Sunderland á morgun

Tveir sigurleikir að baki og framundan slagur á Anfield við liðsmenn Sunderland. Enn einn leikurinn sem “á að vinnast”. Sem betur fer hefur stigasöfnun okkar manna aðeins farið af stað undanfarið, það eru sem sagt heil sex stig komin í hús á nokkrum dögum og 3 önnur verða í boði á morgun. Mikið væri nú gott að næla í þau og það er alveg ótrúlegt að spá í því að ef að það tekst, þá væri búið að taka inn 9 stig á einni viku, en 14 stig samtals í ágúst, september, október og nánast allan nóvember. Svo segja menn að hlutirnir geti ekki gerst hratt í fótboltanum. En það er best að halda fast í hestana sína, eins og sést hefur í síðustu tveim leikjum (sigurleikjum) þá er ekkert unnið á pappír fyrirfram og má alveg stóla á það að okkar menn halda okkur í spennu út allan leikinn.

Mótherjar okkar eru eins og áður sagði, lið Sunderland. Það er óhætt að segja eins og er að þeir eru vísir til alls. Síðustu tveir leikir þeirra segja allt um það þar sem þeir gerðu 0-0 jafntefli við topplið Chelsea og steinlágu svo gegn Man.City heima 1-4. Það er ekki eins og að mörg lið hafi náð að núlla út sókn Chelsea á tímabilinu. Gus Poyer virðist engu að síður vera svolítill stemmningskall og náði að rétta skútuna þeirra við á ótúlegan hátt á síðasta tímabili. Í mínum huga er Sunderland liðið of sterkt til að falla, en eru samt ekki nógu sterkir til að fara eitthvað upp fyrir miðja deild. En við höfum nú séð vel skipuð lið hrapa niður, þannig að það er allt opið með það. Menn vinna ansi fátt fyrirfram, í rauninni er aldrei neitt unnið fyrirfram og alls ekki þegar kemur að ensku deildinni.

Ef við þurfum nauðsynlega á stigum að halda, hvað má þá segja um Sunderlandmenn. Það eru 2 stig á milli þeirra og fallsætis og heil fjögur stig í botnsætið. Þetta er svipað hjá okkar mönnum, stutt í markmiðin en of mörg lið á milli fyrir minn smekk. Eins og staðan er núna þá eru 3 stig í Arsenal sem eru í sjötta sætinu og eiga útileik gegn Stoke um næstu helgi. Swansea eru með tveim stigum meira en við og liggja í sjöunda sætinu og eiga útileik gegn West Ham sem eru með 4 stigum meira en við í fimmta sætinu. Geimvísindin segja okkur það að í þeim leik munu stig tapast. Í þriðja og fjórða sætinu sitja svo Man.Utd og Southampton, fimm og sex stigum yfir okkur. Það vill svo skemmtilega til að þessi lið mætast einmitt í næstu umferð á heimavelli Southampton. Og vitið þið hvað? Jú, stórmerkilegt nokk, þar tapast líka stig. Var ég eitthvað búinn að minnast á að sigur skiptir okkar menn talsverðu máli á morgun? Allavega, þið ættuð að vita það núna. Ekki það að maður sé að horfa eitthvað ofar í töfluna, en 10 stigum fyrir ofan okkur eru svo Englandsmeistarar Man.City og þeir eru einmitt að fara að taka á móti bláu nágrönnum okkar sem liggja á réttum stað, fyrir neðan Liverpool í töflunni. Newcastle eru jafnir okkur að stigum og eiga heimaleik gegn toppliði Chelsea. Flest liðin í efri hlutanum eru því að spila sín í milli um helgina.

Eflaust eru menn að verða alveg ruglaðir af þessari upptalningu, en ég læt hana vaða engu að síður. Næst er það Anfield og þar koma Sunderland menn með eitt að markmiði. Verjast og reyna að nýta sér taugaveiklaða vörn Liverpool og setja mark úr skyndisókn, en í versta falli að fara heim með stig. Þeir eru með leikmenn sem geta vel brotið upp leik, mikið af líkamlega sterkum einstaklingum og svo tæknilega flinkum strákum inni á milli. Vörnin þeirra er nú ekki þétt skipuð einhverjum nöfnum, en nóg til þess að halda hreinu gegn Chelsea. Þeir sýndu samt hversu brothættir þeir geta verið gegn City í leiknum á eftir. Í hjarta hennar standa þeir Man.Utd félagar Wes Brown og John O’Shea. Aðeins er breiddin meiri þegar kemur að miðjunni, en þar fer fremstur í flokki sjálfur Lee Cattermole, en sá hefur afrekað það að næla sér í 7 gul spjöld það sem af er leiktíðinni. Jack Rodwell hefur verið að spila á miðjunni og Seb Larsson getur verið ansi hættulegur á köflum, þó ekki jafn hættulegur og Cattermole (og þá er ég ekki að tala um fótboltahættulegur). Adam Johnson, Steven Fletcher og Connor Wickham munu svo bera hitann og þungan af sóknarleiknum, þó svo að ég voni svo sannarlega að Poyet leggi allt sitt traust á Jozy Altidore.

