Liverpool – QPR 2-1

Þetta verður stutt í dag, enda kannski ekki um margt að ræða svo sem.

Rodgers stillti þessu svona upp:

Mignolet

Can – Skrtel – Lovren

Johnson – Gerrard – Henderson – Lallana

Coutinho – Lambert – Sterling

QPR byrjuðu betur ef eitthvað var og skoruðu mark á fyrstu mínútu leiksins eftir hornspyrnu sem var réttilega dæmt af. Smá saman komst Liverpool betur inn í leikinn og tóku svo öll völd. Fyrsta mark dagsins kom eftir 20 mínútna leik þegar Lambert átti flotta sendingu á Coutinho sem lagði boltann frábærlega í hornið fjær, 1-0.

Síðari hálfleikur var svipaður og sá fyrri. QPR átti ekki mörg færi á meðan okkar menn hefðu átt að skora amk 4 mörk. Sterling klikkaði á enn einu færinu, Lallana fékk dauðafæri, nánast einn gegn markmanni vinstra meginn, Gerrard klikkaði á víti aldrei eins og vant á 79 mínútu eftir að Skrtel var rifinn niður í vítateignum af Onuoha, sem fékk gult spjald fyrir. Green valdi rétt horn og varði óvenju slaka spyrnu fyrirliðans. Aðeins þremur mínútum síðar fékk Onuoha sitt síðara gula spjald eftir fáránlega tæklingu á Ibe og QPR því manni færri síðustu 10 mínúturnar eða svo.

Það var svo á 87 mínútu sem að Gerrard tryggði Liverpool öll stigin eftir hornspyrnu Coutinho. Boltinn kom inn á miðjan vítateig og Gerrard átti flottan skalla í fjærhornið, 2-1 og þar við sat.

Spurning hvort þetta hafi verið síðasta mark hans á Anfield. Maður fær næstum tár í augun bara við að hugsa til þess.

Maður leiksins:

Kop.is heldur áfram 100% sigurhlutfalli sínu. Þetta var ágætis leikur, með einhvern slúttara frammi hefði þetta orðið mun þægilegra. Það er frekar erfitt að velja mann leiksins, vörn og miðja voru solid, Coutinho skoraði gott mark sem og Gerrard. En ég ætla að velja Lambert, fannst hann byrja vel og átti ágætis leik heilt yfir. Eflaust einhverjir ósammála mér og kannski litast þetta álit mitt á spilamennsku hans á ansi litlum væntingum til hans fyrir leik.

Þessi þrjú stig gera lítið annað en að styrkja stöðu okkar í fimmta sætinu. Tottenham á svo leik á morgun gegn City.

Góða helgi, YNWA

36 Comments

  1. KOP heldur 100% árangri í þessum vönduðu ferðum. Þetta fer að verða tölfræðilega marktækt – spurning um að fá styrk frá félaginu svo hægt sé að vera með hóp á öllum leikjum.

  2. Sælir félagar

    Þetta hafðist en ekki meira en svo. Uppstilling BR á liðinu og leikskipulag orkar tvímælis svo ekki sé meira sagt. Af hverju eru menn eins og Sterling og Johnson alltaf inná. Hvernig er með menn eins og Moreno og Markovic sem eru hugsaðir til framtíðar. Af hverju spila þeir ekki þessa leiki sem eftir eru.

    Af hverju er BR alltaf að spila eitthvert afbrigði af 3-4-3 með einn uppá toppi sem aldrei skilar neinu. Liðið kom sér að visu í færi en snillingur eins og Sterling og klúðraði þeim. Ef andstæðingurinn hefði verið sterkari hefði þessi leikur drullutapast. Ég er orðinn verulega þreyttur á þessu satt best að segja.

    Það er nú þannig

    YNWA

  3. Mér fannst þetta fínn leikur. Liverpool spilaði ágætlega og var klárlega betra liðið þó QPR áttu sínar rispur. Það var því eins og jökulköld vatnsgusa framan í smettið á mér þegar QPR jafnaði þvert gegn gangi leiksins. Reyndar áttu þeir þetta jöfnunarmark skilið því þeir höfðu verið að fá óþarflega mikið af hornspyrnum.

    Þetta var leikur hinna glötuðu marktækifæra. Lallana og Sterling geiguðu bogalistin á mjög upplögðum færum og Gerrard klikkaði á víti. Sem betur fer myrti hann þvaðrið í Liverpool rausurunum með því að skora sigurmarkið í lokinn og minna okkur á hversvegna hann er goðsögnin en ekki við sófafótboltaspekingarnir sem vitum alltaf betur hvernig á að spila þennan leik heldur en Rodgers.

