Hull City A.F.C. á sunnudaginn

Síðasta viðureign Liverpool og Hull City markaði sorgleg tímamót hjá báðum liðum. Þetta voru endalokin á veru Hull City í efstu deild á meðan þetta voru endalokin á stjóratíð Rafa Benitez með Liverpool. Þrátt fyrir að þeir hafi fallið um deild þá er ég ekki viss um að vonbrigði þeirra hafi verið meiri heldur en okkar, liðið endaði í 7. sæti með 23 stigum minna en árið áður og var í miðri innanfélagstyrjöld sem varð ennþá blóðugri næstu mánuði á eftir. Margir höfðu gert sér vonir um titilbaráttu fyrir tímabilið.

Síðustu ár hafa því verið ansi erfið hjá báðum félögum. Bæði lið fóru svo gott sem á hausinn en var bjargað af fjársterkum aðilum, bæði lið hafa reglulega skipt um stjóra síðan 2010 en virðast núna aðeins vera að rétta úr kútnum og eru að ná öllu meiri stöðugleika.

Þetta er í þriðja skiptið sem ég skrifa upphitun fyrir Hull leik. Fyrsta upphitunin fór í vangaveltur hvort Babel fengi jafnvel sénsinn fram yfir Kuyt (góðar minningar maður). Önnur upphitunin var fyrir þennan lokaleik 2009/10 tímabilsins og sýndi ágætlega andann fyrir þann leik. Vinsælustu ummælin toppuðu þó upphitunina alveg.

Þessa þriðju upphitun mína ætla ég að nýta aðeins í að skoða þetta Hull lið aðeins betur.

Rugby borg

Það sem ég hef aldrei almennilega skilið með Hull er hversu ótrúlega lélega sögu þeir eiga í fótbolta. Hull er ágætlega stór borg í Englandi með um 250.þúsund íbúa og annað eins á svæðinu í kring. Það er bara eitt knattspyrnulið í borginni og hefur alltaf verið en samt tókst þeim ekki að komast á meðal þeirra bestu fyrr en Phil Brown tókst að leiða þá upp um deild í maí 2008. Tíu árum áður var félagið hársbreidd frá því að falla úr deildarkeppninni á Englandi.

Næst höfðu þeir komist efstu deild tímabilið 1909/10 er liðið hafnaði í þriðja sæti 2.deildar. Félagið var stofnað árið 1904 eða fyrir 110 árum og af öllum þeim sem komið hafa upp úr yngri flokkum félagsins eru þeir Nick Barmby og Dean Windass þekktastir. Meira að segja ÍBV hefur alið af sér betri leikmann.

Talandi um eyjamenn þá kannast líklega margir þaðan ágætlega við sig í Hull enda borgin ein mikilvægasta hafnarborg Bretlands. Hull og Reykjavík er m.a.s. vinaborgir. Steini lýsti borginni líklega best í síðasta podcasti er hann sagði sögu af Lalla, félaga sínum sem horfði oft á leiki á Players. Sá var gamall sjómaður og velti því alltaf helst fyrir sér er hann sá leiki með Hull hversu marga syni hann ætti í þessu liði.

Það þarf heldur ekki að koma á óvart að þessi sjóaraborg ól af sér svo marga slagsmálsfæra menn að þeir tóku þátt í því að stofna Rugby íþróttina og borginni er skipt milli tveggja vel þekktra rugby liða. Annarsvegar Hull Kingston Rovers sem stofnað var 1882 og hinsvegar Hull F.C. sem stofnað var 1865. Fljótið sem rennur í gegnum Hull er jafnan notað til að skipta stuðningsmönnum þessara liða, Hull KR er í austurhluta bæjarins en Hull F.C. er í vesturhlutanum sem er sama hverfi og fótboltaliðið.

Þannig að ekki nóg með að þeir hafi stofnað tvö rugby lið áður en þeir svo mikið sem fóru að hugsa út í fótboltalið þá tóku þeir Hull F.C. nafnið líka. Hull F.C. spilar einmitt heimaleiki sína á KC Stadium rétt eins og knattspyrnuliðið. Það er erfitt fyrir okkur að skilja þetta hérna á Íslandi en Hull hefur alltaf verið rugby borg fyrst og fremst. Þeirra gullaldarskeið í fótboltanum eru sl. fimm ár. Þeir hafa ekki einu sinni getað neitt í bikarkeppnunum, besti árangur er undanúrslit árið 1930.

