Hvað er vandamálið?

Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör en maður hlýtur að spyrja sig hvað sé eiginlega í gangi hjá Liverpool um þessar mundir? Eitt er ljóst að liðið er ekki að spila vel á útivöllum á meðan vel gengur á Anfield:

Heima: 6 leikir, 5 sigrar, 1 jafntefli og 0 töp. 13 mörk skoruð og 3 fengi á sig = 16 stig.
Úti: 6 leikir, 0 sigrar, 1 jafntefli, 5 töp. 1 mark skorað og 12 fengi á sig = 1 stig.

Þetta er fáránlegur munur á liði sem er með jafn sterkan mannskap og Liverpool. Ég skil þetta hjá liðum sem eru ung að árum, reynslulítil og vantar stöðugleika en ekki hjá liði þar sem næstum allir leikmenn liðsins eru í byrjunarliði topp landsliða í Evrópu.

Gegn Man U og Arsenal hrundi liðið eftir að hafa fengið mark á sig og var ALDREI líklegt til að koma tilbaka. Það er alls ekki hægt að segja að það sé eingöngu vegna þess að Gerrard er á hægri kantinum eða að Zenden er á miðjunni o.s.frv. Þetta er miklu stærra vandamál sem þarf að leysa. Gæti það verið að liðið hafi ekki trú á því að það geti unnið Arsenal, Chelsea og Man U á útivelli. Hvað veldur því að liðið hrynur eftir að hafa fengið mark á sig? Af hverju gefast menn upp? Hvar er karakterinn í liðinu?

Þetta hljóta að vera spurningar sem Rafa og þjálfara lið hans velta fyrir sér núna. Ég tel að þetta hafi ekkert með æfingarnar að gera eða að mannskapurinn sem er til staðar sé allt í einu svona lélegur. Það er alls ekki himinn og haf á milli þeirra leikmann sem eru til staðar hjá Liverpool og liðunum fyrir ofan okkur í deildinni, alls ekki. Það eru veikleikar hjá öllum þessum liðum og verða alltaf en hins vegar spila ákveðnir leikmenn yfir getu þegar allt er í toppstandi hjá liði. Þetta eru leikmenn sem eru fínir spilarar en aldrei í heimsklassa sbr. Riise.

Gæti verið að þetta andleysi sé vegna þess að mórallinn sé ekki upp allra besta hjá liðinu? Að leikmenn vinni ekki saman vegna stæla og leiðinda í einhverjum leikmönnum? Oft er það þannig að lið ná ekki vinna saman vegna innbyrðis pirrings, þá vantar leikgleðina og trúna að allt sé hægt! Liðið hefur sýnt það undir stjórn Rafa að það getur snúið við töpuðum leik og unnið hann en hvað hefur breyst?

Eftir að hafa horft á leikinn í gær þá græt ég þann dag sem við létum Hamann fara frá okkur. Hann hefði ekki endilega breytt úrslitum leiksins í gær eða gegn Man U en hann gerði það bæði gegn Milan og West Ham á sinn hátt. Sissoko er eini leikmaðurinn sem verndar vörnina líkt og Hamann gerði og á meðan Sissoko er meiddur virðist enginn geta staðið þá vakt. Það er klárt mál að þetta er ekki ÁSTÆÐAN fyrir þeim töpum á útivelli sem hafa dunið yfir okkur að undanförnum en þetta er klárlega ein af þeim.

Núna er bara að vona að fleiri leikmenn meiðist ekki í vináttulandsleikjum vikunnar og að liðið komi 110% tilbúið til þess að innbyrða fyrsta útisigurinn í deildinni gegn Middlesboro á laugardaginn kemur.

Góðar stundir.

21 Comments

  1. Það eru bara of fáir Liverpool menn sem “kunna” fótbolta. Allir Arsenal mennirnir eru langflestir með mjög góða boltatækni, góða sendingagetu og góða yfirsýn. Tökum Hleb sem dæmi, hvort vilduð þið hafa Pennant eða Hleb á kantinum? Hiklaust Hleb, maður sem kann fótbolta þar. Riise, Carra, Sissoko td, eru svona menn sem vita afskaplega lítið hvað þeir eiga að gera við boltann þegar þeir fá hann. 99% tilvika, bombað fram eða sent til baka. Það er allt annað uppi á teningnum hjá Arsenal. Þar er flæði í leiknum og leikmenn hreyfa sig. Oft er erfitt að greina hvernig kerfi og þeir spila, það er GOTT, þar er hreyfanleiki og menn vilja fá boltann. Ég hef ekki séð neitt af því hjá Liverpool þetta tímabil.

    Sóknarfærslur Liverpool voru allar á þennan veg: Carra/Hyypia, sent fram á Crouch, hann leggur út á Zenden eða Alonso og þeir út á kant eða bakvörð og svo heim á Reina. Það er ekki mjög líklegt til árangurs . Leikmenn sem fá borgað milljón á dag eru þeir virkilega ekki betri og með meira sjálfstraust til að halda að bara næsti maður við hliðina á reddi þessu. Þetta er alveg ótrúlegt.

    Reka Rafa úfff, sumir eru ótrúlegir. Minni enn og aftur að það tók Fergie þónokkurn tíma að vinna sinn fyrsta titil hjá United. Vandamálið hjá okkur eru fokking leikmennirnir, ekki spilar Rafa leikinn. Það eru leikmennirnir sem eru bara ekki að standa sig og vinna sína vinnu.

