West Ham á morgun

Einn búinn, 37 eftir. Ég skrifaði í síðustu upphitun að nauðsynlegt væri fyrir liðið að fara vel af stað í upphafi tímabils. Það var alveg vitað mál að það yrði erfitt að mæta nýliðum á þeirra heimavelli í fyrstu umferð, og það varð svo raunin. Tvö stig töpuð, en eins og áður sagði, þá eru 37 leikir eftir og 111 stig í pottinum. Núna er komið að fyrsta heimaleiknum á tímabilinu (í deildinni) og nú kemur ekkert annað en sigur til greina. Það eru Hamrarnir sem mæta í heimsókn. West Ham kom nokkuð á óvart á síðasta tímabili, þar sem þeir spiluðu fínan bolta og héldu sig fjarri fallhættu. Þeir voru ekki eitt af þeim tveimur liðum sem tryggðu sig beint upp í Úrvalsdeildina árið áður, heldur þurftu að fara í ?Play-offs? til að öðlast sæti meðal þeirra bestu.

Það gleyma væntanlega fáir síðasta leik þessara liða. Hann fór fram í Cardiff fyrir rúmum 3 mánuðum og var dramatíkin mikil þar eins og í öðrum úrslitaleikjum sem Liverpool tekur þátt í. Kemur sá leikur til með að hafa einhver áhrif á leikinn á morgun? Nei, segi ég. Nýtt tímabil, nýjir leikmenn, nýjar áherslur og síðasta tímabil er einfaldlega að baki. Auðvitað munu einhverjir vilja hefna ófaranna síðan í vor (West Ham menn), en væntanlega er það þó fyrst og fremst í huga stuðningsmannanna, ekki leikmanna.

Tímabilið hjá okkur byrjar hræðilega sé horft til meiðsla. Innan vébanda Liverpool FC má segja að séu 9 leikmenn í aðalliðinu sem teljast sem varnarmenn. 6 þeirra hafa misst úr leiki vegna meiðsla og það getur aldrei boðað gott, þrátt fyrir að liðið búi yfir mikilli breidd. Þeir John Arne Riise, Jamie Carragher og Steve Warnock verða pottþétt ekki með á morgun, en ég hef ekkert heyrt af því hvort Paletta hafi náð að jafna sig af sínum meiðslum. Steve Finnan spilaði síðasta leik og ætti því að vera klár í slaginn. Fyrir utan þessi skörð sem eru komin í varnarlínuna, þá vantar líka vinnuþjarkinn Momo Sissoko á miðjuna og er það nú ekkert smá skarð. Hann hefur að öðrum ólöstuðum verið okkar besti maður það sem af er tímabilinu. Harry Kewell skipar svo síðasta sætið á meiðslalistanum, en hann verður ekki klár í slaginn nærri strax.

Hjá West Ham vantar þeirra aðal framherja, Dean Ashton, og eins vantar Matthew Etherington á vinstri kantinn. Einnig er talað um að Robert Green, markvörður, sé tæpur fyrir leikinn. Hann var nýlega keyptur til þeirra og hefur enn ekki náð að spila fyrir sitt nýja félag. Það er nokkuð ljóst að það stefnir í hörkuleik á Anfield á morgun og þar verður mikið um dýrðir, því fagnað verður 100 ára afmæli frægustu stúku veraldar, The Kop. Þegar stúkunni var breytt úr stæðum í sæti á sínum tíma, var haldið upp á það, en liðið gerði það ekki á vellinum. Tap gegn Norwich og eitthvað sem menn vilja helst ekki minnast á. Vonandi verður annað uppi á teningnum á morgun á þessu stórafmæli.

En þá kemur að erfiða hluta þessara skrifa. Hvernig verður liðið? Það er einfaldlega orðið vonlaust að spá rétt fyrir um liðsuppstillingu, en það breytir því ekki að menn reyna alltaf. Stóra spurningin verður í sambandi við sóknarmennina. Peter Crouch virðist skora í hverjum leik sem hann spilar þessa dagana, og klárlega orðið erfitt að halda honum fyrir utan liðið (ekki það að menn vilji það neitt sérstaklega). Bellamy hefur verið að virka frískur, og Robbie setti mark í síðasta leik í deildinni og var að koma sér í færi. Ég ætla að spá því að Rafa stilli upp tveimur framherjum í leiknum og að okkar nýjasti leikmaður, Dirk Kuyt (Dirk Kájt eins og það er borið fram í Hollandi), verði í fyrsta skipti á bekknum. Svo verður einnig spurning um það hvort Zenden eða Speedie verður í liðinu. Ég ætla að spá liðinu svona:

Reina

Finnan-Hyypiä-Agger-Aurelio

Pennant-Gerrard-Alonso-Gonzalez

Crouch-Bellamy

Bekkurinn yrði þá svona: Dudek, Kromkamp, Zenden, Garcia og Kuyt (eða Robbie).

