Rubin Kazan á morgun

Annað kvöld kemur rússneska félagið Rubin Kazan í heimsókn á Anfield í þriðju umferð riðlakeppni Evrópudeildarinnar og í jafnframt fyrsta heimaleik Jurgen Klopp sem stjóri Liverpool. Fyrir tveimur vikum var kannski ekki neitt sérstaklega mikil spenna fyrir þennan leik en ég held að manni sé óhætt að fullyrða að annað sé upp á teningnum í dag.

Liðið lék sinn fyrsta leik undir stjórn Jurgen Klopp um síðustu helgi í útileik gegn sterku liði Tottenham. Leiknum lauk með 0-0 jafntefli en frammistaða og holning Liverpool liðsins, svona skömmu eftir ráðningu Klopp, hefur hlotið mikið lof. Liðið sýndi mikla baráttu og var taktískt mjög þétt þó smá bit og gæði hafi vantað í sóknarleikinn. Við getum ekki erft smá bitlausan sóknarleik þegar fimm leikmenn sem spila stór hlutverk í sóknarleik liðsins eru frá vegna meiðsla, þar á meðal þrír af fjórum framherjum liðsins.

Sem betur fer þá virðist stefna í að megnið af þeim sé að snúa aftur í liðið og gætu þeir Sturridge, Benteke og Firmino allir látið sjá sig aftur í leikmannahópi liðsins fyrir leikinn á morgun eða heimaleikinn gegn Southampton á sunnudaginn. Það ætti að koma með aukin gæði í liðið og fögnum við því. Fyrirliðinn Jordan Henderson, Danny Ings, Joe Gomez og Jon Flanagan verða allir frá í einhvern tíma í viðbót en það styttist líklega í að Dejan Lovren og Jordan Rossiter snúi aftur til baka úr meiðslum.

Ég ætla að játa mig nokkurn veginn sigraðan og viðurkenna að ég veit nú ekki mikið um þetta blessaða Rubin lið. Þeir eru á botni riðilsins – sem er nú frekar bragðdaufur satt að segja – með eitt stig en Liverpool og Bordeaux með stigi meira. Sion situr á toppnum með fjögur stig og sigraði meðal annars Rubin.

Miðað við það sem maður les þá er þetta Rubin Kazan lið ekki merkilegt. Þeir eru í 12.sæti af sextán liðum í heimalandinu með tíu stig eftir tólf leiki. Það er enginn leikmaður í þessu liði sem ætti að teljast eitthvað mikil ógn fyrir Liverpool og liðið sjálft þykir ekki merkilegt. Þekktasta nafnið í liðinu ætti líklega að vera Diniyar Bilyaletdinov sem spilaði í smá tíma með Everton í ensku deildinni og ekki gerði hann nú beint einhverjar rósir.

Allavega, þetta ætti að vera skyldusigur fyrir Liverpool. Eins og reyndar leikurinn gegn Sion átti að vera og líklega Bordeaux en það er liðin tíð. Ætli Liverpool sér áfram í Evrópudeildinni þá þarf liðið að taka skref í þá átt og vinna Rubin á Anfield – helst sannfærandi.

Það er kannski svolítið erfitt að spá fyrir um hvað Klopp hyggst gera í þessum leik. (Ég fæ enn smá gæsahúð og set um smá glott þegar maður talar um Klopp sem stjóra Liverpool, kannist þið við það líka?) Rodgers notaði fyrstu tvo leiki keppninar í að gefa „varamönnum” og yngri leikmönnum liðsins spilatíma en það þarf alls ekki að vera að Klopp ætli sér að gera það líka, persónulega þá efast ég um að hann ætli að hvíla og rótera í þessum leik. Fyrir því hef ég tvær kenningar.

Í fyrsta lagi þá eru meiðslin í hópnum búin að vera svo mikil að það væri nokkuð erfitt að ná saman í eitthvað þétt og gott „B-lið” fyrir leikinn og þar sem margir lykilmenn ættu að vera að koma til baka úr meiðslum þá gætu þeir fengið mikilvægar mínútur til að komast í betra leikform fyrir nokkra mikilvæga deildarleiki á næstu vikum.

Í öðru lagi þá held ég að Klopp vilji fara langt í þessari keppni og muni stilla upp eins sterku liði og hægt er. Þar sem hann tók við liðinu frekar seint og hefur ekki fengið marga daga með nýja leikmannahópnum sínum þá gæti hann litið á þetta sem afar mikilvægan leik til að aðlaga leikmenn enn betur að hans hugmyndum og leikstíl. Ég held að þetta sé lykilþátturinn í því að við munum sjá sterkt lið á morgun.

Það er erfitt að spá fyrir um hvernig liðinu verði stillt upp, þá sérstaklega í ljósi þess að það eru mikilvægir sóknarmenn að koma til baka eftir meiðsli en stór spurning hvort þeir séu komnir í nógu gott stand til að spila á svona háu tempói og krafti strax. Ef ég ætti að giska þá myndi ég telja að liðið muni líta út eins og í síðasta leik.