Hvað um það, að okkar mönnum. Coutinho og Enrique eiga að vera orðnir heilir heilsu á ný og talað er um að Sakho sé að nálgast endurkomu. Ekki er hægt að segja sömu sögu af Sturridge, Flanno, Suso og Balotelli. Leikirnir koma í bunum þessa dagana og nú er að nota hópinn vel. Gríðarlega mikilvægur leikur gegn Basel er framundan, en ég held nú engu að síður að það sé ekkert verið að horfa neitt mikið til hans þegar kemur að uppstillingu fyrir þennan leik. OK, ef menn eru mjög þreyttir, þá á að setja á bekkinn, en ekki að hvíla menn til að búa eitthvað í haginn fyrir næsta leik. Bara taka stöðuna eins og hún er hvern leik fyrir sig, enda hefur það komið á daginn núna á þessu tímabili að það er enginn einn leikmaður sem er ómissandi í einhvern ákveðinn leik. Því vona ég bara að Brendan haldi bara beint fram og líti ekkert annað en bara akkúrat á leikinn sem framundan er.

Á meðan ekkert betra backup er fyrir Mignolet, þá mun Brendan halda tryggð við hann. Shaky Mignolet er að mínum dómi talsvert betri en Brad Jones, því miður. Ég er á því að valið standi að þessu sinni á milli bakvarða í sínum réttu stöðum, þ.e. að Glen Johnson sé að berjast við Manquillo um byrjunarstöðu og Enrique sé að berjast við Moreno. Ég ætla að spá því að Brendan velji reynsluna framyfir ungdóminn að þessu sinni og að þeir Johnson og Enrique byrji. Eitthvað segir mér að Lovren komi inn í liðið að nýju, enda var Kolo að mínum dómi ekki sannfærandi í síðasta leik. Hann fær ekki jafn marga sénsa og aðrið þegar kemur að mistökum. Auðvitað myndi ég helst vilja sjá Sakho koma þarna inn, en ég efast um að honum verði hent beint í djúpu laugina. Lucas bara hlýtur að halda stöðu sinni þar fyrir framan, enda mun meiri ró yfir vörninni með hann í þeirri stöðu. Lallana heldur sinni stöðu, sem og allir hinir sem framar vöru á vellinum. Engu að síður hefði ég viljað sjá Emre Can fá sénsinn í stað Henderson. En mikið vona ég samt að Brendan komi með Borini inn á bekkinn, bara svona til að hafa allavega einn framherja þar upp á að hlaupa ef annað er ekki að ganga.

Ég spái liðinu sem sagt svona:

Mignolet

Johnson – Skrtel – Lovren – Enrique

Henderson – Lucas – Gerrard

Lallana – Lambert – Sterling

Trúið mér, ég vona svo heitt og innilega að þeir Skrtel og Lovren verði EKKI saman í hjarta varnarinnar, þeir virðast hreinlega aldrei á ævinni hafa hist, hvað þá talað saman. Svei mér þá, stundum hef ég á tilfinningunni að þeir séu úr sitthvoru sólkerfinu og að það verði mælt í ljósárum hvenær þeir nái að tengja saman. Mikið vona ég samt að það fari nú að breytast. Kannski þurfa þeir bara einn Lucas fyrir framan sig til að hjálpa sér. Það er samt ljóst að við þurfum að vera á tánum á morgun, við þurfum að vera mun hraðari í okkar aðgerðum en undanfarið. Varnarleikurinn hefur aðeins verið að skána (róa sig, ég sagði aaaaðeins), en sóknarleikurinn er ennþá alltof hægur og tilviljanakenndur. Vonandi að með auknu sjálfstrausti og smá “rönni” þá verði breyting þar á. Þetta væri assgoti fínn tímapunktur fyrir liðið að hrökkva í gírinn.

