Fær Brendan að kaupa eður ei?

Fyrsti í aðventu er runninn í hlað og við erum að ganga inn í mánuð sem gæti hugsanlega mótað leiktíð Liverpool. Sex deildarleikir, átta liða úrslit í Deildarbikar og úrslitaleikur við Basel um hvort liðið kemst upp úr riðlinum í Meistaradeildinni. Þetta er hrikalega stór mánuður fyrir Liverpool sem tókst að stimpla sig út úr afleitum nóvember mánuði með seiglusigri á Stoke í gær.

Það er ekki annað hægt að segja en að tímabil Liverpool til þessa hefur verið gífurleg vonbrigði á nær allan hátt sem hugsast getur. Endalaus og síendurtekin meiðsl Daniel Sturridge, ósannfærandi spilamennska, ömurleg töp og vonbrigði, vonbrigði og vonbrigði. Mér fannst ég ekki koma nógu vel frá mér hversu vonsvikinn maður er svo ég set eitt í viðbót, vonbrigði.

Staðan er eiginlega það slæm að maður er alvarlega farinn að sjá fram á að Brendan Rodgers verði látinn taka poka sinn finni hann ekki svör og lausnir til að snúa gengi liðsins almennilega við. Maðurinn sem náði á ótrúlegan hátt að koma liðinu hársbreidd frá Englandsmeistaratitlinum, á hann bara engin svör? Er hann sprunginn eða hreinlega bara “óheppinn” með gengið í vetur?

Maður spyr sig.

Mig langar að setja upp smá leik, svona smá ímyndunarleik. Segjum að við sitjum sem einn af eigendum eða stjórnendum Liverpool. Með okkur við borðið eru menn eins og Ian Ayre, John Henry, Tom Werner og segjum bara þessi Hogan sem er í einhverri stjórnunarstöðu hjá félaginu. Umræðuefnið er kaup í félagsskiptaglugganum sem opnar í janúar og hvort við ætlum að kaupa eða ekki. Það er kosning og þar sem að atkvæðin eru jöfn eigum við úrslitaatkvæðið. Hver er okkar staða í þessu máli, leyfum við Rodgers og leikmannakaupanefndinni að kaupa leikmenn í janúar eða ekki?

Við sitjum þarna og veltum vöngum, enda engin smá pressa á okkur!

Við reynum að skoða málin út frá nokkrum hliðum. Fyrst lítum við á blaðið sem sýnir hvað við gætum haft úr að moða í glugganum og rýnum í tölurnar. Við sjáum að það er alveg til peningur til að styrkja liðið og við höfum fengið óskalista frá Rodgers og hans teymi, það eru nokkrir þarna sem við gætum svo sem keypt fyrir þennan pening. Þá fáum við það á hreint, það er peningur til staðar – bæði fyrir kaupverðin og launakostnað.

Þá vandast svolítið málið og við þurfum að spyrja okkur, treystum við Rodgers og hans teymi fyrir þessum pening?

Við rýnum í þá leikmenn sem Rodgers og hans hópur hefur keypt undanfarin tímabil. Teljum við hann hafa staðið sig nógu vel og þeir leikmenn sem hafa komið undir hans stjórn, hafa þeir verið nægilega góðir?

Brendan Rodgers hefur fengið fjóra leikmannaglugga hjá Liverpool og eytt rúmum 210 milljónum punda í leikmenn. Okkur er nokkuð sama um söluverð upp í kaupverð og svona, við horfum bara á töluna sem eytt hefur verið – en við tökum að sjálfsögðu með í reikninginn ef leikmaður stóð sig það vel að hann var seldur á sama eða hærra verði en hann var keyptur á. Er það ekki sanngjarnt?

Við rýnum í þann hóp leikmanna sem hefur verið fenginn til liðsins undir hans stjórn:

Sumar 2012:
Fabio Borini – 10.4m punda
Joe Allen – 15m punda
Oussama Assaidi – 3m punda
Nuri Sahin – lán
Samed Yesil – 1m punda

Þetta reyndist nú ekki merkilegur félagskiptagluggi fyrir okkar mann. Fabio Borini meiddist snemma og náði aldrei að finna taktinn og þó hann sé hjá okkur í dag hefur hann aldrei náð að fóta sig í sessi hjá okkur. Allen vann á eftir erfiða byrjun og regluleg meiðsli og er orðinn mikilvægur partur í hópnum og líklega einu kaupin þetta sumarið sem rættist eitthvað úr.

Vetur 2013:
Daniel Sturridge – 12m punda
Coutinho – 8m punda
Teixeira – undir 1m punda

Já takk! Þarna fengum við flotta leikmenn í Sturridge og Coutinho og einn efnilegann í Teixeira. Frábær gluggi og frábær kaup! Flottur Rodgers!

Sumarið 2013:
Luis Alberto – 6.8m punda
Iago Aspas – 7m punda
Simon Mignolet – 9m punda
Kolo Toure – frítt
Aly Cissokho – lán
Tiago Ilori – 7m punda
Mamadou Sakho – 15m punda
Victor Moses – lán

Þarna átti að láta kné fylgja kviði. Liverpool hafði endað leiktíðina áður með miklum krafti og fóru Sturridge og Coutinho hamförum í flottu liði og voru margir áhugaverðir leikmenn keyptir. Í raun má segja að enginn þeirra hafi náð almennilegri fótfestu í liðinu, ekki það að þeir séu lélegir en þeir bara hafa ekki náð að festa sig í sessi í liðinu. Mignolet er nú reyndar aðalmarkvörður liðsins í dag en þurft að sæta mikilli gagnrýni og þykir ekki eiga örugga langtímaframtíð hjá liðinu, Sakho er hrikalega flottur en ekki náð að festa sig í liðinu. Toure hefur komið fínn inn sem varamiðvörður á þessum tíma og Alberto og Ilori báðir mikil efni en ekki náð að sýna það hjá Liverpool. Fljótt á litið þá reyndist þetta ekki nógu góður gluggi hjá Liverpool, er það nokkuð?

Ekkert var keypt í janúar 2014.

Sumarið 2014:
Rickie Lambert – 4m punda
Adam Lallana – 25m punda
Emre Can – 10m punda
Lazar Markovic – 20m punda
Dejan Lovren – 20m punda
Divock Origi – 10m punda
Javier Manquillo – lán
Alberto Moreno – 12m punda
Mario Balotelli – 16m punda

Nú erum við komin í síðasta leikmannaglugga og líklega þann stærsta sem Brendan Rodgers, og mögulega nokkur stjóri Liverpool hefur fengið hvað varðar pening til eyðslu. Á sínum tíma fékk Rafa að eyða slatta árið sem hann keypti Torres og félaga, Dalglish og Comolli fengu að eyða háum fjárhæðum í leikmenn eins og Downing, Carroll og fleiri.Rodgers fékk þarna hellings pening, yfir 100 milljónir punda – og nei, ég horfi ekki á pening sem fékkst fyrir sölu upp í þetta því eyðslan var svona há.

