Toppbaráttan

Ian Ayre og félagar hafa svo sannarlega ekki setið auðum höndum undanfarna mánuði og leikmannaglugginn það sem af er sumri hjá Liverpool sýnir að lítil ánægja er með síðasta tímabil og stefnan er sett mun hærra á næsta tímabili. Liverpool er á pappír a.m.k. með töluvert sterkara lið núna heldur en endaði síðasta tímabil. Þetta á þó svo sannarlega ekki bara við um okkar menn því liðin sem enduðu tímabilið fyrir ofan Liverpool í deildinni hafa hreint ekki setið auðum höndum heldur. Það virðist vera mun meiri peningur í umferð á Englandi en verið hefur og flest lið eru að styrkja sig töluvert. Skoðum aðeins hvernig lið andstæðinga Liverpool hafa verið að breytast.


5. Tottenham
Aðalmálið hjá Tottenham verður eflaust að halda sínum bestu mönnum og bæta hjá sér vörnina en það hafa þeir einmitt gert. Kieran Trippier kemur frá Burnley og fer líklega beint í byrjunarliðið. Toby Alderweireld kom svo frá Atletico Madrid og styrkir vörnina gríðarlega enda vantað þann hraða sem hann býr yfir í nokkurn tíma. Að auki keyptu þeir ungan Austurrískan miðvörð frá Köln, Kevin Wimmer en um hann er afar lítið vitað. Þetta eru a.m.k. tveir menn sem koma líklega í byrjunarliðið og styrkja það mikið.

Eins og vanalega fer svo hellingur af dýrum farþegum frá Tottenham og í þessu holli eru það Paulinho sem fór við mikinn fögnuð til Kína. Lewis Holtby fór að reyna við frúnna í Hamburg. Etienne Capoue er kominn til nýliða Watford og Younes Kaboul fór til Sunderland. Allt leikmenn sem áttu að styrkja Spurs á miðju og í vörn en hafa ekki heillað. Þarna losa þeir líklega töluvert um launaskránna og það er nokkuð ljóst að Daniel Levy er ekki hættur á markaðnum í sumar.

Svona myndi ég skjóta á ca. þeirra sterkasta byrjunarlið
Tottenham
Eflaust er þetta ekki alveg 100% rétt en þarna finnst mér blasa við að vanti miðjumann og líklega annan sóknarmann. Yedlin, Dier og Davies eiga þeir til vara sem bakverði ásamt Walker og Naughton. Bentaleb hefur svo mikið fengið að spila á miðjunni.

Lykilatriði hjá Spurs samt að halda Lloris og Kane, vörnin hjá þeim er nú þegar mun sterkari en hún var í fyrra.


4. Man Utd.
Þó Liverpool og Spurs hafi verið verri var síðasta tímabil engin sýning hjá United og það er ljóst að þar á bæ er nóg til af peningum. Á einum degi styrktu þeir liðið á miðjunni svívirðilega, staða sem hefur verið til vandræða hjá þeim í mörg ár. Fyrir voru þeir búnir að fá inn Ander Herrera og Daley Blind og má segja að miðjan hjá United sé orðin gríðarlega góð.

Það er synd að hinn mikli meistari Bastian Schweinsteiger saurgi ferilinn sinn svona en ef hann er heill er þetta auðvitað einn besti miðjumaður í heiminum. Hann er 31 árs og á meira en nóg eftir, sérstaklega í liði þar sem hann þarf ekki að spila alla leiki. Morgan Schneiderlin held ég samt að sé mikilvægasta púslið og mesta styrking United í sumar. Eini leikmaðurinn sem Liverpool átti að kaupa frá Southamton í fyrra. Darmian er hægri bakvörður en nánst hver sem er myndi styrkja liðið í þeirri stöðu, a.m.k. varnarlega m.v. Rafael og á þessi Ítali að vera góður. Ítalir hafa hinsvegar ekkert verið að bljómstra mikið á Englandi í gegnum tíðina. Depay er síðan mjög spennandi leikmaður sem kemur með hraða í sóknarleik United. United er komið með lið sem á að keppa á öllum vígstöðum og eru líklega ekki hættir.

Robin Van Persie er farinn til Tyrklands, Falcao er farinn til baka úr láni og ólíklegt er að Javier Hernandez eigi framtíð á Old Trafford. Það er því pláss fyrir einn sóknarmann í hópi United. Johnny Evans er svo orðaður frá félaginu. Af rest þá fór Cleverley til Everton sem er áfall fyrir bæði lið og Nani er svo farinn til Tyrklands þar sem hann tekur við af Dirk Kuyt hjá Fenerbache.