Ég ætla að gerast svo frakkur að spá áframhaldandi sigurgöngu okkar manna og það bara býsna sannfærandi í þetta skiptið. Að sjálfsögðu náum við nú samt ekki að halda hreinu, en leikurinn fer samt sem áður 4-1 fyrir okkar drengi. Sterling kemur sér langþráð á blað, Skrtel stangar eitt inn, Lambert nær að pota einu og svo heldur fyrirliðinn áfram frá síðasta leik og setur eitt. Áfram gakk, aldrei einn.

24 Comments

  1. Kæri Jóli,

    ég bið ekki um mikið í jólagjöf. Bara sigra í þrem næstu Liverpool leikjum. Svo getum við séð til með framhaldið.

    Plís?

  2. Skemmtileg upphitun, hafði mjög gaman að þessari upptalningu hjá þér. Hvað varðar byrjunarliðið er ég pínu ósammála. Ég myndi allan daginn halda sömu 5 í vörninni (Lucas þar á meðal) og byrja með Lovren í miðri viku á móti Basel. Algjör óþarfi að vera að sprengja upp vörnina þegar hún er loksins farin að virka sannfærandi.

    Kolo Toure er að leiða vörnina gríðarlega vel og þrátt fyrir að hann sé stundum svolítið klunnalegur þá held ég að það sé ekki tilviljun að menn eins Johnson og Skrtel eru farnir að spila betur þegar það er kominn leader í hjartað á vörninni. Lovren er einfaldlega ekki tilbúinn í það hlutverk þótt ég vona að hann verði það áður en langt um líður.

    En að mínu mati er ástæðan einföld afhverju Liverpool eru ekki búnir að tapa í síðustu þremur leikjum. Lucas Leiva, gríðarlega mikilvægt að hafa leikmann sem gerir andstæðingnum erfitt fyrir, Gerrard var einfaldlega (og kannski skiljanlega miðað við aldur) ekki að sinna því nægilega vel. Á sama tíma gefur þetta fyrirliðanum okkar smá frelsi til að færast framar á völlinn og taka þátt í sóknarleiknum. Fyrir mitt leiti er alltaf gaman þegar Liverpool skorar en þegar það er Geirharður þá fæ ég alltaf smá auka ánægju!

    Að lokum ætla ég að spá að við vinnum þennan leik 3-0 og mætum fullir sjálfstrausts á Anfield 9. desember til að tryggja okkur farseðil í 16. liða úrslit meistaradeildarinnar! Gerrard, Lambert og Sterling verða á blaði.

    Hver er tilgangurinn með þessu öllusaman ef maður má ekki leyfa sér að vera pínu bjartsýnn.

  3. Takk fyrir þessa frábæru upphitun fer balotelli ekki að vera heill ? annars vill ég fá borini inn lambertinn er búinn að spila 3 x 90 min í sömu vikunni.

    ég ætla að spá þessu 2-0 fyrir okkur með 1 frá henderson og einu sjálfsmarki

    Koma svooo !!

  4. Skemmtileg upphitun. Ég hafði mjög gaman að upptalningunni. Sérstaklega þessum parti:

    “Eins og staðan er núna þá eru 3 stig í Arsenal sem eru í sjötta sætinu og eiga útileik gegn Stoke um næstu helgi. Swansea eru með tveim stigum meira en við og liggja í sjöunda sætinu og eiga útileik gegn West Ham sem eru með 4 stigum meira en við í fimmta sætinu.”

    Ég hef aldrei séð jafn fagmannlega farið yfir stöðu mála. Þessi fram og til baka yfirferð á stöðu í deild er vonandi komin til að vera! Miklu skemmtilegri og neyðir mann til að hugsa aðeins 🙂

  5. Ég er því miður að vinna þegar að þessi leikur er í gangi en á vinnustaðnum eru sem betur fer allir nema einn Liverpool stuðningsmenn, þessi eini er eitthvað villtur og heldur með Utd.

    Ég var aðeins að hugsa um það í leiknum í gær og leiknum á móti Stoke þegar að J. Enrique rakaði á sér hausinn og byrjaði að safna skeggi eftir að hann var búinn að vera í eitthverjum vandræðum, hann byrjaði að spila betur og sagði að þetta væri gert til þess að fá breyta til og fá „nýja byrjun“.
    Ég byrjaði aftur að hugsa um þetta þegar að ég sá Lovren á bekk í seinasta leik og aftur þegar að hann kom inná í uppbótartíma, hann er nefnilega kominn með þetta fína skegg, ég vona að hann byrji að spila betur og ég vill bara líka að J. Enrique geri þetta aftur!

