Jæja við unnum mikilvægan úti sigur gegn Bordeaux í kvöld og er ekki hægt að segja að þessi leikur hafi verið mikið fyrir augað en mikilvæg 3 stig í húsi.
Ég var spurður í dag hvernig þessi leikur færi og var ég eiginlega skíthræddur um við myndum tapa eða í besta falli yrði þetta steindautt 0-0 jafntefli. Þegar ég sá byrjunarliðið þá var ég ánægður með sókndjarfa uppstillingu en nú sem endra nær ekki spenntur fyrir því að sjá Zenden á miðri miðjunni. En já byrjunarliðið var svona:
Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise
García – Zenden – Alonso – Gonzalez
Bellamy – Crouch
BEKKUR: Dudek, Paletta, Warnock, Pennant, Kuyt, Peltier og Sissoko.
Það var klárlega snemma ljóst að Bordeaux var mætt til leiks til að skora mark úr föstu leikatriði. Leikmenn liðsins hrundu niður við minnsta tilefni og reyndu ítrekað að blekkja dómara leiksins. Þeir fengu eitt gullið færi úr föstu leikatriði en boltinn strauk stöngina utanverða eftir að sóknarmaður Bordeaux náði ekki að stýra skallanum að marki. Crouch fékk okkar bestu færi í fyrri hálfeik en náði ekki að setja´ann og raunar var það frekar slappt honum í fyrra færinu en þá tók Bellamy stutta hornspyrnu og gaf síðan góða fyrirgjöf. Boltinn hrökk af leggnum á Crouch eins og borðtenniskúla og framhjá markinu. Annars var þetta frekar daufur fyrri hálfleikur og var ég aðallega að pirra mig á því hve stór munur er á Zenden og Hamann og það sást berlega í leiknum í dag. Af hverju fór ekki Zenden og við héldum Hamann? (djöfull)
Engar breytingar voru gerðar á liðunum í hálfleik og hófst sá síðari með hörku færi Bordeaux-manna. Síðan róaðist leikurinn og gáfu okkar menn lítið færi á sér. Hyypia var grimmur í vörninni og Alonso duglegur á miðjunni en frammi gekk illa hjá Crouch og Bellamy að ná boltanum niður til að tengja betur saman sókn og miðju. En síðan kom vel uppbyggð sókn hjá okkur, Garcia var hægra megin í vítateignum með boltann, sólaði varnarmann Bordeaux og skaut góðu skotu að marki sem markvörður þeirra varði. Gonzalez náði boltanum á vinstri kantinum, gaf fyrir góða fyrirgjöf sem endaði með horni. Hornið tók hinn knái Bellamy og hitti hann beint á kollinn á Crouch sem stangið boltann á beint markið – beint inn! Annað markið í röð úr horni (hvað tókum við mörg áður?) 0-1.
Bordeaux tók á það ráð að skipta inn sínum varamönnum smátt og smátt og breyttu þeir gangi leiksins töluvert fyrir þá en einnig varamennirnir okkar þeir Kuyt, Sissoko og Warnock. Það sást vel hversu mikilvægir þeir Sissoko og Kuyt eru okkur því þeir komu með mikið jafnvægi inní leik liðsins og loksins var kominn framherji sem tók boltann niður, skýldi honum vel og gat snúið sér við. Reyndar var Warnock næstum búinn að gera út um leikinn með frábærum einleik en slakt skot hans beint í fætur markmansins kom í veg fyrir eftirminnilegt kvöld hjá honum.
Bordeaux sótti töluvert í lokinn og áttu eitt hættulegt færi úr föstu leikatriði (ekki ósvipað því í fyrri hálfeik) en heilt yfir stóð vörnin sig vel í kvöld með Hyypia í toppformi. Við loksins skoruðum og unnum á útivelli! Ég fer samt ekki kokhraustur á Old Trafford á sunnudaginn kemur heldur vona að allt gangi upp og við stelum sigri…
Maður leiksins er ekkert sjálgefið. Varamennirnir Kuyt og Sissoko kom vel inní leikinn en Hyypia sýndi í kvöld að hann er gæða leikmaður sem á ennþá 1-2 ár eftir hjá Liverpool. Hann er minn maður leiksins.
Núna er bara að vona að Sissoko, Kuyt og Gerrard séu 110% klárir í leikinn gegn Man U á sunnudaginn… djöfullinn verið verðum að spila betur en í kvöld til að vinna þar!
Sammála með mann leiksins. Liðið var ekki sannfærandi en Hyypia var flottur í vörninni.
Zenden er ekki góður.
