Smásól í niðamyrkri …

Þið verðið að fyrirgefa, en ég einfaldlega gat ekki hugsað mér að hafa þessa leikskýrslu og Scholes fagnandi efst á síðunni lengur en einn dag. Sunnudagurinn er feykinóg fyrir slíka hörmungarsjón, þannig að mig langaði til að leyfa einhverju öðru að taka á móti lesendum síðunnar þegar þeir vakna og “fara hringinn” á netinu í fyrramálið.

Ef við gleymum umræðunni um lélegt gengi hingað til í smástund, þá langaði mig til að varpa fram smá framtíðarspá. Liðið okkar hefur verið að spila mjög illa á útivöllum í Úrvalsdeildinni það sem af er tímabili, en það vekur athygli mína að fram að jólum mun liðið aðeins spila fjóra útileiki í Úrvalsdeildinni, á meðan það spilar heila sjö heimaleiki á sama tíma. Þá vekur það einnig athygli mína að af þessum fjórum útileikjum eru þrír gegn liðum í neðri hluta deildarinnar og sá fjórði gegn Arsenal, en þá verðum við líka búnir með fimm erfiðustu útileikina á öllu tímabilinu í miðjum nóvember.

Leikirnir sem eru framundan fram að jólatörninni líta svona út:

Reading (deildarbikar) – heima
Aston Villa (Úrvalsdeild) – heima
Bordeaux (Meistaradeild) – heima
Reading (Úrvalsdeild) – heima

Arsenal (Úrvalsdeild) – ÚTI
M’brough (Úrvalsdeild) – ÚTI

PSV (Meistaradeild) – heima
Man City (Úrvalsdeild) – heima
Portsmouth (Úrvalsdeild) – heima

Wigan (Úrvalsdeild) – ÚTI
Galatasaray (Meistaradeild) – ÚTI

Fulham (Úrvalsdeild) – heima

Charlton (Úrvalsdeild) – ÚTI

Watford (Úrvalsdeild) – heima

Þetta eru leikirnir okkar frá og með deginum í dag og fram til Þorláksmessu, þegar okkar menn taka á móti Watford. En af hverju er ég að þylja þetta upp, spyrja menn kannski?

Jú, af ákveðinni ástæðu. Okkar menn hafa staðið sig vel á útivelli í Meistaradeild allt síðan Benítez tók við, þannig að ég hef ekki miklar áhyggjur af útileiknum gegn Galatasaray. Auk þess bendir margt til að okkar menn geti jafnvel verið búnir að tryggja sér sigur í riðlinum áður en að þeim leik kemur.

Þá eru eftir þessir fjórir útileikir í deildinni. Arsenal, Middlesbrough, Wigan og Charlton.

Við höfum fjóra heimaleiki áður en kemur að leiknum við Arsenal og að mínu mati ætti aðeins einn þeirra að vera tvísýnn. Aston Villa hafa ekki enn tapað leik í deildinni og eru sem nýtt lið undir stjórn Martin O’Neill, og því er erfitt að þykjast öruggur um sigur í þeim leik en við ætlum okkur það nú samt á Anfield. Sigur í hinum þremur leikjunum – tveimur gegn Reading og einum gegn Bordeaux – er algjör skylda og að mínu mati væri allt annað skandall. Þannig að liðið er í ansi góðum séns á að ná fjórum sigurleikjum í röð á Anfield áður en það heimsækir Arsenal.

Með öðrum orðum, þá ætti liðið að geta í fyrsta sinn í vetur farið í útileik með blússandi sjálfstraust.

Nú, gangi leikurinn gegn Arsenal vel (jafntefli eða sigur, bara ekki enn eitt kraftlausa helvítis tapið) og haldi liðið áfram á sigurbraut á heimavelli er ég nokkuð bjartsýnn á að Middlesbrough, Wigan og Charlton ættu ekki að vera mikil fyrirstaða. Það er getumunur á þeim þremur liðum og okkur, og þótt auðvitað geti allir unnið alla í Úrvalsdeildinni þá ætlum við okkar mönnum að vera komnir á nógu gott skrið til að klára allavega tvo af þessum þremur útileikjum með sigri, rétt eins og í fyrra.