KC Stadium

Þrátt fyrir að Hull sé rugby borg þá er einnig töluverður áhugi fyrir fótbolta. Það sýndi sig ágætlega þegar Hull City færði sig yfir á nýjan heimavöll á miðju tímabili 2002/03. Félagið var eins og áður segir hársbreidd frá því að falla úr deildarfótbolta fjórum árum áður og var í bullandi fjárhagserfiðleikum í neðstu deild þegar nýr leikvangur var vígður. Hull borg byggði þennan fjölnota völl með styrktarsamningi við símafyrirtæki (KC) og er hann notaður fyrir fleiri viðburði en bara deildarleiki í fótbolta og rugby. Þarna fara t.d. einnig fram landsleikir í rugby sem og tónleikar.

Völlurinn tekur í dag rúmlega 25.þúsund manns og fyrsta árið sem Hull City notaði hann var meðaláhorfendafjöldi á leikjum félagsins um 17.þúsund. Þrefallt meira en meðaltal annara liða í neðstu deild og á pari við lið í efstu tveimur deildunum.

Nýr völlur í bland við nýja fjárfesta í knattspyrnuliðinu hafa gefið félaginu nýtt líf og ferð þeirra úr neðstu deild í þá efstu er það þriðja hraðasta í sögu enska boltans.

Aðsóknarmetið á KC Stadium var slegið síðast þegar þessi lið mættust en þá voru 25.030 manns mættir á leikinn sem verður að teljast gott m.v. að Hull var fallið og Liverpool hafði að engu að keppa.

Hull í Úrvalsdeild.

Félagið komst í þriðju efstu deild vorið 2004 og í næst efstu deild árið eftir. Næstu tvö tímabil fóru í fallbaráttu þar til Phil Brown tók við liðinu í janúar 2007. Hann bjargaði liðinu frá falli og kom þeim upp ári seinna eftir að nýjir eigendur höfðu keypt félagið um sumarið og sett aukinn pening í það. Félagið endaði í þriðja sæti en rústaði Watford í umspili áður en þeir lögðu Bristol City í úrslitaleik um laust sæti á Wembley. Dean Windass sem er fæddur og uppalinn í Hull skoraði auðvitað sigurmarkið í þeim leik.

Ævintýrið endaði ekki þarna því liðið tók úrvalsdeild með trompi og var í toppbaráttu framan af og nánast fram að jólum. Þá lentu þeir í meiðslaveseni sem og að missa sína bestu menn til stærri liða og voru á endanum heppnir að sleppa við fall. Góður árangur engu að síður þar sem enginn hafði gefið þeim von fyrir tímabilið.

Phil Brown náði þó ekki að halda dampi árið eftir og var rekinn á miðju tímabili áður en Ian Dowie sá um að koma liðinu endanlega niður í næst efstu deild. Lokaleikur þessarar fyrstu dvalar Hull meðal þeirra efstu var 0-0 jafntefli gegn Liverpool.

Hull frá þessum tíma og þá sérstaklega Phil Brown verður alltaf bara minnst fyrir þetta

Þvílíki meistarasnillingurinn sem Jimmy Bullard var og eflaust er ennþá.

Assem Allam – eigandi Hull City

Sumarið 2010 var Hull City eins og oft áður í fjárhagsvandræðum en enn á ný var þeim bjargað. Assam Allam keypti félagið ásamt fjölskyldu sinni á eitt pund og tók við skuldum félagsins.

Allam er vellauðugur og hefur helst komist í heimsfréttirnar fyrir þá ákvörðun að breyta nafni félagsins þvert gegn vilja stuðningsmanna félagsins. Persónulega hélt ég að þetta væri einhver frændi Vincent “The man” Tan eiganda Cardiff sem hafði lítil sem engin tengsl við félagið en gæti ekki hafa haft mikið meira rangt fyrir mér.

