Gerrard – eftirminnilegast.

Fjórði kaflinn í kveðjustund Gerrard er þegar við pennarnir hér rifjum upp það sem við veljum sem það eftirminnilegasta á ferli hans þau 17 ár sem hann barðist í treyjunni okkar og lengst af þeim tíma í liðum sem voru ekki verðug hans hæfileika og hann bar á bakinu.

Lokakaflinn kemur svo á morgun þar sem við ætlum allir að draga saman stuttan texta um hvað Gerrard þýddi fyrir okkur sem stuðningsmenn.

Steini og Einar Örn eru uppteknir erlendis en við hinir hendum þessum punktum inn…bætum strákunum strax inn ef þeir ná innslagi!

Svo hér er það upprifjun eftirminnilegra atvika:

Mikilvægasta mark hans

GEGN WEST HAM Í ÚRSLITUM FA CUP 2006

Kristján Hann á svo mörg mikilvæg. Fyrsta markið í Istanbúl kom á lykiltíma og sneri öllu við í leiknum, Liverpool í hag. Markið sem kom okkur áfram það árið gegn Olympiakos. Þrenna gegn Everton, mörk á Old Trafford og svo framvegis. En mikilvægasta markið hlýtur að vera jöfnunarmarkið gegn West Ham í úrslitum FA Cup 2006. Hann dró liðið til baka frá dauða í uppbótartíma þar með marki sem er svo klikkað að maður þarf enn að horfa á það endursýnt oft til að trúa að hann hafi skorað þaðan. Og hann var með krampa þegar hann skaut, spáið í því!

GEGN AC MILAN Í ÚRSLITUM CL 2005

Óli Haukur Hvar á maður að byrja? Sigurmarkið í FA bikarnum 2006, úrslitamarkið gegn Olympiakos í Meistaradeildinni árið 2004 og fleiri koma til greina en það er klárlega markið hans gegn AC Milan í úrslitum Meistaradeildarinnar sem er hans mikilvægasta mark. Það fyllti liðsfélaga hans og stuðningsmenn af von og trú á að hið ómögulega gæti gerst.

Eyþór Væri auðvelt að segja Olympiakos markið en ég ætla að velja fyrsta markið gegn AC Milan. Eins og Rafa sagði í hálfleik, næsta mark ræður miklu um hvernig leikurinn fer. Það kom okkar megin og 6 mínútum síðar vorum við búnir að jafna. Held ég hafi aldrei gengnið í gegnum jafnmikinn rússíbana á ævinni. Var á Players, mættur 4 tímum fyrir leik og var við það að fara heim í hálfleik. Man þetta eins og það hafi verið í gær. Brotnuðu svona 450 glös þegar öll borðin fóru á hliðina þegar Dudek varði frá Shev.

GEGN OLYMPIAKOS Í CL 2004

Babú Fyrir mér kemur Olympiakos fyrst upp í hugann og líklega var það hans mikilvægasta mark. Ekki bara tryggði þetta áframhald í Meistaradeildinni heldur gaf þetta liðinu þvílíka trú á verkefninu sem fór aldrei. Eins gott að Gerrard var búinn að ná sér af meiðlsum sem höfðu haldið honum frá flestum hinna leikjanna í riðlakeppninni.

Maggi Þetta mark slær út svo mörg í mikilvæginu en það vissi maður svosem ekki þetta kvöld. Það er að mínu mati algerlega ljóst að ef við hefðum fallið út úr Meistaradeildinni þetta kvöld hefði ferli Gerrard hjá Liverpool lokið í síðasta lagi þetta vor. Svakalega fallegt mark í ofanálag sem enginn annar hefði getað sett og bjó til nokkurra ára gullöld sem ég gæfi allt fyrir að fá aftur.