    Vantar alla leikgleði, vilja og killer-instinct. Þegar við lendum undir eigum við að setja allt á fullt, mæta dýrvitlausir í tæklingar og gera allt til að reyna að jafna. En nei nei, Gerrard heldur þá áfram að virða fyrir sér hinn glæsilega Emirates stadium osfv.

    Þessi leikur hlýtur að hafa verið botninn spilanlega séð og ef við töpum gegn Boro þá er eitthvað alvarlegra að en þetta hér að ofan sem má leysa auðveldlega.

  2. Vandamálið er það að Liverpool, klúbburinn, hefur engann metnað þegar að kemur að leikmannamálum. Sú stefna að kaupa ódýrt gengur ekki ef að þjálfari hefur ekki hugmynd um getu leikmanns.

    Crouch, Zenden, Pennant, Bellamy, Sissoko, Gonzalez.

    Aðeins einn þeirra hefur möguleika á að verða leikmaður í gæðaflokki ef að hann bætir sendingagetu sína, restin er bara ekki nógu góð. Liverpool veitti ekki af því að fá smá ráðgjöf frá Jan Laporta hvernig á að reka fótbolta félag og hvernig á að fjárfesta í gæðaleikmönnum.

    Það sem að klúbburinn hefði þurft að gera í sumar var að fá gæðaleikmenn í þær stöður sem að við þurftum gæði. Við vissum að Kewell yrði lengi frá og að við yrðum að fá einhvern í hans gæðaflokki eða betri. Í staðin fáum við örfætta útgáfu af Cissé s.s. gaur sem að hefur lélega fyrstu snertingu og enga tækni.

    Það er mjög áhugaverður þráður á RAWK þar sem að gaur heldur því fram að maður spilar sína bestu menn í sínum bestu stöðum, og það á við um Gerrard og Alonso á miðjuna. Ég skil ekki afhverju Benitez fer fram á það að við breytum um leikstíl til að “fitta” öðrum liðum á borð við Bolton og Everton og að við verðum að hafa Sissoko og Crouch í svoleiðis leiki! Afhverju ekki að láta andstæðingana hafa áhyggjur af okkur og halda okkur við okkar leikstíl í staðin fyrir að hoofa boltanum til Crouch? Gerrard og Alonso ættu að spila saman á miðjunni og það var í verkahring Benitez að þróa leikspil okkur í kringum þá vegna þess að þeir eru bestu leikmennirnir okkar. Hann hefði átt að styrkja byrjunarliðið okkar með gæða kantmönnum og gæða playmaker, en í staðin fór hann ódýru leiðina og þessvegna er þessi þráður til.

    Leikmennirnir sem að ég nefndi hér að ofan geta verið ágætir gegn lélegri liðum en sú staðreynd að Benitez hefur ekki ennþá sigrað ManU og Chelsea í deildinni segir okkur allt sem segja þarf.

    Liverpool á skilið að vera í þeirri stöðu sem að það er í deildinni, og liðið er bara jafn gott og leikmennirnir sem að það teflir fram hverju sinni.

  3. Þetta er góð umræða og nauðsynleg. Spurningin er hvað er að???
    Í fyrsta lagi er það rétt sem hefur komið fram hér að ofan að það eru of margir leikmenn í liðinu sem eru ekki af þeim klassa sem til þarf. Í öðru lagi er liðið ekki að leika af þeirri getu sem þó er fyrir hendi. Það er að segja að menn eru ekki að skila sínu besta og liðið brotnar of auðveldlega. Það þýðir að mótiveringin á liðinu er ekki í lagi. Hún virðist ekki hafa verið í lagi nánast síðan Evróputitillinn vanst. Eihverjir einstakir leikir til eða frá skipta ekki máli í þessu sambandi.
    Ef við horfum til síðasta tímabils og svo þess sem liðið er af þessu þá hefur engin framþróun orðið í leik liðsins eða uppbygging í liðsheildinni. Liðið er brothætt og þeir menn úr enska boltanum sem hafa komi inn hafa engu breytt um ganginn á liðinu.
    Það sem mér virðist ekki vera í lagi benites sjálfur.
    Spurning er hvort hann hefur það sem til þarf í enska boltann. Þrátt fyrir árangur hans á Spáni þá hefur árangur hans á Englandi ekki verið til að hrópa húrra fyrir. Síður en svo. Ég er búin að missa trúna á að benites hafi það sem til þarf. Og það er óþarfi að taka það illa upp. þatta er bara eitthvað sem mér finnst og benites hefur ekki getað breytt þessari skoðun minni. Að líkja saman benites og Ferguson er eins og að bera saman epli og appelsínur. Ferguson er runnin upp úr enskum (skoskum) jarðvegi og er með þennan bolta í blóðinu.
    Hinsvegar virðist benites ekki ná sambandi við þennan enska bolta og er hægt að telja upp dæmi þess eins og úr bikarkeppnum og fleiru. Þetta er held ég sama syndrom og Houllier átti við að stríða. Húlli blómstrar aftur á móti í Frakklandsboltanum og Evrópuboltanum. Mér finnst að við verðum að horfa raunsætt á þetta en ekki verja benites fram í rauðan bara af því að hann þjálfar okkar menn. Því finnst mér það fullkomlega málefnalegt að ræða það hvort hann er ekki búinn með þann tíma sem hann átti skilið að fá. Árangur hans á Englandi er fullkomlega óásættanlegur

  4. Sigtryggur: Ég algjörlega ósammála þér að Rafa sé fallinn á tíma með Liverpool liðið. Hann getur einungis undirbúið liðið eins vel og hægt er hverju sinni og síðan eru það leikmennirnir sem spila leikinn. Ég treysti Rafa fullkomlega og gef nýju leikmönnunum tímabilið til að sanna sig. Hins vegar er ljóst að það er eitthvað að og það þarf að komast uppá yfirborðið hvað það er.