    Í félagsfræðinni er það kallað að trúa á yfirnáttúruleg fyrirbæri og stundum „mana“ þegar að maður er með svona hjátrú en ég held að flestir fótboltaaðdáendur séu með hjátrú þegar að það kemur að liðinu sínu, fólk byrjar klórar sér í hausnum þegar að liðið sitt tapar eftir sigurhrinu og pælir í því hver horfði eða horfði ekki á leikinn, fólk lofar þessu og hinu til þess að liðið sitt byrjar að standa sig betur eða að það haldi áfram sigurgöngu.

    Ég viðurkenni það að ég hef alltaf verið með þessa hjátrú eða „mana“ þegar að það hefur komið að Liverpool, ég hef t.d. tvisvar ákveðið að koma með villta spá hjá Liverpool, upp á djókið spáði ég 6-1 sigri á móti Arsenal í fyrra en sá leikur fór 5-1 og ég spáði leik Sunderland 4-1, ég spáði líka 4-0 sigri hjá Íslandi á móti Tyrkjum. Ég verð samt að passa mig á að ofnota þetta ekki!

    Áfram Liverpool og elsku Lovren og Enrique, rakið á ykkur hausinn og safnið skeggi!

  6. Hvenær fá Lovren og Toure að prófa að spreyta sig saman? Skrtel finnst mér fá alltof mikinn séns miðað við frammistöður þessa tímabils.
    Annars veit ég að þetta er sigur á morun. Skothelt

  7. Það er komið svo svakalegt leikjaálag að ég væri til í að setja Gerrard, Henderson og Sterling á bekkinn. Í ljósi þess að það er stórleikur á miðvikudaginn gegn Basel og svo Man utd leikur á sunnudeginum(og búnir að vera að spila þétt).
    Hvernig væri að gefa Markovich tækifæri með Lallana og Coutinho með sér og Lambert fremstan.
    Hverning væri svo að hafa Lucas, Allen og Can á miðsvæðinu.

    Henderson hefur átt ágæt tímabil en ekki meira en það og ég veit að þetta er ekki sexy miðja en ég get séð Lallana, Coutinho og Markovich búa til færi og skora. Svo eru auðvita Gerrard/Sterling á bekknum til þess að brjóta þetta upp.

    Með þessu þá fá lykilmenn smá hvíld og Can/Markovich fá tækifæri til þess að sanna sig.

  8. Vonandi nær liðið að halda markinu hreinu.

    En hvenær væri nú að bjóða Tony Pulis að vera hluti þjálfarateyminu, þá myndi vörnin loksins halda.

  9. Hjartanlega sammá Ssteini, það er ekki séns í helvíti að láta menn hvíla, ekki fyrr en staðan er orðin 3-0. Ian Rush setur fram tillögur sem væru í mínum huga ávísun á tap í leiknum en ég er mun meira sammála Lúðvík Kemp. Lucas er lykill í þessum leik sem flestum öðrum.

    Menn verða bara að gjöra svo vel að þrauka þetta núna fram yfir Basel/Man U leikina. Eftir þessa törn er leikur við Bournemouth (vini Babú) og þá mega hinir gæjarnir spila. Reyndar eru vinir Babú síður en svo auðveldir viðureignar, eru í 4. sæti í Championship deildinni.

    En að leiknum á morgun. Sigur er það sem við þurfum. 2-1 er alveg feykinóg fyrir mig. Eins og kemur svo skýrt fram þá myndi það skaffa okkur 9 stig úr síðustu þremur leikjum og það kallast einfaldlega að vera kominn á “rönn”. Liðin í kringum okkur munu tapa stigum þannig að við munum pottþétt nálgast fjórða sætið með sigri. Nú er bjartsýnin komin aftur og allt leikur í lyndi!

  10. Tvo frammi plís. Borini og Lambert. 4-4-2 eða jafnvel 4-3-3.

    Aggressive attacking game.

  11. Sælir félagar

    Takk Ssteinn fyrir góða upphitun þó ég sé henni ekki að öllu leyti sammála. Fyrir það fyrsta held ég að Lovren komi ekki inn í vörnina. Til þess er BR of þrár og íhaldssamur og ég er sáttur við það í þessu tilfelli. Eins er markaregnið sem Steini spáir ekki í mínum bókum. Ég er að vísu sammála um sigur enda man ég ekki eftir að hafa spáð mínu liði tapi nokkurn tíma. Því er mín spá 1 – 0 eða í mesta lagi 2 – 1.

