WBA á morgun

Svei mér þá, ég held að þetta sé ein erfiðasta upphitun sem ég hef hrist fram úr erminni ansi lengi. Maður er ennþá hálf dofinn eftir undanúrslitaleikinn í bikarnum, þó svo að smá útrás í Podacasti hafi hjálpað til. En staðreyndin er sú að það er ennþá svolítið í það að tímabilið klárist og það þarf að klára það með stæl vegna margra hluta. Góð frammistaða og flottur endir á tímabilinu gæti t.d. hjálpað verulega við að næla í góða leikmenn í sumar. Það eru talsverðir peningar í boði fyrir hvert sæti upp á við í lokastöðunni. Menn þurfa að sýna fram á að þeir eigi skilið að spila fyrir okkar stórkostlega félag. Síðast en ekki síst, þá er ennþá smá vonarglæta með að ná þessu langþráða Meistaradeildarsæti. Jú, það er orðið langsótt þegar svona langt er liðið á tímabilið, en það á eftir að spila marga leiki og við vitum vel að enska deildin getur verið algjörlega óútreiknanleg. Sem betur fer, þá skipta þessir síðustu leikir talsverðu máli.

Að því sögðu ætla ég formlega að snúa höfði mínu fram á veginn og hætta að svekkja mig á þessari fáránlega andlausu frammistöðu á Wembley um síðustu helgi. Áfram gakk og allt það, aldrei einn og gullna skýjið framundan með öllu sem því fylgir. Uppáhaldið mitt hann Tony Pulis er að fara að mæta okkar piltum og það eitt og sér fyllir mann nú ekkert bjartsýni. Ég hugsa að hinn margumtalaði Gamli Skóli, verði einn daginn nefndur eftir Pulis. En hann nær árangri kappinn, það verður ekki af honum tekið. Ég er ekki beint að deyja úr spenningi fyrir að mæta liði kappans enn eina ferðina. Jákvæða dæmið við að mæta þeim núna er að þeir eru svo gott sem búnir að tryggja sæti sitt í deildinni, hafa að litlu að keppa þannig lagað, þó svo að hvert sæti upp muni talsverðu í peningum fyrir félagið sem slíkt.

Formið á West Brom mönnum hefur nú ekki verið sérstakt að undanförnu. Þeir unnu reyndar síðasta leik, gegn Crystal Palace, en töpuðu leikjunum tveim þar á undan gegn fall kandídötunum QPR og Leicester. Framherjinn þeirra, Berahino, hefur verið að setja slatta af mörkum fyrir þá, en þó mest á fyrri hluta tímabilsins. Innan þeirra herbúða eru svo menn eins og Darren Fletcher, Jolean Lescott og Victor Anichebe, sem hafa ekki beinlínis verið á námskeiðum til að læra að elska Liverpool. Þannig að þótt að litlu sé að keppa fyrir Pulis menn, þá mæta þeir eflaust ákveðnir til leiks. Ég ætla samt rétt að vona að okkar menn komi inn með því hugarfari að þeir þurfi að bæta fyrir afglöpin um síðustu helgi og sýni verkefninu í það minnsta einhvern áhuga, annað er bara ekki í boði takk fyrir.

Mér skilst að Sturridge, Lucas og Sakho verði allir fjarri góðu gamni vegna meiðsla, það er með ólíkindum hversu fljótt Lucas hefur orðið ómissandimaðurinn á nýjan leik. Cover fyrir varnarlínuna er bara varla til staðar þegar hann er ekki inná vellinum. Þar fyrir utan er Adam Lallana tæpur fyrir leikinn. En þá að stóru spurningunni, hvernig ætlar Brendan að stilla þessu upp? Ekki er hann með nægilega stóran hóp til að refsa öllum farþegum síðasta leiks með bekkjarsetur, frekar bara að rukka þá fyrir að hafa svindlað sér ókeypis inn á Wembley til að horfa á undanúrslitin. Nei, hann þarf væntanlega bara að sparka í nokkur rassgöt.