En sem sagt, um jólin hefst svo örlítið erfiðara prógram þar sem liðin í efri helmingnum koma hvert á fætur öðru í heimsókn á Anfield en fram að því eru fjórtán leikir, þar af níu á heimavelli, og því finnst mér ekkert til of mikils ætlast að liðið sé taplaust fram að jólum og búið að vinna jafnvel tíu leiki af fjórtán á þessum tíma.

Hvað finnst mönnum? Útileikjahrinan gegn erfiðum liðum er búin í bili, er ástæða til smá bjartsýni mitt í þunglyndinu vegna þeirra leikja sem eru framundan? Eða er Rafa aumingi og þessir leikmenn ekki hæfir til að vinna B-lið Gróttu? Endilega … ræðum eitthvað annað en þennan djöfuls viðbjóð sem undanfarnar vikur hafa verið.

24 Comments

  1. Já þetta hljómar ágætlega. Hef fulla trú á þessu liði undir Benitez. Deildin er líka frekar jöfn þetta árið og toppliðin munu öll missa stig.
    Vonandi erum við bara búnir með okkar down-kafla en hin liðin ekki. Man united eiga alltaf sinn down-kafla en er verst að chelsea vinna öll lið á sínum kafla.
    Annars fínn pistill og ekki öll nótt úti enn….

    …vonandi

  2. “Þannig að liðið er í ansi góðum séns á að ná fjórum sigurleikjum í röð á Anfield áður en það heimsækir Arsenal.”
    Ég er bara ekki sammála þessum hugsanagangi. Liðið þarf að taka einn leik í einu og fara í hann til að vinna. Sama gegn hverjum! Ekki eithvað að taka fjóra sigra gegn lakari liðum með það fyrir eitt að augum að fara með sjálfstraust gegn Arsenal.
    Jújú, það er auðvitað frábært að vinna stóru leikina en hver einasti sigur gefur þessi helvítis þrjú stig sem í boði eru.
    10 sigrar í 14 leikjum og eitthvað álika kjaftæði, förum bara í næsta deildarleik til að valta yfir andstæðinginn sama hver hann er (næstum því).

  3. “Þannig að liðið er í ansi góðum séns á að ná fjórum sigurleikjum í röð á Anfield áður en það heimsækir Arsenal.”
    Ég er bara ekki sammála þessum hugsanagangi. Liðið þarf að taka einn leik í einu og fara í hann til að vinna. Sama gegn hverjum! Ekki eithvað að taka fjóra sigra gegn lakari liðum með það fyrir eitt að augum að fara með sjálfstraust gegn Arsenal.
    Jújú, það er auðvitað frábært að vinna stóru leikina en hver einasti sigur gefur þessi helvítis þrjú stig sem í boði eru.
    10 sigrar í 14 leikjum og eitthvað álika kjaftæði, förum bara í næsta deildarleik til að valta yfir andstæðinginn sama hver hann er (næstum því).

  4. Þið virðist draga fram næstu leiki eftir hverja einustu hörmung hjá liðinu og ræða um að nú hljóti betri tíð að vera framundan.

    Ég er ekki sannfærður vegna þess að maður hefur heyrt þetta of oft. Fyrst með Evans, svo með Houllier og svo með Benitez.

    Ég ber mikla virðingu fyrir Benitez útaf titlunum undanfarin ár en mér finnst hann vera að tapa sér í þrjósku á leikkerfi umfram leikmenn. Oft hefur verið sagt að hann sé ekki mikill man-manager og það sést mjög vel á liðinu; enginn er öruggur með stöðuna sína og því bullandi ósjálfstraust í sendingum, skotum og hlaupum í eyður.

    Sammála að Crouch eigi að byrja hvern einasta leik, ekki þurfa Rooney, Drogba né Henry að hafa áhyggjur af bekknum ef þeir eru heilir. Ég verð hins vegar að benda á að stærsti galli liðsins í dag er stór og sterkur strákur á miðjunni.

    Momo Sissoko hefur marga sterka punkta, en skynsemi í spilamennsku er ekki einn af þeim. Man Utd. voru ekki lengi að koma honum á gult spjald og þá var búið að taka bittennurnar úr honum. Svo einhverra hluta vegna er hann sá sem er orðnn leikstjórnandinn á miðjunni í stað Xabi og Gerrards með ábyrgð á að spila boltanum framávið. Það tekur lengri tíma en að bíða eftir strætó að Momo taki ákvörðun um hvert boltinn eigi að fara og sendingarnar hjá honum eru langt frá því að vera í gæðaflokki toppliðs.

