PSV í Meistaradeildinni

Þá er komið að fyrsta leik í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á þessu tímabili. Ég verð að viðurkenna það að þessi leikur getur ekki komið of snemma. Óbragðið í munninum á manni eftir vonbrigði ársins sl. laugardag, verður að hreinsa og það strax. Ég var meira að segja að hugsa um að skrifa 35.000 orða upphitun, bara til að koma leikskýrslunni hans Einars af forsíðunni (mjög góð skýrsla, en vond minning). En maður reynir bara að gleyma þessum hörmungum sem fyrst og hvað er betra en að gera það í Meistaradeildinni? Ekki misskilja mig, þetta er langt frá því að vera auðveldur leikur. Það er aldrei létt að spila á útivelli í Meistaradeildinni og þetta verður sko ekkert ?Walk in the Park?. Þetta er fyrst og fremst tækifæri á að girða sig í brók og rífa sig upp á rasshárunum. Nú þurfa menn að mæta brjálaðir til leiks, því þeir þurfa sko að sanna sig okkar menn. Ef þeir ætla að láta taka sig alvarlega sem topp klassa lið, þá verður að vera mikil breyting á leik liðsins.

Ég vil fá sigur á morgun. Ekki það að jafntefli á útivelli í þessari keppni eru fín úrslit. Sigur í leiknum getur bara einfaldlega þýtt svo mikið fyrir næstu leiki. Ná smá sjálfstrausti í liðið (ekki það að þessir kallar ættu nú að hafa trú á getu sinni). Því segi ég að það er algjörlega lykilatriði að ná að sigra í leiknum. Liðinu hefur í gegnum tíðina gengið ágætlega á útivelli í Evrópukeppnum. Komi menn af afli inn í þennann leik, þá er allt hægt. Við erum í afar erfiðu prógrammi þessa dagana, þrír útileikir í röð og nú þegar sá fyrsti tapaður. Það er enginn slaki fyrir fleiri mistökum. Leiðréttum þetta strax á morgun, laga varnarleikinn og sækja hratt þegar boltinn vinnst.

Þá að liðinu. Ég er alveg 100% viss um það að Dirk nokkur Kuyt muni byrja sinn fyrsta leik fyrir Liverpool. Hann er kominn í sitt heimaland, skoraði á þessum velli í síðustu viku fyrir landslið sitt og hefur almennt verið að setja hann gegn PSV. Það er því aðallega spurning um hver komi til með að spila með honum frammi, þ.e.a.s. ef Rafa ákveður að setja 2 framherja í byrjunarliðið. Það er eftir sem áður afar erfitt að spá fyrir um byrjunarliðið. Mun Rafa tefla fram Bolo Zenden? Hann er Hollendingur líka og spilaði lengi með PSV. Hann er eflaust alveg áfjáður í að sanna sig á heimaslóðum á ný, enda ekki spilað þar gegn sínum fyrri félögum síðan hann hélt í víking fyrir 9 árum síðan. Ég hef lúmskan grun um að hann byrji líka inná. Við munum svo væntanlega sjá Jan Kromkamp spila gegn okkur í fyrsta skipti, en ég kem nú ekki til með að missa neinn svefn yfir því.

Það hefur mikið verið slúðrað um Bellamy síðustu dagana. Samsæriskenningar fóru að streyma um allt og fór þar fremst í flokki versta slúðursíða Internetsins, sem vill kenna sig við Liverpool og kjaftagang tengdan The Kop. Vil síður nefna hana á nafn hérna og því sleppi ég því. Þessar sögusagnir hafa svo verið bornar tilbaka af mönnum sem treystandi er þegar kemur að upplýsingum úr herbúðum liðsins. Með öðrum orðum, algjört kjaftæði að Bellamy hafi sinnast við Rafa eða aðra leikmenn. Þvert á móti, þá er hann almennt mjög vinsæll innan liðsins. Ég reikna með honum frammi með Kuyt.

