Liverpool 4 – arsenal 1!

crouch_arsenal_hattrick.jpg

Svona eftir á að hyggja þá lá þetta einfaldlega í loftinu. Eftir 3-0, 3-1 og 6-3 töp gegn Arsenal í vetur einfaldlega skulduðum við þeim ærlega flengingu. Þeir áttu þetta algjörlega inni hjá okkar mönnum og í dag varð það svo að Liverpool rústaði Arsenal, 4-1, á heimavelli í Úrvalsdeildinni ensku.

Rafa kom mönnum á óvart með liðsuppstillingunni í dag, en liðið var sem hér segir:

Reina

Arbeloa – Carragher – Agger – Aurelio

Pennant – Alonso – Mascherano – Gonzalez
Gerrard
Crouch

Bekkur: Dudek, Riise, Zenden, Kuyt, Fowler.

Leikurinn var varla byrjaður þegar besti framherji Englands, Peter Crouch, var búinn að koma okkar mönnum yfir. Jermaine Pennant byrjaði vel á hægri kantinum og var nærri því búinn að fífla Gael Clichy á annarri mínútu, en upp úr því fékk Liverpool aftur boltann og eftir að Arbeloa hafði gefið hælsendingu á Pennant svaraði hann með enn betri hælspyrnu innfyrir Clichy. Arbeloa tók boltann þar, kominn á auðan sjó, og sendi hann beint fyrir þar sem Crouch kom aðvífandi og renndi sér á boltann, setti hann beint í nærhornið, óverjandi fyrir Lehmann.

Það var einfaldlega hressandi eftir síðustu leiki að sjá liðið nýta fyrsta færi sitt í leik og sérstaklega að sjá framherja ráðast á bolta á markteignum, en það hefur skort tilfinningalega í leik þeirra Kuyt og Bellamy síðustu vikur.

Eftir þetta var tónninn gefinn og okkar menn börðust grimmilega um boltann út um allan völl við Arsenal-liðið sem virtist hálf slegið yfir grimmd okkar manna. Það er oft sagt að lið spili ekki betur en andstæðingurinn leyfi og í dag einfaldlega leyfðu okkar menn Arsenal-mönnum ekki að spila fótbolta í svona 80 af 90 mínútum.

Eftir mikla yfirburði út fyrri hálfleikinn kom annað markið á 34. mínútu. Þá gaf Alonso boltann út á Fabio Aurelio, sem átti sinn besta leik fyrir Liverpool í dag. Hann var óvaldaður úti á kanti og leit upp, miðaði og gaf svo fyrnafasta fyrirgjöf inná miðjan teig Arsenal þar sem meistari Crouch kom aðvífandi og negldi boltann með höfðinu efst í markhornið fjær. 2-0 fyrir Liverpool, og hver segir að Crouchinho kunni ekki að skalla! 🙂

Í síðari hálfleik virtist það sama vera uppi á teningnum; okkar menn unnu alla bolta, lokuðu á allar tilraunir Arsenal til að sækja og það var aðeins Emanuel Adebayor sem virtist ná eitthvað að ráði að angra varnarmenn Liverpool. Hann átti eina færi þeirra í fyrri hálfleik með skalla sem fór naumlega yfir slána og í upphafi síðari hálfleiks var hann óheppinn að minnka ekki muninn þegar hann skaut í stöngina, en inn vildi boltinn ekki.

Þegar tæpur hálftími var svo til leiksloka kom þriðja markið. Enn var það Fabio Aurelio sem gaf fyrir, nú frá hægri úr aukaspyrnu, og það var miðvörðurinn Daniel Agger sem sneyddi boltann í fjærhornið með fínum skalla. 3-0 fyrir Liverpool og menn farnir að syngja!

Adam var þó ekki lengi í paradís; fljótlega eftir markið átti Pepe Reina eina bestu markvörslu tímabilsins þegar hann varði góðan skalla Adebayor í stöngina úr nær ómögulegri stöðu. Þegar tæplega tuttugu mínútur voru eftir náði óþarflega þung sókn Arsenal-manna svo hámarki þegar þeir minnkuðu muninn. Sofandaháttur í vítateignum varð til þess að William Gallasnáði að pota boltanum yfir línuna. Staðan orðin 3-1 og Gallas er þá búinn að skora þrjú mörk á síðustu tveimur tímabilum gegn Liverpool.

Á þessum tímapunkti óttaðist maður að okkar menn ætluðu að gera óþarfa spennu úr unnum leik, en þeir höfðu hreinlega hætt að spila eftir þriðja markið og leyft Arsenal að komast inní þetta aftur, en eftir mark Gallas vöknuðu okkar menn og náðu aftur yfirburðum á vellinum. Arsenal-sóknin varði aðeins í svona tíu mínútur, restin af leiknum tilheyrði Liverpool.