    Samkvæmt öllu eðlilegu ætti þessi sigur átt að vera miklu stærri en svona er fótboltinn. Heppni og óheppni spilar stóra rullu í honum og stöngin inn eða stöngin út gerir oft útslagið. Mér hefði þótt það hreinræktað óréttlæti ef við hefðum ekki unnið leikinn því Liverpool spilaði miklu meiri fótbolta en QPR.

    Vörnin var mjög góð og gaf lítið að færum. Lovren er allur að koma til og les leikinin mjög vel og Skrtel og Can skila alltaf sínu.

    Miðjan var einnig mjög góð. Gerrard var heilt yfir flottur og Henderson stóð sig vel. Coutinho hefur oft spilað betur en skilaði sínu. Sama á við um Sterling og Lallana.

    Sóknin var allt í lagi en hefði mátt skapa meira af færum.

    Rickie Lambert spilaði vel en er klárlega enginn Suarez eða Sturrdidge. Heilt yfir var hann samt betri en Balotelli í síðasta leik og það er viss þungi yfir því að hafa hann frammi.

  4. Hættið þessu væli.

    Menn sem gagnrína liðið þegar það spilar vel og vinna ekki eru líka þeir sem gagnrína liðið þegar það vinnur leiki sem þeir spila ekki vel í.
    Njótið þess að vinna leik í smá stundum því að margir eru með töpin á bakinu í marga daga.

    Það er oft erfit að vinna lið sem eru að berjast fyrir lífisínu í deildinni. Liverpool fengu nokkur góð tækifæri til þess að skora fleiri mörk í dag (lallana, Sterling og Gerrard víti) en við sættum okkur við sigur og 3 stig. Er það ekki það sem margir hérna hafa verið að tala um?

    Það var frábært að sjá Liverpool legend Steven Gerrard skora fyrir framan Kop stúkuna. Allavega fannst mér það það sem maður hefur haldið með þessu liði löngu áður en Gerrard kom til sögurnar og hef því fengið að fylgjast með kappanum frá byrjun og maður á að njóta þess að sjá hann síðustu leikina þótt að hann sé búinn með sín bestu ár. Öfunda kop.is farana að fá að fara á the park eftir svona endir.

    YNWA

  5. Sigur er sigur.
    Ef þetta hefði farið 1-2 þá væru sjálfsagt komnar 89 athugasemdir.

    YNWA

  6. já, þetta er alveg ótrúlegur andskoti, hörmulegt tímabil en samt eigum við enn pínu…..ég endurtek pínu möguleika á 4. sætinu. Nú er bara að vona að Chelsea tryggi sér dolluna á morgun og mæti skelþunnir í leikinn á móti okkur um næstu helgi.

  7. Jafntefli við WBA og tap gegn Hull er aldeilis að fara með okkur núna. Værum jafnir í 4 sæti! BR út

  8. Þrjú mörk, víti, rautt spjald, sigurmark í uppbótartíma, síðasta mark Gerrard á Anfield?

    Kv. frá Anfield

  9. Manu 80% með boltann og gátu ekki skorað. Þeir hljóta að þurfa að skipta um þjálfara, selja hálft liðið og kaupa nokkra 50 millj. punda menn fyrir næstu leiktíð.
    Fjórða sætið enn möguleiki nema fyrir þá sem hafa verið í þunglyndi síðustu mánuðina.

  10. Gott hjá Gerrard að setja hann í lokin…frábært fyrir KOP.is ferðalingana!

  11. Man utd eru að lenda í sama og við en allir eru jákvæðir hjá þeim þrátt fyrir ekki merkilegt tímabil. Liðið spilaði mjög illa framan af en voru að vinna leiki sem þeir átti lítið skilið og svo tóku þeir góðan sprett og eru núna að drulla á sig en flestir Man utd aðdáendur lýta björtum augun á framtíðina. Þrátt fyrir að undanförnu hafa þeir verið að bæta við sig sterkum leikmönum eins og Mata, Di Maria, L.Shaw, Blind,Herrera og Falco.

    Hjá Liverpool er allt á hvolfi. Út með stjóran og liðið ömurlegt.

    Það sem Man utd hefur fram yfir Liverpool eru einfaldlega $ og auðvita þessi 4 stig ;(

    En mér finnst liverpool vera með mun yngri og sprækari leikmenn til þess að byggja til framtíðar.

    En jæja ætla að njóta þess að Liverpool vann í dag og brosa út í annað að Man utd tapaði.

