Leikaðferðin

Það kom upp smá umræða um leikaðferð eftir sigurleikinn í gær. Ég skrifaði í sumar stuttan pistil en birti hann aldrei. Ég ákvað að henda honum inn núna með fyrirvara um það að hann var skrifaður í byrjun júlí í talsverðum flýti og ég er ekki endilega á sömu skoðun í dag. Þetta er skrifað fyrir kaupin á Pennant og Kuyt.

En ég er viss um að menn hafa sterkar skoðanir á því hvaða kerfi Liverpool á að leika í dag og hvaða kerfi þeir ættu að leika ef allir væru heilir.

Ímyndum okkur að sumarkaupunum sé lokið án þess að heimsklassa hægri kantmaður komi til Liverpool. Hundsum aðeins grátkórinn, sem á eftir að heyrast í okkur Liverpool mönnum yfir óréttlæti heimsins núna þegar að tvö sumur hafi gengið í gegn án þess að við höfum keypt hægri kantmann.

Við munum því sjá fram á annað tímabil þar sem hægri kanturinn verði vandamál hjá Liverpool.

Nema þá að Rafa Benitez breyti leikskipulaginu. Lítum aðeins á nokkra styrkleika og veikleika liðsins:

1. Styrkleiki: Þrír heimsklassa miðjumenn: Gerrard, Sissoko og Alonso. Í 4-4-2 kerfi er bara pláss fyrir tvo þeirra. Rafa leysti vandamálið að hluta til á síðasta tímabili með að hafa Gerrard á hægri kantinum.
2. Syrkleiki: Sterk vörn. Breiddin í miðvarðarstöðunum hefur aukist gríðarlega í sumar og samkeppnin í bakvarðarstöðunum er að aukast.
3. Veikleiki: Ekki nógu sterkir sóknarmenn. Þrátt fyrir að Craig Bellamy sé kominn til liðsins þá er enginn sóknarmaður, sem er í sama gæðaflokki og Gerrard eða Alonso eru meðal miðjumanna.
4. Veikleiki: Kantmenn, sem spila oft best frammi. Þeir menn, sem hafa verið okkar helstu kantmenn undanfarið ár, Luis Garcia og Harry Kewell njóta sín oft best framar á vellinum en þeir spila fyrir Liverpool. Þannig spila þeir fyrir sín landslið.

Er þá ekki lausnin augljós, allavegana miðað við þennan mannskap sem spilar fyrir Liverpool? Fara yfir í sama kerfi og Barcelona og hollenska landsliðið spila: **4-3-3**.

Still liðinu því svona upp:

Reina

Finnan – Carra – Hyypia – Aurelio

Gerrard – Sissoko – Alonso

Garcia – Bellamy/Crouch – Kewell/Gonzalez

Kostirnir við þetta kerfi eru augljósir. Númer 1 er að við getum haft alla okkar miðjumenn í liðinu. Einnig fá menn einsog Kewell og Garcia að njóta sín framarlega á vellinum líkt og þeir gera með sínum landsliðum með góðum árangri (sérstaklega hjá Garcia).

Gallarnir eru líka vissulega margir. Fyrir það fyrsta vantar okkur þá meiri breidd á miðjuna. Salan á Didi Hamann til Man City mun minnka þá breidd (og hún bendir líklega líka til þess að Rafa vilji bara hafa tvo miðjumenn í liðinu) og þá hugsanlega erum við bara með Zenden til að cover-a á miðjunni, sem er alls ekki nóg.

Rafa Benitez hefur sýnt það að hann kaupir fyrst og fremst *menn, sem passa inní kerfið* í stað þess að *laga kerfið að leikmönnum*. En ef að okkur tekst ekki að ná í heimsklassa hægri kantmann einsog Joaquin eða Alves, þá gæti Rafa þurft að verða hugmyndaríkur varðandi leikskipulagið í sumum leikjum.

Hvað finnst ykkur? Er ég bara blindaður af Barcelona aðdáun, eða er þetta raunhæfur möguleiki?

8 Comments

  1. Þetta eru áhugaverðar pælingar. Vafalítið færðu önnur svör við þessum pistli nú en þú hefðir fengið í sumar, þegar bjartsýni manna var í hámarki. Ég var sjálfur á þeirri skoðun áður en við fengum Kuyt og Pennant að við þyrftum aðeins að fá góðan hægri kantmann til að vera með “réttan” hóp, en að einn heimsklassaframherji til viðbótar við Bellamy gæti ekki sakað.

    Svo komu Kuyt og Pennant. Á meðan Kuyt hefur staðið fyllilega undir væntingum hingað til og er orðinn lykilmaður í þessu liði okkar hefur Pennant hingað til ekki fundið sig, og hvort sem hann á eftir að gera það eða ekki get ég þessa dagana ekki varist þeirri tilhugsun hvað hefði orðið ef við hefðum fengið Daniel Alvés frá Sevilla, en hann var klárlega fyrsti kostur Rafa í stöðuna og allir sem hafa séð Sevilla spila í vetur hafa séð augljóslega hversu stórgóður knattspyrnumaður hann er.

    Ég held enn í þann draum að Alvés komi til okkar næsta sumar.

    Varðandi taktíkina, þá líst mér alveg jafn vel á 4-3-3- og mér líst á 4-5-1. Ég meina, er þetta ekki sama leikaðferðin? Hvernig sem þú teiknar það upp væru Gonzalez og García á vængjunum og Bellamy/Crouch einn frammi, eins og þú teiknar þetta upp, með þrjá miðjumenn fyrir aftan sig og þar af Gerrard fremstur?

