Yfirtaka á Liverpool FC

editorial-0207-investors-on-pitch.jpg

Jæja, 6. febrúar mun framvegis verða stór dagsetning í sögu Liverpool FC. Verður hennar minnst með mjög jákvæðum hætti eða mjög neikvæðum? Það mun ekki verða ljóst fyrr en seinna meir þegar menn byrja að horfa tilbaka og meta það sem gerst hefur. Fyrir mitt leiti þá er ég afar ánægður í dag, og þá sérstaklega með það að svo virðist sem framtíð félagsins sé tryggð. Við erum að taka gríðarlega stórt skref og í rauninni mun stærra skref en margir gera sér grein fyrir. Því miður virðast margir hafa vantrú á þessu, og verst er að margir gera það eingöngu út af því að um er að ræða tvo Bandaríkjamenn. Hvernig sem menn hugsa til manna frá því landi, þá verður það samt að segjast að margir af bestu viðskiptajöfrum veraldar koma einmitt þaðan og allt sem snýr að markaðssetningu og uppbyggingu á sér Bandarísku sporti hefur verið virkilega góð svona heilt á litið. Reynsla þessara tveggja manna í rekstri á íþróttafélögum er gríðarlega mikil. Þeir hafa báðir brennandi áhuga á því sem framundan er og virða íþróttina sem slíka. Þeir hafa nú þegar farið á leik með liðinu, eitthvað sem maður að nafni Glazier hefur enn ekki gert.

Það er einn afar stór jákvæður punktur við daginn í dag. Þessi fjárfestingamál félagsins eru nú loksins komin á hreint. Ég held að allir geti verið sammála um það að þetta var orðið hálf þreytandi, enda búið að taka mörg ár. Ég er þó á því að það sé bara jákvætt svona eftir á að hyggja. Þetta sýnir að menn hafi skoðað mjög marga kosti og skoðað þá ofan í kjölinn og ekki farið út í hlutinn nema að mjög vel athuguðu máli. David Moores og Rick Parry hafa einmitt verið gagnrýndir fyrir þetta af mörgum aðilum. Stundum hefur gagnrýnin átt rétt á sér, en stundum verður að segjast að hún hefur sprottið upp af hreinni vanþekkingu. Þú hleypur ekkert til og selur svona félag einn, tveir og þrír. Það eru ótrúlega margir þættir sem þarna koma við sögu. Það er hægt að saka David Moores um margt, en það verður ekki hægt að efast um ást hans á þessu félagi. Það er algjörlega á hreinu.

Rifjum þetta aðeins upp, en þó skal það nefnt að ég ætla bara að stikla á stóru, það þekkja væntanlega flestir þetta allt saman. Það hefur verið langur aðdragandi að byggingu á nýjum velli fyrir félagið. Það var orðið ljóst að til þurfti að koma aukið fjármagn og það ekkert lítið. Strax þá var farið út í að skoða aðkomu nýrra fjárfesta að félaginu. Marg um ræddur Steve Morgan bauð nokkrum sinnum í félagið og var tilbúinn til að setja um 50 milljónir í það að byggja nýjan völl. Með því þurftu aðrir hluthafar að sætta sig við lækkun sinna hlutabréfa og félagið hefði þurft að taka stór lán fyrir nýjum velli, þar sem þessar 50 millur hlupu skammt í fjármögnun á honum. Það hefði svo væntanlega þýtt minna fjármagn til að styrkja liðið innan vallar, til skamms tíma á meðan væri verið að borga niður þau lán. Steve Morgan var hafnað strax, og í rauninni tvisvar í viðbót þar sem hann kom með örlítið breytt tilboð í hvert skipti. Næstur kom svo forsætisráðherra Thailands. Það er óhætt að segja að hugsanleg yfirtaka hans skapaði mikinn óróa á meðal margra, og þegar samningaviðræður fóru aðeins lengra þá varð ljóst að þau kaup gætu aldrei orðið að veruleika. Það var himinn og haf á milli núverandi stjórnenda Liverpool og svo þeirra sem voru í forsvari fyrir hann. Næstur var svo hópur manna frá Bandaríkjunum, sem innihélt meðal annars meðlimi Kraft fjölskyldunnar. Þær viðræður fóru afar stutt af stað og komust aldrei á alvarlegt stig. Næst var svo rætt um Kraft fjölskylduna sem slíka og í kjölfarið hóp írskra fjárfesta. Þessir möguleikar voru talsvert skoðaðir, en eins og áður, þá þróuðust þær viðræður aldrei yfir á það stig að þetta svokallaða ?due diligence? færi í framkvæmd. Það gerist ekki fyrr en alvöru tilboð er komið inn og félagið hleypir viðkomandi í allt bókhald er viðkemur því.

Hlutirnir byrjuðu ekki að komast á alvöru skrið fyrr en DIC menn komu til skjalanna. Þar var í fyrsta skipti komið tilboð fram sem hægt var að taka yfir á næsta stig. Nægt fjármagn til að fjármagna nýjan völl og til að kaupa upp öll hlutabréf félagsins, ásamt því að yfirtaka skuldir þess. Nú voru menn vissir um að fjárfestirINN væri kominn fram í dagsljósið. Það var þó ákaflega skrítið hversu langan tíma það tók frá því að ?due diligence? byrjaði og þar til eitthvað meira átti að gerast. Það voru þó ýmsir hlutir í því tilboði sem stjórnendur voru ekki alveg sáttir með. Það er erfitt að segja um nákvæmlega hvaða atriði það voru, en þeir heimildamenn sem komast næst því að hafa ?inside info? um þessi mál, segja að menn hafi ekki verið fullkomlega sáttir við ákveðið skjal hjá þeim DIC mönnum þar sem fram kom að þeir gætu hugsað sér að fara aftur út að 7 árum liðnum, og stefnan væri á ákveðna ávöxtun á fjárfestingunni á þeim tíma. Það var líka talað um að ekki hafi verið nægilega mikil áhersla á fjármagn í styrkingu á sjálfu liðinu og eins hvernig staðið yrði fyrir ábyrgðum fyrir byggingu á nýja vellinum. Við eigum eflaust eftir að fá nánari útlistun á muninum á þessum tveim tilboðum (því sem tekið var og DIC tilboðinu) þegar fram í sækir. Það var allavega ljóst á stjórnarfundi í síðustu viku að stjórn félagsins vildi skoða nánar tilboð sem hafði borist frá þeim Gillett og Hicks. Við vitum öll afganginn af þeirri sögu, þ.e. DIC menn urðu fúlir, fundu það fljótt að sveifin var að sveiflast í átt til hinna og drógu sig því alveg út. Gillett var áður búinn að koma fram með tilboð, en félaginu hugnaðist það ekki, enda var hann bara einn á bakvið það.