  12. Sælir, ég ætla að brosa út í bæði , Lambert flottur, Liverpool vann fínann sigur á liði sem var að berjast fyrir lífi sínu og jú Man utd tapaði, ekki á hverjum degi sem slíkt kætir mann eða hvað? Maður spyr sig ?

  13. Ég verð að segja eins og er: Lambert var bara miklu miklu betri byrjunarliðsmaður heldur en Balotelli nokkurn tímann. Kúdos á gamla Southampton framherjann!

  14. Mikið andskotans helvitis helviti að hafa tapað gegn Hull og nað bara x gegn WBA þegar Man Utd er buið að tapa 4 leikjum i röð.

    Fáanlegt að nyta þetta ekki 🙁

  15. Já mikið rosalega er ÓGEÐSLEGA svekkjandi að hafa tapað á móti hull!!

  16. Manu á Crystal Palace úti og Arsenal heima. Við eigum Chelsea, sem btw verða búnir að vinna titilinn, og svo Crystal Palace heima…. Er að opnast einhver ótrúlegur gluggi hér og verður spenna í síðustu umferð. Það væri rosalegt. Annars kemur þá bara síson eftir þetta. Jákvæðir.

  17. Sælir félagar

    Auðvitað eru við öll ánægð með þennan sigur útaf fyrir sig. Það er alltaf jákvætt að vinna leiki. En hitt er ljóst að það er ekki mikil sigurvegara tilfinning yfir liðinu og BR þrátt fyrir þennan sigur í dag. Það er augsýnilega blóðugt að hafa ekki unnið WBA og Hull í síðustu leikjum. Miðað við þennan leik í dag þá er ekki líklegt að við séum að fara vinna rest, sem við þurfum til að eiga möguleika á 4 sætinu. Með réttu ættum við að vera að verja 4. sætið en ekki elta MU í því sæti. Það er að segja ef liðið spilaði eins og það hefur getu til.

    Það er nú þannig

    YNWA

  18. Ætlaði að fara að lesa commentin en fattaði svo að mig langar frekar að vera í góðu skapi og njóta sigursins heldur en að láta neikvæðnina í mörgum hérna koma mér í vont skap.

    Annars er enn séns á 4. sæti, lítill séns en samt séns. það er einfaldlega svo miklu skemmtilegra að hafa eitthvað til að keppa að. Ég ætla allavega að skemmta mér yfir þessu allt til enda, ef það hefst ekki þá so be it. Þeir sem vilja geta verið í fýlu og styrkt einhverja vandræðalega borðagerð.

  19. Eru manu aðdáendur allt í einu himinlifandi með hópinn og þjálfarann? Held nú ekki þó ég geti ekki, mun ekki og vil ekki setja mig í þeirra spor. Vond tilhugsun bara.

    Fínn sigur samt og smá glæta á meistaradeildarsæti. Væri í raun dásamlegt ef við gætum verið í þeirri stöðu fyrir lokaleikinn að eiga séns á fjórða sætinu. Þá gæti allt gerst.

    Áfram Liverpool!

  20. Kop.is á alla leiki.

    Ég skal viðurkenna það að ég hélt að þetta myndi ekki hafast. Afar ánægjulegt að sjá captaininn klára þetta. Sem fyrr var Coutinho afar mikilvægur og mér finnst hann svo sannarlega vera að svara kallinu frá BR um að stíga eitt skref upp. Mark og stoðsending í dag gerir hann að mínum MOM.

    Mér fannst leikurinn nokkuð skemmtilegur og alveg slatti af færum. Sterling og Lallana voru báðir klaufar að setja ekki þessi dauðafæri og alls ekki í fyrsta skipti í vetur sem við sjáum Sterling klúðra algjörum dauðafærum. Strákurinn fær svoldið að baukinn frá aðdáendum en gleymum ekki að hann kemur sér í þessi færi og það er fyrsta skrefið. Hann er ennþá það ungur að við getum alveg átt von á meiri framförum frá honum. Hinsvegar er það líka ljóst að lið sem klúðra ítrekað dauðafærum eru yfirleitt ekki í topp 4 og það öskrar á alveg á mann hvað liðinu vantar sárlega alvöru slúttara inn á.

    Mér fannst Ibe koma inn með ákveðna orku og áræðni og vann hann meðal annars hornspyrnuna sem gaf seinna markið. Það er pínu vandræði finnst mér að finna út hvernig verður best hægt að nýta markovic, ibe og sterling alla saman.