David De Gea er stóra málið og United komið í póker við Real Madríd um hann. Fari hann veikir það United frá síðasta tímabili um sinn langbesta leikmann. Þeir eru alltaf að fara kaupa gæði í staðin en það gæti tekið tíma að slípa nýjan markmann við liðið.

Di María er orðaður við PSG en sölu á honum myndi ég seint skilja og trúi ekki að af því verði fyrr en á það reynir. Fellaini virðist svo vera kominn til hliðar og maður veltir fyrir sér stöðu Carrick eftir leikmannakaup sumarsins. Það er a.m.k. ljóst að United er ekki búið með sín viðskipti í sumar en liðið ætti að verða töluvert sterkara.

Vonandi hefur aukið álag og nýjir leikmenn áhrif á gengið hjá þeim. Svona sé ég fyrir mér þeirra byrjunarlið en hópurinn er rosalega stór
Man Utd
Ekki taka þetta of hátíðlega, þetta eru bara vangaveltur hjá mér og til gamans gert. Þetta er líklega ekki rétt kerfi og alls ekki eins og LVG myndi sjá liðið fyrir sér. En þarna vantar inn Schweinsteiger, Carrick, Blind, Rojo o.m.fl.

Væntanlega verður keyptur nýr miðvörður í byrjunarliðið og ég myndi tippa á að United eigi Luke Shaw inni rétt eins og Liverpool á flest af sínum 2014 sumarkaupum inni. Mata og Di María væru svo báðir í liðinu ef ég ætti að stilla upp liði United.


3. Arsenal
Wenger er ekki á sínu fyrsta tímabili í boltanum og veit hvað hann er að gera. Enn virðist Arsenal vera ná glugga þar sem þeir styrkja liðið mikið án þess að missa einhvern af sínum bestu mönnum gegn sínum vilja. Liðið var á gríðarlegu flugi á síðasta tímabili og líklega þarf ekki að gera neinar rosalegar breytingar milli ára og t.d. Liverpool og United þurftu að gera.

Arsenal vann Petr Cech lottóið og styrkir hann liðið rosalega og það í stöðu sem hefur ekki verið nógu sterk hjá Arsenal síðan Ég lem hann hætti. Á síðasta tímabili steig upp varnartengiliður sem gjörbyllti stigasöfnun liðsins og því hefur Arsenal bætt sína helstu veikleika undanfarin ár.

Cech er enn sem komið er eina viðbótin í sumar og væntanlega kaupa þeir einn á miðjuna og annan í sóknina en fyrir mér er þetta Arsenal lið alltaf að verða líklegra og líklegra til að gera alvöru atlögu að titlinum.

Svona myndi ég skjóta á þeirra sterkasta lið eins og staðan er núna
Arsenal
Einn nýr byrjunarliðsmaður kominn inn og ekkert blæðandi sár sem verður að laga. Kaupi þeir enn betri sóknarmann en Giroud gæti það gert útslagið. Hef Bellerin þarna fram yfir Chambers og Debuchy því þar er leikmaður sem ég trúi að gæti orðið einn besti bakvörðurinn í boltanum. Miðvarðapar Arsenal hefur verið mjög stöðugt undanfarin ár og er það grunnurinn að þeirra stigasöfnun, til vara eiga þeir núna góðan Braselískan leikmann sem kom í fyrra. Walcott, Chamberlain og Wilshere komast ekki í liðið hjá mér eins og ég stilli því upp þarna. Sama á við um Welbeck og Rosický.


2. Man City
Það var klárlega tækifæri á síðasta tímabili að keppa við City, þeir voru frekar slakir en náðu samt 79 stigum og 2. sæti í deild. Það er ljóst að yngja þarf þetta lið verulega upp en gallinn við City er að þeir geta gert það nánast í einum glugga.

Raheem Sterling fer líklega beint í liðið hjá þeim og ætti að springa út með Silva og Aguero í kringum sig. Það er ekki hjá því komist að Sterling er mjög spennandi leikmaður fyrir þá þó vissulega hafi hann kostað rosalega mikið. Navas spilaði 35 leiki í fyrra og Nasri 24 í deild. Sterling mynd ég halda að fari beint í liðið á kostnað þeirra beggja.

Delph snerist svo hugur og í honum fá þeir annan ungan enskan leikmann. Hann held ég að verði ekki eins mikill varamaður og margir ætla.

Allar fréttir benda svo til að City séu ekki hættir og a.m.k. ein stórkaup eftir. De Bruyne eða álíka gæði.

Það veikir City töluvert að missa Milner og þó hann hafi ekki verið ánægður með sitt hlutverk þá hefur hann spilað gríðarlega mikilvægt hlutverk hjá þeim undanfarin ár og þeir koma til með að sakna hans. Toure og Fernandinho eru 32 og 30 ára og því gæti yfirferðin á þeim farið að minnka.

