Roberto Firmino – mikilvægasta púslið?

Hviss kvamm búmm!

Skyndilega var Liverpool búið að kaupa Roberto Firmino frá Hoffenheim í félagsskiptum sem geta numið allt að 29 milljónum punda. Bara sí svona, ekkert slúður svo allt í einu tilboð inn og málið klárað.

Maður nánast trúði þessu ekki. Maður rétt blikkaði augunum og allt í einu var Liverpool búið að gera ein mest spennandi kaup sem félagið hefur gert síðan Luis Suarez kom fyrir nokkrum árum síðan. Brasilískur landsliðsmaður og eftirsóttur leikmaður í Bundesligunni bara allt í einu orðinn næst dýrasti leikmaðurinn í sögu Liverpool.

Ég held að það sé nánast hægt að fullyrða að flestir stuðningsmenn Liverpool eru afar spenntir fyrir þessum leikmanni. Ef þeir þekkja til hans og hafa séð hann þá ættu þeir að vera það en þeir sem hafa ekki gert það eru líklega afar spenntir fyrir að sjá hvað er í vændum.

Af hverju erum við svona rosalega spennt fyrir þessum leikmanni, af hverju var Liverpool tilbúið að borga þessar fjárhæðir fyrir hann og hvaða hlutverk gæti hann komið til með að leysa?

Hann hóf atvinnumannaferil sinn með Figueirense í B-deildinni í Brasilíu þar sem hann spilaði áður en hann varð keyptur til Hoffenheim í Þýskalandi árið 2011. Stjarna hans hefur skinið skært í Bundesligunni og mikil athygli hefur dregist af þessum hæfileikaríka sóknartengilið.

Lengi hefur hann verið orðaður við hin og þessi lið í Evrópu en ekki endað á að fara frá Hoffenheim fyrr en nú. Hann fer frá Hoffenheim eftir tvær frábærar leiktíðir þar sem hann var afar iðinn við kolann í markaskorun og í að leggja upp mörk fyrir samherja sína.

Fyrir ekki svo löngu síðan var hann valinn í brasilíska landsliðið og var þá nær alveg óþekktur fyrir brasilíska stuðningsmenn en þeir voru ekki lengi að taka eftir honum. Hann hefur spilað tíu landsleiki hingað til og skorað fjögur mörk – eins og það sé ekki nógu gott þá hefur hann líka verið að leggja upp og skorar eða leggur upp mark á 87.4 mínútna fresti að meðaltali fyrir landsliðið. Það er impressive!

Kaupverðið

Maður hefur heyrt smá deilur um það hvort kaupverðið sem getur numið allt að 29 milljónum punda sé sanngjarnt fyrir leikmanninn og hvort það sé ekki í aðeins hærri kantinum. Hann varð dýrasti leikmaður í sögu Bundesligunar eftir að félagsskiptin voru gerð opinber.

Samkvæmt því sem heyrst hefur í nokkrum áreiðanlegum miðlum dreifist kaupverðið svolítið niður. Liverpool greiðir um 22 milljónir punda fyrir leikmanninn núna, þrjár milljónir ef liðið kemst í Meistaradeildina og fjórar þegar hann spilar 100 leiki fyrir félagið. Það er alls ekki slæmur díll og greinilegt að Liverpool hefur ákveðið að vera ekki að dvelja eitthvað á þessu og mættu inn til að klára dæmið sem fyrst.

Miðað við hvað leikmenn af svipuðu kalíberi eru að kosta þá er þetta bara nokkurs konar gangvirði á ungan framherja sem er nú þegar orðinn mjög góður og getur orðið enn þá betri. Það er ekki óeðlilegt að telja að slíkir leikmenn séu að kosta að lágmarki 25-30 milljónir punda. Þetta er í raun alls ekki mikið dýrara en Suarez kostaði fyrir nokkrum árum.

“Næsti Suarez”

Rétt upp hönd þeir sem hafa gaman af leikmönnum sem eru titlaðir “næsti þessi” og “næsti hinn”… Enginn? Jæja þá.