Á 83. mínútu kom svo það sem allir höfðu beðið eftir. Eftir fína sókn upp hægri kantinn gaf Jermaine Pennant boltann fyrir, Dirk Kuyt – sem hafði komið inn fyrir Gerrard – lét hann fara og kóngurinn Crouch tók við honum, lék á Kolo Touré eins og hann væri smástelpa og negldi boltanum svo með vinstri upp í þaknetið. 4-1 var staðan orðin og Crouch fyrsti maðurinn til að skora þrennu gegn Arsenal síðan Robbie nokkur Fowler afrekaði það um miðjan síðasta áratug!

Þar með var leikurinn úti og menn Arsene Wenger hafa sennilega verið því fegnastir þegar dómarinn, Steve Bennett, flautaði til leiksloka. Lokatölur 4-1 fyrir Liverpool og við því komnir tveimur stigum upp fyrir Arsenal í deildinni, en þeir eiga þó enn leik til góða.

MAÐUR LEIKSINS: Þetta er ekki erfitt val. Vörnin eins og hún lagði sig var frábær í dag en uppúr stóð Fabio Aurelio, á miðjunni börðust menn eins og ljón en Jermaine Pennant var okkar helsta ógn og Pepe Reina hélt forskotinu á mikilvægu augnabliki með flottustu markvörslu sem ég hef séð í langan tíma.

En maður leiksins er að sjálfsögðu markakóngurinn PETER CROUCH. Eftir markaþurrð bæði Liverpool og enska landsliðsins í síðustu leikjum gat þessi þrenna hans ekki komið á betri tíma og ég vona að þeir sem efist enn um gildi slánans fyrir liðið (eða landsliðið) hafi endanlega sannfærst í dag. Það var ekki bara það að hann væri stór; í dag skoraði hann potaramark með hægri, skallamark utan úr teig og einleiksmark með vinstri – sannarlega hin fullkomna þrenna!

Lengi lifi Peter Crouch! Lengi lifi Liverpool! Ég get ekki beðið þangað til á þriðjudag! 🙂

28 Comments

  1. jæja loksins loksins og crouch með þrennu fann á mér að þetta yrði stórt hjá okkur
    en 4-1 er frábært…
    þetta ætti að þagga niður í Arsenal mönnum frá fyrri viðureignum okkar í vetur við þá..

    FRÁBÆRT

  2. Magnaður sigur! Greinilegt er að Crouchy hefur eitthvað látið snerpa á markanefinu í aðgerðinni 🙂

  3. Þetta var næstum því fullkominn þrenna hjá Crouch, hún hefði verið það ef öll mörkin hefðu komið í sama hálfleik. 🙂

  4. Ekki aðeins var þetta þrenna, heldur var þetta hin “Gullna þrenna” eða “Fullkomna þrenna” :smile:.

    “Also referred to in football, particularly in South America, is the “Golden hat-trick” or “Perfect hat-trick”. This relates to the scoring of three goals in a single match, one with each foot and one with the head.”

    http://en.wikipedia.org/wiki/Hat_trick#Soccer

    Annars meiriháttar leikur hjá LFC og ég held að það sé óhætt að segja að Finnan er kominn með verðugan keppinaut um stöðu hægri bakvarðar í honum Arbeloa. Hann virkar geysilega traustvekjandi á mig.

  5. ég minnist þess er einar örn skammaði fréttablaðið eða morgunblaðið (man ekki hvort) fyrir að hafa kallað tapleik liverpool sem fór 0-3 algjört rúst.

    samt er kristján atli á því að liverpool hafi rústað arsenal 4-1. algjört smáatriði, ég veit. flottur sigur hjá liverpool.

  6. Algerlega frábært! Ég er búinn að vera að kalla á það að Crouchy fái að spila meira – og loks þegar hann fær tækifæri, þá brillerar hann. Síðasta markið, þegar hann leggur boltann fyrir sig með hælnum, var hrein snilld!

    Annars svo ótal margt jákvætt í þessu. Mascherano og Alonso *áttu* miðjuna í leiknum og Aurelio var verulega góður, sem og Pennant. Gerrard fékk svo hvíld og allt.

    Frábær sigur! Ég er ennþá brosandi. 🙂

  7. Flottur leikur og góð nýting á færum… eitthvað sem hefur háð okkur hingað til.

    Frábær innkoma hjá Crouch og hann er klárlega búinn að sýna það og sanna að hann er langheitasti framherji Englands í dag. Öll mörkin í dag voru flott hjá honum og þá sérstaklega það síðasta.

    Það stóðu sig allir vel að mínu viti í dag. Vonandi er þetta vísir á góða tið því framundan eru gríðarlega mikilvægir leikir hjá okkur.

