Liverpool og Chelsea mætast á morgun í 24. umferð Úrvalsdeildarinnar og, að mér telst til, í aðeins þrettánda skiptið á tæpum þremur tímabilum síðan þeir José Mourinho og Rafael Benítez tóku við liðunum.
Í þessum þrettán viðureignum hefur José Mourinho yfirhöndina, með sex sigra, fjögur jafntefli og þrjú töp. Í deildinni er hins vegar annað uppi á teningnum, en þar hefur José Mourinho unnið alla fimm leiki sína gegn Rafa Benítez. Á morgun einfaldlega verður sú tölfræði að breytast Benítez í hag.
Eins og þið sjáið hér til hliðar er staðan í Úrvalsdeildinni mjög áhugaverð fyrir leiki helgarinnar. Auk stórleiks morgundagsins mætast liðin í fyrsta og fjórða sæti, Man U og Arsenal, á heimavelli þess síðarnefnda á sunnudag. Auðvitað vinnst enginn titill í janúarmánuði en fari svo að við vinnum Chelsea og United vinni Arsenal – og nái fyrir vikið níu stiga forskoti – verður að teljast mjög líklegt að Rauðu djöflarnir hampi titlinum í vor. Hvað snýr að okkar mönnum hugsa ég að sigur okkar á morgun og tap Arsenal gegn United myndi henta okkur best, því það er langsótt að við vinnum upp forskot United en gætum þegið að setja Arsenal lengra fyrir aftan okkur.
Af Chelsea-liðinu er það helst að frétta að allt virðist í uppnámi innan klúbbsins. José Mourinho er sagður vera á förum frá félaginu í vor vegna deilna við Roman Abramovich eiganda og Frank Arnesen, yfirmann leikmannamála, og þá segir slúðrið að Andryi Shevchenko sé höfuðþátturinn í þeirri deilu. Þess utan eru nokkrir leikmenn fjarri góðu gamni, en Claude Makelele er í leikbanni á morgun á meðan þeir John Terry, Joe Cole og Khalid Boulahrouz eru frá vegna meiðsla. Hins vegar kemur hinn stórgóði Petr Cech aftur inn í mark Chelsea á morgun eftir fimm mánaða fjarveru eftir höfuðkúpubrot.
Þeirra veikasti hlekkur verður nær örugglega vörnin og markið. Í fjarveru John Terry og Claude Makelele þarf Michael Essien sennilega að sinna miðjuhlutverkinu, sem þýðir að Mourinho gæti þurft að hafa bakvörð í miðri vörn sinni með Ricardo Carvalho. Þá er endurkoma Cech mikill óvissuþáttur – verður hinn frábæri Tékki í sínu gamla, góða formi strax í fyrsta leik eða mun mikið ryð og jafnvel ótti einkenna leik hans? Hver veit, en það gæti verið að endurkoma hans hafi stór áhrif á útkomu leiksins á einn veg eða annan. Ég er samt viss um að ég tala fyrir hönd okkar allra þegar ég segi að ég vona að Cech meiðist ekki. Maður óskar mótherjum sinna ýmislegs en ekki meiðsla.
Frammi verða þeir samt skeinuhættir sem aldrei fyrr. Didier Drogba hefur verið einn besti leikmaður Úrvalsdeildarinnar í vetur og Arjen Robben hefur verið að koma inn sjóðheitur, og þeir munu leiða sóknarlínu liðsins á morgun. Auk þess er ljóst að menn eins og Lampard og Ballack þurfa aldrei nema eitt færi til að setja mark sitt á leikinn.
Það er ljóst í mínum huga að þessi leikur á morgun heldur jafnvægi á bláþræði fyrirfram, og getur dottið fyrirvaralaust niður öðrum hvorum megin. Bæði lið hreinlega verða að sigra og margt mælir bæði með og á móti málstað beggja. Vonandi verður Anfield tólfti maðurinn á morgun og vonandi ná okkar menn að svara gagnrýnisröddunum og vinna eitt af hinum stórliðunum þremur.
Hjá Chelsea held ég að þetta sé líklegt lið:
Geremi – Ferreira – Carvalho – Cole
Ballack – Essien – Lampard
Shevchenko – Drogba – Robben
Hjá okkar mönnum hefur lítið breyst í leikmannamálum. Bolo Zenden er byrjaður að æfa en verður líklega ekki í hópnum á morgun, á meðan menn eins og Momo Sissoko, Harry Kewell og Luis García verða frá vegna meiðsla. Mark Gonzalez er orðinn heill og gæti orðið með á morgun en það yrði þá aldrei nema sem varamaður. Spurningin er aðallega hvort Rafa mun stilla öllum þremur framherjunum upp aftur eða ekki. Ég hallast að því að hann láti Crouch byrja á bekknum á morgun og stilli upp hefðbundnu 4-4-2. Þá held ég að hann velji reynslu fram yfir unggæði í vörninni, sérstaklega þar sem Sami Hyypiä er eini varnarmaðurinn okkar með líkamsburði til að berjast eitthvað að ráði við Didier Drogba.