Í fúlustu alvöru þá tikkar Firmino í svo mörg box sem eftirmaður Luis Suarez þarf að fylla út í fyrir Liverpool. Hann gæti verið akkúratt það sem Liverpool hefur vantað eftir að Suarez fór og á margan hátt býður upp á margt af því sem Liverpool vonaðist til að fá til sín með Alexis Sanchez í fyrra en við vitum nú öll hvernig það fór.

Fyrir utan augljós Suður-Ameríku tengsl þá er margt í leikstíl þeirra Suarez og Firmino sem má að mínum dómi bera saman. Báðir búa náttúrulega yfir svakalegri boltatækni og geta valsað framhjá mönnum eins og þeir séu ekki á svæðinu. Báðir vilja komast í bolta, taka þátt í spili, opna svæði og komast í vænlegar stöður. Það sem maður sér kannski ekki á öllum þessum YouTube myndböndum er að Firmino, líkt og Suarez, er svakalega duglegur, berst mikið og er rosalega duglegur í hápressunni og að vinna boltann. Skemmtileg staðreynd er að hann vann 175 tæklingar á síðustu tveimur leiktíðum sem gerir hann að sjötta tæklingahæsta leikmanni deildarinnar á þeim tíma sem sýnir dugnaðinn í honum – gamall þjálfari hans greindi víst frá því að hann hafði áður spilað honum sem varnarsinnuðum miðjumanni sem gæti útskýrt eiginleika hans til að vinna tæklingar svona reglulega. Það voru líka aðeins Messi og Hazard sem gátu leikið oftar á andstæðing sinn í vetur en Firmino.

Þrátt fyrir fríkaðar hárgreiðslur og fjöldann allan af húðflúrum þá hefur hann það orðspor á sér að vera frekar þægilegur ungur maður. Hann þykir rólegur, hógvær og á auðvelt með að aðlagast umhverfi sínu en þegar hann reimar á sig takkaskóna þá lifnar yfir honum.

Tækni hans með bolta og fínt auga fyrir sendingum og skotum er eitthvað sem auðvelt er að sjá en hreyfanleiki hans, fjölhæfni og leikskilningur er virkilega góður. Hann dregur sig oft úr stöðu til að opna pláss og truflar varnarleik mótherjans líkt og Suarez gerir. Hann dettur niður, fer út á kant eða hangir á aftasta varnarmanni með það í huga að sleppa innfyrir.

Í dag telst hann ‘sóknartengiliður’ en hann hefur oft spilað sem framherji með Hoffenheim og er kannski ekki ólíklegt að með tíð og tíma muni það verða hans staða. Luis Suarez hefur sjálfur sagt að Rodgers hjálpaði honum mjög mikið með að spila betur sem fremsti maður og hann hafi kennt honum mikið varðandi tímasetningar og staðsetningar í kringum teiginn. Vonandi getur hann unnið slíka vinnu með Firmino.

Á þeim leiktíðum sem hann hefur spilað með Hoffenheim hefur hann alltaf spilað 33-34 deildarleiki á hverri leiktíð sem þýðir að hann er í frábæru formi og kemur með litla meiðslasögu sem er afar jákvætt.

Hvað á að gera við hann?

Hvar á maður að byrja?

Í stuttu máli þá getur hann spilað í líklega öllum sóknarhlutverkum sem í boði eru í næstum öllum kerfum sem Rodgers gæti dottið í hug að nota. Hann virðist aðlagast mjög vel og virkar með afar góðan taktískan skilning sem er ekkert annað en jákvætt.

Augljósast er að stilla honum upp í holunni á milli miðju og framherja en þar sem samkeppnin þar er afar mikil þá er spurning hvort hann gæti leitað út á vinstri kantinn þar sem hann spilaði á köflum með Hoffenheim eða sem fölsk nía í framlínunni, annar af tveimur framherjum í tígulmiðju eða annar ef tveimur ‘tíum’ í 3-4-2-1 kerfinu sem við sáum oft í fyrra.

Hann getur leyst allar þessar stöður af hólmi en líklega hentar honum hvað best að spila fyrir aftan framherja þar sem hann getur opnað völlinn, komist nálægt teignum og fundið hlaup samherja sinna bakvið vörnina.

Mikið svakalega hlakka ég til að sjá hann og Coutinho saman hjá Liverpool á næstu árum. Nú eigum við ekki einn fáranlega hæfileikaríkan Brassa, við eigum tvo!

