Verðlagning Sýnar

**EÖE:** Ég hef áður reynt að fá fram [umræðu um verðlagningu á enska boltanum](http://www.kop.is/gamalt/2007/06/27/19.16.34/). Það var gert þegar að upphaflega var tilkynnt um verðin fyrir tæpum mánuði. Núna hafa eflaust flestir fengið símtöl frá Sýn um áskrift að enska boltanum í vetur. Ég hef allavegana fengið það símtal og samþykkti með hangandi haus að punga út rúmlega 9.000 krónum á mánuði fyrir það að horfa á fótbolta á Sýn (reyndar samþykkti ég eingöngu kaupin gegn því að sölumaðurinn lofaði því að segja yfirmönnum sínum að mér þætti þetta fáránleg verðlagning).

Þar sem ég bý einn get ég réttlætt slík útgjöld, en ég get varla ímyndað mér að slíkar tölur séu sjálfsagt mál hjá fólki sem þarf að sjá fyrir fjölskyldum. Ég man ekki til þess að Sýn hafi lækkað verð hjá sér þegar þeir misstu enska boltann (það er fjarstæða að halda því fram að sá spænski hafi á komið í stað þess enska) og því finnst mér mjög einkennilegt að endurkoma boltans leiði til slíkra verðhækkanna.

Daði Rafnsson hefur skrifað smá gestapistil um þetta mál, sem við Kristján höfum ákveðið að birta hér. Ég vona að þetta leiði til **yfirvegaðrar og góðrar umræðu hér á blogginu.** Það virðist vera sem svo að þetta sé hitamál hjá öllum aðilum og því einkennist umræðan oft af æsingi.

Ég hef ákveðið að senda sjónvarpsstjóra Sýnar tengil á þessa færslu í von um það að fá einhver svör (nota bene, það er laugardagur þegar þetta er skrifað og því á ég svo sem ekki von á að hann svari fyrr en í næstu viku, þannig að tökum þessu rólega ef slíkt dregst).

Þennan óháða fótboltavef (í þeim skilningi að hann er eign okkar, en ekki fyrirtækja) sækja í hverri viku fleiri þúsundir knattspyrnuaðdáanda og það er óhætt að fullyrða að langstærstur hluti þessa hóps hafi eytt umtalsverðum upphæðum í kaup á fótboltaútsendingum í sjónvarpi á undanförnum árum.

Frá mínu sjónarhorni snýst þetta ekki um einstaka þuli, hvort manni finnist Höddi Magg skemmtilegur eða Arnar Björns leiðinlegur. Ég er á því að Sýn sé frábær stöð, sem veiti frábæra þjónustu. En við sem kaupendur þjónustunnar áskiljum okkur hins vegar rétt til þess að gagnrýna verðlagningu þegar okkur finnst hún vera óhófleg.

Með von um góða og málefnalega umræðu.

– Einar Örn

—-

copy.png**Daði**: Við vorum að ræða saman nokkrir dyggir og kommentaglaðir lesendur um það að nú líður að byrjun tímabils og það vantar alvöru umræðu í netheimum um verðhækkunina á Enska boltanum í vetur og verðskrá Sýnar 2. Manni heyrist að þrátt fyrir að einhverjir séu alsælir með það fyrirkomulag sem verður við lýði, séu flestir að fara að kaupa sér áskrift með hangandi haus.

Við sem vorum með Skjá Sport og enga aðra áskriftarstöð í fyrravetur borguðum tæplega 2.000 kr. fyrir á mánuði. Það fannst okkur sanngjarnt og gott verð fyrir frábæra þjónustu, enda er þetta eina sjónvarpsefnið sem skiptir okkur verulega miklu máli. Svo varð útboð á réttinum og samkeppnin færði Sýn enska boltann á ný.

Nú býst maður við eðlilegum hækkunum milli ára en þau undur og stórmerki urðu að nú þurfum við sem vorum bara með Enska Boltann í fyrra að borga 4.390 kr. á mánuði fyrir að vera bara með Sýn 2. Þetta er ótrúleg hækkun á milli ára.

Fyrir nokkrum vikum var Hörður Magnússon að reyna að útskýra verðhækkanirnar í spjallþráð hér á blogginu og er það mjög vel að starfsmaður 365 svari fyrir þær. En eftir að ég kom með nokkrar athugasemdir í þeim þráð var fátt um komment frá Herði, í raun ekki neitt. Nú skil ég það vel, hann ákveður ekki verðið, heldur yfirmenn hans og þeim hefur ef til vill ekki verið vel við það að hann væri í svona opnum orðaskiptum á netinu um mál sem er þeim erfitt í meðförum.

Það sem ég benti Herði á en fékk engin svör við var eftirfarandi:

– Ég veit að við búum við mjög góða þjónustu hér á landi miðað við flest önnur lönd hvað varðar enska boltann.
– Ég skil líka mjög vel að fyrirtæki umbuna þeim sem eru með meiri viðskipti og finnst fátt eðlilegra. (en hlutverk fjölmiðla er að breytast. Krafan frá neytendum er að fá markvisst efni á sanngjörnu verði en ekki að þurfa að kaupa risapakka af allskonar dóti sem þeir vilja ekki til að fá góðan díl).
– Hörður benti á að með samkeppni hefði Stöð 2 gjörbreytt landslaginu í íslenskri fjölmiðlun, en á sama hátt gjörbreytti Enski Boltinn sjónvarpsrásin væntingum markaðarins á útsendingum frá enska boltanum.
– Þannig að það sem ég gagnrýni er þessi hækkun milli ára fyrir okkur sem viljum bara sjá enska boltann. (*innskot Einar Örn: Ég hef verið með Sýn í 4 ár, en er ekki tilbúinn að binda mig 12 mánuði fram í tímann og því fæ ég líka nákvæmlega þessa sömu verðhækkun*)
– Hækkun er eðlileg en þessi hækkun er mjög rífleg og þar sem fréttir segja að Sýn hafi borgað óvenjulega hátt verð fyrir þetta efni spyr maður sjálfan sig: **Hvað eru neytendur að græða á samkeppni í þessu tilviki?**

Takið eftir því að ekkert fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði hefur talað jafn mikið fyrir samkeppni, og hversu mikilvæg hún er fyrir neytendur, og 365 miðlar. Venjulega njóta neytendur góðs af því að samkeppni sé um að þjónusta eftirsótta vöru. Í þessu tilfelli lítur þó út fyrir það að neytendur tapi vegna typpaslags á milli Sýnar og Skjá Sports.

Það er barátta á milli 365 og Skjásins um það hvaða myndlykla almenningur velji. Þeir þurfa að selja Bíórásir, VOD, Fjölvarp, Gray’s Anatomy og fullt af efni sem skiptir okkur fótboltaaðdáendur minna eða engu máli. Þess vegna er allt kapp lagt á að ná í sýningarréttinn á enska boltanum. Hann er einstakt efni, sem getur ráðið úrslitum um hvorn myndlykilinn maður velur. En við erum hinsvegar að borga fyrir þetta aukaefni dýrum dómum. Nú talar 365 um að verðið á enska sé 2.368 kr. og það sé aldeilis frábært, en það þýðir að til að fá þetta verð er maður í raun að borga fyrirtækinu yfir 10.000 kr. á mánuði fyrir allskonar efni sem maður hefur engan áhuga á. Þeir segja líka að 70-80% áskrifenda að Sýn 2 muni fá besta verð, verði sem sagt með allan stóra M12 stóra platínum plús pakkann eða hvað hann heitir. Það finnst mér ákaflega ólíklegt og óska eftir því að þeir styðji svona tölur með gögnum.

Hörður vildi telja Sýn 2 til tekna að hún innihéldi ensku 1. deildina og að stórbætt þjónusta fælist fyrst og fremst í því að mörk dagsins yrðu sýnd strax kl. 19 á laugardagskvöldum. En mörk dagsins eru þættir sem eru síendurteknir og maður horfir á þegar manni hentar, sérstaklega á netinu. Kvöldmatur á laugardögum er ekki tími sem mín kona og mitt félagslíf sættir sig við. Hvað 1. deildina varðar getur hún á engan hátt talist virðisaukandi.

Kynning 365 miðla á verðinu á Sýn 2 er síðan eitthvert mesta klúður sem lengi hefur sést:

– Mesti gallinn er ótrúlega ógegnsær og flókinn verðlisti.
– Verð eins og 4.390, 4.171, 2.837, 2.987 og SAUTJÁN mismunandi verð fyrir sama hlutinn er dæmigert fyrir bilaða verðstefnu.
– Þessi verðstefna flækir málin fyrir notendur og fær þá til að tortryggja fyrirtækið. Hvaðan kemur þessi eina króna í 4.171? Af hverju kostar pakkinn ekki 4.100 eða 3.900?+

Það er furðulítil umræða utan spjallþráða um þetta á netinu. Hún er ekki á mbl eða Vísi, fótbolta.net, gras.is eða hjá bloggurum á borð við Henrý Birgir. Ef til vill eðlilegt þar sem Vísir, gras.is og Henrý Birgir starfa með eða undir 365 miðlum.

Hvað finnst skrifurum Liverpool-bloggsins? Hvað finnst aðdáendum enska boltans? Umfram allt, hvernig útskýrir 365 þessa ógnvænlegu verðhækkun og óskiljanlegu verðskrá? Og það sem verst er, hvað finnst þeim um að neytendum finnst þeir vera að tapa á vöru sem er á samkeppnismarkaði? Eða er þeim alveg sama, því þeir vita að við munum koma til þeirra þrátt fyrir allt og því sé allt í lagi að gera hvað sem er?

– Daði Rafnsson

188 Comments

  1. Flottur pistill og þörf umræða. Ég fór um daginn í OgVodafone og var að kanna verðið á pakkanum þeim með netið og Sýn2. Það sem ég fékk frá þeim var ekkert, þjónustufulltrúinn skildi bara ekki verðlagninguna og ég gat ekki fengið upp verðið á því sem ég vildi, svo snéri hún bara tölvuskjánum sínum við í átt að mér og bað mig um að gá hvort að ég skildi þetta…… Ég varð að vonum ekki sáttur og er ekki viss um hvað ég ætla að gera þar sem að verðið er uppúr ölllu valdi og ætla ég ekki að binda mig í 12mán.

  2. Ég var eins og margir sáttur við verðlagninguna sl. 2 ár ok var með enska boltann. Þ.e. 1900 til 2500 var sanngjarnt verð að mínu mati þar sem ég hafði einungis áhuga á enska og það var ekkert annað uppfyllingarefni sem mér var sléttsama um. Það er aftur á móti ekki séns að ég borgi 4390 kr á mánuði fyrir enska boltann. Þetta virkar einfaldlega á mann sem okur þar sem ég er sannfærður að þetta hefði ekki hækkað svona ef sami aðili hefði haldið réttinum. Þ.a.l. ætla ég að EKKI að kaupa sýn2.
    Ég hef alveg efni á að kaupa sýn2 en vil ekki gera það þar sem ég tel verðið ósanngjarnt og mun þetta einfaldlega ýta undir að ég fari á pöbbinn til að horfa á leikinn, fæ mér að éta góðan mat í leiðinni, félagsskapur o.s.frv. Án vafa mun þetta leiða til meiri útgjalda yfir mánuðinn en sá peningur mun fara í magann á mér en ekki í veskið hjá 365 🙂

  3. Ég var að skoða verðið á enska boltanum hérna í DK og ég sé ekki betur en að það kosti 219 dkr. á mánuði (miðað við 12 mánaða bindingu).

    Það er Canal+ sem er með réttinn hérna á enska boltanum og þegar maður tekur þennan svokallaða Canal+ Total pakka þá fær maður 7 stöðvar og þar af 3 íþróttastöðvar og 4 kvikmyndastöðvar.

    Þannig í samanburði við Ísland koma Danirnir ágætlega út.

  4. 219 dkr. eru um 2400-2500 kr. íslenskar. Bara svo það komi fram.

    Annars vil ég bara taka það fram, sem annar umsjónarmanna og stofnenda þessarar síðu, að ég tek undir allt sem kemur fram í pistli Daða og Einars. Hef litlu við hann að bæta eins og er en vona bara að það skapist málefnaleg umræða um þetta mál, því þetta skiptir mörg okkar miklu máli.

  5. Já, skelfilegt hvernig 365 miðlar geta hagað sér, ég hef tekið sömu áhvörðun og Arnar að fá mér ekki þessa áskrift, ætla sammt að sjálfsögðu að sjá alla Liverpool leiki í vetur en það verður þá bara frekar á Players.

  6. Mér finnst þetta mjög þörf umræða og frábært að þið hafið tekið hana upp. Ég hef verið áskrifandi að Skjá Sport síðastliðin 3 ár og þar á undan Sýn og ég get sagt fyrir mitt leyti að ég ætla ekki að fá mér Sýn2. Ég hef eingöngu áhuga á Liverpool leikjum og að borga ríflegar 4000 kr. fyrir það finnst mér bara of mikið.

    Það sem ég mun að öllum líkindum gera í vetur er að vera duglegri að fara á pöbbinn og fyrir þá leiki sem ég næ ekki að sjá þar mun ég horfa á í tölvunni í gegnum netið. Verri gæði en maður getur stundum látið sig hafa það.

    Einnig mun ég hafa minna samviskubit að fara á pöbbinn þar sem reykingar hafa verið bannaðar og því minna mál fyrir reykingarfasista eins og mig að fara horfa á leikinn án þess að þurfa hafa það á hættu að fá reykeitrun eða þurfa að henda fötunum sínum alltaf í þvott eftir hvern leik.

    Þannig eins og einhver komst að orði hérna fyrir ofan þá munu þessar rúmlega 4000 kr. renna í mig í staðinn fyrir 365. Ég læt allavega ekki bjóða mér svona rugl!

  7. Sælir piltar og takk fyrir að brydda upp á þessu máli.

    Sem dyggur lesandi þessarar síðu langar mig að leggja nokkur orð í belg. Ég held ég geti kallað mig svona “jaðar”-fótboltaáhugamann. Ég er ekki “forfallinn” en fylgist með og hef gaman að horfa á fáeina leiki í mánuði. Ég er viðskiptavinur (Og)Vodafone og átti því möguleika vera í hinu svokallaða “Og1”. Þeir voru með tilboð á Sýn fyrir sína viðskiptavini fyrir um 2000 krónur. Þetta þótti mér ágætis tilboð enda gaf mér færi á að fylgjast með Meistaradeildinni og einhverju öðru íþróttadóti. (Ég hef ekki verið með enska boltann hjá Skjá1).

    Nú þegar enski boltinn nálgast á Sýn (2) fær maður bréf fyrir nokkrum vikum þar sem er tilkynnt að þetta tilboð renni út í ágúst byrjun. Tilviljun? Right! Síðan fær maður tvisvar hringingu frá 365 miðlum þar sem er verið að bjóða manni einhver frábær tilboð á Sýn 1 og 2 fyrir um 7 til 8 þúsund krónur.
    Það er ljóst að 365 miðlar hafa fælt mig frá sem viðskiptavin með verðlagningu því að það er enginn séns að ég borgi á milli 4 og 5 þúsund krónur fyrir einhverja íþróttarás. Það mætti kannski segja að sársaukamörk mín hefðu verið um 3000 krónur, ef þeir hefðu boðið mér enska á því verði gæti vel hugsast að ég hefði slegið til. Ég veit um fleiri sem eru í mínum sporum, svona semi-áhugamenn um enska-boltann sem eru ekki tilbúnir að borga of hátt verð. Ég sagði því upp Sýn og mun ekki eiga viðskipti við 365 við núverandi aðstæður og verðlagningu.

    Ég er búinn að kaupa mér E-miða hjá liverpoolfc.tv og mun fylgjast með Liverpool í gegnum það, og síðan mun eflaust ferðum á pöbbinn fjölga. Að lokum langar mig að benda á þá augljósu staðreynd að eftirspurnin mun ráða verðlagningu Sýnar-manna, þ.e.a.s. hversu margir verða tilbúnir að borga uppsett verð.

  8. Hef verið með enska boltan frá því rúv hætti með hann á sínum tíma og stöð2 og sýn tóku við og svo skjásport en sé ekki fram á það að ég verði með enska í vetur nema eitthvað mikið breitist (vinn í lottó).
    Hvernig geta þeir réttlægt 176% verð hækkun á enskaboltanum einum og sér???
    Ef það er með auknum spjall og greiningarþáttum þá meiga þeir allveg sleppa þeim og einnig ensku fyrstudeildinni og hafa það allt á sér rás og rukka aukalega fyrir það
    Nei, nei NEI ég læt ekki bjóða mér svona rugl fer frekar á pöbbin oftar.

  9. Í dag er dýrara að horfa á Liverpool leik heima hjá sér en að fara í bíó. Ef þú nærð að horfa á alla 38 leikina á tímabilinu að þá kostar hver leikur 1.155 kr. Til þess að þetta sé sættanlegt verð þá þarf að tileinka lífi sínu að horfa á enska boltann og hellst horfa á +100 leiki yfir tímabilið.

    1. Þessi verðlisti sem er kallaður “ótrúlega ógegnsær og flókinn” finnst mér raunar bara mjög einfaldur og sýna allt.

    2. Fyrir áskrifendur Sýnar kostar Sýn2 2837 á mánuði sem er mjög gott.

    3. Höfum það í huga að þessar 2000 kr. sem Skjásport rukkaði voru ekki komnar til að vera. Enginn skal segja mér að Skjársport hafi verið rekinn með einhverju öðru en gríðarmiklu tapi. Þ.e. verðið á þessu hlaut að hækka.

    4. Spurningin er hins vegar hvort að stakur mánuður hefði þurft að kosta 4390, eitthvað eins og 3500 hefðu flestir getað lifað við held ég.

    5. Þessi 9000 kall sem Einar talar um á ekkert heima í þessari umræðu. Þá ertu að tala um stöð2/fjölvarp eða eitthvað álíka sem er allt annað mál og gerir ekki annað en að lækka áskrifa á Sýn2.

    Með ástarkveðju, Úlfar.

  10. ég horfi á alla leiki með liverpool ef ég get og þá fer ég bara á pöbb og er í góðum félagskap +er ekki að teppa sjónvarpið heima(það eru ekki allir í fjölskylduni í boltanum)ef þettað kostar svona mikið þá bara stöndum við púllarar saman og sjáum liðið okkar á pöbbnum í skemtilegum félagskap og lækkum talið í þeim sem eru að lýsa (þeir eru oftast ,ekki að horfa á sama leikinn og við)látum ekki bjóða okkur upp á þettað verð 108 þús á ári þettað er góð utanlandsferð miða við að einar örn borgar 9000 á mánuði( með hangandi haus)STÖNDUM SAMAN og látum ekki bjóða okkur hvað sem er það er alltof mikið vaðið yfir okkur íslendinga og við gerum aldrei neitt. Takk

  11. Ég hef verið bundin áskrifandi af Sýn og nú síðast stöð 2 og þegar mér var boðið Sýn 2 á ca. 2700 (fáranlega flókin verðskrá) ætlaði ég að stökkva á pakkan en viti menn ég þarf að binda mig í 12 mánuði. Sýn 2 er hrein viðbót vegna ensku knattspyrnunar og eins og sparkspekingar vita er keppnistímabilið 10 mánuðir á englandi. Ég hef ekkert að gera við endursýningar og æfingamót yfir sumarið fyrir 2700 krónur á mánuði. Þetta er fáranlegt að áskriftin lækki ekki yfir sumarið eða hreinlega detti ekki út. Þar sem ég hef verið í Og1 viðskiptum við Vodafone fékk ég sýn á sérstökum kjörum sem nú rennur nú út um mánaðarmót og það er eitthvað sem segir mér að það sé ekki tilviljun. Ég tek undir það að Sýn hefur veitt frábæra þjónustu og framleitt gott sjónvarpsefni en það sýnir sig bara þegar engin er samkeppnin þá bitnar það fyrst á viðskiptavininum.

  12. Árni kemur með góðan punkt í síðustu athugsemd, þegar verið er að bera saman verð á enska boltanum milli ára er nauðsynlegt að taka mið af því að ekki þurfti að borga fyrir enska boltann á Skjánum yfir sumartímann þegar deildin var í fríi.

  13. Ég er einn af þeim sem er í og1 hjá vodafone og fékk því Sýn á 2000 kall og undir það síðasta á 1870 eftir að vsk breytinguna 1 mars og greiddi 2341 fyrir skjásport eftir vsk breytinguna eftir 1 mars(var 2495 áður) svo í lok síðasta tímabilsins í maí var ég að greiða samtals 4211 kr fyrir Sýn og Skjásport en núna í ágúst (samkvæmt yfirliti yfir kortareikninginn í heimabankanum) greiði ég samtals fyrir Sýn og Sýn 2 heilar 7112 kr svo þarna er tæplega 3000 kall munur og samkvæmt yfirlitinu sem er ekki sundurliðað í Sýn og Sýn 2 þá er önnur færslan 3600 og hin 3512 og ég sem hélt að ég fengi Sýn 2 á 2800 og eitthvað þar sem ég er með Sýn fyrir, þetta þarf ég eitthvað að skoða betur greinilega.

  14. Staðan er svona hjá mér;

    Ég hef engan áhuga á Formúlu 1, ensku 1.deildinni, Tennis, eða mörgu öðru því sem Sýn er að reyna selja mér í heildarpakkanum.

    Ég hef auk þess lítinn sem engann áhuga á að borga fyrir endursýningu marka og hlusta á íslenska sérfræðinga kryfja leiki dagsins. Til þess hefur maður Netið og get skoðað mörk þar hvenær sólarhringsins sem ég vil.

