PFC Ludogorets frá Razgrad

Hlustið á þetta og spennið beltin.

Liverpool hefur unnið þessa keppni fimm sinnum og það er við hæfi að vera aftur með á þessu tímabili því að um helgina voru liðin nákvæmlega fimmtíu ár síðan Liverpool spilaði sinn fyrsta leik í Evrópu, gegn KR í Reykjavík. Þegar Liverpool hefur leik á morgun er upp á dag fimm síðan okkar menn byrjuðu riðlakeppnina gegn svipað þekktum mótherjum, Debrecen frá Ungverjalandi.

Kristján Atli fór í gær yfir þraugargöngu Liverpool og fimm árin sem við vorum ekki með í þessari keppni en þrautarganga Liverpool er ekki neitt miðað við andstæðinga okkar annað kvöld. Þeir hafa aldrei komist í Meistaradeildina áður og eru að fara úr límingunum af spenningi og hafa fengið alla þjóðina með sér. Uppgangur þeirra er efni í kvikmynd og náði hápunkti er þeir tryggðu sér sætið með vægast sagt ævintýralegum hætti.

Ludogorets
Saga Ludogorets er örlítð flókin því að lið borgarinnar í dag er ekki nákvæmlega sama félagið og var stofnað árið 1945. Það lið komst árið 1961 í næst efstu deild Búlgaríu og voru þar í 45 ár án þess að komast upp í efstu deild, allt þar til félagið fór á hausinn árið 2006.

Knattspyrnan hefur átt mikið undir högg að sækja í Búlgaríu undanfarin ár og það var allt í rugli í Razgrad um aldarmótin. Meðan lið borgarinnar var í erfiðleikum var stofnað annað félag í júní 2001 sem fékk nafnið Ludogorie F.C. en því nafni var breytt ári seinna er nýja félagið sameinaðist yngriflokkaliði, nýja nafn félagsins var Razgrad 2000. Sagan segir að bæði Frikki 2000 og Þröstur 3000 hafi hjálpað þeim í PR málum og valið nýja nafnið.

Þetta nýja lið byrjaði því alveg á botninum en vann sig fljótlega upp um tvær deildir og komst árið 2006 í efstu deild áhugamanna í Búlgaríu, sem er þriðja efsta deild.

Fjórum árum seinna vann Razgrad 2000 sig upp um deild á ný og breytti um nafn sem svipaði meira til gamla félagsins sem hafði verið gert gjaldþrota nokkrum árum áður. Nýja nafnið var Ludogorets 1945 Razgrad og er stofnárið, 1945 ennþá í merki félagsins. Félagið er því tæknilega séð stofnað um aldarmótin en saga þeirra nær aftur til lokaárs seinni heimsstyrjaldarinnar.

Domuschiev ævintýrið
Félagslið borgarbúa Razgrad var því aftur komið í næst efstu deild og aftur komnir með sama nafn á liðið sitt. Uppgangurinn hjá þessu “nýja” liði var þó bara rétt að byrja því að í september 2010 keypti Kiril Domuschiev liðið, hann er einn af auðugri mönnum landsins. Það er alvanalegt í Búlgaríu rétt eins og annarsstaðar að vafasamir menn úr viðskiptalífinu eigi knattspyrnulið en munurinn á Domuschiev og öðrum í Búlgaríu er sá að hann er bæði til í að leggja pening í liðið og hefur raunverulegan áhuga. Domuschiev er líkur eiganda Liverpool að því leiti að hann er mjög mikið “hands on” í rekstri félagsins og gerði góð kaup á leikmannamarkaðnum frekar en að henda peningum í stærstu nöfnin. Hann er að byggja upp lið til framtíðar og hefur sagt það frá fyrsta degi og er að standa við það.

Meðan félagið var ennþá í næstefstu deild keyptu þeir marga góða leikmenn úr liðum í efstu deild, eins var sett töluverðar fjárhæðir í að endurbæta æfingasvæðið og verið er að byggja nýjan völl. Heimavöllurinn nú tekur 6000 manns og er ekki löglegur fyrir UEFA leiki.

Knattspyrnan í Búlgaríu á eins og áður segir töluvert undir högg að sækja um þessar mundir, mæting er slæm, mikið um ofbeldi á leikjum, orðrómar um veðmálabrask og annað tengt vesen. Risarnir í fótboltanum þar í landi, CSKA Sofia og Levski Sofia eru í lægð og fjárhagsvandræðum, því var leiðin kannski greiðari en oft áður fyrir nýtt lið og auðveldara að fá stór nöfn í neðri deild fyrir réttan pening.

Einn Búlgarskur lesandi Reddit útskýrði skjótan uppgang félagsins svona:

Money and they played it smart. They bought a few good young foreign players and also recruited a lot of older very experienced Bulgarian players. Obviously most of that was achieved by inputting a lot of money (for the Bulgarian football standards). In reality though their entire squad was still bought for less than what Bayern paid for Klose a few years back.

Skoðum þennan uppgang betur og hvað hefur gerst síðan liðið komst í efstu deild.