34 Comments

  1. Uss, ekki minnkaði spennan fyrir honum við að lesa þennan pistil 🙂

  2. Maður hefði líklega hlegið dátt fyrir þremur árum eða svo ef einhver hefði sagt manni að Liverpool færi inn í 2015-16 seasonið með tvo fremstu leikmenn brasilíska landsliðsins. Ég þigg það og vona það besta!

  3. Glæsilegur pistill, mjög spenntur fyrir þessum leikmanni.
    Hrikalega ánægður með hvað þið eruð duglegir að koma með pistla í sumar, takk fyrir mig. Besta stuðningsmannasíða Íslands og þó víðar væri leitað.

  4. Flottur pistill og virkilega spennandi leikmaður.

    Það eina sem ég hef áhyggjur af er að kröfurnar til hans verði of miklar.

    Til dæmis með því að tala um hann sem ,,næsta” Suarez.

    Suarez er einstakur byrjaði vel hjá okkur en tók stórstígum framförum. Einu leikmennirnir sem standa honum framar eru Messi og Ronaldo.

    Það er enginn vafi að það hjálpaði honum hversu líkt þekktur hann var og hversu litlar kröfur voru gerðar til hans þegar hann kom. Kröfurnar voru hinsvegar á honum Carroll.

    Firmino er frábær leikmaður en við skulum gefa honum tíma og stuðning til að verða með þeim allra bestu.

    YNWA

  5. Við eigum tvo framtíðar lykilmenn í Barsiliska landsliðinu, Schum utd eiga úr sér gengna svínastigu. ég veðja á okkur.

  6. Ég hef séð Firmino spila í Bundes; nú síðast þegar að Hoffenheim kom til Freiburg í febrúar sl. Menn munu seint sjá leikmann sem er meira easy on the eye en Firmino.

    Leikurinn fór 1-1 og Firmino lagði mark Hoffenheim upp fyrir Kevin Volland. Stórkostlegt mark hjá þeim Volland og Firmino. Volland er líka hrikalega flottur leikmaður sem menn ættu að gefa gaum í framtíðinni.

    Ég er nokkuð viss um að Firmino hristir af sér Suarez stimplinn eins og gæs stekkur af sér vatni. Þessi strákur hefur allt til að bera til að búa sér til sjálfstæða stöðu og verður ekki borinn saman við neitt nema sjálfan sig í framtíðinni að mínum dómi. Það er líka sá grundvallarmunur á þeim að Firmino er að mestu leyti agaður leikmaður þjálfaður af sjálfum Marcus Gisdol sem er sko enginn aukvisi kæru vinir. Firmino hefði hugsanlega ekki getað fengið betri þýskan þjálfara nema þá helst meistara Klopp.

    Annars er ekki neinu við greinina að bæta í sjálfu sér. Rodgers og Liverpool fá algjöran draumaleikmann til að vinna með. Firmino verður ekki sérstaklega lengi að aðlagast EPL enda ekki neinn stórkostlegur munur á þessum deildum leikfræðilega.

    Ég er 100% sammála ályktun greinarhöfundar. Firmino er leikmaður sem hægt er að byggja leik Liverpool í kringum. Tíminn verður svo að leiða í ljós hvort Brendan Rodgers ræður við verkefnið. Sitthvað bendir þó líka til þess að félagið hafi bætt stjórnunarþáttinn í sumar og er ekki vanþörf á.

    Heilt yfir finnst mér kaup Liverpool í sumar skynsamleg og fylgja strategískri línu. Koma Sean O’Driscoll, Pepijn Lijnders og Gary McAllister í þjálfarateymið eykur síðan enn hóflega bjartsýni mína á að komandi leiktíð verði góð fyrir Liverpool.

  7. Man bara að Kleberson var kosin bestur hja Brössum a sinum tima og var ávalt einn besti maður Brasiliu svo best að anda rólega ennþá en samt spennandi að sjá hann.

  8. Liverpool have offered £22m for Real Madrid’s 24-year-old Russia international winger Denis Cheryshev. (Sunday People) Hefur einhver hérna séð hann spila? Hann lookar vel á youtube (hver gerir það ekki) en virðist vera með eitraðann vinstri fót og assistar slatta.