    Ég hef alls ekki áhuga á að eyða mestöllum degi mínum glápandi á sjónvarp til að fá sem mest fyrir rándýra áskrift af Sýn. Ég hef ekki áhuga á að sníða mitt líf í kringum dagskrána á Sýn. Sleppa kvöldmat klukkan 19 og berjast þá við fjölskylduna um völdin á fjarstýringunni.

    Ég hef áhuga á:

    Að sjá stórleikina og sem flesta leiki með Liverpool.
    Af og til stærstu leikina í spænska boltanum. (innbyrðis leikir: Barca, Real, Sevilla og Valencia)
    Stærstu leikina í CL og þegar 8-liða úrslit byrja vil ég sjá helst til hvern einasta leik.

    Fyrir þetta þrennt er ég tilbúinn að borga c.a. 2000-3000 íslenskar krónur á mánuði. Binda mig þá í 12 mánuði.
    Ef Sýn býður mér ekki svona pakka þá geri ég eins og svo margir sem ég þekki ætla að gera……fara reglulega á sportbarina.

    Mér sýnist af stöðu 365 Miðla að þeir ætli að nota sportdeildina til að keyra innkomu fyrirtækisins upp. Ansi hræddur um þeir vilji alls ekki bakka fyrir gagnrýnum neytendum eins og mér og treysta á hjarðeðli Íslendinga. Þeir hafi sett fram sína verðskrá og muni standa við hana.

    Staðreyndin er hinsvegar sú að markaðurinn hefur breyst mikið með tilkomu Netsins og spurning hvort 365 séu að veðja á vitlausan hest með magninnkaupum á íþróttaefni, sjónvarp er orðinn pínu staðnaður afþreyingariðnaður. Þrátt fyrir stafrænt sjónvarp og núna HDTV.

    Held að fólk sé bara almennt ekki ginnkeypt fyrir svona ofur íþróttastöð heldur vilji frekar sjá 365-Miðla samþætta Stöð 2 og Sýn og bjóða uppá bestu mögulegu dagskrá á öllum sviðum, ekki bara íþróttum.

  15. Mjög góður pistill Daði og þörf umræða.

    Ég hef verið að upplifa dálitla klemmu frá því að Sýn byrti verðskrána. Ég hef alltaf haft aðgang að enska boltanum, hvort sem var í foreldrahúsum með Rúv og síðan stöð tvö eða sjálfur hjá Sýn og svo loks Skjásport. Enski boltinn er eina sjónvarpsefnið sem ég horfi þannig lagað á og því hef ég aldrei borgað fyrir neina stöð fyrir utan þá sem hann var sýndur á það árið á.

    Verðið hjá Skjásport var mjög sanngjarnt að mínu mati og þjónustan var frábær. Ég er ekki í nokkrum vafa um að Sýn muni veita alveg jafn góða þjónustu og Skjásport en hún verður dýru verði keypt.

    Ég er ekki í M12 og hef ekki haft Sýn frá því að þeir hættu með enska boltann. Ég hef séð Meistaradeildina á pöbbnum og kann því alltaf jafn vel. Það stefnir því í, ef ég skil þá verðlistann rétt, að ég borgi tæpar 4500 kr. á mánuði fyrir boltann.

    Þetta er að mínu mati ansi há upphæð, jafnvel alltof há. Þess vegna vildi ég glaður geta tekið undir með mönnum hér að ofan sem ekki ætla að láta þetta ganga yfir sig heldur fylkjast á pöbbinn og skapa þar góða Liverpool stemmingu.

    Því miður er ég bara fluttur í lítinn bæ útá landi og þar er ekki hlaupið að því að fara á pöbbinn eftir hádegið á laugardögum. Ég get þó séð meistaradeildina og það er mjög gott. En það verður ekki möguleiki að sjá alla deildarleiki LFC á þeim ágæta stað.

    Málið einfaldast nú fyrir mér um leið og ég skrifa þetta. Ég get ekki verið án boltans og læt því ganga yfir mig í ágúst. Ég mun greiða þessa háu upphæð en jafnframt senda þeim sýnar-mönnum póst og láta þá vita af óánægju minni.

    En það er álíka máttlaust og þegar veiklulegi fanginn sagði þetta var vont, korteri eftir að hann missti sápuna.

    Liverpool-kveðja Julian Dicks hetja.

  16. Gestur hvar ertu þar sem þú getur ekki séð laugar eða sunnudagsleiki það hlítur að vera pöbb á þessum stað nema að það sé í sveit og ef það er engin pöbb þá skaltu opna einn sportbar

  17. Frábær grein. Ég hef ákveðið með semingi að kaupa Sýn í vetur og þurfti ágætis fortölur við enda er þetta mikil hækkun á milli tímabila. Mér er alveg sama um aukaþættina þar sem leikirnir eru grandskoðaðir og enn meira sama um tennis og formúlu.

    Til að 365 taki mig ekki endanlega í rassgatið ætla ég að horfa á Sýn2 í gegnum myndlykil Skjásins, enda finnst mér hann betri en Digital Ísland lykilinn. Það myndi þýða fullnaðarsigur að ég myndi velja þeirra kerfi og það ætla ég ekki að gera.
    Takk fyrir frábæra síðu.

  18. Það er pöbb á Hótelinu þar sem ég bý og þar horfi ég á Meistaradeildina. En það er ekki hægt að stóla á það að maður sjái deildarleikina um helgar. Ef hótelið er opið og hótelsalurinn er ekki notaður undir annað þá stundina, þá er ekki gefið mál að þeir sem þar koma saman vilji endilega sjá LFC leik. Sem er skiljanlegt enda stuðningsmenn Liverpool í minnihluta á svæðinu.

  19. Ég hringdi í 365 og fékk það á hreint hvað það kostar að vera með Sýn og Sýn 2 í tíu mánuði frá ágúst til maí án einhverrar heimskulegrar skuldbindingar um að fá að horfa á Bolton Redding í Friðarbikarnum. Þetta gerir 8890 íslenskar nýkrónur á mánuði eða 88900 fyrir tímabilið. Ég sé ekki að þetta verð hamli gegn því að ég fái mér Sky.

  20. Ég er sammála Gunnari að símalykillinn sé betri því ég sko var með lykil frá þeim og skilaði honum inn í vor eftir að enski boltinn kláraðist því þeir sögðu að ef ég ætlaði að hafa hann án þess að vera með neina áskrift þá þyrfti ég að greiða einhvern 600 kall á mánuði fyrir að hafa hann en þeir rukka ekkert fyrir hann ef maður er með einhverja áskrift hjá þeim og ég hringdi líka í 365 áðan og það virðist sem þetta sé rétt, Sýn og Sýn 2 saman er 7112 krónur á mánuði þó ég sé í M12, skil samt ekki af hverju þeir auglýsa að Sýnar áskrifendur fái Sýn 2 á 2837 krónur eða hvað það er þegar verðið er í raun 3512 krónur eins og í mínu tilfelli allavega.

  21. Ég er mjög sammála öllu því sem hann setur fram þarna. Ég er einn þeirra sem mun EKKI kaupa aðgang að sýn því ég horfi ekki á sjónvarp utan boltans. Það eina sem ég vil sjá er enski boltinn og það eina sem ég mun horfa á er enski boltinn. Svo fyrst ég get ekki bara keypt enska boltann stakan á eðlilegu verði mun ég láta mér nægja að horfa á örfáa leiki á pöbbinum eða heima hjá einhverjum félaga sem lætur sig hafa þetta verð, eða hreinlega í slæmum gæðum á netinu heima hjá mér. Svo þar tapar 365 mögulegum viðskiptum vegna verðlagningarinnar.

  22. Ég er hundfúll út í verðlagningu 365. Þeir eru svo talnaglöggir og gráðugir að áður en varir mun fyrirtækið heita 366+. Hækkunin á enska boltanum er ekki bara óðelileg heldur ólíðandi og ætla ég ekki að taka Sýn 2 af prinsippástæðum. Ég er alvarlega að hugsa um að fá mér gervihnött og skreyta húsið hjá mér. Mér líður einhvern veginn betur með það en að láta taka mig í þurrt af þessum eigendum 365, sem yfirbuðu keppinautinn en ætla að láta okkur borga brúsann. Ég segi nei takk við svoleiðis viðskiptum og hvet sem flesta að fara sömu leið. Þá vakna kannski peningamennirnir á bak við 365. (Haldiði kannski að þeim sé mest umhugað um fótbolta?????)

  23. Sælir,

    Það er staðreind að gjaldskrá sýnar er of há. Ég er svona casual fótboltaáhugamaður, kannski rúmlega það þegar kemur að liverpool. Ég er meðal þeirra sem voru með skjáinn og ekki munu fá sér áskrift hjá sýn. Tvennt veldur því – Lang stærstu leiti vegna verðlagningar sýnar og sú staðreynd að pöbbar eru orðnir reyklausir. Þetta er svo sem einfalt dæmi: Ég yrði einungis með enska: 4390×12=52680kr. Gerum ráð fyrir því að gangverðið á einum köldum sé 500kr: 52680/500=105,36 bjórar. Þetta eru 38 leikir hjá Liverpool í deildinni plús nokkrir stórleikir sem maður hefur áhuga á: segjum 46 leikir sem ég hef áhuga á: Þetta gera 105,36/46=2,29 bjórar á leik. Halló Players here I come.

    Pool kveðja að austan
    Jón F.

  24. Jæja

    Hvað segir fólk um að hefja undirskriftarlista á netinu og ná nógu mörgum sem lýsa því yfir að þeir vilji ekki borga uppsett verð fyrir Sýn. Náum 2-3 þúsund undirskirftum (sem yrði líklegast 20-30% af væntanlegum áskrifendum 365 okurmiðla) sem væntanlega myndi þýða að 365 yrði að lækka verðið á áskriftinni sinni eða hækka verðið hjá þeim 6-8 þúsund manns sem láta taka sig vaselínlaust. Þá myndu þeir kannski hugsa sig tvisvar um og segja upp.

    Hver sættir sig við það að þurfa að binda sig í 12 mánuði á Sýn til að fá enska boltann á ca 2800 krónur í viðbót (vá geggjað TILBOÐ!!… purrandi kaldhæðni í mér vel á minnst) Var ég búinn að minnast á það að grunnverð Sýnar er 4500 krónur. En fyrir hvað? Golf, Amerískan Ruðning, Einhverja No Name Box bardaga sem Egó Ísland lýsir af innlifun, Formúlu (sem verður gjaldfrjáls fyrir þá sem eru ekki áskrifendur Sýnar. Haldið þið að Sýn sé að gefa íslenskum almenningi Formúluna, NEI. Þeir hækka áskriftarverðið hjá grunlausum íslenskum neytendum sem láta bjóða sér hvað sem er.

    En já, ég afsaka. Ég er að sjá það núna að Sýn 2 ætlar sér að hafa Ensku Champions deildina á dagskrá líka og þá vonandi gömlu Framrúðukeppina líka. Vel á minnst, íslenskir “sérfræðingar” ætla svo að lýsa fræðilegu hliðinni á enska boltanum klukkan 19 á laugardagskvöldum fyrir okkur dúfunum sem skiljum ekki neitt og getum ekki myndað okkur skoðun á því hvort herra Titus Bramble er besti og magnaðasti leikmaður í sögu úrvalsdeildarinnar eða ekki. Þá er verðið hjá Sýn 2 réttlætanlegt. Afhverju gat Arnar Björnsson ekki hringt í mig og sagt mér það persónulega fyrr, þá hefði ég ekki þurf að eyða tíma mínum í að skrifa þennan áróður gegn 365 okurmiðlum. Allir þeir sem hafa fattað núna að ég er með kaldhæðni í gangi mega byrja að lesa næstu greinarskil. Sýn 2 ætlar sér greinilega að gera vel við hina fjölmörgu aðdáendur Sheffield Wednesday og Luton Town í vetur með góðri umfjöllun um Championsdildina. En nóg af kaldhæðni eins og yfirlýsingaglaðir Sýnar menn gera ávallt í yfirlýsingum sínum um ódýrt verð 365 okurmiðla handa fótboltaunnendum.

    Hvað kostar samt áskrift á ársgrundvelli fyrir okkur fótboltalúnitics?

    Rúv ca 2700 x 12
    Sýn 4500 x 12
    Sýn 2 ca 2800 x 10/12 ?

    32.400 + 54.000 + 28.000 miðað við 10 mánuði og á ári er sjónvarpsreikningurinn 114.400 krónur sem er fullmikið miðað við barnafjölskyldur og námsfólk.

    Núna legg ég að lokum til að við neytendur sýnum Sýn að markaðurinn ræður ríkjum og fyrirspurn eftirspurn ræður verðlaginu (allstaðar nema á íbúðarmarkaðinum allavegana). Kveikjum því á undirskirftarlista og komum því í einhver fréttablöð/netsíður/dagblöð og pressum á Sýn að lækka þetta verð. Ekki láta lélega viðskiptahætti 365 bitna á viðskiptavinum sínum. Svoleiðis fyrirtæki er illskiljanlegt að séu en starfshæf og ekki löngu farinn á hausinn.

  25. Ég hef heyrt þó nokkuð mörg dæmi utan úr bæ um vinahóp eða menn sem ætla að hópa sig saman og kaupa eina áskrift fyrir svona 2-4 manneskjur. Þannig er hægt að “snúa á kerfið” og fá þetta ódýrt.

  26. Í allri þessari umræðu um peninga dettur mér eitt í hug; hver sagði að það þyrfti að lýsa leikjum? Hvaða bjáni fann upp á því? Fótbolti er afar einföld íþrótt svo meðalgáfaður köttur getur fylgst með og notið spennunnar. Alvöru lýsarar láta þagnir ekki trufla sig. En hér á landi er sú vonda hefð komin upp að verði óvart 10-15-20 sek þögn þá þarf að blaðra eitthvað endalaust, segja brandara, bara til að fylla tómarúmið – svo maður er farinn að hugsa um eitthvað allt annað en fótbolta. Segið mér eitt: hafið þið einhvern tíma horft á bíómynd (sumar hverjar eru flóknari en fótboltaleikur) með aðstoð lýsara? Ég bara spyr. Þetta er bull. Má ekki minnka kostnað (nokkrar millur) með því að spara lýsingar.

  27. Þegar ég bjó í USA fékk ég 300 stöðvar, þar á meðal íþróttir og bíómyndir á $40 á mánuði.

    Ég veit að Ísland er minna markaðssvæði en ég veit líka að þeir sem semja um sjónvarpsrétt gera það útfrá stærð markaðssvæðisins. Svo er það bara undir stöðvunum á svæðinu komið hvers virði efnið er.

    Sagan segir að Skjárinn hafi borgað 2-300 milljónir fyrir réttinn á sínum tíma, á meðan Sýn sé að greiða 600-1.000. Tek fram að þetta er orðið á götunni og hef ég enga fullvissu fyrir þessu en minnir að Magnús Ragnarsson á Skjánum hafi komið út úr viðræðunum í vetur með þeim orðum að þeir tækju ekki þátt í svona geðbilun.

    Það útskýrir allavegana tvöfalda verðhækkun að menn séu að borga tvöfalt fyrir réttinn.

    En undirskriftarlisti hljómar ekki illa.

  28. Helfi, horfi á mynd með mömmu einusinni og hún eigilega lýsti henni fyrir mig.. og ég myndi aldrey borga fyrir það 🙂

    en já ég verð bara að vera sammála meyrihlutanum hér.. .þetta er bara buuuuullllllll fari 365 í.. ra….s..s.s.s.s.s.s.s..s.s………. (æ þið vitið óæðriendann)

  29. Þetta fyrirtæki virðist vera slétt sama um goodvill svo lengi sem þeir græða. Ég lofaði því fyrir þremur árum eftir óskiljanlega hækkun að ég myndi aldrei versla við þá aftur og ég stend við það á meðan verðskyn þeirra er á þessum nótum.

  30. Það þurfa allir að standa saman og segja “Nei, ég ætla ekki að borga þetta verð ! ” – við erum neytendurnir og eigum að stjórna þessu.

  31. Stærsta vandamálið hvað varðar enska boltann hér á landinu er að aðilar keppast við að kaupa réttinn sama hvað það kostar. Það vilja allir hafa þennan rétt og hef heyrt það meðal manna að Ísland borgar meira fyrir réttinn en öll hin Norðurlöndin. Þetta er í raun alger geggjun hvað verið er að borga fyrir þennan rétt á eyju sem tekur aðeins 300 þúsund manns. Afhverju er ekki hægt að koma á einhverju samkomulagi að einhver stöð hafa þennan sýningarrétt með það skilyrði að sinna enska boltann vel og um leið með sanngjarnt verð fyrir neytendur, ergo ekki sé okrað. Þetta fyrirkomulag hjálpar engum. Ætla ekki að kaupa Sýn því þetta verð er algerlega út í hött. Fer frekar á pöbbinn að horfa á nokkra leiki eða horfi á leikina á netið ókeypis. Veit að gæðin séu ekki eins góð og að það sé rangt að horfa á það gegnum netið því þá er maður að brjóta lög. En hvað er Sýn að gera með að rukka þetta verð!!! Þjófnaður segi ég.

  32. Hvað með að í staðinn fyrir undirskriftarlista fáum við þá sem vilja mótmæla þessari verðhækkun til að kommenta á þennan þráð, þó ekki nema til að segja “ég er ekki sáttur”. Þegar eru komnir 31… ætli það séu ekki þó nokkrir í viðbót þarna úti.
    Beinum öllum, og þar á meðal aðdáendum annara liða til að kommenta hér. Sýnum svo 365 svart á hvítu á rauðu bloggi hvað mönnum finnst.

  33. Eg hef akveðið að taka ekki þatt i þessari umræðu. Hun er of huglæg og tilfinningarik. YNWA

  34. Það væri gaman ef einhver þarna úti geti tekið saman hvaða aðrar leiðir eru til. Ég til t.d. hef verið að pæla í að fá mér gervihnattadisk.

  35. Ég er ekki til í að borga þessa upphæð fyrir þá 50-60 leiki sem ég mun koma til með að horfa á… og ég þekki persónulega engann sem er til í að borga þetta… og get ekki réttlætt fyrir konunni þá upphæð sem 365 menn vilja að ég borgi…

    Ég var með Skjásport í fyrra og þekkti nokkra sem voru með þá stöð… en þekki engann sem ætlar að fá sér Sýn2.

    Nú þegar barir eru orðnir reyklausir geri ég ráð fyrir að njóta boltans í meira mæli þar…

  36. Ég tek þátt í þessu..
    var búinn að panta áskrift sem hefði verið 11.700 á mánuði!
    Hringdi síðan í 512-5100 og afpantaði þetta !!!!
    kvet alla hina að gera slíkt hið sama…

  37. Ég er harður Púlari og vil sjá alla leiki sem þeir spila auk annarra stórleikja sem spilaðir eru í ensku úrvalsdeildinni. Ég er hins vegar ekki tilbúinn að borga uppsett verð, hvorki fyrir sérstöð með enska boltann né heldur að borga minna fyrir boltann og fá þá í staðinn stöðvar sem ég hef ekki nokkurn áhuga á. Ég verð líklega tíður gestur á börum borgarinnar í vetur og mun nota netið meira en áður.

  38. Hvaða aulaháttur er í Hödda Magga,, nema það sé þrystingur af 365 að hann skuli hætta þáttöku sina á blogginu…. það er óskandi að þessar umærður hirsti aðeins upp í upp þessa karla sem bara sjá gróða…….

  39. er ekki hægt að kaupa bara 1 og 1 dag eða pay T V hjá sýn þettað er orðið svo fullkomið að þú getur pantað með korti hvaða mynd þú vilt horfir á, staðin fyrir að kasupa allan pakkan og horfa á 10 % af pakkanum

  40. Ég mun segja upp minni áskrift og fara frekar á pöbbinn eða til félagans.

    Að vilja ekki taka þátt í umráðu vegna þess að hún sé “huglæg og tilfinningarík” er ekki skarpasta komment sem ég hef séð. Eðli umræðu er að hún er huglæg þess sem ræða og vegna tilfinninga þeirra.

  41. Hörður, ekki datt þér í hug að þessi umræða yrði annað en huglæg og tilfinningarík? Þetta komment finnst mér lýsandi fyrir framkomu 365 í garð fótboltaáhugamanna, þeir hafa greinilega gert ráð fyrir því að fólk léti þetta yfir sig ganga og þegar annað kemur á daginn neita að taka þátt í umræðunni vegna þess að hún er “huglæg og tilfinningarík”. Mér finnst þetta léleg rök að fela sig á bak við. Það getur verið að það sé ekki sanngjarnt að gera Hörð Magnússon að holdgervingi 365 en hann er allavega sá eini frá því fyrirtæki sem hefur gert sér far um að svara fyrir verðlagninguna á Sýn 2 á þessari síðu (og á hann hrós skilið fyrir það).

    Úlli sagði hér að ofan að umræða um 9.000 kr eigi ekki rétt á sér en ég gæti ekki verið meira ósammála. Þegar það er verið að ræða um breytingar á verði fyrir enska boltann verður að bera saman rétta hluti og eini möguleikinn á því er að bera saman verð fyrir stakan mánuð. Þegar sá samanburður er skoðaður kemur í ljós gríðarleg hækkun.