Þveröfugt við það sem ég hélt þá er Allam búsettur í Hull og hefur verið það síðan 1968. Hann er fæddur í Egyptalandi árið 1939 en flutti til Englands og stundaði nám við háskólann í Hull áður en hann hóf starfsferil sem endurskoðandi. Allam hefur alla tíð verið afar umhugað um þetta seinna heimili sitt og hefur styrkt fjölmörg íþróttalið sem og viðburði í Hull í gegnum tíðina.

Þegar Hull City var í fjárhagsvandræðum rann honum (að eigin sögn) blóðið til skyldunnar og keypti félagið. Hann reyndi árið 2011 að kaupa heimavöll félagsins og hafði í huga að fjárfesta fyrir um 30m pund í svæðinu í kring sem og að henda 10m pundum í að stækka völlinn. Borgin neitaði hinsvegar að selja, Allam til mikillar gremju. Hann vill skapa umhverfi fyrir Hull til að félagið geti orðið sjálfbært í framtíðinni og sá fyrir sér verslanir og bari fyrir utan völlinn.

Þar sem það gekk ekki að kaupa völlinn og fá að skapa grundvöll fyrir auknum tekjum þannig ákvað Allam að fara aðra leið og sér mjög mikla möguleika felast í því að leggja af hið langa og óþjála nafn Hull City Association Football Club fyrir styttra og meira “unique”. Hann er á því að City endingin sé allt of almenn og hallærisleg og vill því hafa þetta stutt og markaðsvænt, Hull Tigers. Stuðningsmenn félagsins eru jafnan kallaðir The Tigers en vilja engu að síður ekki sjá þessa breytingu.

Allam tókst ekki að koma þessari nafnabreytingu í gegn fyrir þetta tímabil en stefnir á þetta fyrir næsta tímabil. Hann er hættur að nenna að hlusta á vælið í stuðningsmönnum félagsins og segir þá ekki geta bent á aðrar tekjuleiðir og það er óhætt að segja að hann hefur náð að sannfæra mig gjörsamlega um Hull Tigers hugmyndina.

http://www.youtube.com/watch?v=hN0EtyL8P3Y

Hér má sjá mynd frá síðasta heimaleik þar sem gæslan á KC vellinum er að taka á stuðningsmönnum Hull sem vildu sýna borða sem mótmælti nýju nafni

Gefum Allam það að þetta er framúrskarandi árangur hjá honum í að eyðileggja þann góða móral sem það að fara upp hefur skapað sem og góð byrjun Hull á þessu tímabili.

Liðið í dag.

Þegar Allam eignaðist félagið 2010 var Nigel Pearson fenginn sem stjóri félagsins. Hann náði ekki að koma liðinu beint upp aftur og hætti í nóvember 2011 og í hans stað kom gamla Hull hetjan og fyrrverandi leikmaður Liverpool Nick Barmby.

Hann var með liðið til loka tímabilsins 2011/12 en var sagt upp er hann gagnrýndi eigendur félagsins fyrir að reka framkvæmdastjóra félagsins. Þá var farið í það að dusta rykið af Steve Bruce sem kom inn í stað Barmby og náði í annað sætið á dramatískan hátt á sínu fyrsta tímabili. Watford tók upp á því að tapa á ævintýralegan hátt gegn Leeds í lokaleik tímabilsins og missti með því af sæti í efstu deild.

Steve Bruce fór upp um deild á Steve Bruce fótbolta og hann hefur Steve Bruce-að þetta lið ennþá frekar síðan þá. Allam er ekkert að moka fáránlegum fjárhæðum í félagið þó líklega séu þetta umtalsverðar upphæðir á þeirra mælikvarða.

Liðið hefur byrjað vel í deildinni og er i 13.sæti með 14 stig þökk sé góðum árangri á heimavelli þar sem liðið hefur náði í 11 stig af 18 mögulegum. Tap gegn Crystal Palace um síðustu helgi var fyrsta tap þeirra á heimavelli á þessu tímabili. Hull hefur aðeins fengið á sig tvö mörk á heimavelli en hafa á móti bara skorað 4 mörk. Hversu mikið Steve Bruce er það?

