Sion á morgun

Það verða heilir 7 leikir hjá okkar mönnum í október og sá fyrsti þeirra fer fram á Anfield á morgun. Ég hreinlega veit ekki hvað skal segja um þessa Evrópudeild. Hluti af mér lítur á þetta sem alveg hund-, drepleiðinlega keppni sem inniheldur alltof alltof mikið af ferðalögum, á meðan annar hluti horfir á hana sem kannski besta möguleika okkar á að komast í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili. Það er ekki eins og að það séu mörg stórlið í þessari keppni. Við eigum eflaust ekki eftir að mæta dýrara eða betur mannaðra liði meirihluta keppninna. Hví ekki þá að taka hana alvarlega? Nei, ég bara spyr. Ég fæ ekki með nokkru móti skilið af hverju Rodgers stillti upp mjög sterku liði á heimavelli gegn Carlisle í deildarbikarnum, en fór svo með leikskólann á Hulduheimum í útileik gegn líklegast sterkustu mótherjunum í riðlinum. En það er reyndar svo margt sem ég skil ekki, þetta er sem sagt ekkert nýtt af nálinni.

Evrópukeppni er Evrópukeppni, þótt þessi sé talsvert að baki Meistaradeildinni, bæði hvað varðar styrk og peninga. Það er til dæmis mun stærra dæmi að hefja þann bikar á loft heldur en deildarbikarinn, þó svo að mér finnist líka alltaf hálf fíflalegt að gera mjög lítið úr honum. Bikar er jú alltaf bikar, þótt mis verðmiklir séu og spurning með forgang, þurfi að setja slíkan á. Núna eru engin ferðalög að þvælast fyrir, menn eru bara í slökun á heimaslóðum og því held ég að menn hljóti hreinlega að stilla upp sæmilega öflugu liði. Gott og vel að leyfa eins og einum táningi að spreyta sig, en það mætti alveg gera einnig í öðrum keppnum og meira að segja í sjálfri deildinni. En bara ekki hrúga þeim inn öllum í sama leiknum takk.

Ég skal fúslega viðurkenna það að ég þekki akkúrat ekkert til þessa Sion liðs og hef ekkert verið að leggjast neitt í einhverja rannsóknarvinnu til að bæta úr þeim veikleika. Síður en svo, ég bara reikna með sæmilega mótiveruðum svissneskum andstæðingum sem elska það að fá að spila á hinum goðsagnakennda Anfield. Þeir hafa ekki verið að gera neitt frábært mót í heimalandi sínu, eru sem stendur í 5. sæti af 10 liðum og hafa spilað 10 leiki. Af þeim þá hafa þeir unnið 4, tapað 4 og gert 2 jafntefli. Þeir hafa tapað síðustu 2 leikjum sínum í deildinni, en unnu R. Kazan í fyrsta leiknum í Evrópudeildinni á heimavelli sínum. Reto Ziegler er eini leikmaðurinn sem ég hef heyrt um sem spilar með liðinu, en hann var nú á sínum tíma orðaður við okkar menn, þótt nokkuð efnilegur vinstri bakvörður sem var meðan annars á mála hjá Juventus. Það varð þó aldrei neitt úr stráksa og er hann núna bara þar sem hann er, líður eflaust vel bara í sínum heimahögum.

Sion hafa ekki mikið verið fyrir það að skora mörk, hafa skorað heil 13 mörk í þessum 10 leikjum sínum í deildinni. Þeir hafa svo hleypt inn 13 mörkum á móti. Þeirra markahæsti maður heitir Konaté og hefur skorað 5 af þessum 13 mörkum og þar fyrir utan skoraði hann bæði mörkin í 2-1 sigri á R.Kazan. Greinilega nokkuð öflugur framherji þarna á ferð og klárlega hættulegastur af þessum mótherjum okkar. Þetta er 22 ára gamall gaur sem kemur frá Senegal. Carlitos er svo annar sem hefur aðeins verið að skora, en hann hefur sett 3 mörk. Hann er 33 ára gamall Portúgali. Það er sem sagt ekkert því til fyrirstöðu að keyra á þetta lið og knýja fram sigur og góða stöðu í riðlinum núna strax í upphafi keppninnar.