    Sjáið miðjuna hjá andstæðingunum í gær. Scholes, Carrick, Giggs léku sér að Momo. Þó að einhverjir boltar hafi tapast hjá þeim var þó einhver tilgangur með sendingunum þeirra. Ef við berum hann saman við önnur miðjubuff þá er Gravesen t.d. með sendingargetu Cruyffs miðað við strákinn okkar.

    Strákurinn er efnilegur en út með hann á æfingasvæðið, sýnum honum myndbönd með Makelele og segjum honum að halda sig ALLTAF fyrir aftan miðju og koma boltanum ALLTAF á næsta mann. Spila upp á styrkleika sína eins og snillingurinn hjá Chelsea. Leyfum Gerrard að koma inn á miðjuna og stjórna leiknum. Finnum sterkasta liðið og höldum okkur við það. Þangað til erum við í bullandi meðalmennsku og það er engum nema Rafael Benitez að kenna.

    Það er ekkert gaman af 11-12 leikja sigurgöngu ef það þarf alltaf að skíta upp á bak áður en hún byrjar.

  5. Sissoko er kannski orðinn helsti leikstjórnandinn, vegna þess að Xabi Alonso dregur sig alltof mikið til hlés. Xabi er hvoki góður í að verjast né sækja, og hvers vegna er þá Benitez að byggja allt í kringum hann? Nú þegar Sissoko hefur tekið við leikstjórnendahlutverkinu líka, er ekki mikið með Alonso að gera. Alonso hefur verið helsti dragbítunum í slöku gengi liðsins, undanfarið. Nei, Alonso áttu gott tímabil í fyrra, en ég er samt ekki frá því að spænski boltinn henti honum betur. Miðjuspilið sem maður hafði talið styrkleika Liverpool gegn ManUtd. Þeir völtuðu yfir miðjuna hjá okkur, kannski vegna þess að Alonso, Sissoko ofl voru alltaf að gefa þeim boltann

  6. Það er ansi auðvelt að spila á móti Liverpool. Menn leyfa einfaldlega Sissoko eða Carragher að koma upp með boltann og pressa í staðinn Alonso og Gerrard. Það er ekkert skrýtið að sóknin sé bitlaus. Þetta er mjög erfitt núna þegar allir eru að spila illa. Það þarf einhver að komast í gang í næsta leik og smita út frá sér. Sjálfstraustið er ekkert frá Reyna til framlínunnar.

  7. Eigum að vinna alla leikina nema kannski Arsenal ! Ætli þetta verði ekki þannig að við vinnum þá og töpum hinum 😡

    Djöfull getur liðið komið manni á óvart þessa dagana og andskoti er liðið orðið slappt ! Það er einsog menn geti bara ekki spilað boltanum innan liðsins í meira en 5-10 mínútur í senn… Lið einsog Bolton virðist vera orðið heimsklassa lið á móti okkur sem og litla bláa örverpið í Liverpool.

    Sammála flestum hér inni að prófa breyta liðinu EKKI á milli tveggja eða fleiri leikja.

    Varðandi leikinn á móti manure þá þarf að fá annan dómara til leiks…. Graham fokking Poll er ekki hlutlaus dómari ! Carrick hefði átt að fá gult ef ekki annan lit í þessum leik þar sem að hann braut meira af sér en Sissoko sem dæmi….

    Læt þetta nægja í bili

    og já, afsakið blótsyrðin :blush:

  8. Sko. Ég er búinn að segja þetta lengi sem Daði var að segja, að Sissoko KANN ekki fótbolta.

    Ég er hins vegar ósammála því sem Daði segir um Alonso, mér finnst hann hafa verið sá eini í liðinu oft á tíðum sem hefur sigurvilja undanfarna leiki. Gegn Blackburn fannst mér hann skárstur og honum langaði að vinna. Ekki vill Gerrard vinna, og það er ekki fræðilegur að það sé útaf hann er ekki að spila sína stöðu. Hann var frábær á síðasta tímabili í þessari hægri kant, free role stöðu.