Besta lið Búlgaríu
Draumurinn eigandans rættist strax um vorið 2011 og Ludogorets komst loksins í efstu deild. Þeir höfðu á 18 mánuðum farið úr þriðju deild í þá efstu undir stjórn hins 36 ára gamla Ivaylo Petev. Liðið spilaði skemmtilegan posession fótbolta og má segja að þeir hafi verið Swansea Búlgaríu og Barcelona augljóslega fyrirmyndin.

Ævintýrið byrjaði með látum í efstu deild og mættu nýliðarnir bæði tortryggni og öfund frá andstæðingum sínum. Eigandinn sagði þetta eftir fyrstu leiki tímabilsins 2011/12

“Our ambition is a beautiful playing so the public would enjoy it. We will set our goals after.”

“We’re breaking out of the status quo – there are a lot of clubs that are not developing in the right way. And when someone sees a mechanism well maintained, working as it should, it excites envy and tension”

“My expectations are for an upright championship, support from the other clubs, and a fair play. It is important that people start going to games. Only time will show if we’re going to make it to the first three.”

Eigandinn (t.h.) virðist vera stórskemmtilegur

Framtíðarsýn og draumar eigandans hafa heldur betur ræst og rétt rúmlega það hvað gengi Ludogorets varðar. Ludo á Búlgörsku þýðir einfaldlega brjálaður og það gæti ekki átt mikið betur við þetta lið.

Fyrsta tímabil félagsins í efstu deild byrjaði með níu leikjum í röð án þess að tapa og aðeins einum tapleik í 15 fyrstu umferðunum. Fyrir lokdag tímabilsins voru þeir tveimur stigum á eftir CSKA Sofia en liðin mættust einmitt í hreinum úrslitaleik um titilinn. Ludogorets unnu þann leik og urðu meistarar með eins stigs mun. Stuttu seinna urðu þeir bikarmeistarar líka. Þeir unnu raunar allar keppnir ársins í Búlgaríu og eru aðeins annað liðið í Evrópu sem nær að afreka það sem nýliðar, lið frá Eistlandi hefur gert það líka.

Árið eftir toppuðu Ludogorets menn dramatíkina á lokadegi tímabilsis því að á meðan þeir urðu að vinna sinn leik urðu þeir að treysta á að Levski Sofia myndi tapa sínum leik. Levski hafði unnið leik liðanna í næst síðustu umferð og var því í bílstjórasætinu. Ludogorets sáu auðveldlega um sitt en hinn leikurinn var í járnum allt til loka er Levski menn skoruðu sjálfsmark á lokakaflanum og hentu frá sér sigrinum og þar með titlinum.

Þriðja tímabilið sitt í efstu deild var sigur í deildinni í höfn þegar tvær umferðir voru eftir og tóku þeir bikarinn líka. Þeir hafa því verið bestir í deildinni þrjú ár í röð og raunar hefur liðið unnið allar deildarkeppnir sem þeir hafa tekið þátt í heimafyrir sl. fimm tímabil.

Ludogorets í Evrópu
Sigur í deildinni gefur eðlilega sæti í Evrópukeppnum og ef eitthvað er virðist Ludogorets vera að toppa dramatíkina úr deildinni heimafyrir í Evrópu.

Dinamo Zagreb sló þá reyndar út 3-4 samanlagt fyrsta tímabilið en þá voru þeir líka búnir að ná tökum á þessu og voru eitt af liðum ársins á síðasta tímabili. Þeir unnu Slovan Bratislava og Partizan Belgrade í útsláttarkeppninni áður en þeir drógust gegn sterku liði Basel sem hafði betur.

Ludogorets fær tækifæri núna til að hefna ófaranna gegn Basel en tapið í fyrra þýddi að þeir fóru í Evrópudeildina og lentu í riðli með PSV, Dinamo Zagreb og Chornomorets Odesa frá Úkraínu. Ludogorets átti ekki að eiga séns í þessum riðli en tapaði á endanum ekki leik og vann raunar alla nema heimaleikinn gegn Chornomorets sem fór 1-1.

Sigur heima og heiman gegn PSV vakti töluverða athygli en þeir urðu frægir í næsta leik á eftir er þeir slóu Lazio út eftir ótrúlegt einvígi. Útileikurinn vannst 0-1 og kveikti upp gríðarlega stemmingu í Búlgaríu þar sem stuðningsmenn annarra liða hoppuðu á vagninn. Búlgara er farið að lengja eftir fótbolta á stóra sviðinu í Evrópu og sameinuðust því með samlöndum sínum.

Það hjálpar líklega að Ludogorets spilar Evrópuleiki sína í höfuðborginni Sofia sem telur um 1,5 millljón íbúa, Razgrad er 35.þúsund manna lítill svefnbær 400 km frá höfuðborginni. Liðið er bara nýkomið til umræðu í Búlgaríu og á því ekki marga alvarlega erkifjendur ennþá. Þetta er ótrúlega líkt Evrópuævintýri Stjörnunnar hér á landi ef maður hugsar út í það.