Þá standa eftir nýjir eigendur Liverpool FC. Mitt álit? Mér er nákvæmlega sama hvort Tom Hicks hefur borgað í kosningasjóð hjá Bush forseta. Það er nokkuð sama hvaða fjárfestir hefur verið nefndur til sögunnar, það tekst að grafa upp eitthvað vafasamt um viðkomandi, það hefði verið nokk sama hver hefði átt í hlut. Svona business kallar hafa allir troðið einhverjum um tær á leið sinni til jafn mikilla auðæfa og raun ber vitni. Ég hef ekkert álit á Bush, en þar með er ekkert sem segir mér hvernig maður Hicks er. Þekki manninn ekkert. Það getur vel verið að maður sem mér líkar ákaflega vel við hérna á Íslandi hafi borgað í kosningasjóð hjá Kolbrúnu Halldórsdóttur. Mér er fyrirmunað að þola hana sem stjórnmálamann, en breytir það að þessi aðili hafi borgað í kosningasjóð hennar, því áliti sem ég hef á honum sem kaupsýslumanni? Nei, engan veginn. Hvort Hicks eða einhver annar borgar í einhvern kosningasjóð, það er mér alveg sama um. Ef hann stendur sig og verður klár á sínum skuldbindingum er snúa að Liverpool FC, þá verð ég afskaplega ánægður. Ég verð að viðurkenna það að ég var ákaflega feginn þegar ég sá að einhver jafn reyndur og sterkur og Hicks væri með Gillett í þessu, því ég efaðist um að Gillett einn og sér hefði bolmagn í verkefnið sem framundan er.

Ég hef lesið margt og mikið um þessa væntanlegu yfirtöku. Ég er ánægður með það að menn ætla að einbeita sér að reka félagið vel og að láta það standa undir sér. Þetta er ekki bara eitthvað leikfang ríkra manna. Þetta er business. Ég myndi fá algjört óbragð í munninn ef maður sæi annað Chelsea dæmi, Guðmundur forði okkur frá því. Það er nefninlega stór munur á dýru leikfangi sem ekki er séns á að standi undir sér, eða því að reka félagið með góðum árangri innan sem utan vallar. Ef menn ætla að fara að líkja þessu saman, þá eru þeir á villigötum. Það fjármagn sem núna kemur inn í félagið, má líkja við fjármagni því sem lið eins og man u fengu þegar þeir fóru á markað sem fyrirtæki. Lið hafa fengið umtalsvert fjármagn inn í reksturinn með því, sambærilegt sem nú er að gerast við þessa yfirtöku hjá Liverpool FC. Ég verð því að segjast að ég er afar ánægður og bjartsýnn í dag yfir framtíð félagsins. Nú er þeim kafla lokið hjá okkur þar sem við erum að bíða eftir fjármögnun á leikvangi og leit okkar að nýju fjárfestum. Ég er líka ánægður með það að David Moores mun verða heiðursforseti félagsins um ókomna tíð og líklegt er að Rick Parry muni halda áfram störfum sínum fyrir okkur.

En hvað segja viðkomandi aðilar svo á þessum stóra degi? Það hafa margir tjáð sig, og er kannski mesta athyglin á lykilmönnunum. Orð eru einföld, en þegar kemur að því að standa við þau, þá skilur á milli góðs og ills. Það verður að segjast eins og er að menn hafa svo sannarlega verið að segja réttu orðin við þetta tilefni. Nokkur atriði sem ég hef verið sérlega ánægður með og ætla ég að snara þeim yfir í okkar ástkæra ylhýra svona í tilefni dagsins:

Tom Hicks:

?Þegar ég skoðaði þetta allt undanfarinn mánuð þá varð ég bara algjörlega heillaður af sögu félagsins og þeirri hreinu ástríðu sem stuðningsmenn þess búa yfir. Texax Rangers hafa verið til í um 36 ár og Dallas Stars hafa verið til í 13 ár, þannig að það að fá tækifæri til að koma að liði sem er með yfir 100 ára sögu og svona stuðningsmenn, þá er það eitthvað sem gerði mig virkilega spenntan.?

George Gillett:

?Þú sérð fljótt að þetta er vinsælasta íþrótt í heimi og þetta er eitt vinsælasta félag í heimi. Það að fá tækifæri á að vera með í slíku eru sjaldgæf forréttindi. Þetta er félag sem er vel stjórnað, en við höfum trú á því að við komum inn með reynslu sem stjórnendur geta nýtt sér til að gera hlutina enn betri. Ég og Tom örlítið vonsviknir með að sumir halda að þetta sé eingöngu mál sem snúist um peninga, vegna þess að við svo sannarlega vonum að við höfum einnig góðar hugmyndir sem nýtast vel, ásamt því að koma inn með fjármagn.?

Tom Hicks:

?Við höfum báðir komið að byggingu og hönnun á nýjum leikvöngum, þannig að við erum á því að við getum komið inn með margar góðar hugmyndir inn í þá vinnu sem hefur nú þegar farið fram og muni koma að góðum notum bæði fyrir stuðningsmennina og félagið í heild. Ástæðan fyrir því að kaupsýslumenn fara út í íþróttir er vegna þess að þeir hafa ákveðna ástríðu fyrir því að sigra. Þrátt fyrir alla mína velgengni í lífinu, þá hefur ekkert veitt mér jafn góða tilfinningu eins og að vinna Stanley Cup árið 1999 og það að koma höndum mínum á bikarinn. Á því augnabliki þá náði bros mitt að báðum eyrum.?

George Gillett:

?Ég veit ekki almennilega hvernig ég á að koma því í orð að lýsa því hversu miklu máli fyrir David Moores þessi ákvörðun skipti. Hann var mjög aggressívur þegar hann var að spyrja okkur út í skuldbindingu okkar, ástríðu fyrir félaginu og okkar vilja í að taka félagið á næstu stig. Hann vill tryggja að við getum aftur orðið besta liðið í Úrvalsdeildinni og vera á meðal þeirra bestu í Evrópu. Þessi viðtalsferill var mjög strembinn og þetta snerist ekki um peninga. Þetta snerist um okkar ástríðu og skilning okkar á stuðningsmönnum þessa félags. David er ótrúlegur maður og þetta félag er líf hans. Þetta var erfiðasta ákvörun lífs hans vegna þess að hver ein og einasta fruma í líkama hans snýst um þetta félag.?

Tom Hicks:

?Ég get algjörlega staðfest það að við höfum akkúrat engan áhuga á að deila velli með neinu öðru liði. Við ætlum okkur að byggja upp besta liðið á besta leikvanginum í Úrvalsdeildinni og það er Liverpool FC.?

David Moores:

?Ég er á því að þetta er frábært skref fram á við fyrir Liverpool, hluthafa þess og stuðningsmenn. Þetta félag er stór hluti af mínu lífi og mín helsta ástríða. Eftir að hafa hugsað málið afar vel, þá hef ég ákveðið að selja hlutabréf mín til að hjálpa til við að tryggja fjármagn fyrir nýjum leikvangi og til að styrkja liðið enn frekar. Ég skora á alla hina hluthafana að gera slíkt hið sama og taka tilboðinu. Með því að gera það, þá er ég á því að við séum að tryggja árangursríka framtíð Liverpool Football Club.?