    Einhver leikmaður verður að fara í gang, Rafa að mótivera menn rétt fyrir leik svo þeir komi brjálaðir til leiks. Vantar allt ‘killer-instinct’ og baráttu í liðið.

    Hafa Alonso og Gerrard á miðjunni í nokkrum leikjum í röð og leyfa þeim að spila sig saman, hafa Speedy á vinstri kantinum þar sem ég held að hann eigi eftir að verða frábær þegar hann er búinn að venjast enska aðeins. Crouch, Kuyt og Bellamy geta svo róterað strikera stöðunum.

    “At the end of the storm There’s a golden sky” – YNWA!!!

    Ég held að við getum ekki komist neðar – leiðin liggur upp á við núna :blush:

  9. Sammála með Sissoko, hann er einfaldlega ekki með nógu góða boltameðferð né sendingagetu. Held að það sé ráð að prófa Alonso og Gerrard á miðri miðjunni í næstu leikjum. Annars finnst mér kominn mikil Houllier-lykt af Rafa.

  10. Sælir

    Hingað til hafa óskir/spár stjórnenda/pistlahöfunda þessarar síðu um úrslit næstu leikja ekki ræst(því miður). Þið eruð einfaldlega ekki mjög getspakir(fyrirgefið leiðindin).

    9. sept spáði Kristján Atli þessu:
    Everton á útivelli í Úrvalsdeild.
    PSV á útivelli í Meistaradeild.
    Chelsea á útivelli í Úrvalsdeild.
    Persónulega myndi ég vilja sjá sigur gegn Everton og jafntefli gegn PSV og Chelsea. Það kemur einfaldlega ekki til greina að tapa báðum þessum deildarleikjum. Ekki séns. Þrjú jafntefli væru ekki nein afhroð, en ég vonast eftir að sjá sigur gegn Everton, jafntefli/sigur gegn PSV og jafntefli gegn Chelsea. Ef það gengur eftir verð ég meiriháttar ánægður eftir tvær vikur.

    10. október spáði SSteinn þessu:
    14. okt. Blackburn heima (EPL): 3 stig takk.
    18. okt. Bordeaux úti (CL): 3 stig takk.
    22. okt. Manchester United úti (EPL): 1 stig.
    25. okt. Reading heima (CC): Sigur.
    28. okt. Aston Villa heima (EPL): 3 stig takk.
    31. okt. Bordeaux heima (CL): 3 örugg stig.
    4. nóv. Reading heima (EPL): 3 stig takk.
    12. nóv Arsenal úti (EPL): Segjum 1 stig og yrði ég sáttur með það.
    18. nóv. Middlesbrough úti (EPL): Kærkomin 3 stig.
    22. nóv. PSV heima (CL): 3 stig takk.
    Ég spái því að við töpum engum af næstu 10 leikjum takk fyrir.

    Ég legg til að þið spáið Liverpool tapi næstu 10 leikjum og sjáum síðan hver niðurstaðan verður 😉

    Hvað varðar slakan árangur Liverpool sem af er tímabilinu þá spilar margt inn í.

    1) Vörnin okkar sterkasti hlekkur síðustu 2 tímbili er í dag okkar stærsta vandamál. LFC eru búnir að fá á sig 16 mörk í 15 leikjum (meistara og deild), þetta er einfaldlega ekki nógu gott. Vissulega hafa mistök Reina ekki hjálpað til. Liverpool verður að byrja á því að stoppa upp í götin. Að halda hreinu er 1 stig og síðan byggja menn ofan á það.

    2) Jafnvægi á miðjuna vantar, lykilmenn á miðjunni voru lengi í gang (Alonso) eða eru ekki komnir í gang (Gerrard). Það munar um minna þegar breiddin á miðjunni er ekki meiri en hún er.

    3) Sóknarleikur LFC er allt of hægur og fyrirsjáanlegur. Það vantar upp á bitið fram á við og þessir háu boltar frá vörninni koma engum á óvart(það er bara eitt lið sem nær árangri með svoleiðis spili það er Bolton). Agger hefur það fram yfir Carra og Hyypia að hann getur borið boltan upp frá vörninni og byggt þannig upp sóknarspil. Einnig mættu bakverðir okkar vera duglegri að sækja þá sérstaklega Finnan. Það er mun erfiðar að verjast liði sem sækir á bakvörðunum, þannig losnar líka oft um kantmennina.