Heimaleikurinn gegn Lazio var því spilaður fyrir fullu húsi á þjóðarleikvanginum sem tekur 45.þúsund manns. 3-3 urðu lokatölur í dæmigerðum Ludogorets stíl og farseðillinn í 16-liða úrslit klár. Þar fengu þeir Valencia sem var of stór biti og vann samanlagt 0-4.

Leið Ludogorets í Meistaradeildina 2014/15
Leið þeirra í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þetta árið virkaði ekki spennandi en þar sem þetta er Ludogorets tóku þeir dramatíkina bara yfir á næsta skref og urðu heimsfrægir á 10 mínútum. Bókstaflega.

Dudelange frá Luxembourg og Partizan Belgrade voru lítil fyrirstaða og í stað Basel á síðasta tímabili beið Steaua frá Búkarest núna í leiknum sem sker úr um Meistaradeild eða Evrópudeild. Rúmensku meistararnir eru bæði veikari andstæðingur og mun þægilegra ferðalag því Razgrad er aðeins um 100 km frá Búkarest.

Undir lokin voru allir sem voru að horfa á Meistaradeildina þetta kvöld búnir að skipta fyrir á þennan ómerkilegasta leik kvöldsins. Ludogorets tapaði útileiknum 1-0 og var því á leiðinni úr keppni í stöðunni 0-0 er þeir skoruðu á lokamínútu leiksins (nema hvað) og jöfnuðu þar með einvígið.

Framlengingin var æsispennandi og stefndi í vító er markmaður Ludogorets og þeirra besti leikmaður, Vladislav Stoyanov fékk að líta sitt annað gula spjald og var rekinn af velli. Allar skiptingar búnar og því þurfti Rúmeninn Cosmin Moti að fara í markið. Það vissu allir að hann myndi klára þetta kvöld eftir að flautað var til loka í framlenginunni.

Moti tók fyrstu spyrnuna sjálfur og varði svo fljótlega frá Steua mönnum, hann notaði Grobbelaar danstaktíkina á línunni. Heimamenn klikkuðu líka á einni spyrnu og því þurfti að framlengja bráðabanann og þar var það Moti sem varð hetjan og skráði nafn sitt með bleki í sögubækurnar.

Eigandi Ludogorets var svo ángæður með þetta afrek Moti að hann sagði að ein stúkan á nýja vellinum myndi heita eftir hetjunni. Moti þessi hefur spilað um 50 leiki í Evrópukeppnum en hann var í 7 ár á mála hjá erkifjendum Steaua, Dinamo Búkarest þar sem hann var fyrirliði. Hann er ekkert að fara toppa þennan dag á sínum ferli, það er ljóst.

Stoyanov aðalmarkmaður Ludogorets fagnar miðvarðarmarkmanninum Moti eftir leik.

Þar með erum við komin að næsta verkefni, það er Liverpool á Anfield.

Helstu leikmenn og leikkerfi.
Ludogorets liðið er skipað sterkum erlendum leikmönnum í bland við Búlgarska leikmenn sem þeir hafa aðallega keypt frá keppinautum sínum í Búlgaríu.

Markmaðurinn Stoyanov er aðalmarkmaður Búlgaríu og einn besti leikmaður liðsins, hann verður í banni gegn Liverpool, varamarkmaðurinn er meiddur og því var samið við nýjan 23 ára markmann í síðustu viku sem var samningslaus, sá er landsliðsmarkmaður Kanada og spilar sinn fyrsta leik á Anfield. Moti verður líklega hugsaður sem varamarkmaður.

Ludogorets er nokkuð vel mannað í öðrum stoðum og það er töluverð samkeppni um byrjunarliðssæti á Búlgarskan mælikvarða auðvitað. Þeir spila marga leiki og rótera hópnum töluvert.

Hægri bakvörðurinn verður líklega Caiçara sem er einn fimm Brasilíumanna í liðinu, vinstra megin er dýrasti leikmaður í sögu félagsins Brayan Angulo sem kom frá Granada í sumar. Með Moti í miðverði er líklega Búlgarinn Terziev. Moti er reyndur varnarmaður og mikilvægur hlekkur í liðinu. Varnarlínan er engu að síður talin vera veikasti hlekkur liðsins og ein helsta ástæða þess að félagið skipti um stjóra nú í vor.

Leikkerfið er vanalega 4-2-3-1 og á miðjunni verður líklega fyrirliðinn Svetoslav Dyakov ásamt hinum Portúgalska Espinho. Dyakov er leiðtogi liðsins og stýrir aðgerðum fyrir framan vörnina.

Á vængjunum verða líklega Hollendingurinn Misidjan og Búlgarinn Alexandrov. Sá Hollenski er leikinn og með góða sendingagetu, hann réttfættur en spilar vanalega vinstramegin. Alexandrov er meira varnarsinnaður og hjálpar bakverðinum meira.

Stóru nöfnin í liðinu eru líklega Brasilíumennirnir Marcelinho sem hefur verið frá 2011 og Wanderson sem kom í sumar. Wanderson kom inná undir lokin gegn Steaua og skoraði markið mikilvæga á 90.mínútu. Annarhvor þeirra verður líklega sóknartengiliður.