    En gott að hala loksins inn 3 stig og ekki verra að manutd tapaði og því ennþá áhugavert að fylgjast með þrátt fyrir að þeir þurfi líklegast ekki nema einn sigur til þess að hanga á 4 sætinu.

    YNWA
    al

  21. Ég er í kop.is ferðinni og í fyrsta skipti á leik hér í Liverpool.
    Mig skortir lýsingarorð yfir þessum degi….
    Í fyrsta lagi er þetta frábær hópur svo langar mig að nýta það hér og þakka Steina og Kristjáni fyrir frábæra ferð so far…frábærir fararstjórar.
    Við vorum nokkrir rétt við kop stúkuna og ég skal segja ykkur það að þegar Gerrard setti hann í netið, sennilega eitt besta tilfinningaflæði sem ég hef upplifað.

    Minning sem er nú þegar brennd í kollinn…..for life. Og ekki var leiðinlegt að vara á The Park eftir leikinn.

    Súper dagur að baki og í töluðum orðum erum við þónokkuð mörg á hótelinu með glas í hendi í þvílíkum gír.
    Kveðja frá kop is förunum í Liverpool 🙂

  22. Best að súmma tímabilið upp fyrir suma hérna ????

    Síðasta tímabil: In Brendan we trust. Make us dream.
    Þetta tímabil September til Desember: BR ÚT.
    Þetta tímabil Desember til Mars: In Brendan we trust.
    Þetta tímabil Mars til Maí:BR ÚT.

  23. Ég var líka í ferðiinni og ekki mín fyrsta, mikill munar á stemmingu á vellinum, það er eitthvað hjá klúbbnum. Annars alltaf gaman að koma til Liverpool til að styðja sitt lið

  24. Þá byrjar þetta á nýjan leik.

    Í dag sigruðum við falllið úr deildinni 2-1 á heimavelli með sigurmarki Gerrard á ´87mín. Ég er semsagt á því að QPR falli úr deildinni. Hvað byrjar þá, jú það sem byrjar þá er að fólk kemur hérna inn og beinir spjótum sínum að þeim sem efast hafa um Brendan Rodgers. Þetta er óþægilega mikið farið að líkjast alþingi íslendinga. Fólk er mætt í skotgrafirnar og rígheldur í 2-1 sigur gegn QPR á Anfield til þess að benda á.

    Ég er svo sannarlega einn af þeim sem efast um knattspyrnustjórann Brendan Rodgers, og hef lýst því yfir að ég vilji hann burt. Ég er búinn að rökstyðja það, og svo við höfum það alveg á kristaltæru, að þá erum við ekki að missa af 4.sætinu vegna þess að við unnum ekki WBA eða Hull. Það vill nefninlega þannig til að tímabilið byrjaði í ágúst s.l. og eftir 19 umferðir höfðum við 8 sigra upp úr krafsinu og 7 tapleiki og 4stk af jafnteflum. Það þýddi 8.sætið.

    Mér finnst bara óviðundandi (kurteisislega orðað) að lið sem var runner-up í deildinni á síðasta tímabili og með 65-75 milljónir punda í vasanum vegna sölu á einum leikmanni skuli ekki gera betur en það að vera í 5.sæti deildarinnar, 4 stigum á eftir 4.sætinu þegar 3 umferðir eru eftir af mótinu. Það var sömuleiðis grátlegt að fylgjast með endurkomu okkar í meistaradeild evrópu, í raun sorgarsaga. Ég einmitt hef fylgst vel með í vetur, og ekki bara Liverpool heldur hef ég reynt að komast yfir flest alla aðra leiki í premíunni og komist að því að júnæded er einfaldlega lélegt fótboltalið. Það er því þyngra en tárum taki að vera fyrir neðan það bevít….. félag í deildinni.

    Svo örsnöggt í restina. Ég fagnaði frábærum árangri og ógnarsterku Liverpool-liði á síðasta tímabili þar sem félagið mitt bókstaflega slátraði hvaða andstæðing sem var og áttu varnarmenn andstæðinga okkar engin svör við fáránlega góðum sóknarleik liðsins. Engin svör. Nú er allt allt allt annað upp á teningnum fræga.

    Ef það verður niðustaða John W. Henry að halda sig við Rodgers, að þá samþykki ég það auðvitað, enda get ekki annað, en ég ætla þó að leyfa mér þann munað að því er virðist vera hérna á stundum, að vera honum ósammála. Eins og venjulega verður mjög spennandi að sjá hvernig félagið ætlar að mæta á markaðinn í sumar, hvort haldið verður áfram á þeirri braut að fá til liðs við sig “spennandi” “efnilega” “lítur vel út” “framtíðina fyrir sér” leikmenn eða hvort menn ætla að mæta með bringuhárin upp úr skyrtunni í leikmenn sem hafa sannað sig á stóra sviðinu, og í framhaldi að því verður spennandi að sjá Brendan Rodgers sannfæra slíka hákarla um að besti áfangastaðurinn fyrir þá leikmenn sé Liverpool F.C.