Það skal einnig tekið fram að Hull hafa fengið Norwich, Cardiff, West Ham, Aston Villa, Sunderland og Crystal Palace í heimsókn það sem af er tímabili. Þeir vita vel að Liverpool er stærsta heimaverkefnið til þessa og hvetja stuðningsmenn til að mæta í réttum litum á sunnudaginn. Hull er ekki í beinni útsendingu í hverri viku og vilja þeir því sýna félagið á sem jákvæðastan máta og jafnframt er hrósað stuðningsmönnum Liverpool fyrir að styðja sitt lið ávallt fram í rauðan dauðan.

Leikmannakaup sumarsins eru svona hjá Hull City.

Tom Huddlestone (Tottenham, £5m), Curtis Davies (Birmingham, £2.25m), Ahmed Elmohamady (Sunderland, £2m), Allan McGregor (Besiktas, £1.8m), Yannick Sagbo (Evian, £1.5m), George Boyd (Peterborough, Free), Maynor Figueroa (Wigan, Free), Steve Harper (Newcastle United, Free), Danny Graham (Sunderland, Loan), Jake Livermore (Tottenham, Loan).

Slatti af nöfnum sem maður kannast við og flest allt leikmenn með reynslu af úrvalsdeildinni.

Miðað við liðið hjá þeim undanfarið og meiðsli tippa ég á að þeir stilli einhvernvegin svona upp (4-5-1):

Lið Hull

Liðið hefur aðeins verið að lenda í meiðslavandræðum og sakna þar helst sóknarmannsins Sone Aluko sem og miðvarðarins Paul McShane. Alan McGregor er kominn í markið aftur fyrir Steve Harper. Faye kemur liklega í miðvörðinn eftir að hafa dottið úr liðinu sl. 4 leiki.

Á miðjunni eru Tottenham bræðurnir Huddelstone og Livermore ásamt fyrirliðanum Robert Koren. Hann var leikmaður ársins hjá Hull 2011/12. Með þeim á vængjunum eru tveir af þeirra bestu leikmönnum Robbie Brady og Elmohamady, sá síðarnefndi var leikmaður ársins hjá Hull á síðasta tímabili.

Frammi tippa ég á að Danny Graham komi enda varnarmenn Liverpool ekki þekktir fyrir að elska þessa stóru target sóknarmenn. Einnig vegna þess að Sagbo var með öllu afleitur í síðasta leik.

Hull sækir upp vængina og geta skapað hættu þannig, eina liðið sem hefur unnið þá eitthvað illa var Southamton sem reyndar gjörsamlega sundurspiluðu þá. En það er alveg ljóst að Hull verður sýnd veiði en alls ekki gefin.

Fyrir áhugasaman þá er hægt að hlusta á tvo stuðningsmenn Hull í spjalli við Anfield Index Podcastið hér (frá 53.mínútu)

Liverpool

Það er ljóst að við erum að sigla inn í gríðarlega mikilvægan mánuð þar sem heilir sjö leikir eru á dagskrá, eftir jólamánuðinn ættu línur að vera farnar að skýrast töluvert betur í deildinni og vonandi að Liverpool haldi haus núna. Liverpool á Hull á sunnudaginn áður en við fáum Norwich og West Ham í heimsókn. Allt eru þetta lið sem við gerum kröfu á að Liverpool vinni.

Liverpool hefur alls ekki verið nógu stöðugt undanfarið eftir góða byrjun, fjórir sigrar, þrjú jafntefli og tvö töp eru ekki alveg nógu góð uppskera úr síðustu níu leikjum. Jafnteflið gegn Everton eru tvö töpuð stig m.v. stöðuna í hálfleik en svosem sanngjörn úrslit heilt yfir m.v. gang leiksins. Þetta þarf að bæta og við þurfum mun meira sannfærandi leiki gegn liðum eins og Everton og Arsenal. Rétt eins og gegn Newcastle og Southamton.

Allt þetta ár hefur gengið gegn liðum í neðri helmingi deildarinnar þó verið nokkuð gott og með Suarez og Sturridge heila ættum við að hafa lykilinn að vörn Hull City. Þeir sækja töluvert upp vængina og ég giska á að Rodgers fari aðeins öðruvísi inn í þennan leik en gegn Everton þegar hann þétti miðjuna all verulega.

