Er það gamla orðin nýtíska?

Svona þegar mesta bræðin rennur af manni eftir arfavonda frammistöðu gærdagsins þá hef ég verið að velta fyrir mér stöðunni í þessari blessuðu ensku deild sem er satt að segja afar óvenjuleg og er núna þegar hún er rétt að verða hálfnuð ekki lengur hægt að afskrifa sem þannig að einhver “bólulið” séu u.þ.b. að fara að springa.

Á topp tíu í enska boltanum þessa dagana eru þrjú nöfn sem margir hafa verið að bíða eftir að springi á limminu, Leicester auðvitað á toppnum en svo eru lið Crystal Palace og Watford stutt undan. En eru þessar bólur eitthvað að fara að springa? Er það raunverulegur möguleiki að það verði allavega eitt þeirra í Meistaradeildinni næsta haust?

Leikur gærdagsins var vissulega illa leikinn af hálfu okkar manna en það verður heldur ekki litið framhjá því að upplegg heimamanna í gær virkaði algerlega. Tvær fjögurra manna varnarlínur sem liggja aftarlega og lítið svæði á milli þeirra. Vinnusemi í liðinu aðalsmerkið og mótherjanum leyft að vera með boltann á þeim svæðum þar sem minni skaði er af og á móti gerð alvöru varnaratlögu um leið og boltinn er komin á hættusvæðin.

Ísland undir Lars Lagerback anyone?!? Ef rýnt er í varnarstöðu þessara liða myndi ég segja að hún væri ca. svona…og svona eru liðin tilbúin að standa lungann af leiknum:

442

Hér eru vissulega ólíkar útfærslur. Watford dúndrar fram á tvo sentera og láta kantmennina svo fylgja, Leicester hefur Mahrez sem teiknar upp stungur fyrir öskufljótan framherja og Crystal Palace færa Cabaye inn í hættusvæðin til að elta senterana og færa til kantmennina. Öll þessi lið leggja mikið upp úr uppsettum leikatriðum. Nákvæmlega uppskriftin sem er að fleyta okkur á EM, Kolli fremstur til að halda bolta og Jón Daði yfirleitt að berjast með honum, Gylfi teiknar upp en Aron situr. Vinnusemi og vinnusemi.

Og hvernig virkar þetta á alheimskerfið 4-2-3-1?

Til að það virki þarf að koma boltanum á bakvið varnir þessara liða og það er hægara sagt en gert þegar bakverðir sitja meira og minna eða að miðjumenn sitja fyrir þá í skyndiupphlaupum og hika ekki við að fara inn á svæðin í hjálparvörn. Myndi teikna þetta upp ca. svona, rauðu svæðin eru þau sem munu ná að búa til hættu gegn þessum liðum:

442meðrauðum

Þegar 8 leikmenn eru tilbúnir að verjast og berjast í svo þéttriðnum línum eru nefnilega ekki mörg svæði sem hægt er að þræða í gegnum en þessar þrjár eru augljósar. Þegar stillt er upp með 4-2-3-1 á móti er um tvennt að ræða inn í svæðin gegn bakvörðunum. Annað hvort gríðarlega leikna og/eða fljóta kantmenn sem eiga frekar auðvelt með að fara framhjá bakverði til að flytja svo boltann inn á hættusvæðið með kross, sendingu eða einfaldlega einstaklingsframtaki.

Hin leiðin eru overlappandi bakverðir sem krossa svo inn í box sem hefur verið fyllt af sóknarmönnum.

Vandi Liverpool í dag gegn þessum liðum er að við eigum einfaldlega ekki þessa kantmenn. Ibe er sá eini sem er nálægt því og verður held ég góður í því að lokum en það vantar enn stöðugleikan. Hinn slíki leikmaðurinn var Markovic en við vitum hvert hann fór. Hugmynd með að vera með Ings og Sturridge í þessum stöðum hefur farið á meiðslabekkinn með þeim. Í leiknum gegn Watford tókst okkar mönnum aldrei að komast á bakvið bakverði á þennan hátt. Aldrei. Ekki gegn Newcastle heldur. Svo þá aðferð notum við ekki.

Þá er það overlappandi bakverðir. Þar hefur Moreno átt góða spretti lengst um en var slakur í gær. Hættan hefur mest komið hans megin og t.d. í leiknum gegn Newcastle átti það að skila okkur jöfnunarmarki. Clyne aftur á móti hefur mjög oft komið sér í fínar stöður en hann virðist eiga mjög erfitt með sendingarnar inní boxið, alltof oft á hann slaka sendingu í fínni stöðu og í leik eins og í gær var það af einhverjum ástæðum þannig að hann sneri alltaf til baka áður en hann sendi. Vonandi lagast það en í augnablikinu er það þannig að Moreno hefur klárlega sýnt það af sér að ná að skapa ógn en svo má auðvitað velta því upp hvort orkan hans er að dvína.

Rauða svæðið inn í “fjarkanum” sem er svæðið sem liggur inni í fjarkanum milli hafsenta og miðjumanna stendur svo og fellur með framherja og “falskri níu” í 4-2-3-1 kerfinu. Einn senter þarf að taka til sín í raun tvo varnarmenn til að valda usla sem nýtist honum sjálfum, fölsku níunni og öðrum miðjumönnum að sækja inní. Eigum við slíkan senter? Þarna þekkjum við t.d. Lewandowski í liði Dortmund…Zlatan hjá PSG og Suarez hjá Barca. Ætla bara að leggja þeirri umræðu hjá okkur.