City á hinsvegar langbesta sóknarmann deildarinnar og þrjá aðra góða til vara. Aguero spilaði 33 leiki í fyrra en meiðist hann gæti City lent í vandæðum. Hann og Silva eru mennirnir sem opna litlu liðin og klára þá leiki.

Eins og staðan er núna myndi ég skjóta á þetta sem byrjunarlið City.
Man City
Mangala gæti komið mun sterkari til leiks í vetur, eitthvað getur maðurinn úr því þeir borguðu svona mikið fyrir hann. Annað er nokkuð gefið.

Mjög margir af bestu mönnum City er um og yfir þrítugt og það er ekkert gefið að það verði sársaukalaust að yngja liðið upp. En með Aguero verður City alltaf í titilbaráttu.


  1. Chelsea
    Morinho er ekki að fara gera miklar breytingar á liði Chelsea enda engin þörf á því. Hann gerir eins og Wenger, fáar en mjög markvissar breytingar. Chelsea er komið með lið sem á að keppa til úrslita í Meistaradeild og ég tippa á að þeir geri það næsta vetur.

Inn hafa komið þrír menn það sem af er og enginn þeirra fer í byrjunarliðið. Natan er undrabarn frá Braselíu sem við heyrum líklega ekki af næstu 1-3 árin. Begovic ætlar að taka sér ársleyfi frá fótbolta og fara á bekkinn hjá Chelsea og þriðji maðurinn er Falcao sem kemur á láni líkt og hann var hjá United í fyrra. Þar er reyndar leikmaður sem gæti slegið Costa úr liðinu nái hann fyrri styrk. Það er ekki langt síðan Falcao var stórstjarnan og Costa back up-ið fyrir hann.

Út fara að venju ungir leikmenn á láni sem væru að spila í mörgum öðrum liðum. Didier Drogba er reyndar farinn frá þeim ásamt auðvitað Petr Cech.

Byrjunarlið Chelsea segir sig nánast sjálft í flestum stöðum
Chelsea
Vörnin er aðalsmerki Chelsea og fer það miðvarðaparið fremst í flokki ásamt markmanni og varnartengilið. Þessir menn hafa mjög lítið meiðst og spila nánast alla leiki. Terry er núna að verða 35 ára og fari hann að gefa eftir eiga Chelsea menn góða menn til vara (Zouma). Reyndar held ég að allir miðverðir myndu spila nokkuð vel í uppleggi Mourinho enda mjög öflugir leikmenn allt í kring.

Chelsea er samt auðvitað alltaf að fara kaupa einhvern í sumar og ættu að verða ennþá sterkari á næsta ári.


Liverpool.
Þrátt fyrir söluna á Suarez og meiðsli Sturride er ljóst að okkar menn eiga töluvert mikið meira inni en þeir sýndu á síðasta tímabili. Brottfarir Gerrard og Johnson skilja eftir sig tvö pláss í byrjunarliðinu sem þarf að fylla og frammistaða sóknarmanna félagsins gerir það að verkum að kaupa þarf inn þrjá menn sem fara beint í byrjunarliðið. Kaup á byrjunarliðsmönnum hjá félagi eins og Liverpool flokkast jafnan sem stór kaup og hefur félagið klárlega undirbúið þetta sumar vel. Búið er að fá inn fjóra leikmenn sem ég tel fara beint í byrjunarliðið og aðra til sem auka samkeppnina mikið. Eins ættu leikmannakaup síðasta sumars að gagnast betur í vetur. Það er ekki sama pressa á þeim leikmönnum og var í fyrra og þeir hafa auðvitað verið hjá félaginu í eitt ár núna.

Það er mjög erfitt að stilla upp byrjunarliðinu en prufum þetta svona, ætli þetta sé ekki líklegt.
Liverpool
Bogdan veitir Mignolet smá samkeppni en er þó líklega veikasta staða liðsins, varamarkmaðurinn!

Gomez virðist á öllu ætla veita vörninni eins og hún leggur sig samkeppni og þá sérstaklega Moreno. Auðvitað er ekki vitað hver leikaðferð Rodgers verður en 4 manna varnarlína finnst mér líkleg. Clyne er vonandi hraustari en Johnson því Liverpool þarf menn í bakvarðastöðurnar sem spila vel rúmlega 30 deildarleiki. Alltaf finnst manni þetta vera sömu menn inná hjá Chelsea, Arsenal og City.