Ca. svona held ég að lið Liverpool verði:

Lið Liverpool

Jon Flanagan ætti að halda sæti sínu í liðinu eftir síðasta leik, ekki nema Cissokho hafi verið tæpur fyrir þann leik og komi aftur í liðið. Persónulega er ég meira spenntur fyrir því að Cissokho spili.

Varðandi miðvarðastöðuna þá grunar mig að Sakho verði fljótlega sá leikmaður sem spili alla leiki. Hann hefur ef ég man rétt ekki spilað í tveggja miðvarða kerfi enn sem komið er hjá Liverpool, nú er komið að því og ég tippa á að Agger haldi sæti sínu. Það er reyndar mjög erfitt að spá fyrir um uppstillingu á vörninni hjá Liverpool í dag.

Rest ætti svo að vera nokkuð sjálfvalið, Sturridge inn fyrir Allen og vonandi heldur liðið áfram að klára lið eins og Hull nokkuð sannfærandi.

Leikmenn eins og Suarez eru oftar en ekki það sem skilur á milli í svona leikjum. Þjónustan við hann er lykilatriði og miðjan okkar má ekki lenda undir gegn (líkamlega) sterkum miðjumönnum Hull.

Spá:

Fyrir síðasta leik gegn Hull setti ég inn veðurspánna. Stemmingin er öllu meiri núna, Liverpool hefur 10 sinnum áður mætt Hull og aldrei tapað gegn þeim. Ég ætla rétt að vona að við förum ekki að taka upp á því núna. Ég sagði 0-1 í podcast þætti vikunnar og ætla að halda mig við það. Þetta verður hrikalega erfiður leikur en Suarez afgreiðir þá á 80.mínútu.

34 Comments

  1. Frábær upphitun!

    Ég held ég haldi mig við mína spá, frá því í podkastinu. Ef ég, Maggi og Redknapp erum sammála um spá þá getur það bara ekki klikkað, eða hvað ?

    Ég er nokkuð sammála liðinu hjá þér. Það er verið að slúðra um það að Skrtel hafi meiðst eitthvað í dag, a.m.k. einhverjar myndir af honum fá aðhlynningu á æfingasvæðinu.

    Hull láta ekki valta yfir sig, þeir eru með ágætislið, sérstaklega á miðju vallarins. Sterka menn í þeim Huddlestone & Livermore. Ég sé samt ekki annað en að okkar fremstu þrír séu alltaf að fara skora 2 mörk hið minnsta. Á sama tíma og ég sé þá ekki skora fleiri en 1-2.

    Held mig því við 1-3 spá. Suarez með eitt, Sturridge tvö.

    Koma svo! Við verðum að sækja öll stigin í þessum leikjum. Engar afsakanir.

  2. Hélt augnablik að við værum komnir aftur í Evrópudeildina og Hull væri eitthvað lið frá Fjarskanistan í A-Evrópu eftir að hafa lesið pistilinn um Hull.
    ÞVÍLÍK UPPHITUN!

    Þessi leikur bara hlýtur að vinnast. Er sammála Eyþóri og segi 1-3.

  3. Ætla að vera sammála með sigur en að hann verði frekar auðveldur. Liðið okkar veit að það er hugsanlega að fara tapa stigum í des þannig að ég ætla að tippa á góðan og stóran sigur.
    Mín spá 0-4 mörkin koma öll fra SAS

  4. Sko, Babú – þér tókst að gera Hull City að skemmtilegri lesningu. Hvað er eiginlega að frétta!?! Þeim sem tekst slíkt á svo sannarlega skilið Thule, eða eitthvað þaðan af sterkara. Þannig fáðu þér einn, og hugsaðu til Homers 🙂

    Frábær upphitun – í tveimur orðum sagt!

    Eina sem ég hef við þetta að bæta er að ég vil sjá Sakho byrja þennan leik. No ifs, and or buts about it. Skell’onum í miðvörðinn með Agger og látum á þetta reyna.

    Liverpool sigur, mér stendur á sama hvernig liðið fær annars 3 stig, svo lengi sem þau koma 🙂

    Homer

  5. Sælir félagar

    Takk fyrir frábæra upphitun Babu en vantrú þín á besta lið í heimi er skrítin. Ég sé að mín sígilda spá þessa tímabils er vinsælust nú um stundir og ekki að undra. Ég styð þessa hugmynd og held mig við mín 1 – 3 mörk eins og venjulega.