Þótt Carra hafi gert afdrifarík mistök í síðasta leik, þá fannst mér Hyypia vera úti á túni í sínum staðsetningum. Ég ber þá von í brjósti að Agger komi aftur inn í liðið fyrir hann og spili við hlið Carra. Annars er meiðslalistinn ekkert svakalegur lengur, Riise og Kewell þeir einu sem ég veit af. Ég spái því liðinu svona:

Reina

Finnan-Carragher-Agger-Aurelio

Gerrard-Sissoko-Zenden-Garcia

Kuyt-Bellamy

Bekkurinn: Dudek, Hyypia, Pennant, Gonzalez, Alonso, Crouch og Fowler

Sigur, sigur, sigur. Kannski er ég í draumaheimi, en ég held að menn taki sér tak og klári þetta. Ég ætla að spá 2-1 útisigri og að það verði Kuyt og Gerrard sem sjái um markaskorun okkar.

21 Comments

  1. Góð upphitun SSteinn og er ég sammála þér varðandi Kuyt og Bellamy.

    Það er mikilvægt að vinna þennan leik uppá leikinn um næstu helgi.

    Hvað varðar Kraptalk þá er það ógeðismiðill sem er undarlegt að lifi ennþá.

  2. sammála SSteinn með að Kyut og Bellamy eigi að byrja … þó mig gruni að hann tefli fram Crouch + Kyut eða Bellamy, þá er ég til í að sjá þá tvö öskufljóta saman inná. Held að það væri mjög sterkt.

    Skil ekki eitt, mig hefur lengi langað til að sjá þessa miðju byrja, en mig minnir að þessi miðja hafi aldrei byrjað:

    Pennant — Gerrard — Sissoko — Garcia/Gonzales

    Þá erum við með mjög hraða miðju og sókndjarfa þar sem Sissoko gæti verið aðeins aftar og séð um varnarhlutverkið aðeins meira en sóknina. Vona að miðjan verði svona í kvöld … áfram LFC.

  3. Andskotinn hafi það, ég vil að Pennant fái að spila sína stöðu !
    En að allt öðru, í Mogganum birtist grein fimmtudaginn 20 júlí um að samkvæmt nýjum reglum UEFA verði leikur vikunnar í Meistaradeild að vera í opinni dagskrá, en það virðist bara enginn nema ég og tengda pabbi hafa séð þessa grein !
    Kannist þið eitthvað við þetta ?

  4. æji…í fullkomnum heimi er Gerrard ekki á kantinum!! Hvað er málið, ég fer bráðum að efast um hæfni RB sem þjálfara með þessu áframhaldi. Sá maðurinn ekki þessa 20 krossa og frábærar móttökur Pennant um daginn gegn Haifa(ef ég man rétt)?

    Sammála þér Kiddi Geir með miðjuna sem þú stillir upp. Vil líka sjá Momo í holunni á milli miðju og varnar eins og Didi var stillt upp, sérstaklega í útileikjum í meistaradeildinni!

    Svo fyndist mér fáránlegt að nota ekki Crouchie núna enda er gaurinn sjóðheitur og þá á að nota hann. Crouchie og Kuyt frammi!

    Annars held ég að við Púllarar höfum farið á of mikið flug fyrir mótið og þessi “úrslit” gegn everton var eins og spark í punginn, mér allavega líður eins og ég hafi fengið eitt slíkt.

    Annars frábærar greinar hjá ykkur strákar eins og ávallt!

  5. Í ljósi síðasta leiks tel ég nokkuð öruggt að Agger komi inn í liðið þó hinir tveir hafi reyndar mun meiri reynslu af meistaradeildinni og fái kannski að njóta þess. Hyypia og Agger voru að ná vel saman á meðan Carra var meiddur og þess vegna set ég svolítið spurningamerki við hvort C eða H fari á bekkinn.

    Mér líst mjög vel á Pennant og Gonzales á köntunum. Yrðu illviðráðanlegir saman. Sjáið kantana hjá meisturum síðustu tveggja ára; Robben, Duff, Wright-Philips,Cole. Allir mjög hraðir þó Cole minni mig meira á Kewell.