    Það má líka ekki gleyma því að ef fólk tekur 12 mánaða samning þá er það er að borga fyrir rétt um þriggja mánaða tímabil þar sem EPL er ekki gangi. Þetta er svona svipað og ef áskrifendur Morgunblaðsins fengju send gömul blöð í þrjá mánuði á ári. Mér finnst tíi til kominn að þeir sem stjórna verðlagningunni hjá 365 átti sig á því að fólk lætur ekki allt yfir sig ganga…jafnvel þó um sé að ræða jafn frábært sjónvarpsefni og enska boltann.

  42. Flottur pistill. Myndi gjarnan vilja sjá fjölmiðla fara taka þetta fyrir enda snertir þetta stóran hluta þjóðarinnar. Ætti frekar heima á forsíðum blaðanna heldur en endalaus umfjöllun um hundinn Lúkas.
    Myndi gjarnan vilja sjá í þeirri umfjöllun samanburð á verði 365 og þann kostnað myndi hljótast að kaupa sér gervihnattadisk. Er hissa að fyrirtæki sem selja slíka búnaði skuli ekki vera búin að vera meira áberandi í markaðsmálum í sínum þessa daganna.

  43. hörður þú ert að vinna hjá 365 og færð ókeipis allan pakkan en vertu nú hreinskilinn, ef skjárinn væri með þennan pakka sem þið eruð með og væri með þettað verð ertu þá tilbúinn að kaupann

  44. Ég ætla að segja upp Sýn um mánaðarmótin – og það er ekki séns að ég kaupi áskrift að Sýn2.

  45. mig langar að fara út í annað ,ég er með bíó rásina og stöð 2.ég var veikur í miðri viku og lá í sófanum og horfði á bíó rásina , eftir 3 sýningar var endurtekið efni (myndirnar sýndar aftur) svo kom laugardagur ,fjölskyldan var fyrir framan sjónvarpið horfa á stöð2 á mynd kvöldsins en þá sýndu þeir sömu mynd sem ég horfði á þegar ég var veikur????? er ekki verið að plata mann, það eru ekki allir að pæla í þessu en ég er að hugsa um að hætta að vera áskrifandi á 365 og allir þessir raunveruleikaþættir(það er skrifað handrit fyrir þá )og mjög lélegt efni sem allir eru að blogga um ég segi bara stöð 2 hefur versnað .Annars mjög góð umræða um sýn og enska boltan hér fyrir ofan stöndum saman

  46. Góður punktur hjá Bjarka að “þeir hafa greinilega gert ráð fyrir því að fólk léti þetta yfir sig ganga og þegar annað kemur á daginn neita að taka þátt í umræðunni”. Vörumst það að hrauna yfir persónur í þessu, t.d. gæði lýsenda. Það eru og verða alltaf lýsendur og menn munu hafa alltaf misjafnar skoðanir á þeim.

    Þetta er ekkert annað en tilfinningarík umræða…enda gefur auglýsingaherferð Sýnar 2 ekkert annað í skyn nema að um mjög tilfinningaríkan hlut sé að ræða.

  47. Frábær umræða og virðingar vert hvað margir virðast ætla að gefa skít í 365 með því að taka ekki þátt i þessari nauðgun sem þeir eru að reyna að komast upp með. Sjálfur hef eg sagt upp Sýn pantað Sky þar sem maður fær allan fótbolta sem maður þarf ásmat svo miklu miklu meira, og það fyrir minni pening á mánuði. Hópumst saman í áskrift að Sky eða bara á pöbba landsins og fáum okkur öllara og börger og spörum samt. Lifi byltingin!!!
    YNWA!

  48. ég tek undir með 99% af liðinu hérna inni…….

    Ég er búinn að vera með sýn núna í eitt og hálft ár enn ekki lengur. Skilaði afruglaranum…

    Fer bara á pöbb á þá leiki sem ég vil sjá og fer í staðinn á Anfield….

  49. Þessi verðskrá er gjörsamlega fáránleg!

    Það ættu margir að fylgja í fótspor “GK” (nr 46) og segja einfaldlega upp áskrift á sýn.

    365 eru ekki að fara fá eina einustu krónu úr mínum vasa, frekar fer ég á pöbbinn með félögunum og nýt þess að horfa FRÍTT á mitt lið.

    Ég ætla ekki að borga fyrir efni(tennis, golf, F1, box, NBA, NFL, ofl.) sem að ég hef ENGAN áhuga á, eins og margir hafa bent á hér að ofan.

    Nú veit ég ekki hvort að úrvalsdeildin verði á sér stöð eða hvort að enska 1. deildin verði með inná Sýn2, persónulega þá set ég ensku 1. deildina á sama stall og hollensku úrvalsdeildina, ekki spennandi!
    Finnst það ótrúlega léglegt að 365 geti ekki bara selt ensku úrvalsdeildina sér, ég mundi kaupa sýn2(ensku úrvalsdeildina) eina og sér á 2500-3000kr.

    Að óbreyttri stöðu þá sniðgeng ég 365!

    Legg svo til að allir sem hafa skrifað hér og eiga eftir að skrifa fram á mánudaginn næsta, hringi í “mín skoðun” með Valtý Birni(s:5170977) á mánudaginn og láti í sér heyra og auglýsi þennan þráð. Þetta er kjörinn vettvangur fyrir undirskriftarlista.

  50. Ég hef nú þegar sagt upp áskrift eftir að hafa haft hana í tvö ár.

  51. Valtarinn á nú örugglega eftir að bauna á menn sem hringja, enda er hann núna í vinnu hjá 365 🙂 ég man nú hversu brjálaður hann var þegar skjár1 notaðist við breska þuli, síðan þegar hann byrjaði að vinna hjá Skjásport þá heyrðist hvorki hósti né stuna frá honum um þau mál

  52. Mér finnst nú óþarfi hjá sumum að vera með skítkast í minn garð þó svo að ég sé ekki tilbúinn í að svara öllum spurningum varðandi Sýn 2. Ég kem ekki nálægt að ákveða verð ég var eingöngu hér á sínum tíma að útskýra ýmislegt sem við ætlum að vera með í kringum leikina. Starfsmenn 365 fá ekki pakkann ókeypis svo það sé á hreinu. Það hafa margir tjáð sig og flestir ætla að fara á pöbbinn eða fá sér disk en ég veit að áskriftarsöfnun á Sýn 2 gengur mjög vel. Mér finnst verðið sanngjarnt á Sýn og Sýn 2 en ég veit að sama hvað ég segi og skrifa þá breyti ég ekki skoðunum ýmissa á þessu máli enda skín hatur í garð 365 miðla frá mörgum í þessarri umræðu.

  53. Þessi verð eru algjörlega fáranleg
    Ég er með m12 og er með stöð2, stöð2 bíó og núna sýn2 og þetta kostar mig um 7800 á mánuði en ég ætla samt að láta mig hafa þetta núna því að ég má ekki missa af leik með Liverpool þá verð ég ekki í góðu skapi 🙂
    Og ég nenni ekki að vera að fara alltaf á pöbbinn til að horfa á leiki.

  54. Ég bý í Bandaríkjunum, og þar er ekki hægt að bera saman þá þjónustu sem maður fær þar við það sem býðst á Íslandi. Þar eru sýndir tveir leikir í einu, og aldrei fleiri, á tveimur rásum. Önnur rásin er bara fáanleg á gervihnattardiski.

    Samt sem áður myndi ég aldrei borga þessi fáránlegu verð sem Sýn er að bjóða. $900 fyrir bara enska á einu tímabili er rugl.

    Ég verð að segja að svör Harðar um huglægni og tilfinningasemi eru á lágu plani. Hér eru langflestir að benda á:

    1. Beinharðar tölur (t.d. prósentulega aukningu á milli ára)
    2. Aðra kosti í stöðunni (pöbb, erlendur gervihnöttur, netið)
    3. Samanburð við verð í öðrum löndum
    4. Lítinn áhuga á því sem að 365 notar til á krydda pakkann, samanber B-deildina í Englandi.

    Ef það er einhver sem er með grátbroslegar tilfinningayfirlýsingar hér, þá er það Hörður: ” …skín hatur í garð 365 miðla frá mörgum í þessarri umræðu”. Eru þetta ekki huglægar alhæfingar?

  55. Ég persónulega ætla ekki að fá mér sýn eða sýn tvö, enda horfi ég svo til bara á Liverpool leiki og geri það af sjálfsögðu á Players. Mér finnst þessi verðhækkun á milli tímabili bara glæpsamleg, maður á varla orð.

    Mig langar samt að spyrja Hödda Magg að einu. Þú segir Höddi að þér finnist verðið sangjarnt. Ok, gott og vel. Hvernig fannst þér þá verðið í fyrra þegar þetta kostaði 1.990kr(2.490) en núna kostar þetta hvað, 4.500 kr? Hvað réttlætir þessa ótrúlegu hækkun allt í einu og hvernig getur hún verið sangjörn? Sá spyr sem ekki veit.

  56. Mér finnst það vera virkilega mikil einföldun að segja að fólk sé að hatast út í 365 miðla vegna þess að það sé ekki sátt við verðlagningu á enska boltanum. Staðreyndin er einfaldlega sú að þetta efni var keypt mjög dýru verði, og einhvern vegin þarf að borga þann reikning, fyrir 3 árum ráku forsvarsmenn 365 upp harmakvein (Arnar Björnsson þar á meðal) vegna þess að Skjár1 keypti þetta efni á 380 milljónir, þeir töldu þetta verð vera vitleysu, 3 árum síðar kemur sama félag, með sama fólk innanborðs, og kaupir sama efni á rúmlega 1000 milljónir, ég gerði mér strax grein fyrir því að ég gæti ekki undir nokkrum kringumstæðum réttlætt það fyrir sjálfum mér og konunni minni að kaupa aðgang að þessu efni á verði sem myndi standa undir þessum kostnaði. Ég fer á pöbbinn án alls haturs útí 365. Þakka þeim reyndar fyrir að gefa mér stund með félögunum fjarri amstri dagsins. En hvers vegna spyr enginn hvers vegna 380 milljónir séu eitt árið fáránlegt verð, en rúmlega 1000 milljónir séu í “eðlilegar” 3 árum síðar?

  57. Mér finnst vanta í þessa umræðu einfalda vísun í verðbólgu. Núna er Seðlabankinn og ríkistjórnin ásamt Así og fleirum búin að vera að berjast við að ná niðurlögum á frekar hárri verðbólgu sem náði upp í 13% á einum mánuði í fyrra. Svona hlutir eins og hækkun á verði sambærilegra sjónvarpsáskriftar hefur bein áhrif á verðbólguna og getur ýtt á undan sér verðhækkunum í skyldum greinum. Þá er ég aðallega að tala um afþreyingariðnaðinn. Til að útskýra þá venst fólk því ótrúlega hratt að borga hátt verð fyrir eitthvað sem það getur ekki fengið ódýrara eða auðveldara, líkt og raunin er með bensín hér á landi. Enski boltinn er vara sem ótrúlega margir geta ekki verið án og eru tilbúnir að greiða hátt verð fyrir. Nú hækkar verðið um ca. 100% á milli ára og þegar slíkt er miðvið þegar verið er t.d. að leigja sér myndband eða fara í bíó þá sjá þeir aðilar í hendi sér að hægt sé að hækka verð einhliða. Í flestum slíkum afþreyingariðnaði er þó smá samkeppni þannig að hækkanirnar verð ekki jafn skarpar og á einokunarmarkaði eins og sýn og sýn2 standa að.

    Fannst þetta verðugur punktur og að sjálfsögðu munum við Man Utd menn standa andófið með ykkur.

  58. Ég verð að segja að þetta “skítkast” í garð Harðar fór alveg framhjá mér . Finnst þetta frekar ódýr leið til að afgreiða ágætis umræður.

    Vel má vera að sala gangi vel hjá 365. Ég er aftur á móti búinn að skila mínum myndlykli og hef þó verið áskrifandi að einhverri stöð hjá þessu fyrirtæki í 13-14 ár.

    Þetta geri ég ekki bara útaf verðlagningu á enska boltanum, heldur einnig vegna þess að 365 miðlar eru snillingar í markaðssetningu (kaldhæðni)

  59. Það sem mér finnst einna verst við allt þetta mál er stórmarkaðarsálfræði 365 miðla. Ég ætlaði bara að horfa á enska boltann. Það er hægt fyrir 4400 kr. pr. mánuð. En ef ég vil lækka það sérstaka gjald þarf ég að kaupa meira. Kauptu 1 rás í viðbót (rás sem þú hefur enga þörf fyrir) og þá lækkar enski boltinn. Eiga menn að gleyma heildartölunni? Er litið á okkur sem fífl? Ég fer inn í Bónus og kaupi kók. Hún kostar 100 kr. En ef ég vil fá kókið ódýrara þá býðst mér að kaupa kippu. Hvað ef ég hef ekki þörf fyrir kippu? Svona aðferð virkar ekki á mig. Hún frekar ergir mig.

  60. Það er nauðsynlegt að fleiri en Púllarar tjái sig (þó við séum margir) og því fagna ég því sem Bragi (59) sagði hér áðan. Stöndum saman um fótboltann allir sem einn. Látum ekki taka boltann frá okkur.

  61. Sko, ég tek undir með Hödda að það er óþarfi að fara út í eitthvað skítkast á hann eða aðra þótt hann kjósi að taka ekki þátt í þessari umræðu. Við verðum að virða það við hann og höfum í huga að hann er eini þekkti íþróttafréttamaðurinn sem hefur komið hér inn reglulega og svarað fyrir gagnrýni og/eða spjallað um önnur Liverpool-tengd mál við okkur á Blogginu. Hann á það ekki skilið að vera ataður aur þótt hann kjósi að taka ekki þátt í þessari einu umræðu. Enda er það ekki bara á hans ábyrgð að ræða þetta við neytendur og/eða standa fyrir svörum. Ég sendi til að mynda póst á sjónvarpsstjóra Sýnar og lét hann vita af þessari umræðu en það er víst ekki von á honum til vinnu aftur fyrr en á morgun, mánudag, þannig að við skulum ekki fara að úthrópa Sýnar-menn fyrir að þegja þetta í hel þótt þeir svari okkur ekki fyrr en eftir helgi. Gefum þeim tíma.

    Hins vegar langar mig að spyrja þá Sýnar-menn – Hörð eða aðra – sem gætu lesið þetta, að einni spurningu: Ef verðið er sanngjarnt að ykkar mati, hvernig þá? Ég er nefnilega ekki sannfærður um að 365-miðlar séu að keyra upp verðið til þess eins að hámarka hjá sér gróðann. Í grunninn er þetta um 176% verðhækkun per mánuð miðað við það sem var hjá SkjáSporti, og þótt það sé búið að bæta við ákveðna hluti í þjónustunni hlýtur neytandinn sig að spyrja hvort það sé búið að nærri því þrefalda hana, til að réttlæta 176% hækkun.

    Er framleiðsla þáttanna með Guðna Bergs svona dýr? Kostar enska Championship-deildin svona mikið? Ég veit að 365-miðlar þurftu að fara ansi hátt í verðtilboði sínu til að fá sýningarréttinn í þetta skiptið, en það eitt og sér er ekki nóg að mínu mati til að réttlæta þessa verðhækkun gagnvart neytanda. Það væri frekar hægt að réttlæta auknar auglýsingar í kjölfar slíks kaupverðs á sýningarréttinum.

    Þannig að ég spyr enn og aftur, ykkur hjá Sýn: Fólk er að kvarta yfir háu verði, finnst sem fyrirtækið 365 miðlar sé að keyra verðið upp til að hafa neytendur að fíflum og græða sem mest. Ef ykkur finnst, eins og Hörður sagði, verðið sanngjarnt, þá að hvaða leyti? Hvað er það sem gerir þessa verðhækkun “sanngjarna”? Ef þið mynduð útskýra það fyrir neytendum af hverju þetta þarf að vera svona dýrt held ég að það myndi fara langt með að sefa þær gagnrýnisraddir sem heyrast víðar en bara á þessu Bloggi.

    Vona að Sýnar-menn komi inní þessa umræðu eftir helgi.

  62. Ég vil koma Herði Magnússyni (er þetta ekki “alvöru Hörðurinn” annars??) til varnar í þessari umræðu en það er víst alveg óþarfi að vera að plammera hann vegna ákvarðanna hæstráðenda innan 365. Hann kemur inn og er að reyna að veita svör í góðsemi sinni en fær bara kaldar kveðjur frá Liverpoolaðdáendum. Það er stór plús fyrir aðdáendur enska boltans að fá svona flottan pakka þar sem menn geta valið sér leik við hæfi í hvert skipti sem spilað er. Hinsvegar erum við að horfa upp á mismunandi fjölskylduhagi hjá fjölskyldum landsins og þær fjölskyldur sem hafa Stöð 2 pakkann og allt þetta fyrir, eru að taka á sig gífurlega stóran pakka fyrir utan allt annað (allar venjulegar afborganir innan heimilisins). Það er stóri bitinn sem fólk er ekki alveg að kyngja…skiljanlega. En 365 er ekki það fyrirtæki sem ræður heimilishögum landans og eru aðeins að koma með betri þjónustu handa landanum. Ekki að ég viti neitt um kaupverðið á þessum upphaflega pakka á enska boltanum en það virkar eins og 365 hafi teygt sig allt of langt til að ná í þennan pakka og þ.a.l. skotið sjálfa sig í báða fæturnar. Þeir sem vilja fjárfesta í þessu gera það, aðrir leita annara leiða. Nú finnst mér að menn sem eru hérna inni með stór ummæli um að það komi ekki til mála að kaupa þetta á þessu verði, standi við það og leiti sér annara leiða. Sýna það í eitt skipti fyrir öll að ef þeir eru ósáttir að sýna það í verki. Ég er einhvern veginn samt ekki að sjá það gerast 🙂

  63. Komið sælir Liverpoolmenn og aðrir. Ég hef nú ekki komið inn á þessa síðu áður enda ekki haft ástæðu til fyrr en nú. Það var Julian Dicks hetja sem benti mér á þessa umræðu og sagði lítinn pistil sem ég skrifaði fyrir arsenal.is vera góða viðbót við þá umræðu sem hér er. Ég reyndi að skrifa pistilinn eins hlutlaust og mögulegt var til þess eins að gefa fólki sjálfu tækifæri á að sjá hvað það er að fara út í þegar það gerir 12 mánaða bindandi samning við Sýn/Sýn2 samanborið við það sem það hefur þurft að greiða hingað til. En nóg um það, hér er pistillinn og allar tölur eru fengnar af heimasíðu 365 hf. sem varða þeirra verðlagningu en þær sem snúa að EB/Skjánum eru eiginlega taldar upp eftir minni, sem ætti nú að vera nokkuð rétt þar sem verðskrá þeirra var hvorki flókin né háð öðrum hlutum líkt og hjá 365. Ef þið rekist á einhverjar staðreyndavillur þá væri mjög gott að fá ábendingar þar um. Ég hef í hyggju að skrifa aðeins harðorðari pistil bráðlega, svona þegar í ljós kemur hvort þeir ætli sér að standa við verðið og ýmislegt annað sem koma þarf fram áður en endanleg staðfesting á viðbjóðslegum starfsháttum fyrirtækisins fæst, sbr. þriggja mánaða skuldbindinguna í kringum HM síðasta sumar.

    Eins og flestir áhugamenn um enska boltann vita sjálfsagt er enski boltinn ,,kominn heim” eins og þeir hjá 365 hf. segja í auglýsingum sínum eftir þriggja ára ferðalag boltans, til Skjás Eins fyrst og svo síðar á sjónvarspsstöðina Enski Boltinn (EB). Það er óhætt að segja að við það að flytja að heiman hafi enski boltinn þroskast mikið og svo sannarlega sprungið út. Á síðustu þremur árum hefur áhuginn á honum sjálfsagt margfaldast og það má líkast til þakka því að hann varð mikið ódýrari þar sem hann var fyrsta veturinn ókeypis á Skjá Einum en næstu tvo vetur kostaði mánaðaráskriftin 1.990 krónur fyrri veturinn og fyrri hluta þess síðari. Eftir að útsendingar á ítalska boltanum hófust á sömu stöð kostaði mánuðurinn um 2.500 krónur. Hjá EB voru áhorfendur síðan ekki krafðir um greiðslu nema fyrir þá mánuði sem leiktímabilið á Englandi stóð yfir, ágúst til maí, sem gerir tíu mánuði. Ef meðalverðið er þá reiknað fáum við:

    Fyrstu 10 mánuðirnir: 0 kr.
    Aðrir 10 mánuðirnir: 19.900 kr.
    Þriðju 10 mánuðirnir: 25.000 kr.
    Samtals 30 mánuðir fyrir 45.400 eða 1.513 krónur fyrir mánuðinn.

    Þessir útreikningar þykja kannski við fyrstu sýn ósanngjarnir gagnvart 365 hf. vegna þess að fyrsta veturinn þurfti ekki að greiða fyrir boltann og einungis takmarkað magn af leikjum var sýnt en ef betur er að gáð og fortíðin skoðuð þá þurfti að hafa bæði Stöð 2 og Sýn til að sjá alla leiki sem boðið var upp á áður en Skjárinn náði sýningarréttinum. Þannig eru þessir reikningar sjálfsagt ósanngjarnir gagnvart Skjánum ef eitthvað er. Til að gæta fyllsta hlutleysis þá getum við líka skoðað stöðvarnar báðar, þ.e. hina nýju Sýn2 og EB, eins og þær skila sér til okkar neytenda.