Lovren vona ég að verði óvæntasti leikmaður ársins og helst vona ég að hann slái Skrtel úr liðinu og myndi miðvarðapar með Sakho. fyrst og fremst vill ég þó fá alvöru stöðugt miðvarðapar sem spilar rúmlega 30 leiki. Sakho verður að vera partur af því að mínu mati. Þetta hafa t.d. Arsenal og Chelsea haft en lenda í vandræðum um leið og miðvörður dettur út. City og United voru í miklum vandræðum þarna rétt eins og Liverpool í fyrra.

Sama hvernig ég hugsa hlutverk Milner þá kemur hann alltaf út sem bein skipti á Gerrard og verði aftast á miðjunni. Hann og Henderson gætu myndað öfluga og mjög duglega miðju sem bæði getur varist og tekið þátt í sóknarleiknum. Liverpool ætti með komu Milner að verða miklu erfiðara viðureingar á miðjunni næsta vetur. Can var síðan alltaf í liðinu á síðasta tímabili og mun a.m.k. veita þessum mönnum mikla samkeppni ef hann spilar þá ekki með þeim á miðjunni. Lucas er síðan alveg í standi virðist vera og a.m.k ennþá leikmaður Liverpool. Hann gæti ennþá alveg orðið lykilmaður aftast á miðjunni þó ég sjái það ekki fyrir mér gerast úr þessu. Allen er svo kjörinn í alla aðra leiki en deildarleiki. Europa League Allen vill ég kalla hann.

Vægi Coutinho og Henderson eykst enn frekar með brottför Gerrard, báðir stigu upp í fyrra og verða að gera það aftur í vetur með betri leikmönnum með sér. Aukin gæði í framlínu Liverpool gera það vonandi að verkum að Coutinho verði fyrst og fremst notaður sem miðjumaður og leikstjórnandi í vetur. Verði meira í því að skapa fyrir aðra og í boltanum frekar en sem partur af sóknartríóinu. Lallana eigum við nánast alveg inni og hann er líklega ennþá stór partur af plönum Rodgers, stærstu leikmannakaupin 2014. Firmino er svo líklega mun betri í því hlutverki sem Coutinho var að leysa í fyrra og ætti að koma þar beint inn. Til að veita þeim aðhald eru Ibe og Markovic sem báðir gætu vel spilað sig inn í liðið.

Benteke er gríðarleg bæting á öllu því sem Liverpool bauð upp á í fyrra, sama hvort menn telja hann passa í liðið eða ekki. Rodgers er búinn að vilja fá hann í rúmlega eitt ár og er það stór munur frá Andy Carroll sem hann keypti ekki og vildi ekki nota. Carroll hefur ekkert gert síðan sem fær mann til að gráta það mikið. Tomkins Times fer vel yfir einn part sem Benteke gefur okkur á báðum endum vallarins. Þetta er leikmaður sem fer líklega beint í liðið og ég sé Sturridge ekkert endilega slá hann út er hann kemur aftur. Líklegast er að þeir spili saman og það er strax meira spennandi en allt sem reynt var í fyrra. Kaupin á Benteke og Firmino taka síðan alla pressu af bæði Origi og Ings ásamt eiginlega Ibe og Markovic.

Eins og talað er um Ings og Origi er allt sem frá þeim kemur bara bónus en líklegast eru þeir báðir töluverð bæting á Sterling (sem sóknarmenn) en hann var oft okkar fremsti sóknarmaður á síðasta tímabili. Þeir fá auðvitað ekki eins mikinn spilatíma og/eða mikilvægi og Sterling fékk í fyrra en líklega (og vonandi) erum við að vanmeta þessa leikmenn, sérstaklega Origi.

Sturridge er síðan nánast gleymdur sem eðlilegt er. Höfum þó í huga að komi hann inn heill heilsu aftur er þar á ferðinni 15-20 marka maður. Benteke tekur vonandi töluverða pressu af Sturridge.


Það er erfitt að meta hvort Liverpool hafi styrkt sig meira en hin liðin hafa verið að gera. Aftur er verið að breyta mjög miklu hjá okkar mönnum en eftir síðasta tímabil getur það ekki talist sem neikvætt. Þrír af þeim sem koma í byrjunarliðið þekkja mjög vel til á Englandi og þekkja hálfan hópinn nú þegar, þeir ættu ekki að vera lengi að aðlagast. Firmino býr svo að því að hafa fyrir tvo Braselíumenn, annan þeirra herbergisfélaga sinn hjá landsliðinu. Eins er Emre Can leikmaður sem Firmino gæti kannst við og raunar mikið frekar en Lucas.