  5. Sigtryggur, nefndu mér einn þjálfara, sem væri hugsanlegt að Liverpool gæti náð til sín, sem þú vildir frekar sjá sem þjálfara Liverpool en Rafa Benitez.

  6. Sigtryggur og Aron, ég er ykkur ósammála og ég skal útskýra af hverju:

    Aron – þú talar um að of margir leikmenn í liðinu séu ekki nógu góðir fyrir Liverpool. Fyrir það fyrsta þá finnst mér ekki hægt að dæma leikmenn eins og Pennant, Bellamy og Gonzalez þegar þeir eru nýkomnir til liðsins. Zenden skal ég hins vegar taka undir með þér, hann er fín varaskeifa en ekki af nógu sterku kalíberi til að vera fastamaður í liðinu hjá okkur. En ef þú vilt meina að Sissoko og Crouch séu ekki nógu góðir til að spila í toppliði á Englandi get ég ekkert sagt, þú sérð fótboltann augljóslega bara öðruvísi en ég því fyrir mér eru þetta leikmenn í algjörum klassa í því sem þeir gera.

    Sigtryggur – það er góður punktur sem þú kemur með að það sé sjálfsagt að skoða það hvort Rafa sé búinn með þann tíma sem hann á inni. Ég skal skoða það fyrir þig: hann er ekki búinn með sinn tíma. Ég skal útskýra af hverju:

    Á fyrstu tveimur tímabilum sínum með Liverpool hefur Rafa …

    * Unnið Meistaradeildina.
    * Farið í úrslit Deildarbikarsins.
    * Unnið FA-bikarkeppnina.
    * Bætt liðið um einhver 30 stig í Úrvalsdeildinni á milli ára, og náð besta gengi liðsins í deildinni síðan það vann síðast titil.
    * Unnið Chelsea í Samfélagsskildinum.
    * Stórbætt leikmannahópinn svo að nú er töluvert meiri breidd. Ef þú telur að hann hafi ekki bætt liðið skaltu leita uppi leikmannahópinn eins og hann var þegar Houllier var rekinn. Munurinn er gríðarlegur.

    Við þetta bætist að á yfirstandandi tímabili erum við þegar búnir að tryggja okkur í 8-liða úrslit Deildarbikarsins og 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar. Á heimavelli í deildinni höfum við verið í feyknaformi, unnið alla leiki utan eitt jafntefli við Blackburn.

    Þegar þú skoðar allt það sem hann hefur afrekað á tveimur árum, og allt það sem gengur vel á núverandi leiktíð, ætti að vera augljóst að þótt hann sé í vandræðum með útivellina í deildinni er hið góða töluvert meira en hið slæma í hans fari sem stjóra.

    Rafa gæti endað þetta tímabil í 12. sæti og dottið út í næstu umferðum allra bikar- og Evrópukeppna og samt haldið starfi sínu. Hann hefur einfaldlega unnið sér það inn að fá að halda starfi sínu áfram, hvernig sem gengur í vetur. Treystið mér, hann verður hérna næsta haust líka. Hann hefur unnið sér það inn.

    Eftir standa tvö vandamál sem stjórinn okkar – sá sem við styðjum ekki í blindni heldur af því að hann hefur unnið sér inn stuðning okkar, það er munur þar á – þarf að laga:

    1. Hvað er að liðinu á útivöllum í deildinni? Hvernig losnum við við þetta sálfræðilega heljartak sem United, Chelsea og Arsenal hafa á okkur í deildinni? Þetta þarf Rafa að laga strax fyrir næsta leik, sem er á útivelli gegn Middlesbrough.

    2. Næsta haust. Þótt Rafa hafi unnið sér inn þolinmæði okkar fyrir þetta tímabil þá er ljóst að það verður ekki liðið að Rafa og Liverpool detti út úr baráttunni um titilinn strax í október/nóvember næsta haust. Ef hann byrjar það tímabil í sama veseni og sýnir að ekkert hefur breyst á milli ára mun þrýstingurinn á hann verða gífurlegur, og það gæti orðið of mikið til að hann geti haldið áfram. Þannig að hann verður að vera í toppbaráttunni næsta haust, að mínu mati, ef hann ætlar að halda starfi sínu.

    Svona sé ég þetta, Sigtryggur. Rafa hefur unnið sér inn þolinmæði okkar til að laga það sem ekki er að ganga upp hjá honum, en sú þolinmæði er ekki endalaus. Það er samt allt, allt, ALLT of snemmt að tala um að láta hann fara núna, eða í vor. Ef ekkert hefur lagast í byrjun næsta tímabils verður pressan á honum gífurleg og þá getum við rætt um framtíð hans að alvöru, en þangað til verður hann áfram.