    Það er nú þannig

    YNWA

  12. Það hefur sannað sig að það virkar ekkert nema tígulmiðja og Lugas í varnartengilið. það þarf ekki neinar ofurgáfur til að sjá það og Rogers hefu örugglega verið að horfa á sömu leiki og við.

  13. Eins og staðan á gæðum Liverpool er í dag þá er þetta lið sem er jafn líklegt að vinna og tapa fyrir liði sem er í deildinni frá 4-11 sæti, bæði á Anfield og á útivelli. Þessvegna býst ég við tvísýnum leik og dettur ekki í hug eina sekúndu að vanmeta Sunderland og kalla þetta skildusigur.
    Mín von er þessi.
    A- Að nýileikstíllinn, með hæga framherja og Gerrard ofar á vellinum og Lukas í varnartengiliði skili árangri með aukinni samæfingu og ég vona að leikmenn eins og Balotelli og Lambert fari að blómstra og vörnin verði sterkari.
    B- Að þegar við erum komin með Sturridge úr meiðslum þá getum farið aftur í að pressa framar á vellinum án þess að við förum að fá mark á okkur.

    Mín spá og von er að Liverpool vinni þennan leik en ég held að það er enn þá dálítið í land að við séum að komast á almennilega siglingu.

  14. Ég skil ekki afhverju FA eru að standa því að kæra Balotelli þegar allir vita það að FA vinna 95% af þeim málum sem þeir kæra í. Það myndi spara öllum aðilum tíma og orku ef að þeir myndu hreinlega dæma hann strax í bann í staðinn fyrir að draga hann í gegnum þann skrípaleik sem sýndarréttarhöld enska knattspyrnusambandsins eru.

    Annars varðandi leikinn þá ætla ég að spá 2-1 sigri þar sem að Lambert setur bæði.

  15. Getur einhver svarað þessu – Hvern andskotann kemur Twitter aðgangur Balotelli FA við? Hvar stoppar lögsaga FA í lífi knattspyrnumanna?

  16. Nákvæmlega, og svo endar þetta þannig að mennirnir megi ekki einu sinni hafa sínar skoðanir í friði :/

  17. Spái mínum mönnum 3-1 sigur og ég legg til að við höfum jólapeysudag á Akureyri ef að það er í lagi vegna FA.

  18. Takk fyrir flotta upphitun ! Enginn ástæða til annars en að vonast eftir sigri, liðið er hægt og bítandi að hressast. Helsta ástæðan að mínu mati er Kolo Toure,þó hann sé ekki heimsins besti varnarmaður og stundum svolítið klaufalegur,þá hefur hann reynsluna og yfirvegun sem smitar út frá sér og það er akkurat sem liðið þar á að halda þessa stundina.
    Einnig er allt annað að sjá Gerrard þessa dagana er hann spilar framar á vellinum , hann þarf á því að halda að skora reglulega og maður sá það í síðasta leik að hann er góður framá við , flottar sendingar og hlaup sem skapa hættu.
    Er ekki sammála Steina með að bekkja Henderson , hann er búinn að skora 2 mörk í síðustu leikjum og er að spila vel.
    Já er bara bjartsýn fyrir leikinn , spái 3-0 🙂

  19. Sammála nr 4 , en held að unga fólkið verði í bakverðinu um helgina og gömlu mennirnir í vikunni

  20. Trúlega af því hann er Liverpool-leikmaður, Gummi minn. Af hverju fékk Giroud ekki leikbann frá FA þegar hann keypti sér hóru nú eða Shrek(rooney.

  21. Flott upphitun, það er eitthvað sem segir mér að þetta verði strembinn leikur! Jafnteflis bjöllurnar óma í hausnum á mér, en vonandi hef ég rangt fyrir mér og við höldum áfram á sigurbraut 🙂
    Balotelli greyið er nottlega með greindarvísitölu á við tannstöngul ætli það sé ekki þess vegna sem þeir eru að kæra hann!!!!

  22. Flott uppstilling, er að meta það að sjá Toure í liðinu, hefur allt fram yfir Lovren.
    Öruggur 2-0 sigur.

Leicester – Liverpool 1-3

Liðið gegn Sunderland