“Sú týpa”

Öll eigum við okkur ákveðnar týpur leikmanna sem við hrífumst einna mest af og okkur dreymir um að sjá spila í okkar liðum. Álit okkar og skoðanir eru afar ólík, sem betur fer, og erum við oft ósammála um hvaða leikmenn henta hverju sinni eða hver er betri en hinn.

Þið getið dýrkað slánalegu og klunnalegu framherjatýpurnar, hinn einfalda varnarmann, hugmyndafrjóa miðjumanninn eða hraða kantmanninn sem kann allar brellurnar með boltann. Það er engin týpa betri en önnur og engin sem passar inn í öll lið og kerfi.

Mín uppáhaldstýpa er eitthvað sem mér finnst svo sárlega vanta í okkar ástkæra Liverpool lið. Við höfum haft þau forréttindi að hafa nokkra slíka leikmenn í okkar röðum og horft upp á nokkra frábæra slíka leikmenn spila fyrir mótherja okkar.

Þessi týpa sem ég heillast einna mest af er sú sem reimar á sig takkaskóna og þá er aðeins eitt sem kemst í gegnum huga þeirra: sigur. Þeir stíga inn á völlinn og leggja allt í sölurnar. Spennustigið er hátt og það verða allar leiðir reyndar til að knýja fram sigur. Þeir fórna sér í alla bolta sem þeir líkamlega geta og þá sem þeir vita að þeir geta ekki náð, þeir láta allavega reyna á það.

Leikmenn sem munu ekki hika við að gera hvað sem er til að knýja fram sigur, grípa í hnakkadramb samherja sinna þegar þeir eiga að gera betur og mæta í andlit mótherja sinna reynir þeir að standa í vegi fyrir þeim. Þessir leikmenn kveikja neista í samherjum sínum – oft frekar heldur en mótherjarnir gera. Þeir vilja fullkomnun, þeir vilja gullið og leggja harðar að sér en aðrir við að ná því.

Eric Cantona, Roy Keane, Patrick Viera, Gennaro Gattuso, Wayne Rooney, Jamie Carragher, Steven Gerrard, Javier Mascherano og Carlos Tevez eru meðal þeirra leikmanna sem maður fékk þessa strauma frá. Sem og að sjálfsögðu Luis Suarez. Þessir menn gátu og geta verið algjör skrímsli á vellinum, fórnuðu sér í allar tæklingar, pressuðu þar til skórnir þeirra eyddust upp og umfram allt kveiktu neista í sínum mönnum.

Í pistli sem ég gerði hér áður um Inglethorpe og unglingastarf Liverpool. Þar kom ég inn á punkt þar sem hann talaði um silfur-, brons- og gullleikmenn. Silfur- og bronsleikmenn eru leikmenn sem voru kannski ekki leikmenn sem sköruðu fram úr í unglingaliðunum og þurftu að leggja harðar að sér en margir aðrir til að komast í gegnum það.

Það er spurning hvort þessi kynslóð leikmanna sé að fjara svolítið út. Leikmenn eins og Carragher, Keane, Gerrard og fleiri þurftu að vera í margra ára “busavígslu” þegar þeir brutust inn í aðalliðið. Bursta skó, þrífa klefa, hita klósettsetur og fleira í þeim dúr var meðal hluta sem þessir ungu leikmenn þurftu að gera. Þeir fengu ekki jafn góða samninga og ungir leikmenn gera í dag og þurftu að erfiða. Aðrir hafa kannski komið úr fátækrahverfum Suður-Ameríku, spilað með upprúllaðan sokkabolta og berfættir og þurft að leggja þrefalt á sig til að bara eignast takkaskó.