    Mig langar til að minna á Arsene Wenger í fyrra. Hann fór stutt í báðum ensku bikarkeppnunum og hékk í svona sjötta-áttunda sæti í deildinni þangað til undir lokin, og hann tryggði sér ekki fjórða sætið í deildinni fyrr en á síðasta leikdag. Á sama tíma fór hann langt í Meistaradeildinni sem létti aðeins af honum pressunni, en samt talaði ekki nokkur maður um að hann ætti að fara. Hann var búinn að vinna sér inn þolinmæði aðdáenda liðsins og réttinn til að laga það sem illa hafði farið. Við erum að sjá hann gera það núna.

    Rafa verður hérna næsta haust.

  7. Annars átti ég eftir að svara greininni. Þetta er fín grein Aggi og þú kemur með góðan punkt varðandi sálfræðilegu hliðina í liðinu. Mín skoðun er nokkurn veginn svipuð:

    * Ég held að Rafa hafi gert mistök með því að setja Gerrard ekki inná miðjuna í 4-5-1 kerfi ásamt Zenden og Alonso í gær, því Arsenal spiluðu 4-5-1 og þeir Alonso og Zenden réðu því ekki við Gilberto, Fabregas og Flamini. Of margir. En það er auðvelt að vera vitur eftirá og ég held að þetta hafi ekki ráðið úrslitum í leiknum, því að …

    * … liðið var að spila þennan leik vel fram að fyrsta markinu. Við vorum að ná góðum vallarstöðum og hefðum hæglega getað verið búnir að skora þegar Flamini kemur þeim yfir. EN þá kom sálfræðilegi kaflinn inn, liðið bara hrundi og virtist aldrei líklegt til að ná að jafna eftir markið. Að horfa á Liverpool í stöðunni 0-0 og að horfa á Liverpool í stöðunni 1-0, 2-0 eða 3-0 var eins og að horfa á tvö ólík lið. Menn hættu bara þegar þeir lentu undir.

    Þannig að jafnvel þótt Rafa hefði kannski átt að setja Gerrard inná miðjuna þá var þetta að virka eins og hann setti það upp, í 40 mínútur. Síðan bara slökknaði á liðinu þegar það lenti undir.

    Við getum ómögulega komist að einhverri niðurstöðu um andlegu hlið leikmanna, enda vitum við ekkert um þau mál. Eru einhverjir óánægðir? Eru einhverjir að rífast reglulega í liðinu? Er eitthvað í gangi? Eða er málið bara það að menn eru búnir að byggja sér upp andlegan vegg gagnvart Arsenal, United og Chelsea á útivelli? Ég veit það ekki, en það er ljóst að þetta er fyrst og fremst andlegs eðlis. Það sást greinilega á því hvernig liðið bara gafst upp þegar það sá Kolo Touré fá boltann og skora annað mark Arsenal. Menn voru ekki einu sinni reiðir yfir markinu, heldur stóðu bara eins og þetta væri eðlilegt og ekkert við því að gera.

    Andlega á Rafa mikið verk fyrir höndum fyrir næsta leik, sem er líka útileikur.

  8. Menn eru að tala um að Alonso og Gerrard eigi alltaf að spila saman. Þeir hafa nú eiginlega bara sýnt það þegar þeir spila saman (þ.e. án Momo) að þeir eru engan veginn gott miðjupar þar sem að Gerrard verður að sitja alltof aftarlega þegar þeir eru bara tveir. Svo talar einhvern um að fá nýjan playmaker ?! Er það ekki Alonso ?! Vil bara sjá miðjuna eins og hún var í fyrra þegar Gerrard fékk að leika lausum hala og skoraði líka 23 mörk. Honum var jú kannski “stillt upp” á hægri en það er bara bull að segja að hann sé að spila þá stöðu á vellinum. Eina sem hann “á” að gera þarna er að ef andstæðingurinn er að pressa mikið á hægri kantinn okkar á hann að mæta og hjálpa til varnarlega séð. Alonso og Momo er svo okkar langsterkasta miðjupar ásamt auðvitað Gerrard, sem er tiltölulega frjáls.

    En að efni þráðarins þá er ég 100% sammála Kristjáni að Rafa hafi unnið sér inn þolinmæði okkar og gott betur en hún er að sjálfsögðu ekki endalaus og ef liðið fer ekki að sýna að það geti sýnt eitthvað á útivöllum og gegn þessum stóru liðum verður maður auðvitað að setja spurningarmerki við stjórn og þjálfun liðsins.

    Ég vil ekki að Rafa verði látinn taka afleiðingunum strax en ég vil engu að síður sjá breytingar á leik liðsins.

    Svo er það auðvitað deginum ljósara að Agger á að koma í byrjunarliðið ALLTAF, það er bara grátlega að horfa á Hyypia, gömlu hetjuna, vera tekinn hvað eftir annað í nefið.

  9. Stóra spurningin í þessu öllu saman er sú hvort Gerrard sé rétti maður til að bera fyrirliðabandið. Á haustdögum hefur hann hengt haus í hvert sinn sem LFC hefur lent undir. Er ekki hlutverk fyrirliðans að peppa menn upp, rífa þá upp á rasskatinu ef þeir lenda undir, sína gott fordæmi með baráttu og vilja (ala Keane eða Terry). Það er ekki skrítið að liðið virki andlaust þegar fyrirliðinn sínir ekki betra fordæmi. Hann er jú okkar besti leikmaður sem allir í liðinu líta upp til.