Mignolet

Clyne – Skrtel – Sakho – Moreno

Milner -Lucas – Can
Lallana – Coutinho

Origi

Ég held að Klopp muni vilja halda miðjunni og sérstaklega vörninni óbreyttri frá því í síðasta leik og muni leitast eftir því að byggja upp á ákveðnum þáttum þar. Lallana og Coutinho stóðu sig vel í hápressunni í síðasta leik og eru þeir tveir mest skapandi leikmenn liðsins í dag af þeim sem eru pottþétt heilir fyrir leikinn. Origi átti fínan leik síðast og hljóp eins og ég veit ekki hvað, held að hann muni örugglega byrja þennan leik þess vegna nema að Sturridge sé orðinn alveg 110% klár í slaginn sem Klopp gaf í skyn að hann væri líklega ekki orðinn. Jafnvel þó hann væri klár þá reikna ég með að Origi byrji og fái þarna smá „verðlaun” fyrir að leggja hart að sér um daginn. Vonandi fáum við að sjá sem flesta af þeim sem hafa verið á meiðslalistanum í hóp á morgun.

Vonandi munum við fá að sjá sömu áræðni, dugnað og baráttu og við fengum að sjá síðustu helgi. Nú hafa leikmenn fengið góðan tíma á æfingasvæðinu með nýja stjóranum og þjálfarateymi hans svo vonandi er gott orðið enn betra. Fyrsti heimaleikur Klopp, Evrópuleikur og allir í stuði.

Þetta er skyldusigur. Við eigum að vinna góðan og þægilegan sigur á Rubin Kazan á Anfield, með fullri virðingu fyrir þeim þá eiga þeir ekki að eiga neinn séns í Liverpool í þessum leik. Ég vona að liðið komi einbeitt til leiks, reyni að klára leikinn sem fyrst og geri Rússunum lífið leitt.

Ætla að spá 3-0 sigri okkar manna en vona svo innilega að hann verði enn stærri. Origi, Lallana og Sturridge með mörkin.

9 Comments

  1. Ég á von á frábæru Evrópukvöldi á Anfield þar sem liverpool aðdáendur sýna Klopp afhverju hann valdi rétt með að fara til Liverpool.
    Spái öruggum 2-0 sigri á morgum þar sem liðið klúðra nokkrum dauðafærum en sigurinn verður aldrei í hættu. Mikill pressa á gestina alla leikinn og þeir ráða ekkert við okkar menn á morgun.

    p.s er ekki samála því að útileikur gegn Bordeaux sé skildusigur hjá einhverju liði í Evrópukeppni. Ef maður skoðar úrslitinn í Evrópukeppninni og meistaradeildinni unfanfarinn ár þá sér maður að þessi svokölluðu minni lið eru oftar en ekki að bæta sig mikið og útileikir gegn þeim eru einfaldlega mjög erfiðir leikir.

  2. Klopp er að grilla bresku pressuna í viðtölum,stórskemmtilgur maður þarna á ferð sem smellpassar fyrir okkar lið,,,,,við vinnum stórann sigur á morgunn 7-0

  3. Sturridge verður ekki með – Klopp sagði það á fundinum í gær.

  4. Frábær upphitun að vanda. Sammála með að Bordeaux er alls enginn skyldusigur og jafntefli þar úti voru fínustu úrslit, sérstaklega miðað við spilamennsku okkar mann.

    Hlakka mikið til að sjá leikin i kvöld en fyrir 2 vikum siðan þá kveið eg leikjarins. Er á bleiku skýi enda er fokkings Jurgen Klopp okkar maður nuna og verður i nokkur ár amk.

    Spái 3-0 þar sem Origi mun stimpla sig enn betur inn.

    Come on you reds!!!!!

  5. Nú er ég sammála því að við eigum að vinna Rubin Kazan á heimavelli – alltaf. Hins vegar er kannski vert að taka það fram að þetta er liðið sem var í potti 1 þegar dregið var í riðla. Þetta er ekki Höttur á Egilsstöðum en þeir eiga líklega eftir að láta hafa fyrir sér.

  6. Ég vonast að sjálfsögðu eftir sigri. En miðað við að liðið hefur einu sinni skorað meira en eitt mark í leik í síðustu skrilljón leikjum, og þá var Sturridge með (sem verður væntanlega ekki í kvöld), þá vonast ég eftir 1-0 eða mögulega 2-1. Held það taki tíma að hamra meira sjálfstraust í þetta lið.

  7. Sælir félagar

    Klopp á Anfield. Það býður ekki uppá annað en taumlausa skemmtun og gleði. Stuðningsmenn liðsins munu keyra upp stemmingu sem verður mögnuð. Ég hlakka til og spái 3 – 0 og koma svo Liverpool.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  8. Sammála þeim sem eru bjartsýnir núna enda allar líkur á að handbragð þjálfarans líti dagsins ljós í dag.

    2-4 mörk er fullkomlega raunhæft þrátt fyrir veiklaða sóknarlínu og við það skal ég standa hvað sem tautar og raular. Origi stóð sig vel í síðasta leik og hans form mun stíga í kvöld.

Coutinho, væntingar og hlutverk

Frá stjóranum