Ekki verður auðvelt að ráða í uppstillingu okkar manna. Miðað við fyrsta leikinn í riðlinum, þá býst ég nú ekki við sterkasta mögulega liðinu. Engu að síður, þá elska leikmenn að spila í Evrópukeppnum, þó svo að þetta sé sú minni. Ég er ansi hræddur um að það sé mun stærra í þeirra huga að spila svona leiki heldur en leiki gegn Carlisle. Ég vona svo sannarlega að Brendan taki sig taki og klári þennan leik, það má hvíla á seinni stigum ef menn tryggja sér sigur í riðlinum fljótlega. Fyrr ekki. Með öflugra liði í fyrsta leik, þá hefði eftirleikurinn getað orðið nokkur léttari, en það þýðir víst lítið að tuða um það núna. Ég vil sjá tveggja framherja kerfi áfram og þá sér í lagi á heimavelli gegn liði eins og Sion.

Ég mun því stilla upp eins og ég vil sjá liðið, því ég hef ekki minnstu glóru um uppsetningu Brendan Rodgers eða hvernig hann ætlar framhaldið í þessari keppni. Ég myndi halda áfram með vörnina eins og hún hefur verið, reyna að spila hana aðeins saman. Ég myndi aftur gefa Rossiter sénsinn inni á miðsvæðinu, hann stóð sig vel síðast og ég held að það mæði minna á miðsvæðinu í þessum leik en öðrum í sjálfri deildinni. Ég myndi svo vilja sjá Can og Coutinho sitthvorum megin í tígulmiðju, með Lallana þar fyrir framan. Fremstir svo Origi og Ings. Já, ég veit. Það eru akkúrat engar líkur á þessu, en maður má alveg láta sig dreyma.

Mignolet

Clyne – Skrtel – Sakho – Moreno

Can – Rossiter – Coutinho
Lallana

Origi – Ings

Já, aðeins að leyfa Milner að pústa og það verður ekki tekinn séns á Sturridge fyrir leikinn gegn Everton. Lucast nýtist hvað verst í svona leikjum, en þeim mun betur í leikjum eins og um næstu helgi. Það væri reyndar allt í góðu að leyfa Allen kallinum að spreyta sig í stað Rossiter, en ég væri alveg til í að sjá strákinn aftur, þetta verður ekki erfiðara verk en gegn Bordeaux síðast. Ibe er svo annar sem gerir smá tilkall til sætis, en hann hefur ekki virkað mjög áhugasamur á mig í þau skipti sem hann hefur spilað.

Ég er nokkuð bjartur fyrir þennan leik og ætla að spá okkur öruggum 3-0 sigri. Já þið lásuð rétt, við erum að fara að skora heil 3 mörk. Danny Ings heldur áfram á fullu og setur 2 kvikindi, og svo mun Lallana setja eitt. Þessi sigur mun setja okkur í ansi fína stöðu í riðlinum.

19 Comments

  1. Sælir félagar

    Moreno er óvart tvítekkinn þarna en mijan á greinulega að vera Can – Rossiter – Coutinho og svo Lalli í holunni. Mér líst vel á þetta hjá SSteini og kvitta undir þetta allt nema við fáum á okkur mark hvort sem menn trúa því eða ekki. Mín spá 4 – 3.

    Það ernú þannig

    YNWA

  2. Ég vil ekki sjá Coutinho nálægt byrjunarliðinu á morgun.

    —————-Bogdan
    Gomez–Toure–Sakho–Moreno
    —————Rossiter
    ———–Allen—–Lallana
    —————–J.Ibe
    ———Origi——–Ings

    Nákvæmlega svona vil ég sjá liðið.

  3. Þetta leikkerfi er greinilega tekið beint upp úr teikniblokkinni hjá Rodgers.

  4. Fínt að henda Wisdom og Ilori í vörnina núna. Nei, bíddu, þeir eru í láni. Gott að hafa stóran hóp og hægt að nota Enrique. Nei, bíddu, hann fær ekkert að vera memm. Líklegt að spilað verði 3-5-2 og örugglega ágætis lausn að setja Markovich á vinstri kantinn á meðan Moreno fær break fyrir Everton leikinn. Nei, bíddu, hann er í láni.

    Sammála að það ætti að spila sterku liði og klára riðillinn sem fyrst. Þó má hvíla Sturridge, Coutinho, Lucas, Skrtel og Milner. Býst við áframhaldandi 3-5-2. Þetta ætti að vera nógu sterkt lið til að klára Sion;

    Bogdan
    Gomez Toure Sakho
    Ibe Rossiter Allen Moreno
    Lallana
    Ings Origi

    Væri fínt svo að getað skipt Sakho, Moreno og Ings öllum útaf á 60.min.

