FC Augsburg

Spennustigið er gríðarlega hátt í Augsburg fyrir leikinn á fimmtudaginn og hefur verið það síðan lið Liverpool var dregið upp úr hattinum. Skiljanlega þar sem Liverpool er langstærsta erlenda félagslið sem Augsburg hefur mætt í alvöru kappleik. Einvígið við Liverpool kemur þeim hressilega á kortið í fótboltaheiminum en Augsburg er að keppa í Evrópukepppni í fyrsta skipti.

Stuðningsmenn félagsins virðast vera fádæma fagmenn og hafa skipulagt dagskrá fyrir stuðningsmenn Liverpool á meðan þeir dvelja í Augsburg. Þjóðverjar eru nokkrum áratugum á undan öðrum þegar kemur að svona fagmennsku en þetta er reyndar alls ekki vitlaus hugmynd hjá þeim. Stuðningsmenn Liverpool sýndu alls ekki sömu viðbrögð við þessum drætti og andstæðingurinn nema að því leiti að stuðningsmenn sjá fram á þægilegt og skemmtilegt ferðalag til Þýskalands. Augsburg alls ekki þekkt nafn í knattspyrnuheiminum og satt að segja vita líklega fáir á Bretlandseyjum meira um lið Augsburg en einmitt þjálfarateymi Liverpool. Borgin á sér hinsvegar miklu lengri og merkilegri sögu en maður hefði haldið í fyrstu. Þetta er þriðja elsta borg landsins.

Augsburg

Augsburg er tæplega 80 km frá Munich og er sú þriðja stærsta í Bæjaralandi á eftir Munich og Nurmberg. Íbúafjöldi telur um 285.þúsund manns. Borgin dregur nafn sitt af Rómverska keisaranum Augustus sem skipaði stjúpsonum sínum Drusus og Tiberius að mynda byggð á svæðinu. Skráð dagsetning á ferðum þeirra bræðra er 15 árum fyrir krist og var borgin á valdi Rómverja næstu 400 árin.

Augsburg var frábærlega staðsett hernaðarlega séð um miðja álfuna og þar renna saman Alpa árnar Lech og Wertach. Augsburg þróaðist á miðöldum í mikilvæga miðstöð sem tengdi saman kaupmenn úr öllum áttum.

Saga Augsburg nær eins og áður segir lengra aftur en okkar tímatal nær utan um og hefur alla tíð verið mikil valdabarátta á þessu svæði, stríðandi fylkingar hafa verið allt frá því að vera Rómverjar á móti Húnum í það að vera mótmælendur og kaþólikkar. Ein átökin standa þó klárlega uppúr en þau áttu sér stað 1584 þegar borgarbúar gerðu uppreisn vegna ákvörðunar borgaryfirvalda að breyta tímatali úr Julian dagatalinu sem hafði verið við líði í þúsundir ára yfir í Gregorian tímatalið. Ansi áhugaverð saga á bak við þessa breytingu á tímatalinu sem tók um 350 ár að innleiða að fullu í Evrópu.

Þetta var á hátindi Augsburg í sögulegu samhengi en á 15. og 16.öld bjuggu í borginni tvær af ríkustu ættum í heiminum á þeim tíma. Fugger ættin og Welser ættin en þær efnuðust gríðarlega á bankaviðskiptum, málmviðskiptum sem og öðrum áhættufjárfestingum. Veldi þeirra náði um alla Evrópu sem og til annarra heimsálfa.

Saga Fugger fjölskyldunnar nær allt aftur á 14.öld en þeir efnuðust gríðarlega á 16.öld og var frægasti meðlimur ættarinnar, Jakob Fugger, lengi talinn ríkasti maður allra tíma. Hans helsta arfleið lifir enn þann dag í dag með ýmsum hætti í Augsborg. Fyrir það fyrsta kalla stuðningsmenn FC Augsburg sig jafnan Fuggerstädter sem er til heiðurs Fugger fjölskyldunni og þá aðallega Jakob.

