félaga og þeir eru ekki notaðir og hljóta því að kallast mislukkuð kaup.

  87. Sammála með Borini og Allen. Sýnir örugglega að leikmannakaup eru talsvert flóknari heldur en að taka upp símann og kaupa einhvern. En algjör synd að vita hvað býr í leikmönnum en þeir eru samt ekki nógu góðir.

  88. Skrifad fyrir og eftir leik: liverpool er med betri markmann, betri varnarmenn og betri soknarmenn, en verri midju. Takid adeins af ykkur liverpool gleraugun, Mertesacker er byrjunarlidsmadur i tyska landslidinu og koscielny er ad verda einn besti midvordurinn i deildinni, teir 2 yrdu alltaf tekknir fram yfir ykkar midverdi af teim fotboltaahugamonnum sem ekki halda med pool.Svavar station skrifar ad Ramsey muni ekki skora svona mark i nokkur ar, hann horfir sennilega aldrei a arsenal leiki nema tegar teir spila vid pool, Ramsay erbuin ad vera magnadur a tessari leiktid, kominn med 10 mork (er ekki sturridge med 8?) og morg hver glaesileg mork, hann er einnig med 4 eda 5 stodsendingar. Svo var einn sem taladi um ad arsenalhafi verid heppnir a moti tottenham, tottenham atti eitt skot a markid i teim leik og varnarleikurinn i teim leik var mjog solid, wba voru klaufar ad vinna ekki arsenal, ta helst anelka sem nytti ekki 2 daudafaeri i teim leik, arsenal hefur einungis tapad fyrir aston villa i leik sem villa fekk ekki 1 heldur 2 rugl vitaspyrnur, tad ma geta tess ad domarinn i teim leik var settur i bann af f.a. eftir tann leik einmitt vegna slakrar frammistodu. Ykkur liverpool monnum nefnid svo oft hvad onnur lid eru heppin en liverpool oheppnir, en aldrei hef eg sed pool menn herna nefna tilviljunarkennda sigurmarkid a united vera heppni. Einnig finnst ykkur pool monnum svo erfitt hvad enrique og johnson eru bunir ad vera fra, podolski er buin ad spila 2 leiki, walcott er buinn ad missa af sidustu 4 eda 5 leikjum, cazorla er buinn ad spila 4 leiki svona sem daemi’ liverpool er ekki eina lidid i deildinni med menn i meidslum. Eftir 10 leiki eru arsenal bunir ad skora fleiri mork en pool,(betri sokn) og bunir ad fa a sig faerri mork(betri vorn), margir her voru(eru) alveg a tvi ad adeins ozil kaemist i liverpool lidid i dag, i alvorunni????? En poolarar meiga vera anaegdir med ad hafa bestu studningsmanna siduna a islandi, studningsmannasida arsenal (lidid sem eg held med) er t.d. alveg omurleg sida.

  89. Enda taladi eg bara um meidsli Liverpool manna i minu kommenti Bergur#90 og nei, Remsey mun ekki skora oft svona mørk, thad er a hreinu.

Byrjunarliðin í toppslagnum

Er Liverpool að standast væntingar?