Upp á topp verður að öllum líkindum annað hvort Slóveninn Roman Bezjak eða Túnismaðurinn Hamza Younés sem var keyptur í sumar. Hamza var lélegur gegn Steaua í fyrri leiknum og hefur byrjað mótið illa og missti því sæti sinn í byrjunarliðinu.

Flestir ef ekki allir leikmenn Ludogorets komu til liðsins eftir árið 2011.

Stjórastaða Ludogorets
Þeir eru ekkert að grínast með kröfurnar þarna í Búlgaríu. Ivaylo Petev, þjálfarinn sem fór með liðið upp úr þriðju deild og í þá efstu þar sem liðið vann gjörsamlega allt sem í boði var fékk reisupassann eftir þessi þrjú ótrúlegu ár, hann nefninlega tapaði fyrsta leik tímabilsins.

Sá sem tók við af honum og var því stjóri liðsins á síðasta ári heitir Stoycho Stoev og vann bæði deild og náði ótrúlegum árangri í Evrópu. Það dugði þó ekki til því nú í sumar gerði Ludogorets aðeins jafntefli gegn Partizan Belgrade í útsláttarkeppninni og var hann því rekinn.

Núverandi þjálfari er því á sínu fyrsta tímabili, sá heitir Georgi Dermendzhiev og hefur verið aðstoðarþjálfari og yfir akademíunni frá 2011 og vilja margir meina að frábær árangur liðsins sé mun meira honum að þakka en margir halda og þessar mannabreytingar því ekki jafn fullkomlega fáránlegar eins og þær horfa við manni.

Dermendzhiev er sagður hafa það fram yfir forvera sína að hann er mun betri í að skipuleggja varnarleikinn og nær að halda leikmönnum í miklu betra formi. Liðið virkaði þungt og þreytt í byrjun tímabilsins og það gætti óánægju meðal leikmanna. Liðið byrjaði mótið ósannfærandi og því var gripið til þessara aðgerða.

Ludogorets hefur aðeins unnið 6 af fyrstu 14 leikjum þessa tímabils í öllum keppnum og því er starfið líklega strax í hættu. Deildarkeppnin hefur aðeins liðið fyrir Evrópuævintýrið en mikil orka og athygli fór í leikina gegn Steaua. Dermendzhiev er þó sagður vera búinn að koma liðinu í gott stand og þeir eiga alveg að þola álagið.

Liverpool á alls ekki að lenda í vandræðum með þetta lið en þessi lesning sýnir mönnum vonandi að þetta er svo sannarlega sýnd veiði en alls ekki gefin. Þeir hafa reynst öllum andstæðingum sínum erfiðir og þó þeir ættu að tapa öllum leikjum sínum í þessum riðli illa efast ég um að þeir verði án stiga í desember.

Síðast þegar Liverpool mætti liði frá Búlgaríu var árið 2006 gegn CSKA Sofia. Fyrri leikurinn fór 3-1 í Sofia en við töpuðum seinni leiknum heima 1-0 og höltruðum gríðarlega ósannfærandi í Meistaradeildina. Þá ríkjandi meistarar.

Ekki afskrifa þetta lið alveg.


Liverpool
Aðeins einn leikmaður er eftir úr þessu liði Liverpool sem sló út CSKA Sofia, það er að sjálfsögðu leiðtoginn Steven Gerrard. Hann var reyndar líka í liðinu gegn Levski Sofia 2003/04 í Evrópudeildinni og skoraði í báðum viðureignum. Hann þekkir því ágætlega að spila á þjóðarleikvangi Búlgaríu. Liverpool hefur samtals spilað 8 leiki gegn liðum frá Búlgaríu, unnið sex og tapað tveimur.

Síðast þegar við vorum með í Meistaradeildinni byrjaði riðlakeppnin á nákvæmlega eins einvígi gegn svipað hátt skrifuðu liði. Þá var Rafa Benitez við stjórnvölin og hann tók enga sénsa með byrjunarliðið, henti sterkasta liði í þennan leik og raunar skilaði það bara 1-0 sigri. Mig grunar að Brendan Rodgers hugsi þetta svipað og sýni Ludogorets fulla virðingu hvað liðsvalið varðar.

Það er töluvert leikjaálag núna og það hefur tekið sinn toll en þar sem þetta er fyrsti leikur og það á heimavelli held ég að fáir verði hvíldir fyrir West Ham úti um helgina.

Svona giska ég á að byrjunarliðið verði.

Mignolet

Manquillo – Lovren – Sakho – Enrique

Henderson – Gerrard – Lucas

Sterling – Balotelli – Lallana

Ekki endilega það lið sem ég myndi velja sjálfur en ég get séð Rodgers gefa Moreno smá hvíld enda fín breidd í hans stöðu núna og eins gæti ég trúað að Lucas komi inn í þennan leik fyrir Coutinho (eða Gerrard). Gefið að Allen og Can eru ekki heilir.