Það sem Jakob Fugger er þó frægastur fyrir á okkar tímum er að hann er talin vera einn sá fyrsti sem kom á fót félagslegu húsnæði. Hann keypti land árið 1514 og gerði árið 1516 samkomulag við borgaryfirvöld um að byggja og reka félagslegt húsnæði fyrir þá íbúa Augsburg sem þurftu á því að halda, verkmenn og aðrir með lítið milli handanna sem lent höfðu í áföllum sem þeir höfðu ekki stjórn á fengu inni í þessum húsum þar til þeir gátu séð fyrir sér á ný. Húsaleiga var í algjöru lágmarki.

Árið 1523 voru þetta orðin 52 hús, hverfið kallast Fuggerei og stendur ennþá og er í dag einn helsti viðkomustaður ferðamanna í Augsburg. Fuggerei hefur alla tíð og er enn notað undir félagslegar íbúðir og heldur Fugger ættin enn þann dag í dag utan um dæmið. Sjóðurinn sem notaður er til að styrkja þetta langlífa verkefni nær aftur til ársins 1521.

Tvisvar hafa Fuggerei húsin farið illa í styrjöldum en t.a.m. eftir seinni heimsstyrjöldina þá ákváðu afkomendur Fugger ættarinnar að endurreisa húsin og halda starfseminni áfram, eru þetta í dag 67 hús og 140 íbúðir. Á 17.öld bjó þarna m.a. Franz Mozart, langafi goðsagnarinnar en Mozart ættin er frá Augsburg.

Eins og áður segir er gríðarleg spenna í Augsburg fyrir komu Liverpool, hér má sjá Rolf Störmann, vallarkynni félagsins fara yfir þrjá staði sem vert er að skoða, þ.á.m. Fuggerei hverfið.

Ríkidæmi og uppgangur Fugger og Welser ættanna laðaði til borgarinnar mikið af mikilsmetnu fólki og var borgin á tíma miðstöð listamanna sem sumir hverjir náðu að skapa sér heimsfrægð sem lifir enn í dag. Fuggerei er auðvitað bara eitt af fjölmörgum samfélagslegum verkefnum sem þessar ættir tóku þátt í er veldi þeirra stóð sem hæst. Verst bara að þarna voru nokkur hundruð ár í að fótboltinn yrði fundin upp því líklega hefði Augsburg verið eitt af stærri nöfnum fótboltans á þeim tíma.

Augsburg er í dag öflug iðnaðarborg þar sem mörg þekkt vörumerki eru með starfsemi sína og er framleitt hátæknivörur. Eins er þetta háskólaborg og er háskólinn í Augsborg virtur skóli.

Jakob Fugger er líklega frægasti og mikilvægasti íbúi Augsburg frá upphafi en borgin hefur getið af sér fleiri frægar persónur í gegnum tíðina. Leopold Mozart var þekktur listamaður á sínum tíma en er í dag þekktur fyrir það að vera pabbi Wolfgangs Amadeus, hann var eins og Franz afi sinn frá Augsburg.

Rudolf Diesel sem er fæddur í París ólst upp í Augsburg hjá frænku sinni eftir að rest af fjölskyldunni flutti til London. Ástæða þess að þau flýðu Frakkland var stríð Prússa og Frakka árið 1848. Þið megið geta einu sinni fyrir hvað Rudolf Diesel er frægur.

Mietek Pemper gerðist Þýskur ríkisborgari og bjó í Augsburg eftir seinni heimsstyrjöldina. Hann er líklega ekki eins frægur og hann ætti að vera en Pemper skrifaði listann fræga fyrir Oskar Schindler ásamt vini sínum, Itzhak Stern.

Frægustu knattspyrnumenn borgarinnar eru þeir Bernd Schuster og svo goðsögnin Helmut Haller en báðir gátu sér eðlilega nafns annarsstaðar. Haller endaði þó ferilinn sinn hjá Augsburg árið 1973/74 er liðið vann 2.deildina en tapaði í úrslitaleik um sæti í efstudeild og komst því ekki upp. Haller hefur verið þeirra helsta hetja þar til núna undanfarin ár að liðið er komið í hóp þeirra bestu.