    Mánaðarverð:
    EB: 2.250 kr. á mánuði (meðalverð yfir þá mánuði sem greiða þurfti fyrir).
    Sýn2a: 4.390 kr. á mánuði fyrir stakan mánuð (þ.e. sambærilegt verð og fyrir EB þar sem ekki er boðið upp á 10 mánaða áskrift).
    Sýn2b: 4.171 kr. á mánuði fyrir 12 mánaða samning (jafngildir 5.005 kr. á mánuði yfir þá mánuði sem leiktímabilið nær yfir [10 mánuðir]).

    Svona lítur dæmið því út ef stöðvarnar eru bornar saman á eins sanngjarnan hátt og hægt er. Þetta sýnir okkur að mánaðargreiðsla fyrir þá sem ætla sér að halda áfram að fylgjast með enska boltanum hækkar um 95% við það að hann fari til heimkynna sinna. Ég hef í það minnsta lítinn áhuga á að borga rúmlega 4.000 fyrir enska boltann yfir sumarmánuðina þar sem þættir verða líklega endursýndir þar til stafræna upptakan af þeim tvístrast upp og verður að ryki.

    Ef við skoðum nú dæmið frá sjónarhóli þess sem vill líka sjá Meistaradeildina og verður því að gerast áskrifandi að Sýn. Gerum ráð fyrir að viðkomandi hafi verið með Sýn í M12 áskrift (þ.e. gert 12 mánaða bindandi samning við Sýn um áskrift að stöðinni) því þess þarf ef maður vill fá Sýn extra 1 og Sýn extra 2 án þess að greiða fyrir þær aukalega (sem mig minnir að hafi verið um 900 krónur á mánuði). Slík áskrift kostar 4.500 krónur á mánuði en við að gera 12 mánaða bindandi samning fær maður 5% afslátt og því er verðið 4.275 krónur á mánuði.

    Ársáskrift að Sýn: 51.300 krónur fyrir veturinn.
    Ársáskrift að EB: 22.500 krónur fyrir veturinn.
    Samtals: 73.800 krónur fyrir Sýn og EB.

    Svo að meðaltal síðustu tveggja vetra gefur okkur 73.800 krónur á ári fyrir tímabilið af fótbolta. Þess má til gamans geta að veturinn af Meistaradeildinni, enska bikarnum, spænska boltanum og enska deildarbikarnum er 128% dýrari en veturinn af enska boltanum.

    Ef við skoðum síðan það sem viðskiptavinir Sýnar þurfa að reiða fram til að fá sömu þjónustu í vetur. Gefum okkur að báðar stöðvar séu teknar á 12 mánaða samningum því þá fæst lægsta mögulega verð (þó eðlilegra væri að taka staka mánuði til að geta tekið jafn marga mánuði og taka þurfti á EB fyrir enska boltann). Heimasíða 365 hf. sýnir nokkuð ruglingslega mynd af verðinu þar sem ekki er hægt að sýna heildarverð fyrir pakkann heldur aðeins viðbótarverð þegar Sýn2 er bætt við aðrar áskriftir. Viðbótin við verð Sýnar er gefin upp sem 2.837 krónur á mánuði. Ég geri þá ráð fyrir allur afslátturinn sé reiknaður á verð Sýnar2 og því verði heildarverðið fyrir stöðvarnar báðar 4.500 kr. + 2.837 kr. sem gerir 7.337 krónur á mánuði.

    Mánaðargreiðslur:
    Sýn + EB
    4.275 kr. + 2.250 kr. = 6.525 kr. á mánuði eins og staðan var þegar EB var til.

    Sýn + Sýn2
    4.500 + 2.837 kr. = 7.337 kr. á mánuði eins og staðan er í dag.

    Þetta gerir mun upp á 12% en þarna á eftir að taka tillit til þess hve mikið þetta kostar fyrir veturinn vegna þess að 365 hf. bjóða ekki upp á þann möguleika að samningur sé gerður á meðan eitthvað er á stöðinni, í það minnsta eitthvað sem fótboltaáhugamenn hafa áhuga á.

    Heilt tímabil:
    Sýn + EB
    12 * 4.275 kr. + 10 * 2.250 kr. = 73.800 kr.

    Sýn + Sýn2
    12 * 4.500 kr. + 12 * 2.837 kr. = 88.044 kr.

    Hækkunin er því rúm 19% á því hvað fólk þarf að borga fyrir veturinn af öllum fótbolta nú eftir að enski boltinn fór aftur yfir á Sýn. Þar sem hinn kosturinn er að horfa á leiki á sportbörum og sportbaraferðum fylgir oftast nær einhver bjórdrykkja þá má deila þessum tæpu 90.000 krónum með 600 krónum og fá út rétt tæplega 150 bjóra. Ef tímabilið telur 46 leiki þá eru það rúmlega þrír bjórar á leik. Nú geta menn gert upp við sig hvort þeir vilji sitja á tiltölulega heilsusamlegum sportbörum nú eftir að reykingabannið tók gildi og sötra öl yfir leikjum eða horfa á þá heima hjá sér. Nema menn vilji bara drekka vatn með boltanum á sportbörum og gera eitthvað annað við peninginn, eigendum sportbara til lítillar ánægju.

    Einnig má skoða hvað næstu þrjú ár koma til með að grafa djúpar holur í vasa neytenda samanborið við síðustu þrjú ár. Ef við gefum okkur að Sýn2 haldi sínu verði óbreyttu næstu þrjú árin þá kosta þeir vetur 131.700 krónur samanborið við 45.400 krónur fyrir síðustu þrjá vetur. Það gerir 190% hækkun.

    Ég get svo ekki annað en spurt mig: ætli enski boltinn sé ánægður með að vera kominn heim?

  64. Held að það sé voðalega lítið búið að vera um skítkast í Hörð Magnússon. Meira að segja hafa flestir hrósað honum fyrir að svara og taka þátt í umræðunni hérna og það gera sér allir grein fyrir því að hann setur ekki verðmiðann. Hann er m.a. sá sem ég vil helst hafa í settinu þegar horft skal á leiki með Liverpool.

    Held að Bragi hafi hitt naglann á höfuðið með verðbólgusamlíkingunni. Málið er að ef fólk er tilbúið að borga x fyrir hlut þá kostar hann x. Ef fólk er tilbúið að kaupa sama hlut á xxx þá kostar hann xxx. En það er viðbúið að ansi margir sem hefðu verið tilbúnir að kaupa hlutinn á x og xx hætti við og þá gæti fyrirtækið bæði misst af peningum og það sem verra er…velvild viðskiptavina ef að x verður að xxx á of skömmum tíma.

    Höfum líka í huga að hin frábæra þjónusta sem er hér á landi varðandi það að sjá alla leiki í beinni kom ekki frá Sýn heldur Skjánum. Því er varhugavert fyrir Sýn að slá sér á brjóst fyrir hana. Þegar Sýn var síðast með enska var sama taktík í gangi með það að skella sumum leikjum yfir á Stöð 2, sjónvarpsstöð mömmu okkar.

  65. Góður pistill frá Arsenal manninum. Það lítur út fyrir að heitasti bissnessinn í dag væri að stofna sportpöbb 🙂

  66. Ég hefði viljað sjá 365 bjóða neytendum uppá svipaðan pakka og Skjársport gerði í fyrstu, þ.e. reynt að hafa þetta eins einfalt og ódýrt og kostur var fyrir neytendur (þ.e. Beinar Útsendingar frá PL, markaþættir og enginn “aukafarangur” (gamlir leikir+enska championship deildin+SerieA (eins og þeir bættu við í vetur))…. og það sem mér finnst einna mikilvægast AÐEINS bindingu á meðan keppnistímabilið stendur yfir (þ.e. 10 mánuði)… svo ekki sé verið að fara í pyngju neytenda á meðan “rándýra efnið”, flaggskip stöðvarinnar, er ekki einu sinni í gangi…

    vildi því spyrja þá sem ráða þessu hvers vegna er ekki boðið uppá 10 mánaða bindingu (hef ekki ennþá séð að þeir bjóði uppá það, leiðréttið mig ef ég fer með rangt mál), þorri neytendanna kaupir stöðina til að sjá BEINAR útsendingar frá enska boltanum, enda eru þær flaggskip stöðvarinnar og meginástæða verðsins á stöðinni (hver mundi kaupa áskrift á Sýn2 í júní og júli fyrir 3-4 þús krónur til að horfa á gamla leiki???) því finnst mér eðlilegt að komið sé til móts við þá

    vil að lokum hrósa Hödda Magg fyrir að taka þátt í umræðunni, en ég held að flestir geri sér grein fyrir að hann kemur ekkert nálægt markaðsmálum og hefur því ekkert með þessa verðlagningu að gera…. að mínu mati besti lýsarinn í bransanum hér á landi !

  67. Ég talaði við einhverja sölumenn hjá 365 og þeir gátu ekki svarað. ” Verður hægt að nota breiðbandsafruglarann án þess að þjónustan verði skert sbr. Sýn Extra 2? “

    Þetta verð er einfaldlega of dýrt, ég hef ekki verið með Stöð2 né Sýn í mörg ár og hef engan áhuga á að auka við sjónvarpsreikninginn rúmum 2000 kr á mánuði, heldur spara ég mér þessar 2500 sem ég greiddi Skjánum.

    Annars legg ég til að menn taki sig saman og kaupi áskrift og Slingí því síðan bara á netið til að mótmæla.

    Það er hægt með t.d. þessari græju [url=http://uk.slingmedia.com/page/home]SlingBox[/url]

  68. Auglýsingaherferð 365 um enska boltann er náttúrulega á mjög gráu svæði svo ekki sé meira sagt.

    Í vor spiluðu þeir lagið “Its coming home, its coming, Footballs coming home” undir gömlum myndum af ensku deildinni.
    Við Íslendingar eigum semsagt að taka undir og samgleðjast Sýn og 365-Miðlum að hann sé kominn heim til þeirra. Enski boltinn er þeirra eign. Einstakur hroki.

    Síðan eru þessar fæðingarauglýsingar “hann er settur 11.ágúst” verulega ósmekklegar. Það er bara hrein móðgun við karlmenn að líkja enska boltanum við eitthvað eins og fæðingu barns.
    Fæðingar eru það merkilegasta sem konur gera. Erum við karlmenn semsagt ekkert merkilegri en bjórþambandi fótboltafíklar sem vinna á bílaverkstæði og leggjast í híði og fitna uppí sófa allar helgar?
    Er fótboltinn okkar börn?
    Erum við þá ekki bara börn líka??! 😉
    Voru þetta heilalausir Man Utd menn sem að bjuggu þessar rugl auglýsingar til?

    Verum annars sanngjarnir við Hörð og gætum orða okkar hér. Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
    Mér sýnist samt að 365 hafi hugsanlega í slagnum við Skjá 1 og RÚV látið pranga inná sig lélegu efni til þess að ná samningunum. Núna ætli þeir sér að pranga sama efni inná okkur. Mér sýnist einnig að fótboltaaðdáendur séu að borga fyrir erfiðleika 365 á öðrum sviðum eins og dagblaðarekstri.
    Tal um verðbólgu o.fl. skýrir engan veginn rúmlega 100% hækkun.

    Ég ber ekkert fyrirfram hatur útí 365 Miðla. Stöð 2 og Sýn hafa þjónað mér mjög vel í 2 áratugi. Nú hinsvegar finnst mér þeir vera að verða undir á markaði og vera fara alveg á taugum yfir samkeppninni og breyttu fjölmiðlaumhverfi.
    Algert okur, botnlausar endursýningar á efni og einstaklega heimskulegar auglýsingar bæta ekki álit mitt á þessu nýja fyrirtæki nema síður sé.

  69. Bara svo það sé á hreinu þá get ég staðfest að þetta er hinn eini sanni Hörður Magnússon sem er að skrifa hérna. Ef einhver annar myndi reyna að skrifa undir nafninu “Hörður Magnússon” myndi ég sjá það og henda viðkomandi út, rétt eins og ef einhver myndi reyna að skrifa undir nafninu Aggi eða Einar Örn eða Kristján Atli.

    Ykkur er hins vegar velkomið að þykjast vera SSteinn og segja alls kyns ósóma. 😉

  70. Mikið er nú hann Carragher alltaf myndarlegur. Hann er eins og grískur guð þegar hann skokkar um völlinn. Vöðvabyggingin fullkominn og með guðdómlegt andlitsfall…

    …stundum finnst mér eins og hann gæti mögulega verið eini maðurinn sem skilur mig.

  71. Ekki skil ég hvað er verið að kvarta yfir auglýsingunu, þær finnst mér alveg frábærar og virkilega fyndnar.

  72. Smá innleg frá Englandi. Ég var að kynna mér málið og þetta skilst mér að sé staðan fyrir búsetta í Englandi. Sky sýnir 92 leiki, Setanta 46 leiki og einhverjir í viðbót gætu verið í opinni dagskrá á ITV eða BBC.

    Sky

    12 mánaða binding, lágmark 34 GBP á mánuði með enska, 15 GBP án enska. Samtals (1034+215)=370 GBP á ári, u.þ.b. 48.000 kr. Þessi pakki inniheldur fullt af sky og öðrum stöðvum og meistara deildina.

    Setanta

    Engin binding, 10 GBP á mánuði í 3 og svo 15, samtals 135 GBP, u.þ.b. 17600. Þessi pakki inniheldur 9 íþrótta stöðvar (skoski boltinn ofl).

    Samtals

    Um 66.000 kr á ári ef maður vill sjá alla enska úrvalsdeildarleiki og meistaradeildin fylgir með.

    Niðurstaða

    Ég held að sky pakkinn dugi vel þó hann sýni ekki alla ensku leikina. Erfitt að bera saman milli landa því mismunandi pakkar í boði. Mér sýnist maður fá meira fyrir peninginn í Englandi en ef maður hefur ekki áhuga á aukaefninu þá kemur verðlagning á sýn2 ágætlega út. Annars eru svo margir barir hér sem sýna alla leiki í göngufæri að það tekur því varla að gerast áskrifandi. Það eru líklega einhver önnur sky verð í gangi fyrir þá sem búa á Íslandi? Eða var kannski bannað að kaupa enska í gegnum sky ef maður er á Íslandi?

  73. Ég var að koma inní þetta núna þar sem ég er búinn að vera í steggjapartíi/útilegu yfir helgina. Skrifaði mitt innlegg á föstudaginn og lét Kristján Atla svo setja þetta inn.

    Úlli segir

    Þessi 9000 kall sem Einar talar um á ekkert heima í þessari umræðu. Þá ertu að tala um stöð2/fjölvarp eða eitthvað álíka sem er allt annað mál og gerir ekki annað en að lækka áskrifa á Sýn2.

    Hvað áttu eiginlega við?

    Þetta er nákvæmlega það sem ég þarf að borga fyrir BARA Sýn og Sýn2. 4.500 fyrir Sýn og 4.390 fyrir Sýn 2. Það gerir samtals 8.890 krónur, sem er helvíti nálægt 9.000 krónum. Fyrir það fæ ég ekkert Fjölvarp og enga Stöð 2. Vinsamlegast athugaðu staðreyndirnar áður en þú heldur því fram að ég sé að fara með vitlaust mál.

    Varðandi þáttöku Harðar í þessu, þá bið ég menn að persónugera þetta ekki. Það er ekki hans að svara fyrir þessa verðlagningu. Sé samt ekki þetta skítkast sem að hann talar um. Ef ég hefði séð það, þá hefðum ég eða Kristján eytt því út.

    Samt er athyglisvert þetta komment Harðar:

    enda skín hatur í garð 365 miðla frá mörgum í þessarri umræðu.

    Hefur 365 fólk spurt sjálft sig af hverju fólk “hatar” þetta fyrirtæki? Það hlýtur að vera ástæða fyrir því að fólk hefur jafn sterkar tilfinningar gagnvart fjölmiðlafyrirtæki. Það hreinlega hlýtur að hafa eitthvað með framkomu viðkomandi fyrirtækis að gera.

    Hörður (og þá hugsanlega hinir hjá Sýn) virðast líka fíla sig sem andstæðing okkar. Það sé verið að “ráðast á þá” og svo framvegis. Þeir eru þó að tala um fólkið sem borgar þeim launin. Ef að fólk bæri svona sterkar neikvæðar tilfinningar til míns fyrirtækis þá myndi ég hafa verulegar áhyggjur og skoða mjög vel hvað ég væri hugsanlega að gera vitlaust.

  74. Sé hvað þú átt við með 9000 kallinum núna. En maður spyr sig hvað þú ert að pæla með að binda þig ekki til 12 mánaða. Þú ert ekki með stóra fjölskyldu, ert í þinni vinnu með fastar tekjur og því ertu bara að brenna peningum með þeirri ákvörðun.

  75. Ég kemst ekki yfir að svara öllu sem hér hefur komið fram. Þegar Sýn kom fram á sjónarsviðið árið 1995 þá hefur efni stöðvarinnar sífellt verið fjölbreyttara. Hér áður fyrr var fyllt upp í með mjög misjöfnu efni. Ég get nefnt fjölmargt sem stöðin hefur verið brautryðjandi í . HM í fótbolta allir leikir keppninnar sýndir beint. Enski boltinn – við fórum að sýna fleiri leiki beint eins og samningar gáfu til kynna. Þegar Skjárinn náði PL af Sýn þá voru menn smeykir um sinn hag en á þessum þremur árum náði Sýn jafnvel fleiri áskrifendur en áður og þar tel ég að meistaradeildin hafi komið mjög sterk inn og við náðum okkar vopnum aftur ef svo má segja. Ef við hefðum haldið PL á sínum tíma þá hefði Sýn farið út í svipaða hluti og Skjárinn gerði þ.e.a.s. að sýna fjölda leikja samtímis. Það lá í samningunum að þetta var hægt í fyrsta skipti. Það er ávallt þannig að þegar nýr samningur er gerður þá koma nýir hlutir inn og við verðum með ýmsar tækninýjungar í okkar útsendingum. Það er nú oft þannig að menn eru ansi fljótir að gleyma að Sýn er einstök íþróttastöð. Gríðarleg fjölbreytt efni og allt það besta í þessum geira. Ég nenni varla að þylja það upp. Við náðum aftur PL eftir hatramma baráttu við Símann (Skjáinn). Ég tel að þeir hafi staðið sig vel þessi þrjú ár en við ætlum að gera betur. Það er samt þannig að sama hvað 365 miðlar gera þá finna menn því allt til foráttu líkt og póstur Arnórs sannar þar sem hann hreinlega drullar yfir allt og segir svo ekki vera í nöp við 365! Margir hafa verið málefnalegir enda er um töluverðar fjárhæðir sem fólk er að borga fyrir íþróttaefni. Auðvitað fylgist fyrirtækið (365) með allri málefnalegri umræðu um áskriftarverð. Svo er annað að það var algerlega útilokað annað en að stofna nýja stöð um PL. Sýn er að springa eins og er og það hefði væntanlega heyrst hátt í mörgum að þurfa að borga fyrir þýska handboltann eða NBA osfrv. Hef þetta ekki lengra í bili.

  76. Áhugaverð lestning Hörður og þakka ég þetta svar. Eftir sem áður stendur spurningin sem ég og Kristján Atli spurðum ósvöruð. Afhverju finnst þér(ykkur) þetta verð og þessi hækkun sangjörn?

    Ég held að engin sé að setja útá dagskránna sem slíka hjá Sýn. Ég efast ekki um að þið munið sinna þessu mjög vel, hafið gert það áður og munuð klárlega gera það aftur. Það er verðið sem menn þurfa að borga fyrir þessa dagskrá, þessi hækkun frá því að Skjárinn var með þetta, sem situr í fólki.

  77. Ég fagna því að Hörður komi með ábendingar og að Sýn taki allar ábendingar alvarlega. Eitt sem mér leikur forvitni á að vita hvað á að bjóða uppá yfir sumartíman? eru það eingöngu endursýningar af enska og einhver æfingamót (sem einungis eru að verða markaðsmót fyrir stóru liðin í USA og Asíu)? Það svíður mig sárt að ég sem áskrifandi á Stöð 2 og Sýn til 12 mánaða verði að binda mig í 12 mánuði með Sýn 2 eða borga rúmar 4000 kr. Ég held að það séu margir búnir að ganga frá áskrift á einhverjum afslætti og hafa ekki áttað sig á því að þeir eru bundnir til 5. ágúst 2007 þrátt fyrir að tímabilinu á Englandi ljúki í kringum 10 maí.
    Sýn stendur gríðarlega vel að fjölmörgum þáttum eins og íslensku deildinni þar eru þeir með langtum betra sjónvarpsefni heldur en Rúv (14-2 þáttur sem er frekar dapur).

  78. Benni Jón, Kristján Atli ofl ég get eiginlega ekki blandað mér mikið inn í áskriftarverðið hef einfaldlega ekki nægilega þekkingu hvað er að baki verðlagningu á fjölmiðlum. Furða mig reyndar á ýmsri verðlagningu í þjóðfélaginu almennt. Verðlagningin er greinilega hitamál hér í þessum hópi og sitt sýnist hverjum. Enski boltinn er mikið tilfinningamál við drekkum það eiginlega með móðurmjólkinni.

  79. Árni Jón við verðum með fullt af efni þegar PL liggur niðri. Við höfum fjárfest í Masters mótunum gamlir snillingar spila síðan gríðarlegt magn af klassískum leikjum úr PL og svo mætti áfram telja. Starfsmenn Sýnar eru metnaðarfullir og kröfuharðir við sættum okkur ekki við eitthvert hálfkák. Við þurfum líka að vera með puttann á púlsinum út í þjóðfélagi og hlusta á okkar áskrifendur. Þjónusta okkar á að vera fyrsta flokks því samkeppnin við sky ofl er mikil.

