Sevilla ætla að halda í Alves

Ramon Rodriguez, yfirmaður knattspyrnumála hjá Sevilla, segir að Daniel Alves fari ekki fet frá félaginu:

>”In fact, we will make public his contract extension in the next few hours as we have reached an agreement with him.”

Sko, ég ætla að ræða þrjá hluti hérna. Í fyrsta lagi, þá er nýr samningur hans við Sevilla alls engin trygging fyrir því að hann verði þar til lengri tíma. Sá samningur þýðir einfaldlega að Sevilla eru í sterkari stöðu varðandi það að prútta um söluverð á honum. Lið eins og Liverpool, Chelsea, Real Madríd og Barcelona hafa öll verið orðuð við hann og þau munu þurfa að reiða fram hærri summu en ella fyrir kauða í kjölfar nýs samnings hans, það er allt og sumt.

Jermaine Pennant hefur valdið vonbrigðum hingað til á tímabilinu en eins og hann sýndi gegn Galatasaray á þriðjudag gæti hann enn átt eftir að koma til. Ég vona innilega að hann blómstri á seinni hluta tímabilsins og nái að festa sig í sessi, en á meðan hann heldur áfram að spila undir getu getur maður ekki annað en horft til Alves – sem á hvern stórleikinn á fætur öðrum fyrir Sevilla í vetur – löngunaraugum. Þessi leikmaður er algjör snillingur og ef við þurfum að berjast við lið eins og Chelsea, Barca og Madríd um hann kemur það mér ekki á óvart. En mikið óskaplega vona ég að Rafa landi honum á endanum, þau ykkar sem hafið ekki séð hann spila enn getið trúað mér þegar ég segi að hann gæti orðið einhver albesti kantmaður heimsins á næstu árum, og algjört leiðarljós í okkar liði.

Í þriðja lagi, þá er það mín skoðun að það er ekki séns í helvíti að hann yfirgefi Sevilla í janúar. Ekki fyrir nokkurt lið, ekki fyrir nokkurn pening. Hann vann Evrópukeppni félagsliða með þeim sl. vor og var valinn leikmaður keppninnar – og maður úrslitaleiksins – og nú í vetur stefna menn þar á bæ að því að verja Evróputitil sinn og berjast við Barcelona og Real Madríd um sigur í spænsku Úrvalsdeildinni. Margir fræðimenn eru að veðja á Sevilla um þessar mundir og segja liðið minna á Deportivo La Coruna-liðið sem vann tvo titla um síðustu aldamót, þannig að á meðan hann er í baráttunni um þessa tvo titla með Sevilla er ekki séns að hann vilji fara.

Hins vegar held ég að næsta sumar, ef/þegar liðið hans hefur dregist aftur úr Barca og Real í toppbaráttunni á Spáni (ef það gerist) og hann fer kannski að horfa löngunaraugum á liðin sem eru að berjast í undanúrslitum Meistaradeildarinnar (vonandi verður Liverpool þar á meðal) held ég að hann gæti ákveðið að þetta sé rétta sumarið til að skipta um lið. Þannig að ef Arabarnir frá Dubai eru að kaupa Liverpool og ætla að gera Rafa að öflugri manni á markaðnum held ég að hann muni koma til með að setja allt kapp á að fá Daniel Alves næsta sumar. Hann verður númer eitt á lista hjá Rafa, ef eitthvað er að marka síðustu tvö sumur stjórans, og hann er sko númer eitt á mínum óskalista líka.

Daniel Alves verður kyrr hjá Sevilla … í bili. Horfið á leikina þeirra á Sýn ef þið getið, því þið gætuð verið að horfa á framtíðarkantmann Liverpool í essinu sínu. Næsta sumar gætu stórir hlutir gerst í rauða helming Bítlaborgarinnar. 🙂

8 Comments

  1. Talandi um leikmenn sem hafa verið orðaðir við Liverpool nýlega ….. er LFC alveg hætt að eltast við Simao Sabrosa? Mikið djöfull var hann góður í leiknum í gær á móti manure. Bakverðirnir hjá manure vissu ekki hvort þeir væru að koma eða fara á tímabili. Væri flott að fá hann á hægri-kantinn.

  2. Ég er virkilega ánægður með það að hann verður kyrr! Ég hef séð leiki með Sevilla í evrópukeppninni í vetur og er hann virkilega pirrandi leikmaður! Ef fólk er þreytt á að horfa á leikaraskap þá er þetta alls ekki leikmaðurinn sem það vil! Í hvert og eitt einasta skipti sem hann gat látið sig detta og leikið sig tvífótbrotinn, hálsbrotinn, ökklabrotinn og með 6 brotin rifbein, þá gerði hann það! Nei takk segi ég!