Nú horfum við á það sem af er liðið leiktíðar og horfum á þá leikmenn sem hafa verið keyptir fyrir fúlgur fjár til félagsins og þá verðum við að meta það hvort við séum sátt við það sem við höfum séð eða ekki. Margir þarna eru mjög ungir enn og kannski erfitt að dæma þá sem mislukkuð kaup með langtímastefnu í huga en við horfum þó á fjárhæðirnar sem við eyddum í vonarstjörnurnar, þetta er góður slatti.

Í síðasta byrjunarliði voru aðeins Rickie Lambert og Kolo Toure sem hafa verið keyptir af Rodgers síðastliðna árið eða svo. Annar kostaði 4m punda og hinn kom frítt. Á bekknum sátu leikmenn sem voru keyptir fyrir 85m punda í sumar, svo ekki sé talað um að 16m punda framherji var ekki í hópnum. Lovren, 20m miðvörðurinn kom inn í blálok leiksins til að auka í vörnina á meðan að Adam Lallana og Lazar Markovic sem kostuðu í kringum 20m punda hvor sátu enn sem fastast á bekknum og hafa ekki komið mikið við sögu í síðustu leikjum. Já sem og 12m vinstri bakvörðurinn sem við keyptum í sumar sem horfði á Glen Johnson og Jose Enrique byrja á sinn kostnað í tveimur síðustu leikjum en hvorugur þeirra er líklegur til að eiga mörg ár eftir af ferli sínum hjá félaginu.

Getum við talið sem svo að félagið hafi gert of margar lélegar fjárfestingar í sumar, þ.e.a.s. keypti liðið lélega leikmenn fyrir alltof mikin pening eða er Rodgers kannski ekki að ná að fá eins mikið úr þessum rándýra hóp sem hann hefur í höndunum? Eigum við að treysta honum fyrir enn meiri pening til að reyna að snúa gengi liðsins við með því að kaupa inn nýja leikmenn í hópinn eða ættum við að benda á hann fingri og vitna í orð hans frá því í fyrra, „Ef lið eyðir yfir 100m í leikmannahóp sinn þá eiga þeir að berjast um titilinn,” ekki satt Brendan?

Er kannski hagkvæmara og kannski ódýrara fyrir okkur stjórnendur að skipta út stjóranum heldur en að leyfa honum að eyða enn meiri pening sem örþrifaráð til að gera betur? Getum við fengið inn annan mann til að ná árangri með þennan hóp eða þurfum við að stokka upp í öllum hópnum svo Rodgers geti náð árangri?

Dalglish, þrátt fyrir að hafa unnið Deildarbikarinn og spilað til úrslita í FA bikarnum sama árið var sagt upp vegna þess að liðið stóð sig ekki nógu vel í deildinni og var ekki að standa undir verðmiða og væntingum. Mun Rodgers hljóta sömu örlög?

Munum við kannski brjóta upp þessa leikmannakaupsnefnd og gefum kannski Rodgers meira vald í kaupum? Er togstreita á milli þessara póla, ef svo er hvernig leysum við það? Fær Rodgers kannski bara ekkert vald og leikmannakaupanefndin tekur alfarið yfir?

Kannski er þetta bara tímabundnir erfiðleikar hjá Rodgers og leikmönnum. Kannski verða öll kaupin orðin frábær í janúar og við þurfum ekkert að kaupa – eða við viljum bæta fleiri góðum leikmönnum ofan á það sem við höfum. Kannski gerist bara ekkert og við þurfum að vera desperate í glugganum í janúar til að bjarga því sem bjarga verður. Það kemur allt í ljós, það er risa mánuður framundan og við munum líklega sjá svör við mörgum spurningum sem við gætum haft.

Bindum nú endahnútinn á þetta. John Henry bendir á okkur við hringborðið og spyr, “Eigum við að leyfa Rodgers að eyða í janúar? Af hverju og af hverju ekki?”

Hvert er okkar svar?

32 Comments

  1. Mjög góður pistill og áhugavert að velta þessum hlutum fyrir sér.

    Það er alveg ljóst að BR VERÐUR að fá að kaupa EINN mjög öflugan striker í janúar. Þá er ég ekki að tala um enn ein 15 – 25 milljóna punda kaupin heldur 50 +. Topp4 er hér undir, það er ekkert flóknara. Það er ekki séns í helvíti að við náum topp4 sæti með þennan framherjahóp. Það er alveg viðbúið að Sturridge mun áfram verða meiddur eitthvað tímabil eftir áramót.

    Vil frekar að BR fái að kaupa einn öflugan striker á 50+ heldur en 2-3 miðlungsleikmenn á verðbilinu 15-25. Við vitum líka að MJÖG margir leikmenn á þessu verðbili (15-25 millj.) eru “overprice-aðir”. Við höfum fengið að kynnast því “the hard way”.

    Vona svo sannarlega að BR fái 50 – 60 milljónir punda til leikmannakaup í janúar. Er samt mjög hóflega bjartsýnn á að hann fái svo mikla peninga þegar horft er til þess hversu mikla peninga hann fékk að spreða í sumarglugganum.

    Er alls ekki að segja að öll kaup sumarsins hafi verið klúður, tíminn mun leiða það í ljós. En flestir þessara leikmanna eru allavega ekki í augnablikinu að réttlæta verðmiðann á sér.

    Held að Southampton blaðran sé loksins sprungin eftir leikinn í dag. Þetta mót verður tveggja hesta hlaup. Svo verður þetta þéttur pakki í kringum 3.- 4. sætið. Vonandi munum við ná að blanda okkur í þann slag.

  2. Vona ad vid fáum nyjan stjòra í janùar. Treysti ekki ad Brendan Rodgers sè nògu gòdur stjòri fyrir okkur.
    1)Hann rak Agger og Reina frá okkur fyrir verri menn.
    2)Hann keypti medalskussa á ofurprís.
    3)Hann villi frekar syna heiminum ad HANN gæti tæklad Balotelli í stad Tess ad velja framherja sem hefdi passad okkur betur.
    4)Hann gerir of upp á milli leikmanna òhád getu teirra.
    5)Hann er of oft rádalaus
    6)Hann er bùinn ad missa klefann.
    Kv.Kalli

  3. Peter Chech er efstur á óskalistnum og ef það ætti að vera framherji þá væri það Berahino hjá WBA. Stóra vandamálið við Lambert og Balotelli er að þeir hafa ekki hraðann til að vera val nr 1 í þessum hraða leikstíl sem Brendan vill að liðið spili. Þeir eru báðir góðir framherjar eins og Lambert er búiinn að sanna ágætlega í síðustu þremur leikjum.