    Ég er farinn út að njóta góða veðursins, 15 °C og heiðskírt í kóngsins.

    Góðar stundir, Aggi.

  8. Maggi, orðið sem Fréttablaðið notaði var “[rótburst](http://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2006/11/14/10.55.55/)” fyrir 3 marka sigur. Held að Kristján hafi alveg munað eftir þeim kommentum mínum. 🙂

    Verður fróðlegt að sjá hvað Frbl kallar þennan sigur. Ekki það að mér sé ekki **nákvæmlega** sama. Ekki einu sinni þetta bjána komment frá Agga varðandi veðrið mun koma mér úr góða skapinu. :biggrin2:

  9. Maggi, svo er líka ekki sama hvar ummælin falla. Hér á þessari síðu Liverpool-aðdáenda kallaði ég 2-0 sigurinn á Chelsea í vetur rúst og burst og hvaðeina. Ef ég hefði verið að skrifa fyrir Fréttablaðið, undir kröfu um ákveðið faglegt hlutleysi, hefði ég ekki kallað slíkan leik burst. Mínir menn burstuðu Arsenal í dag, en ef ég ætti svo að skrifa leikskýrslu fyrir Frbl myndi ég segja meira eins og “stórsigur” eða “öruggan sigur” heldur en “rótburst” eða “rúst”. Það er bæði faglegra og ber vott um hlutleysi. Um það snerist pistill Einars. 🙂

    En bara svo það sé á hreinu, þá er þetta Liverpool-síða, og við rótburstuðum nallarana í dag! :p

  10. Sælir og til hamingju með leikinn!

    Hrikalega var gaman að sjá liðið spila svona vel og kannski enn skemmtilegra að sjá þá nýta færin svona vel. Þetta var alvöru leikur hjá Crouch og þegar hann er í þessum ham er hann gríðarlega mikilvægur því að ofan á þessi 3 mörk var hann að vinna allan leikinn og alltaf að búa eitthvað til.

    Aurelio var hrikalega góður og eins var Arbeloa mjög góður í hinum bakverðinum.

    Miðjan var frábær og ég held að Alonso fari ekki í sumar. Ég held að næstu 5 ár hjá Liverpool verði alveg sérstök með Rafa, Reina, Alonso, Crouch, Gerard, Carra, Agger, Mascherano sem lykilmenn og að þeir sem eru í liðinu vilji ekki missa af því.

    Nú ætlum við að stækka völlinn. Við ætlum að kaupa betri leikmenn og það verður gaman að taka þátt í þessu á næstu 5 árum.

    Algjör snilld!

  11. Já glæsilegur sigur og sanngjarn mjög.
    Og ekki amalegt að sýna nýjum eigendum í stúkunni hvers við erum megnugir.
    Hafa menn annars eitthvað frétt af Gerrard ?
    Og svo verður spennandi að vita hvað knattspyrnusambandið gerir í þessu “skyrpumáli” Lehmanns.
    Annars til lukku allir 🙂

  12. :laugh:Til hamingju allir Púllarar. Sá því miður bara fyrri hálfleik og hann var fínn. Kom svo heim og kannaði úrslitin, 4 – 1 yndislegt. Hlakka til að sjá leikinn allan í endursýningu. 🙂 :laugh: :tongue:

  13. FRÁBÆR SIGUR. Arsenal átti engan sjéns. Gaman að sjá hversu góðir hinir ungu og efnilegu leikmenn arsenal eru!
    En að öðru. Ég sagði við félagana þegar Crouchinho skoraði fyrsta markið: Hvílík synd, þótt hann skori þrennu þá verður hann ekki í byrjunarliðinu á móti PSV. Sem er svolítið slæmt fyrir hann.
    En ég stend á því!
    Liðið á móti PSV er nú þegar uppskrifað í bók Benitez og þessi þrenna Crouch breytir engu þar um.

  14. Total respect Crouch, flottur leikur. Held að við verðum að taka smá umræðu um það hver á að vera support striker þegar og við kaupum alvöru striker. Menn hafa tekið kuyt sem bjargvætti en eftir að hafa séð Crouch í dag þá verð ég að segja að hann virkar miklu flottari. Tekur betur á móti bolta og skilar honum augljóslega betur í markið. Ef við kaupum flottan gaur í sumar, kannski eto þá þarf annað hvort Crouch eða Kuyt að hverfa og ég segi Kuyt. Sé í anda Crouch og Eto vera að terrorísa varnir United og Chelsea. En það er synd að missa Kyut en málið er að lið á max að vera með 2 gaura í sama hlutverki og Kuyt og Crouch spila sama hlutverk. Vonast til að heyra málefnaleg svör við þessum pælingum.