  80. Er það ekki rétt skilið hjá mér að það sé fyrirtæki í eigu 365 sem selur áskrift að sky á Íslandi?

  81. Ég hreinlega verð að hrósa Herði Magnússyni fyrir framgöngu hans hérna í þessari umræðu. Ég get ekki ímyndað mér að margir væru tilbúnir að eyða sínum frítíma í að upplýsa viðskiptavini sína um fyrirtæki sitt, hvað þá þegar hann þarf að koma einn fram fyrir hönd síns fyrirtækis án þess að bera nokkra ábyrgð á því sem á er deilt. Hann er fyrirtækinu því til fyrirmyndar og þætti mér skemmtilegt að sjá þá sem bera ábyrgð á verðlagningunni sýna jafn mikið hugrekki svo ég tali nú ekki um virðingu gagnvart viðskiptavinunum.

    En mig langar þá að nota tækifærið fyrst Hörður er hérna og spyrja aðeins út í dagskránna, gefa honum örlítið frí frá þrasi um verð. Gaman væri ef þú gætir séð þér fært að svara þeim eða bent mér á hvar ég get nálgast svör við þessum spurningum.

    Fyrir það fyrsta þá er ég forvitinn um þessa klassísku leiki. Eru þeir í formi þátta sem þið fáið senda til sýningar vikulega eða er þetta leikjapakki sem þið getið valið úr að vild? Ég varð mjög ánægður með að sjá þennan hluta dagskrárinnar.

    Í öðru lagi langar mig að vita hvort til standi hjá Sýn eða Sýn2 að sýna frá Emirates mótinu eða Amsterdam mótinu sem haldin verða nú um næstu helgi og í lok þarnæstu viku. Á heimasíðu Sýn2 stendur að sýnt verið frá æfingamótum stóru liðanna á Englandi, er þá verið að meina dagskránna sem boðið verður upp á næsta sumar og sumurin eftir það?

    Í þriðja lagi langar mig að vita hvort áform séu uppi um að fjölga hliðarrásum Sýnar því alloft síðasta vetur voru Arsenal leikir í CL sýndir eftir að beinum útsendingum lauk. Ég er nokkuð staðráðinn í að taka báðar stöðvar en mér þætti mjög gott að vita hvort ég gæti þá búist við að þurfa að fara á pöbbinn oft þrátt fyrir að borga rúmlega 7.000 kall til þess aðallega að sjá Arsenal leiki.

    Í fjórða lagi langar mig svo að segja hversu ótrúlega mann er farið að hlakka til að þetta byrji. Þegar dómarinn blæs í flautuna í fyrsta leik þá fjúka allar peningaáhyggjur út um gluggann og gleðin tekur við næstu tíu mánuði. Hlakka til að sjá þig á skjánum (sjónvarpsskjánum þ.e.a.s.) Hörður.

  82. Til að svara þér Stefán vil ég byrja að þakka hlý orð.
    Við erum búnir að kaupa um 200 klassíska leiki sem búið er að stytta niður í 30.mínútur þetta eru leikir frá stofnun PL. Þeir verða a.m.k vikulega.
    Amsterdam mótið verður beint á Sýn.
    Við verðum allavega með þrjá leiki áfram beint úr CL á Sýn á hliðarrásum mér er ekki kunnugt um fjölgun leikja en það gæti svo sem verið. Þú færð alla 38 leiki Arsenal beint á Sýn 2 og hliðarrásum varðandi CL þá eru ensku liðin í fyrirrúmi varðandi val leikja beint. Ég get ekki lofað þér öllum leikjum Arsenal en flestum.
    Annað við munum auka mikið sýningar frá UEFA Cup á Sýn næsta tímabil, fimmtudagarnir verða því skemmtilegar. Aftur varðandi Sýn 2 þá aukum við mjög mikið umfjöllun fyrir leikina. Nýjustu viðtöl við þjálfara, leikmenn ofl gríðarlega mikil aukning á því sem áður var einnig markvissari upphitun fyrir leikina.

  83. Hvað mig varðar, þá er það árskriftarskuldbindingin sem fyllti mælinn hjá mér. Að skuldbinda mig næstu 12 mánuði er einum of.. Það er þannig með mig ég fer út úr bænum flestar helgar á sumrin og vil helst að eyða fritima annars staðar en á steypunni… þvi er maður ekki tilbuinn að borga þessa þrjá mánuði eða svo til… En var hins vegar tilbuinnn að hafa báðar stöðvarnar,, þó með móral.

    Svo að 365 miðlar hafa verið of frakkir við neytendur sina… og það er ekki í fyrsta skipti, það kom upp lika kringum HM…. Mér sýnist eða það er min skoðun að áskriftardæmið er dauðadæmt með þessu aðferðum. Ef þettta heldur áfram þá hlytur að koma upp krafa af neytendum um að það verði komið upp pay per view… En mig rennur í grun um að 365 miðlarnir hugnist það ekki vegna þess eins það yrði mikill tekjusamdráttur….

    Að minu viti eru beinar útsendingar sem trekkir áhorf að og þættir kringum það sem íþróttafréttamenn 365 miðlar eiga hrós skilið. En ekki gamalt efni í nýju búningi…..

    Ég mun fyrirgefa þeim þetta ef þeir bakka með þessa skuldibindingu kröfu og viðurkenna sin mistök….

    Kveðja Bernharð Guðmundsson

  84. Á mínu heimili var þetta leyst þannig að við erum nokkrir sem tókum okkur saman og fengum okkur saman eina áskrift.
    Lykillinn verður svo á flakki eftir því sem að hentar hverju sinni.
    Hörður: takk fyrir að taka þátt í umræðunni. Bentu Hilmari svo á að svara þvi almennilega, ef hann er þá sjónvarpsstjóri, af hverju í ósköpunum þetta er orðið svona dýrt hjá ykkur.

    Lifi Rauði herinn.

  85. Vil benda fólki á að umræða um þetta mál verður í útvarpsþættinum Fótbolti.net á Reykjavík FM 101,5 milli klukkan 12 og 13 á morgun.
    Siminn er 563-9000 og netfang þáttarins er fotbolti.net@rvkfm.is

  86. Hörður, þú talaðir um að það verði hægt að sjá alla leikina á Sýn 2 eða hliðarrásum…
    ég hef hvergi séð neitt um hliðarrásirnar á Sýn 2…..

  87. hvað verða þær margar???
  88. verða þær innifaldar í verðinu???
  89. þarf maður að binda sig í 12 mánuði til að fá þær (eins og Sýn)???
  90. Ég vil helst fá að vita sem mest um þessa stöð (Sýn 2) og hvað er innifalið í þessu háa verði áður en ég get annað hvort gagnrýnt hana, eða verslað mér áskrift að henni…
    Eins og staðan er í dag get ég ekki réttlætt útgjöldin… og mun því ekki gerast áskrifandi.

  91. Bara skjalfesta að mér þykir þetta ansi mikil hækkun milli ára og ég kem til með að hafa smá samviskubit í ár þegar ég horfi á þessa leiki heima hjá félaga mínum (eins og ég hef jafnan gert áður)

    Annars mjög góður pistill Daði og þetta er klárlega vitibornasta umræða sem ég hef séð um þetta málefni og gott að fá líka svör frá einhverjum hjá sýn líka (Hödda), það er reyna að fá sjónarmið beggja aðila greinilega í ljós.

    p.s. Daði, talandi um að nú sé lag að opna pub þá skora ég á þig að flytja aftur austur og opna einn slíkan á Selfossi 😉 við erum á götunni eins og er.

  92. Hörður er að slá ryki í augun á okkur með þessari umræðu, enda sýnist mér menn falla algjörlega í stafi þegar hann birtist hér…
    Umræðan snýst um okur. Við vitum allir að SÝN er frábær íþróttarás og SÝN2 verður örugglega alveg frábær líka. Við erum bara ekki tilbúnir til að borga uppsett verð!

    Annars er ég alveg sammála niðurlaginu hjá eikafr (64). Svona upphlaup eins og þessi skrif okkar hér eru “tímabundin óánægja”. Reiði okkar er yfirleitt loftbóla sem springur síðan og þar af leiðandi látum við olíufélögin, 365 og fleiri taka okkur í *******. Látum það ekki gerast. Ég ætla ekki að beygja mig!

    PS. Til að taka af allan vafa þá hata ég ekki 365.

  93. Ég hef alltaf haft enska boltann og fylgst vel með honum. Í ár lítur út fyrir að ég verði ekki með hann. Hækkunin er of mikil. Ég er mjög ósáttur við 365.

    Þeir segjast vera metnaðarfullir og ætla að gera betur. Gera betur?? Ég sá alla Liverpool leikina í fyrra og alla stórleiki eða hvaða aðra leiki sem mig langar að sjá. Það var nógu gott fyrir mig og langflesta vini mína. B deildin, og eitthvað annað slíkt efni réttlætir á engan hátt þessa hækkun. Þeir eru alls ekki að gera betur því undafarin ár höfum við getað keypt ensku boltann. Nú kemur fullt af einhverju drasli með sem ég hef engan áhuga á og ég þarf að borga fyrir það!!!

    Ég er pirraður út í Sýn. Áður fyrr keypti ég þessa stöð og var sáttur við það sem var í gangi þar fram að HM síðast. Að ætla sér að nýðast svona á neytendum sínum finnst mér vera lítilsvirðing við fólk sem hjálpaði þeim að bygga upp þessa stöð. Ef þeir bakka að einhverju leiti með þetta okur(nb) sitt þá gæti maður hugsanlega skipt um skoðun.

  94. Ég mun verða áskrifandi áfram að Sýn, ég var með enska boltann á Skjá Einum og hækkunin með allan pakkann (Stöð 2, Sýn og enski boltinn nú á Sýn 2) verður því ekki svakaleg fyrir mig – ef ég kann að reikna þá eru þetta um 300 kr. á mánuði eða svo.

    Komment GK (90) finnst mér leiðinlegt að því leytinu til að Hörður er ekkert að slá ryki í augun á okkur! Við föllum ekkert í stafi yfir veru hans, heldur eru flestir (ég ætla ekki að alhæfa eins og GK) eflaust bara ánægðir með að sjá mann í hans stöðu taka þátt í umræðu á vef eins og þessum. Það hefði ekki þurft að heyrast múkk í honum, en hann ræðir málin samt. “Við erum bara ekki tilbúnir til að borga uppsett verð” ??? Talaðu fyrir sjálfan þig.

    Persónulega finnst mér úrvalið frábært. Dagskráin lítur vel út og þessir þættir, mörk umferðarinnar, gömlu brýnin að spila … og 1sta deildin!! Þetta er allt saman áhugavert fyrir mér.

    Persónulega finnst mér fólkið á Sýn miklu betra og skemmtilegra í sínum lýsingum, heldur en þeir voru á Skjá Einum (Enska Boltanum). Það viðurkennist að ég er ekki fremsti aðdáandi Gaupa (ég mjúta hann oftast þegar hann er að lýsa), en ég hef lengi sagt það og stend enn við það, að skemmtilegustu og bestu lýsendurnir eru að mínum dómi Hörður Magg og Arnar B. Þetta eru menn sem lifa sig inn í leiki. Þetta eru hreinlega menn sem ég er tilbúinn að borga örlítið meira fyrir en ég gerði, sökum þess að þeir gera útsendinguna og leikina miklu miklu miklu miklu skemmtilegri.

    Það má blammera mig fyrir þetta, I can take it, en ég svara þá bara fyrir mig. Ég hef akkúrat ekkert nema lof út á Sýn 2 og allt í kringum það að setja. Ég hefði getað sleppt því að gerast áskrifandi en ég gerði það ekki. Það er bara eitt sem ég hef ekki fílað … en það er óléttu-karlarnir auglýsingarnar … er bara ekki fyrir mig. En það er smáatriði miðað við veisluna sem er framundan í vetur!

    “Að ætla sér að nýðast svona á neytendum sínum finnst mér vera lítilsvirðing við fólk sem hjálpaði þeim að bygga upp þessa stöð” — Rafn: ég er einn af þeim sem hefur með áskrift hjálpað að byggja upp þessa stöð og ég tel ekki að það sé verið að níðast á mér!

  95. Ég bý við þá lukku, fótboltalega séð, að búa í útlöndum þannig að ég þarf ekki að skera niður grautinn fyrir krakkann minn til þess að fá að horfa á boltann. Hinsvegar er ég tilneyddur til þess að minnast á einn punkt.
    Ein aðalástæða þess að kanarnir keyptu Liverpool var sú að þeir sáu fram á það að sjónvarpstekjur myndu margfaldast á seinustu árum. Þá sérstaklega í ár. Á næstu leiktíð munu liðin líklegast tvöfalda tekjur sínar af sjónvarpsréttinum og til þessa hafa allir hrópað húrra, vegna þess að þetta mun þýða að bestu liðin (okkar lið) mun verða fjársterkara á transfer markaðnum.
    Þessir peningar geta ekki allir komið frá auglýsingartekjum og þess vegna verða áhangendur að blæða fyrir þessu. Umræðan sem á að eiga sér stað er náttúrulega sú: Íslenskir knattspyrnuáhugamenn verða að taka sig saman, því að fram að þessu hafa þeir verið viljugir til þess að selja skónna af börnunum sínum til þess að fá að sjá boltann og þetta vita sjónvarpsstöðvarnar. Þess vegna er það þannig að þegar útboð í réttinn fer fram þá setja þeir fram algjörlega silly tilboð sem líklegast allir sjónvarpsstjórar í Evrópu myndu gráta yfir, þegar litið er á stærð íslenska markaðarins. Núna hef ég engar tölur, en hef heyrt þeim kastað fram og man bara að ég fékk hnút í magann.
    Hvernig á að leysa þetta? Ætli það sé ekki bara best að segja við konuna. Elskan, bumban á eftir að stækka smá í vetur. Ég þarf nefnilega að fara og horfa á leikinn á pöppnum. “Hvaða leik”, spyr hún. Well. Alla leiki.
    Þetta verðlag mun náttúrulega viðgangast meðan fólk borgar. Hitt ráðið er að fara í meðferð, láta dáleiða sig til þess að njóta tennis, bandarísks fótbolta og Bubba á amfetamíní.

  96. Þegar HM keppnin í knattspyrnu fór fram fyrir tveimur árum hljóðaði tilboð Sýnar upp á fimmtán þúsund kall (keppnin náði yfir tvö áskriftartímabil), þá fór ég í Elkó og keypti mér lítinn gervihnattadisk með öllu fyrir sama verð. Ég sá alla leikina og hef nýtt mér diskinn prýðilega síðan, enda eru allir helstu leikir (fyrir utan Úrvalsdeildina) sýndir í opinni daskrá á ITV og BBC, s.s. landsleikir, bikarleikir og þriðjudagsleikir í Meistaradeildinni, svo eru líka fjölmargar aðrar stöðvar þarna fyrir börn og konur. Kannski maður reyni nú að skoða einhverja áskriftarpakka Sky og sjái hvað þeir hafi upp á að bjóða.

  97. Varðandi þessa spurningu hjá Árna þá hefur það áður komið fram á þessari síðu að hliðarrásirnar fylgja með Sýn 2. Þær verða væntanlega 4-5 til að þeir geti sýnt alla leiki.

    Varðandi þetta komment:

    Hörður er að slá ryki í augun á okkur með þessari umræðu, enda sýnist mér menn falla algjörlega í stafi þegar hann birtist hér…

    Ég er ekki sammála þessu. Hörður hefur kommentað hérna áður um hluti tengda Liverpool einsog hver annar lesandi og það er því ósanngjarnt að menn hamist á honum bara vegna þess að hann vinnur á stöðinni. Hann stjórnar ekki álagningunni og það á ekki að hamast á honum bara fyrir að hann komi og svari fyrir sig.

    En ég er hins vegar sammála þessum punkt:

    Umræðan snýst um okur. Við vitum allir að SÝN er frábær íþróttarás og SÝN2 verður örugglega alveg frábær líka. Við erum bara ekki tilbúnir til að borga uppsett verð!

    Einsog ég sagði áður, þá höfum við sent þetta á sjónvarpsstjóra Sýnar og það væri óskandi að hann myndi svara þessu.

  98. Eins og Einar segir, þá bíðum við ennþá eftir svari frá Hilmari Björnssyni, sjónvarpsstjóra Sýnar, eða einhverjum öðrum sem er í sambærilegri stöðu til að tjá sig um þetta mál frá hendi fyrirtækisins. Það er spurning hvort að Hilmar eða einhverjir aðrir tjái sig um þetta í þætti Fótbolta.net í hádeginu. Ég vona það að ef þeir ekki vilji tjá sig hér þá geri þeir það allavega einhvers staðar. Útskýringar þeirra á verðinu gætu hjálpað mikið til við að sefa óánægju fólks.

  99. Doddi er ánægður enda segir hann að þetta hækki bara um 300 kr. hjá honum. Hækkun upp á 300 – 1.000 kr. hefði örugglega verið eitthvað sem allir hefðu skilið á milli ára. En flestir hérna eru að upplifa mun hærri hækkun.

    En þegar hann bendir á gæði lýsenda Sýn þá verð ég að segja að það hvaða retired íslenski íþróttamaður lýsi leik skiptir flesta örugglega litlu máli. Persónulega finnst mér of mikið af retired handboltaköppum að lýsa á Sýn miðað við Skjáinn en það skiptir mig ekki öllu máli. Gæði lýsenda er ekki aðalatriðið heldur boltinn sjálfur og það hverjir sitja í settinu á ekki að útskýra 1.500 – 2.000 kr. hækkun.

    GK sagði þetta hárrétt… þetta snýst um okkur. Sýn þarf meira á okkur að halda heldur en við á Sýn.

  100. Takk fyrir svarið Hörður. Hvert á maður að senda ábendingar sínar um áskriftina. Ég er ennþá þeirrar skoðunar að vilja enska boltan í beinni yfir veturinn en myndi gjarnan vilja sleppa við áskrift yfir sumarið, hef engan áhuga á golfi í sjónvarpi og ekkert rosalega spenntur fyrir gömlum leikjum úr ensku. Hvert á maður að senda ábendingar um áskrift (ég vil þá senda þær þar sem tekið er mark á þeim)?
    Þar sem ég var búsettur um skeið í Danmörku og Írlandi og hef því nokkra reynslu af áskriftarsjónvarpi í kringum íþróttir er það skoðun mín að Sýn skari langt framúr þeim sjónvarpsstöðvum hvað varðar framboð og vinnslu á efni um íþróttir.

  101. þegar það er verið að bera saman verð þá má ekki gleyma virðisauka lækkunni sem varð 1. Mars. Í rauninni þá e 4390 c.a 4750 að raunvirði miðað við áskriftina að Skjásport. Auk þess þá var möguleiki að taka leik og leik í gegnum skjásport og borga sérstaklega fyrir þá, möguleiki sem fáir vissu af en var vel nýtilegur leikurinn kostaði í kringum 100 krónur. Auk þess var möguleiki að vera með þjónustuna í kringum þann tíma þegar voru margir leikir eins og í jólatörninni.

  102. Ég er alveg sammála þessum punkti, Daði, að umræðan snúist um okkur, en mér sýndist GK eiga við “okur”.
    Annars finnst mér þetta verð fáránlegt, ég sé enga ástæðu til að hækka verðið um miklu meira en 100% á milli ára, ég kaupi mér ekki Sýn2, hvað þá Sýn.

  103. Það er hárrétt sem Doddi segir að það koma sumir og fullyrða um hluti sem stóra sannleik . Þegar menn byrja að tala um verðlagninguna á HM 2006 þá borguðu flestir réttlátt verð og menn fengu umbun að hafa verið tryggir áskrifendur . Þessi hystería sem sett var á svið m.a. af samkeppnisaðilum okkar var í raun alger útúrsnúningurn og þvættingur. Það féll síðan dómur um að Sýn hefði ekki brotið samkeppnislög.
    Þú borgar ekkert sérverð fyrir hliðarrásir á Sýn 2. Við getum sent út fimm leiki samtímis beint. Varðandi óánægju og spurningar sem hér hafa komið upp þá finnst mér ekkert að því að sjónvarpsstjóri Sýnar, Hilmar Björnsson svari fyrirspurnum ykkar ef þið sendum honum tölvupóst. Ég hinsvegar er á leið í sumarbústað og verð ekki nettengdur síðan hefst vinna mín m.a. á Sýn 2 en ég er búinn að vera í góðu sumarfríi. Ég efast um að koma aftur inn á þetta blogg í bili en menn geta alltaf sent mér tölvupóst. Ég held að ég fari ekki að tala um hitt og þetta hjá púllurum á meðan tímabilið stendur yfir en þó er aldrei að vita.