Pressan á Benteke er síðan að vera betri en Balotelli og Lambert, ekki Luis Suarez eins og hún hefði verið fyrir 12 mánuðum. Munurinn er svona eins og að verða fyrir reiðhjóli í staðin fyrir að verða fyrir vörubíl.

Vorum í sumum leikjum í fyrra að sjá 5-6 nýja menn inná í einu og ekki má gleyma að undirbúningstímabilið var ekki neitt neitt vegna stórmóta. Rosalegt að fá inn 8 nýja menn og ná ekki að slípa þá saman fyrir mót, það er a.m.k. hægt að gera betur núna og það hjálpar að félagið er að klára öll leikmannakaup strax.

Mín skoðun er sú að enski boltinn komi mjög sterkur til baka á næstu árum í Evrópukeppnum eftir nokkur mögur ár og spái því að a.m.k. eitt enskt lið nái í úrslit Meistaradeildarinnar á næsta tímabili. Arsenal er orðið mikið stöðugra og betur stæðara en það hefur verið undanfarin áratug. United er að jafna sig á brotthvarfi Ferguson og Chelsea er að nálgast hápunkt venjulegs líftíma Mourinho í starfi (mögulega var það á síðasta tímabili). Man City er byrjað að yngja upp og eru peningar engin fyrirstaða þar frekar en vanalega. Þeir eru svo líklega með flottustu yngri flokka aðstöðu í heimi sem kannski skilar þeim einhvejrum á næstu árum.

Samkeppnin verður ekkert minna hörð á næsta tímabili en Liverpool verður vonandi samkeppnishæft aftur. Væntingar til liðsins eru rosalega litlar, sérstaklega m.v síðasta sumar og liðið líklega töluvert vanmetið, ekki síst af sínum eigin stuðningsmönnum.

Liverpool er oft hættulegt er þannig er í pottin búið.

18 Comments

  1. Ég verð bara að segja að ég hef aldrei verið jafn hræddur við Arsenal og nú. Kaupi þeir heimsklassa senter tel ég þá líklegasta í baráttunni um titilinn.

    Hvað varðar okkur Púlara þá erum við með þrælfínt lið. Gætum vel barist um fjórða sætið og jafnvel það þriðja ef allt gengur okkur í hag.
    Miðað við kaup annara liða ætla ég hins vegar að búast við fimmta sætinu og allt umfram það er plús. Benteke er góður en það gæti tekið einhvern tíma fyrir hann að aðlagast spilamennsku liðsins enda allt öðruvísi en hjá Villa.
    Ég væri líka til í að sjá meiri gæði á miðri miðjunni. Þó Hendo sé orðinn fyrirliði vildi ég mikið sjá betri mann en hann þarna. Svipaðan leikmann og Pirlo, Alonso og Schweinsteiger sem stjórnar leikjum og getur einn síns liðs rúlað miðjunni.

    YNWA

  2. Ég ætla nú ekki að vera leiðinlegi gaurinn, en þetta er alltaf sami söngurinn hjá okkur, ár eftir ár. Stuðningsmenn annarra liða gera alltaf grín að okkur fyrir það að “sumarið er tíminn” (GCD) hjá stuðningsmönnum Liverpool.

    Í fyrra voru kaupin áður en tímabilið byrjaði alveg frábær. Svo klikkaði Lovren. Can og Markovic komust ekki lið. Moreno átti sök á fullt af mörkum og senterarnir skoruðu ekki. Ég meina, fullt af fólki var ánægt með kaupin á Lambert og Balotelli! Og ég þar á meðal, hélt að Rodgers gæti unnið með þá.

    Þegar stóru kaupin, Downing, Henderson, Charlie Adam og co. komu þá var það besti leikmannagluggi allra tíma, þangað til tímabilið byrjaði.

    Það sem er hættulegt núna, og ég vona að Rodgers sé meðvitaður um það, er að setja of marga nýja leikmenn í einu inn í byrjunarliðið. Það er vissulega rétt sem Babú segir, að nú er amk. þokkalegt undirbúningstímabil með þessum nýju mönnum að baki, amk. Clyne og Milner, en Firmino og Benteke eru ekki enn byrjaðir að æfa og það eru þrjár vikur í mót. Þeir gætu því orðið ansi lengi af stað og því þurfa þeir að njóta þolinmæði.

    Ég tel því að ef við reiknum með því að allt sé frágengið með Benteke, þá spili bara annar þeirra Firmino í einu fyrstu vikurnar af tímabilinu. Stöðurnar eru orðnar nokkuð vel mannaðar þar sem þeir spila og t.d. er hægt að stilla Markovic, Ibe, Coutinho og Lallana upp fyrir aftan senterinn og svo má líka bæta Ings og Origi í þann hóp ef Rodgers ákveður að hafa kantframherja. Þeir hafa báðir verið með allt undirbúningstímabilið.