Rick Parry:

?Þessi samvinna þeirra Georg og Tom er einstök. Þeir koma með frábæra og mikilvæga reynslu, ástríðu sína fyrir íþróttum, alvöru fjárhagslegan stuðning og sterkar skuldbindingar við hefðir félagsins. Þeirra tilboð er einmitt þess eðlis sem við höfum verið að leita að undanfarið fyrir Liverpool. Við vitum að þeir horfa til langs tíma með félagið og þeir skilja líka mikilvægi þess að styrkja félagið bæði inni á vellinum, sem og utan hans. Þeir hafa algjörlega komið fyrirætlunum sínum til skila með að hafa hraðar hendur í því að koma nýjum leikvangi okkar á laggirnar í Stanley Park og eins að fjárfesta í liðinu okkar.?

Er hægt annað en vera bara bjartsýnn þegar maður les þessi komment. Ég verð að bæta því hérna við að ég hef bara tekið brot héðan og þaðan úr viðtölunum, og getur vel verið að ég hefði átt að taka aðeins meira eða minni hluta úr þeim. En það er auðvelt að tala, nú er það bara að koma orðunum í framkvæmd. Reynsla þessara tveggja manna úr heimi íþróttanna á eflaust eftir að koma þeim til góða. Þeir hafa greinilega mikinn áhuga á íþróttum og hafa greinilega heillast af enska boltanum, þó svo að þeir hafi nú ekki verið lengi loðandi við hann. Ég segi bara velkomnir félagar og hafið ávallt hagsmuni félagsins í fyrirrúmi.

43 Comments

  1. Frábær pistill og ágætis upprifjun á þessum málum öllum.

    Mér finnst það skína í gegn að þessir menn eru komnir til að ná árangri og til að reka félagið almennilega, ekki bara að dæla peningum í það líkt og Roman gerir.

    Það er augljóst að möguleikar á því að auka tekjur Liverpool eru gríðarlega miklir. Þar ber auðvitað fyrst að nefna nýjan leikvang, en svo er einnig ljóst að þegar að kemur að hlutum einsog kynningu á liðinu á nýjum mörkuðum sem og markaðssetningu þá erum við því miður langt á eftir Man U.

    Ég tók til að mynda eftir því á ferðalagi mínu um SuðAustur Asíu þar sem er **gríðarlegur** áhugi á enska boltanum að Liverpool var þar í fjórða sæti varðnadi markaðssetningu. Þar voru Man U númer 1, Arsenal númer 2 og Chelsea númer 3. Bolir merktir Liverpool voru illfáanlegir og illa framsettir og svo framvegis.

    Hicks og Gillette hljóta að sjá þessi sömu tækifæri við Liverpool. Þarna kaupa þeir sig inní félag með gríðarlega mikla sögu og sennilega einn af 10 stærstu aðdáendahópum í heimi (mér dettur bara í hug Barcelona, Real Madrid, Man U, Juventus og Bayern Munchen sem gætu hugsanlega verið með stærri aðdáendahóp um allan heim en Liverpool). Það er ljóst að möguleikarnir eru gríðarlegir.

    Og ég er bjartsýnn í dag. 🙂

  2. Einnig, hérna eru kvót í Hicks eftir [fund með Rafa](http://www.liverpoolfc.tv/news/drilldown/N154914070206-1559.htm)

    “We spoke to Rafa this morning and his thinking is very much similar to ours; **the need to keep our core players, bring in some star players and develop young players,**” revealed Hicks at this afternoon’s Anfield press conference.

    “We’ve not got a budget for what we’re going to do. Rafa and Rick will bring their plans to us and we’ll support these.”

    “some star players”. Hljómar einsog tónlist í mínum eyrum. 🙂

  3. Frábær pistill Steini.

    Já eins og ég sagði áðan er ég forvitinn að vita hvort hönnun nýja vallarins mun breytast eitthvað þar sem það er stöðugt tönnlast á því að þessir menn séu snillingar í “state-of-the-art” leikvöngum. Einhverjir á þeirra vegum munu skoða nýja völlinn en ég held að það sé alveg ljóst að hann verður ekki stærri en þessi 60.000 sem búið er að ákveða.

    “Some star players” – Skemmtilegt…! Margir hafa tönnlast á því að við höfum ekki haft fjármagn í að elta stærstu leikmennina, nú er það breytt. Eigum við að segja…
    Phillip Lahm frá Bayern Munchen
    Daniel Alves frá Sevilla
    Simao Sabrosa frá Benfica
    David Villa frá Valencia…
    …. og sumarið er afgreitt? 🙂

  4. Frábærar fréttir og frábært að þetta sé loksins frá.
    Ég verð samt að segja að ég dáist að eljusemi þess manns sem ákvað á þessum síðustu og verstu tímum enskuflæðis á Íslandi að þýða allt viðtalið við þá Hicks og Gillett.

  5. Frábær pistill 🙂

    En annað þó ég sé harður liverpool maður þá fynnst mér menn vera ofmetnast með félagið, maður er búinn að vera bíða eftir yfirtöku í mörg ár og hafa Moores og parry verið iðnir að fæla frá kaupendur, Margir sem hafa verið virkilega áhugasamir en einnhvern vegin er það ekki nóg, en alla vega þá vona ég það séu breyttir tímar framundan og Hicks fá að stjórna uppbygingu á nýja leikvanginum og geri hann af einum fallegast velli Evrópu, ekki væri leiðinlegra að liverpool myndi byrja spila flottan bolta sem myndi skila stórum titlum árlega 😉

  6. Ég þakka hrósið,

    En Beggi, ég er á því að þetta sé einmitt ástæðan. Þeir sem höfðu áður sýnt áhuga voru einfaldlega ekki nógu góðir vegna ýmissa hluta. Þeir félagar vildu fá rétta fjárfesta á réttum forsendum og því hefur þetta tekið svona langan tíma. Ég er ánægður að menn ákváðu frekar að leita lengur og finna rétta aðila, heldur en að stökkva á þann fyrsta sem sýnir áhuga. Framtíð félagsins er það sem mestu máli skiptir.

    David Moores virðist vel vita af því hvar þeir félagar koma til með að bæta mest við með sinni sérþekkingu:

    **Are there any areas of the club which could do better under them? **

    “Perhaps on the commercial side. I don’t think we have maximised our world brand and hopefully they will help us to get into these areas where we have the fantastic fan bases. ”

    Þarna kom það. Moores virðist alveg gera sér grein fyrir þessu og þarna kemur USA sérþekking sér vel. Þeir félagar eiga ekki að skipta sér af leikmannakaupum, né liðinu. Þeir koma að hlutunum þar sem þeir eru sterkastir. Fjármögnun og hlutum tengdum öðru en liðinu.

