L’pool 2 – Wigan 0

Jæja, okkar menn unnu sennilega sinn næstauðveldasta sigur á tímabilinu í dag í sannkölluðum æfingaleik. Lokatölur urðu 2-0 gegn Wigan Athletic á Anfield, en eini leikur vetrarins sem hefur verið auðveldari var, fullyrði ég, 4-0 útisigurinn gegn sama liði í haust.

Rafa hvíldi slatta af lykilmönnum í dag og stillti upp eftirfarandi liði:

Reina

Arbeloa – Carragher – Hyypiä – Riise

Pennant – Alonso – Zenden – Gonzalez

Kuyt – Crouch

BEKKUR: Dudek, Agger, Mascherano, Gerrard, Bellamy.

Þegar leið á leikinn skipti Rafa nokkuð snemma útaf þeim Carragher, Zenden og Crouch fyrir Agger, Gerrard og Bellamy. Hann var greinilega að hvíla Carragher og Crouch sem segir manni að þeir muni byrja inná á miðvikudag. Þá fengu þeir Finnan og Sissoko algjöra hvíld í dag, voru ekki einu sinni á bekknum, enda býst maður við að þeir spili báðir frá byrjun á miðvikudag.

En sigurinn í dag var auðveldur. Allt frá fyrstu mínútu sá maður að Wigan-liðið ætlaði bara að liggja í vörn og hanga á markaleysinu, rétt eins og Middlesbrough á miðvikudag. Munurinn var hins vegar sá að Wigan-liðið er með talsvert slappari vörn en Boro og því var sigurinn ekki jafn tvísýnn í dag, þótt hann hafi vart verið það á miðvikudaginn heldur.

Eftir rúmlega 30 mínútna leik gaf Jermaine Pennant háan bolta fyrir frá vinstri og Dirk Kuyt skallaði hann í fjærhornið. Um miðjan seinni hálfleikinn léku Bellamy og Riise svo upp vinstri vænginn og inná teiginn, þaðan sem boltinn barst til Kuyt sem nýtti sér það litla pláss sem hann hafði til að leggja boltann fyrir sig og setja hann í fjærhornið. Lokatölur 2-0 í auðveldum leik.

MAÐUR LEIKSINS: Kuyt. Ekki spurning. Af öðrum leikmönnum var Jermaine Pennant enn og aftur okkar hættulegasti maður, auk þess sem Bellamy kom ferskur inn, á meðan greyið Gonzalez gerði nánast ekkert rétt í dag. Aðrir voru bara svona í rólegheitunum – Alonso og Zenden stjórnuðu án mikilla vandkvæða á miðjunni og vörnin hafði ekki mikið að gera. En Kuyt var okkar besti maður í dag, skoraði tvennu og hefði getað haft þau þrjú en var klaufi undir lok leiksins.

En allavega, auðveldur sigur í sólinni á Anfield og þar með erum við komnir með fjögurra stiga forskot á Arsenal í baráttunni um þriðja sætið og búnir að tryggja okkur allavega fjórða sætið í deildinni. Sem sagt, Meistaradeildarsætið að ári er tryggt – nú getum við farið að snúa okkur að Chelsea. 😉

10 Comments

  1. Flott mál að klára þetta auðveldlega. Afskaplega gaman að sjá Arsenal glopra sínum leik niðrí jafntefli.

    Þetta Wigan lið er bara djók og Liverpool spilaði einfaldlega á eins miklum hraða og þurfti til. Pennant enn einu sinni okkar hættulegasti maður (hver hefði séð okkur skrifa það fyrir nokkrum mánuðum).

    Ekki það að ég vilji vera upphafsmaður að einhverjum reiðilestrum yfir Mark Gonzalez, því mér finnst fráleitt að afskrifa hann á sínu fyrsta tímabili, sérstaklega í ljósi meiðslanna.