  25. Sá loksins leikinn um miðnættið.

    Það er auðvitað allt annað að horfa á fótbolta við þessar aðstæður, þ.e. að vita hvernig leikurinn fór og bíða rólegur.

    Mér fannst liðið í raun vera að spila vel lengst af þessum leik og alveg fáránlegt að þurfa að bíða þar til á 87.mínútu til að skora sigurmark. Fínt flæði lengst af í leiknum og mér fannst sérlega gaman að sjá styrk Emre Can og hreyfingarnar hjá Lallana auk þess sem þetta var held ég besti leikur Lambert í rauðu treyjunni og hann var áberandi glaður að ná að leggja upp mark fyrir Brazzann okkar. Svo ég held við getum bara verið sáttir við stigin þrjú og það að hafa sett pressu á United aftur, ætla að taka Pollýönnu kerluna á þá baráttu, við þurfum vissulega sigur á Brúnni og skulum fara að senda strauma í þá áttina.

    Las aðeins twitter og ummælakerfi vegna leiksins og mikið var ég sorgmæddur yfir þeim fjölda LFC-manna sem virtist vera umhugað að losna við Steven Gerrard út af vellinum síðustu 20 mínúturnar. Ég sé ekki hvers vegna hann átti að fara af velli, fannst hann eiga þarna hinn fínasta leik og það eru satt að segja ekki neitt ofboðslega margir í þessu liði sem eru líklegir til að skora. Mikið sem það var frábært fyrir hann að finna gulrótina í lokin og nú treysti ég því að honum verði treyst til að leiða liðið í gegnum síðustu þrjá leikina.

    Ég er nær 100% viss um að við munum ekki upplifa annan leikmann eins og Stevie G og skarð hans í klúbbnum okkar verður gríðarlegt. Er mér allavega geypilegt áhyggjuefni að missa hann af svæðinu og ég ætla að njóta hverrar einustu sekúndu. Þó ég voni það eiginlega smá að hann skori ekki gegn Palace því þá setti hann síðasta Anfield markið sitt í Kop.is-ferð. Sem er eitthvað til að segja frá seinna meir fyrir þá sem það upplifðu.

    Og svo styð ég tillögu Tryggva, láta klúbbinn vita af þessum 100% árangri ferðanna og styrkja okkur til að hafa þær í hverjum leik.

    Höldum svo í trúna og secret-um það að þetta vonda tímabil eigi enn séns á að verða skringilega í lagi, með stjórann áfram á gulu spjaldi…

  26. Geta kop.is hópurinn ekki bara verið þarna úti ? virðist alltaf vinna þegar þeir eru þarna að öskra í stúkunni 😀

  27. Brjálaðist þegar Gerrard klikkaði á vítinu, táraðist þegar hann skoraði one last time á Anfield, shit var það sætt.

    Þurfti 10 viðgerðarbjóra eftir gærdaginn og á að vakna ca 6:00 á eftir til að komast heim, GLÆTAN að það heppnist áfallalaust

    Góða nótt

  28. Bíddu, skrifaði Babú ummæli hér inn fyrir miðnætti í gær? Það þykir mér kraftaverk. Babú, ég sá hvað þú varst hress í gærkvöldi. 🙂

    (Skrifað á flugi yfir Atlantshafið. 40-manna Kop.is-hópur um borð eftir frábæra og viðburðaríka helgi. Ferðasagan kemur í vikunni.)

  29. Vændiskonan hefur skrifað þetta fyrir hann…það eru engar stafsetningarvillur!

  30. Ég er ekki frá því að Babu hafi jinxað þetta með commentinu og það sé honum að kenna að það hvellsprakk á rútunni okkar á leiðinni upp á flugvöll 🙂

    p.s. sammála Kristjáni, það er eitthvað ómannlegt við geymsluþol Babu’s á áfengi án þess að stafsetningar hæfni hans fari úr skorðum er ekkert annað en aðdáunarvert. Fyrir utan það að sjálfsögðu að hafa yfir höfuð verið hæfur til þess að vera eitthvað annað en steinrotaður einhversstaðar 😀

Liðið gegn QPR 

Opinn þráður