    Annars hitti einare naglan á höfuðið í gær ” Sumarkaupin eru greinilega ekki að skila sér enda mátti setja spurningamerki við þau öll nema Kuyt. Kannski endurspegla þau bara árangurinn þar sem af er, kaup á miðlungsleikmönnum hljóta að búa til miðlungslið”. Nákvæmlega þetta hefur verið að angra mig, við erum að detta í sama pakka og á Húlla tímabilinu þ.e. að safna miðlungsleikmönnum til að auka breiddina í hópnum í stað þess að kaupa gæða leikmenn sem eru betri en þeir sem fyrir voru. Leikmenn sem gera liðið betra en það var árið áður.

    Gott dæmi eru kaupin á Pennant, sem að mínu mati er langt frá því að vera nógur góður til að bæta liðið og gera það að líklegum deildarmeisturum. Það er engin tilviljun að besti þjálfari í heiminum í dag (Wenger) hafði ekki trú á honum. Áður er Pennant var keyptur reyndum við að fyrst að kaupa Figo (valdi Inter í staðin) síðan Simoa, þar næst Alves (báðir 1-2 millj of dýrir að mati Liverpool) og svo var reynt að fá Duff en hann valdi Newcastle (ótrúlegt). Eftir að hafa reynt að kaupa 4 klassa kantmenn þá var ákveðið að leggja árar í bát og fá til liðsins Pennant fyrir heilar 6,7 millj, sem að mínu mati eru 2 milljónum of mikið fyrir leikmann í hans gæðaflokki.

    Ef Liverpool ætlar sér deildartitilinn á næstu árum verða þeir að byrja á því að bæta gæði þeirra leikmanna sem keyptir eru.

  11. Ef men vilja endilega bera Rafa og Wenger saman þá verða menn að taka allt inn í myndina. Það er ekki eins og Wenger hafi verið að kaupa einhverja stórstjörnur, hann hefur verið að kaupa óþekkta leikmenn fyrir litlar upphæðir. Hann hefur sjálfur sagt að hann ætli ekki að láta draga sig út í þessa vitleysu sem einkennir leikmannamarkaðinn (Þetta er nákvæmlega sama stefna og hjá Liverpool). Á þeim TÍU árum sem hann hefur verið stjóri hjá Arsenal hefur hann aðeins skilað fjórum titlum, tveimur í deild og tveimur FA. Á sínum stutta tíma hjá LFC hefur Rafa skilað þremur, CL-FA og deildarbikar. Ég er handviss um að ef Rafa fær tíu ár hjá LFC að titlarnir verði mun fleiri en hjá Wenger. Hversu mörg ár var Ferguson við stjórnvölin hjá ManUtd áður en titlarnir skiluðu sér? Chelsea er náttúrulega einstök stærð í þessu, þeir bara kaupa þá sem þeir vilja og hafa efni á að hafa toppklassa leikmenn á bekknum.

    Varðandi sumarkaupinn hjá Rafa þá finnst mér full gróft að segja að Kuyt sé eini leikmaðurinn sem eitthvað vit er í. Að mínu mati eiga Bellamy, Gonzales og Palleta eftir að nýtast vel í framtíðinni.

  12. Bjarki Wenger er búinn að vinna deildina 3 sinnum og FA bikarinn 4 sinnum = 7 titlar, á 9 heilum tímabilum, þó að ég haldi ekki með Arse þá er þettta ansi góður árangur. Vil koma með stuðnings yfirlýsingu, áfram Benitez í góðu lagi að rótera……en bara ekki svona mikið áttum að byrja að spila nýju leikmenninna rólega inní liðið í byrjun tímabils, tel að þetta hafi verið of mikklar breytingar á liðinu í sumar. Er sammála því að ákveðnir menn eigi að vera þungamiðja í þessu liði og eigi að spila alla leiki nema þeir séu meiddir, svo má auðvitað hvíla þá gegn slakari liðum……….eru reyndar ekki mörg lið í deildinni slakari en við í augnablikinu :confused:. en nú er bara að sparka í rassgatið á sér og finna leikgleðina (sáuð þið hvað SG var glaður:rolleyes: á móti MU) og fara að hala inn stigin.
    Svo kerfst ég þess að Ssteinn komi með einn góðan kaldhæðinn og skemmtilegan pistil.
    Golden sky.
    YNWA

  13. Í vinnunni minni er oft notaður frasinn “það er auðvelt að verða ríkur í Excel”. Þetta þýðir auðvitað miðað við ákveðnar forsendur er allt hægt, spurningin er bara hvaða forsendur og hversu raunhæfar þær eru.