    Svo tel ég líka hæpið að segja að Milner og Clyne verði bara átómatísk bæting frá Gerrard og Johnson. Þeir eiga báðir eftir að fóta sig og þegar líður á tímabilið verða þeir vonandi bæting.

    Ég minni líka á að eflaust eiga önnur hver kaup eftir að mistakast í það minnsta. Reiknum með því að Benteke, Firmino og Clyne heppnist, þá klikka Origi, Ings og Milner svo dæmi séu tekin :/

    Gegn Stoke myndi ég því stilla þessu svona upp (með fyrirvara um að ég hef ekki séð eina einustu æfingu, veit ekkert í hvaða standi leikmennirnir eru eða hvort þeir muni eiga við meiðsli að stríða eftir þrjár vikur):

    Mignolet
    Clyne-Skrtel-Sakho-Moreno
    Can-Milner-Henderson
    Coutinho-Benteke-Lallana

    By the way – það eru bara þrjár vikur þangað til fjörið byrjar aftur!!

  3. Ívar hvorki ég né aðrir eru að spá okkar mönnum titlinum og ég er hér aðallega að sýna fram á styrk hinna liðanna. Skil ekki hvað þú ert að meina hérna? Átti ég að vera neikvæðari í garð okkar manna og sjá glugganum mest allt til foráttu?

    Glugginn í fyrra var nokkuð spennandi á svipuðum tíma í fyrra en þá var stóri munurinn að ekki var búið að ganga frá kaupum á mikilvægasta púslinu og það klikkaði mjög illa. Sanchez fór til Arsenal og við fengum Balotelli. Núna er a.m.k. búið að kaupa inn byrjunarliðs mann upp á topp og okkar fyrsta valkost. Ég held að ég hafi aldrei séð meiri fyrirvara setta á svona kaup hjá félaginu en stuðningsmenn Liverpool eru að setja á Benteke núna.

    Nánast allir sáu Lambert fyrir sér sem 3. valkost eða í álíka hlutverki og Aspas var, auðvitað aðeins meira en það en alls ekki í því lykilhlutverki sem hann gengdi á tímabili.

    Auðvitað er engin trygging fyrir því að þessir menn smellpassi allir inn í liðið og líklega verður bara helmingurinn eitthvað sem við flokkum sem góð kaup. Clyne og Milner ættu að passa vel inn í liðið. Benteke var ekkert að hefja undirbúningstímabilið núna í þessari viku, hann er búinn að vera með Villa í æfingaferð og er alveg í jafn góðu líkamlegu standi og okkar mann, fær núna 3 vikur með Liverpool liðinu, Balotelli kom 25.ágúst í fyrra eða eftir að mótið byrjaði. Firmono ætti svo ekki að taka mjög langan tíma frekar en Coutinho enda báðir á stórmóti fyrir 2 vikum.

  4. Þessi pistill er GARGANDI SNILLD, ákaflega skemmtileg lesning á köldum mánudegi

  5. “Samkeppnin verður ekkert minna hörð á næsta tímabili en Liverpool verður vonandi samkeppnishæft aftur” er nú ekki beinlínis til marks um of miklar væntingar. Veðbankarnir virðast setja okkur í fimmta sæti sem er sjálfsagt ekki skrýtið. Í fyrra urðu margir til þess að spá okkur titlinum enda aðstæður kannski aðrar. Ég held að við eigum sæmilegan séns á meistaradeildarsæti nú en að fimmta sæti sé eftir sem áður líklegast.

  6. Flott hjá Babú.
    En það verður að segjast að eftir að hafa kíkt á liðin hjá hinum liðunum, þá fyllist maður ekki beint neinni bjartsýni.
    Arsenal hópurinn er svosem ekkert spes, en þeir eru með besta stjórann, og það skilar þeim alltaf í topp fjóra. En þrjú ríkustu liðin eru með hópa sem verða illviðráðanlegir.
    Það verður hálfgert hneyksli ef united vinnur ekki titilinn miðað við hversu miklu Van Gaal er búinn að eyða af peningum frá því hann kom til liðsins. Ef af líkum lætur, þá mun hann í lok gluggans ná að eyða meira nettó heldur en Ferguson gerði á öllum sínum ferli, og toppa alla núverandi stjóra deildarinnar.

  7. Skil þig Babú, mér fannst blærinn í pistlinum vera heldur bjartsýnislegur eins og við erum oft á þessum tíma. Kannski misskilningur hjá mér.