Flottasta markið hans

GEGN OLYMPIAKOS Í CL 2006

Kristján Hér vel ég markið gegn Olympiakos í desember 2004. Talandi um að stíga upp á ögurstundu og hitta boltann fullkomlega. Þessi bolti hefði ekkert lent ef marknetið hefði ekki stöðvað hann, tuðran væri enn á sporbaug um jörðu! Ég hef aldrei fagnað Gerrard-marki jafn mikið og þessu, fyrr eða síðar

GEGN MIDDLESBORO Í PL 2005

Óli Haukur Markið gegn West Ham í FA bikarnum, þruman gegn Olympiakos, aukaspyrnumörk gegn United, Villa, Newcastle… Vá, þau eru helvíti mörg ekki satt? Eitt sem hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér var markið sem hann skoraði gegn Middlesborough árið 2005, þvílík negla!

Eyþór Markið gegn Middlesbrough á Anfield, klárlega. Á þessum tíma þá var það 50/50 að Gerrard myndi skora „skrímer“ ef hann fékk boltann og tíma fyrir utan teig.

https://www.youtube.com/watch?v=TBZzTBX17mU

GEGN MANCHESTER UNITED Í PL 2001

Babú Mögulega ekki hans flottasta mark en tilefnið var hressandi og það fyrsta sem kom upp í hugan, bomba fyrir utan gegn United árið 2001.

https://www.youtube.com/watch?v=j0O-uBYEOLE

GEGN ASTON VILLA Í PL 2007

Maggi Vá, af svo mörgu að taka! Horfði oft á samsafnið af öllum mörkunum hans og breytti aldrei um skoðun. Hin fullkomna aukaspyrna sem gaf líka sigurmark, sló út t.d. frábær mörk gegn United og Everton 2001, Middlesboro 2005 og svo Olympiakos markið. Ógeðslega flott mark sem enginn heimsins markmaður hefði getað varið.

Eftirminnilegasta móment innan vallar

Kristján Það er af mörgu að taka en það hlýtur að vera þegar hann skoraði í Istanbul, sótti boltann og hvatti leikmennina til dáða. Alltaf þegar fjallað er um Gerrard er það fyrsta atriðið sem menn sýna. Ævarandi minning um magnaðan leiðtoga liðsins.

Óli Haukur Telst það ekki innan vallar þegar hann lyfti bikarnum í Meistaradeildinni? Það er ekkert móment sem toppar það!

Babú Klárlega þegar hann kom Liverpool aftur inn í leikinn gegn AC Milan. Hann skoraði fyrsta mark Liverpool og gaf með því trú á endurkomu. Það var svo hann sem komst einn í gegn og brotið var á þegar vítaspyrnan var dæmd. 3-3. Undir lokin var hann frábær sem hægri bakvörður og hefði tekið 5 víti Liverpool hefði þess þurft. Fyrir mér toppar þetta bikarúrslitin 2006 enda Meistaradeildin hans langmikilvægasti bikar og hans hlutverk engu minna mikilvægt í leiknum sjálfum.

Maggi Aftur svo endalaus móment. Fyrirliði og maður er búinn að heyra svo oft hvað hann er magnaður og ég man mjög vel þegar ég hugsaði í fyrsta sinn að þarna færi nú býsna öflugur drengur í kollinum og það er mitt eftirminnilegast móment eiginlega í dag. Auðvitað er það bara persónulegt af því ég horfði á hann live. Þegar hann skoraði fyrsta markið sitt gegn Everton á Goodison Park 2001 og hljóp allan völlinn á enda með hendina upp að eyranu til að stinga gulrót upp í munn Blánefja og endaði fyrir framan okkur í útivallarboxinu algerlega trylltur af gleði. Þarna varð ég viss um að hæfileikunum hans fylgdi alvöru karakter! En auðvitað er CL hvatningin eftir að hann skoraði það sem allir sjónvarpsþættir um hans mun byrja á…en Goodison Park 2001 er alltaf mín eftirminnilegasta minning.

Eyþór Þegar hann lyfti þessum með stóru eyrun. Fæ ennþá gæsahúð.