  4. Föstu leikatriðin eru og verða hausverku á meðan við Erum með þetta prógram í gangi. Sáum það í gær, öll hornin skópu stórhættu. Þetta verður að stöðva.

  5. Ég sé enga lausn í því að reka Brendan Rogders. Hvað kemur í kjölfarið á því? 2-3 vikna óvissutímabil sem gæti endað með hinum unga Roy Hodgson með tilheyrandi vitleysu

    Ég er kominn með nóg af uppbyggingu. Frekar segi ég að kaupa 2-3 góða leikmenn í janúar. Petr Chech er no brainer að mínu mati. Einn besti markmaður í heimi sem sættir sig ekki við að vera bekkjardýr og auk þess er Brendan með ágætis tengsl við Chelsea. HAnn er sagður kosta 7-10 milljónir en á 4-5 góð ár eftir í efsta klassa.

    Næst er að kaupa einn heimsklassa sóknarmann sem hefur tök á að vinna leiki upp á sitt einsdæmi og það kostar peninga og spurning hvort að FSG láti verða að því. Þeir voru með fjárfestingu á bekknum gegn Stoke sem kostaði 85 milljónir punda. Það er þó ljóst að Liverpool vantar leikmann í sama flokki og Aguero eða Diego Costa til að eiga einhverja möguleika á 1. sæti á næstunni.

  6. Ef Desember fer ílla þá á BR ekki að fá að kaupa neitt.

    Það þarf betri markmann þar sem Mignolet virðist bara vera sú típa sem höndlar það ekki að vera í liði sem er meira með boltann. Hann virðist eiga auðveldara að vera í markinu í leikjum sem eru opnir og mikið um marktækifæri í gangi. Um leið og það hægir á leiknum og andstæðingarnir ná 2 – 3 skotum á markið í öllum leiknum þá fær hann á sig 1 – 2 klaufaleg mörk. Hann er ekkert einsdæmi um markmann sem er svoleiðis og ég held að Liverpool ætti að reyna selja hann og kaupa í staðinn markmann sem á auðveldara með að halda einbeitingu og klúðrar ekki smáatriðum eins og að grípa boltan þegar mikið liggur við þó að hann sé ekki eins og “köttur” á milli stangana. Liverpool myndi græða miklu meira á því að vera með markmann sem “stendur rétt” í markinu heldur en markmann sem er mjög góður að verja þegar mikið liggur við. Það myndi líka auðvelda vörninni að “standa rétt” þegar andstæðingurinn sækir á liðið.

    Í fyrsta skiptið í mörg á hefur Liverpool fullt af hæfileikaríkum varnarmönnum svo liðið þarf ekki að kaupa nýja varnamenn. En það er virkilega sorglegt að sjá þessa hæfileikaríku menn vera eins og skólastráka oft á tíðum í vöninni. Kannski er það vegna þess að markvöðurinn er stundum eins og skólastrákur sjálfur og setur því vörnina í vandræði.

    Miðjan er í góðu standi og þarf ekkert að breyta til í henni, hvorki selja né kaupa. Það þarf bara að ná fram öllum þeim hæfiileikum sem eru í vörninni.

    Sókninn er líka, ótrúlegt en satt, vel mönnuð. Hún glímir líka bara við sama vanda og miðjan og vörnin. Fullt af hæfileikum en lítur ekki vel út á vellinum.

    En desember mun pottþétt ráða framtíð BR. Þó að hann verði ekki rekinn á miðju tímabili þá mun honum örugglega vera sagt upp að loknu tímabili ef desember fer ílla og liðið dettur úr meistaradeildinni (og nær jafnvel ekki inn í evrópubikarinn), dettur úr bikarnum og tapar fleyri leikjum en þeir vinna þá verður hann rekinn í vor.

  7. Persónulega finnst mér reyndar magnað þegar fólk kvartar yfir því að bekkurinn kosti 85 milljónir. Hinn möguleikinn væri að vera með ódýran bekk, og þá er kvartað yfir skort á breidd.

    Það sem mætti kannski spyrja sig er af hverju svona fáir af nýju mönnunum fengu séns í gær og þá á kostnað “gömlu” leikmannanna. Brendan hefur væntanlega viljað bakka aðeins, vera með lið þar sem menn þekkja hvorn annan, og svo er kannski hægt að vinna sig út frá því, byrja með fáa nýja inná í hvert skiptið.

  8. Dortmund á botninum , okkar menn eiga virkilega erfitt uppdráttar , Hvað í ANDKOSTANUM gerðist fyrir 2 bestu lið evrópu í fyrra á þessum stutta tíma !

    Og ekki fara tala um að suarez hafi verið eina ástæðan , allt liðið spilar eins og lið með göngugrind. ekkert creativity engin sóknarþungi, brothætt vörn og skelfilegar markvörslur , lítið sjálfstraust og lítil barátta er eitthvað sem einkennir Liverpool í dag.
    Er ekki viss um að 50 mil framherji myndi breyta þessu ástandi þegar liðið er að spila langt undir getu.
    Veit ekki hvað veldur en það þarf að fara finna lausn á þessu ekki seinna en strax.

  9. Uppbygging er ágæt en ef lið ætlar að halda sig í öllum keppnum sem í boði eru þá má svo kölluð uppbygging ekki vera á kostnað byrjunarliðsins. Nær væri að koma með einn til tvo nýja menn á ári sem aðlagast liðinu.
    Ef einn heims klassa leikmaður er seldur, þarf annan jafngóðan, ekki nokkra sæmilega sem eru hugsaðir sem kjarakaup eftir 3-4 ár

    Tiltölulega einföld stærðfræði

  10. Ég er beggja blands hvað þetta varðar. Eðlilega, því eins og hér kemur fram þá hefur Rodgers ekki beint sýnt að hann kunni að kaupa leikmenn, ef frá er talinn Sturridge.

    Ef ég yrði spurður álits, þá myndi ég einungis samþykkja að nýr markmaður yrði keyptur í janúar, ef réttur maður (og betri en Mignolet) er fáanlegur.