Menn með slíka reynslu hafa kannski meiri virðingu fyrir því að erfiða og hve mikilvægt og stórt tækifæri þeir hafa fengið. Samanborið við leikmenn eins og Sterling, eins góður og hann er, þá hefur hann allt frá unga aldri fengið allt nokkurn veginn upp í hendurnar. Snemma fær hann styrk fyrir takkaskóm, fatnaði, peningasamning og þess háttar. Það eru margir slíkir í liði Liverpool í dag – kannski er það bara normið hjá unglingastörfum stóru félagana í dag. Það er kannski erfitt að ala upp slíka leikmenn í stórliðunum.

Ég er ekki margra ára svo minni mitt á fótbolta nær ekki lengra en til Roy Evans eða Gerard Houllier árana svo ég þekki ekki það mikið til Ray Clemence, Graeme Souness eða slíkra leikmanna í sögu Liverpool. Carragher, Gerrard, Mascherano og Suarez eru leikmenn sem ég elskaði að sjá á vellinum hjá Liverpool. Drifkrafturinn, fórnfýsin og viljinn í þeim var/er magnaður.

Á sínum tíma var ég alveg brjálaður og bölvaði Mascherano í sand og ösku eftir að hann lét reka sig útaf gegn Manchester United fyrir nokkrum árum síðar. Þegar hann gjörsamlega tapaði sér, gargaði á mann og annan og það þurfti hálfa herdeild til að draga hann út af vellinum. Agalega óþarft en þarna er maður sem gjörsamlega leggur allt í sölurnar og gjörsamlega hatar að tapa. Þetta er skemmtileg og góð minning af Mascherano, svona eftir á, og þó hann hafi verið búinn að leggja inn sölubeiðni og freistaði þess að fara eftir að Rafa var látinn fara og Hodgson kom inn þá hélt hann áfram að gefa allt sem hann átti fyrir Liverpool þar til hann færi. Ólíkt svo mörgum þá fór hann ekki í eitthvað frekjukasti, skrópaði frá liðinu og hitt og þetta, hann gerði sitt áfram.

Sömuleiðis Luis Suarez. Sama hvað gekk á hjá honum, sama hversu mikið var þrýst á hann frá pressunni, bönnin, óánægja með gengi liðsins eða hvað það var – hann var alltaf sá leikmaður sem gaf hvað mest í leikina sem hann spilaði. Hann þrýsti á liðsfélaga sína og barði þá áfram. Augnablikin þegar hann gjörsamlega tapaði sér þegar Sterling, Sturridge eða hver það var klúðraði skoti, senti ekki á hann í opinni stöðu eða hvað það var fannst mér magnað. Hann dróg lið Liverpool áfram líkt og hann gerir með úrúgvæska landsliðið.

Jamie Carragher var líka svona. Útlimir hans lengdust um auka þrjátíu sentímetra þegar hann reyndi að bjarga mörkum og hann var tilbúinn að fórna sér fyrir nær alla bolta. Allt var keppni hjá honum, meira að segja góðgerðaleikurinn um daginn. Hann var kannski ekki með tæknilega burði til að rífa upp spilamennskuna en gargið í honum úr öftustu línu og vandræðaleikinn við að þurfa að nálgast hann í klefanum eftir lélegan leik virtist hvetja menn áfram.

Gerrard aftur á móti hafði tæknilega eiginleikana til að draga liðið áfram upp á eigin spýtur, skora mikilvæg mörk og stjórna leikjum. Í dag er hann skugginn af sjálfum sér, allt frá því að hann rann gegn Chelsea í fyrra hefur hann verið skugginn af sjálfum sér. Hann virkar nokkuð brotinn maður og virðist hafa elst um nokkur ár síðan þá. Þetta hafði hann í sínu vopnabúri en í dag hefur hann ekki þessa sömu áru og hann hafði.

Í dag er nær enginn slíkur leikmaður í Liverpool liðinu. Það er tæknilega gott og efniviðurinn gífurlegur en þessa áru vantar finnst mér. Það sést sérstaklega í leikjum þar sem allt er í járnum og liðið mætir mótlæti að það vantar oft á tíðum drifkraftinn í liðið. Það vantar að leikmenn séu dregnir á eyrunum þessa auka vegalengd til að ná úrslitum og með svona ungt lið þá er maður með slíkan sigurvilja og drifkraft afar mikilvægur. Það sást bara vel með Suarez í fyrra og hvernig hann tók marga af yngri leikmönnum liðsins undir sinn verndarvæng.