Simon verður að vanda í markinu og ég vil bara sjá 4 manna vörn með þá Skrtel og Lovren í hjarta hennar. Moreno verður vinstra megin og þó svo að mig drep langi að koma með óvænt útspil og setja Flanno í hægri bakk, þá held ég að hann sé ekki fit í að byrja leik í Úrvalsdeildinni. Glen Johnson er einfaldlega okkar besti kostur í stöðuna eins og staðan er í dag. Inn á miðja miðjuna vil ég svo sjá Brendan taka af skarið og setja Can inn með Hendo, en það eru ákaflega litlar líkur á því að það gerist og því verður Allen þar áfram. Ekki það að Can eigi eitthvað sæti skilið eftir frammistöður sínar undanfarið, en það verður nú að taka tillit til þess að hann er búinn að vera að spila út úr stöðu og jafnvel í hægri bakverði. Það breytir því samt ekki að hann var álíka andlaus og aðrir, hvar svo sem hann spilaði. Sterling og Gerrard á sitt hvorn kantinn og Coutinho í holunni fyrir aftan Balotelli (já, nú er réti tíminn til að byrja honum). Ég ætla að vona að nú sé síðasta hálmstráið hjá Balo kallinum og að hann komi til með að grípa það. Wishful Thinking? Jú, líklegast, en maður verður að láta sig dreyma ekki satt. Ég set Gerrard þarna líka, þó svo að ég voni að Ibe fái að byrja í kantstöðunni (held meira að segja að hann gæti sett Hendo á kantinn og Stevie á miðjuna). Ég byggi það á súru viðtali við Brendan eftir síðasta leik þar sem hann hrósaði Stevie fyrir flottan leik (í alvöru, ég er ekki að grínast neitt núna):

Mignolet

Johnson – Skrtel – Lovren – Moreno

Gerrard – Henderson – Allen – Sterling

Coutinho

Balotelli

Svona væri ég aftur á móti til í að sjá liðið:

Mignolet

Johnson – Skrtel – Lovren – Moreno

Ibe – Henderson – Can – Sterling

Coutinho

Balotelli

En hvað um það, erfiður leikur og ég að vanda bara bjartsýnn. Ég bara neita að trúa því að menn ætli ekki að bæta upp fyrir skituna um síðustu helgi. Menn þurfa að nenna að pressa, menn þurfa að nenna að tækla. Menn mega ekki sofna á boltanum. Menn þurfa að hætta að klappa boltanum endalaust. Því ef menn gera þetta, þá geta þessir leikmenn okkar, sem margir eru mjög hæfileikaríkir, splundrað þessu West Brom liði. Ég ætla að segja að þetta verði stórsigur okkar manna, 1-4 og við stimplum okkur inn í lokasprettinn, hvað sem það nú þýðir svo. Balo, Coutinho, Skrtel og Sterling með mörkin.

15 Comments

  1. Mér þætti nú ekkert slæmt að leyfa Ibe að byrja, bæði finnst manni hann vera harðari af sér en t.d. Markovic, nú og hann var líka ekki að tapa á Wembley.

  2. takk fyrir þetta algjörlega sammála með liðið sem þú myndir stilla upp fyrir utan að ég vill ekki sjá glen johnson aftur í rauðri treyju hvort sem það sé fyrir liverpool eða annað lið. Afhverju ekki að prófa að henda í eitt stk manquillo hann hefur staðið sig virkilega vel og ég man ekki eftir einu feilspori hjá honum og betri bæði sóknarlega og varnarlega. Spái þessu 3-0 coutinho 2 og lovren innsiglar þetta með 40 metra sleggju eins og hann reyndi á wembley en núna sannar hann fyrir jarðplánetunni að hann hafði rétt á að reyna þetta

  3. Það er mánuður síðan Liverpool var talið spila besta boltann í deildinni. Mánuður. Liðið hefur tapað þremur slæmum leikjum á þeim tíma en það er samt bara mánuður síðan.