    Það er hreint út sagt ofboðslega mikilvægt að liðið fái betri markmann til félagsins. Góður markmaður veitir vörninni meira sjálfstraust, sem þá spilar betur, en þegar markmaðurinn er ekki nógu góður þá snýst staðan við. Mignolet hefur sína kosti, en gallarnir eru bara meiri en hægt er að sætta sig við.

    Peter Cech er stundum nefndur í þessu sambandi, en ég er nánast viss um að Morinho mun ekki gera Liverpool slíkan greiða. Það væri þó ofboðslega gaman að sjá Cech hjá félaginu, því hann er gæðaleikmaður.

    Auðvitað er mikil þörf á að bæta leikmannahópinn. Rodgers keypti mikið og illa í sumar, og er það frekar venjan en undantekning hjá honum. Það bráðvantar nýjan aðalframherja til félagsins, því það er ekki hægt að treysta á Sturridge vegna sífelldra meiðsla. Frekar ætti að horfa á það sem bónus þegar þá hann helst heill, og geta stillt honum upp með öðrum heimsklassa framherja.

    Ég efast samt um að klúbburinn ákveði að henda 50 milljónum punda í eitt stykki leikmann í janúar. Í fyrsta lagi vegna þess að það er stutt síðan að liðið keypti leikmenn fyrir 100 milljónir punda, og í öðru lagi þá er ekki beint margir slíkir leikmenn á lausu í janúarglugganum. Í þriðja lagi, og það er kannski meira mitt álit, þá er mögulega í lagi að leyfa þessum hóp að klára tímabilið og vinsa svo út þá sem eru ekki nógu góðir (hóst*Mignolet, Enrique, Lovren, Sakho, Lucas, Allen*hóst).

    Þannig ég býst bara við rólegum janúarglugga. Mér segir svo hugur að menn séu frekar tilbúnir að fórna þessu tímabili og taka stöðuna í vor, hvort það sé þörf á nýjum þjálfara og þá um leið nýjum leikmönnum.

    Homer

  11. Auðvitað á BR að fá að kaupa menn í janúar. Það þarf að kaupa menn. Þeir sem við höfum nú eru ekki að vinna sína vinnu og þá þurfum við einhverja sem nenna. En ég held það sé fyrst og fremst mórallinn í liðinu sem þarf að laga, það hefur sýnt sig að ef mórallinn er slæmur er liðið næstum því enn verra. Sjáum MU sem dæmi. Og á hinum endanum Southamton, þar sem mórallinn hefur verið í toppi, liðinu gengið vel gegn léttum liðum en leikur þeirra hrynur á móti erfiðum andstæðingum eins og í dag, jafnvel þó þeir séu 1-2 fleiri. Lögum móralinn, númer eitt, tvö og þrjú.

  12. Fólk gleymir að taka með inn í þetta mögulegt risatap ef svokölluð “failkaup” eiga sér stað.. Fyrir mitt leyti þá hefði svarið mitt legið undir því hversu miklum pening væri leyft í leikmannakaup, 7-13 Milljónir, Já.. Eitthvað meira en það? Nei.

  13. Ég myndi alla vega vilja að BR útskýri það hvers vegna hann notar ekki alla sína 3 varamenn í leik og þá sérstaklega alla þess nýju sem hann keypti.

    Síðna þarf að kaupa 2 öfluga sóknarmenn, tel að þegar liðs spilar sókn og skorar og sýnir öryggi að þá smiti það alla aðra í liðinu þar á meðal þess blessuðu vörn okkar.
    En já tvo topp markmenn sem þurfa að berjast um stöðuna.
    YNWA

  14. Rodgers hefur gert það með marga leikmenn að gefa þeim tíma til að aðlaðast liðinu og skipulaginu, Henderson, Allen, Sterling, Flanagan svo dæmi séu tekin, þar á meðal að hafa unglinga æfandi með aðalliðinu alla daga en aldrei spila þeim.

    Hann hefur sagt það sjálfur að hann vill ekki spila nýjum leikmönnum strax og sést það að þegar 2-3 nýjir menn koma inn í lið dettur liðið alveg úr gír, Hann þarf að koma sýnu gamla liði á ról, og hægt og hægt leyfa þessum nýju að vinna sig inn, líkt og þeir ofantöldu gerðu.

    Segjum að liðið sé komið á ról og allir í sýnu góða standi þá mun hann notfæra sér það þegar einstakir leikmenn spila illa eða meiðast til að gefa nýjum séns, en á meðan liðið í heild spilar svona rosalega illa þá er það ekki svo sniðugt að rótera í liðinu leik eftir leik.

    Markovic, Lallana, Moreno og fleirri eru ekki að spila eins og þeir geta verið að gera og þar af leiðandi fá þeir að æfa og æfa án pressunar að vera búaðir á anfield þangað til að þeir geta komið sterkir inn.

    Ég myndi persónulega séð leyfa rodgers að fá þetta og næsta tímabil og gefa honum 25 milljónir til að kaupa inn einn striker og ekki fleirra, þá hefur hann a.m.k. striker til að leysa sturridge út árið þegar hann meiðist í janúar, mars og maí, og kannski febrúar og apríl líka.

    Það að missa sig yfir lélegum leikmannagluggum er ekki hægt núna rodgers hefur oft náð því besta úr leikmönnum þegar þeir fá tækifæri til að labba inn í gott og skilvirkt lið.

  15. Skemmtilegur pistill og fer því vel að ég komi með mínar pælingar.

    Ég er farsæll frumkvöðull og hef starfað í nýsköpun í 14 ár. Ég held einmitt að við Poolarar séum í nýsköpun núna og þurfum því að taka erfiðar ákvarðanir og jafnvel kvalarfullar ákvarðanir svo liðið okkar (verkefnið – nýsköpunin) fái að halda lífi.

    Ég legg til að við seljum Steven Gerrard, hann er ekki eins góður og hann var og lifir nánast einungis á fornri frægð. Við gætum líklega fengið fínana pening fyrir hann t.d. PSG, USA eða Quatar.

    Í staðinn þarf að spreða í heimsklassa varnartröll á miðjuna, annar hvort Khedira eða Busquets, báðir heimsmeistarar sem kalla ekki allt ömmu sína – það þrufum við núna. Svo væri kannski ekki vitlaust að reyna kaupa Charlie Austin eða Berahino, kannski báða?