  9. Ég sá töluvert af Cheryshev á seinustu leiktíð.

    Þetta finnst mér mjög skemmtilegur leikmaður og vona innilega að hann bætist við hópinn.
    Hann er fljótur og mjög góður í löppunum. Þetta er hinsvegar bara dómur eftir 1 tímabil hjá honum á láni hjá Vilareal en þetta var leikmaðurinn sem maður horfði til þess að breyta leikjum og skapa eitthvað fyrir sóknarmennina.

    Firmino lofar mjög góðu og ég viðurkenni að ég vissi mjög lítið um hann áður en hann gekk í raðir okkar. En eftir að lesa það sem menn skrifa um hann þá er maður mjög spenntur fyrir komandi tímabili og það verður mjög gaman að sjá hann spila með Coutinho, Sturridge og Ibe.
    Ég held að sóknin okkar á næstu leiktíð verði mjög góð, þ.e.a.s í líkingu við það þegar að Suarez spilaði fyrir okkur. Maður klökknar nánast þegar að maður segir “þegar að Suarez spilaði fyrir okkur…”.

    YNWA – King Rodgers we trust!

  10. Langar að bæta við örstuttri hugleiðingu og biðst velvirðingar á að hún tengist ekki efni greinarinnar.

    Tilefnið er að ManU menn eru að missa þvag vegna kaupanna á Bastian Schweinsteiger. Ég er ekki viss um að Schweinsteiger verði ManU sérstakur happafengur og tel það raunar mjög ólíklegt. Schweni var stórkostlegur á sínum tíma en hefur verið á hraðri niðurleið sem leikmaður. Hefði Javi Martinez ekki meiðst í hittifyrra er ólíklegt að Schweinsteiger hefði meikað mikið meira en bekkinn hjá Bayern þ.e. þá sjaldan þegar hann var sjálfur heill.

    Í Þýskalandi hefur lífstíll leikmannsins einnig þótt tíðindum sæta. Schweinsteiger er ástfanginn upp fyrir haus af ótrúlega fallegri stelpu sem heitir Ana Ivanovic. Fyrir utan að vera algjör gyðja er hún einn besti tennisspilari heims. Þau eru fallegt par en sagt er að Schweini hugsi um fátt annað en að horfa á Önu sína spila og verður fróðlegt að sjá hvernig stjörnuparið aðlagast lífinu í Manchester sem ku vera álíka spennandi og “the backside of a fridge”.

    Auðvitað á maður ekki að vera að ræða um leikmenn annarra liða á kop.is og umsjónamenn síðunnar eyða þá bara þessari færslu. Get samt ekki orða bundist enda lýsa þessi kaup örvæntingu LVG frekar en kænsku eins og þetta horfir við mér.

  11. Guderian #15

    Hugleiðing á sunnudagsmorgni er alltaf vel þegin þó stutt sé.

    Held að þú hittir í mark nú sem endranær. Ég gladdist fyrir hönd MU manna þegar ég sá þessa frétt og ekki verra að milljónirnar séu þeim mun fleiri sem fara úr þeirra buddu við þessi kaup.

    Tel að Bastian megi muna fífil sinn fegurri og verði lítil búbót á þeim bænum.

    Skal svo hundur heita ef umsjónarmenn síðu eyði þessum hugleiðingum á hvíldardeginum.

  12. Tony Barrett á Twitter.
    @TonyBarretTimes: Sterling did report for training this morning. He’s been withdrawn from the squad by Liverpool as a deal with City edges closer.

  13. Hvernig er það, ég hef lesið að peningarnir sem fást fyrir Sterling séu ekkert ætlaðir endilega til að kaupa framherja? Gæti það þá verið að það verði fenginn nýr fyrir Sterling plús topp striker síðan?

  14. Stefnir í topp sunnudag. City eru að klára kaupin á ofmetnasta leikmanni veraldar. Sala ársins og rotið epli úr hóp.
    Dásamlegt

  15. Gott mál að það sé verið að klára söluna á sterling , sagði það hér fyrir þó nokkru síðan að það væri algjört lykil atriði að losa við sterling enda búin að valda miklum usla og sýna stuðningsmönnum og klúbbnum óvirðingu.
    Klúbburinn fær fínan pening fyrir hann meðað við getu.
    Kanski á hann eftir að reynast city vel en mér er sama.