  5. Heyrðu þessari fleygt út úr rafsuðuhjálmi:
    “Efðú gefur skít í Evrópukeppnina þá gefur meistaradeildin sko skít í þig”

    held að það sé eitthvað til í þessu…..
    :O)

  6. Sælir vinir,

    Þurfum við eitthvað að skeggræða þennan leik? Er þetta ekki bara borðliggjandi sigur rauðklæddra? Er Danni okkar Ings ekki að fara að halda áfram að heilla? Skora tvö og berja sig sautján sinnum í lærið því hann setti ekki þrennu? Er Sakho ekki að fara að hræða líftóruna úr sóknarmönnum andstæðingsins þar til þeir hægja sér?

    Er lífið ekki svo einfalt?

    Ég ætla í hið minnsta að sprengja nokkra Carlsberg, koma mér fyrir í sófanum og horfa á þennan leik hinn rólegasti. Ég get ekki fyrir víst verið viss um að við munum leka inn eins og einu til tveimur asnalegum mörkum. Ég get ekki vitað að við skorum fleiri mörk en þeir. Vonandi. Ég veit hinsvegar fyrir víst að Elmar Can mun halda uppteknum hætti og vera ótrúlega sexy. Þessi skeggrót strákar…

    Það eitt er víst. Kojufyllerí og kynþokki þýska ástarpungsins. Það er gott að vera Liverpool aðdáandi um þessar mundir.

    Meira var það ekki nú,
    YNWA

  7. Ensk overrated lið eru á hraðferð að tryggja að fjórða sætið gefi lítið.
    Þessi keppni er því að verða ennþá mikilvægari fyrir ensku liðin, þó líklega ekki fyrr en 2017.

    Hvað um það, ég vil enga vindlaspilamennsku heldur brýna þetta alla leið.

    Þó vil ég sjá Rossiter inni. Hvíla Milner og auðvitað Studge. Aðrir skulu vera klárir.

    Sjálfsagt verða þrír miðverðir, Can þar á meðal. Eftir 2-0 á þrítugustu vil ég að kallinn breyti í 2 miðverði og ýti öllum framar með Can í DM.

    Látum tvo miðverði stjórna okkar þriðjungi þar sem samskipti verða einföld og flæðið rökrétt.
    Vinnum þetta klárlega.
    YNWA

  8. Það er ekki séns að við förum að stilla upp einhverju byrjunarliði gegn þeim. Það eru tveir leikir í næsta leik gegn Everton og hann skiptir miklu meira máli. Það gengur ekki að allt byrjunarliðið sprengi sig á svona leik. Það eru sjö leikir í þessum mánuði og segir sig sjálft að það þarf að dreifa leikjaálginu. Það þýðir ekki að tjalda til einnar nætur.

    Allt varaliðið, bekkjamenn og ungir og upprennandi leikmenn verða að spila þennan leik. Það er ekkert annað í stöðunni ef liðið ætlar að halda haus í vetur. Reyndar verður að fylla upp í byrjunarlið í þessum leik líklega með A-liðsmönnum. Það er of mikið af meiðslum sem stendur.

    Bogdan

    Gomez -Toure – Can

    Ibe – Allen- Rossister – Moreno
    Lallana

    Origi – Benteke

    Mér er meinilla við að stilla upp moreno, en í hreinskilni sagt þá veit ég ekki hver gæti spilað þessa stöðu annar en hann. Ef Benteke er heill væri hugmynd að hann spilaði þennan leik því hann er ekki eins þreittur því hann spilaði ekki gegn Aston Villa. Þetta lið er þrususterkt og hver veit. Kannski vinna þeir leikinin 2-0

  9. Fyrst það á að gefa kjúklingunum tækifæri í þessari keppni, þá er það ofar mínum skilningi af hverju Texeira fær ekki tækifæri. Ég myndi prófa hann í kvöld.

  10. Update, var að lesa að Texeira væri ekki í Evrópudeildarhópnum svo hann er ekki gjaldgengur

  11. Liverpool: Mignolet, Clyne, Toure, Gomez, Can, Lallana, Rossiter, Allen, Ibe, Origi, Ings.

    Subs: Bogdan, Coutinho, Sakho, Moreno, Brannagan, Randall, Chirivella

Kop.is Podcast #98

Byrjunarliðið gegn Sion