Eftirminnilegasta móment utan vallar

Kristján Ég man eftir þessum sólarhring sumarið 2005 eins og það hefði gerst í gær. Hann fór fram á sölu, allt varð vitlaust, „aðdáendur“ brenndu treyjuna hans fyrir utan Anfield og ég lá í símanum við pabba, bræður mína, Einar Örn og Agga og fleiri. Enginn trúði þessu. Daginn eftir vaknaði maður og eitthvað hafði breyst. Gerrard var mættur á Melwood og framlengdi við Liverpool. Hann bara gat ekki farið. Ef einhver vafi lék á því hvarf hann eins og dögg fyrir sólu þarna – þessi drengur er Liverpool í gegn. Þetta er það sem gerir hann að besta leikmanni í sögu Liverpool: hann fór aldrei, þótt liðið hafi aldrei getað sýnt sömu getu og hann sýndi og hann átti fullan rétt á að fara og spila fyrir eitt af bestu liðum heims.

Óli Haukur Ákvörðun hans að framlengja samning sinn við Liverpool og halda áfram hjá félaginu sem hann elskar eftir að við unnum Meistaradeildina. Mourinho og Chelsea buðu honum gull og græna skóga, hann hefði getað farið í lið sem var líklegra til að landa fleiri titlum en Liverpool en hann kýs að halda tryggð við sitt félag. Það eru mörg skipti sem hann hefði getað farið til stórvelda í Evrópu en hann þáði það ekki.

Babú Eitt af því góða við Gerrard er að hann lætur ekki mikið fyrir sér fara utanvallar en viðsnúningurinn sem hann tók sumarið 2005 stendur vissulega uppúr. Liverpool var rétt nýbúið að vinna Meistaradeildina og hann ákvað að fara til ógeðis Chel$ki. Annað árið í röð var Liverpool að missa uppalinn leikmann og sinn besta mann. Svoleiðis gerir maður ekki og blessunarlega áttaði Gerrard sig á því í tæka tíð.

Maggi Ég missti að mestu af farsanum 2005 og frétti bara af honum eftirá, var að þvælast með fótboltaliðið mitt og þetta var fyrir tíma tæknialdar í raun…maður frétti þetta bara í fréttatímum og í spjalli strákanna…svo ég gerði mér ekki almennilega grein fyrr en eftirá hvað gekk á þar. En mitt eftirminnilegasta móment utan vallar er í raun um leið og Cityleiknum lauk í fyrra. Ég trúði ekki því sem ég sá, en þarna líkamnaðist Steven Gerrard sem sá sem hann er. Ég horfði á þetta ca. 1000 sinnum og það bjó til gæsahúð í hvert sinn. Legendary 15 sekúndur sem sýndu okkur þann karakter sem hann er – we go again!

Eyþór Þegar Gerrard bað um sölu og skrifaði undir nýjan samning nánast á sama sólahringnum. Held að menn átti sig ekki á því hve loyal hann er. Getur ekki borið Scholes og Giggs saman við hann – þeir hafa verið í langbesta liði EPL og Evrópu sinn feril. Gerrard verið í klúbbi sem hefur upplifað ótrúlegar lægðir (og hæðir) – samt verið algjörlega heimsklassa og getað farið þangað sem hann vildi. Chelsea, Man Utd, Real, Inter, AC Milan, Bayern.

Besta frammistaða hans

GEGN WEST HAM Í ÚRSLITUM FA CUP 2006

Kristján FA Cup Final í Cardiff 2006. Hann skoraði tvö mörk í þessum leik og var bara svo mikið ofurmenni á þessum punkti ferilsins að það er erfitt að lýsa því. Það gleymist oft að West Ham voru betri aðilinn nær allan leikinn, líka í framlengingu en Gerrard gjörsamlega neitaði að leyfa þeim að vinna. Það er ekkert að ástæðulausu að þessi leikur er kallaður The Gerrard Final.