Sterling virtist vera hvíldur um helgina sem kostaði okkur illa og ef það er málið er ljóst að hann kemur aftur inn fyrir þennan leik. Lallana stóð sig ágætlega og þarf mínútur sem ég held að hann fái hérna á meðan Markovic verðskuldar að fara á bekkinn (Uppfært – Markovic er í banni næstu tvo leiki eftir brottreksur á síðasta tímabili).

Sama má segja um Balotelli eftir síðasta leik og Lambert gæti haglega fengið byrjunarliðssæti á hans kostnað en ég veðja á Ítalann áfram. Það er mjög erfitt að sjá fyrir hvernig Rodgers leggur þennan leik upp. Persónulega væri ég til í að sjá tígulmiðju með Balotelli frammi ásamt Lambert eða Borini.

Eftir síðustu helgi er frábært að fá annan leik strax og einbeita sér að honum. Það er reyndar bara frábært að fá þessi þriðjudags-og miðvikudagskvöld aftur. Eina sem er verra en enginn leikur í miðri viku er fjandans Evrópudeildarleikur.

Spá:
Eftir tímann sem ég lagði í Ludogorets ætla ég ekki að fara vanmeta þá núna, þetta lið er nógu klikkað til að vinna Real Madríd. Vonum að þeir geri það frekar en okkar menn. Vörnin okkar er svo götótt að ég sé Ludogorets léttilega skora tvisvar gegn okkar mönnnum. Vörnin hjá þeim er engu skárri og okkar menn setja þrjú mörk. 3-2 og Balotelli skorar öll mörkin á innan við klukkutíma. (Til vara segi ég 4-0 sem væru eðlilegri úrslit).

Babú

42 Comments

  1. Fyrsta Meistaradeildarupphitunin eftir fimm löng ár og andstæðingur við hæfi. Höldum umræðunni um Meistaradeildina og liðin í þeirri keppni, ekki um liðin sem eru ekki með eins og í síðasta þræði.

    Fyrir áhugasama um enn meiri upplýsingar um Ludogorets bendi ég á skemmtilegt podcast hjá Anfield Index, þar var Búlgarskur stuðningsmaður Liverpool sem veit allt um þetta lið.

  2. Vá, ég tek ofan fyrir þér, Babu! Þvílík og önnur eins hágæðaupphitun! Svo löng og góð lesning er þetta að ég þurfti örugglega að skruna 4x til baka til að endurræsa lagið. 🙂

    Mikið er frábært að Liverpool sé aftur komið í Meistaradeildina. Þessi vetur verður mun skemmtilegri fyrir vikið.

  3. Væri fínt að gefa Manni eins og Suso tækifæri í þessum leik, ekki það að við eigum endilega að vanmeta Ludogorets, en Suso er klárlega hæfileikaríkur Leikmaður og við verðum að geta treyst á alla leikmenn okkar og að þeir geti gert vel eins og allir aðrir. Kolo Toure og Suso eiga að fá Startið.

  4. Smá saga:

    Ég spila pílukast hjá Pílukastfélagi Reykjavíkur. Þegar ég byrjaði var maður svona um 70 þarna sem er búinn að vera pílukastari í mörg. Það var Liverpool leikur í gangi og ég tók eftir að sá gamli fagnaði þegar Lfc skoraði. Ég sagði “Ég sé að þú ert púlari”. Gamli svaraði: “Já alveg síðan ég spilaði á móti þeim”. Ég: “ha hvenær gerðir þú það?””- Gamli: “Nú í fyrsta evrópuleiknum þeirra á móti okkur í KR, ég var í byrjunarliðinu.” Ég brá mér á barinn og keypti bjór handa þessum manni. Massa respect. Kappinn heitir Þorgeir Guðmundsson og spilaði þennan fræga leik.

  5. Frábær upphitun að vanda, velkominn aftur til starfa Evrópu-Babú. Ég hef saknað þín. 🙂

    Þetta Ludogorets-lið er alveg magnað og eiginlega synd og skömm að maður skuli þurfa að halda á móti þeim á morgun. Ég verð allavega grjótharður Ludo-maður þegar þeir spila við Basel og Real. Þar má ævintýrið halda áfram, bara ekki gegn okkur.

    Hvað Liverpool-byrjunarliðið varðar er ég sammála þér. Sterling aftur inn fyrir annað hvort Markovic eða Lallana, Lucas inn á miðjuna og kannski Enrique inn fyrir Moreno. Ég gæti alveg séð vörnina vera óbreytta enda þarf hún að fá leiki til að stilla strengina en hitt tvennt meikar sens.

    Ég hef bara tvær óskir fyrir morgundaginn: Liverpool-sigur og að Balotelli skori, helst fleiri en eitt. Sá drengur var víst eitthvað veikur fyrir helgina og var sparkaður út úr leiknum snemma gegn Villa en maður veit líka að hann er klárlega strákur sem lætur það hafa áhrif á sig að lenda í markaþurrð. Hann verður að setj’ann á morgun.

    MEISTARADEILDIN er komin aftur á ANFIELD. Djöfulli sáttur bara.

  6. Hvílík og önnur eins heimildarvinna sem fer í þetta hjá þér! Þetta er alveg gargandi snild.

    Mikið roooosalega hlakkar mig til annað kvöld að sjá Gerrard labba inná völlinn með Meistaradeildarlagið í gangi!!!