  6. Ég er einn af þeim sem gagnrýndu RB eftir Everton leikinn og skammast mín ekkert fyrir það. Mér finnst skrítið að kaupa hægri kantara og nota hann ekki. Ég man ennþá hvað okkur vantaði hann mikið á síðasta tímabili. Margir segja að við séum með besta miðjumann í heimi og það er rétt að hann er einn af þeim bestu í heiminum í dag. A.m.k. ef ekki sá besti.
    Af hverju ekki að hafa hann inni á miðjunni. Af hverju að vera að styrkja sóknina með kaupum á öflugum framherjum ef ekki á að nota þá í leik sem þessum gegn PSV. Þó Crouch sé nógu góður fyrir enska landsliðið (sem spilar nú ekki flottasta bolta í heimi) þá er ekki þar með sagt að liðsmenn annarra landsliða geti ekki verið betri. Og svona má halda áfram ef vill.
    En semsagt RB er ekki hafinn yfir gagnrýni og á auðvitað að fá hana þegar hann á hana skilda. Og það átti hann eftir Everton leikinn. Vona að ekki þurfi að gagnrýna hann né liðið eftir PSV leikinn en hitt var og er annað mál að ekkert svíður sárar en vera rassskelltur af Everton og lái mér hver sem vill. Ég hefi fulla trú á að okkar menn girði sig í brók og vinni í kvöld. Þakka svo enn og aftur fyrir frábæra umfjöllun um fótbolta okkar manna og annara á þessarri síðu.

  7. Hafliði: sá þetta líka í blaðinu en hef ekkert heyrt um þetta síðan. finn það ekki heldur á neinum miðlum, hvorki á uefa.com eða syn.is

    gaman að vita hvort einhverjir fróðari menn en ég (eða Hafliði) viti eitthvað um þetta mál ???

  8. ég vil sjá kuyt og bellamy saman í byrjunarliðinu og einnig vill ég gonzalez og pennant á köntunum og sissoko og gerrard á miðjunni. Alonso er ekki búinn að vera að standa sig svo mér finnst að það ætti ð hvíla hann aðeins og svo vil ég agger í vörnina!!!

  9. Ekkert rugl! Láta Birmingham-(*ritskoðað*) á kantinn sinn, Gerrard í “holuna” fyrir aftan Bellamy, Gonzales á vinstri kant, Mómó og Sósó fyrir aftan Gerrard. Síðan Agger og Carragher í vörnina ásamt Árelíusi og Finnsa. Þarf ekki að ræða um hver fer á milli strippsúlanna! Klikkar ekki!

  10. Vá, svona komment, eins og frá “eikafr” hérna fyrir ofan, er einmitt svona barnalegt komment sem hefur orðið til þess að ég er hættur að skoða spjallið á Liverpool.is, en svona komment sjást ansi oft þar..

    En það er kannski bara ég… :confused:

  11. Ástæðan fyrir því að ég tel að Bellamy verði frammi í stað Crouch, og Gerrard verði á kantinum í stað Pennant er vegna þess að við erum að spila á útivelli í Meistaradeildinni. Gerrard er svo miklu öflugri varnarlega en Pennant, en samt öflugur fram á við (þó svo að ég sé alveg sammála því að hann njóti sín lang best á miðjunni) og eins með Bellamy, þá tel ég að það sé gott að hafa hann fyrir framan Kuyt upp á hraðann að gera. Þétta vörnina og spila svo hratt upp á þá Kuyt og Bellamy. Varðandi Garcia vs. Gonzalez, þá held ég einfaldlega að sá fyrrnefndi verði valinn út á reynsluna úr CL.

  12. Finnst að Gerrard eigi að spila á kantinum. Tel að hæfileikum hans sé sóað með því að múlbinda hann á miðjunni. Vona bara að engum detti aftur í hug að láta hann spila sem afturliggjandi miðjumann eins og Sven gerði í sumar.

    Vona að liðið líti svona út
    Reina
    Carrager, Hyypia, Agger, Aurelio
    Gerrard, Sissoko, Zenden, Gonsales
    Kuyt, Garcia

    Vona svo að Benites fari að halda sig við sama liðið. Það tekur mun lengri tíma að spila saman 20 manns heldur en 11-13.

    Svo hefur liverpool.is snarbatnað upp á síðkastið. Afar fátítt að menn séu að kalla menn öllum illum nöfnum eins og kútur eða blámaður eða eitthvað þaðan af verra.

    Áfram Liverpool!

  13. Vegna þess sem Hafliði var að tala um, ég fann þetta:

    Meistaradeildin áfram sýnd á Sýn

    SJÓNVARPSSTÖÐIN Sýn hefur tryggt sér áframhaldandi sýningarrétt á Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu, en samningurinn er til þriggja ára.