  15. Kyut verður ekki látin fara og eto verður ekki keyptur það er alveg á hreinu!!ég vil að David villa verði keyptur og Quaresma líka! 🙂

  16. ásamt Hemma Hreiðars og Tevez en hvernig litist mönnum á að krækja í Tevez í sumar ef West Ham fellur sem verður að teljast líklegt ??

  17. ég hef trú á tevez, held að hann og crouch í fremstu línu.. gæti ekki klikkað held ég:)

  18. já ég væri sko alveg til í að sjá Tevez í liverpool búning.. hef þokkalega trú á þessum gaur! west ham á ekki skilið svona góðan knattspyrnumann:)

  19. Þetta myndband, Árni Jón er SNILLD! Sérstök snilld að syngja lag um markið strax eftir að það er skorað. Magnað.

  20. :biggrin:

    Ja hérna hér. Hvað getur maður eiginlega sagt.
    Ég var einn af mörgum sem hélt að Benitez væri búin að tapa glórunni þegar hann var að kaupa Peter fucking Crouch af öllum mönnum. Reyndar hefur Crouchy vaxið töluvert síðan en á dauða mínum átti ég frekar von en að hann myndi skora þetta líka stórglæsilega þrennu á mót Arsenal af öllum liðum. Ekki annað hægt en að ná í hattinn sinn og taka stórann bita eftir þessa framistöðu. Algerlega mögnuð frammistaða hjá drengnum.

  21. Mikið rosalega er þetta skemmtileg topp-frétt á síðunni – eflaust kemur síðar í dag upphitun fyrir leikinn á morgun, en ég vildi bara njóta þessarar fyrirsagnar svo innilega vel.

    Frábær sigur!

  22. Sælir

    ÉG og félagarnir vorum á vellinum og tek ég heilshugar undir það Crouch hafi verið maður leiksins. Auk þess að skora hina fullkomnu þrennu þá vann hann alla skallabolta og hélt boltanum mjög vel efst uppi á velli. Hingað til hef ég ekki verið mikill Crouch fan en eftir þennan leik þá fær hann alla mína virðingu.

    Annars var magnað að sjá hve Carra er mikill leiðtogi liðsins í leikjum. Hann öskraði menn áfram allan leikinn og stjórnaði vörn og miðju sem hinn fullkomni herforingi.

    Annað sem maður tekur eftir þegar maður er á vellinum eru hlaup leikmanna án bolta og staðsetningar. Í leiknum var Mascherano með mjög góð hlaup og las leikin gríðalega vel. Alonso var líka frábær, hann staðsetur sig frábærlega og þarf því í fæstum tilfellum að hlaupa maraþon til að loka á leikmenn, svo er hann bara svo frábær í því að dreifa spilinu.

    Það var mjög ánægjulegt að sjá hversu góðan leik Aurelio átti, leikur hans var í raun ótrúlega góður miðað við það hversu hjálparvörnin frá Gonzalez var slök, reyndar var hann hræðilega slakur í leiknum. Frábært að hafa bakverði sem eru ávallt að bjóða sig í sókninni og skapa þannig mikla ógn upp við vítateig andstæðingana.

    Fyrsta ferðin á Anfield endaði betur en maður þorði að vona.

    Magnaður sigur.

    Krizzi

  23. Var á leiknum og stemmningin var ekkert leiðinleg á The Park, annar leikurinn minn og ég er bæði búinn að sjá Crouch skora þrennu og Carragher skora, nú get ég dáið sáttur.

    Svo verð ég aðeins og benda á eitt í umræðunni hér fyrir ofan; “Reyndar hefur Crouchy vaxið töluvert síðan…” (Kristinn J)- ég hélt að hann gæti ekki vaxið meira 🙂

  24. Var á leiknum og tek heilshugar undir með að Crouch hafi átt stórleik. Hann var í raun alveg ótrúlega góður og með þessari frammistöðu klárlega okkar besti framherji í dag.

    Það sem mér líkaði líka við leik hans var að hann spilaði miklu ofar en henn gerir stundum. Hann lúrði fyrir innan rangstöðulínuna og var alltaf inn í teig þegar sendingarnar komu.

    Ég var líka ánægður með að Aurelio, Mascerano og Arbeloa áttu fínan leik. Mér finnst í raun skrítið að enginn hérna á síðunni skuli minnast á þann síðastnefnda þegar menn eru taldir upp sem voru góðir.

    Reyndar var allt liðið mjög gott og það var í raun bara Gonsales sem var slakur. Reyndar arfaslakur og greinilegt að sjálfstraustið er lítið sem ekkert þessa dagana.

    Frábært að koma á Anfield og upplifa stemminguna. Eitthvað sem gleymist aldrei.

    Áfram Liverpool!

Liðið gegn Arsenal komið!

Crouchy og Arsenal