    Þetta Ludogorets-lið er alveg magnað. Persónulega held ég að Coutinho verði inná í þessum leik en ekki Lucas. Ekki það að Kúddi eigi það skilið heldur tel ég að sóknarþunginn sé hugsaður ofar heldur en að hafa Lucas og Gerrard þarna inná.
    Balotelli verður að setja hann í þessum leik og fá smá hungur í markið, annars sé ég Lambert alveg taka sætið af honum en ég held að það eigi ekki að gera.

    Vörnin ætti að vera óbreytt frá seinasta leik, þeir verða að spila sig almennilega saman.

    YNWA – Rogers we trust!

  7. Ekki er það langt síðan ég fór að fylgjast með hérna en mikil ofboðsleg heppni það var að hafa rambað hérna inná, bætir gæði lífsins alveg töluvert 😀 Snilld og aftur snilld 😀

  8. Svo er það bara spurningin: hvort mun Rodgers tefla fram Small, Medium eða Large liðinu sínu?

    Small: Sturridge, Sterling, Stevie, Skrtel, Sakho, Suso
    Medium: Mignolet, Moreno, Markovic, Mario, Manquillo
    Large: Lovren, Lucas, Lambert, Lallana

    (Já ég veit, það vantar nokkra, uss ekki skemma samanburðinn…)

  9. Ég var að sjá á Twitter að Lazar Markovic er enn í banni í Evrópu eftir að hafa verið rekinn út af í undanúrslitum EL með Benfica síðasta vor. Hann fékk 3ja leikja bann, missti af úrslitaleiknum og á því tvo leiki í banni eftir.

  10. Komið þið sæl og blessuð.aðeins ut fyrir efnið.hvert er best að snua ser til að fa miða á Anfield?með fyrirfram þökk

  11. Frábær upphitun!!

    Ég spái Liverpool sigri í erfiðum leik sem endar 4-2. Balotelli hlýtur að setja amk 1 og Sterling leggur upp 2 og setur eitt sjálfur

    Áfram Liverpool

  12. Sælir félagar

    Sælir erum við Púllarar að eiga mann eins og Babú þann góða dreng. Mögnuð upphitun og upplýsandi fyrir okkur sem nennum ekki lengur að pæla í svona hlutum vegna þess hve vel er með okkur farið hér á KOP-inu.

    En smá út úr efninu. Verður ekkert gert í sparkinu sem Balo fékk frá miðverðarnautinu honum Senderos hjá AV? Mér finnst að klúbburinn eigi að kæra þetta atvik. Hvað finnst mönnum og hvað er hægt að gera í svona málum?

    Annars bara frábært að vera aftur í meistaradeild þó svartsýnin sé vöknuð eftir hörmungina á laugardaginn.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  13. Frábær upphitun. Takk Babú. Ef einhver ykkar kop penna kemur á Húsafell næsta sumar splæsi ég sundmiða, pullu og malt í gleri á viðkomandi sem þakklætisvott.

  14. Takk fyrir undursamlega upphitun, fann CL theme song á repeat á youtube, það verður í gangi eitthvað fram eftir nóttu.

    Eins og ég er vonsvikinn eftir helgina, þá er ég alveg jafn spenntur fyrir þessum leikjum 6 CL leikjum sem við eigum eftir að horfa á hetjurnar okkar spila fram að jólum, vonandi síðan 7 í viðbót eftir áramót. Ég var í alvörunni búinn að gleyma því hversu gaman er að vera í þessari keppni, 5 ár eru ótrúlega fljót að líða, en vá hvað margt hefur breyst á þessu tímabili, það er jafnvel efni í bók hvað hefur breyst mikið í Evrópskum fótbolta á þessum 1900 dögum.

    Liverpool-liðið hefur tekið góða stungu ofaní dýpstu laug sem fyrirfinnst og að lokum náð fyrsta sundtakinu og um leið fyrsta andardrættinum. Þessi andardráttur er sennilega sá mikilvægasti í sögunni, 2. sætið í deild og margir flottir leikmenn mættir. Ef liðinu hefði ekki tekist að anda hefði verið spurning um meðvitundarleysi sem tæki aðra 1900 daga að lífga við að nýju.

    Þetta Ludo lið er lið sem er nýbúið að læra að synda, og er núna að kynnast djúpu lauginni, Liverpool er einmitt liðið sem á að sýna þeim hvernig á að höndla hana, sýna þeim hvað Ludo eru að gera vitlaust og hvernig þeir eiga að bregðast við í næsta andardrætti.

    Ég sé byrjunarlið Liverpool fyrir mér sem u23 lið (meðalaldur). Enginn Gerrard, Skrtel eða Lambert. Bara þessir ungu strákar sem eiga að kunna að spila í gegnum hvaða litla lið sem er, um að gera að gefa Suso tækifæri til dæmis. Allt undir 3-0 eru vonbrigði, er það ekki?