    SJÓNVARPSSTÖÐIN Sýn hefur tryggt sér áframhaldandi sýningarrétt á Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu, en samningurinn er til þriggja ára. Samkvæmt upplýsingum frá Sýn mun áskrifendum verða boðið upp á þá nýjung að geta horft á þá leiki sem ekki verða sýndir beint í sjónvarpi, í beinni útsendingu á netinu, og því verða allir leikir Meistaradeildarinnar í beinni útsendingu.

    Sýningar frá forkeppni Meistaradeildarinnar hefjast nú í júlí með beinum útsendingum frá völdum leikjum í forkeppninni. Í fyrstu umferð leika meðal annars Íslandsmeistarar FH gegn eistneska liðinu FC TVMK Tallinn, en sú viðureign mun fara fram þann 19. júlí.

    Strax í ágúst munu stórlið á borð við Arsenal og Liverpool spila leiki en þau þurfa að fara með sigur af hólmi til að komast inn í sjálfa Meistaradeildina. Deildin sjálf hefst 12. september þegar riðlakeppnin fer af stað. Það er spænska stórveldið Barcelona sem ver titilinn þetta árið, en eins og kunnugt er gekk íslenski landsliðsfyrirliðinn Eiður Smári Guðjohnsen í þeirra raðir nýlega.

    Sparkfíklar ættu líka að taka gleði sína með haustinu þegar Meistaradeildin fer í gang. Leikur vikunnar í Meistaradeildinni verður nefnilega í opinni dagskrá á Sýn næsta vetur. Þetta ákváðu forráðamenn UEFA, sem eiga sýningarrétt á leikjum í Meistaradeildinni, að sjónvarpsstöðvar yrðu að gera til að fá að sýna úr deildinni. Markmiðið er að styrkja fótboltann sem íþróttagrein enn frekar með því að markaðssetja hana betur og gefa öllum færi á að njóta hennar.

  14. Áfram Liverpool!!!

    Mitt óskalið í dag væri:

    Reina
    Finnan – Carragher – Agger – Aurelio
    Pennant – Alonso – Gerrard – Sissoko
    Bellamy – Kuyt

    Svo kæmu Garcia og Gonzalez ótrúlega hungraðir inn á í hálfleik, ásamt Crouchinum… en annars væri ég virkilega spenntur yfir því að sjá Gonzalez í heilum leik

  15. Mér fannst Aurelio líka vera úti á túni í sínum staðsetningum á móti Everton.
    Það er erfitt að spá fyrir um hvernig Benni stillir upp, þar sem liðið er líka að spila mikilvægan leik gegn Chelsea um helgina. Ég spái e-s konar varnarsinnaðri uppstillingu, með tveimur framherjum.

    Reina
    Finnan-Carragher-Hyypia-Agger
    Gerrard-Sissoko-Zenden-Aurelio
    Kuyt-Crouch

    Vona samt að Pennant fái tækifæri í byrjunarliðinu, og Gerrard spili inná miðri miðju.

    Kuyt skorar!

  16. liðsuppstillingin birtist reyndar ekki eins og ég hafði hana. skilst samt væntanlega.

  17. ssteini langt frá þessuu :biggrin:

    Team in full: Reina, Finnan, Warnock, Agger, Carragher, Sissoko, Zenden, Aurelio, Pennant, Kuyt, Bellamy. Subs – Dudek, Hyypia, Gerrard, Garcia, Gonzalez, Alonso, Crouch

  18. Byrjunarliðið komið: Team in full: Reina, Finnan, Warnock, Agger, Carragher, Sissoko, Zenden, Aurelio, Pennant, Kuyt, Bellamy. Subs – Dudek, Hyypia, Gerrard, Garcia, Gonzalez, Alonso, Crouch

    Það kemur nú einhverjum á óvart væntanlega, þetta verður fróðlegt í meira lagi. Er ekki hægt að segja að þetta sé varnarsinnað lið með sóknarsinnaðann bekk.

  19. Þakka þér fyrir Gunnar, þetta er nákvæmlega það sem ég var að tala um.
    Svo er bara að sjá hvort Sýnar menn standi við þetta og hvaða leikur er leikur vikunnar.
    Koma svo LFC !

  20. Langt og ekki langt. Warnock í stað Garcia og Pennant í stað Gerrard. Hef nú verið lengra frá því :biggrin:

Sunnudagspælingar

Byrjunarliðið gegn PSV – Gerrard á bekknum!