Þetta er alls ekki bundið við okkar menn. Sama hefur átt við um Chelsea og United. Þessi upplegg liðanna hafa gefið færi á því að lið séu með bolta í drep en ná aldrei að skapa neitt. Svo þegar “boltaliðið” slekkur augnablik á sér koma útfærar skyndisóknir sem skila marki…eða set-piece og marki úr því.

Hvert verður svarið? Sennilegast er að leitað verði að betri mönnum í leikstöðurnar sem á að leiða til þess að þessi lið nái að leysa 442 kerfið eins og PSG, Barca, Real og Bayern gera. Í okkar tilviki þarf nokkra til held ég, eða dramatíska bætingu nokkurra leikmanna. Sífellt fleiri lið virðast átta sig á því að þéttu varnarlínurnar skila miklu og við eiginlega höfum ekki efni á því að tapa miklu fleiri stigum…eða halda bolta í fleiri leiki án þess að skapa færi.

Er kannski að koma að því að við sjáum bara menn hlaða í 4-4-2 á móti þessu kerfi þar sem boltanum verður komið hraðar fram á völlinn, gamaldags “wingers” fari á bakverði og tveir senterar vinna í ferningnum milli hafsenta og miðjumanna.

Svei mér þá, er það ekki bara skárri kostur?

6 Comments

  1. Sælir félagar

    “Aftur til framtíðar” segir Maggi í stórgóðum pistli sínum. Ég held að lið verði að geta spilað allar þessa uppsetninga og verði að hafa mannskap í það. Þetta gamla 4-4-2 með hröðu breiki á sóknarliðin verður að leysa og af hverju ekki að nota þeirra eigin meðul á þá sem spila það. Geta svo farið í 4-2-3-1 þegar það á við.

    Það er nú þannig

    YNWA

  2. Þetta 442 sem er að “verða” svo vinsælt hjá slakari liðum virkar varla fyrir topplið. Lakari liðin reiða sig líka á sitja djúpt og hafa lítið pláss á milli línanna. Þegar andstæðingurinn sækir eru svo forsendur til skyndisókna með fáum mönnum. Ef bæði liðin spila svona varfærnislega þá gerist líklega ekki neitt allan leikinn.

    Andstætt því sem hann segir í greininni sem #1 vitnar þá er þetta ekki bara spurning um að fá fleiri menn á tiltekna staði heldur líka spurning um pláss. Í leiknum gegn Watford höfðu þessir örfáu sóknarmenn þeirra fullt af plássi til þess að senda í þegar okkar menn voru frammi. Varnarmennirnir hefðu þurft að vera að minnsta kosti jafn sprettharðir og sóknarmenn Watford til þess að ná boltum sem fóru í eyðurnar. Enn betra hefði verið ef samspilið hefði ekki klikkað þannig að Watford hefðu ekki náð boltanum.

  3. Sæl og blessuð og takk fyrir taktíkina.

    Mjög gaman að skoða þetta og velta vöngum. Litlu strákarnir okkar, Kútinjó, Firminó og Lallanjó áttu ekki roð í tröllin á vörninni og hið sama má segja um þá brothættu Skrtel og Sakho gagnvart beinskeyttum sóknarmönnum Watford. Sjúddhefkúddhef – Origi og Benteke hefðu a.m.k. gefið meiri þunga í sóknarleikinn þótt fáir hefðu lagt þá til fyrir leik. Tel samt líklegt að fátt hefði komið út úr þeirri stöðu.

    Skandallinn er skeður og nú þarf að setja upp form sem virkar gegn þessum afturhaldsseggjum. Það vakti reyndar athygli mína í fyrri hálfleik hvað Watfordmenn voru þrátt fyrir allt óragir að hendast fram á völlinn þótt þeir væru markinu yfir. Bússinn var ekki alltaf í stæðinu, síður en svo. Við nýttum bara ekki svæðið sem myndaðist og svo gátu þeir bakkað að vild þegar leið á leik.

    Barcelona tætir hvað eftir annað í sig svona afturliggjandi varnir og þar leka vissulega gæðin af hverri stöðu. Held menn hafi séð fyrir sér eitthvað viðlíka spil hjá okkur en þar er augljóslega ekki sami standardinn í boði.

    Svo … eitthvað nýtt þarf að bjóða upp á! Er bjartsýnn fyrir næsta leik. Segi það og skrifa. Spáði því að þetta haust yrði ekki taplaust og svei mér þá – sú spá rættist. Sjáum hvort karlinn er ekki bara í stuði og spáir sigri í næsta leik. Kannske ekki the beginning of the end en fremur the end of the beginning.

  4. Það er töff prógram framundan. 5 leikir á 13 dögum. Vona að við ráðum við það, og að við verðum komnir með eins og tvö ný varnartröll í janúar.

  5. Geggjaður pistill!

    Þoli ekki alla þessa CAM-a sem eru að troðast fyrir hvor öðrum í þessum 3 í 4-2-3-1. Þetta er svona svipað og Arsenal var alltaf, Rodgers var að koma liðinu á einhvern þannig stað.

    Varðandi hvernig á að countera þetta 4-4-2 er eins og þú segir að hafa breidd á vellinum og var ég einmitt að horfa á myndband í dag frá monday night football þar sem henry fer yfir það hvernig Pep vildi láta Barcelona. Á mikið við þennan pistil hugsa ég. https://streamable.com/u4uj

    Annars veit ég ekkert um fótbolta taktík en þennan einfaldleika skil ég.

Marko Grujic – Fyrstu kaup Klopp

Kop.is Podcast #106