    Ég vil sem minnst um framhaldið segja því mér finnst ómögulegt að ráða í það. Í fyrra var ákveðið lánleysi ríkjandi í leik liðsins en spilamennskan var góð. Í haust hefur mér fundist liðið einfaldlega lélegt og lykilmenn að klikka. Ég vona að Rafa kippi þessu í liðinn.

    Annars er ég nokkuð sáttur þessa dagana þar sem ég er á leiðinni á Anfield að sjá okkar menn spila við Bordeaux eftir viku. Það verður bara gaman 🙂

  14. Af Fótbolti.net:

    Margt bendir til þess að íslensku landsliðsmennirnir Ívar Ingimarsson og Brynjar Björn Gunnarsson muni leika saman í miðri vörn Reading gegn Liverpool á útivelli í enska deildabikarnum á miðvikudaginn.

    Við hljótum þá að vinna þennan leik. Og þó…

  15. Ég held ennþá í vonina um að ástandið núna sé svipuð lægð og liðið var í um svipað leyti fyrir ári síðan. Allir vita svo hvað gerðist skyndilega þá, 10 sigurleikir í röð og ekkert mark fengið á sig í ég veit ekki hvað mörgum leikjum. Ég vona að sagan endurtaki sig.

    Hvort það sé einfaldlega of seint í rassinn gripið núna, varðandi það að ná toppliðunum skal ósagt látið, en það myndi örugglega fleyta okkur upp í 3-4 sæti og þá er ástandið strax orðið betra.

    Það væri geysilega svekkjandi að “tapa” deildinni strax í október, annað árið í röð ….

  16. Ég tek undir með Krizza hér að ofan. Það sorglegasta er að leikmannakaup að undanförnu hafa einkennst af meðalmennsku. Við losum okkur við varamenn og kaupum varamenn í staðinn. Af hverju kaupum við ekki menn sem ganga pottþétt inn í liðið. Kuyt er ljósið í myrkrinu að mínu mati.

    Mig langar svo að taka undir með greinarhöfundi sem Andri Fannar benti á að ofan. Þessar tvær setningar segja annsi margt.

    “Embarrassing. Even Darren Fletcher looked good.”
    Eitthvað það ömurlegasta sem ég hef upplifað með Liverpool.

    “There?s no leadership on the field, and Gerrard?s captaincy this season has been nothing short of non-existant. He?ll have a moan if he doesn?t like the pass he?s been given, but that?s all he?s doing. No encouragement, no rallying the troops, nothing. He?s playing for himself, not the team, but he isn?t the only one.”
    Sorglegt en satt. Öll líkamstjáning þessa dáða fyrirliða okkar segir allt sem segja þarf.

    Ég vil svo benda á að vörnin okkar var hræðileg í síðasta leik. Að mínu mati er hlutverk varnarmanna að vera grimmir að komast “framfyrir” sóknarmennina og hindra að þeir fái boltann. Hvernig Rooney og Saha gátu fengið boltann trekk í trekk og snúið sér við er eitthvað það ömurlegasta sem ég hef séð hjá vörninni lengi lengi.

    Jæja nú er bara að ná fjórða sætinu. Ég held að það verkefni eitt og sér sé alveg nógu stór biti að kyngja í augnablikinu.

    Áfram Liverpool!

  17. Hver er að drulla yfir Sissoko ??

    Ég vil finna hinn sama á torgi hins himneska friðar……….

    Sissoko er sá sem tengir saman vörn og miðju … svona svipað og Hamann gerði í “the old days” … og það er von mín að Sissoko taki algjörlega við hlutverki hans!

    Hvað er málið… greinilega eigum við erfitt með að hefja hvert tímabil en vonin er sú að klára það með stæl einsog vanalega !