    YNWA

  16. Mér finnst oft gleymast að þjálfarar þurfa líka að þroskast í sínu starfi eins og leikmennirnir.
    Brendan Rogers er ungur þjálfari sem hefur góðann grunn í þjálfun og sýnt fram á fínan árangur í starfi þar sem hann hefur verið hingað til. Hann er auðvitað ekki fullkominn og það veit guð að Sir Alex Ferguson gerði fullt af mistökum á sínum ferli og þá ekki aðeins á sínum fyrstu árum og sama má segja um Shankly og Paisley.
    Brendan Rogers er eftir allt mannlegur og er núna í lægð með liðið sem hefur verið að spila undir væntingum, þveröfugt við síðasta tímabil.

    Við aðdáendur gleymum okkur of oft í tilfinninga rússinu sem fylgir því að fylgast með liðinu sem við dáum svo mikið, förum upp í hæðstu hæðir þegar vel gengur og í pirringinn og ömurleikann þegar illa gefur eins og það sem af er þessu tímabili.

    Ég hef ekki hundsvit á fótbolta að öðru leiti en því að ég hef fylgst með Liverpool síðan 1977, hef upplifað það að vera aðdáandi þegar Liverpool voru óumdeilanlega bestir í heimi í mörg yndisleg ár, og svo þessarar eyðimerkurgöngu sem við höfum gengið í gegnum síðan 1991.

    En mín skoðun er sú að Brendan Rogers eigi að fá frið til að vinna með þessum nýju mönnum sem komu til liðsins fyrir þetta tímabil, jafnvel þó svo að það þýði að enda uppskeran verði ekki meistaradeildarsæti í vor.

    Það þarf að horfa lengra fram í tímann en bara yfirstandandi tímabil.
    Í Liverpool hópnum eru margir flottir ungir leikmenn sem gætu blómstrað og orðið að stórstjörnum framtíðarinnar, og að endalaus þjálfaraskipti með tilheyrandi breytingum er ekki endilega rétta svarið.
    Ég trúi því að Brendan Rogers sé rétti maðurinn fyrir Liverpool þó svo að nú blási heldur betur á móti.

    Y.NW.A!

  17. Hann fær ekki eitt pund til að versla i jan, það er allavega mitt gisk.

  18. Ég held að Rogers sé búinn að flippa í leikmannakaupum og fái ekki krónu.

    Áfram Liverpool!!!!!!!!!!

  19. Skemmtilegt að setja dæmið upp sem hlutverkaleik. Eigendur LFC eru töluvert farsælir self-made bandarískir kaupsýslumenn með John Henry í forystu.

    Henry er bóndasonur sem hófst til vegs og auðæva með spákaupmennsku. Að taka áhættu er því ekkert vandamál fyrir eigendur Liverpool. En eitt er að taka áhættu annað er að taka vegna áhættu (calculated risk). Fundurinn mun því snúast um hvort Brendan Rodgers sé áhættunnar virði. Þar munu menn ekki dvelja lengi við fortíðina nema til að læra af henni. Það sem liðið er búið og gert og verður ekki til baka tekið. Sokkinn kostnaður skiptir því engu máli heldur fyrst og fremst framtíðin.

    Rodgers þarf að skýra út fyrir FSG af hverju hann er rétti maðurinn og að því búnu að leggja fram sannfærandi áætlun um framtíðina. Að því búnu munu eigendurnir meta Rodgers og bera þann valkost að halda honum við þann valkost að finna annan til að taka við liðinu. M.ö.o. er Rodgers hluti af vandamálinu eða hluti af lausninni?

    Að mínum dómi mun Rodgers eiga í töluverðum vandræðum við að skýra út stjórn sína á liðinu þessa leiktíðina. Engu er líkara en að okkar maður hafi slakað á eftir velgengni síðasta tímabils sem hefur leitt til vítahrings sem erfitt er að rjúfa. Rodgers hefur ekki fundið menn sem henta leikskipulaginu sem hann trúir á og ekki tekist að aðlaga leikskipulagið að þeim mönnum sem hann hefur. Stjórnin á hliðarlínunni virðist ómarkviss og maðurinn sjálfur er greinilega mjög skekinn af mótlætinu.

    Á hinn bóginn er Brendan að vinna eftir áætlun. Það hefur margoft komið fram að félagið vinnur eftir áætlun sem átti að skila liðinu í fremstu röð bæði markaðslega og á vellinum um 2016. Árangurinn í fyrra var langt umfram væntingar og því mun FSG að sjálfsögðu líta til þess að formdippið er á vissan hátt það sem búast mátti við. Á móti kemur að fallið er of hátt og raunar svo hátt að áætlunin er í uppnámi. Þegar svo ber við þarf yfirleitt að grípa til varaáætlunar og þá gefst einnig tækifæri til að skipta út stjóranum.

    Engin spurning er í mínum huga um að FSG munu ræða þann valkost að skipta um stjóra. Spurningin er bara hvort sá stjóri er til og ef hann er til er hann til í að taka við Liverpool? Svo vill til að stjóri sem tikkar í flest boxin er til og er einnig mjög líklega á lausu (nánast). Sá heitir Rafa Benitez og mun líklega ekki halda áfram með Napoli eftir þessa leiktíð. Margir fá grænar bólur við að hugsa til Rafa og einhverjir eru á því að hann sé búinn á því. Það er ekki mín skoðun og hann hefur staðið sig vel með Napoli. Hann hefur raunar alltaf staðið sig vel ef frá er talið Inter tímabilið sem stóð raunar stutt. Ég tel persónulega að þessi grjótharði Andalúsíumaður sé mjög áhugaverður kostur til að taka við Liverpool. Hann er 54 ára gamall og framúrskarandi í sínu starfi. Hann fór frá Liverpool við aðstæður sem voru einhverjar þær döprustu í sögu félagsins þegar að vitleysingarnir Gillett og Hicks rústuðu félaginu nánast. Rafa býr m.a.s. í Liverpool með fjölskyldu sinni. Við eðlilegar aðstæður væri Rafa jafnvel enn stjóri Liverpool en það er annað mál.

    Hitt er svo annað mál að stjóraskipti eru ávallt hluti af Plan B. Enginn ræður fótboltastjóra til þess að reka hann nema að brýn ástæða sé til þess. Það er tómt vesen að reka stjórann bæði kostnaður og áhætta en því síðarnefnda mætti verjast lipurlega með því að taka inn mann sem gjörþekkir félagið.

    Brendan Rodgers er samt ekki alls varnað. Síðustu tveir leikir hafa ekki tapast og seinni hálfleikurinn á móti Stoke var m.a.s. þokkalegur. Það sem meira er, hann vannst þó að tæpt stæði. Rodgers fær nú loks tækifæri til að anda aðeins. Næstu leikir munu því verða skoðaðir vandlega. Ef Brendan tekst að koma liðinu og sjálfum sér af stað aftur mun hann halda starfinu í bili og eigendurnir styðja við bakið á honum. Hefði t.d. leikurinn við Stoke tapast er ég nokkuð viss um að dagar Rodgers væru taldir. Hann náði taki með annarri hendi á líflínu og nú er bara að vona að hann nái að hala sig inn.