  8. Mér finnst margir vanmeta Can, að mínu mati á hann að fara beint í byrjunarliðið, held að hann væri geggjaður sem djúpur miðjumaður. Hann býr yfir styrk og hraða og hefur góða sendingargetu.

  9. Skemmtilegur pistill Babú.

    Ég er afskaplega spenntur fyrir komandi tímabili, sérstaklega þegar maður skoðar ráðningarnar í samanburði við ráðningar fyrri ára.
    Instant burðarásar + framtíðarleikmenn,,, frábær breidd nema kannski í miðvörðum…
    Benteke – tel þetta vera manninn sem að okkur hefur vantað lengi.
    Firmino – Suarez ? kíkið bara á youtube… þetta er einn stór hæfileiki.
    Milner – ósérhlífinn og gerir alltaf það sem þarf og meira til, vanur meistari.

    Ég held að nærvera Gerrards hafi einfaldlega ekki verið að gera sig fyrir hópinn, það sást best eftir að við komumst á skrið eftir tapið gegn mufc, hann var meiddur Henderson steig upp sem og mest allt liðið, Sterling hélt áfram að klúðra dauðafærunum sínum og Coutinho var magnaður og svo kom seinni leikurinn gegn mufc!.
    Það er mín skoðun það að hafa misst af titlinum 2014, runnið á rassgatið á móti chelsea, gert upp á bak á móti Palace hafi klárað fyrirliðann að mestu, enda var hann skugginn af sjálfum sér í fyrra ( þrátt fyrir að vera markahæstur, hann er samt það góður ) og svo misttum við flottasta sóknarpar heimsins. Núna finnst mér loksins eins og búið sé að stoppa í flest göt.
    ég viðurkenni að ég var einn af þeim sem að vildi BR út eftir síðustu umferð…
    Er samt glaður að það hafi ekki gerst,,, núna 😉

    YNWA !

    p.s. “sumarið er tíminn” my ass ! WINTER IS COMING !

  10. ,,Mata og Di María væru svo báðir í liðinu ef ég ætti að stilla upp liði United.”

    Jahérna.. ef ég væri að stilla upp liðinu hjá United væri ég nú bara með einhverja aula úr unglingaliðinu inná 😀

  11. Ættlaði ekki að leggja í þetta, en góður lestur.

    Fyrir mér sýnst þetta meira um að auka bilið milli liðana sem enduðu fyrir neðan okkur. Tapa færri stigum þar. Maður er sáttur með 1 stig á leik gegn liðunum fyrir ofan. Það er ekki hægt að fara fram á meira að svo stöddu.

    En það verður að viðurkennast að það er smá topp 4 bragur á þessu. Það væri óvænt ef eitthvað lið mundi brjótast inn í þá deild á komandi tímabili.

    En ef maður mundi ekki trúa þá gæti maður alveg eins hætt að horfa.

    Áfram Liverpool !!!

  12. Mjög góður pistill

    Sammála með Sakho hann er besti varnarmaður Liverpool.

    Liðið hefur styrkst en það sama má segja um þau lið sem voru í fjórum efstu sætunum síðast.

    Ég er ekki alveg sammála liðsuppstillingunni hjá þér Babú. Held að Milner verði ekki djúpur ef við spilum slíkt kerfi verður það Can eða Lucas sem spila þá stöðu.

    Það er hinsvegar vonlaust að spá í þetta. Þegar mótið byrjar kemur í ljós hvað gerist. Fyrir tveim tímabilum spiluðum við yfir getu með mjög fáum leikmönnum og ef löglegt mark Sterlings gegn City hefði staðið hefðum við orðið meistarar. ( Kaldhæðnislegt) Suarez verið áfram og lífið orðið yndislegra 🙂

    Núna reynir á Rogers. Hann er með sterkara lið en í fyrra, það getur ekki annað verið en við skorum meira en þá! Mun það skila okkur í topp?

    Það reynir á Gaal. Hann verður að vinna titil. Liðið er búið að eyða 300 milljónum frá því að Ferguson fór! Næstum því nettó! Hann getur ekki komið með neinar afsakanir.

    Wenger hefur staðið sig stórkostlega undanfarinn áratug að halda liðinu í meistardeildinni með litla fjármuni. Þeir tímar eru liðnir. Hann hefur getað keypt þá leikmenn sem hann hefur viljað fá. Engar afsakanir þar.

    Pellegrini, úff þar er pressa! Og Sterling!
    Hann fer í að vera í bómull (ég byrjaði að fylgjat með enska boltanum þegar sjónvarpið var svart hvítt og ég man ekki eftir leikmanni sem fékk vetrafrí fyrr en í vetur) í að vera einn launahæsti leikmaður liðs sem er með fullt af launháum leikmönnum. Það spila aðrir leikmenn hans stöðu og þeir munu ekki hjálpa honum að ná árangri . Ekki frekar en Drogba hjálpaði Torres.