Ég vona svo innilega að Liverpool bæti slíkum leikmönnum, að minnsta kosti einum, í sumar. Einhvern sem getur hjálpað til við að kreista ögn meira úr þessum leikmannahópi og sýnir liðsmönnum sínum mikið fordæmi. Sama hvað er í gangi innan vallar eða utan þeir gefa sig alltaf alla fram í leikina. Kaupum Tevez, klónum yngri Gerrard eða kaupum Suarez aftur – ég vil alveg endilega fá slíkan leikmann aftur í okkar raðir!

16 Comments

  1. Fínt – sammála öllu … nema þessu sem er kjaftæði.

    “Gerrard aftur á móti hafði tæknilega eiginleikana til að draga liðið áfram upp á eigin spýtur, skora mikilvæg mörk og stjórna leikjum. Í dag er hann skugginn af sjálfum sér, allt frá því að hann rann gegn Chelsea í fyrra hefur hann verið skugginn af sjálfum sér. Hann virkar nokkuð brotinn maður og virðist hafa elst um nokkur ár síðan þá. Þetta hafði hann í sínu vopnabúri en í dag hefur hann ekki þessa sömu áru og hann hafði.”

    Áfram Liverpool!

  2. #1
    Pistlahofundur rökstyður mál sitt. Hvernig væri að gers það líka?

  3. Já, þessi týpa af leikmanni er einmitt það sem að Liverpool vantar, sérstaklega eftir að hafa séð stórleikina í vetur. Sást svo skýrt þegar að Gerrard kom inn á hvað það var sem að vantar: ÁKEFÐIN! Sammála þessari grein og er einmitt það sem ég hef verið að spá í með liðið okkar.

    Annars segi ég gleðilegan föstudagin og gleðilegan FA Cup um helgina!
    Læt þetta fyndna video fljóta inn í leiðinni af því að það er frekar spaugilegt.
    https://www.facebook.com/studsupfc/videos/1606287442918383/

  4. Mennirnir sem voru nefndir voru einfaldlega stórkostlegir fótboltamenn og ég held að allir séu hrifnir af svoleiðis týpum.
    Old school harðjaxlar eins og Gerrard, Kean, Viera og ef við viljum fara aftar í sögu Liverpool Sounes(mesti harjaxlin af þeim öllum) og Tommy Smith heilla stuðningsmenn liða með ákveð og baráttu í bland við hæfileika og bikarasigra. Þessir leikmenn verða legends og gleymast seint.
    Svo eru til leikmenn sem gefa sig allan fyrir klúbbinn en eru ekki endilega að fá spjöld og öskra á dómara eða andstæðinga. Þegar þýskastálið kom á miðjuna hjá okkur þá var ungur leikmaður að nafni Gerrard að koma sterkur inn en hann var að fá ofmikið af spjöldum og láta reka sig útaf fyrir of mikla ákefði. Þjóðverjir benti honum á að ef hann elskaði félagið sitt þá myndi hann hjálpa því meira inná vellinum en uppí stúku og bað hann um að velja sér stað og stund betur til þess að láta finna fyrir sér.

    Ég elska einfaldlega liverpool leikmenn sem láta merkið framaná búningnum skipta meira máli en nafnið fyrir aftan. Þetta þarf ekki að vera leikmaður sem lætur mikið finna fyrir sér inná vellinum heldur sá sem gefur sig 100% í leikinn og úrslitinn fyrir liðið eru númer 1,2 og 3. Menn eins og Didi hamann, Dirk Kuyt, Gerrard, Carragher, Daglish, Tommy, Phil T, Skrtel, Fowler, Sounes, Riise, Nicol, Hyypia bara til þess að nefna nokkra og manni finnst að leikmaður eins og Henderson sé með þetta í sér.