  7. Líka mjög gaman að lesa að þeir Hicks og Gillett hittu víst Gerrard og Carragher í gær eða í morgun og þeir félagar þjörmuðu víst líka að þeim varðandi skuldbindinguna við klúbbinn. Þar kom víst líka fram að þeir hefðu óbilandi trú á Rafa og ráðlögðu þeim þeim bandarísku að treysta honum í einu og öllu er viðkemur knattspyrnunni sjálfri. Svo höfðu þeir víst líka ákveðnar hugmyndir um nýja völlinn. Man ekki hvar ég las þetta. Gaman væri að fá link á þessa umfjöllun ef einhver hefur rekist á þetta.

  8. Það er greinilegt að þeim hjá Guardian er eitthvað í nöp við þessa yfirtöku, eða kannski bara illa við Liverpool FC:

    “The purchase of assorted Premiership clubs by ridiculously rich foreigners in recent years has provoked much scorn among Liverpool fans. “You can’t buy 50 years of tradition,” they’ve whined incessantly, until stopping abruptly this morning when it became apparent that, actually, you can”

    Sjá hér: http://football.guardian.co.uk/Fiver/0,,2007164,00.html

    Og líka pistill Scott Murray: http://blogs.guardian.co.uk/sport/2007/02/06/liverpool_fans_must_watch_thei_1.html

    Reyndar er pistill Murray ágætur og margt í honum sem er sjálfsagt og eðlileg gagnrýni.

    Sjálfum líst mér ágætlega á þessa yfirtöku en við verðum að bíða og sjá hvað verður. Ég sé allavega enga ástæðu til að vera með einhverja heimsendaspá eins og sumum.

  9. Ég má til með að spyrja Einar sem er sérfróður um amerískt sport hvað honum finnst um Tom Hicks. Gæinn er búinn að skíta á sig sem eigandi Texas Rangers og það frægasta sem hann hefur gert er risasamningurinn hans A-Rod sem við vitum að var ekki góður díll. Er þetta virkilega gæi sem hægt er að treysta?

  10. Fram kemur í viðtali við nýja eigendur á http://www.liverpoolfc.tv að Gerrard og Carragher hafi lagt áherslu á rétta hönnun vallarins:

    They made us aware the sound, the energy and the passion that Anfield provides needs to be incorporated into the design of the new stadium.

    Þessi ummæli eru ákaflega ánægjuleg því nýr völlur verður að vera hannaður með það í huga að áhorfendasvæði nái sem næst vellinum sjálfum líkt og er á Anfield. Líst vel á þetta:-)

  11. Takk fyrir það Ólafur, man þetta næst 🙂

    Þekki nú ekki neitt til USA sport dæmis, en mér skilst nú á þessu að eitthvað af hans liðum hafi unnið einhvern voða virtan bikar þar í landi sem heitir Stanley Cup. Ekki það að ég hafi hugmynd um hvað það þýðir, hann var allavega hrikalega stoltur af því afreki liðs síns.

    Þú kannski uppfræðir mig með hvernig hann hefur “skitið á sig” með þetta Texas Rangers dæmi. Spyr sá sem ekki veit og hvað þá að þetta A-Rod dæmi sé eitthvað sem maður þekkir.

    Við getum reynt að mála eins svarta mynd og hægt er af þessu öllu saman. Það breytir ekki því að nú eru þeir félagarnir tveir saman og mér skilst nú að Gillett sé nú dýrkaður og dáður hjá sínu liði. Það sem þeir þurfa að gera hjá Liverpool er nokkuð augljóst. Koma með sitt input í markaðsstarfið, koma með fjármuni og byggja nýjan leikvang, koma með fjármagn til að efla sjálft liðið og síðast en ekki síst eins og kom fram í dag, að skuldsetja ekki félagið a la Glazier í leiðinni. Hvort þú náir að draga fram eitthvað A-Rod eða aðrir að annar þeirra hafi borgað í einhvern kosningasjóð eða hvað það er nú sem menn vilja reyna að koma fram með, þá ef þeir standa við sitt við Liverpool, þá er ég alveg hrikalega ánægður.

    Telst þessi Stanley Cup ekki til amerísks sports?

  12. Til að útskýra fyrir þeim sem eru ekki inní baseball málum.

    Tom Hicks er eigandi Texas Rangers sem fékk fyrir um 10 árum til sín Alex Rodriguez frá Seattle. Alex (A-Rod) var að langflestra mati besti leikmaður í baseball á þeim tíma. Hann var auk þess ungur (25 ára – sem er mjög ungur af baseball leikmanni) og átti öll sín bestu ár eftir að margra mati.

    A-Rod var á samningi hjá Scott Boras, sem er að flestra mati besti umboðsmaður í heimi. Og fyrir hans hönd fékk A-Rod stærsta samning í sögu hafnaboltans, 10 ár fyrir 252 milljónir dollara í laun. Til að setja þetta í samhengi, þá kostaði Djibril Cisse okkar dýrasti leikmaður Liverpool 14 milljónir punda, sem er um 26 milljónir dollara.

    A-Rod var að fá 25 milljónir dollara Í LAUN, Á ÁRI á samningstímanum.

    Nú er það svo að baseball lið búa við launaþak, sem er ákveðin upphæð á ári. Til að mynda er mitt lið með launapakka í kringum 100 milljónir dollara á ári sem er hátt. Það að Texas hafi eytt 25 milljónum dollara Í EINN MANN varð til þess að liðið átti mjög erfitt að byggja upp lið í kringum A-Rod þar sem hann tók svo stóran hluta af launakostnaðinum.

    Og úr varð að Texas náði aldrei að byggja upp lið í kringum A-Rod. Hann hélt áfram að vera bestur, en liðið í kringum hann var sorglegt. Og á endanum var skipt á honum fyrir Alfonso Soriano og fleiri leikmenn hjá New York Yankees.

    Hvað þetta hefur með það að gera hvernig Tom Hicks gangi í enska boltanum, þá veit ég ekki um það. Á maður að dæma hann af árangri í Stanley Cup (sem er íshokkíbikarinn) eða af Rangers? Það er ekki gott að segja og skilyrðin og reglurnar í kringum rekstur liða í svo ólíkum deildum einsog bandarískum baseball og enskum fótbolta eru einfaldlega gríðarlega mikil.

  13. Vel skrifað SSteinn.

    Ég sagði það í fyrri þræðinum um yfirtökuna að ómögulegt er að segja til um hvernig þetta mun koma út. Ég er bjartsýnn og vona að þetta rúlli vel. Þessi menn eru örugglega með gott fólk sér við hlið og munu taka ákvarðanir í samstarfi við það fólk.

    Ég er spenntur og jákvæður.

  14. Frábær umfjöllun og auðvitað fer maður hingað til að fá mestu og bestu fréttirnar af þessum stórviðburðum!

    Vona innilega að þetta muni tryggja okkar frábæra klúbbi meðal þeirra allra bestu í veröldinni, þar sem við einmitt eigum heima.