Jæja, þá er maður loksins búinn að horfa á þennan leik. Betra er seint en aldrei …
Þetta var baráttusigur, rétt eins og ég spáði í upphituninni í gær. Þar sagði ég að Rafa myndi leggja kapp á að halda hreinu og ná svo að lauma inn einu eða tveimur til að sigra leikinn og það gekk eftir.
Okkar menn léku í raun ekkert vel í þessum leik en höfðu þó yfirhöndina allan tímann, sem sýnir vel getumuninn á þessum liðum. Ef okkar menn ná að leika þó ekki sé nema sæmilega á Anfield eftir hálfan mánuð munu þeir vinna stærri sigur en í kvöld.
En allavega, þetta var fyrsti útisigurinn í öllum keppnum á þessu tímabili og það var mikilvægt, auk þess sem Reina náði að halda hreinu sem er gott fyrir sjálfstraustið. Þetta var langt því frá klassísk frammistaða en á þessu má byggja til framtíðar og nú er það undir okkar mönnum komið að tímabilið lendi ekki í öðru neyðarstoppi á sunnudaginn.
Hyypiä var góður í kvöld, okkar besti maður ásamt Carra og Finnan, auk þess sem Sissoko og Kuyt áttu góðar innkomur. Gonzalez og García voru góðir framan af, sem og Bellamy, en þeir týndust í seinni hálfleik á meðan Crouch óx ásmegin eftir því sem leið á. Alonso og Zenden voru ekkert spes í kvöld en höfðu þó stjórn á miðjunni allan leikinn. Riise hefur átt betri leiki. En eins og ég sagði, lengi má á góðum grunni byggja og þetta er gott veganesti inn í leikinn á Old Trafford.
Nokkuð sammála þessu mati á leiknum, nema mér finnst Kristján full daufur í lýsingu sinni á John Arne Riise. Mér fannst sá drengur hreint út sagt skelfilegur í leiknum. Hef séð hann sem einn af þessum sem sjaldan klikka og eiga hörmulega leiki, en í gær var hann bara gangandi stórslys varnarlega og hafði ekki Guðmynd sóknarlega. Einn versti leikur hans í rauðu treyjunni.
Annars bara frábært að ná loksins útisigri og vonandi er þetta það sem koma skal (ekki spilamennskan, heldur stigasöfnunin).
Frábært að vinna þennan leik gegn einhverju ömurlegasta liði allra tíma.
Að lið í CL skuli spila svona aumingjabolta er alveg fáránlegt.
Hyypia var mjög góður. Þá skoraði Crouch gott mark og frábært að við skulum vera farnir að setja hann úr föstum leikatriðum.
Það að geta sett menn eins og Kuyt og Sissoko inn á er náttúrulega meiriháttar
Ég er alveg handviss um að við vinnum leikinn á laugardaginn. Þessi útisigur hefur alveg örugglega lyft andanum í liðinu og menn koma sem grenjandi ljón í næsta leik.
Áfram Liverpool!
Já þetta Bordaeux lið var víst ekki eins léttleikandi og ég taldi. Þetta minnti helst á æfingaleik á undirbúningstímabili. Sérstaklega þar sem engar auglýsingar voru á treyjum okkar manna. Carlsberg menn líklega ekkert of ánægðir með það. Miðjan var mjög slök hjá okkur og væntanlega verður að skrifa það á Zenden. Hann er ekki nógu góður til að vera hjá Liverpool. Hefði frekar haldið Smicer. En svo sem allt í lagi þar sem hann er fjórði maður og hinir þrír mjög sterkir. Miðað við það hvernig Manu eru að leika þessa daganna og Rooney að komast í sitt besta form verður þetta erfitt nema einhver alvöru stemning nái að myndast.
Getur einhver sagt mér af hverju liðið spilaði ekki með Carlsberg framan á treyjunum?
Sá einhverstaðar að áfengisauglýsingar á íþróttabúningum í Frakklandi eru bannað skv. landslögum. Þess vegna vorum við ekki með auglýsingu í leiknum.
Verð að tuða aðeins yfir dómara leiksins. Að hann hafi sífellt dæmt á leikaratilburði heimamanna. Jú, Zenden á ekkert heima í þessu liði, Riise og Reina voru frekar ótraustir líka. Annars fábært að hafa sigrað þetta ömurlega lið.
Nú verð ég að minnast aðeins á þulina í gær. Heimir (var það ekki annars Heimir Guðjóns) byrjaði að væla yfir svæðisvörninni hjá Lpool í uppsettum atriðum. Minntist á þetta strax og það varð smá hætta inní teignum.
