Blackburn í bikarnum

Á morgun kemur 1.deildarliðið Blackburn Rovers í heimsókn á Anfield í átta liða úrslitum FA bikarsins. Þetta er í fyrsta skiptið sem liðin mætast frá því að Blackburn féll úr Úrvalsdeildinni árið 2012 ef ég veit rétt.

Blackburn sem situr rétt fyrir ofan miðja deild í 1.deildinni hafa komið mikið á óvart í FA bikarnum í ár og slógu út Úrvalsdeildarliðin Stoke City og Swansea City með því að vinna þau 4-1 og 3-1. Þeir eru því sýnd veiði en ekki gefin.

Ég get nú ekki sagt að ég hafi mikið fylgst með Blackburn, satt að segja ekki neitt, í vetur fyrir utan það sem ég sá til þeirra gegn Swansea og Stoke. Í þeim leikjum virkuðu þeir nokkuð sterkir, þéttir til baka og með leikmenn frammi sem geta refsað – þá sérstaklega þá Rudy Gestede, Joshua King og Jordan Rhodes. Í liði Blackburn er líka ákveðinn Jay Spearing sem er ekki gjaldgengur í keppnina þar sem hann spilaði með Bolton í keppninni, gegn Liverpool!

Ég ætla að reikna með að byrjunarlið þeirra verði eitthvað svipað og þeir voru með í síðasta deildarleik sínum. Þeir spila nokkuð hefðbundið 4-4-2 og verður forvitnilegt að sjá þá reyna að takast á við 3-4-3 kerfi Liverpool sem hefur valdið mörgum liðum hausverk undanfarið.

Steele

Henley – Henry – Kilgallon – Spurr

Taylor – Williamson – Cairney/Conway – Marshall

Rhodes – Brown

Það leikur enginn vafi á að Blackburn muni gefa allt það sem þeir eiga í þessum leik. Þeir hafa verið duglegir við að skora upp á síðkastið og hafa aðeins mistekist að skora einu sinni í síðustu tólf leikjum sínum. Þar hefur Rhodes verið iðinn við kolann og skorað fjögur í síðustu sjö leikjum sínum.

Sagan er þó ekki með Blackburn í þessum leik. Liðið hefur ekki unnið Liverpool frá því árið 2000 sem var jafnframt síðasti leikur sem liðin mættust í bikarnum. Síðan þá hefur Blackburn átt erfitt með að sækja Liverpool heim, tapað sjö leikjum og gert fjögur jafntefli. Síðustu tvö mörk þeirra gegn Liverpool hafa líka verið sjálfsmörk svo ef sagan er eitthvað til að taka mark á þá ætti Liverpool að vera ekki í miklum vandræðum með Blackburn. Liverpool hefur komist áfram í fimmtán af síðustu sextán skiptum sem liðið spilar í átta liða úrslitum FA bikarsins. Sagan segir okkur að leikmaður Liverpool fái rautt spjald á morgun en fimm leikmenn mótherja þeirra hafa fengið rauð spjöld í síðustu fimm leikjum þeirra í keppninni. Oftar en ekki þá voru það leikmenn Blackburn sem fengu mikið rauð spjald þegar liðið var alræmt fyrir fautabolta – tveir leikmenn Liverpool hafa að mig minnir fótbrotnað í leikjum gegn Blackburn.

Af okkar mönnum er svo sem allt gott að frétta. Liðið vann góðan 2-0 sigur á Burnley í miðri viku og heldur áfram að anda ofan í hálsmálið á mótherjum sínum sem eru rétt fyrir ofan þá.

Liðið hefur verið á frábæru skriði undanfarið og kannski nokkuð óvænt nælt í tólf stig úr afar erfiðu leikjaprógrami í deildinni þar sem liðið lagði Southampton, Tottenham og Manchester City – ásamt Burnley í síðasta leik. Kannski ekki margir sem reiknuðu með að liðið kæmi úr þessu með fullt hús stiga.

Leikmenn eins og Jordan Henderson, Philippe Coutinho og Joe Allen eru þeir sem hafa verið hvað mest á milli tanna stuðningsmanna Liverpool eftir síðustu leiki en allir þrír hafa verið frábærir, ásamt að sjálfsögðu fleirum, en glæsimörk Coutinho og Henderson undanfarið hafa verið flott uppskera leikmanna sem eru að fara stígvaxandi í ábyrgð og frammistöðum undanfarið. Allen hefur líka blómstrað í hlutverki sínu á miðjunni og verið mjög mikilvægur liðinu. Sömuleiðis skoraði Sturridge langþrátt mark gegn Burnley og vonandi er hann kominn í betra form líkamlega og andlega og lætur Blackburn finna fyrir því!