  104. Úr því svo er þakka ég þér góð svör Hörður og hafðu það sem best í fríinu. Við áskiljum okkur þó rétt til að halda áfram að ræða þetta í þinni fjarveru. 😉

  105. Að sjálfsögðu haldiði áfram Kristján þetta er fullkomlega réttlætanleg umræða og margt athyglisvert komið fram.

  106. Það er fáránlegt að halda því fram að Hörður Magnússon sé hér til að slá ryki í augun á einum né neinum. Það er síðan mjög dónalegt gagnvart þeim sem hér hafa verið að ræða málin á mjög skynsömum nótum að halda því fram að Hörður Magnússon fái menn til að gleyma aðalatriðinu, þ.e. verðlagningu Sýnar. Ég legg það að minnsta kosti ekki í vana minn að mynda skoðanir mínar eftir einhverju öðru en því sem mér finnst réttast. Það skiptir engu máli hvort það er Hörður Magnússon, Madonna eða Höskuldur í Síðu sem ég er að ræða við. Hörður hefði alveg getað látið eins og þessi umræða væri ekki til, haldið áfram í sínu fríi og leyft fólki að bölva Sýn og öllum sem henni tengjast. Staðreyndin er hinsvegar sú að Hörður kemur ekki nálægt verðlagningunni en samt kemur hann hingað, undir nafni, og býður þeim ósanngjörnu þannig að halda áfram óverðskulduðu skítkasti út í sig. Það þarf stórar hreðjar í það og þess vegna fær Hörður hrós. Ég vann hjá Vífilfelli við að raða flöskum í hillur með framhaldsskóla og þar fékk ég að kynnast því hvernig það er að verða fyrir árásum fólks sem finnst fullkomlega eðlilegt að skjóta sendiboðann. Kvartanir yfir að sumar vörur væru ekki til, aðrar of hátt verðlagðar og svo framvegis. Ég benti fólki ævinlega á að verðið væri ekki ákveðið af þeim sem raða flöskunum upp í hillur en það hafði oftast nær lítil áhrif.

    Þannig að þegar þú segir Hörð vera að slá ryki í augun á þeim sem þakka honum fyrir þátttökuna í umræðunni þá ertu eiginlega að taka mjög ranga afstöðu. Hvernig viltu að við svörum Herði? Hengjum hann fyrir eitthvað sem hann tengist ekki á neinn hátt? Hvaða gagn gerir það? Ekki neitt. Er ekki frekar við hæfi að snúa þeim spurningum og ásökunum að Hilmari Björnssyni og þeim sem bera ábyrgðina í alvörunni og spyrja Hörð að einhverju sem stendur honum nær, eins og uppbyggingu stöðvarinnar og dagskránna, eitthvað sem Hilmar Björnsson ætti í sjálfu sér líka að sjá um að yrði gert í fjölmiðlum landsins en hefur ekki gert.

    Svo að þó menn séu ekki með dónaskap út í Hörð þá þýðir það ekki að fólk sé búið að taka niður um sig og bíði bara eftir 365 hf. Jæja, þessi þáttur er að byrja, verður gaman að sjá hvað Hilmar segir þar.

  107. Pétur Pétursson var í viðtali við Fótbolta.net í hádeginu og sagði m.a. eftirfarandi hluti:

    1. Algengt verð fyrir stöð er á bilinu 2700-2800kr. Lægsta mögulega verð 2368, hæsta verð 4390. Algengt verð er 2587.

    2. Verðskráin verður aldrei einföld þegar þú ert með vildarverðskrá, þ.e. þar sem þú ert að umbuna mönnum fyrir tryggð við stöðina eða 365 miðla. Þeim þykir sem sagt eðlilegt að fólk skuldbindi sig til 12 mán. og/eða kaupi sér Stöð 2/Bíórásina/Fjölvarp auk Sýn/Sýn2, til að fá þetta niður á “algengt” verð.

    3. Við erum með betri þjónustu, betri útsendingar og betri umfjöllun en sambærilegar stöðvar útí heimi. “Að bera saman Sýn2 og SkjáSport eins og hún var er í raun eins og að bera saman epli og appelsínur.” Þetta er bein tilvitnun í Pétur. Hér þykir mér hann vera að forðast að svara stóru spurningunni okkar: hvað réttlætir 176% hækkun á verðinu frá SkjáSport yfir á Sýn2??? Tja, af því að við erum að borga fyrir epli núna, ekki appelsínur …

    4. Sjónvarpsstöðin Sýn er full af efni (eins og Hörður var búinn að koma inná) og því kom vart annað til greina en að stofna nýja stöð undir enska boltann.

    5. Pétur segir að þetta sé “sanngjarnt verð” ef tekið er mið af þeirri auknu þjónustu og auknu umfjöllun sem er á Sýn2, miðað við það sem var á SkjáSporti. Einnig fáum við hér ensku Championship-deildina í kaupbæti.

    Svo er það Hilmar Björnsson sem við höfum verið að reyna að fá til að svara þessu. Hann mætti í símann hjá þeim á Fótbolti.net og svaraði þessu meðal annars svona:

    1. 4-4-2 verður eini innlendi þátturinn á stöðinni Sýn2. Þeir leggja s.s. allt sitt púður í þátt þar sem Guðni Bergsson og Heimir Karlsson spjalla um boltann. Hvernig það telst miklu meiri þjónusta en að horfa á Willum Þór og Gumma Torfa spjalla um boltann í hverri viku veit ég ekki.

    2. Verðhækkunin er réttlætt af því “að enska Úrvalsdeildin er dýrasta og vinsælasta sjónvarpsefni í heimi.” Mmm hmmm.

    3. Hilmari finnst betra að 4-4-2 skuli fara í loftið strax eftir leik á laugardegi, en ekki á mánudögum eins og var hjá Willum og Gumma Torfa. Hann er hins vegar hér að horfa framhjá þeirri staðreynd að SkjárSport voru með gesti í íslenskum þætti fyrir, á meðan, og á eftir laugardagsleikjunum. Þar gátu gestir, ásamt Snorra Má, tjáð sig um leikina og atvik úr þeim.

    4. Þrátt fyrir að starfsmenn Sýnar hafi verið frumkvöðlar í að klaga SkjáSport fyrir að hafa nokkra af “aukaleikjunum” á laugardögum með enskri lýsingu þá ætla þeir að gera nákvæmlega það sama hjá sér. Á laugardögum verða þeir með íslenska lýsingu á hádegisleiknum, aðalleik síðdegisins og kvöldleiknum, en hinir fjórir leikirnir sem verða sýndir á “hliðarrásunum” síðdegis verða með ensku tali.

    5. Þeir segjast vera með töluvert meira af erlendum þáttum en var á SkjáSport.

    Eftir þessi samtöl þeirra á Fótbolti.net við Pétur og Hilmar finnst mér niðurstaðan skýr: það er ekki meiri innlend dagskrárgerð í tengslum við ensku knattspyrnuna, það er hins vegar meira um erlenda þætti. Hins vegar munu íslensku íþróttafréttamenn Sýnar heimsækja klúbbana út með reglulegu millibili. Þeir verða ekki með fleiri leiki í íslenskri lýsingu en SkjárSport, en þeim finnst mikill munur í að þátturinn 4-4-2 kemur strax á eftir boltanum á laugardögum, en ekki á mánudagskvöldum eins og þáttur Willums, Gumma Torfa og Snorra Más var.

    Skilaboðin eru skýr: þeir fóru stjörnuhátt með tilboð sitt í útsendingarréttinn til að yfirbjóða Skjáinn og RÚV, og eru í ofanálag að kaupa eitthvað af erlendu sjónvarpsefni. Þetta, samkvæmt þeirra eigin orðum, eru ástæðurnar fyrir 176% hækkun á mánaðarverði fyrir sérstöð enskrar knattspyrnu.

    Ég hef núna fengið svör við þeim spurningum sem mér fannst ég þurfa. Ég efast ekki um að umfjöllun stöðvarinnar verður glæsileg, en þær ástæður sem Hilmar og Pétur gefa fyrir nær þrefaldri hækkun verðsins eru að mínu mati ekki nægar til að ég versli mér áskrift.

    Þakka samt Pétri og Hilmari – sem og Herði, að sjálfsögðu – fyrir skýr og hreinskilin svör við þeim spurningum sem við höfðum.

  108. Einu næ ég ekki. Fyrst það eru innan við 10% manna sem þurfa að borga fullt gjald og að 90% þeirra viðskiptavina eru að fá sama verð eða lægra, af hverju bjóða þeir þá ekki þessum 10% bara stöðina á lægra verði? Þetta er ekki vildarverðskrá, þetta er refsingarverðskrá.

  109. Fjármálastjórinn sagði held ég að 80% væru að græða sem ég held að sé hæpin fullyrðing.

    Hann var því að segja að 80% af áskrifendum Enska boltans í fyrra hefðu verið með Sýn eða hugsanlega einhverja aðra áskrift hjá 365!!! Stenst þetta??

    Þetta er bara alltof dýrt. Maður vildi gjarnan komast yfir að horfa á allt efnið sem er sýnt á Sýn en ég hef bara margt annað að gera.

  110. Var að hlusta á fótbolta.net þáttinn:

    Fyrsta lagi hefði verið óskandi ef þáttastjórnendur hefðu fengið einhvern í stúdíó sem hefði getað andmælt. Það er ferlegt að heyra þá tala um einhvern “minnihluta” sem sé “að væla”…án þess að fá einhverja sem hafa verið að gagnrýna þetta á málefnalegan hátt til að segja sína skoðun.
    Svo segja þáttastjórnendurnir þegar menn eiga að fá að hringja inn:
    “Það er óþarfi að vera með skít þó menn þurfi að borga pening fyrir að horfa á fótbolta”.

    Frábært og málefnalegt kæru þáttastjórnendur. En þeir spurðu nú Pétur samt nokkrar erfiðar spurningar og það er vel.

    Takið eftir einu, þetta hefur verið gagnrýnt og mikil umræða um þetta mál á http://www.arsenal.is, http://www.manutd.is og http://www.chelsea.is á nákvæmlega sömu nótum og við höfum verið að ræða.

    Tökum aðeins fyrir þrjú helstu atriðin sem komu útúr viðtali fótbolta.net við Pétur og Hilmar. Verðskrána, aukaefnið og epli og appelsínur.

    Verðskráin: Ekkert raunverulegt svar. Pétur mælir með því að menn eigi að sitjast niður í 2-3 mínútur til að skilja hana. Það er semsagt ekki flóknara en það.
    Einnig sagði hann að “algengt verð” væri svipað og hjá Skjánum. En þá er gert ráð fyrir að menn séu með einhvern annan pakka hjá 365 og það er akkurat það sem við höfum verið að gagnrýna.
    Hann vildi meina að það að taka eina stöð út myndi skapa of flókið áskriftakerfi. Þetta er skelfilegur hugsanaháttur hjá þessu fyrirtæki.
    “Það er engin ein verðskrá sem hentar öllum”, sagði Pétur.
    En það var einföld verðskrá sem gekk upp í fyrra.

    Pétur sagði að þetta væri gott fyrir 80% viðskiptavini 365, verra fyrir 10% og betra fyrir 10%. Takið eftir “fyrir viðskiptavini 365”

    Aukaefni:
    Enn hengja menn sig líka í að réttlæta verðið með því að vitna í framleiðslu á aukaefni. AUKAEFNIÐ ER EKKI VIRÐISAUKANDI!!! Flestir horfa bara á leiki síns liðs og annað er Ég trúi ekki að menn láti plata sig svona að eitthvað Masters-mót og umræðuþættir í kringum leikina eigi að réttlæta kostnaðinn. Við höfum bara áhuga á leikjunum sjálfum.
    Pétur benti síðan á að auðvitað fari ÍÞRÓTTAFRÉTTAMENN SÝNAR SVO ERLENDIS OG VERÐI MEÐ ÞÆTTI ÞAÐAN.
    Englandsferðir Arnars Björnssonar og viðtöl við enska aðdáendur fyrir utan Upton Park eru ekki eitthvað sem mig langar að borga aukalega fyrir. Skjárinn gerði þannig aukaþætti með t.d. Villa Naglbít og um Reading án þess að minnast á það sem virðisaukandi.
    Afslættir hjá Iceland Express og Útilíf er ekki eitthvað sem skiptir máli heldur.
    Að lokum varðandi þetta, að flutningur á efni og við séum lítið markaðssvæði er ekki gott svar. Flutningurinn er eins og hjá Skjánum í fyrra og ég trúi ekki að Sýn borgi tvöfalt meira fyrir sama hlutinn.
    Annað, sjónvarpsréttur er seldur eftir stærð markaðs, þannig að þeir sem eru á minni svæðum þurfi ekki að líða fyrir það. Þess vegna eigum við ekki að þurfa að borga svona miklu meira en t.d. Englendingar.

    Epli og appelsínur:
    Pétur segir að menn séu að bera saman epli og appelsínur, að ekki sé hægt að bera saman dagskrána sem var á Skjánum og það sem Sýn er að gera.
    EN ÞAÐ ER ÞAÐ SEM VIÐ ERUM AÐ MEINA, Sýn er að reyna að fá okkur til að kaupa heila ávaxtakörfu þegar okkur langar bara í epli.

    Svona er mín upplifun. Skjárinn seldi mér epli sem mér líkaði rosalega vel við.
    Sýn tók svo eplið og ætlar að selja mér ávaxtakörfu.
    Ég er ósáttur við það að borga mun meira fyrir eplið heldur en ég gerði útaf því að ég vil ekki ávaxtakörfu.

    Góð viðleitni hjá Pétri að koma í þáttinn en málsvörn 365 heldur ekki vatni frekar en áður.

  111. Þessir Sýnarmenn eru svo hrokafullir og leinlegir. Hótar verðandi Sky áskrifendum á Íslandi að Smáís fari að naga í neglurnar á þeim. Má ekki lengur sýna leiki á sportbörum sem eru frá Sky? Gaman þætti mér ef einhver Smáís tittur myndi ganga inn á Players í Liverpool Manutd og segja einhverjum að slökkva á stöðinni 🙂

    Gerir fátt annað en að lýsa því yfir að 442 verði mun vandaðri þáttur en Skjár Sport þættirnir. Hvernig betri verða þeir? Verður betri lýsing svo kinnbein á Eyjólfi sjáist betur en á Skjár Sport. Eða verður þátturinn með betra skemmtanagildi og betri útskýringar? Þeir setja mikla pressu á sig með því að alhæfa það strax.

    Annars fannst mér þessar umræður á Reykjavík FM býsna ritskoðaðar og óbeint að efninu. Ég skora á 365 að frá 15. maí til 11. ágúst að sýna eingöngu endursýnt efni á stöð 2 frá síðastliðnum 9 mánuðum. Sjáum til hversu margir “vildaráskrifendur” Stöðvar tvö gleðjast yfir því. Ekkert betur en verðandi áskrifendur Sýnar 2 að minnsta kosti.

    Svo að lokum, hví í ósköpunum sendir Sýn ekki út í High Definiton?

  112. Ég mun ekki kaupa Sýn2 frekar en ég keypti HM í sumar þar sem mér finnst 365 með verðlagninguna alveg í bulli.

  113. Ég hef ekki verið með EB sjálfur síðustu tímabil en hef verið svo heppinn að geta séð 98% Liverpool-leikja hjá félögum mínum. Sé nú fram á að sjá kannski 30% Liverpool-leikja þökk sé þessari verðhækkun því mjög skiljanlega geta fátækir námsmenn ekki staðið undir svona okri.
    Það er út í hött að tala um bætta þjónustu og meira efni þegar menn eru bara að kaupa þetta til að sjá leiki með sínu liði og 4 þús+ kall er alltof mikið fyrir 4-5 leiki á mánuði.
    Tek líka undir með Daða þetta með epli og ávaxtakörfu.

  114. Sýn skoraði sjálfsmark með að koma með þennan Pétur fram á sviðið, ótrúlega hrokafullur gaur.

  115. Ég bendi mönnum einnig á að fylgjast með Ísland í dag á Stöð 2 í kvöld, rúmlega sex. Þar mun framkvæmdarstjóri tekjusviðs 365 miðla mæta og ræða þessi mál við Steingrím Sævarr og co. Það er væntanlega þessi sami Pétur og var í viðtali við Fótbolta.net í hádeginu. Verður fróðlegt að sjá hvort eitthvað nýtt kemur fram þar. Hvet alla til að horfa.

  116. Hahaha, hversu tilgerðarlegt verður það viðtal á Stöð 2 í kvöld. Ætli að þetta verði ekki meiri auglýsing um frábærleika Sýnar 2 í staðinn fyrir umræða um okrið sem er í gangi hjá þeim.

    Ætli hann reyni ekki að bæta upp fyrir sjálfsmarkið sem hann gerði á Fótbolta.net í dag og reyna að skora þrennu í kvöld í viðtali sem verður líklegast dulbúin bein útsending svo allt heppnist nú vel.

  117. Lolli, ég treysti nú alveg Steingrími Sævarri til þess að gera þetta viðtal almennilega. Við sendum póst á hann þar sem við bentum honum á þetta og erum mjög sáttir við að hann skuli ætla að taka þetta mál upp.

    Auðvitað er það alltaf hálf erfitt þegar að ein deild í fyrirtæki er að taka viðtal við aðra, en ég treysti Steingrími til að gera þetta með sæmd.

  118. Ef þetta á að vera hlutlaus fréttaskýring þá hljóta þeir hjá ísland i dag spyrja nokkrar “erfiðar” spurningar um þetta mál. Annars verður þetta eingöngu dulbúinauglýsing.

    En ég er langt frá því að vera sáttur við þessi svör hjá þeim og er ekkert á leiðini að verða áskrifandi af Sýn2.
    En hafið þið fengið einhver viðbrögð frá sjónvarpsstjóra sýnar??

  119. Nei, en hann svaraði fyrir sig í þættinum Fótbolti.net áðan og við bárum það inní ummælaþráðinn hér rétt fyrir ofan (ummæli #106). Hann gæti talið að það nægi.

  120. Ég kaupi ekki Sýn – en fylgist úr fjarska með því hvort þeir lýsi ekki örugglega öllum leikjum á íslensku 😉

  121. Mæli með að hægt verði að kaupa staka leiki í gegnum ADSL, þá get ég verið þokkalega sáttur.

  122. Það er voðalega lítið við þetta að bæta. En það hefur þó komið fram að Sýn2 mun senda út enska boltann í HD. Það er mikill kostur. Mér skilst að það verði sent yfir loftnetskerfið svo menn þurfa ekkert að fá sér ADSL línu eða eitthavð þannig vesen. Mér fannst ágætt að koma með jákvæðan punkt inní þessa umræðu.
    Þess má geta að ég er einn af þeim heppnu sem er að kaupa mikið af 365 og fæ því örlítið lægra verð á Sýn2 en ég fékk hjá skjásporti í fyrra.
    Ég er samt sammála þeim 119 þráðum sem hafa komið hér á undan mér að langflestu leiti. En þetta er bara ekki að koma mér neitt á óvart þar sem margar áskriftir þarf til að borga niður milljarðinn sem var borgaður fyrir réttinn. 365 er klárlega að ganga eins langt og þeir telja að þeir geti gengið og telja greinilega að sársaukamörk áhangenda enska boltans hækki umfram það sem það er í raun.

  123. Einar, ég vona svo innilega að vel verði staðið að þessu viðtali í kvöld og þetta verður ekki einhver gjörningur til að minnka gagnrýnina. Það kemur bara í ljós klukkan 18 í kvöld.

    Jóhann, geturu sagt mér hvar þú heyrðir að Sýn ætlar að senda boltann út í High Definition. Ég hef heyrt margar sögur af þessu og í engri af þessum orðrómum var sagt að Sýn ætlar að vera með HD. Ef svo er þá fagna ég.

    Svo er ein vangavelta, ég er með Sýn á 1990 krónur á mánuði í gegnum Og1 hjá Vodafone. Þar sem mér hefur ekkert verið tilkynnt um að því tilboði ljúki þá geri ég enn ráð fyrir því að fá Sýn á 1990 og þar sem ég er í M12 hjá Sýn (ekki Stöð 2 og allt hitt) þá geri ég sterklega ráð fyrir því að fá Sýn 2 á 2837 krónur á mánuði. Sem verður ekkert alltof mikið fyrir mig en samt sem áður veruleg hækkun að því leyti að ég þarf að borga þetta yfir sumartímann. 4827 krónur er fínt fyrir mér þótt að ég hafi lítinn áhuga að eyða tæplega 10.000 krónum yfir sumarmánuðina í enska boltann og meistaradeildina. Ég hef heyrt að margir hafa fengið símtöl frá 365 þar sem þeim hefur verið sagt að tilboðið renni út í Ágúst en þar sem mér hefur ekki borist sú tilkynning ætla ég bara að nýta réttar míns og fá þetta á umsömdu verði.

  124. Ég held að þeir hafi verið að tala um að hlustandinn ætti ekki að vera með skítkast í garð Sýnar gaursins, þ.e.a.s. þáttastjórnendurnir, þegar maðurinn spurði Sýnargaurinn hvort hann væri á “lyfjum”:). Þú ert eitthvað að misskilja Daði. Umræður þurfa að vera málefnalegar.

    Mér fannst svör Péturs loðin sam sem áður og er sammála Daða með það. Ætla ekki að borga fyrir þetta.

  125. Það er klárt mál eftir því sem þeir eru fleirri sem mótmæla þessu fáráðlegu verðum, þeimum meiri líkur eru á að 365 sjái að sér í þessari vitleysu. Í sambandi við HD dæmið þá var þetta fréttatilkynning í Mogganum. Ég á reyndar eftir að sjá hvernig þeir bera sjónvarpsmerkið í gegnum örbylgju eða ADSL. Eins og staðan er þá ætti breiðbandið og gagnaveita orkuveitunar að ráða slíkar sendingar.

  126. Lolli ég fékk bréf frá vodafone núna í byrjun júlí um að þetta yrði síðasti mánuðurinn sem Sýn yrði á 1990 eða 1870 eftir vsk breytinguna.