  16. Vona að við förum ekki í það rugl að kaupa Denis Cherysev frá Real Madrid. Hann er 25 ára og einungis með eitt tímabil undir beltinu í efstu deild. Að borga 20 milljónir punda fyrir mann sem er langt frá því að komast í hóp hjá Real er geðveiki. Myndi setja þessi kaup í sama flokk og kaupin á Alberto og Aspas.

  17. núna þegar sterlingdæmið er að klárast þá ætla ég að vona að okkar menn fara á eftir benteke takk fyrir.. ég veit að stórhluti ykkar eru ámóti honum en ég yrði spenntur fyrir honum því ef við klárum þetta ekki á næstu 48 tímum þá er united að fara að landa honum og þá eigum við allir eftir að væla yfir að hafa “klúðrað” honum… Því hann yrði drauma kaup fyrir united þeir gátu ekki skít fyrr en LVG hendi fella fram og hugsa að benteke myndi gera svipað gagn fyrir þá og okkur…

  18. Þessi leikmannagluggi er svolítið auga fyrir auga

    Borini og Balotelli út – Ings og Origi inn
    G.Johnson út – Clyne inn
    B.Jones út – Bogdan inn
    Sterling út – Firmino inn
    S.Gerrard út – Milner inn

    held að þetta séu góð viðskipti ef af verða, en eftir stendur að það eina sem virkilega vantar uppá er enn ófrágengið…VARA VINSTRI BAKVÖRÐUR!

  19. 49m pund er ásættanlegt ef satt reynist. FSG að standa sig vel í sumar.

  20. Þið eruð svo merkilega bitrir þið poolarar að það er engu lagi líkt…

  21. Hver bauð þér í heimsókn Keane?

    Mjög ánægður með peninginn sem fæst fyrir Sterling og nú þarf Rodgers að kaupa rétt, enga fljótfærni.

    Leiðinlegt að segja það en manni er örlítið létt yfir þessum fréttum.

  22. Ekki verið jafn sáttur við að losna við Liverpool leikmann- síðan Caroll fór:)

  23. Jæja, nú hefjast áhyggjurnar af því í hvað söluféið á Sterling fer í. Ég vil að honum verði eytt í EINN heimsklassaleikmann. Hins vegar, miðað við sumarið í fyrra er ekki við öðru að búast en að fénu verði eitt í 2-3 ágætis leikmenn.

  24. Skil ekki þessa frétt sem er að poppa upp núna að kaupa einhvern Rússa sem fáir hafa heyrt um á 22 millur og lána svo Ibe sem var nú einn að fáum jákvæðu punktum á síðasta tímabili.

  25. næstum 50 mil punda fyrir ofmetinn ungling já takk fyrir.
    Verður vonandi eitt í betri menn en hann það er ég nokkuð viss um.

  26. Þesssi flotti pistill minnir mig mikið á þann sem ég skrifaði um Suarez á sínum tíma. http://www.kop.is/2011/01/28/hver-er-annars-%C3%BEessi-suarez/

    Carroll og Torres kæfðu hann um leið rétt eins og Sterling og Benteke eru að gera við þennan. Eins held ég að meginþorri stuðningsmanna Liverpool sé að vanmeta þennan leikmann verulega eins og sami hópur gerði er Suarez var keyptur.

    Suarez var alltaf miklu meira spennandi kaup en Carroll þó í ljósi aðstæðna hafi allt púðrið farið í Carroll (og þá aðallega Torres). Eins held ég að Firmino sé meira spennandi heldur en Sterling og raunar held ég að það muni líka eiga við um sóknarmanninn sem félagið kaupir.

    Vona það a.m.k. því fyrir mér eru þetta leikmannakaup í sama klassa og Mkhitaryan, Costa, Willian og Sanchez. Já eða Suarez og Torres, sjáum nú til hvort hann nái sömu hæðum og þeir náðu.

Hópurinn í ferðina valinn.

Sterling til Man City (staðfest)