    Eeeeen, ég leyfi mér að fullyrða að við værum ekki að berjast bara um 3. sæti ef við hefðum verið með almennilegan vinstri kantmann á þessu tímabili.

    Annars fínt hjá Kuyt og sérstaklega var seinna markið ánægjulegt. Bring on Chelsea! 🙂

  2. Ég sá ekki fyrri hálfleikinn en lýsendurnar á official síðunni, sem ég hlustaði á, sögðu um Zenden: “He´s having an absolute nightmare, he´s not doing anything right.”

    Hans síðasti leikur í búningi Liverpool?

    Annars var þetta bara á cruise control, voðalega fyrirhafnarlítið og ótrúlega lélegt hjá Wigan að berjast ekki meira.

  3. Flottu strákarnir í ræktinni nenntu ekki einu sinni að horfa á leikinn til enda Stjáni. Ég gerði það samt auðvitað…Enda var Top Gear í sjónvarpinu við hliðina á…Guð hvað ég elska þann þátt.

  4. Jóhanna, ég segi bara að á meðan þú ert ekki farin að fórna Liverpool-leikjum fyrir flottu strákana ertu réttu megin striksins. Ef það gerist einhvern tímann læt ég leggja þig inn. :tongue:

    Annars vill ég segja það um Zenden að hann var talsvert skárri í dag en á móti Boro. Það stafaði sennilega ekki af því að hann spilaði mikið betur, heldur frekar af því að (a) hann var á miðjunni sem er klárlega hans betri staða, og (b) mótstaðan var nær engin á miðjunni í dag. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að gagnrýna hann í þessari leikskýrslu, annan leikinn í röð, en ákvað á endanum að láta mér nægja að segja að hann og Alonso hafi átt náðugan dag á miðjunni.

  5. Haha, heldurðu að það sé mikil hætta á því að ég geri það?! :laugh:

  6. Afskaplega rólegur leikur og ég var sammála lýsendunum í flestum tilfellunum, þrátt fyrir að vera ekki þeirra fremsti aðdáandi …

    En framan af fannst mér Kuyt hreinlega ekkert gera rétt, en svo skánaði hann. Pennant var góður, en það var enginn súper í þessum leik – þetta var tekið gjörsamlega á tjillinu. Vonandi gott fyrir mannskapinn fyrir Chelsea leikina. Ég skal samþykkja Kuyt sem mann leiksins þar sem hann skoraði jú bæði mörkin, en ég var ansi nálægt því að velja Pennant annan leikinn í röð hjá mér. Enginn stóð upp úr … rólegt en samt svo ótrúlega öruggur sigur!

    Æi vá – hvað maður heldur með góðu liði! 🙂

    Áfram Liverpool!

  7. Léttur skyldusigur, enginn með neinn stórleik.
    Agger hefur greinilega verið að skoða markið hjá Messi fyrir leikinn, það hefði verið flott hjá honum að skora þegar hann fór í gegn frá eigin vallarhelmingi. Verst að þetta féll ekki alveg fyrir hægri löppina á honum.

    Glæsilegt að vera búinn að tryggja sig í meistaradeildina á næsta tímabili. Nú er bara að klára Chelsea!!

  8. Allt í lagi leikur, en mótstaðan lítil. En Pennant er að batna með hverjum leiknum, er bara orðin fjandi flottur þarna hægra meginn. Held að Chelsky megi passa sig á miðvikudaginn.

  9. Sá leikinn með öðru auganu þar sem ég var að vinna á sama tíma. Leit út fyrir að vera frekar leiðinlegur leikur en hins vegar einnig afar öruggur sigur.

    Góð mörk hjá Kyut og mikilvægt fyrir hann að setja tvö í sama leiknum.

    Hið besta mál með Arsenal en reyndar virðist það hafa verið afar ósanngjarnt jafntefli af hálfu Tottenham. En hver spyr af því.

    Syttist í LEIKINN! Ég hlakka svo til…

Liðið gegn Wigan

Nýr haus á síðunni