    Í mínum huga er einn maður sem gæti skilað þessu óaðfinnanlega, hann Carra, þetta er leikmaður sem er allan leikinn öskrandi menn áfram, gefur sig 110 % í allar tæklingar ofl. Þannig maður á að bera fyrirliðaband Liverpool.

    Krizzi

  10. Sælir aftur félagar. Ég veit Einar að það verða ekki gripnir upp alvörustjórar hvenær sem er og veit sosum ekki um neinn toppmann á lausu nema King Kenny. Hvort hann er fáanlegur í djobbið er svo annað mál.
    Ég get líka svosem fallist á að benites fái að klára leiktíðina. Hann eigi það inni. Ég get einnig fallist á rök Einars og Kristjáns fyrir áframhaldandi veru Benites en eins og þá verður að verða mikil breyting á liðinu á þeim tíma. Ef það verður ekki fer ég fram á að menn fallist á það að benites megi fara.
    Auðvitað verður að skrifast á hvern leikmann fyrir sig hvernig hann leikur þannig séð. En ábyrgðin á leik og árangri liðsins sem heildar er alfarið í höndum stjórans. Því fær ekkert breytt góðir félagar. :rolleyes:

  11. Ég minni á að það eru ennþá 78 stig eftir í pottinum fyrir okkur og við eigum að teljast sigurstranglegra liðið í öllum þeim leikjum sem eftir eru – þar sem við erum búnir með Chelsea, manchester united og Arsenal á útivelli

    Ég hætti því ekki að hugsa um titilinn fyrr en við töpum næst stigum. Þangað til ætla ég líka að halda mig við spá mína um að vera komnir í 3ja sætið fyrir jól.

    Ég er samt klárlega þeirrar skoðunnar að Agger og García eigi alltaf að vera í byrjunarliðinu og Zenden aldrei. Ég myndi meira að segja frekar vilja sjá Warnock eða Aurelio á miðjunni ef aðeins einn væri heill af þríeykinu Gerrard, Alonso og Sissoko.

  12. Jahá, hárrétt hér að ofan að Rafa hefur unnið sér inn þetta traust. Brúsi bendir á að það að Gerrard sé bara stillt upp á kantinum en eigi að leika lausum hala.

    Það er málið, vantar allt flæði og færslur á liðið. Td hjá Arsenal, það er ómögulegt að greina 100% í hvaða stöðu hver maður er. Eboue á kanti? Persie miðju? osfv. Svoleiðis á það að vera, það er lagt upp með varnarvinnuna með 4-4-2 og Gerrard á kanti en þegar við sækjum á þetta að fara allt í rugl, mikil hreyfing án bolta og flæði. En það er bara ekki svoleiðis. Menn fastir á sama 5m radíus og þeir eru negldir niður á fundi fyrir leik. 🙁

  13. Já svosum eðlilegt þegar svona hart er í búi að spyrja spurninga líka um fyrirliða liðsins en að vera eitthvað að ræða um að svipta Gerrard bandinu finnst mér alveg út í Hróa hött.

    Það sem ég held að sé að há Gerrard eru World Cup hang-overs og of langt síðasta tímabil. Hann er búinn að tala um þetta sjálfur og menn sáu það t.d. bara í úrslitaleiknum gegn West Ham í fyrra þegar menn voru að hrynja niður að þetta tímabil hefur tekið virkilega á, sérstaklega menn eins og Gerrard.

    Svo er ég ekki viss um að Carra væri rétta týpan í að vera fyrirliði. Maður veit auðvitað ekkert hvernig þessir menn eru utan vallar og maður hefur heyrt að Carra sé svona jókerinn í liðinu og það er aldrei gott þegar þeir menn verða fyrirliðar. Svo hefur maður það á tilfinningunni að þegar hann er að öskra á menn sé það ekkert endilega alltaf eitthvað hvetjandi, sem er að sjálfsögðu ekkert slæmt heldur.

    Er algjörlega á móti því að taka bandið af Gerrard.

  14. Það er soldið erfitt að átta sig á því hvert vandamál Liverpool er nákvæmlega, en ég held að hluti af vandamálinu sé taktísk. Við breytum ekki bara liðsuppstillingu í hverjum leik heldur líka áherslum eftir því hver mótherjinn er. Við spilum ekki okkar bolta eins og einhver sagði hér áðan.

    Svo erum við alveg “steingeldir” sóknarlega. Við skjótum kannski oftar á markið en andstæðingar okkar leik eftir leik en flest þessi skot eru langskot sem fæst hitta rammann.

    En það sem mér finnst alvarlegast er þetta andleysi eða a.m.k. virðist manni liðið bara ekki hafa trú á því að það geti unnið hin stóru liðin. ManU og Arsenal spila glimmrandi sóknarbolta á meðan við erum passívir og sendum boltan alltaf til baka sem fyrsta kost og gefum andstæðingunum nánast alltaf færi á að komast í vörnina og skipuleggja sig.