  15. A-Rod kom reyndar til Texas fyrir 6 árum en það skiptir ekki öllu.

    Þetta er reyndar ekki eina dæmið sem við getum nefnt með Hicks, hann gerði t.d. stóran samning við hinn kóreska Chan-ho Park og það sama gerðist og með A-Rod, Texas þurfti að díla honum í burtu OG héldu áfram að borga stóran hluta af launum hans. Samningur Park er nú búinn en A-Rod á enn 4 ár eftir af samningnum og Texas er enn að borga 9 milljónir USD á ári án þess að nota hann! A-Rod er því enn að kosta Hicks og Rangers sitt, hann tekur næstum 10% af “launaþaki” Rangers án þess að hann sé til staðar.

    Hicks keypti Texas Rangers af George Bush og félögum árið 1998 og komst liðið í úrslitakeppnina ’98 og ’99. Ekki hafa þeir afrekað mikið síðan þá.

    Tek það fram að ég þekki ekkert til NHL og get því ekki kommentað á það. Dallas virðist hafa staðið sig býsna vel þar síðan Hicks tók við stjórnartaumunum. Það er vonandi fyrir Liverpool að íshokkíið sé rétti mælikvarðinn.

    En maður hlýtur að velta fyrir sér spurningunni hvort Hicks sé rétti maðurinn. Af því sem maður hefur lesið á amerísku netmiðlunum og spjallborðum þá fær Hicks ekki háa einkunn.

    En að lokum verð ég að taka undir orð Einars, Scott Boras er sá besti í bransanum.

  16. Skemmtilegt viðtal (video) á BBC.com við Gillett þar sem hann segir frá því að hann fór á Charity Shield í haust en fékk ekki miða Liverpool megin. Síðan þegar Liverpool skoraði stökk hann á fætur og fagnaði og var í kjölfarið næstum barinn af miður hressum Chelsea aðdáendum. Hann hefur strax kynnst ástríðu enskra knattspyrnuaðdáenda.

    Þetta leggst allt saman mjög vel í mig.

  17. Liverpool Football Club
    (1892-2007)

    PS: Góður pistill engu að síður.

  18. Hvað á eikifr við með þessum ummælum sínum? Er klúbburinn endanlega dauður vegna þessara kaupa? kannski vegna þess að Hicks hefur sýnt það, þrátt fyrir lítinn árangur, að hann er reiðubúinn til að eyða miklum peningum í stærstu stjörnurnar? Er það ekki eitthvað sem nánast allir á þessu spjalli hafa heimtað?
    Eins og einhver sagði þá er orðið af þessum kaupum ég held að lang flestir gleðjist og horfi fram á veginn en ef einhverjir eru annars sinnis þá er þeim líklega frjálst að halda með einhverju öðru liði.

  19. Þetta er að vísu smáatriði í þessari umræðu en sem áhugamaður um hafnabolta verð ég að segja að það er ekki og hefur aldrei verið launaþak í amerískum baseball. Það hversu mikið Hicks borgaði A-Rod í laun hafði engin áhrif á hvaða aðra leikmenn hann gat fengið til liðsins.

  20. Það er auðvitað rétt að það er ekki launaþak enda skrifaði ég launaþak innan gæsalappa. En að sjálfsögðu hafði það áhrif hvaða aðra leikmenn Hicks gat fengið til Rangers, hann ætlaði ekki að sprengja alveg ‘budget’-ið. Þú sérð t.d. hvað Colorado er að reyna gera við Todd Helton.

  21. Ég held að það sé ekki hægt annað en að vera ánægður með þetta. Þetta er búið að taka sinn tíma og margir verið nefndir til sögunnar. Mér leist ekkert vel á það að Tom Hicks væri stuðningsmaður Georg Bush en það kemur málinu bara ekkert við. Svo hafa margir verið ósáttir við þá staðreynd að Gillett hafi einu sinni orðið gjaldþrota. Ég tel það nú bara nokkuð gott að vera metinn á næstum því einn milljarð bandaríkja dollara tæpum fimmtán árum eftir að maður varð gjaldþrota.

    Og svo ég bæti því nú við, þá fór ég eitt sinn á fyrirlestur hjá einhverju frægum “motovation speaker” og hann hélt því fram að flest allir “successful” kaupsýslumenn færu allt að þrisvar sinnum á hausinn áður enn þeir “meikuðu” það.
    Biðst forláts á slettunum.
    LeBig

  22. >Þetta er að vísu smáatriði í þessari umræðu en sem áhugamaður um hafnabolta verð ég að segja að það er ekki og hefur aldrei verið launaþak í amerískum baseball. Það hversu mikið Hicks borgaði A-Rod í laun hafði engin áhrif á hvaða aðra leikmenn hann gat fengið til liðsins.

    Ok, kannski ekki hægt að kalla þetta launaþak. Ég gerði það þó til að einfalda útskýringu mína. En það er hins vegar nokkurs konar hálaunaskattur, sem lið þurfa að borga í sameiginlegan sjóð ef þau fara yfir ákveðna upphæð í leikmannakaupum. Þannig að ef lið fara yfir þau mörk, þá er það þeim gríðarlega dýrkeypt. Ef mig minnir þá voru það bara Red Sox og Yankees, sem borguðu þetta.

    Þau laun sem að voru borguð A-Rod höfðu *auðvitað* áhrif á önnur kaup, þar sem það voru einfaldlega ekki nægir peningar til að fá leikmenn í kringum hann.

  23. …SuðAustur Asíu … í fjórða sæti varðnadi markaðssetningu. Þar voru manchester united númer 1, Arsenal númer 2 og Chelsea númer 3. Bolir merktir Liverpool voru illfáanlegir og illa framsettir og svo framvegis.

    Algerlega sammála þér þarna Einar. Það eru gríðarlegir möguleikar fyrir Liverpool í Asíu og USA. Það er ekki auðvelt að redda sér Liverpool búning í USA en þú getur fengið Scum búning útum allt.

    Annars eru þetta allt þekktir frasar sem þessir gaurar eru með , en það ánægjulegasta að mínu mati virðist vera að þeir ætla að taka þátt í að reka klúbbinn og koma með þekkingu þar á að borðinu.

  24. Jæja þá er búið að selja Liverpool. Þar sem ég hef verið talsmaður þess lengi er ég ánægður með söluna sem slíka.

    Ég aftur á móti er enn sem komið er afar lítið spenntur fyrir kaupendunum. Hvorugur getur státað af merkilegum árangri með þau lið sem þeir hafa átt – annar styður Bush o.sv.frv. Ég er mest hræddur um að nú fari að berast neikvæðar fréttir eftir að kaupin hafi átt sér stað eins og hækkað miðaverð o.sv.frv. Mér finnst nú líka pínu skrítið hvernig þeir félagar lýstu ákvörðuninni um að kaupa liðið. Þeir hittast á hafnabolta leik fyrir stuttu síðan. Annar segir við hinn – hei eigum við að kaupa Liverpool. Eigendurnir eru að reyna allt til að selja. Og svo bara bing bara búmm – Liverpool er keypt.

    En það var fyrir bestu að liðið var selt og manni ætti svo sem að vera sama hver er eigandi svo framarlega hann hafi bolmagn til að koma liðinu í fremstu röð. Vonandi reynast nýjir eigendur Liverpool vel og hrinda öllum mínum hrakspám.