    Ég vil samt ekki draga fjöður yfir að eftir að hafa séð til Rodgers það sem af er leiktíðinni hefur honum tekist að sá ansi stórum fræjum efasemda í minn þykka haus. Á köflum eru ákvarðanir hans órökvissar og tilviljunarkenndar. Hann virðist eiga í vandræðum með leiðtogahlutverkið og nákvæmlega á þessari stundu tel ég meiri líkur en minni að hann þurfi að víkja í vor.

  20. Þar sem spurningin var hvort Brendan fær að kaupa eður ei þá tel ég að hann fái að kaupa ef hann selur aðra leikmenn. Hef ekki trú á því að hann fái aukið fjármagn í þessum glugga.

  21. Ég held að eigendur horfi til þess að það vanti annan markann þannig að klúbburinn hafi tvo raunhæfa kosti í markmannsstöðuna. Einnig tek ég undir fyrri komment að striker sem hentar þeim leikstíl sem þjálfarinn vill spila væri mjög þörf viðbót en slíkt þarf að skoðast í samhengi við hvort takist að selja Borini og/eða Balotelli ásamt því að það verði svigrúm fyrir origi til að spila næsta haust.

    Annars er hópurinn fullskipaður og öll kaup þyrftu að skoðast með sölu á öðrum leikmönnum í huga í mínum huga.

    Ég held að það módel sem liv er að reyna að byggja upp með því að láta öll lið klúbbsins spila svipaðan bolta og í raun og leggja áherslu á possesion og sóknarsinnaðan bolta gerði það að verkum að auðveldara væri að kaupa leikmenn inn í kerfið og í raun að skipta um þjálfara. Mögulega snýst þetta þá kannski ekki um hvort að BR njóti trausts til leikmannakaupa heldur frekar hvort að menn séu enn þá tilbúnir að fylgja stefnunni sem verið hefur við völd undanfarin 2 ár.

    Það er tvíeggja sverð að hoppa til og fjárfesta mikið núna í jan enda myndi skortur á CL sæti gera það að verkum að rekstur næsta árs væri erfiður og mögulega þyrfti að selja menn. Að sama skapi væri mikill ávinningur að kaupa menn sem gætu tryggt okkur CL sæti. Í mínum huga snýst þetta um að þeir leikmenn sem við kaupum setji ekki fjárhagsáætlanir á hliðina ef CL næst ekki í vor.

  22. Mjög gott innlegg #19 Sammála þessu nánast orðrétt. Benites inn ef BR fer út. Nánast engin áhætta.

    Benites lenti undir tveim hálfvitum síðast en ég hugsa að hann muni smellpassa undir FSG.

    Annars var ég mikill stuðningsmaður BR en ég er ekki að skila strategíuna hjá honum núna. Ég vona að hann vakni aðeins upp og fari að nýta mannskapinn betur !

  23. Ef Cech er falur þá er það ekki spurning. Sama hvort Rodgers missi starf sitt eftir tímabilið eða ekki þá getur hvaða þjálfari sem er unnið með Cech, hann er top class og sennilega númer 3-5 í heiminum eftir landsliðsmarkvörðum Belgíu og Þýskalands.

    Þarna myndi ég nánast draga línuna nema eitthvað ótrúlegt gerðist í Janúar og einhver framherji sem búinn er að sanna sig á Englandi væri til sölu. Ég myndi ekki hleypa Rodgers í einhver happa og glappa kaup á framherja með 4 framherja í liðinu fyrir. Þar af allir 4 keyptir af honum sjálfum! Það myndu öll lið þyggja að vera með 4 framherja í hóp, sérvalda og keypta af núverandi þjálfara!

    Mitt mat: Markmaður (Cech) og kannski framherji.

  24. Ég er sammála #15
    Ég myndi casha inn á S.Gerrard en í stað að kaupa varnarmiðjutröll þá myndi ég kaupa sóknartröll. Borini er ekki að gera neitt og bara tímaspursmál þangað til hann fer, Balotelli nema hann fái knattspyrnuhæfileika í jólagjöf er ekki að fara verða Liverpoolleikmaður þannig að vonandi fær Brendan pening. En hann þarf að selja fyrst.

  25. Þetta er áhugaverð umræða.

    Ég tek heilshugar undir með Guderian hérna fyrir ofan. Ég hef verið mikill Rodgers maður en í vetur hefur hann tekið ákvarðanir sem ég hef verið virkilega ósammála og hreinlega skil ekki alveg.

    Staðan hjá liðinu er ekki góð og það vita allir. Ég held hinsvegar að ekki sé hægt að benda á einhvern einn og segja, þetta er þér að kenna! Ef við horfum á liðið í síðasta vor og liðið í vetur þá hefur margt breyst. Leikmenn sem voru að mörgum taldir heimsklassa eru dottnir í meðalmennsku á meðan aðrir virðast hættir að taka framförum.
    Sterling var á leið að verða einn af fimm bestu leikmönnum heims seinast vor en í dag er hann fyrir mér ekkert annað en efnilegur leikmaður.
    Henderson var leiðtogi á miðjunni sem dróg vagninn á miðjunni ásamt Steven Gerrard. Mikilvægi hans var svo mikið að þegar hann fór í bann eftir City leikinn vantaði okkur helling á miðjuna og spurðu margir sig hvort hans nærvera hefði geta breytt einhverju um hvernig fór.
    Coutinho þótti galdramaður sem gat gert allt með boltann. Þrátt fyrir óstöðugleika þá mátt bóka að 1 af hverjum 3 leikjum frá honum væri góðir.

    Eftir brotthvarf Suarez þá var það ljóst að þessir leikmenn (ásamt fleirum) þyrftu að taka á sig aukna ábyrgð. Svo virðist vera sem þeir hafi ekki vera tilbúnir í slíkt.
    Ég held að fólk átti sig ekki oft á hversu mikilvægur andlegi þátturinn er þegar kemur að íþróttum! Þegar sjálfstraustið er í botni finnst okkur við geta allt. En um leið og sjálfstraustið hrynur förum við að efast um okkar eigin getu sem er mjög hættulegt. Hvernig einstaklingur vinnur úr slíkum aðstæðum er mikilvægt. Sumir ná slíkum þroska aldrei og aðrir seint. Að biðja stráka á aldrinum 19, 22 og 24 stráka að axla slíka ábyrgð er gífurlega mikil byrgði og mögulega eitthvað sem þeir réðu ekki við.