Þeir gleyma þó ekki sínu fólki í Augsburg

FC Augsburg

Uppgangur FC Augsburg undanfarin áratug minnir um margt á uppgang Hoffenheim á sama tíma nema hvað Augsburg er margfalt stærri borg en smábærinn Hoffenheim.

Persónulega hélt ég að þetta lið væri svona 12 ára gamalt í það mesta en sannleikurinn er að félagið var stofnað árið 1907. Eða réttara sagt var annar af forverum FC Augsburg stofnað það ár, það lið hét BC Augsburg og var lið verkamanna í norður hluta borgarinnar. Allt til ársins 1969 voru tvö lið í borginni og hafði sameining þeirra verið til umræðu í tæplega þrjá áratugi er loksins að skrefið var stigið. Fjórum árum seinna kom Helmut Haller heim úr atvinnumennsku og sameinaði stuðningsmenn Augsburg bak við liðið og var grátlega nálægt því að hjálpa því upp í efstu deild. Áður en hann kom heim hafði mæting á leiki liðsins verið afleit og en eftir komu hans var áhorfendamet félagsins slegið og stendur það ennþá.

Augsburg var neðrideildarlið í 104 ár, oftast flakkandi milli 2. og 3. deildar en fór alveg niður í 4.deild nokkrum sinnum eða ígildi 4.deildar sem þá voru svæðisbundnar deildir í V-Þýskalandi eða Bæjaralandi. Félagið hefur ekki einu sinni alltaf verið með atvinnumannalið.

Aldamótaárið 2000 var félaginu sérstaklega erfitt og munaði engu að félagið yrði lýst gjaldþrota og starfseminni hætt, Augsburg fékk ekki keppnisleyfi vegna skulda og var liðið fellt niður um deild.

Walther Seinsch, frumkvöðull frá Augsburg kom þá til bjargar, hann tók við sem formaður félagsins og setti í gang fjárhagsáætlun sem sneri rekstri félagsins við. Liðið fór aftur upp um deild tveimur árum síðar.

Næstu fjögur árin endaði liðið í einhverju af efstu fjórum sætum deildarinnar en náði ekki að komast upp. Árið 2005 töpuðu þeir niður tveggja marka forystu á síðustu fjórum mínútunum í lokaleiknum sem varð til þess að þeir komust ekki upp.

Árið eftir tókst það hinsvegar og komst félagið aftur í næstefstu deild í fyrsta skipti í 23 ár og hélt sæti sínu næstu árin á eftir.

Árið 2009 var Rosenau völlurinn kvaddur, hann var byggður úr rústum eftir seinni heimsstyrjöldina og hafði þjónað tilgangi sínum vel. Nýji heimavöllurinn heitir Impuls Arena en er í dag kallaður WWK ARENA til heiðurs styrktaraðila félagsins. Völlurinn tekur rúmlega 30.þúsund manns í sæti en möguleiki er á að stækka hann upp í 49.þús manns.

Völlur

Nýr heimavöllur lagðist vel í Augsburg liðið sem komst í undanúrslit í bikarnum og endaði í þriðja sæti í deildinni sem gaf rétt á umspilsleik gegn Nurnberg, leik sem tapaðist.

Árið eftir (2011) tókst Augsburg hinsvegar loksins að komast á meðal þeirra bestu í Þýskalandi eftir að hafa endað í öðru sæti í deildinni.

Augsburg hefur núna haldið sér í deildinni sl. fjögur tímabil. Síðast hafnaði liðið í 5.sæti sem er langbesti árangur félagsins frá upphafi og dugði það til að tryggja þáttöku í Europa League. Þar komst liðið upp úr riðli með Bilbao, AZ og Partizan Belgrade. Augsburg vann Serbana 3-1 í lokaleik riðilsins á útivelli sem dugði til að komast áfram á markatölu. Fyrri leiknum gegn Partizan höfðu þeir tapað 1-3 á heimavelli.

Augsburg er sem stendur í 14.sæti í 18.liða deild með 21 stig eftir 20 leiki. Sterkur endasprettur fyrir vetrarfrí þar sem liðið vann þrjá síðustu leikina lagaði stöðuna töluvert. Eftir vetrarfrí er liðið ekki enn búið að vinna deildarleik í fjórum tilraunum.