    Það er nú þannig.
    YNWA

  6. Ég held líka að þetta verði “hrikalega erfiður” leikur, en Liverpool vinnur þetta 0-6. Hvaða leikir eru ekki erfiðir í þessari deild ? Þú þarft alltaf að gefa þig 100% í hvern leik en við erum bara með miklu betri leikmenn en þetta Tigers lið. Allt annað en sigur yrði bara stórslys.

    Vona að ekkert vanmat eigi sér stað hjá okkar mönnum.

    0-6, Sturridge með þrjú og Suarez tvö, GERRARD eitt kvikindi.

  7. Ég er sammála þeim sem setja stórsigur á þennan leik, við erum bara með miklu betra lið og við munum líka halda hreinu. Graham er ekkert sóknartröll og fær ekki sömu þjónustu og Chelski/Everton skrímslið (ótrúlegt að besti sóknarmaður Chelski sé í Everton).

    Sakho skorar sitt fyrsta mark fyrir okkur.

  8. ég held að við vinnum þennan leik auðveldlega, en annars hefur okkur alltaf gengið illa með lið sem Bruce stjórnar, en við höfum ekki verið með svona gott lið síðan við enduðum í öðru sæti þegar Alonso var með okkur en ég held að við séum með betra lið en þá, betri menn og meiri breidd.

  9. Segi 1-2 coutinho og suarez .. hull fær eitt sárabótarmark úr víti..

  10. Sturridge víst meiddur og Coutinho tæpur. Sama lið og gegn Everton nema Moses/Alberto inn í stað Coutinho ? Allen gæti líka verið fórnað fyrir þá báða. Pælingar allavega!

  11. Rólegir á því að segja að það séu hræðilegar fréttir að Sturridge sé meiddur, við eigum ennþá Suarez.

  12. Sturridge meiddur er þá ekki tilvalið að prófa Moses og Sterling á kantana í 4-3-3?

  13. Aspasinn á að verða klár í byrjun des.. en MJÖG slæm tíðindi að Sturridge verði núna frá í 2 vikur. Moses hlýtur að vera næsti maður inn.

  14. Henda bara Moses í framlínuna með Suarez! Hefði verið fínt að vita þetta áður en að fantasy lokaði… Spái 0 – 4 sigri. Moses 1 Suarez 2 og Henderson 1.

  15. Jæja. Þetta eru fyrstu ummælin mín hér í 10 daga enda verið upptekinn við að fjölga mannkyninu.

    Fyrst ber að þakka Babú fyrir upphitun. Þessi pistill undirstrikar bara hversu mikilvægt það er að Liverpool komist aftur í Meistaradeildina. Ég sakna þess að lesa þessi söguágrip reglulega!

    Þá að byrjunarliðinu. Ef Skrtel er tæpur kemur Touré væntanlega inn frekar en Sakho (hægri fótar maður, basic) en annars sé ég ekki annað í stöðunni, í fjarveru Sturridge, en að sama byrjunarlið og hóf leik gegn Everton haldi áfram. Það byrjunarlið var að vinna þann leik 2-1 eftir klukkustundarleik, þar til slæmar innáskiptingar (að mínu mati) riðluðu leik liðsins. Jú, innkoma Sturridge bjargaði stigi en Rodgers veikti miðjuna á lykilpunkti leiksins og gaf fyrir vikið eftir stjórn þar. Kortéri síðar voru Everton búnir að snúa töpuðum leik sér í vil.

    Ég vil því bara sjá sama byrjunarlið. Joe Allen áfram inná, sterk miðja gegn fjölmennum og þéttum pakka Hull, og láta Suarez (ef hann er alveg heill) um að hrella Tígrana (aulahrollur). Eiga svo Moses, Sterling og Luis Alberto inni ef okkur vantar meira þegar líður á leikinn.