  127. Svo eru auglýsingarnar svolítið villandi því þú færð alls ekkert Sýn 2 á 2837 krónur ef þú ert með Sýn fyrir, ég þarf að borga 3510 fyrir Sýn 2 þó ég sé með Sýn fyrir og er í M12 en þetta er eitthvað í sambandi við að ef þú ert í M12 með eina stöð færðu 5% afslátt af grunnverðinu(grunnverðið er 4500 á Sýn) en ef þú ert með tvær stöðvar eins og til dæmis Sýn og Sýn 2 þá fær maður 20% afslátt af báðum stöðvum sem gerir Sýn á 3600 og Sýn 2 á 3510(grunnverðið á Sýn 2 er 4390) þannig að það er mjög villandi að auglýsa þetta svona, væri nær að setja bara upp töflu með öllum pökkum og hvað þeir kosta og hafa eitt verð fyrir þá sem eru í M12 og annað fyrir þá sem eru ekki í M12 og vilja bara taka kannski einn og einn mánuð í einu og ekkert á milli og þá borga þeir meira fyrir þá mánuði sem þeir taka.

  128. Ég er búinn að fylgjast með þessarri umræðu og langar að leggja orð í belg – þetta kemur ekkert svo illa út fyrir þá sem hafa verið M12 áskrifendur, þ.e. eins og ég með Stöð2 og Sýn. Þannig að hækkunin er u.þ.b. 500 kr/mán. Ég skil gremju þeirra sem sem ekki hafa verið áskrifendur enda verðið alveg úti hött m.v. fullt verð á Sýn2 í samaburði við EB. Við þig Hörður þá vil ég segja það að þið á 365 ættuð að skammast ykkar fyrir lélega upplýsingargjöf. Ég er ítrekað búinn að reyna að fá upplýsingar um hvernig fyrirkomulagið og verð ætti að vera en þið látið yfir höfuð að svara símaskilaboðum og tölvupóstum. Til að hafa kúnnana góða þá þarf að hafa allt svona gegnsætt og láta kúnnana fylgjast með hvað þið ætlið að gera, ekki að koma með svona skrípaauglýsingar sem hafa ekkert með fótbolta að gera. Nær væri að lækka áskrifatarverðið en að borga svoan vitleysu. Við, neytendurnir, viljum fá svör frá ykkur og það strax hvernig þið ætlið að hafa fyrirkomulagið.

  129. Smá viðbót: Veit einhver hve margar rásir verða undir Sýn2 og verða einhverjir Premier Leauge leikir sýndir á Sýn og Stöð2 eins og um árið ?

  130. Getur ekki verið að þið séuð að rugla saman HD og Widescreen? Ég held að þeir muni senda leikina út í widescreen formatti, en með núverandi útsendingarkerfi/móttakara mun það aldrei verða HD. Burt séð frá því hvort að þeir geti dreift merkinu í gegnum örbylgju, ADSL o.sv.frv. þá er núverandi endabúnaður (Digital ísland móttakararnir) ekki HD compatible og því þyrfti að skipta öllum myndlyklum út. Það er ekki að fara að gerast … því miður.

    En ég fagna því svosem ef þetta verður í widescreen, þá getur maður loksins “nýtt” allan flatskjáinn sinn, eða a.m.k hætt að horfa á hlutina strekkta 🙂

  131. Glæsileg umræða sem ég skil að vissu marki!

    Nánast allir hér á síðunni gefa sig út fyrir að vera miklir Liverpool menn og sumir hverjir hafa verið með Skjá Sport undanfarin ár einungis til að horfa á Liverpool leiki. Því spyr maður sig: Er 4000 þúsund kall mikið á mánuði fyrir það að geta legið heima sjá sér og séð alla þá Liverpool leiki sem maður vill? Nei, það finnst mér ekki. Ég væri þess vegna til í að borga meira en þetta! Liverpool er liðið, og maður hefur eytt töluvert meiri peningum til að sjá leiki en þetta klink sem 365 er að biðja um.
    Menn eru tilbúnir að fara á pöbbinn, fá sér burger og bjór og horfa á leikinn þar! Það kostar um 3000 kall og þá ertu langleiðina kominn í hina fallegu upphæð 4.171 (binditími í 12 mán, sem maður þurfti líka að gera hjá Skjá Sport ef maður vildi fá besta dílinn) sem er verðið á boltanum í mánuð.

    Hættum þessari umræðu, einbeitum okkur að boltanum. Annað hvort borgun við eða ekki. Verðinu fáum við ekki breytt. Liverpool menn eru ekki þekktir fyrir að vera eins og tuðandi ManUtd menn sem að öllum líkindum búa í Vesturbænum og hringja í Þjóðarsálina annað slagið………EÐA HVAÐ?!?

  132. M.v. ummælin hér á undan þá held ég að 365 verði að gera hreint fyrir sínum dyrum, ætla þeir að senda út í “widescreen” ?? Það yrði alveg hræðilegt fyrir minn Plasma 🙁 ég hef heyrt að þeir ætli að senda út í HD en sel það ekki dýrara en ég keypti það. Koma svo Hörður, bretta upp ermarnar og taka saman almennilegann kynningarpakka og pósta honum hérna inn.

  133. Björn Zoéga Björnsson: Ha, afhverju heldurðu að það komi verr út í Plasmanum þínum? Ég hélt að allir plasma-skjáir væru í widescreen formatti (16:9). Þú veist að allt HD efni er í widescreen? (720p, 1080p/i)

  134. Þakka góðar og þarfar umræður.

    Markaðurinn mun einfaldlega sjá um þetta. Ef fólk er óánægt, þá getur það einfaldlega sniðgengið vörur og þjónustu hjá 365 og tengdum fyrirtækjum.

    Ef fólk er ánægt, þá getur það einfaldlega beint viðskiptum sínum til 365 og tengdra fyrirtækja.

    Til glöggvunar er hér listi yfir nokkur þessara fyrirtækja:

    Vodafone
    Sýn
    Stöð 2
    Fréttablaðið
    Securitas
    tonlist.is
    visir.is
    einkamal.is
    gras.is
    blog.central.is
    Bylgjan
    FM 957
    Xið
    Létt 96,7
    Sena
    Cod music
    Dennis
    Smárabíó
    Regnboginn
    Borgarbíó
    Háskólabíó
    Sagafilm
    Basecamp
    Sýrland
    Sirkus
    Reykjavik.com
    Innn

    Svo er 365 skráð fyrirtæki á markaði þannig að fjársterkir einstaklingar ættu að geta haft nokkuð mikl áhrif 🙂

    PS.
    Tek það fram að ég er ekki enn búinn að ákveða mig en eins og staðan hjá mér er í dag þá er ég með ansi mikil viðskipti við þessi fyrirtæki. Hef t.d. verið að nýta mér (og verið mjög sáttur við) Og1 tilboðið fyrir Sýn sem er núna að detta úr gildi.

  135. ég er nú frekar svekktur að hafa ekki fylgst betur með síðunni uppá síðkastið til að geta tekið þátt í umræðunni, því ég verð að viðurkenna að ég nenni ekki að lesa 136 komment til þess að koma mér inní umræðuna, metnaðarleysi ég veit en ótrúlega gaman að sjá hvað það er mikill áhugi og að mér sýn-ist mikil samstaða í þessu máli!!

  136. Off topic:

    HD format er reyndar til í þrem útfærslum. 720p (1280×720), 1080p (1980×1080 progressive) og 1080i (1980×1080 interlaced).

    Það er því ekki rétt að segja að HD SÉ 1980×1080, það er bara einn af 3 “standördum”, en sá er reyndar oft kallaður “full-HD” vegna þess að hann er sá þeirra sem er með hæstu upplausnina.

    En já, back on topic …. 🙂

  137. Ég tel mjög ólíklegt að verið sé að rugla saman HD og Widescreen eins og e-r sagði. Það kom frétt um þetta í Morgunblaðinu á miðvikudaginn (á forsíðu eða baksíðu) þar sem stóð að Sýn 2 myndi mjög líklega senda út í HD.

  138. Svo er spurning hvort menn fari að prófa sig áfram með svokallað PTP TV.
    Flestir eigja jú tölvur 🙂 og svo er bara spurning um framhaldið. Að vísu ekki full gæði, smá hik stundum o.s.frv. Ég sjálfur laumaðist til þess að prófa þetta í fyrra og þetta virkaði ágætlega.
    Why pay ?

  139. Eins og Free Bee kemur inná þá verður fróðlegt að sjá í hvaða átt p2ptv þróast á næstu misserum. Eins og er þá eru gæðin ekki það góð að maður líti á það sem fyrsta kost en frekar eitthvað til að bjarga sér með þegar ekkert betra er í boði. Ég notaði það töluvert í fyrra þar sem ég var ekki með Sýn og fylgdist því með CL í gegnum sopcast og tvants ofl. þegar ég komst ekkert annað í betri gæði.

    Ég ætla persónulega að bíða með að ákveða mig hvort ég tek inn sýn2, sky eða eitthvað annað og notast við p2ptv á meðan. Í sumar hefur t.d. verið hægt að ná Setanta sports rásinni sem kemur til með að sýna einhver slatta af PL leikjum í vetur. Þar eru allaveganna enskir þulir þó svo að myndgæðin í gegn um netið séu ekkert á við það sem sýn mun bjóða uppá.

    Ég held að það sé borin von að þeir sýnarmenn taki sig til og lækki hjá sér verðskránna og því líklegt að þeir sem eru ósáttir við verðið neyðist annað hvort til að kyngja því bara og borga eða leita annara úrræða ætli þeir sér að fylgjast með í vetur. Peer to peer tv er þá eitt úrræði sem hægt er að bjarga sér með.

  140. Þetta viðtal núna í Ísland í dag var nú meira bullið. Tveir menn sem hvítþvoðu þessa hækkun, gerðu ekkert úr henni og töluðu um einhverja lækkun sem ég held að enginn geti rökstutt af viti.
    Sviðsett viðtal.

  141. Ótrúlegt hvernig menn henda tölum upp í loftið og vona að það rugli menn.

    80-90% eru að græða og þeir sem borga mest fyrir Sýn 2 eru að hækka um 60% o.fl. er slegið upp. Ætli Hilmar hafi lært prósentureikning hjá KR?

  142. Ég er ekki allveg að sjá hvað Sýn2 er að gera fyrir mig umfram EB, nema að borga hærra verð fyrir eitthvað efni sem ég horfi ekki á hvort sem er. Ég veit ekki með aðra en ég var með EB bara til að sjá leikina ég horfði sára sjaldan á þessa auka þætti. Það sem Eb gerði vel var að það var ekkert auka “virðisaukandi” efni sem maður borgar fulgur fyrir.
    Þetta viðtal var buy the way frekar máttlítið. Annars vil ég þakka fyrir góða og öfluga umræðu sem greinilega hefur eitthvað hrist upp í fólki.

  143. Já verð nú að vera nokkuð sammála óskari… ég bara botnaði ekkert í því hvað þessi pétur var að segja… lækkun… hækkun… lækkun hækkun…

    og svo veit ég ekki hvað var minst oft á gamalt efni úr úrvalsdeildini.. og oldbays fótbolta… og svo væri gaman að sjá hvort að þessi 80% áskrifenda 365, séu fleyri en þeir sem ætla sér ekki að kaupa áskrift vegna fáránlegrar verðskrár :S

  144. næsta tímabil klárast þann 11. maí…. þannig að í þrjá mánuði (maí, júní, júlí) verður rukkað ca 3-4 þús kall á mánuði (eftir því hversu margar stöðvar menn eru með hjá 365 í 12 mán bindingu) fyrir old boys fótbolta + gamla leiki…. sá aðili sem var með þetta síðast rukkaði 0 kr. í gúrkutíðinni (yfir sumarmánuðina, þegar enska úrvalsdeildin er ekki í gangi)

  145. Ég er ekki að sjá hvað ég græði á að gera 12 mánaðar samning. Ef ég kaupi sýn2 í 10 mánuði þá borga ég 43900 en ef ég tek sýn2 í 12 mánuði og bindi mig þar af leiðandi er ég að borga 50052 en fæ tvo og hálfan mánuð af endur sýndu efni á 6152 kr. Ég mundi þá spara þessar 6152 kr fyrir næsta tímabil.

  146. Þetta viðtal á Stöð 2 áðan gerði ekkert annað en styðja allt sem ég hélt um málið.

    1. Það á að treysta á hjarðeðli Íslendinga.
    2. 365 ætla alls ekki að lækka verðið og finnst við vera fá mjög mikið fyrir peninginn (hafa samt ægilega mikla samúð með þeim sem hækkunin er mest hjá.)
    3. Þeim finnst ennþá old-boys leikir, 1.deildin og álíka dót gríðarlega “virðisaukandi”.
      Við hér á Liverpool spjallinu erum bara hávær minnihluti. Langflestir ákrifendur Sýnar eru jafnvel himinlifandi með þessi verð!

      1. Verja flókna verðskrána með tryggðarkerfinu og aukna afsláttinum eftir því fleiri stöðvar sem maður kaupir (m.ö.o. það á að nota söluvænstu vöruna sem þeir borguðu yfirverð fyrir til að pranga allskonar drasli inná okkur)

    O.sfrv. o.sfrv.

    Maður er bara orðlaus eftir þetta drottningarviðtal sem engu svaraði. 🙂

  147. Þetta viðtal var tekið af Pr-manni við Pr-mann. Gekk ágætlega sem slíkt, en það náð ekki útfyrir Pr-stigið. Skemmtilegt þegar þeir notuð orð eins hávær minnihluti til að tortryggja okkur sem gagnrýna þessa hækkun. Notuðu verð með seðilgjaldi hjá skjánum til að sína minnstu mögulegu hækkun. Einnig báru þeir saman áskriftir á skjánum á mánaðar leveli en ekki á ársgrundvelli. þeir gleymdu líka að minnast á skattalækunina 1. mars og ótal öðrum hlutum. Gagnrýnislaus Pr-mennska sem vonandi flestir sjá í gegnum.

    Því miður þá átta þeir sig ekki á því að áskriftar sjónvarp sem slíkt er orðið úrelt.

  148. Ætli að verðið hjá Sýn sé með seðilgjaldi innifalið 🙂

    Eitthvað held ég að þessir skrifstofumenn á 365 ættu að fara að læra reikning á ný, og þá aðallega prósentureikning. Því þetta er svo auðvelt :p

  149. Sælir, hef verið að fylgjast með umræðunni án þess að leggja orð í belg. Hlustaði á RVK FM 101,5 í dag og einnig Ísland í dag. Alveg ótrúlega skondið hvernig þeir leika sér að prósentutölum og sleppa heildar krónutölunni þegar þú ert kominn með nokkrar stöðvar í áskrift. Einnig hamast þeir á að nota þetta auka efni sem afsökun fyrir hækkunum.
    Mér þykir líka mjög sérstakt að maður sem er með bæði stöð 2 og syn þarf að bæta við 2798 kr til að fá syn 2, en maður sem eingöngu er með stöð 2 fyrir þarf að bæta við 2704 kr til að fá syn 2, þrátt fyrir að hann muni og og sé búinn að vera að borga mun meira til 365 á hverjum mánuði. Þetta þykir mér alveg ótrúlegir útreikningar.

    Ég er búinn að spyrjast fyrir um H.D. hjá þeim, jú góðu fréttirnar eru þær að þetta er í vinnslu og er væntanlegt, hið slæma er að það mun þurfa að BORGA AUKALEGA til að fá H.D. Sú greiðsla fer þannig fram að þú færð sérstakann H.D. lykil sem þú þarft að borga fyrir bæði startgjald og mánaðargjald,,,, vúuhúúú munur að fá H.D.

  150. smá viðbót,,,, ekki er búið að ákveða verðin þó búið sé að ákveða að borga þurfi fyrir þetta.

  151. Kæru 365 miðlar,

    Takk fyrir að skemma fyrir mér komandi tímabil í enska boltanum!

    Kveðja,
    Hannes, venjulegur fóboltafíkill.

  152. Og enn kemur meiri skítur upp á yfirborðið. Faðir minn, sem búsettur er norður á Akureyri, var að tala við þau hjá 365 áðan varðandi fyrirkomulag áskriftar og þá upplýsti konan í þjónustuverinu hjá þeim hann um að á Akureyri verði einungis boðið upp á þrjár rásir fyrir enska boltann í stað fimm. Er þetta fyrirtæki viljandi að reyna fá á sig svona slæmt orð með öllum þessum óskiljanlegu hlutum sem þeir gera án nokkurrar sýnilegrar ástæðu sem kemur sér illa fyrir neytendur?

  153. Var að lesa komment 156 og er orðlaus. Ætlar 365 virkilega að mismuna fólki eftir búsetu? Eru Akureyringar sem sagt óæðri? Eða eiga þeir ef til vill að vera þakklátir fyrir að fá þó þessar 3 rásir? Greinilegt að 365 fær ekki háttsemisverðlaun KSÍ að þessu sinni.

  154. Helgi & Stefán, við skulum nú ekki fordæma 365 útaf þessu, það gæti hreinlega vel verið að ástæðan fyrir þessu sé tæknilegs eðlis ?

    En fyrst þeir sjá bara 3 rásir í stað 5, ættu þeir ekki þá að borga lægra verð þar sem þeir eru augljóslega að fá til sín minni pakka ?

  155. Tæknilegs eðlis? Eru semsagt einhver náttúrulögmál sem segja að á Digital Íslandi geti ekki verið meiri en þrjár rásir og aukning við þær sé ómöguleg? Ef þetta er tæknilegs eðlis þá er þetta í besta falli þess eðlis að þeir tíma ekki að auka við búnaðinn hjá sér til að geta fjölgað stöðvunum. Ef þeir eru ekki tilbúnir til þess þá sé ég ekki hvers vegna Akureyringar ættu ekki bara að borga 3/5 af gjaldinu. Það gerir 2634, sem er nokkurn veginn það sama og í fyrra. Nema fyrir 40% færri stöðvar.

  156. Tækniltopic:

    Það er augljóst að þeir eru að vinna í þessum tæknimálum.

    1. Ef þeir ætla að senda út í HD þurfa þeir að bjóða uppá nýjan endabúnað.

    2. Þeir sem nota ekki Digital Ísland RUSLIÐ munu eflaust fá færri rásir eins og staðan er með SÝN – Sýn Extra 1 og Sýn Extra 2

    Það sem mér finnst lélegast í þessu hjá 365 er að þeir virðast ekki vera komnir með á hreint hvernig þeir ætla að leysa þetta tæknilega. Samt búast þeir við því að fólk gleypi bara við þessu án þess að vita hvað það sé að kaupa.

  157. Fyrir mér er þetta einfalt!!! Áskrift af enska boltanum, eða meistaradeildinni verður ekki keypt meðan rétturinn er hjá 365-miðlum, tók þessa ákvörðun síðastliðið vor, eftir að ljóst var að rétturinn færi aftur yfir til þeirra. Ég var með enska boltann í fyrra hjá Skjánum, og fór á þá leiki í meistaradeildinni sem ég vildi sjá, þá varð Players varð fyrir valinu. Ég verð því tíður gestur á þeim stað, næstu þrjú árin…

  158. Þessi Pétur Pétursson hjá 365 er algjör Pappakassi… ég borgaði 1900 kr hjá skjá sport í 10 mán. þeir ætla að rukka áskrift í 12 mán. þeir ætla ábyggilega að hafa þessa 2 mán. eins og bíórásina eintómar endursýningar á efni …

  159. Ég skal strax viðurkenna að ég nennti ekki að lesa alla umræðuna hérna á undan. Ég veit ekki hvað margir hérna voru með sýn á síðasta ári um leið og þeir borguðu fyrir enska boltann. ef svo er hafa þeir borgað um 4000 fyrir sýn og svo 2000-2500 fyrir enska boltann. Ef þessir sömu einstaklingar halda áfram með sýn(ca 4000kr) og bæta svo við sýn 2 þá kostar það 2837kr á mán. Þá byrja menn að væla um sumarið á eftir af því að þeir þurfa að bindasig í 12mán. Það hefur alltaf verið þannig hjá stöð2(365 núna) að afslátturinn af því að binda sig í 12mán er ca 2mán fríir. Það sem má heldur ekki gleymast að sjónvarpsrétturinn af enska boltanum er mikið hærri en í síðustu 3ár og alveg ljóst að þótt þetta hefði verið áfram hjá skjásporti þá hefði þessi áskrift hækkað töluvert.

  160. Afslátturinn sem þú færð með því að binda þig í 12 mánuði með eina stöð er 5% svo það er ekki flókið að sjá að 5% af 12 mánuðum er 0,6. Þú færð því rétt rúmlega hálfan mánuð frían en ekki 2.