    Pellegrini verður að skila árangri.

    Moruinio er í sömu stöðu en hann er ekki með sömu fjármuni og áður. Skilnaðir eigenda koma niður á liðum.

    Í stuttu máli við erum á réttri leið en þetta verður erfitt. Er sáttur við að við spilum hinum megin á hnettinum vegna þess að það skilar fjármunum!

    Finnst Clyne, Gomes, Milner, Henderson, Ibe, Lallana og Ings hafa komið vel út í ferðinni.

    Er að vonast til að nýtt spine verði; Mignlot, Skrtel/Lovern Sakho, Milner, Henderson og Benteke.

    En eitt er víst þetta kemur allt í ljós 🙂

    YNWA

  13. benteke að koma.. halda balotelli.. borini og lamperd út..

    hef 100% trú á að við fáum 1 í viðbót í sumar… myndi ekki gráta það ef allen færi.

    gefa super mario eitt season í viðbót.. kannski hrekkur hann í gáng.

  14. Varðandi Can þá væri hann alltaf í liðinu hjá mér og vonandi springur hann út á miðjunni í vetur, skil ekki enn afhverju hann spilaði ekki meira þar í fyrra m.v. hvað var í gangi þar.

    Hann hefur samt ekki enn hafið æfingar og aldrei (enn sem komið er) fengið lykilhlutverk á miðjunni hjá Rodgers. Því held ég að þetta verði frekar Henderson og Milner plús meira sóknarþenkjandi miðjumaður (Coutinho) til að byrja með. Rodgers notar ekki DMC og því tippa ég á þetta í byrjun. Lucas/Allen auðvitað líka séns með þeim á miðjunni sem fyrir mér væri litlu meira spennandi miðja sóknarlega en var notast við í fyrra.

    M.ö.o. ég stilli þessu upp með Coutinho sem miðjumann og með hann þar eru bar tvö laus pláss á miðjunni.

  15. Halló allir!

    Þetta er bara ég… þessi bjartsýni þið vitið 🙂

    Það er of SEINT að byrja í gær að lesa pistlana frá ykkur 😀

    Þv?lik snilllllllld 🙂 🙂 og er eg ekki vafa (né afa) um að við erum bunir bæta okkur ÞOKKALEGA (lesist FOKKALEGA) eins og hin liðin 😉 bíðið bara og njótið því að það eru stórir hlutir í kortunum hjá okkar ástkæra liði L I V E R P O O L 🙂

    Ég er og hef alltaf verið bjrtsýnn og þegar mest er þörfin… þá er bara að koma sér vel fyrir með einn kaldan á kantinn og horfa á 25.05.05 leikinn og njóta 🙂 bætir fyrir allt, því ekkert lið (að mínu mati) hefur sýnt slíka takta OG ekki verra að sjá okkar ástkæru “8” 😉 fær hárin til að rísa á villtustu stöðum Ahahahahahahaha

    Koma svo ÖllllllllllSÖMUL
    Á F R A M 😉 L I V E R P O O L – W E ARE L I V E R P O O L TRALALALALAAAAAAAAAAA

    KVEÐJA Bjartsýni gaurinn Don Roberto 😉

  16. “Af rest þá fór Cleverley til Everton sem er áfall fyrir bæði lið.” Hahaha, klassi!

  17. Það hljóta að þurfa að verða hreinsanir einnig.

    Að mínu mati þurfum við að losa Enrique, Lambert, Allen og Borini. Þeir eiga einfaldlega ekkert erindi í Liverpool.

    Svo er þessi vandræðastaða aftasta miðjumanns. Sjáum bara hvað slík staða breytti spilamennsku Arsenal og hvernig Liverpool spilaði með Masc, Alonso og Lucas upp á sitt besta. Að mínu mati er Lucas komin af sínu besta en getur komið inn sem backup fyrir þessa stöðu. Milner er ekki þessi leikmaður frekar en Allen eða Henderson. Vissulega getur Can leyst þessa stöðu en manni hefur sýnst sem svo að Rodgers hafi meiri áhuga á því að spila honum út úr stöðu, t.d. í hafsent eða bakverði.

    Ef Liverpool kaupir Benteke og djúpan miðjumann af PL caliberi, þá á liðið góða möguleika á 3-4 sæti, ef ekki þá held ég að liðið verði aftur í 5.-6. sæti og Rodgers fær að fjúka, enda Sterling þvælan enn í fersku minni.

Búið að semja við Villa vegna Benteke

Adelaide United 0 Liverpool 2