    Mér líst vel á þetta. Ef Rodgers breytir byrjunarliðinu ekkert spái ég 3-1 sigri á morgun. Ég vona bara að Suarez sé heill heilsu í fjarveru Sturridge…

  16. Skiptir engu máli hvaða ellefu byrja þennan leik – Liverpool á að klára svona leik! 0-2, koma svo!

  17. Svo Sturigde er meiddur næstu vikurnar. ÖMURLEGAR FRÉTTIR. Þýðir þetta að Rodgers heldur við sömu leikaðferð og móti Everton. Suarez einn frammi.
    Ég myndi villja sá þessa leikaðferð 4-1-3-1-1. Fjóra varnermenn, varnarsinnaður miðjumaður(Lucas), þrjá miðjumenn(Hendo, Allen,Gerard) sva að lokum sóknarmiðjumaður(Brassinn) og framherji(Suarez)

  18. Hver heldur þú að nenni að lesa öll þessi ósköp? Og það í prófatíð… andskotinn =P =) =D

  19. vinnum þetta 5-0 málið dautt ………..suarez með þrennu og coutunho og moses með hin kvikindin!!!!

  20. Vonum það besta með Sturridge, ákaflega vondar fréttir ef hann er frá allann desember mánuð (+meira).

    Þetta ætti að gefa Rodgers tækifæri til að stilla upp í 4-2-3-1 kerfinu með meiri ógn af vængjunum og Coutinho í holunni. Líklega eru Moses, Sterling, Allen og jafnvel Alberto að fara koma mun meira við sögu á næstunni en áður í vetur. Eins má ekki alveg útiloka Aspas strax, hann hefur varla fengið séns í sinni stöðu það sem af er tímabili og ég neita að trú að hann sé eins slappur og byrjun tímabilsins gaf til kynna.

    Hann á að mér sýnist að vera koma til baka núna um þessar mundir og var með á æfingu í gær.

  21. Leikdagur runninn upp og aldrei slíku vant er margt sem böggar. Rok og rigning úti, Sturridge og Skrtel meiddir og veist að Gerrard. Allt verður þetta til að trufla undirbúning leiksins og hefur neikvæð áhrif á okkar menn.

    Hið jákvæða er hins vegar að við höfum breidd í þessum stöðum til að takast á við þetta. Vonum að fyrirliðinn láti sitt atvik ekki á sig fá en ég vonast til að sjá Sakho við hliðina á Agger. Finnst fótarökin ekki eiga við í haffsentastöðunni, flest lið eru með tvo réttfætta og betri fóturinn skiptir ekki eins miklu máli þarna og í bakvarðastöðunum.

    Ég tek undir með Kristjáni Atla um leið og ég óska honum til hamingju með barnið, að réttast sé að halda liðinu eins óbreyttu og kostur er frá síðasta leik. Það þýðir að einungis Sakho eða Toure koma inn fyrir Skrtel sé hann ekki leikhæfur. Allen þarf að komast í gang og þetta er kjörinn leikur til þess. Hann er klókur að koma sér í færi og er með fínt spil, hreyfingu og yfirferð. Það að Sturridge sé ekki með gefur Coutinho enn meira fríspil og minni varnarskyldu sem hentar honum afar vel. Flanagan á síðan einfaldlega að halda sæti sínu eftir fína frammistöðu gegn Everton.

    Ég reikna með auðveldum og átaklitlum 2-0 sigri okkar manna þar sem Suarez skorar bæði mörkin. Það væri bara fínt sko.

  22. Gísli Þ. : “Hendo og Coutinho á meiðslalistann með Sturridge… ja hérna…”

    Ég finn ekkert um þetta neinstaðar….hvaða heimildir hefurðu fyrir þessu?

  23. Aspas er að fara skora ef hann fær að spila í 30+ min! Mark my words

  24. Jæja, liðið komið…… og þrjú stig í hús takk!

    Brendan Rodgers makes three changes from the team that started last weekend’s Merseyside derby, with Kolo Toure also returning at the KC Stadium.

    Meanwhile, Philippe Coutinho has been named among the substitutes after a high ankle injury prevented him from training at Melwood this week.

    Iago Aspas is also on the bench.

    Liverpool: Mignolet, Johnson, Toure, Skrtel, Flanagan, Lucas, Gerrard, Sterling, Henderson, Moses, Suarez.

    Subs: Jones, Agger, Alberto, Aspas, Coutinho, Sakho, Allen.

  25. Þetta var skelfilegasti leikurinn á þessu tímabili. Hrykalegt andleysi.

Og hvað næst?

Liðið gegn Hull