    Við munum enda í öðru til 1. eða löndum öðrum eins titli og enska úrvalsdeildin skilar af sér……..YNWA

    there is a sky in the end of something……!

  18. Ég er ósammála því að kaupin í sumar (eða “að undanförnu” – áttu þá við Agger og Gonzalez líka?) hafi öll verið á meðalmönnum. Bellamy er mjög góður (sýndi það í fyrra) og virðist vera farinn að finna sig hjá liðinu, var óheppin að meiðast fyrir United leikinn.

    Palletta, hefur hann eitthvað fengið að spreyta sig? Að minnsta kosti vafasamt að dæma hann strax. Aurelio hefur spilað betur en margir af þeim gömlu nú í upphafi móts (t.d. Gerrard, Carragher og Hyypia)

    Pennant er eini maðurinn sem ég hef verið ósáttur með hingað til, en hann gæti alveg átt eftir að rétta úr kútnum.

  19. Áður en menn fara að tapa sér í að gagnrýna spádómshæfileika okkar síðuhöfunda, má ég [benda á þennan pistil](http://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/11/06/15.46.11/) sem ég skrifaði 6. nóvember í fyrra. Þar spurði ég:

    >Er nokkuð til of mikils ætlast að við vinnum alla þessa leiki? Þá ættum við að vera með 10 leiki unna í röð. Er ég óhóflega bjartsýnn? Sérstaklega ætti þetta að líta vel út ef við náum að klára Real Betis. Þá gætum við einbeitt okkur algjörlega að ensku deildinni og ég er sannfærður um að við gætum klárað þetta prógramm.

    Guess what? Við unnum þessa leiki. Og það sem meira er, sigurgangan byrjaði eftir að við töpuðum í deildarbikarnum [gegn Crystal Palace](http://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/10/25/20.53.12/).

    Eftir þann leik þá náði Liverpool sér virkilega á flug og lék á köflum frábæran fótbolta – og var með besta árangurinn í ensku deildinni fram til vorsins.

  20. Vargurinn. Sissoko er vissulega góður í að tengja saman vörn og miðju en þegar kemur að öðru er hann vægast sagt takmarkaður. Hamann átti það þó til í að skora eitt og eitt mark og leggja upp.
    Hvað hefuru séð Momo eiga margar stoðsendingar á aðra leikmenn eða valda einhverri hættu upp við mark andstæðinganna með annaðhvort sendingum eða skotum?

    Sendingahlutfall Momo er örugglega ca. 20-30% ef ekki minna.

  21. Guðmundur – jú kaupin á Agger lofa góðu. Ekki spurning. Hann er samt ekki orðinn eins góður og Hyppia þegar hann var upp á sitt besta.

    Enginn af þeim leikmönnum sem þú nefndir eru betri en þeir sem skipuðu okkar besta lið í fyrra. Við losum okkur við Cisse, Morientes og Hamann sem allir voru og geta verið frábærir leikmenn en voru varaskeifur í fyrra þegar liðið var að spila frábærlega á köflum. Þeir leikmenn sem þú telur upp eins og Gonsales, Aurelio og Bellamy eru því miður f.o.f. varaskeifur eins og staðan er í dag.

    S.s. við losum okkur við varamenn og kaupum varamenn í staðinn.

    Ætlar til að mynda einhver að halda því fram að Gonsales sé betri leikmaður en Kewell. Held nú ekki. Og að Aurelio sé betri en Riise. Held nú ekki. Hvað þá Bellamy. Mun hann skora 19 mörk eins og Cisse gerði í fyrra. Held ekki en vissulega vona ég að hann geri það.

    Svo er eitt sem ég vil benda mönnum á. Einu sinni var liðið með framherja sem hét Owen. Í dag ef hann væri heill væri hann pottþétt með Rooney frammi í enska landsliðinu. Í dag erum við með Crouch í staðinn fyrir Owen sem er mun lakari leikmaður að mínu mati. Sem þýðir bara það að við erum alltaf að kaupa lakari menn fyrir þá sem voru fyrir með örfáum undantekningum.

    Svo eru menn hissa á að við séum bara að berjast um 4 sætið í deildinni. Við erum bara með þannig mannskap í dag. Því miður.

Man Utd 2 – L’pool 0 (uppfært)

Reading á morgun (uppfært)