  3. Hvernig er það með Alves, er hann hægri kantmaður eða bakvörður? Bestur kannski sem wing back? Fáum við ekki bara bæði Alves og Sabrosa? 🙂

    Síðan má velta sér upp úr því hvort við fáum ekki vinstri kantmann líka næsta sumar. Líklegt þykir mér að Kewell verði seldur, það er einfaldlega of mikið að, því miður. Ég vona þó innilega ekki enda einn af mínum uppáhalds leikmönnum…

    Svo er spurning hvort Zenden verði áfram, og þrátt fyrir að hann verði áfram hvort Rafa kaupi miðjumann eða hvort Guthrie sé jafnvel bara framtíðarmaður á miðjuna?

    Annars förum við væntanlega fljótlega að pæla í félagaskiptaglugganum í janúar, spurning hvort eitthvað gerist þar? 😉

  4. Haukur: Ég er sammála þér með að Sambrosa var góður í fyrri hálfleiknum í gær. Sá reyndar bara fyrri hálfleik og hætti að horfa eftir að Scums jafnaði fyrir leikhlé en þá sá maður að leikurinn var búinn. Er samt kominn með ógeð af portúgölskum leikmönnum eftir síðasta HM…nei takk við honum líka. Við rekum ekki leikhús.

  5. ég værir meira en til í simao, en haukur ég hataði líka portúgala eftir HM, en bara eftir england leikinn, en ég skal fyrirgefa simao allt ef ég sé hann liverpool skirtu.
    Get ekkert sagt um Alves ekki búinn að sjá hann spila.

  6. Ég vil byrja á því að taka undir með Kristjáni, Alves væri frábær fyrir Liverpool.

    Síðast þegar ég vissi spilaði hann sem bakvörður eða wing back hjá Sevilla (Jesus Navas spilar sem hægri kantmaður). Ég held að Benitez horfi frekar til hans sem bakvarðar en kantmanns , þó vissulega geti hann líka leyst þá stöðu með sóma.

    En það er ljóst að verðmiðinn á honum hefur ekki lækkað á þeim mánuðum sem liðið hafa frá tilboði Liverpool í sumar. Hefði ekki verið gáfulegra að klára þau kaup upp á 11-12 millj, heldur en að reyna að kaupa hann ári síðar á 15-20 millj í baráttu við Chelsea, Barca og Madríd. Því gengu ekki 6,7 millj sem fóru í Pennant frekar upp í verðið á Alves? Það var öllum ljóst að hann var leikmaður nr. 1 á óskalista Benitez í sumar.

    Tek líka undir með öðrum hér að það væri magnað að fá Simoa, hann getur bæði spilað á hægri og vinstri kanti auk þess að vera mjög hættulegur í holunni fyrir aftan sóknarmann. Hér erum við klárlega að tala um leikmann sem myndi styrkja okkar sterkasta lið.

    Ef Arabarnir frá Dubai kaupa Liverpool þá eru dagar Pennants og fleiri miðlungs leikmanna LFC taldir.

    Krizzi

  7. Ég held að við Púlarar séum að missa okkur of mikið yfir þessum arabapeningum, fólk byrjað að tala um að fá Kaká og Robinho og svo framvegis. Ef að þessum kaupum verður vil ég helst bara að sirka þrír til fjórir leikmenn verða keyptir en ekki lið eins og Chelsea gerir.

    Reina – Alves – Agger – Carragher – Riise – Simao – Gerrard – Alonso – D.Carvalho – Klose – Kuyt.

    Bekkur: Carsson, Paletta, Garcia, Sissoko, M.Gonzales, Bellamy, Crouch, Fowler,

    PS: Er það ekki svolítið slæmt að í þessum hóp eru bara 3 uppaldir leikmenn, Fowler, Carra og Gerrard?

  8. Þetta er þinn hópur L.Á! Guthrie má nú alveg vera þarna líka og svo eru margir sem eru að koma upp… Td Anderson, Peltier og fleiri sem voru í hópnum gegn Galatasaray.

    Annars sé ég Fabio Aurelio hvergi hjá þér, ég bind enn vonir um að hann verði vinstri bakvörður nr. 1 hjá okkur í framtíðinni.

    Nýjan vinstri kantmann er einnig líklegt að við fáum okkur, fer allt eftir því hvernig Kewell kemur út nú í janúar eða febrúar. Pennant ekki í hópnum hjá þér heldur? Skil það nú ekki. Ekki séns að hann verði seldur strax.

    Robinho? Nei takk. Kaká, já takk en kemur aldrei held ég, því miður.

Meistaradeildin: riðlakeppnin búin!

Fulham kemur í heimsókn á morgun.