Vetrarfríið nýttu þeir í að bæta við sig nokkrum leikmönnum en helsta vandamál Augsburg í vetur hefur verið markaskorun og það að verjast föstum leikatriðum! Til þess að laga vandamálið hvað varðar markaskorun fengu þeir Alfreð Finnbogasson en þar sem hann hefur nú þegar spilað í Evrópukeppni í vetur má hann ekki koma inn í hópinn núna.

Það eru engar stjörnur í liði Augsburg og leggjur liðið mikið upp úr öflugri liðsheild, þetta skilaði þeim 5.sæti í deildinni í fyrra sem var langt yfir væntingum. Stjóri liðsins heitir Markus Weinzierl og er hann að skapa sér nafn í boltanum með árangri sínum með Augsburg liðið. Hann var áður hjá smáliðinu SSV Jahn Regensburg þar sem hann endaði ferilinn sem leikmaður og tók við sem aðstoðarstjóri í kjölfarið. Árið eftir (2008) tók hann við liðinu og kom því úr svæðisbundnum deildum í Bæjaralandi upp í 2.deild árið 2012 sem er mjög góður árangur fyrir það lið sem hefur misst flugið eftir að Weinzierl fór sumarið 2012.

Árangur Wienzierl vakti það mikla athygli að Augsburg sem var búið að vera eitt tímabil í efstu deild hafði kjark í að taka sénsinn á honum og fá hann til félagsins. Hann tók því við Augsburg 38 ára gamall og er núna tæplega fjórum árum síðar búinn að koma þeim í Evrópukeppni og upp úr riðlinum í fyrstu tilraun, hann er fyrir vikið talinn einn efnilegasti stjóri Þjóðverja og hefur Klopp talað á þeim nótum í aðdraganda þessa leiks.

Það er ekki bara spenna í Augsburg fyrir því að fá Liverpool í heimsókn heldur eru rosaleg spenna í Þýskalandi fyrir þessum fyrsta leik Jurgen Klopp þar eftir að hann hætti hjá Dortmund. Hann er stórstjarna í Þýskalandi og ná vinsældir hans vel út fyrir fótboltann. Þeir hjá Augsburg eru léttir á því og hentu í þetta eftir leikinn gegn Norwich á dögunum.

Liverpool

Jurgen Klopp hefur átta sinnum mætt Augsburg og aðeins einu sinni tapað, það var á síðasta tímabili og sendi Augsburg lið Dortmund á botn deildarinnar í kjölfarið. Dortmund vann fimm leiki gegn Augsburg undir stjórn Klopp og tvisvar gerðu liðin jafntefli. Hann þekkir því vel til þessara mótherja okkar og kemur vonandi í veg fyrir vanmat.

Liverpool hefur enda ekkert efni á að vera með vanmat í Evrópukeppni eftir gegn liðsins undanfarin ár. Tveir sigurleikir og fjögur jafntefli dugðu til að komast upp úr vægast sagt ekki sterkum riðli og ljóst að okkar menn þurfa að skipta verulega um gír ef bæta á vandræðalegt gengi liðsins í þessari keppni frá síðasta tímabili.

Nú þegar hefur gríðarleg orka farið í þessa keppni hjá okkar mönnum, liðið er búið að spila sex leiki nú þegar ofan á sex leiki í deildarbikar og fjóra leiki í FA Cup. Þetta er gríðarlega stór partur af ástæðu þess að Liverpool er nú í 8.sæti deildarinnar og svo gott sem búið að ljúka þar leik í vetur. Sextán leikir aukalega hafa heldur ekkert hjálpað upp á rosalegan meiðslalista allt mótið. Margir vildu frekar að okkar menn tækju Europa League alvarlega, jafnvel frekar en deildina og nú þegar ekkert er annað eftir er óskandi að þessi áhætta borgi sig. Frammistaða Liverpool í Evrópu undanfarið gefur alls ekkert tilefni til bjartsýni upp á framhaldið enda ennþá 32 lið eftir í keppninni en undarlegri hlutir hafa gerst.