    Við getum kannski orðið Evrópumeistarar aftur eða jafnvel bikarmeistarar en ég held að það þurfi einhverja meiriháttar breytingu til þess að við gerum atlögu að Englandsmeistaratitlinum sjálfum.

  15. Jæja – ég horfði á leikinn á móti Arsenal með þó nokkurri bjartsýni en … svakalega var þetta ömurlegt.

    1. Ég verð nú að hrósa umræðu á þessum þráð og þeim síðasta. Hvernig menn fara að því að hafa umræðuna svona málefnanlega án þess að hella úr skálum reiði sinnar er stundum ofar mínum skilningi.

    2. Ég skil samt ekki allta af hverju menn eru að bölsótast út í varamenn liðsins. Að mínu mati erum við með slakasta hóp sem við höfum verið með í mörg ár. Menn eins og Pennant, Zenden, Gonzales og Bellamy eru að mínu mati ekki hluti af því besta liði sem við getum stillt upp. Menn eins og Crouch, Finnan og Riise eru það vissulega. Ég hefði viljað sjá menn sem myndu slá þá út úr liðinu og þeir færu á bekkinn. Aðeins þannig getur liðið orðið sterkara og ekki öðruvísi. Reyndin er einfaldlega sú að við losuðum okkur við varamenn – eða menn sem ekki voru í okkar sterkasta liði – og fengum slakari, að mínu mati, í staðinn. Ég vil þó taka það fram að ég hef ekki mist trúna á Gonzales og held að hann geti orðið mjög sterkur leikmaður. Mín skoðun er einfaldlega sú að við erum með slakara byrjunarlið frá því í fyrr því Kuyt er ekki enn jafn góður og Kewell fyrir liðið – og meðan Carrager, Gerrard o.fl. eru slakari en í fyrra þá erum við einfaldlega með slakara lið.

    3. Benites – ég vil ennþá engann annan í starfið. Það er samt eitthvað í gangi. Þetta rotation system er ekki virka – sérstaklega vegna þess að varamennirnir okkar eru klassa neðar en okkar bestu 11. Liðið verður einfaldlega miklu veikara með Pennant, Zenden o.fl. inn á. Þá verður líka að skrifa stemningsleisið í liðinu á Benites. Mér finnst þetta einfaldlega lang stærsti þátturinn í þjálfun og það er að ná því besta úr leikmönnum og berja í menn baráttu anda. Það er einfaldlega ekki að gerast og verður að skrifast á Benites. Ég hef reyndar stundum sagt að rotation systeminu sé um að kenna því menn finna ekki til samkendar þegar menn vita ekki hvað þarf til að fá að spila næsta leik auk þess sem menn vita aldrei hvaða stöðu þeir koma til með að spila.

    4. Stjórn félagsins. Ég hef reyndar aldrei verið mikill aðdáandi þeirra Moores og Parry en þeir hljóta að bera einhverja ábyrgð. Það að Liverpool sé ekki einu sinni í umræðunni þegar bestu menn veraldar eru linkaðir við manu og Chelsea finnst mér eitthvað það ömurlegasta við Liverpool eins og staðan er í dag. Það verður líka að skrifast á þá félaga frekar léleg leikmannakaup upp á síðkastið. Jú auðvitað með undantekningum en hvenær t.d. var stórstjarna keypt til liðsins. Ok peningar skipta máli en – Moores ef þú átta þá ekki til seldu þá félagið.

    4. Gerrard og Carrager – hvað er í gangi. Ég hef alltaf sagt að það séu forréttindi að vera Englendingur í ensku úrvaldeildinni en þeir hafa hingað til réttlætt tilverurétt sinni með góðri spilamennsku. En nú í ár er það bara ekki þannig.

    Það er helv. fúlt að fyrirliði liðsins og sá allra besti skuli alltaf vera fyrstur til að hengja haus og pirrast og bölsótast út í félagana. Hullier gerði manninn að fyrirliða f.o.f. til að halda honum en nú er einfaldlega ekkert, f.u. að það er kannski enginn annar, sem réttlætir hann sem fyrirliða liðsins.

    Ég verð líka að setja spurningarmerki við Carrager. Hann hefur alltaf bætt skort sinn á sendingargetu og leikskilingi með óbilandi baráttuanda og gríðarlega sterkum karakter inn á vellinu. Ef það er ekki einu sinni til staðar – hvað er þá eftir? Ég vil svo benda á að hann er varla meðal bestu hafsenta englands í dag og hinir eru að spila með liðunum sem við erum að berjast við. Er þetta ekki bara einfalt. Þeir sem eru með bestu leikmenina vinna? Sorrý Carrager er í uppáhaldi hjá mér eins og Fowler en maður verður bara að líta á staðreyndirnar.

    Finnan og Crouch – ekki mínar uppáhalds og því skoðist þessu ummæli sem slík. Pæliði samt í því að í sterkasta byrjunarliði Liverpool skuli vera menn sem leggja aldrei neitt umfram að mörkum, sóla aldrei leikmenn, skjóta aldrei á markið fyrir utan teig eða ráða úrslitum. Jú Crouch skorar stundum mörk og gerir út um leiki en – er hann í Liverpool klassa. Eigum við ekki bara að bera hann saman við annan leikmann sem spilar í liði sem við viljum bera okkur saman við – Drogba.