    Eins og þessi grein kemur frábærlega inná bjóða þessir sex deildarleikir (og meiðsli sumra lykilmanna) upp á frábært tækifæri til að sjá hvað er í liðið spunnið;

    + Balotelli á að spila hvern einasta leik.
    + Ibe, Manquillo, Markovic etc. eiga að fá mikinn og dýrmætan spilatíma.
    + Það á að horfa til framtíðar. Lesist: það er ekki rétt að leyfa úrvinda og bensínlausum Gerrard að tölta um völlinn í 6×90 mínútur þegar Can gæti spilað sína réttu stöðu, Henderson og Allen gætu þróað samstarf sitt frekar eða menn eins og Markovic eða Ibe gætu fengið spilatíma.

    Rodgers á að fara í það leikkerfi og byrjunarliðsval sem hefur gefist hvað best hjá okkur. Aðeins vantar Sakho (Lovren inn í staðinn), Lucas (Allen inn í staðinn) og Sturridge (Balotelli inn í staðinn) en að því sögðu er þetta liðið sem ég allt að því heimta að sjá á morgun:

    Mignolet

    Can – Skrtel – Lovren

    Ibe – Henderson – Allen – Moreno

    Sterling – Coutinho

    Balotelli

    3-4-3. Þétt vörn, vinnsla á miðju, hættulegir menn á köntunum og framherji frammi. Basic. Sigur. Kraftur út tímabilið. Þá er það borðleggjandi að Rodgers haldi áfram yfir á næsta tímabil.

    Ef hann hins vegar stillir upp með Gerrard, Johnson, engan framherja, sjö miðjumenn í liðinu eins og á Wembley og sv. frv. … úff …

    Vonum að til þess komi ekki.

  4. Ég er nokkuð sammála Kristján Atla. Bæði varðandi kerfi og byrjunnarlið. Ég vill fara i leikaðferðina sem hefur virkað best fyrir okkur og mörgu leiti á mestan þátt að við komust i undanúrslitin og eigum ennþá möguleika ná i meistaradeildasæti.
    Varðandi kerfið sem sumir kalla 3-4-2-1 eða 3-4-3. Ég myndi frekar hallast á fyrirnefnda enn i raun má kalla þetta lika sem 3-6-1 kerfið.
    Þetta kerfi leyfir marga valmöguleika fyrir Rodgers sérstaklega hvernig hann raðar upp sinum sex miðjumönnunum. Stundum þarf hann taka mið á andstæðingum og breyta aðeins miðju uppstillingunni. t.d. fara í 3-3-3-1 ef á þarf.
    Bottom line þá á Liverpool halda sér við 3 manna vörnina sem hefur virkað mun betur enn 4 manna vörninn hefur gert i þessu timabili.

  5. Sælir félagar

    Eftir hinn fullkomna aumingjaskap um síðustu helgi er ekkert í boði nema mæta á völlinn og spila til sigurs af grimmd og festu. Leikmenn geta ekki boðið stuðningsmönnum uppá neitt í líkingu við það sem þeir gerðu á Wembley. Ef svo verður má BR taka pokann sinn strax eftir leik því maður sem ekki getur stillt upp sigurliði gegn WBA og sýnt okkur að hann er sigurvegari hefur ekkert að gera innan raða Liverpool. Mér er nákvæmlega sama hvaða liði stjórinn stillir upp. Að leika til sigurs eða deyja ella.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  6. #3 algjörlega sammála þér, tímabilið er nánast búið hjá okkur, pressan er engin, um að gera að láta t.d Balotelli fá lokaséns á að sanna sig.

  7. Finnst mönnum ekkert vandamál að alltaf þegar Ballotelli spilar einn frammi þá getur liðið ekkert, ju hann var ekki allslæmur á seinni á móti villa en nær hann bara aldrei að tengja við neinn liðinu sem þýðir að allur sóknarleikur deyr

  8. “Maður sem getur ekki stillt upp sigurliði á móti WBA verður að taka pokann sinn strax eftir leik”, þessu er ég ósammála því öll lið lenda í því að tapa á móti litlu liðunum líka. EN… aftur á móti er drullu skítt að geta ekki stillt upp sigurliði á móti WBA, EFTIR að hafa verið með skitu á móti Aston Villa í síðasta leik. Eitt tap fyrirgefið en en tvö væri mjög sárt.

    En að öðru, ég ætla mér að treysta BR þar til annað kemur í ljós, en spái þessum leik 1-2 fyrir okkar mönnum!