Vonandi lendum við ekki í sömu rosalegu meiðslavandræðunum áfram því að munurinn á sóknarleik með Sturridge, Origi, Firmino og Coutinho tiltæka frekar en Benteke, Ibe, Firmino og Lallana er eins og munurinn á byssubardaga milli vatnsbyssu og skriðdreka. Satt best að segja eru ekki mörg lið eftir í Europa League með betri sóknarlínu en Liverpool og slíkt gefur okkur alltaf smá von meðan þeir haldast heilir blessaðir (þar liggur auðvitað vandinn).

Fyrri leikur liðanna er á útivelli fjórum dögum eftir síðasta deildarleik sem var verulega þægilegur. Eftir þennan leik fær Liverpool í fyrsta skipti vikufrí milli leikja síðan Ian Rush var í liðinu. Það er því ekki spurning um að fara með okkar allra sterkasta lið í þennan leik og reyna að ná í góð úrslit því að eftir seinni leikinn er næsti leikur á eftir úrslitin í deildarbikarnum á Wembley. Englendingar hjálpa alltaf sínum félagsliðum með leikjaprógrammið í Evrópu og troða þessum úrslitaleik heilum föstudegi og laugardegi frá Evrópuleiknum.

Meiðslalistinn er ennþá vandamál en þetta er allt aðeins minna vesen um leið og leikmenn sem geta bæði hlaupið og skorað koma til baka. Lucas Leiva var frá í síðasta leik ásamt Lallana, báðir gætu náð þessum leik. Skrtel og Allen eru frá og Lovren á um tvær vikur eftir á listanum líka. Brad Smith meiddist gegn West Ham og Rossiter er ekki kominn til baka ennþá. Auk þeirra eru svo Ings og Gomez auðvitað ennþá frá.
M.ö.o. níu meiddir en blessunarlega ekki eins mikilvægir lykilmenn og jafnan áður allt þetta tímabil. John Flanagan var síðan ekki valinn í Evrópudeildarhópinn eftir áramót enda ennþá verið að koma honum rólega til baka. Þeir sem komu í janúar bætast hinsvegar við hópinn í staðin.

Spá um byrjunarlið

Mignolet

Clyne – Caulker – Sakho – Moreno

Henderson – Can – Milner

Firmino – Sturridge – Coutinho

Það er engin þörf á að breyta mikið liði sem vann síðasta leik 6-0. Auðvitað veit maður ekki standið á hópnum eftir síðasta leik né hverjir styrkleikar Augsburg eru en fljótt á litið myndi ég bara taka Toure út fyrir Caulker. Bæði held ég að Caulker sé betri leikmaður og eins vegna þess að Toure spilar varla tvo leiki á 4 dögum. Lovren, Skrtel, Lucas og Gomez eru síðan allir meiddir sem eykur líkur Caulker.

Á miðjunni væri ég líka alveg til í að fórna einum og setja Coutinho niður og Origi í byrjunarliðið, sé það þó alls ekki gerast.

Spá:
Þegar Liverpool komst í Meistaradeildina tímabilið 2013/14 var framínan Coutinho, Sterling, Suarez og Sturridge. Liverpool spilaði aldrei með svo mikið sem sýnishorn af þessari sóknarlínu í Meistaradeildinni á síðasta tímabili og því síður í Evrópudeildinni gegn Besiktas.

Það sem af er þáttöku okkar manna Evrópudeildinni á þessu tímabili hefur liðið glímt við sama vandamál. Á tíma voru Firmino, Sturridge, Ings og Origi allir frá ásamt t.d. Henderson sem er mikilvægasti linkur miðjunnar við sóknina. Liverpool er búið að spila 6 Evrópudeildarleiki og skora í þeim 6 mörk samtals. Það er ekki ósvipað og liðið var að gera í deildinni á sama tíma.

Sturridge, Coutinho og Origi bættust allir í einu við liðið í síðasta leik og Firmino er allt annar leikmaður eftir áramót en hann var fyrir áramót. Eins er Henderson aðeins farin að finna sig og viti menn, Liverpool skoraði jafn mörg mörg í síðasta leik og liðið hefur gert það sem af er móti í Europa League.