    Það skemmtilegasta við það að halda með þessu liði er samt kannski það að það fer með mann upp á hæstu tinda og svo niður í sollinn. Vandamálið er svo það að maður verður hálfgerður geðklofi fyrir vikið.

    Ég ætla samt að leyfa mér að vera bjartsýnn fyrir næstu leiki. Ég held að leiðin geti bara verið upp á við og að leikur liðsins geti bara batnað úr þessu. Svo vinnum við CL og ekkert röfl.

    Áfram Liverpool!

  16. Sammála því að Púllarar og stjórnendur síðunnar eiga hrós skilið fyrir að halda umræðunum hér á háu plani.

    Smá innlegg: staðreyndin er einfaldlega sú að liðið er ekki nógu gott. Eins og menn benda á eru leikmenn Liverpool ekki í sama gæðaflokki og collegar þeirra hjá Arsenal, ManU og Chelsea og það er staðreynd sem við verðum að kyngja.

    Í liðinu er fullt af leikmönnum sem okkur Púllurum þykir vænt um og langar til að gangi betur, Riise, Finnan, Carragher, Sissoko, Zenden, Bellamy og Pennant svo einhverjir séu nefndir. En ég spyr ef einhver þeirra væri á lausu í dag myndu lið eins og AC Milan, Real Madrid, Bayern Munchen, Barcelona og ensku toppliðin þrjú standa í röð á eftir þeim? Kannski Sissoko fengi einhversstaðar samning hjá þeim en hann ætti ansi erfitt með komast í byrjunarlið.

    Það sem pirrar mig sem Púllara til tuttugu ára er að liðið er ekki lengur álitið í þessum gæðaflokki. Og þar á það heima, einu liðin sem hafa unnið Evrópubikarinn oftar en Liverpool eru Real og AC Milan.

    Þeir sem bera ábyrgð á þessu eru
    1. Stjórnendurnir sem þurfa að koma rekstrinum á klúbbnum í nútímalegra lag.
    2. Rafael Benitez sem þarf að bakka upp stóru orðin. Hjá Valencia hætti hann með því að segja “I asked for a sofa and they gave me a lamp”. Hann vantaði sófa úr gæðaleðri í sumar og keypti heilan lager af lömpum úr IKEA.
    3. Við aðdáendurnir sem þurfum að gera svakalegar kröfur til þessara stjórnenda en ekki lifa á fornri frægð.

  17. Sammála því að Púllarar og stjórnendur síðunnar eiga hrós skilið fyrir að halda umræðunum hér á háu plani.

    Smá innlegg: staðreyndin er einfaldlega sú að liðið er ekki nógu gott. Eins og menn benda á eru leikmenn Liverpool ekki í sama gæðaflokki og collegar þeirra hjá Arsenal, ManU og Chelsea og það er staðreynd sem við verðum að kyngja.

    Í liðinu er fullt af leikmönnum sem okkur Púllurum þykir vænt um og langar til að gangi betur, Riise, Finnan, Carragher, Sissoko, Zenden, Bellamy og Pennant svo einhverjir séu nefndir. En ég spyr ef einhver þeirra væri á lausu í dag myndu lið eins og AC Milan, Real Madrid, Bayern Munchen, Barcelona og ensku toppliðin þrjú standa í röð á eftir þeim? Kannski Sissoko fengi einhversstaðar samning hjá þeim en hann ætti ansi erfitt með komast í byrjunarlið.

    Það sem pirrar mig sem Púllara til tuttugu ára er að liðið er ekki lengur álitið í þessum gæðaflokki. Og þar á það heima, einu liðin sem hafa unnið Evrópubikarinn oftar en Liverpool eru Real og AC Milan.

    Þeir sem bera ábyrgð á þessu eru
    1. Stjórnendurnir sem þurfa að koma rekstrinum á klúbbnum í nútímalegra lag.
    2. Rafael Benitez sem þarf að bakka upp stóru orðin. Hjá Valencia hætti hann með því að segja “I asked for a sofa and they gave me a lamp”. Hann vantaði sófa úr gæðaleðri í sumar og keypti heilan lager af lömpum úr IKEA.
    3. Við aðdáendurnir sem þurfum að gera svakalegar kröfur til þessara stjórnenda en ekki lifa á fornri frægð.

  18. Er ekki málið að þýða þennan þráð á ensku og senda Rafa…. 🙂

    Takk fyrir góðan þráð.

    -Rafa á minn stuðning þessa leiktíð skilyrðislaust. Hann hefur unnið til þess.

    -Gerrard á miðjuna alltaf!! Ég veit…bara mín skoðun! Ég hef bara þannig tilfinningu fyrir Gerrard sem leikmanni. Ég hef það líka á tilfinningunni að hann kæmi út sem sterkari leiðtogi ef honum væri spilað á miðjunni án undantekninga.

    Hvar var Garsia á Sunnudaginn??

  19. Frábær skrif Hössi, ég er hjartanlega sammála þér. Hópurinn í dag er ekki með gæði til að gera atlögu að deildartitli.

    Í öllu þessu tali um að Liverpool sé búið að spila sýna erfiðustu útileiki, hefur gleymst að taka inn í dæmið Middlesbrough og Tottenham.

    Staðreyndin er nefnilega sú að Benitez hefur ekki unnið í deildinni á Riverside eða White Hart Lane síðan hann tók við Liverpool.