    Og Birkir, sem heimamaður í Borgarfirði, þá er talað um að fara Í Húsafell en ekki Á Húsafell 🙂

  15. Frábær upphitun. Þetta verður erfið fæðing en leikurinn fer 3-1 fyrir okkar mönnum. Svo ein sp. hvar er best að horfa á leikinn i København?

  16. Það er enginn Aston Villa maður í þessu Ludo liði er það nokkuð?

    Vonandi ná okkar nýju gaurar góðum leik…Lallana, Salami Balotell o.s.frv.

  17. Doremí við Húsfellingar höfum alltaf verið skrýtið phólk og segjum hlutina einsog við meinum þá 😉

  18. Kæru félagar…

    Þvílík upphitun, við sem styðjum Liverpool FC og lesum þennan pistil eru afskaplega heppin þjóðflokkur því þarna fær maður útrás fyrir nördin í sér og getur fengið allar þær upplýsingar um andstæðingin sem vantar….Takk takk

    Nú er kvöldið að renna upp og óneitanlega er maður spenntur , allir sem tala um þennan leik tala um að Liverpool eigi að vinna og að þetta verði ” walk in the park” EN vanmatið er hættulegur andstæðingur og þessi ganga í garðinu getur breyst í stórhættulega göngu þar sem tap verður niðurstaðan. Eftir lesturinn á greininni þá sá ég að þetta lið ( get hvorki sagt né skrifað nafnið) er alveg tilbúið til að berjast og fara alla leið og því verða okkar menn að fara með höfuðið rétt skrúfað á og tilbúnir að mæta hættulegum andstæðingum.

    Eftir tapið um helgina fór allt ferlið í gang aftur…kökuáheitin fyrir vinnufélagana,pizzuáheit fyrir vin minn United stuðningsmanninn og ýmis önnur áheit. Neglurnar sem ég safnaði í sumar verða líklega farnar fyrir mánaðarmót og gott ef hárið mun ekki styttast og þynnast við stöðug tog.

    Kæru vinir nú ríður á að muna að við göngum aldrei ein og nú þurfa drengirnir okkar á öllum þeim andlega stuðningi sem við getum veitt, hugsum því fallega til þeirra með baráttu anda og vonandi verða það þeir sem fagna að leikslokum í kvöld.

  19. Býsna góður dagur í dag.

    Komnir aftur í CL. Þetta er reyndar keppni sem er að mínu matin orðin ansi ofmetin á meðan á riðlakeppninni stendur og ég hef ekki endilega saknað þeirra leikja mjög mikið.

    Hins vegar er þetta auðvitað keppnin “okkar” og verulega gaman að vera aftur á meðal 32ja “bestu” liða Evrópu, á þeim stað viljum við jú alltaf vera. Fyrst og síðast finnst mér svo gleðilegt að fá aftur leiki í miðri viku, þeirra hef ég saknað gríðarlega!

    Það skiljanlega bakslag sem kom í liðið um helgina hefur vonandi fókuserað alla í klúbbnum enn og aftur í átt að bjartari framtíð og ég vona mikið að við sjáum flottan leik í kvöld. Hins vegar deili ég áhyggjum Babú vinar míns um “léttleika” leiksins í kvöld. Búlgarska liðið er komið á stærsta sviðið í sinni sögu og þá á maður yfirleitt leik lífs síns eða maður frýs. Hvort verður uppi á teningnum veit ég ekki.

    Varðandi byrjunarliðið þá held ég áfram að kalla eftir 4-1-2-1-2 kerfinu sem virkaði í fyrra, það þarf að mínu mati að finna út úr því þó við séum Suarez og Sturridge lausir. 4-2-3-1 kerfið hefur einfaldlega verið stirt og þarfnast meiri vinnu held ég.

    Ég er líka á því að í kvöld fáum við að sjá leikmenn sem hafa reynslu af stórum leikjum í bland og ég spái Glen Johnson í hægri bak og Moreno í vinstri.

    Ef ég væri að stilla upp setti ég upp demant með SG aftastan, Hendo og Lallana þar fyrir framan, Markovic/Coutinho þar fyrir framan og Sterling með Balotelli uppi á topp…en það er vissulega bara ég.

    Jæja…þá er að hlusta á lagið aftur…

  20. Frábær pistill, enn ein snilldin hjá ykkur félagar. Þá er reyna hugsa um vinnuna í dag og útiloka hnútinn sem er byrjaður að myndast í maganum, já þetta tekur á félagar.

  21. Er virkilega enginn búin að nefna það að búið er að skipa nýjan varafyrirliða? Það er að sjálfssögðu Jordan Henderson!

    [img]https://fbcdn-sphotos-e-a.akamaihd.net/hphotos-ak-xpa1/v/t1.0-9/10687188_343765019126411_194312825885163496_n.jpg?oh=d9e66e48dc20bf8e54437d1cf911bed9&oe=54C83EED&__gda__=1417859792_ba0c4682e90774ba48cba8614f265fed[/img]

  22. Sælir Kop-arar. Hvar er best að nálgast miða á LFC leiki? Hvaða miðasöluvefi hafa menn verið að nota?

  23. Vitið þið hvernig það er með Sport3 stöðina, nú er ég að borga fyrir enska boltann og hef þar með Sport2 og allar aukastöðvarnar. Loka þeir á Sport3 meðan leikurinn er í gangi í kvöld?