    Mér finnst samt svolítið merkilegt að lesa komment sumra minna spjallfélaga um að nú séu bjartir tímar framundann v.þ. að nú sé hægt að kaupa heimsklassa leikmenn. Ég hef verið ákafur stuðningsmaður þess að kaupa heimsklassa leikmenn þó þeir kosti mikið á meðan aðrir hafa blótað því í sand og ösku og varið meðalmennskukaup fyrrum eiganda liðsins.

    Lang best hefði náttúrulega verið að þessi sala hefði gengið fyrr fyrir sig þannig að við hefðum getað styrkt byrjunarliðið nú í janúar. Nú býður maður bara fram til sumarsins.

    Áfram Liverpool!

  25. >Ég aftur á móti er enn sem komið er afar lítið spenntur fyrir kaupendunum. Hvorugur getur státað af merkilegum árangri með þau lið sem þeir hafa átt – annar styður Bush o.sv.frv.

    Getur einhver útskýrt fyrir mér af hverju í ósköpunum það þykir svona hræðilegt að hann hafi stutt George Bush??? Hið sama gerði helmingur Bandaríkjamanna. Moores hefur ábyggilega stutt Thatcher eða Blair. Roman hefur stutt Putin og svo framvegis. WHO CARES?

    >Mér finnst samt svolítið merkilegt að lesa komment sumra minna spjallfélaga um að nú séu bjartir tímar framundann v.þ. að nú sé hægt að kaupa heimsklassa leikmenn. Ég hef verið ákafur stuðningsmaður þess að kaupa heimsklassa leikmenn þó þeir kosti mikið á meðan aðrir hafa blótað því í sand og ösku og varið meðalmennskukaup fyrrum eiganda liðsins.

    Æ, þetta er hálf fyndið… Það er ekki hægt að setja samansemmerki milli þess að við sem verjum Crouch séum á móti því að Ronaldinho sé keyptur til liðsins. Það að verja “meðalmenn” þýðir ekki að við höfum verið á móti því að kaupa heimsklassaleikmenn. Við bara gerum okkur grein fyrir því að þeir vaxa ekki á trjám, frekar en peningar sem Liverpool á.

  26. >Ég aftur á móti er enn sem komið er afar lítið spenntur fyrir kaupendunum. Hvorugur getur státað af merkilegum árangri með þau lið sem þeir hafa átt.

    Ekki er ég nú sérfróður um sport í USA (eins og áður hefur nú komið fram) en telst þessi Stanley Cup ekki til þeirra stærri þar í landi? Ekki það að þetta skipti öllu máli, þar sem það er stjóri liðsins sem skiptir máli og það sem eigendurnir þurfa að sjá um er að bakka hann upp í sínum aðgerðum og það virðast þeir félagar vera klárir í slaginn með.

    >Mér finnst nú líka pínu skrítið hvernig þeir félagar lýstu ákvörðuninni um að kaupa liðið. Þeir hittast á hafnabolta leik fyrir stuttu síðan. Annar segir við hinn – hei eigum við að kaupa Liverpool. Eigendurnir eru að reyna allt til að selja. Og svo bara bing bara búmm – Liverpool er keypt.

    Hössi minn, ertu ekkert búinn að lesa um þetta mál úr öllum þeim fjölmörgu blaðagreinum sem fram hafa komið um þetta í heild sinni síðasta sólarhringinn. Veistu ekki um fyrri tilraun Gillett við að kaupa liðið, andsvar manna hjá LFC og ástæður þessa andsvars. Viðbrögðin svo í kjölfarið og breyttar forsendur. Legg til að þú farir og lesir þig aðeins meira til um þetta, því þetta er afskaplega mikil og “barnaleg” sýn á þetta ferli í heild sinni.

  27. Ég get bara með engu móti myndað mér skoðun á þessum mönnum… :confused:

    Það jákvæða sem maður hefur lesið er það að vonandi er sá tími liðinn að RAFA þurfi að snúa upp á hendurnar á forráðamönnum stjórnarinnar til að fá ekstra 1-3 milljónir til að klára einhver ákveðin kaup… mikið fór í það á síðustu leiktíð að vera röfla um einhverjar milljónir til eða frá og komu því engin stórkostleg nöfn til okkar þá (vorum að reyna við Simao en fengum Pennant – ekkert út að þann síðastnefnda að setja, bara koma með dæmi) !

    Ætla að gefa þeim einhvern tíma til að framkvæma hugmyndir sínar og svo skulum við sjá til…. 😉

    YNWA

  28. Þetta er gott mál. Bendi á að það hefur ekki haft slæm áhrif á gengi United að Glazer hafi ekki mætt á leik hjá þeim.

    Ef þessir menn eru til í að setja pening í liðið þá er loksins komin alvöru pressa á árangur hjá Rafa. Þetta hugmyndaleysi á laugardaginn var fyrir neðan allar hellur. Með betri leikmönnum hlýtur Rafa að geta byggt upp alvöru stórlið.

    Aðalatriðið er að þarna eru komnir menn með peninga og vilja til að draga Liverpool upp yfir glerþakið sem var búið að byggja yfir hausinn á félaginu.

  29. Jóhann: Þú sagðir þetta, ekki ég. Ég er alfarið á móti þessu ríkramanna leik ólíkt öllum hérna inni. Mismunandi skoðanir.

  30. >>Ég aftur á móti er enn sem komið er afar lítið spenntur fyrir kaupendunum. Hvorugur getur státað af merkilegum árangri með þau lið sem þeir hafa átt – annar styður Bush o.sv.frv.

    >Getur einhver útskýrt fyrir mér af hverju í ósköpunum það þykir svona hræðilegt að hann hafi stutt George Bush??? Hið sama gerði helmingur Bandaríkjamanna. Moores hefur ábyggilega stutt Thatcher eða Blair. Roman hefur stutt Putin og svo framvegis. WHO CARES?

    Ég sagðist bara vera lítið spenntur. Ekkert annað og nefndi stuðninginn við Bush sem eitt dæmið. Ég á bara afar erfitt með að samsama mig mönnum sem styðja kallinn. Í dag stendur Bush fyrir allt það sem ég stend ekki fyrir. Skiptir í sjálfu sér engu máli.

    >>Mér finnst samt svolítið merkilegt að lesa komment sumra minna spjallfélaga um að nú séu bjartir tímar framundann v.þ. að nú sé hægt að kaupa heimsklassa leikmenn. Ég hef verið ákafur stuðningsmaður þess að kaupa heimsklassa leikmenn þó þeir kosti mikið á meðan aðrir hafa blótað því í sand og ösku og varið meðalmennskukaup fyrrum eiganda liðsins.

    >Æ, þetta er hálf fyndið… Það er ekki hægt að setja samansemmerki milli þess að við sem verjum Crouch séum á móti því að Ronaldinho sé keyptur til liðsins. Það að verja “meðalmenn” þýðir ekki að við höfum verið á móti því að kaupa heimsklassaleikmenn. Við bara gerum okkur grein fyrir því að þeir vaxa ekki á trjám, frekar en peningar sem Liverpool á.