Þessi leikur er rosalega stór viðburður í Augsburg og heimamenn verða allt annað en auðveldir en ég geri þá kröfu á okkar menn að þeir skori nú meira en eitt mark í a.m.k. öðrum hvorum leiknum. Liðið þarf að skipta all svakalega um gír í Evrópu og hefur alla burði til þess með meiðslalistann nú vs meiðslalistann fyrir áramót.

Spái að þetta verði nokkuð öflugur 1-3 sigur.

34 Comments

  1. Frábært að fá svona kynningu. Kop.is skorar hærra og hærra! Vonandi heldur meiðslalistinn áfram að styttast.

  2. Djöfu… snilldar upphitun. Þetta verður spennandi rimma þar sem öll pressan er á Liverpool að komast áfram. Vonandi standast leikmenn okkar þetta sálfræðipróf.

  3. Tel reyndar að Sturridge verði ekki notaður. Það verður sparaður fyrir heimaleikinn.

  4. Takk Einar fyrir frábæran kynningarpistil. Það er ætíð tilhlökkunarefni að lesa Evrópupistla á Kop.is 🙂 . Það er náttúrulega svaka stemming í kringum þessa rimmu. Klopp og allt það á þýskri grund. Augsburg alveg í skýjunum að vera komnir í 32 liða úrslit í sínu fyrsta Evrópuferðalagi og finnst þeir ekki hafa getið verið heppnari með andstæðing! Bara gaman. Vonandi er hungur og einbeiting í okkar mönnum. Virkileg markmið í gangi! Ef það er raunin þá á ekki að vera erfitt að spá Liverpool sigri. En ef það er eitthvað sem stuðningsmenn Liverpool FC eru með á hreinu þessi misserin þá er það nákvæmlega það að er ekkert gefið með þetta lið… segir svo hugur að veðbanka stuðlar séu ekkert eitthvað rosalega Augsburg í óhag!! Koma svo… fá markaleik og það helst bara á annan veginn!

    YNWA

  5. Frábær upphitun. Ég las áhugaverðan pistil um fótbolta og er ùtlærður í sögu, landafræði og samfélagsfræði svæðisins. Veit Íllugi af þessum miðli? …..

  6. Þvílíkir fagmenn, Augsburg og Klopp.is
    Ef leikmenn og þjálfarar eru á sama stalli, þá verður þetta frábært.

  7. Þó svo að Einar Matthías sé ekki stærsti aðdáandi þessarar keppni að þá gerir hann sitt til að við hinir erum bara nokkuð sáttir við hana. Þvílíkar upphitanir!!!!
    Hef enga trú á að Sturridge verði sparaður í þessum leik. Fær sinn klukkutíma og setur eitt eða tvö á þeim tíma. Spái að þetta fari 4-0 og Benteke setji loksins eitt þegar hann kemur inn á.

  8. ætli þetta Augsburg lið sé ekki á stalli með Aston Villa og Sunderland þannig að með okkar sterkasta lið ætti það ekki að vera mikil fyrirstaða.. Þannig að alla tíman að stilla upp okkar sterkasta liði og helst vinna 4-0 eða meira þannig að okkr helstu menn fái hvílt í seinnileiknum og verða hrikalega hressir þegar við mætum Manchester City á Wembley.. Ciy menn eiga langt ferðarlag til rússland í vikuni fyrir leikinn 😉 En sjúklega góður pistill(upphitun) ég veit ekki hvar við værum án Evrópu Einars

  9. Sælir félagar

    Takk fyrir frábæra upphitun

    Það er nú þannig

    YNWA

  10. Ég verð að viðurkenna það að ég tók langmest eftir einu úr þessari frábæru upphitun… En það er virðing við mótherjann!! Aldrei hef ég heyrt áður að stuðningsmenn fái skipulagðar ferðir frá heimamönnum… Alger snilld og massíft respect á augsburg

  11. Stuðningsmenn Augsburg eru til fyrirmyndar. Þessi upphitun er án efa með því besta sem ég hef lesið í íslenskum fjölmiðlum, þó víðar væri leitað.