Erfiður leikur framundan, en ég ætla að spá okkur 2-1 sigri. Eigum við ekki að segja að Crouch haldi uppteknum hætti og að Stevie G bæti öðru marki við. Koma svo, höldum upp á daginn með eftirminnilegum hætti.

Come on you Reds.

11 Comments

  1. Sælir,
    ég er spenntur fyrir leiknum en ég á alveg eins von á því að hann byrji leikinn með Bellamy og Kuyt frammi. Hvað finnst ykkur um það að það séu bara 5 varamenn á bekknum en 7 leyfðir í meistaradeildinni. Þetta fer í taugarnar á mér og ég skil ekki af hverju þeir fjölga þessu ekki í 7.

  2. Það er nú sjálfsagt út af því að mörg liðin hafa ekki sambærilega breidd og 5-6 stærstu klúbbarnir.

  3. Alveg sammála Clinton hérna. Finnst hreinlega ótrúlegt að þetta skuli vera ennþá svona á Englandi. Það eru komin fordæmi fyrir þessu í öðrum deildum og ég hefði haldið að þetta myndi bara hjálpa til með að gefa ungum leikmönnum tækifæri. Þeir komast ekki á bekkinn vegna þess hve fáir geta verið þar og þjálfarar geta ekki tekið sénsinn með þá, en ef um 7 væri að ræða, þá væri hægt að bæta við óreyndum mönnum sem fengju svo tækifæri ef leikurinn býður upp á það.

    Reyndar er ekkert langt síðan þessu var breytt upp í 5 varamenn á Englandi :biggrin:

  4. Við vinnum þennan leik á morgun og smellum loksins almennilega… vona bara að við getum klárað einn heilan leik án þess að einhver meiðist alvarlega.

    Vonast til að sjá Kyut inná á morgun.

    Hvað varðar varamenn þá finnst mér ekkert standa í vegi fyrir því að leyfi mætti 7 varamenn og t.d. að 2 af þeim verði að vera yngri en 21 árs.

  5. Benítez byrjar ekki með Kyut inná, ekki séns. En ég vill fá Fowler út úr þessu liði og upp í stúku. Fínt að hafa hann sem 5 framherja en ekki meira.

  6. Hvaða voðaleg neikvæðni er þetta í garð leikmanna liðsins? Af hverju eru menn svona fljótir að henda fúkyrðum og afskriftum í leikmenn liðsins?

    Robbie Fowler skoraði markið okkar í síðasta deildarleik eftir að hafa lagt upp færið sem Gerrard fékk vítið úr. Hann er búinn að skora reglulega síðan hann kom aftur til liðsins, og ferill hans í heild talar sínu máli.

    Liverpool eru með fjóra framherja: Dirk Kuyt, Peter Crouch, Craig Bellamy, Robbie Fowler. Enginn þeirra er varaskeifa fyrir hina, né er einhver einn þeirra ‘aðal’ og hinir í aukahlutverki. Rafa mun nota einn eða tvo framherja í hverjum leik og þessir fjórir munu rótera jafnt og þétt yfir leiktíðina. Crouch mun hugsanlega spila aðeins meira en hinir þar sem hann hefur sérstöðu á vellinum, en annars verða þeir allir frekar jafnir.

    Fjórir góðir framherjar sem hafa upp á mismunandi hluti að bjóða. Óþarfi að segja hluti eins og “út úr þessu liði og upp í stúku” eins og það muni sami maðurinn spila alla leikina. Það er bara fáfræði.

    Mín spá er sú að Kuyt og Bellamy spili á morgun, með Fowler á bekknum. Crouch spilaði á miðvikudag í Kænugarði og mun spila mest þeirra með landsliði sínu næstu vikuna, þannig að hann hvílir á morgun.

  7. LIVERPOOL: Reina, Finnan, Hyypia, Agger, Aurelio, Alonso, Gerrard, Garcia, Pennant, Crouch, Bellamy.

    SUBS: Dudek, Kromkamp, Gonzalez, Zenden, Kuyt.

  8. Sigursteinn, þú ert sannspár 2-1 ! Laglegt.
    Það var gaman að sjá nýjum leikmenn LFC setja mark sitt á leikinn.

  9. Ég skal orða þetta aðeins öðruvísi hjá mér sem verður vonandi til þess að ég losi mig við fáfræði stimpilinn sem var beint til mín.
    Mér finnst Fowler ekki nógu góður til að vera í þessu liði ef við ætlum að berjast um titilinn þetta árið. Enda veit Benítez það sjálfur og Fowler á ekki eftir að vera mikið í liðinu né á bekknum.

Lucas Neill á leiðinni?

Liðið gegn West Ham