    Önnur staðreynd er sú að Liverpool hefur gengið ílla á þessum völlum síðan tímabilið 1999/2000, með einungis 1 sigur úr síðustu 7 leikjum gegn hvoru liði.

    Vonandi náum við að losa okkur við útileikja drauginn. Sjálfur er ég ekkert of bjartsýnn og kæmi í sjálfum sér ekkert á óvart þó að jafntefli yrði niðurstaðan.

    Krizzi

  20. Umræðan hér stórgóð eins og vanalega. Langar samt að koma inn á nokkra punkta sem mér finnst vanta í umræðuna.

    Í fyrsta lagi, menn verja Benitez með kjafti og klóm með ýmsum rökum. Hann hafi unnið til þess að fá vinnufrið – en er einhver betri en hans síðasti leikur? Enginn annar sé fáanlegur – en er ekki t.d. Ottmar Hitzfeld laus auk þess sem fáum datt Benitez í hug þegar krafist var afsagnar Houllier þannig að það eru örugglega einhverjir þarna úti. Persónulega vil ég ekki sjá Benitez fara en tel umræðuna eiga fullan rétt á sér og vona að vitleysan með Houllier sé ekki að endurtaka sig – hann stóð sig líka frábærlega í fyrstu en svo fór hann úti ýmsar æfingar sem aðrir áttu erfitt með að skilja. Spilaði leikmönnum út úr stöðu, keypti fullt af meðalleikmönnum í stað stjarna og gat aldrei viðurkennt mistök (farið að hljóma kunnuglega). Eftir á að hyggja hefði verið mun betra að losa okkur við Houllier fyrr og spara eitthvað af þeim peningum sem hann eyddi. Umræðan á því fullan rétt á sér. Þeir sömu aðilar og telja Benitez hafin yfir gagnrýni koma svo með hana sjálfir í næsta orði og telja hann gera mistök í uppstillingu og/eða leikmannakaupum. Punkturinn er; látum ekki vitleysuna með Houllier endurtaka sig – verum á tánum!

    Annað atriði er hve athyglisvert er að sjá að margt er að fara í sama farið hjá þessum tveimur stjórum. Gæti rekstrarumhverfi klúbbsins verið um að kenna? Klúbburinn stærir sig af hefð og sögu en gæti það verið akkerið sem heldur honum niðri? Finnst eðlilegt að ræða hvort að sökin liggi hjá Moore og hinum stjórnarmeðlimunum. Lesið viðtalið við fyrrum stjórnarmanninn sem gagnrýndi Benitez og var rekinn. Þóttinn í viðtalinu er sláandi; “við erum búinn að láta hann fá allan þennan pening og viljum árangur”. Benitez hefur einmitt ekki fengið neinn pening og ekki getað keypt neinn þann leikmann sem hann virkilega vildi. Þessi stjórnarmaður er í engum tengslum við nútímann og það rekstrarumhverfi sem skilar árangri. Gæti sökin legið þarna? Er þetta að hrjá Gerrard; hélt hann að Moore myndi selja eins og allar fréttir bentu til? Er Liverpool staðnaður opinber vinnustaður og starfsmennirnir hundfúlir að bíða eftir breytingum?

    Þriðja atriðið sem mig langar að nefna er ótrúlegur árangur í Evrópu miðað við jafnótrúlegan (lélegan) árangur heima fyrir. Hvað veldur? Við vitum að Benitez er tæknivæddur stjóri, líklega sá tæknivæddasti. Hann byggir allt sitt á því að hafa upplýsingar um nær allt sem er að gerast á vellinum. Allt er mælt með skynjurum. Gæti verið að munurinn á árangri í þessum keppnum sé að Benitez hafi einfaldlega miklu betri gagnagrunn um stóru evrópsku liðin. Upplýsingagrunn sem hann hafi jafnvel tekið með sér frá Valencia? Við komuna til Englands hafi hann þurft að byrja frá núlli. Þetta gæti líka skýrt afhverju hann byrjar alltaf svona illa, liðin hafi breyst mikið um sumarið og það taki tíma að “lesa” þau aftur inn. Kannski langsótt skýring en eftir að hafa séð umfjöllun um þessa tæknivæðingu Benitez í sjónvarpi finnst mér þetta ekki fjarri lagi. Svo er líka bara spurning um hvort að Liverpool aðdáendur séu ekki bara sáttir við að vera Giants of Europe þótt liðinu vegni illa heima – ég er miklu meir en sáttur með það?

    Fjórða atriðið sem ég velti fyrir mér er sú fullyrðing Fowler í ævisögu sinni að koma Collymore til Liverpool hafi gert útaf við liðið hans Evans, það hefði ekki þurft meira til en einn mislyndan leikmann til að eyðileggja móralinn og liðið í leið. Gerðist það sama með Diouf og Houllier? Og nú spyr ég hvort sagan sé að endurtaka sig í þriðja sinn? Færðist Benitez of mikið í fang með að taka bæði Bellamy og Pennant?

    Þetta eru atriði sem mér finnst persónulegra athyglisverðara að ræða en hvort leikmenn eða þjálfari séu nægilega góðir. Þeir eru það ekki, allavega ekki þessa stundina. En afhverju er sú spurning sem ég vil helst ræða.

Arsenal 3 – Liverpool 0

Notkun lýsingarorða á Fréttablaðinu