Ég hugsa að Rodgers breyti ekki miklu frá því gegn Burnley þar sem það er rúm vika í næsta leik gegn Swansea í deildinni. Sakho er byrjaður að æfa aftur með liðinu og kemur líklega aftur í hópinn en spurning hvort hann komi aftur í byrjunarliðið um helgina. Gerrard er farinn að æfa aftur en verður líklegast ekki með á morgun og það styttist í Flanagan. Johnson, Enrique, Lucas og Ibe eru líklega frá í einhvern tíma í viðbót – allavega síðustu þrír.

Mignolet

Can – Skrtel – Lovren

Sterling – Allen – Henderson – Moreno

Lallana – Sturridge – Coutinho

Ætli þetta verði ekki bara liðið á morgun. Óbreytt frá því að liðið mætti Burnely. Ég ætla allavega að tippa á það. Kannski Sakho inn fyrir Lovren en annars held ég að þetta muni líta svona út. Sterkasta liðið sem við höfum í boði. Liverpool vill hampa þessum titli, Rodgers vill fá fyrsta titilinn á ferilskránna – við ætlum alla leið!

Ég hugsa að Blackburn verði ekki auðveldir, allavega ekki í fyrstu, og liðið þarf að hafa fyrir leiknum en mun að ég held bera sigur úr bítum. 3-1 sigur er mín spá, Rhodes skorar fyrir þá en Sturridge, Sterling og Lallana skora mörkin fyrir okkar menn.

Næsti bikarleikur Liverpool verður vonandi í undanúrslitum á Wembley!

5 Comments

  1. Takk fyrir þessa upphitun, ein vinsamleg ábending, þú ert með Spearing í byrjunarliði Blackburn þrátt fyrir að segja hann ekki gjaldgengann 😉
    Anotherone bites the dust, er það sem ég vonast eftir að hljómi í græjunum mínum eftir leikinn á morgun 🙂

  2. Að sjálfsögðu, ég steingleymdi að breyta liðinu eftir að ég áttaði mig á því að hann væri ekki gjaldgengur. Takk fyrir ábendinguna 😉

  3. Áður en maður fer að tala um leikinn þá fyrst að menn eru byrjað að auglýsa eignir til sölu á liverpool vef, þá fannst mér þetta tilvalið.

    Ætla ég að misnota aðstöðu mína hér aðeins, biðst fyrirfram afsökunar á því.
    Er að selja hér stóran útikamar , hann er oftast hreinn en stundum á hann það til að fyllist af skít eins og gengur og gerist. Venjulega fylltist hann tvisvar sinnum í viku en það var í gamla daga og núna fyllist hann bara um helgar.
    Þeir sem eru áhugasamir geta pantað skoðunaferð á þessari vefsíðu
    http://www.manutd.com/en/Visit-Old-Trafford.aspx
    (þetta er bara ein lauf léttur)

    En svona án djóks þá held ég að þetta verður erfiður leikur. Muniði þegar menn voru að tala um öruggan sigur gegn Bolton á Anfield en annað kom á daginn. Þessi leikur verður í svipuðum dúr. Það er heil vika í næsta leik eftir þennan svo að það er óþarfi að vera að hvíla einhverja leikmenn.
    Ég myndi einfaldlega ekki breytta neinu frá síðasta leik.
    Eina sem ég myndi pæla í væri að gefa Sakho alvöru leik til þess að koma sér aftur í gagn því að hann var búinn að vera mjög góður áður en hann meiðist en mér finnst að Lovren eigi ekki að detta úr liðinu nema að hann spili illa og það finnst mér hann ekki hafa verið að gera.
    Ég vona að Rodgers taki Balo úr hópnum og láti einn kjúkling á bekkinn sem gaman væri að gefa tækifæri ef staðan er vænleg.
    Allen og Henderson hafa verið að spila vel saman og finnst mér að Gerrard eigi bara að taka sér sæti á bekknum.

    FA Cup er stórbikar og væri gaman að komast á Wembley með sigri á morgun. Það var 2006 sem Steven Gerrard vann bikarinn fyrir okkur með því að jafna leikinn með einu fallegasta marki í FAcup final sem sést hefur. Minngar af úrslitaleikjum liverpool eru annað hvort stórkostlegar eða hræðilegar en ég á pláss fyrir fleiri minningar þótt að ég væri til í að hafa þær stórkostlegar takk fyrir (svona Ian Rush 86,89, Thomas 92, Owen 2001 eða Gerrard 2006 )

    YNWA

Mikil hátíð framundan – John Barnes mætir

Byrjunarliðið gegn Blackburn – uppfært!