  161. Daginn Öll !
    Þegar EB hætti ákvað ég að hætta með alla fjölmiðla (ótrúlegt en satt gat ég ekki afskráð mig af póstlista RÚV… ((reyndi slíkt hið sama hjá RSK fyrir nokkru en fékk sömu svör og þeir hjá RÚV gáfu mér 😉 )) og athuga hvað maður er í raun að greiða fyrir þennan pakka, og athuga svo stöðuna aftur í haust. “Eftir að enski boltinn væri kominn heim” !
    Nú er svo komið, miðað við umræðuna síðustu daga, að maður fari að athuga hvað koma skuli hvað varðar áskrift á mínu heimili.
    Miðað við það sem komið hefur fram er ég ekki að fara láta draga mig á asnaeyrunum (sem eru nóg stór fyrir) og borga rúmar 100.000 krónur á ári (10 mánuðum ef menn vilja einblína á PL) fyrir það eitt að horfa á leiki með Liverpool enda ekki mikill áhugi hjá mér að horfa á Portsmouth vs. Bolton (tók þá tvo þar sem að Íslendingar spila með þeim) eða aðra leiki sem skipta MIG engu máli (auðvitað mun ég reyna að horfa á Scums vs. chel$ki og aðra slíka leiki en þeir eru ekki nema ca. 10 á þessum 10 mánuðum).
    Hvað mig varðar þá segi ég ekki annað en að Sýnarmenn (ekki 365 þar sem að þeir bjóða upp á margt annað en íþróttir) hafi skotið sig í fótinn hvað varðar verðlagningu. Ég mun endurnýja kynni mín við Players og fá mér burger og með því, þá daga sem Liverpool spila áhugaverða leiki (sem eru flest allir). Þannig að þessar 4.000+ krónur á mánuði fara til pöbbamenningar í ár.
    Ég verð þó að þakka Herði Magnússyni fyrir lýsingu á leikjum í Meistaradeildinni á Sýn í fyrra sem og á árum áður. Það að geta misst sig yfir leikjum sem skipta minna máli er hrein snilld og hefur verið framtak fyrir þá sem seinna hafa komið. Einnig vil ég þakka öðrum íþróttalýsendum sem hafa sinnt sínum störfum hjá Sýn af stakri prýði. Takk fyrir mig.
    YNWA
    kv, Trausti Bragason
    p.s. þetta er í fyrsta og síðasta skiptið sem ég skrái mitt eigið nafn undir þar sem ég er þekktur undir því sem hér að neðan kemur fram !

  162. Er að skoða þetta með áskrift að sýn2, aðallega fyrir kallinn sem er Liverpool gaur. Við búum á Akureyri og erum ekki með stöð 2 eða sýn. Það þýðir að ef við fáum okkur Sýn2 þá fáum við 3 rásir í stað 5 á höfuðborgarsvæðinu en samt er verðið 4390 kr á mán eins og þar. Nú og ef við bindum okkur í 12 mán þá fáum við tímabilið á 50052 kr í stað 43900kr. Frábært tilboð! Ég hélt nú að markaðs- og viðskiptafræðingarnir hjá 365 væru betri í stærðfræði en þetta og að þeir myndu vilja hvetja mann til að vera allt tímabilið.
    Vorum með Skjásport í fyrra, fengum 5 rásir á eitthvað tæplega 2500 kr á mán. held ég, hefði verið max 25000 kr allt tímabilið.
    Ef við berum þetta saman þá fáum við:
    75,6% verðhækkun
    40% þjónustulækkun vegna færri stöðva.
    Verri þjónusta en það ef einhver Liverpool leikur verður svo á stöðvum 4 eða 5 sem við höfum ekki. Fáránlegt!
    Ég held að við munum bara frekar fara á einhvern sportbarinn.

    Hluti af kommenti nr. 106:
    “Pétur Pétursson var í viðtali við Fótbolta.net í hádeginu og sagði m.a. eftirfarandi hluti:
    Algengt verð fyrir stöð er á bilinu 2700-2800kr. Lægsta mögulega verð 2368, hæsta verð 4390. Algengt verð er 2587.”

    Auðvitað er algengt verð 2587 því það er verð sem fólk er alveg tilbúið til að borga. Ég er nokkuð viss um að margir þeirra sem þurfa að borga hæsta verðið sleppa því bara og horfa á boltann einhvers staðar annars staðar.

  163. Daginn og takk fyrir góða umfjöllun.

    Ég er einn af þeim sem hefði átt að taka á mig alla hækkunina þar sem ég er ekki í öðrum viðskiptum við 365, er reyndar með afruglara frá þeim síðan ég lét þá taka mig í r**** með HM.
    Það kom mér því talsvert á óvart þegar sölumaður 365 hafði samband við mig í fyrrakvöl og bauð mér Sýn 2 á 2800 kr miðað við 12 mánaða áskrift.
    Ég taldi þetta ágætis díl þó svo þetta sé svoldil hækkun frá fyrra ári (og 3 óþarfir mánuðir).
    Hafa fleirri fengið slík tilboð?

  164. Kvöldið…ég verð bara að segja fyrir mitt leyti að mér finnst þetta verðlag vera komið út í algjörar öfgar. Fínt að fólk skuli aðeins verið farið að setjast niður og hugsa sig aðeins um, svona yfirgangur gengu ekki og menn eiga ekki að láta bjóða sér þetta verð. Það eitt er víst að ég sæki stemninguna á pöbbinn í staðinn fyrir að sitja heima og borga þetta suddalega verð.

    Held að þeir á 365 ættu aðeins að fara endurskoða sín mál og hvet alla til að standa fast á sínu og láta ekki vaða yfir sig á skítugum skónum..

  165. gaman að sjá þetta allt… ég gef lítið fyrir öll þessi komment frá þeim gaurum sem eru sárir yfir að þeir sem eru í viðskiptum við 365 þurfi að borga minna: það er alveg venjulegt, fastagestir á pöbb fá að opna reikning / aðrir ekki… sbr. ef þú ert í viðskiptum við okkur þá bjóðum við þér lægra verð… afar einfalt og afar sanngjarnt… það sem vantar líka í þennan spjallþráð er það að 365 og skjárinn gjörólík fyrirtæki: fyrir það fyrsta fékk skjárinn/EB dreifikerfið gefins þar sem að landsmenn voru búnir að borga fyrir það í öll þessi ár áður en ríkið seldi símann… 365 hefur þurft að greiða fyrir sitt úr sínum vasa.

    Skjárinn hefur enga sögu í áskriftasjónvarpi, 365 hefur verið með sama fyrirkomulag í um 20 ár…

    áskrifendur sýnar fá sýn2 á 2837 kr. og einhversstaðar heyrði ég að um 20000 manns hefðu verið með sýn síðasta vetur… ég held að það séu örugglega svipað margir og ætli sér að fylgjast með boltanum í vetur…

    einnig heyrði ég það að með 12 mánaða bindingu fylgja allar liðarásirnar með frítt sem eru 4 og eru í sportpakkanum á fjölvarpinu og ég held að hann kosti einhvern 2400 kall og í honum eru 11 rásir sem gera að maður fær 37% af honum frítt eða 888 krónur…

    2837 mínus 888 = 1949 kr.

    ef að þið poolarar viljið bara sjá LPTV (sem ég geri fastlega ráð fyrir) þá er verðið 2615 kr. á mánuði… ég er að fá þennan pakka og ekki finnst mér það vera slæmt…

    það er verð sem viðskiptavinir sýnar fá…

    sýn2 mun sýna 380 leiki beint…

    73Björn A

    Smá innleg frá Englandi. Ég var að kynna mér málið og þetta skilst mér að sé staðan fyrir búsetta í Englandi. Sky sýnir 92 leiki, Setanta 46 leiki og einhverjir í viðbót gætu verið í opinni dagskrá á ITV eða BBC.

    Sky

    12 mánaða binding, lágmark 34 GBP á mánuði með enska, 15 GBP án enska. Samtals (1034+215)=370 GBP á ári, u.þ.b. 48.000 kr. Þessi pakki inniheldur fullt af sky og öðrum stöðvum og meistara deildina.

    Setanta

    Engin binding, 10 GBP á mánuði í 3 og svo 15, samtals 135 GBP, u.þ.b. 17600. Þessi pakki inniheldur 9 íþrótta stöðvar (skoski boltinn ofl).

    Samtals

    Um 66.000 kr á ári ef maður vill sjá alla enska úrvalsdeildarleiki og meistaradeildin fylgir með.

    semsagt… að þrátt fyrir að við séum 200 sinnum færri en bretar fáum við miklu fleiri leiki en þeir… hmmm

    allavega… ég vildi bara koma þessu á framfæri þar sem að þetta hefur algjörlega vantað í umræðuna sem hefur farið fram hér á undan

  166. Við skulum hafa það allveg á hreinu að 365 hefur ekki greitt fyrir sitt dreifi kerfi úr eiginn vasa, heldur eru það neytendur sem hafa greitt fyrir þetta allveg eins og með dreifi kerfi símans.

  167. BEes, það er engin að segja að það sé eitthvað að því að umbuna þeim sem eru með mikil viðskipti við 365.

    Þau verð sem er verið að bera saman eru grunnverð. Grunnverð hjá skjánum var eitthvað um 2400 á meðan það er um 4400 hjá 365. Önnur verð er ekki hægt að bera saman. Þessi rök þín varðandi að fá afslátt sem fastagestur ganga því ekki upp. Bjórinn kostaði 600 á venjulegum pöbb en hækkar svo í 1000 en þú færð 40% afslátt sem fastagestur á meðan venjulegir kúnnar borga 1000. Það er ekki sanngjörn hækkun fyrir fjöldan þótt að það hafi ekki breytt neinu fyrir þig. Það sem væri sanngjarnt væri að þú fengir bjórinn á 360 kall sem fastakúnni!

    Fólk verður líka að átta sig á því að þegar þeir eru að reikna þetta viðbótarverð í verðskránni að þá er allur afslátturinn á öllum stöðvunum í því verði. Þannig að þegar þeir segja að syn + sýn2 að þá er viðbótarverðið 2837. Þá ertu að borga fullt verð fyrir syn sem er einhver 4500, því kemur það þannig út einsog þú sért að fá töluverðan afslátt af syn2 en það er vegna þess að afslátturinn sem þú átt að fá af syn er líka inní tölunni. Þetta vildarkerfi þeirra virkar þannig að þú átt að fá jafnmikin afslátt af hverri stöð t.d. 20% afsláttur af hverri stöð fyrir sig ef þú ert með tvær stöðvar. Þessi verðskrá þeirra er því mjög blekkjandi.

  168. Mæli með því að enginn kaupi þessa vitleysu þá verða þeir að lækka verðið.
    ódýrara að fá sér disk og áskrift.

  169. Framhald af fyrra Ummæli frá mér.

    Jæja… þá er komið að því að maður missti allt álit á 365.

    Fyrir utan það að ætla ræna landan með því að áskriftina að Enska Boltanum um 76% á milli tímabila (4.390 í stað 2.500).
    Þá reyna þeir að troða inn á mann Sýn 1 með í leiðinni.

    Eftirfarandi samtal átti ég við sölumann 365.

    “Bjarki: Halló.
    SM: Sæll, **** heiti ég og hringi frá 365. Þú ert áhugamaður um enska boltann ekki satt?
    Bjarki: Jújú.. það passar.
    SM: Má ekki bjóða þér áskrift að Sýn 2 fyrir 2.800 kr.?
    Bjarki: Humm… hvað hangir á spýtunni?
    SM: Ekkert, bara skuldbinding í 12 mánuðir
    Bjarki: Ok. Ég get tekið það. (þrátt fyrir það að tímabilið sé bara 9 og 1/2 mánuð)
    SM: Ok bæ.”

    Síðan sé ég í dag að það kemur reikningur fyrir rúmlega 8.000 kr inn á heimabankann hjá mér frá 365.
    Ég er fljótur að hafa samband við þá og spyrja hversvegna í anskotanum þessi reikningur er svona hár.
    Nú þá kemur í ljós að Sýn 2 kostar 2.800 kr fyrir þá sem eru líka með Sýn.
    Ég sagðist auðvitað ekki vilja Sýn og ég hefði ekki verið áskrifandi þegar hann hringdi og hefði aldrei verið áskrifandi nema í þá 3 mánuði sem HM var (tel reyndar að ég hafi ekki verið áskrifandi þar sem ég borgaði allt fyrirfram).
    Þá vildi drengurinn í þjónustumiðstöðinni hækka gjaldið í þá 4.390 kr. Ég var auðvitað ekki par sáttur og býð eftir að yfirmaður sölusviðsins hringi í mig eins og drengurinn lofaði. (sénsinn að það verði)

    Viðskiptahættir þessa fyrirtækis eru einstakir. Vona að sem flestir sjá að sér og kaupi ekki aðgang að þessu og kíki frekar á pöbbinn.

  170. Vinsamleg ábending til þeirra sem fá tilboð í gegnum símann.
    Fáið tilboðið sent til ykkar í tölvupósti (á prenti) svo að það fari ekki á milli mála hvað sé verið að bjóða ykkur. Það að fá ekki upplýsingar um hitt og þetta og fara svo að röfla gengur aldrei. Viðskiptavinurinn verður einfaldlega fúll og hraunar yfir viðskiptahætti fyrirtækisins vegna þess að misskilnings varð, sem auðveldlega hefði mátt leiðrétta. Í tilfelli Bjarka getur verið að sölumaðurinn hafi verið með það fyrir framan sig að Bjarki hafi verið áskrifandi að Sýn og því boðið honum þetta fína tilboð.

    Annars er þetta deginum ljósara:
    Verðið er að hækka úr 2.490 (að mig minnir) og upp í 4.390.
    Það er sama hvernig fólk vill mála þetta, verðið er miklu hærra en það var og um það snýst málið. Meiri þjónusta hefur ekkert um þetta að gera enda sýndu þeir hjá Enska boltanum (eins og þetta hét síðast) 99 % af öllum leikjunum beint. Ég hef engan áhuga á ensku 1. deildinni (það sem kemur á eftir Úrvalsdeildinni).

  171. Hérna er reiknivél sem ég fann á síðu Stöðvar 2:
    http://stod2.visir.is/?pageid=2051

    Þá kemur fram að í raun er Syn2 dýrari en menn halda þar sem þeir klárlega vega afslátt annarra stöðva sýn2 til lækkunar. m.ö.o. falsa staðreyndir.

  172. Varðandi punkt Vargs um hækkun úr 2490 kr. í 4390 er rétt að halda því til haga að rétt verð á EB var í restina var 2341 kr. eftir vaskurinn lækkaði. Raunhækkun á áskrift fyrir þá sem eingöngu vilja hafa EB í þann tíma sem keppnin fer fram er því 88%, hvorki meira né minna!

    Ég tek undir það að ég mun ALLS EKKI kaupa áskrift að enska boltanum á meðan slík okkurverðlagning er á ferðinni og skora á aðra neytendur að gera hið sama.

    Við neytendur eigum ekki að láta valta svona yfir okkur.

    Kveðja,
    Gunnar

  173. Þetta er algjörlega út í hött. Maður var að borga rúmar 200 kr. hjá SkjáSport fyrir hvað 5 stöðvar af fótbolta en hjá sýn tvö þarf maður að borga ca. 4500 kr. fyrir eina skitna stöð. Ég bara kaupi ekki svona rugl !!

  174. Ég var með Enska boltann í fyrra eins og svo margir aðrir og borgaði fyrir það um 2500 krónur á mánuði. Mér datt ekki í hug að vera með SÝN líka enda var hún á 4500 krónur á mánuði. Hins vegar skráði ég mig í Og1 og flutti allt mitt (síma, internet,gsm) yfir til Vodafone og fékk þar með SÝN á 2000 krónur. Þetta þótti mér ansi góð viðskipti að borga 4500 krónur fyrir SÝN og EB og þar af leiðandi allan þann bolta sem mig langaði að sjá.

    Nú er hins vegar ekki hægt að kaupa SÝN í gegnum Og1 og eina afsláttarleiðin er að kaupa SÝN og SÝN 2 saman á rúmlega 7300 krónur. Þetta er lauslega reiknað 63% hækkun. NEI TAKK.

    Frekar horfi ég á þetta í gegnum Sopcast eða á einhverjum barnum.

  175. Ummæli 175 sýnir þetta svart á hvítu. Það er í raun engin að fá Sýn2 á þessum verðum sem þeir eru að tala um vegna þess að þeir eru alltaf að reikna inn í þau verð afslátt af öðrum stöðvum. Ég mæli með að fólk skoði þessa reiknivél vegna þess að verðskráin þeirra á http://www.syn.is er bara kjaftæði og ég hreinlega skil ekki hvernig þeim dettur í hug að matreiða verðin svona ofaní okkur.

  176. Mæli með að fólk skoði reiknivélina sem er bent á í ummælum 175. Þar sést svart á hvítu að verðskráin er bara til villum um fyrir okkur. Verðin sem þeir eru alltaf að tala um eru verð þar sem er búið að reikna inn afslátt af öðrum stöðvum. Þetta eru í raun ótrúleg vinnubrögð.

  177. er ekki kolólöglegt að auglýsa með þessum hætti… ???? það ætti að benda neytendasamtökunum á þennan blekkingarleik

  178. Samkvæmt þessum reikni þeirra þá er aldrei hægt að fá Sýn2 ódýrara en 3.073kr.

    Svo kemur einnig fram þarna á síðunni

    *Sýn2 er ekki í boði fyrir analog myndlykla.

    Nú er ég alveg hættur að skilja……….

  179. Þetta er náttúrulega skandall alger glæpastarfsemi, hver ætlar að skrifa til neytendasamtakana. Ég hringdi í áskriftardeildina og þar var bent á að uppgefið verð séu þær krónur sem sparist af aukafslætti á sýn og stöð 2 sé maður með það. Ég er sem sagt að borga 3293 kr. fyrir enska boltan ekki 2798 eins og stendur villandi í auglýsingum (var að taka eftir því að fyrir ofan verðið stendur viðbótarverð!!!!). Þetta er tjóm tjara!!! Ég held að maður verði að fara að skoða sky pakkan.

  180. Hvað sagði ekki Stephan G:

    “Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi”

  181. Í auglýsingu frá þeim í útvarpinu er sagt að hægt sé að fá Sýn2 fyrir 2.368 krónum á mánuði. Hámarksafsláttur þeirra er 25%. Það gerir 3.293 krónur á mánuði. Skekkja upp á 39%.

    Ég er búinn að vera að grennslast fyrir um fyrirkomulagið á Sýn2 fyrir norðan. Þjónustuverið segir að þrjár stöðvar séu hámarkið og verið sé að vinna í því að bæta úr því. Þrisvar sinnum erum við búnir að hringja þangað til að fá að tala við sem flesta. Í dag sendi ég Pétri Péturssyni tölvupóst og hann segir mér að engar takmarkanir séu á Digital kerfinu á Akureyri. Frábær vinnubrögð.

  182. Ég var eins svo margir með sýn í gegnum Og1. Frétti það í gær að það væri að detta úr gildi þannig að mánaðarverðið myndi hækka í 4500 kr. Alveg frábært þar sem ég horfi ekki á golf,box,amerískan fótbolta eða nba. Ég horfði bara á meistaradeildina og enska bikarinn. Mér finnst það að borga 4500 kr fyrir nokkrar leiki frekar mikil blóðtaka.

    Ég tók mig til og sagði upp sýn í gær. Hvet alla sem eru óánægðir með þessa verðlagningu að gera það sama. Ekki vera þessi týpísku íslendingar, vera reiðir í 1 dag og gleyma þessu síðan. Eina leiðin til að fá þessa djöfla til að lækka verðið er að sem flestir segi upp áskriftunum.

    Það var hringt strax í mig frá 365 og mér boðin Sýn 2 á 2800 kr, sem ég skil ekki því á reiknivélinni á heimasíðu þeirra þá fer Sýn 2 lægst í 3073 kr og þá þarf maður að vera með allan pakkann. Borga 13.000 kr á mánuði. Ég spurði hann hvort ég þyrfti að vera með eitthvað meira til að fá þennan 2800 kr og hann sagði að ég þyrfti að vera í M12 í Sýn (minntist ekki á Stöð2 eða fjölvarpið) en þá kom í ljós að ég þyrfti að borga 4500 kr fyrir Sýn til að fá Sýn 2 á 2800 kr.

    Að sjálfsögðu verður meistardeildin og ensku bikarkeppnirnar á Sýn eins og var í vetur. Mig dauðlangar að vera með enska boltann í vetur en ég er ekki hrifinn af því að borga uppsett verð. Sölumaðurinn var að reyna selja mér það að dagskráin yrði svo “flott” á Sýn 2, mig langar ekkert að sjá neitt annað en mitt lið spila 90 mínútur. Ég er ekki að fara horfa á Sýn 2 í júní eða júlí. Ef ég tek bara Sýn 2 í M12 þá borga ég 4171 kr á mánuði allt árið, samtals 50.052 kr á ári. En ef ég tek Sýn 2 ekki í M12 og sleppi júní og júlí þá borga ég 4390 kr á mánuði, samtals 43.900 kr á ári. Svo ég er ekki að græða neitt á því að vera í M12. Mér finnst að ég ætti að græða á því að vera í M12 án þess að kaupa allar stöðvar sem 365 býður upp á.

    Segjum upp Sýn. Koma svo ……..

  183. Gerfihnattadiskur kostar 9500 kr, Lnb 3500 kr , festing 5000 kr, kaplar x m. Sky er að bjóða móttakarann frítt fyrir nýja áskrifendur með 12 mán. bindingu. Áskrift að multi pakkanum hjá Sky x hundrað stöðvar og 3-4 sky sport stöðvar kostar 43 pund per mánuð. er nokkuð spurning um hvað á að velja?

  184. Hafði samband við Sýn og það er ljóst að úti á landi t.d. á Akureyri verður bara hægt að sjá þrjár stöðvar í einu og ekki verður möguleiki á HD útsendingu. Þetta er því kerfið er ekki digital úti á landi heldur er sent í analoge í gegnum loftnet og því eru líka sjónvarpsgæðin mun minni.

  185. Úrlið farið, orðstír deyr /
    enska á Sýn þó tórir /
    en hversu lengi þrauka þeir /
    364?

5 Pings & Trackbacks

  1. Pingback:

  2. Pingback:

  3. Pingback:

  4. Pingback:

  5. Pingback:

Fowler til Cardiff.

Finnan framlengir