    Ég var nú ekki að beina þessum orðum mínum til þín. Finnst bara eins og einhverjir hér inni hafa borið saman stefnu Chelsea og manu á móti okkar og þótt meðalmennskustefnan betri. Auðvitað viljum við allar veg okkar liðs sem bestan. Ég var á heimsklassakaupstefnunni á meðan aðrir vildu kaupa menn sem ættu eftir að verða góðir einhvern tíman seinna. Crouch er ágætt dæmi en þó hann sé góður þá telst hann varla heimsklassa.

    >>Ég aftur á móti er enn sem komið er afar lítið spenntur fyrir kaupendunum. Hvorugur getur státað af merkilegum árangri með þau lið sem þeir hafa átt.

    >Ekki er ég nú sérfróður um sport í USA (eins og áður hefur nú komið fram) en telst þessi Stanley Cup ekki til þeirra stærri þar í landi? Ekki það að þetta skipti öllu máli, þar sem það er stjóri liðsins sem skiptir máli og það sem eigendurnir þurfa að sjá um er að bakka hann upp í sínum aðgerðum og það virðast þeir félagar vera klárir í slaginn með.

    Það sem skiptir máli er að eigendurnir leggi fjármagn til kaup á leikmönnum. Hafi bolmagn til þess. Auðvitað þurfa þeir að bakka upp sinn stjóra en þó ekki ef hann stendur sig illa.

    Varðandi það að þeir geti ekki státa sig af merkilegum árangri með sín lið þá stendur þessi Stanley Cup vafalaust fyrir sínu en ég hef ekki heyrt um nein önnur afrek nema þetta með dýra leikmanninn sem var keyptur og þá voru ekki til peningar til að kaupa leikmenn til að bakka hann upp. Vonandi gerist ekki slíkt hjá Liver. Ég held nú að Moores geti státað af betri árangri með Liverpool heldur en þeir með sín lið. Eru þetta ekki bara menn sem hafa rekið meðallið að fara að taka við stórliði sem aðeins vantar herslumuninn að komast á toppinn.

    >>Mér finnst nú líka pínu skrítið hvernig þeir félagar lýstu ákvörðuninni um að kaupa liðið. Þeir hittast á hafnabolta leik fyrir stuttu síðan. Annar segir við hinn – hei eigum við að kaupa Liverpool. Eigendurnir eru að reyna allt til að selja. Og svo bara bing bara búmm – Liverpool er keypt.

    >Hössi minn, ertu ekkert búinn að lesa um þetta mál úr öllum þeim fjölmörgu blaðagreinum sem fram hafa komið um þetta í heild sinni síðasta sólarhringinn. Veistu ekki um fyrri tilraun Gillett við að kaupa liðið, andsvar manna hjá LFC og ástæður þessa andsvars. Viðbrögðin svo í kjölfarið og breyttar forsendur. Legg til að þú farir og lesir þig aðeins meira til um þetta, því þetta er afskaplega mikil og “barnaleg” sýn á þetta ferli í heild sinni.

    Ég veit að Gilette reyndi að kaupa liðið einn en mönnum leist ekki á það. Ég las svo einhversstaðar að hann hefði hitt Hicks á einhverjum leik og rætt um að hann myndi kaupa Liver með honum. Og svo bara bing bara búmm Liver var keypt. Kannski ekkert óeðlilegt við þetta bara pínu skrítið hvernig svona ákvörðun er tekin. Nú man ég ekki hvar ég las þetta og byggi þetta á minni einu saman. Kannski einhver geti staðfest þetta eða ekki. Mér finnst þetta ennþá allt pínu skrítið allt saman.

    “Barnaleg sýn” ég bara veit ekki af hverju þú endar stundum svör þínum á svona ummælum um skrif okkar bloggara. Mér finnst þú eiga að sleppa því. Ég var bara að lýsa minni skoðun og fannst þetta skrítið í ljósi þess að ýmsir netverjar höfðu lýst yfir áhyggjum sínum um að fyrst arabarnir gengu úr skaftinu yrði hlaupið til og fundið nýja kaupendur. Ekkert annað og alls ekki barnalegt að mínu mati.

    Áfram Liverpool!

  31. Það sem ég meinti með barnalegu var það hvernig þú settir þitt mál fram. Þú byggir þetta á einhverju sem þú last einhversstaðar og minni en í stað þess að leita sér upplýsinga um málið. Þú greinilega hefur ekkert haft fyrir því að kynna þér þetta og það sést best á þeirri setningu þinni sem er svona: “fyrst arabarnir gengu úr skaftinu yrði hlaupið til og fundið nýja kaupendur”. Það hefur svo margt komið fram síðasta einn og hálfan sólarhringinn sem hefur varpað miklu ljósi á þetta mál í heild sinni og hvernig þessi aðdragandi var.

  32. Bíddu, er ég að misskilja eitthvað?

    Í þrjú ár hafa stuðningsmenn Liverpool kvartað yfir því að hlutirnir gerist allt of hægt í þessum málum. Svo núna, af því að hlutirnir voga sér að gerast hratt síðustu vikuna fyrir kaupin, kvarta menn yfir því líka?

    Ég hlýt þá að vera svona barnalegur, en er bara ómögulegt að gera sumu fólki til geðs?

  33. SSteinn – þó ég byggi eitthvað á minni þá er það sem ég sagði nokkurn veginn rétt – ekki satt. 😉

    Aaalveg rólegur Kristján Atli.

    Ég var ekki að kvarta yfir einu né neinu. Finnst þetta bara skrítið og ekki alveg til í að hrópa húrra yfir nýjum eigendum þó ég fagni sölunni.

    Gera einhverjum til geðs. Ég vogaði mér að lýsa því yfir að ég setti spurningamerki við kaupendurnar. Ég lýsti ÁNÆGJU yfir sölunni.

    Hvaða pirringur er annars í ykkur spjallstjórnendum. Þið eruð nú ekki vanir að stökkva svona upp í nef ykkar út af saklausum pistli sem EKKI var beint gegn ykkur eða ykkar skoðunum. Jú jú blogg og allt það en ha? 🙂

  34. Hvað finnst þér óeðlilegt við þetta hjá KRistjáni? Hann bendir einfaldlega (einsog ég hef gert áður) að það er ekki sjens að gera öllum hérna til geðs. Menn kvarta yfir seinagangi og svo kvarta menn yfir því þegar hlutirnir ganga hratt fyrir sig.

  35. Nákvæmlega. Það er ekki nóg með að hér séu menn sem segja að glasið sé hálffullt á meðan aðrir segja að það sé hálftómt, heldur eru hér þar að auki menn sem segja “Hey, ég pantaði ostborgara!”

    Það er vandlifaði í honum heimi…

  36. Nei, hreint ekki “nokkurn veginn satt”

    Það er alveg skiljanlegt að ekki allir hrópi húrra yfir nýjum eigendum, en það er annað að twista og snúa ferlinu á veg sem það var alls ekki í.