  24. Í nótt dreymdi mig byrjunina á þessum leik, það sýnir mér að leiktíðin hjá Liverpool er byrjuð aftur, núna er árið talið niður í fótboltaleikjum hjá Liverpool.
    Mig dreymdi að Balotelli hefði skorað og fagnaði með þvílíku sólheimaglotti, mér leið vel.
    Áfram Liverpool!

  25. Nr. 28

    Já ég held að það sé alltaf lokað fyrir aukastöðvarnar á svona kvöldum enda leikirnir partur af dagskrá Stöð 2 Sport. Þ.e.a.s. aukastöðvarnar eru einmitt það, aukastöðvar sem notaðar eru fyrir bæði Sport og Sport 2 þegar það hentar.

    Ég er samt bara að geta í eyðurnar.

  26. Vonandi sýnir liðið okkar hraða og snerpu meira enn í leiknum gegn Aston Villa og Balli skori mark svo að hann komist í gang. ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!!!!!!

  27. Takk fyrir undursamlega upphitun Babú, ég geri mér varla grein fyrir því að þetta sé að fara almennilega í gang.

    Tek undir með þeim sem telja þetta lið sýnda veiði en ekki gefna. Bæði vegna meiðsla lykilmanna hjá okkur og þess sem talið er upp hér að framan, stærsti leikur í sögu Ludo-liðsins, nýtt lið á uppleið, okkar menn að spila sig saman osfrv.

    Ég held þó að okkar menn verði ekki í teljandi vandræðum þegar líða tekur á leikinn. Ég segi eins og Maggi, ég vil fá tígul, en nota frekar Lucas heldur en Gerrard og gefa svo Borini séns uppi á topp með Balotelli.

    Að því sögðu spái ég 3-1 sigri eftir scary fyrri hálfleik. Búlgarir kunna alveg á skyndisóknir og geta verið mjög klókir og teknískir. Við erum samt með mun betra lið og allt annað en sigur yrðu klár vonbrigði.

  28. Steinib, nú veit ég ekki hverskonar áskrift þú ert með en ef þú ert með Stöð 2 að auki við enska boltann er kostnaður að bæta við hinni sportstöðinni 10 krónur á mánuði. Komst að þessu um helgina, þ.e. að uppfærsla í Stóra pakkann hjá Stöð 2 er þessar örfáu krónur í viðbót. Þeir hefðu nú gjarnan mátt eiga frumkvæði að því að láta mig vita en ég fór ekki að athuga þetta fyrr en nú þar sem Lfc er komið í CL fyrst nú.

  29. Takk fyrir flotta upphitun spái þessu 3-1 . balotelli með 2 og marko með hitt og þeir grísa einu inn úr horni

  30. Ég vona að mér sé fyrirgefin frekjan, en mætti ég biðja þá sem sjá um vefinn kop.is að setja aftur linkinn til að sjá ummæli við hverja færslu efst í hverri færslu eins og áður var.

    Annars er ég þrælspenntur fyrir kvöldinu í kvöld, og er það langt síðan ég hef verið jafn spenntur fyrir þriðjudagskvöldi. Það að sjá liðið okkar spila aftur á stóra sviðinu gerir mig einkar glaðann og hef ég þá bjargföstu trú að við munum ná góðum árangri í þessari keppni í vetur.

  31. Frábær Pistill !

    Spennan eykst……
    :O)

    nr. 35, það eru oft beinar útsendingar í keiluhöllinni (kaffi Jónsson) á Akureyri

  32. Þvilík upphitun ! ! ! Takk meistari Babu. Vona að okkar menn bæti fyrir hörmungina á móti Villa um síðustu helgi. Fyrsti CL leikur hjá BR sem stjóri. Hann HlÝTUR að ætla að byrja þessa keppni með látum.

    van gaalinn horfir bara á sjónvaripið 😉

  33. League tonight:
    Mignolet, Manquillo, Moreno, Lovren, Sakho, Gerrard, Henderson, Coutinho, Sterling, Lallana, Balotelli.
    Substitutes: Jones, Enrique, Toure, Lucas, Suso, Borini, Lambert….

  34. Hlakka til að sjá fyrsta leik okkar i meistaradeildinni i 5 ár, minnkaði þó spennan er eg sa leikinn a laugardag, skulum vona að okkar menn verði betri i kvold en a laugardag, spai þó bara 2-1 i barningsleik en til vara set eg 5-0 og syningu…

  35. Takk Babu fyrir snilldarupphitun!!! Eina sem má kannski við þetta bæta er að Ludogorets hafa einu sinni áður spilað í Liverpool, þ.e. árið 2012 er þeir spiluðu lokaðan æfingaleik við Everton á Goodison Park sem endaði 1-1. Við megum alls ekki vanmeta þetta lið. Er þó bjartsýnn að vid eigum góðan leik og vinnum 2-0

Útlegð

Liðið gegn Ludogorets