Það sem svona menn vita eflaust ekki er að Liverpool er besta liðið í deildinni að verjast uppsettum atriðum. Fengum á okkur fæst mörk úr uppsettum atriðum allt síðasta tímabil á Englandi. Þessi fáviska manna fer stundum í mig.
Ég legg til að menn fari virkilega að skoða öll mörk úr uppsettum atriðum (öll lið) og skoði hvað klikkaði. Það er þvílíkur fjöldi af skallamörkum um hverja helgi og nánast öll þeirra koma til vegna þess að maður-á-mann vörnin er að klikka, menn að missa af sínum mönnum. Aldrei heyrir maður menn vera að kvarta yfir þessu kerfi.
Jæja, þá er ég búinn að ‘venta’ smá. :tongue:
Að gefnu tilefni; hver var þessi númer 28?
Miðað við tilþrifin og staðsetningarnar velti ég fyrir mér hvort við séum að sjá nýjasta sköpunarverkið hans Benitez – miðjumanninn Warnock?
Mér hefur sýnst vandamál Warnock vera að hann hefur ekki nægilega sterkar taugar til að njóta sín í öftustu línu þar sem mistökum er refsað harðlega. Hann gæti auðveldlega blómstrað ef þeirri pressu er létt af honum með því að spila á miðjunni með vörnina fyrir aftan sig. Zenden er klárlega ekki málið.
p.s. ekki taka þessar pælingar of alvarlega samt, verðum að sjá aðeins meir en þessi einu tilþrif.
Seðill: Ég styð þetta… Warnock er upphaflega miðjumaður og spilaði sem svo upp öll unglingalið LFC. Hann er klárlega skárri kostur en Zenden… ÁVALLT.
Sammála Johnny H. með svæðisvörn. Heyrði enska lýsingu og þar var einmitt talað um að einhver hefði náð skalla á mark Liverpool “út af svæðisvörninni”. Voðaleg meinloka er þetta í knattspyrnu”spekingum”. Bellamy var dauðafrír í markinu á móti Blackburn – hvar var umfjöllunin um að maður á mann vörnin væri vafasöm?
Sammála ykkur með Warnock. Mér hefur aldrei þótt hann nógu traustur sem varnarmaður. Ég hef alltaf miklu frekar litið á hann sem ágætis kantmann. Man t.d eftir leiknum gegn Newcastle í fyrra þar sem hann átti stórleik í stöðu “wingback”. Spurning um að gefa honum nokkra leiki á kantinum – eða jafnvel miðjunni. Ég hafði bara ekki hugmynd um að hann gæti spilað þar.
Áfengisauglýsingar bannaðar á íþróttabúningum í Frakklandi er sjokkerandi staðreynd. Sérstaklega í ljósi þess að Frakkarnir drekka rauðvín frá blautu barnsbeini og eru rakir meira og minna allt sitt líf 🙂
En flottur sigur, vinnum manjú 0-1 Carra með skalla!
Ég er sammála allflestu sem komið hefur fram um frammistöðu leikmanna í þessum leik fyrir utan þá aftöku á Zenden sem margir pósta hér inn. Hárrétt að hann átti einn sinn lélegasta leik í dag. Ég held að menn verði hinsvegar að líta á það að Zenden hefur ekki spilað ýkja marga leiki á þessu tímabili frekar en því seinasta þegar hann sleit krossbönd í byrjun tímabils og spilaði nánast ekkert. Zenden hefur mjög gott auga fyrir spili, hann er leikinn og fljótur leikmaður með mikla reynslu. Zenden þarf (eins og flestir leikmenn) að fá að spila reglulega til þess að sýna sitt rétta andlit, sem er eflaust eitthvað sem hann á ekki eftir að fá möguleika á m.v. samkeppnina á miðjunni hjá LFC :confused:
Sammála þessu með svæðisvörnina. Óþolandi þegar hinir svokölluðu “fótboltaspekúlantar” eru alltaf að kenna svæðisvörninni um þegar andstæðingar Liverpool eru eitthvað nálægt því að komast í boltann. En svo hrósa þeir Hyypia fyrir að ná að skalla allar þessar horn- og aukaspyrnur frá en átta sig ekki á því að það er einmitt svæðisvörninni að þakka því að eins og hún er sett upp þá eru okkar sterkustu skallamenn settir þar sem boltinn er líklegastur til að lenda og skapa mesta hættu.
Fridrik: ég er ekkert ósanngjarn þegar ég segi að Zenden er einfaldlega ekki nógu góður fyrir okkur. Hamann var frábært back up og munum við líklega gjalda fyrir það að hafa misst hann í vetur.