    Þegar Suarez var hjá okkur var hann tilbúinn að taka á sig svo gott sem alla ábyrgð ásamt Gerrard. Ef illa gekk var mikið talað um þá. Þegar liðið þurfti að rífa sig upp mátti stóla á Suarez því þrátt fyrir að öll þau áföll sem hann hafði gengið í gegnum þá vissi hann alltaf að hann væri einn sá besti! Í dag er ekki sá leikmaður sem virðist geta tekið slíka ábyrgð á sínar herðar. Ég verð að viðurkenna að ég átti alveg eins von á því að það gæti verið Balotelli. Hann er nægilega klikkaður til að vera alveg sama hvað allir segja. Þau kaup virðast hinsvegar ekki vera virka neitt. Þá er Lambert skárri kostur!

    Ég vil hinsvegar ekki sjá Brendan Rodgers fara. Já það gengur illa núna en við vitum einnig að þarna er knattspyrnustjóri sem getur gert stórkostlega hluti. Hann var í fyrsta skiptið að lenda í því að missa stjörnuleikmenn. Það er reynsla sem hann mun lifa með. Hann var í fyrsta skiptið að spila í Meistaradeildinni. Það er reynsla sem hann mun lifa með. Hann var í fyrsta skiptið að fá að kaupa eins og hann vill. Það er reynsla sem hann mun lifa með.

    Þegar þetta tímabil er búið, hvernig sem það fer, munu margir koma til baka reynslunni ríkari. Ég er þó ekki í vafa um að sá sem mun læra hvað mest á þessu er Rodgers. Fyrir mitt leiti er mikilvægara að sjá hvernig hann mun vera næsta tímabil verði hann svo lengi (og ég persónulega vil það). Ég sé ekki lausn á að láta hann fara nema akkurat rétti þjálfarinn sé laus. En hver er rétti þjálfarinn? Af hverju er Rafa betri lausn? Honum tókst að koma okkur úr 2. sæti niður í það 7. Á sama tímabili duttum við útúr CL í riðlakeppninni.

    Rodgers á allavega skilið tækifæri út þetta tímabil. Hann getur enn komið okkur í 16 liða úrslit í CL, hann getur enn endað með okkur í top4 í deildinni, hann getur enn unnið FA cup og hann getur enn unnið deildarbikarinn. Margt hér er langsótt en samt sem áður hægt.
    Fyrir ykkur sem kalla á Rafa, af hverju ekki að leyfa Rodgers í það minnsta að eiga jafn lélega leiktíð og Rafa átti 09/10?
    Þið sem viljið aðra þjálfara? Hvern? Klopp sem stjórnar botnliði þýsku deildarinnar? Eða einhvern annan? Hvaða topp þjálfari er á lausu og er að fara þjálfa Liverpool?

    Grasið var ekki grænna eftir að láta Rafa fara 09/10. Ég vildi það ekki þá þrátt fyrir lélegt tímabil. Það kom í bakið á okkur. Gullaldartímabil Hodgson tók við með þvílík látum.

    Ég segi áfram, in Rodgers we trust! En þú þarft að fara sýna okkur af hverju við stöndum þétt við bakið á þér!

    Munum einkunnarorð okkar.

    You’ll never walk alone!

  26. Ég verð að segja að hafindi lesið þessa grein á This is Anfield þá held ég að Brendan Rogers sé illa treystandi á leikmannamarkaðnum: http://www.thisisanfield.com/2014/12/liverpool-loan-watch-unused-subs-disappointing-defeats-round/ Hún reyndar staðfestir mitt álit á leikmannkaupum Liverpool í stjórnartíð Brendan Rogers.

    Það er furðulegt að hann reyni ekki að spila nýju mönnunum inn í liðið. Leikurinn gegn Stoke er ekkert einsdæmi. Hann virðist sýna þeim algjöra lítilsvirðingu með því að hafa þá á bekknum og gefa þeim engan séns. Það eru reyndar heiðarlegar undantekningar sem eru Lovren, Moreno og Manquillio, en nú eru M-in tvö fallin út og treyst á gömlu kallana í þeirra stað. Spurningin er svo til dæmis sú hvers vegna hann vildi endilega kaupa Lallana ef hann hefur svo engan áhuga á að spila honum. Óneitanlega vaknar þá sú spurning í kjölfarið hvort það var örugglega Rogers sem vildi Lallana. Hann sé þá með því að spila honum ekki að sýna hinni margumtöluðu nefnd fingurinn. Og það séu þeir þrír áðurnefndu sem Rogers vildi sem fá sénsinn, en hinir megi þá sitja á bekknum.

    Ég er ekki að sjá að erfiðleikarnir séu að baki þrátt fyrir að við höfum unnið skítlélegt lið Stoke. Það var nú hálfgert harðlífi vægast sagt. Vonandi kemur þetta allt saman, við vinnum alla leiki í desember, en ef það fer illa, við töpum til dæmis fleiri leikjum en við vinnum og föllum út úr Meistaradeildinni, þá spái ég því að Rogers verði farinn um ármótin. Það verður þá nýr stjóri sem setur sitt mark, en ef Rogers er enn við stjórnvölinn þá líst mér ekki blikuna hvað varðar leikmannakaup.

  27. #15 vill að klúbburinn selji Gerrard, og telur að hægt sé að fá ágætis summu fyrir hann.

    Það er ekki alls kostar rétt, þar sem samningur hans við Liverpool rennur út næsta sumar og þá getur hann farið frítt frá félaginu.

    Fari svo að menn selji hann í janúar, þá er næsta öruggt að lið muni ekki punga út neinum stórum fjárhæðum fyrir 34 ára gamlan leikmann sem á 6 mánuði eftir af sínum samningi.

    Þess utan þá er ég eins mikið ósammála því að selja besta leikmann í sögu Liverpool FC. Klúbburinn státar sig af því að vera öðruvísi en aðrir klúbbar – lesist t.d. Chelsea, sem lét Lampard fara – og þá á þessi klúbbur ekki að láta goðsögn fara með skít og skömm, eins og menn biðja um.

    Fyrir utan það að Gerrard er ennþá LANG besti og LANG hæfileikaríkasti leikmaður á launaskrá félagsins, og með LANG mikilvægustu reynsluna sem þessi annars ungi leikmannahópur félagsins þarf nauðsynlega á að halda. Af hverju? Jú, því titla vinnast ekki með reynsluleysi 😉

    Homer

  28. Steven Gerrard – Contract expiry: 2014 (signed 12.01.2012)

    Er ekki rétt munað að hann skrifaði undir framlengingu sumarið 2013? Var mig að dreyma?