Ég held að byrjunarlið okkar á morgun verði sem hér segir:
Finnan – Carragher – Hyypiä – Riise
Pennant – Gerrard – Alonso – Aurelio
Bellamy – Kuyt
Hvað veit maður svo sem? Þetta eru tveir óútreiknanlegustu stjórar deildarinnar, ég gæti haft kolrangt fyrir mér með bæði liðin. En það er gaman að giska. 🙂
MÍN SPÁ: Aldrei þessu vant, þegar Chelsea-liðið er annars vegar, segja bæði heilinn í mér og hjartað það sama. Vandræði þeirra innan og utan vallar, auk góðs forms okkar manna í Úrvalsdeildinni sl. tvo mánuði, gera það að verkum að okkar menn þykja hreinlega sigurstranglegri á morgun. Það eru fimmtán mánuðir síðan við töpuðum 4-1 fyrir Chelsea í síðasta deildarleik á Anfield og rúmir þrír mánuðir síðan þeir unnu okkur 1-0 á Stamford Bridge. Í þeim leik voru Liverpool betri aðilinn en einstaklingssnilli Didier Drogba skildi liðin að.
Ég er allavega viss um að þeir munu ekki halda hreinu á morgun. Vörn Chelsea hefur einfaldlega verið hriplek upp á síðkastið og jafnvel með endurkomu Petr Cech sé ég hana ekki fyrir mér halda stórsókn Liverpool á Anfield fjarri. Gleymum því ekki að okkar menn hafa verið að skora helling sl. tvo mánuði, jafnvel í tapleikjunum tveimur gegn Arsenal skoruðum við fjögur mörk á 180 mínútum. Þannig að það er ekkert óeðlilegt að ætla að okkar menn skori á morgun.
Til að gera langa sögu stutta er einhver pirringur í litlu tánni sem segir mér að við munum vinna 2-0 sigur á morgun og þeir Steven Gerrard og Dirk Kuyt munu skora mörkin í sitt hvorum hálfleiknum. Ég vona alveg svakalega heitt og innilega að ég hafi rétt fyrir mér. 🙂
Áfram Liverpool!
Þakka fyrir enn eina frábæra upphitunina frá ykkar frábæru LFC síðu.
Annars tel ég að þessi “vandræði” Chelsea séu útblásin og í raun að John Terry sé ekki með gerir bara LFC kleift að skora mark á morgun. Vonandi verða þau fleiri en þau sem Chelsea skora. Ég hallast á jafnræði í markaskorun á morgun, 0-0.
ég væri meira til í að sjá Agger standa við hlið Carra… Langar ekki mikið að sjá aftur þegar Hyypia stendur kjurr og Drogba tættir framhjá honum… Vel frekar snerpu framyfir reynslu þar sem að Drogba er löngu farinn að þekkja takta Sami´s…
Enn annars er þetta líklegasta uppstillingin og vonandi að við komum úr þessari viðureign sem sigurvegarar af GUÐS náð !
YNWA
Vá hvað þetta verður góður leikur. Spennan er heldur betur byrjuð að byggjast upp. Mjög gaman að lesa svona jákvæða og bjartsýna upphitun. Ég er minna hræddur núna.
Þó að það þurfi líkamlega sterkan mann til að ráða við Drogba þá má ekki gleyma því að Drogba, Sheva og tala nú ekki um Robben eru allir skuggalega fljótir og það gæti orðið okkur að falli. Kannast einhver við að vera betri aðilinn í leiknum og fá síðan skyndisókn í andlitið og lenda marki undir! Ég ætla að veðja á Agger í stað Hyypia.
Vörnin er klárlega veikasti hlekkur Chelsea í þessum leik og við komum til með að skora á Anfield. Ég vona innilega að Ferreira verði í miðri vörninni. Hann er nógu lélegur varnarlega í bakverðinum, við höfum oft séð Riise, af öllum mönnum, fara illa með hann. Treysti Bellamy, Kuyt og Crouch öllum til að rúlla honum upp.
Ég mundi vilja sjá Crouch inn á í leiknum. Carvalho og Ferreira er báðir litlir og eiga ekki séns í skallaboltana á móti Crouch og Kuyt.
Við komum til með að pressa Chelsea hátt upp á vellinum í fyrri hálfleik, með Agger (á kostnað Hyypia) og Crouch (á kostnað Bellamy) í liðinu, annars sama lið og Kristján stillir upp. Crouch með mark í fyrri hálfleik. Bellamy kemur inn fyrir hann í seinni og setur annað markið! 2 – 0 fyrir Liverpool.
Spennandi. Ég er ekkert súperbjartsýnn á þennan leik satt best að segja. Okkur hefur gengið herfilega á móti “stóru” liðunum þessa leiktíð. En kannski er tíminn núna til að breyta því. Vonandi. Ég er ennþá í sárum eftir Arsenal útreiðina og ég held að geðheilsan mín þoli varla stórt tap á móti Chelsea á morgun.. :rolleyes:
Áfram Liverpool….
jam verðum nú bara að vinna á morgun.. engin spurning… vonandi að hægri kantur ársins, að mati UEFA, eigi stórleik… hvaða grín er það að gerard ´hafi verið besti hægri kantur í evrópu í fyrra… en flott viðurkenning fyrir hann… vonandi að hann verði valinn á miðjuna í næsta lið.. 🙂
Ég er sammála þessari uppstillingu. Nema kannski að Agger fái að spila þar sem hann stóð sig mjög vel síðast þegar hann spilaði á móti Chelsea.
Ég vona innilega að Gerrard eigi eftir að kenna Ballack að spila fótbolta og að hann taki vel á honum.