Watford á morgun

Staðurinn og stundin er Anfield á Þorláksmessu. Gestirnir eru nýliðar Watford. Málið er afar einfalt, þetta er algjör hreinn og beinn skyldusigur og ekkert annað. Það hefur oft verið sagt að enginn leikur er unninn fyrirfram og það á alveg jafnt við um þennan leik eins og aðra. Aftur á móti þá eru væntingar manna fyrir leiki ekki alltaf þær sömu og efast ég um að ég gæti fundið einn stuðningsmann Liverpool sem hugsaði með sér að eitthvað annað en örugg þrjú stig út úr þessum leik væru ásættanleg.

Watford eru með ótrúlega tölfræði út úr deildinni á þessu tímabili. Þeir eru í neðsta sæti í deildinni, en eru samt búnir að tapa jafn mörgum leikjum og Reading sem nú sitja í 8. sætinu. Af þessum 18 leikjum sem búnir eru í deildinni (reyndar 17 hjá Watford) þá eru þeir “aðeins” búnir að tapa 3 fleiri leikjum en við. En það sem máli skiptir er að það skilja 20 stig þessi lið að og er það komið til vegna þess að Watford hafa einungis unnið einn leik. Þessi tölfræði sýnir okkur jafnframt að það er ekkert létt verk að brjóta þetta lið á bak aftur. Þeir eru oftar en ekki að ná að hanga á jafntefli og þeir gera það á hörkunni einni saman. Þetta er gríðarlega líkamlega sterkt lið og svo sannarlega hægt að tala um stórkallafótbolta á þeim bænum. Þeir eru ekki að skora mikið, enda þeirra veikasta hlið, en þeir eru heldur ekki að leka mikið af mörkum miðað við önnur lið. Þeir eru búnir að fá á sig jafnmörg mörk og Tottenham sem sitja í 7 sæti deildarinnar og einu færra en Reading, sem hefur þó verið hrósað fyrir ágæta vörn.

Ég verð bara hreinlega að viðurkenna það að ég veit annars afskaplega lítið um þetta Watford lið. Ég veit að þeirra helsti markaskorari hefur verið Marlon King, en hann er fjarri góðu gamni vegna meiðsla. Ben Foster stendur í markinu, en hann er eign manchester united. Aðrir eru lítt eða ekkert þekktir svona almennt. Það eina sem ég spái með þá er að þeir verði með Foster í markinu og King verður ekki með. Annars verður liðið skipað 10 öðrum leikmönnum.

Þá að okkar mönnum. Það tekur því varla að telja upp þessa þrjá sem eru meiddir, þeir hafa verið það og verða það áfram á næstunni (Bolo, Momo og Kewell). Maður hefur ekki heyrt af fleiri meiðslum og er því sá listi sá stysti sem við höfum séð lengi. Ég held að Rafa eigi eftir að hrista aðeins upp í liðinu, en þó ekki mikið. Persónulega vil ég sjá Aurelio fá að spreyta sig í vinstri bakverðinum, en halda öðru að mestu óbreyttu. Ég vil einnig sjá Agger koma inn á ný fyrir Sami. Ég ætla því ekki að spá fyrir um liðið að þessu sinni, heldur koma með byrjunarliðið eins og ég vil sjá það:

Reina

Finnan – Carragher – Agger – Aurelio

Pennant – Gerrard – Xabi – Gonzalez

Kuyt – Bellamy

Það eina sem ég átti virkilega erfitt með að velja um var hann Luis okkar Garcia. Ég ákvað að setja hann á bekkinn, í þeirri von að Gonzalez færi að spila sig í verulega gott form og með hraða sínum gæti hann valdið Watford usla á kantinum. Luis kæmi svo inná ásamt Crouch í seinni hálfleik til að klára andstæðingana endanlega.

Bekkurinn: Dudek, Sami, Garcia, Riise og Crouch

Ég held minni bjartsýni áfram og spái því að við sjáum enn einn stórsigurinn. Við erum jú að spila á Anfield og þar hefur liðinu liðið afar vel og afar lengi. Eigum við ekki að segja að við sjáum enn einn 4-0 sigurinn, þar sem Kuyt loksins hættir að reyna að skemma markrammann, Gerrard er heitur þessa dagana og heldur uppteknum hætti, Luis kemur inná og setur eitt og svo kórónar Bellamy þetta með marki í lokin. Er þetta ekki bara díll?

5 Comments

  1. Díll!! 🙂

    Ég vona að Kuyt finni markmöskvana á morgun. En þrátt fyrir góðan “Díl”. Þá á ég ekki von á auðveldum sigri á morgun. Þetta verður svona baráttusigur. Vinnst með einu marki eða svo. Strögl en sigur. Það er mín spá. Ég býst ekki við að neinn vilji gera við mig díl um þá spá… :biggrin2:

    Gleðileg Jól Púllarar nær og fjær..
    YNWA….Jón H.

  2. Þetta fer algerlega eftir því hvort okkar menn skora fljótt eða ekki. Ef við skorum fljótt getur þetta vel verið 3-4 núll, en ef við strögglum að skora í fyrri hálfleik, þá gæti þetta verið erfitt.

  3. Ég spái sigri, gott ef það verður ekki 4-0.

    Gaman að sjá spánna þeirra Sky-sport manna:

    Skysports.com Prediction: 4-0
    Liverpool to go goal crazy again against a shot-shy Watford.

    Player to watch: Craig Bellamy

    Þetta er díll sem ég tek.

  4. Ég held að crouch byrji inn á fyrir annan hvorn framherjan, rökin sem ég byggi fyrir því er að við eigum að vinna þennan leik, en eigum ögn erfiðari leik annan í jólum. og sv er er ég hlyntur því að Gonzales byrji inná, hvíla Garcia, en ef við lendum í einnhverjum vandræðum þá er gott að eiga garcia til að koma inn á í seinni hálfleik og skora eitt og leggja upp eitt einsog hann er gjarn á að gera. Við höfum séð mjög lítið af Aurelio en fyrir mitt leyta í þessu fáu skipti sem ég hef séð hann þá hef ég bara ekki séð neit í honum sem sýnir fram á að hann eigi eitthvað erindi í úrvalsdeild. En jákvæði punkturinn er sá að maður er í fyrsta skipti í langan tíma farin að sjá Gerrard vera bjartsýnan í fjölmiðlum. 3-0 sigur, Kuyt eða bellamy verða með fyrsta markið á 18 mín, einsog ég sagði áðan að ég spái að annar þeirra byrji inná og þar er sá sem skorar á 18 mín, 51 skorar svo Gerrard og svo á 82 skorar Luis Garcia

Lucas Neill á leiðinni?

Búið að draga í undanúrslit deildarbikarsins