  29. Selja Gerrard ? eru menn á einhverju of sterku hérna ? Við þurfum að kaupa leikmenn sem eru heimsklassa, ekki þá sem eru efnilegir. celski keypri costa og fab, þeir hafa skilað meiru en öll okkar kaup sl sumar.
    Við þurfum markmann og KLASSA sóknarmnn, hvort BR fái peninga er svo annað mál. Ég held að hann fái eins og 50 millur, vona aðrar 100. Mér finnst ólíklegt að móri selji okkur chech

  30. #28. Samningur Gerrard rennur út í maí nk. að því ég best veit.

  31. #27 Homer…ég veit ekki hvort Gerrard er langbesti leikmaður Liverpool ákkurat núna á launaskrá. Hann hefur dalað ansi hratt undanfarin1-2 tímabil.

    Ástæðan fyrir því að ég tel að það er skynsamlegt að taka Gerrard út úr liðinu er að það er hörku hörku vinnsla í miðjumönnunum sem við höfum. Mér finnst við missa orku, pressu og spil þegar Gerrard er inná því hann vill alltaf fá boltann.

    Flæðið er ekki það sama inná vellinum þegar Gerrard er inná en ég er sammála að það fara ákveðin gæði úr liðinu og ró þegar hann vantar.

    Einhvern tímann þarf kóngurinn að stíga af stalli og eins og Brendan virðist vera tala þessa stundina þá er búið að bjóða honum samning með örlítið minna hlutverk og ef allir eru sáttir við það…þá er það náttúrulega hið besta mál að bjóða honum samning.

    En ég er alveg klár á því að því fyrr sem Gerrard fer á bekkinn því betra fyrir Liverpool…bara mín skoðun.

  32. Ætla að svar númer 2

    Vona ad vid fáum nyjan stjòra í janùar. Treysti ekki ad Brendan Rodgers sè nògu gòdur stjòri fyrir okkur.
    1)Hann rak Agger og Reina frá okkur fyrir verri menn.
    2)Hann keypti medalskussa á ofurprís.
    3)Hann villi frekar syna heiminum ad HANN gæti tæklad Balotelli í stad Tess ad velja framherja sem hefdi passad okkur betur.
    4)Hann gerir of upp á milli leikmanna òhád getu teirra.
    5)Hann er of oft rádalaus
    6)Hann er bùinn ad missa klefann.
    Kv.Kalli

    1. Reina var búinn að vera skelfilegur í tvö ár og var hans tími bara búinn. Mignolet var betri en Reina á síðasta tímabili þrátt fyrir sína galla en ég tæki samt alltaf Reina að spila sín bestu tímabil fram yfir Mignolet og vill fá annan markvörð. En vill minná á að Rein var eiginlega hættur að reyna að verja og var hugurinn farinn í burt.
    Agger var gjörsamlega búinn á því. Varnarlega var hann í bullinu og fyrir utan það er maðurinn alltaf meiddur(sjá Sturridge nema varnamaður). Agger er með stórt liverpool hjarta og ég dýrka hann en hans tími var klárlega búinn.

    2. Já hann hefur keypt nokkra meðalskussa en við skulum nú gefa nokkrum af þeim tækifæri, því að þeir voru flestir keyptir mjög ungir og kosturinn við unga leikmenn er að þeir tækifæri til þess að bæta sig. Liðið er ótrúlega ungt og mér finnst lykilmenn eins og Sterling, Henderson og Sturridge hafa tekið framförum undir stjórn Rodgers.
    Svo er það oftst þannig að þótt að stjóri vill fá einhverja leikmenn þá er ekki víst að liðið geti náð í þá.

    3. Ég er viss um að Balotelli var ekki númer 1,2,3,4 eða 5 á listanum hjá Rodgers yfir þá framherja sem hann vildi. Suarez var að fara sem hann vildi halda og því þurfti liverpool að kaupa. Liðið náði ekki að sanfæra Sanches eða Cavanni til þess að koma. Balotelli fengum við ódýrt miða við það sem gerist í boltanum í dag og við skulum ekki alveg útiloka hann strax og svo má ekki gleyma því að hans besti leikur var þegar Sturridge var að spila með honum.

    4. Við skulum átta okkur á því að Rodgers er að gera það sem hann telur best fyrir liverpool. Það gerist margt bakvið tjöldinn sem við vitum ekkert um og því erfitt að segja að hann sé að gera uppá milli. Það er vitað mál að það breyttir engu hvaða 11 manna liði hann stillir upp það verða sumir ekki sáttir. Mæli með að menn lesi bókina um Liverpool liðið 1986 þegar menn voru duglegir að gagrína liðsvalið hjá Daglish en það vita allir hvernig það tímabil endaði( okkar tímabil endar ekki svoleiðis sökum þess að liðið þá var einfaldlega eitt af bestu liðum heims ef ekki það besta).

    5. Afhverju segjiru það? Mér finnst hann einmitt ekki ráðalaus, hann fer bara eftir sinni hugmyndafræði og hefur verið að fikta bæði í liðsvalinu og taktíkt sem hann telur vera best. Hann hefur verið að bregðast við lélegum leik með því að breytta um taktík í miðjum leik og stundum með góðum árangri en ég er ekki viss um að menn fatti alltaf það sem hann er að gera t.d á móti Stoke þá í fyrrihálfleik voru Allen og Lucas eiginlega báðir að liggja aftarlega en í þeim síðari þá fékk annar þeira alltaf leyf til þess að fara framar á völlinn með fínum árangri.

    6. Þetta finnst mér mesta ruglið af öllu. Mér finnst einmitt leikmenn hafa fulla trú á honum og eina sem maður heyrir frá liverpool er að leikmenn tala vel um stjóran(Gerrard, Toure, Henderson), lýsa yfir stuðningi og meiri segja fyrrum leikmaður liverpool Suarez hrósar honum mikið. Ef stjóri væri búinn að missa klefan þá myndi ekki heyrast neitt(þá meina ég hvorki slæmt né gott – meiri líkurnar á því slæma).
    Hann virkar á mig sem mjög heilsteyptur maður og tel ég að liðið hafi byrjað tímabilið illa en ástæðan er ekki að klefin sé farinn.

    Það má vel vera að menn séu ekki samála mér en ég styð stjóran og finnst hann vera með góða framtíðarsýn fyrir liðið.

Liverpool 1 – Stoke 0

Leicester á morgun