  9. Það er nóg að tapa fyrir einu liðið frá Birmingham borg í mánuði. Förum ekki að láta WBA líta út fyrir heimsmeistara á morgun. Soild 2-0 sigur og Mignolet heldur enn einu sinni hreinu.

  10. Ég held að eini sjénsinn að vinna þennan leik er að hafa Sterling frammi. Hvað ætli Liverpool hafi unnið marga leiki á tímabilinu þegar einhver annar er framherji?…varla meira heldur en 3-4 sigurleikir held ég.

    Markovic er kannski ekki búinn að vera frábær en mér finnst hann langt í frá afleitur og ef eina lausnin sem Brendan hefur er að kippa honum útaf þá er ekki von á góðu.

    Lallana mætti alveg koma inn með nýtt blóð. Búið að vera slæmt að hafa hann og Sturridge meidda. Ég myndi mest vilja hafa hann fremstan á miðjunni með Henderson og Can (eða Gerrard) fyrir aftan sig.

    Liðið sem vinnur WBA, enska titilinn og síðan meistaradeildina eftir 2 ár (lásuð það fyrst hér)

    Coutinho – Sterling – Markovic

    E.Can – Lallana – Henderson

    Moreno – Lovren – Skrtel – Flanagan

    Mignolet

  11. Meistaradeildin er ekki útilokuð með sigrí í dag.
    Liðin sem þurfa að taka stigum eina heimaleik gegn A. Villa sem eru sjóðheitir.
    SCUM leik gegn Everton á Goodison og þar hafa þeir oftar en ekki lent í vandræðum.

    Er viss um að annað hvort Manchester-liðið tapar stigum þessa helgina sem gefur okkar mönnum aukna von!

  12. Þetta verður tæpt en sigur myndi setja rosalega pressu á Manchester liðin. united á útileik á móti everton á morgun þar sem ég spái að þeir tapi jafntefli og þá munar bara 2 stigum!

    0-2 sigur! Sturridge og Hendo með mörkin.

    Svo segja hollenskir fjölmiðlar að liverpool og Depay séu að ná samkomulagi!! Allt óstaðfest að sjálfsögðu en jeremías, Það yrði schniiiiiilld 🙂

  13. Sælir félagar

    Það er algjört forgangsatriði að vinna þennan leik í dag. Ef ekki erum við endanlega búnir að missa af Manchester-liðunum og þar með meistaradeildarsæti. Ef BR tekst ekki að knýja fram sigur í þessum leik er hann í vondum málum og ég sé ekki af hverju hann ætti þá að halda áfram með liðið.

    Ég hefi þá trú að við eigum möguleika á stjóra sem hefur unnið eitthvað (Klopp/Benitez) og væri tilbúinn að taka við. Klopp væri skemmtilegur möguleiki þó einhverjir (les. Maggi) telji að hann mundi brotna undan ensku pressunni. Afhverju hann ætti að gera það veit ég ekki því ég er viss um að hann hefir bein í nefinu og þolir mótlæti.

    Hvað Benitez varðar þá er hann örugglega tilbúinn að koma þegar og ef kallið kemur. Mýtan um að stjórar eigi ekki endurkomu er þegar brotin með endurkomu mótorkjaftsins á Stafnfurðubrú. Það væri athyglivert að sjá hvað RB gæti gert við eðlilegar aðstæður á Anfield. Eins og Babu hefir oft bent á þá var það líklega heimskulegasti afleikur allra tíma þegar hann var rekinn á sínum tíma. En það voru auðvitað fjáglæframenn og fífl sem gerðu það.

    En sem sagt þessi leikur verður að vinnast ef við viljum eiga möguleika á meistaradeild. Þar af leiðir ef BR klikkar en einu sinni þar þá má hann fara mín vegna. RB og JK bíða á hliðarlínunni, tilbúnir að taka við kyndlinum og bera hann til Olimpushæða.

    Það er nú þannig

    YNWA

  14. Algjør skyldusigur og menn munu mæta motiveradir i thennan leik, thad er a hreinu!

    Hef fulla tru a CL sætinu enntha.

    YNWA!

Hendo kvittar undir samning!

Liðið gegn WBA