Óli Haukur Úrslitaleikurinn í FA bikarnum er líklega augljósasta svarið og það réttasta. Ég hafði samt einstaklega gaman af grannaslagnum gegn Everton þegar hann setti þrennu í andlitið á þeim – hann var helvíti góður þar líka!

GEGN AC MILAN Í ÚRSLITUM CL 2005

Babú Fyrri hálfleikur telur reyndar ekki með en hann dró Liverpool til baka í stöðunni 3-0 undir gegn einu besta liði sögunnar, gerði það á sex mínútum. Það voru auðvitað fleiri hetjur þann dag en Gerrard var á bak við 2 af 3 mörkum Liverpool og frábær eftir að Hamann kom inná og gaf honum frelsið til að sækja.

GEGN EVERTON Í PL 2012

Maggi Af mörgum góðum að taka þarna, klassískt auðvitað gegn Milan, West Ham og Olympiacos og svo ótal frammistöður gegn United. En mér fannst Gerrard líða best í nágrannaslögunum og mikið rosalega fagnaði ég því þegar hann setti þrennu í andlit Blánefja þetta kvöld. Þeir reyna máttlaust að eigna sér hann af því til eru myndir af honum ómálga í Everton búningi en láta síðan dæluna ganga yfir hann af óþverra þegar hann leikur gegn þeim. Þarna lék hann hreinlega fullkominn fótboltaleik umkringdur fínum fótboltamönnum og það er að mínu mati hans besta frammistaða þó Milan leikurinn hafi verið frábær og mikilvægari. En að skora þrennu gegn Everton á Anfield sem miðjumaður er alvöru!

Eyþór AC Milan og West Ham- verð að velja tvo. Hann var allt í öllu gegn AC Milan (svona svipað og Carra var í undanúrslitum gegn Chelsea). Vantar hægri bak gegn fljótum Serginho? Ekkert mál, setjum Gerrard með krampa, jarðaði hann. Vantar einhvern til að koma okkur inn í leikinn? Sendum á Gerrard mitt á milli Stam og Nesta. Vantar jöfnunarmark, skiljum boltann eftir fyrir Gerrard sem kemur úr djúpinu, fær víti og hefði átt að fá rautt á Gattuso. Um WH leikinn árið eftir þarf ekkert að ræða, skoraði tvö og lagði upp það þriðja. Allt í öllu, eins og vanalega á þeim tíma.

Hans erfiðasta móment á ferlinum hjá LFC (innan sem utan vallar)

Kristján Hann rann. Ég mun aldrei jafna mig á þessu. Ég efast um að hann muni komast yfir þetta heldur.

Óli Haukur Gerrard gekk í gegnum súrt og sætt með Liverpool á þessum fjölmörgu árum hans hjá liðinu. Hann hafði upplifað töp í mikilvægjum leikjum, hann hafði tapað úrslitaleik Meistaradeildarinnar og fleira en ekkert hefur sviðið eins mikið og það þegar hann rann og kostaði mark gegn Chelsea á ögurstundu í fyrra. Aldrei áður hafði “hann” verið orsök þess að það sem hann þráði svo mikið tapaðist – maður sá strax að það tók sinn toll af honum og fannst mér hann hafa elst um mörg ár eftir þetta atvik. Ef hann mætti breyta einu mómenti á ferli sínum þá væri það þetta held ég.

Babú Leikurinn gegn Chelsea á síðasta tímabili. Fari það helvítis helvíti í kolbölvað bara.

Maggi Ein mistök í 15 leikjum og svo týpískt fyrir hans feril að enginn gat reddað honum þar. Mesta óréttlæti í sögu fótboltans þetta móment gegn Chelsea og að það sem kostaði okkur titilinn hafi verið einnar sekúndu einbeitingarleysi hjá Stevie…en svo held ég að liðið tímabil sé búið að vera honum býsna erfitt og margt þar sem hann mun lýsa fyrir okkur síðar sem einum stórum pirringi.