    Ég gæti aldrei látið Suarez í þennan flokk, manni leið alltaf eins og að þótt að hann gaf sig 100% í leiki með liverpool þá væri félagið bara stopustöð í eitthvað meira og betra og leikmenn sem bíta aðra leikmenn og eru með kynþáttarfordóma eru ekki mín týpa.

    p.s Sterling fer aldrei í þennan flokk hjá mér því að hans framtíð er ekki hjá liverpool og er hann strax farinn að huga að brottför hvort sem það verður í sumar eða eftir næsta samning.

  5. Góður pistill, sammála þessu. Var einmitt að velta þessu fyrir mér um daginn.
    Væri til í að fá einhvern rudda á miðjuna í stað Gerrard.

  6. Flottur pistill og ég er algjörlega sammála Óla. Okkur vantar svona týpu, núna sérstaklega þegar Gerrard er að fara. Meira að segja eitt besta fótboltalið sögunnar, Barcelona kringum 2007-2012 hafði þessa týpu, Carls Puyol. Maður sem var ekkert frábær tæknilega séð en hefði fórnaði öllu fyrir félagið sitt og vissi EKKI hvað það var að gefast upp.

    Ætli Emre Can geti orðið þessi týpa fyrir okkur? Hann er ótrúlega vinnusamur bæði fram á völlinn og varnarlega. Hann hefur mikinn líkamlegan styrk og harður af sér. Fyrir utan það hversu góður hann er í fótbolta! Held það sé erfitt að dæma það strax á 1 tímabili hans hvort hann verði þessi týpa.

    Held að þessum týpum í boltanum í dag sé að fækka, sem er synd. Hef rosalega gaman af svona leikmönnum.

  7. Alveg hvað ég er sammála þér, þegar maður sér að menn eru alltaf að leggja sig fram 110% þá fyrirgefur maður þeim mun frekar ef þeim verður á.

    Carrager var aldrei sá hæfileikaríkasti en hann hljóp og henti sér alveg þangað til að maður hélt að hann færi að æla úr sér lungunum.

    Í dag eru að mér finnst max vera tveir leikmenn hjá okkur með þetta deyja fyrir klúbbinn mentality, Henderson og Skrtel. Skrtel er samt ekki endilega neinn leiðtogi inná vellinum en Henderson er það hinsvegar.

    En okkur vantar samt enn einn svona sem er game winner. Því eins mikið og ég elska Hendo þá vinnur hann ekki leiki á sitt einsdæmi 🙂

  8. flottur pistill hjá þér mín skemtilegasta týpa er coutinho gjörsamlega dýrka hvað hann er teknískur og kann að leika á menn svo sést í fögnonum hans að hann er eldrauður nýbuinn að skrifa undir contract annað en hinir pappakassarnir. En veit einhver hver staðan er á meistara lallana ?

  9. Ég spyr mig að því enn þann dag í dag því í ósköpunum lét félagið Daniel Ayala fara frá félaginu á sínum tíma, hrikalega góður miðvörður.

  10. Afskaplega, afskaplega áhugaverð pæling!

    Þó mig langi í fyrstu viðbrögðum að samsama mig því að slík eigind (snilldar) leikmanns sé best lýst með þríhyrningi, þar sem “eigin snilld og geta” er í einu horninu, “sigurvilji” í öðru horninu og “leiðtogi” í þriðja horninu, þá kemst ég fljótt að því maðurinn er “einn nema hálfur” ef ekki fylgir með allur ferhyrningurinn og “skuldbindingin við liðið / klúbbinn” er það sem “botninn fylla kann”.

    Stephen Gerrard, Captain Fantastic, tikkar í öll hornin fjögur, við manninn hafa undanfarið og munu verða öll seinni tíma viðmið sett.