    Pirringurinn kemur fyrst og fremst til vegna þess að menn eru að rasa út um hluti og fara stundum hreinlega með rangt mál. Það stendur ennþá sem ég sagði að það sé mun betra að lesa sér aðeins til um hlutina, áður en menn búa til einhverja uppgerða mynd af atburðarrásinni. Bottom lænið var að þú bjóst einmitt til atburðarrás sem ekki var rétt.

  37. Hehe, þessi mynd var nákvæmlega kveikjan að kommentinu fyrir ofan. Held það séu 10 ár eða svo síðan ég sá hana, en einhverra hluta vegna alltaf munað eftir þessum brandara… Og þegar maður vitnar í hann á internetinu líða ekki nema örfáar klukkustundir þar til einhver er búinn að finna frumheimildina. Snilld. 🙂

  38. Sorrý hvað ég er seinn til svars.

    Kæru spjallstjórnendur. (Vil nú ekki setja ykkur alla undir sama hattinn en það eru bara svo margir ykkar búnir að kommenta á hið saklausa komment mitt.) Það eina sem ég sagði var að ég er ÁNÆGÐUR með söluna. Svo notaði ég orðin LÍTIÐ SPENNTUR fyrir kaupendunum.

    Ég rökstuddi það af hverju ég var LÍTIÐ SPENNTUR á þrennan hátt.

    1. Annar styður Bush. Jú það skiptir mig máli þó það skipti ekki aðra máli. Sá sem styður Bush stendur fyrir annað í lífinu en ég vil standa fyrir. Vonandi leggur eigandinn núna peninginn í Liver. í stað Bush.

    2. Mér fannst atburðarrásin skrítin og mér fannst þetta gerast of hratt.

    Svona til að styðja mál mitt gögnum langar mig að vitna í grein eftir Cris Bascomb sem hann skrifaði á Liverpool Echo 1. feb sl. Ég geri ráð fyrir að hann hafi kannað þetta allt saman gaumgæfilega en það er stundum vitnað í hann hérna á síðunni. Ég hef nú aldrei haft svona fyrir því að færa rök fyrir máli mínu en þar sem drullukökunum var hent í átt til mín mátti ég bara til.

    >”After TWO MONTHS of strategic presentation of Dubai International Capital as preservers and enhancers of the Anfield tradition, supporters are now being urged to follow the club hierarchy in the process of reassessment.”

    S.s. tveggja mánaða markviss kynning á DIC.

    >”Gillett?s due diligence process took just THREE DAYS. Gillett, Liverpool fans are being told, ticks all the right boxes after all. Ignore all the negativity when the club wanted someone else, the American isn?t so bad.
    That?s the new message fans are urged to consume today.

    >Supporters were happy to be led on an exciting journey to the United Arab Emirates six weeks ago, but convincing them to embrace the American dream will be trickier.”

    S.s. þriggja daga áreiðanleikakönnun á meðan hin tók 2 mánuði. Líka benda á það að Liverpool hafði hafnað Gillit og valið að tala við DIC. Þ.v. er ég LÍTIÐ SPENNTUR.

    Hér að neðan veltir Cris fyrir sér af hverju Gillett var valinn þar sem lítur ekki svo vel út á pappírnum þó að vasar hans séu djúpir á meðan hægt var að selja klúbbinn til manna sem án efa vilja liðinu alls hins besta.

    >”At this stage, it seems a case of when not if Gillett will take over. He?s not the only interested party, but he?s the only candidate under serious consideration.

    >That remains a source of frustration for others, whose pockets are not as deep but whose motives are beyond reproach.

    >Local businessman Steve Morgan, currently away working for charity in Uganda, would certainly reconsider his options at the right price, while Irishman John Miskelly would reignite his £220m bid without the process of due diligence, such is his love for the club.

    >Miskelly would pay £4,000 a share, which is eclipsed by the whopping £5,000 on offer from Gillett. Will Gillett revise his offer now the Arab competition has gone?

    >And why does Gillett crave Liverpool so much? Has he, or indeed Liverpool Football Club, done enough to convince supporters he?s the right man for the job or is simply in the right place at the right time to benefit from the DIC shambles?”

    Einu sinni var ég spenntur fyrir Steve Morgan. Meira að segja afar spenntur vegna þess að hann hafði lengi verið stuðningsmaður Liverpool. En hann er því miður ekki nógu ríkur.

    Hvort tilgangur Gilett sé að græða peningar leiðir tíminn aðeins í ljós. Vonandi mun ást Gillett á enska boltanum og Liverpool koma á undan gróðasjónarmiðunum.

    >”It seemed years of trust in the hierarchy was paying dividends. There was no grand appeal for support necessary for the majority of Liverpool fans, who willingly accept the notion the chairman only wants the best for the club.

    >With Liverpool now claiming Gillett is the favoured option ? no matter how beneficial it may seem ? the leap of faith demanded from fans is monumental. The PR drive will have to be ferocious.”

    … eða með öðrum orðum – það mun eiga sér stað hrikalega markaðsherferð að selja USA kaupendurnar ofan í okkur aðdáendurnar. Hún mun væntanlega byrja á því að Moores segist alltaf hafa hagsmuni Liverpool að leiðarljósi. Svo kemur Parry og segir það sama. Síðan koma nýju eigendurnir og lofa heimsklassa leikmönnum og æðislegum velli. Og svo síðast en ekki síst mun Rafa segjast vera hæst ánægður með nýju kaupendurnar en reyndar væri hann fífl ef hann gerði það ekki.

    Ég vona að ásetningur nýju eigendanna sé sá sem þeir segja hann vera. Líka að það komi heimsklassa leikmenn. Í augnablikinu er ég bara LÍTIÐ SPENNTUR og það var bara það sem ég var að segja. Vonandi útskýrir þetta allt saman af hverju.

    3. Ég sagði að árangur þeirra hingað til með sín lið gæfu manni ekki að hafa ástæðu til að hafa miklar væntingar. Ég stend við það þó Stanley Cup hafi unnist 1999. Moores hefur til að mynda af mun betra recordi að státa þó var ljóst að hann myndi ekki hafa bolmagn að lyfta liðinu á efsta plan.

    Ég stend svo við mína fyrri skýringu á atburðarrás en finnst leiðinlegt að vera sakaður um að fara með rangt mál. Auðvitað hefði verið gaman að sá sem það gerði myndi sanna sitt mál með dæmum og hver hin rétta atburðarrás hefði verið en það er ekki á allt kosið og ekki hægt að búast við öðru en skítkasti og leiðindum ala gamla Liverpool.is (ekki nýja) úr þeirri áttinni.

    Ég vil svo ítreka að ég er ÁNÆGÐUR með söluna en LÍTIÐ SPENNTUR fyrir nýju kaupendunum. Vonandi eiga þeir eftir að reynast okkur vel.

    Fullt glas og skál í botn!

    Áfram Liverpool

Yfirtakan samþykkt

Hvað tefur?