Eyþór Þegar hann rann gegn Chelsea. Get ekki og nenni ekki að skrifa meira um það. Svíður ennþá. Eins og greyjið kallinn er góður, talar um virðingu um allt og alla – varð að koma fyrir manninn sem hefur borið klúbbinn á sundum síðustu 15 ár eða svo. Ömurlegt.

6 Comments

  1. Frammistaðan í bikarúrslitaleiknum í Cardiff 2006 er klárlega það eftirminnilegast fyrir mig þar sem ég var svo heppinn að vera á staðnum. Fagnaðarlætin og faðmlögin þegar þetta jöfnunarmark kom og eru algerlega ógleymanleg og einhvernveginn var eins og öllum á vellinum yrði ljóst að Liverpool var að fara að taka þetta sama hvað Hamrarnir reyndu.

  2. Tryggvi #1

    Ég var líka staddur á þessum leik og hann mun seint gleymast 🙂 Fagnaðarlætin og hávaðinn þegar Gerrard skoraði markið, hreinn unaður.

    Ekki var verra að vítakeppnin var fyrir framan mark okkar Liverpoolmanna!

    Svo eftir leik þegar við stuðningsmenn Liverpool gengum út af vellinum þá stóðu stuðningsmenn West Ham í þúsundatali og klöppuðu fyrir okkur.

    Vantar fleiri svona leiki hjá okkur!!!

  3. mikilvægasta og flottasta markið: Olympiakos 2004, breytti öllu það sem eftir var CL það tímabil.

    eftirminnilegasta moment innan vallar: Istanbul

    eftirminnilegasta moment utan vallar: farsinn eftir CL-sigurinn

    besta frammistaða: Cardiff 2006

    erfiðasta momentið: þegar hann datt gegn Chelsea og dauðafæri sem hann nýtti ekki í úrslitaleiknum í Aþenu 2007, ég var á leiknum og var viss um að LFC hefði unnið hefði hann skorað og jafnað með marki úr þessu færi hans.

  4. Eg man alltaf eftir marki sem hann skoraði gegn southampton tímabilið 2000 – 2001, þar nelgdi hann boltanum i slánna og inn lengst utan af velli og skotið mældist a 132 km hraða minnir mig og það var fastasta skot sem mælst hafði i deildinni a þeim tima, man eftir blaðagreininni um þetta mark.

    Annars a hann auðvitað helling af frabærum mörkum en bestu þrjú og mikilvægustu eru olympiakos og ac milan i meistaradeildinni og west ham markið 2006. Markið gegn west ham er náttúrulega fáránlega geggjað það er bara þannig.

    Annars vil eg vara þakka Steven Gerrard fyrir allt, maður hefur fengið a horfa a hann alla hans tið hja Liverpool og hann mun aldrei gleymast, eg man ennþa eftir hans fyrsta marki arið 1998 þegar hann solaði eina 3 leikmenn sheffielf wednesday að þig minnir og setti boltann i vinstra hornið.

    Geggjaður leikmaður og maður fekk þvilika gæsahuð þegar lokaathofnin var i gær og var við það að fara bara að grenja. Annars virkilega vel að þessu öllu stað i gær bæði fyrir og eftir leik hjá okkar klúbbi.

    Takk Stevie G
    YOULL NEVER WALK ALONE

  5. Úff, það er erfitt að gera uppá milli…en sá leikur sem stendur uppúr var spilaður í Istanbúl.

    Ég hugsa að við eigum ekki eftir að upplifa aðra eins kveðjustund í Bítlaborginni og við erum nú vitni að. Það er bara mjög erfitt að kveðja Stevie G….ég hef ég örugglega horft meira á hann en konuna mína!

    Vil svo þakka ykkur frábæru pennum hér á Kop.is fyrir skrif ykkar.

Lokadagur Stevie

Gerrard og ég.