    Jordan Henderson, arftakinn í leiðtogahlutverkinu, tikkar í öll hornin fjögur en mismikið þó. Skiptir ekki máli hvar hann bætir í, allt telur til framtíðar. Bara vertu Liverpool maður, okkar maður og framtíðin er björt.

    Raheem Sterling, “eigin snilld og geta” tikkar á fullu og það sem meira er við sjáum að þarna getur strákur enn bætt í. “Sigurvilja” og “leiðtoga” eru reyndar hvoru tveggja eiginleikar sem ekki eru farin að tikka inn, en allt sem hann mun leggja þarna inn mun telja. Sama gildir um “skuldbindingin við liðið / klúbbinn” nema að allt sem hann leggur þar inn mun telja tvöfalt til fimmfalt eða jafnvel meira þegar hann skuldbindur sig, en fram að þessu hefur hann aðeins verið að klóra í bakkann.

    Simon Mignolet, strákur sem hefur í vetur vaxið að “eigin snilld og getu” og hefur þar með allt til að láta “sigurvilja”, “leiðtoga” og “skuldbindingu við klúbbinn” tikka inn þegar egó hans brýst frekar út. Við sem áhangendur getum bara vonað að það nái sem lengst.

    Martin Škrtel, við vitum hvar hann er í “eigin snilld og getu”, en “sigurvilja”, “leiðtoga” hlutverkin gæti hann hvoru tveggja tekið dýpra, sama má segja um “skuldbindingu við klúbbinn” en hann er að tikka þar inn. Mitt point er að hann er alls ekki að ignora þessi atriði, mér finnst hann hinsvegar alveg eiga inni að vera sparkað aðeins áfram til þess að hafa gott af.

    Emre Can, svipaður eins og Henderson tikkar alls staðar bara vantar eitt til tvö keppnistímabil til að tikka eins dýpra inn. Spennandi afskaplega spennandi þróun framundan.

    Philippe Coutinho, hefur nú í seinni part tímabils sýnt næstum þvi fullkomleika í þróun á”eigin snilld og getu”, svo milkla reyndar að við viljum ekki að hann verði truflaður með “leiðtoga” hlutverkinu þó slash af “sigurvilja” verði bara til góðs. Sama má segja um “skuldbindingu við klúbbinn”, hann er ekki að búa til árekstra þar, bara og aftur bara vertu sameiginleg framtíð okkar!

  11. Mér finnst í dag helsta vandamálið vera að þessir leikmenn sem eiga að bera þetta lið upp eru einfaldlega 1-2 árum of ungir. Henderson, Can, Coutinio eru ungir ennþá en eiga eftir að verða þessir leikmenn sem við elskum að sjá. Einnig finnst Sakho vera þessi leikmaður sem gefur allt i þetta en hann hefur einfaldlega verið óheppinn með meiðsli. En Sakho er svona alvöru jaxl sem tæklar menn upp í stúku.

  12. Sammála okkur vantar fleiri leikmann sem hafa Xfactorinn eins og Couthinho t.d.

  13. Flottur pistill.
    Þetta vantar í LFC liðið í dag, sakna svona karaktera í liðið einsog taldir eru upp í pistlinum við höfum haft marga góða sem eiga heima þarna líka Sami Hyypia, Didi Hamann, Gary McCallister.

  14. Skemmtileg týpa af leikmnni sem þú talar um, hjartað í fótboltanum! Ég gat aldrei sett fingur nákvæmlega á það hvað það var við Shelvey sem ég dýrkaði en ætli þú hafir ekki lýst því ágætlega fyrir mér. Hann er ekki besti fótboltamaður sem Liverpool hefur átt en hann svipaði að mínu mati svolítið til Gerrard á yngri árum, gat skorað óvænt glæsimörk… báðum megin, tilbúinn að öskra á mann og annan og renna sér í glórulausar tæklingar. Því miður var hann bara ekki á pari við Gerrard og þurfti því að fara… en einhverra hluta vegna sveið mig alltaf svolítið undan því.

Þrjár spurningar fyrir Wembley

Anfield South og Aston Villa