    Þetta er að mínu mati okkar sterkasta aðferð. Ekki 4-4-2 og ekki 3-5-2 heldur 4-5-1, þar sem við erum með einn aðalframherja og tvo kantara og svo Gerrard fremstan á þriggja manna miðju. Rafa notaði þetta leikkerfi nær eingöngu hjá Valencia og til að byrja með hjá okkur. Hann vantar hins vegar rétta mannsskapinn upp í þetta kerfi, eða eins og er vantar hann að fá kantmennina í gang til að geta spilað þetta. Á meðan Pennant finnur sig ekki þarf Gerrard að spila á hægri vængnum í svona kerfi og því er það erfitt.

    Daniel Alvés. Andvarp … :confused:

  2. Já, en ég man að Chris Bascombe hélt því fram að ef að Liverpool myndu kaupa Alvés þá hefðu þeir ekki efni á að kaupa Kuyt líka.

    En ég er sammála, hann hefði verið verulega góður kostur.

  3. Hefði Djibril Cisse ekki meiðst, þá hefðum við átt efni á Alves og Kuyt.

  4. allir sem hafa séð Sevilla spila í vetur hafa séð augljóslega hversu stórgóður knattspyrnumaður hann er.

    Eitt er að hann var góður hjá Sevilla, en það segir mjög lítið um það hvort hann muni spjara sig í ensku úrvalsdeildinni.

    Sjá bara t.d.
    Walter Pandiani.
    Luis Garcia, það er augsjáanlegt að hann er miklu betri alltaf í Evrópuleikjum heldur en í deild, engin tilviljun.
    Frægasta dæmið er kannski Albert Luque, sem var einn besti leikmaður Deportivo La Coruna áður en hann fór til Newcastle (enda keyptur á 9,5m punda)
    Jose Antonio Reyes var líka ekkert spes hjá Arsenal, Diego Forlan o.fl.
    Þá má að endingu nefna að þessir leikmenn sem hafa komið frá rómönsku Ameríku eða Evrópu fyrir þetta tímabil hafa ekki beinlínis slegið í gegn (Tevez, Mascherano, Corradi, Baptista)

  5. Er annars ekki eftirlætiskerfi Rafa Benitez 4-2-3-1 með aggresífri pressu (aðallega á köntunum)?

    Þetta kerfi notaði hann oftast hjá Valencia en vantar enn réttu leikmennina til að geta heimfært það yfir á Liverpool liðið og ensku deildina.

    Það er réttur punktur hjá þér Einar að Rafa kaupir leikmenn sem passa inní leikkerfið sitt fremur enn að laga spil liðsins að ákveðnum leikmönnum. Rafa er lúxusþjálfari sem lifir og hrærist í taktíkinni. Ég held að við fáum ekki að sjá hversu hrikalega góður þjálfari hann er fyrr en Liverpool verður komið með alvöru heimsklassa leikmannahóp, þá aðallega heimsklassa kantmenn.(Sáum það reyndar í hálfleik gegn AC Milan 0-3 undir þegar hann setti Hamann inn!)
    Við erum nálægt því en það vantar ákveðin gæði frammávið sem við höfum ekki í dag.

    Fyrst Rafa vill að við séum þolinmóð og treystum honum þangað til að Liverpool fær þessa leikmenn vil ég sjá hann brjóta aðeins odd af oflæti sínu og aðlaga sínar hugmyndir líka af þeim leikmannahópi sem hann hefur í höndunum. Mér finnst eins og við séum stundum að tapa óþarfa leikjum vegna þess að Rafa er að prófa hitt og þetta varnarkerfið og sé of passívur.

    Það er spurning hvort þetta 4-3-3 leikkerfi henti karakter Liverpool liðsins. Þetta kerfi byggist voða mikið uppá tækni, halda boltanum innan liðsins með stuttum sendingum og láta boltann ganga með hröðum færslum þegar þú hefur hann. Ef t.d. Riise og Pennant munu spila áfram eins og þeir gerðu gegn Portsmouth missandi boltann frá sér með fáránlegum ákvörðunum er gjörsamlega útilokað að reyna herma eftir Barcelona.

    Held við ættum að halda í okkar sérkenni og byggja okkar leik áfram á pressuvörn og samblandi af stuttum og löngum sendingum. Slíkt finnst mér gera okkur að heilsteyptara liði enda getur heldur ekkert lið spilað þetta kerfi jafnvel og Barca. Ef við reynum að herma bara eftir Barcelona þá verðum við slöpp ensk útgáfa af þeim = Arsenal.

  6. Deildirnar eru bara of mismunandi svo við getum tekið svona samanburð raunhæft.

    Þú verður að velja liðið “rétt” saman m.v. það sem þú hefur úr að moða. Líka það hvort þú ert “underdog” eða ekki í leiknum. Þ.e.a.s. minni lið stilla á móti stærra liðinu.

    Sterkasta samsetning okkar í dag er:

    Mark: Reyna
    Vörn: Carrager, Agger, Hyypia.
    Miðja: Finnan, Sissoko, Riise
    Miðja fremri: Gerrard, Garcia
    Framherjar: Kuyt, Bellamy
    Semsagt: 3-3-2-2

  7. >Sterkasta samsetning okkar í dag er: Mark: Reyna Vörn: Carrager, Agger, Hyypia. Miðja: Finnan, Sissoko, Riise Miðja fremri: Gerrard, Garcia Framherjar: Kuyt, Bellamy Semsagt: 3-3-2-2

    Eeeeeeh, Xabi?

    Og Reina er með einföldu i.

  8. varðandi tvö síðustu ummælin

    Garcia á bekkinn og X-man inn :biggrin:

    YNWA

Wigan 0-4 Liverpool

Er Arsenal hið nýja Chelsea?