  12. Mjög fín upphitun þó að það hefði að sönnu mátt minnast á Heilaga Rómverska ríkið hvar Augsburg var ein aðalborgin.

    Annars velt ég því fyrir mér hvort það megi ekki fá einhverja úr þessu twitter-teymi Augsburgar í vefdeildina LFC.

  13. Fáránlega vel gerð upphitun. Fyllti upp í orðafjöldann og vel það.

    (Skemmtilegast er þó að sjá enga óþarfa ensku: München, Nürnberg, Ágústus.)

    Ríkasti maður allra tíma, segirðu? Ég sé á wikipediu-síðunni að hann var auðkýfingur í anda Marks Zuckerbergs; klæddi sig eins og niðursetningur.

    Liverpool setur tvö á morgun. Eitt fyrir hvort skipti sem Fuggerei-húsin hafa farið illa í styrjöldum.

  14. Nú er Kevin Stewart meiddur! Ökklinn fór á æfingu. Hvernig er það, var ekki skipt um gras á Melwood í fyrrasumar? Og síðan þá öll þessi meiðsli, mest á æfingum. Þetta er rannsóknarefni, þykir mér.

  15. Þið eruð svo klikkaðir… spá 3 4 núll í þýskalandi.. haha týpískir Liverpool aðdáendur, og sitja svo á Fimtudag með hendur í skauti sér æfir af bræði með vonbrigði úrslitana.. Eeeen þar sem ég er sjálfur Liverpool maður og með smá snert af Liverpool vírusinum að þá ætla ég samt að spá naumum eins marks sigri, kannski 1-2 eða hið minnsta jafntefli 1-1
    Já og takk fyrir frábæra upphitun 🙂

  16. Frábær upphitun! En skil ekki í þeim sem halda að það sé bara sjálfsagt að fara þarna og rúlla upp þessu liði svo við getum hvílt lykilmenn fyrir seinni leikinn. Augsburg sýna okkur greinilega mikla virðingu og ég legg til að við gerum það sama. Megum alls ekki vanmeta þetta lið. Það verður geggjuð stemning hjá þeim og stuðningur og ég hef á tilfinningunni að við munum þurfa að hafa fyrir þessu. Verð mjög sáttur ef við náum að sigra, þó það verði bara eins marks sigur!

    Respect á FC Augsburg.

  17. Evrópu-Einar stendur svo sannarlega undir nafni. Geggjaður upphitunarpistill, takk fyrir mig!

    Þjóðverjarnir munu gefa allt í þetta. Spái erfiðum leik; 1-1 jafntefli eða 1-2 sigur.

    Áfram Liverpool!

  18. takk fyrir frábæra upphitun, vona svo innilega að LIVERPOOL gefi mér afmælisgjöf með góðum sigri í kvöld 🙂

  19. Nr. 21 og 22

    Finnst nú ekkert voðalega margir hérna tala um að þetta sé sjálfsagt mál, þvert á móti. En svo er spurning hvort það sé eitthvað óeðlilegt að stuðningsmenn Liverpool beri það mikla virðingu fyrir sínu liði að þeir hafi trú á að liðið geti unnið Augsburg. Jafnvel verra mál ef það eru orðnar óraunhæfar væntingar.

  20. Já Evrópu-Einar veldur ekki vonbrigðum frekar en fyrri daginn. Ég hef komið til Augsborgar og það var nú ekkert merkilegt. Mig minnir að ég hafi keypt fartölvu þar í MediaMarkt.

    En miðað við hvernig móttökurnar eru þá held ég að Augsburg sé orðið mitt lið í Þýskalandi. Frábærlega gert og manni sýnist á öllu að svona klúbbar geti gert fótboltaheiminn soldið betri.

    Að því sögðu þá er auðvitað engin ástæða fyrir okkar menn að ætla að gefa eitthvað eftir. Þeir eiga að vinna þennan leik, en það verður reyndar sagt um marga leiki sem þeir vinna ekki. Enda veit maður ekkert hvaða lið kemur út á völlinn þótt byrjunarliðið sé nokkuð fyrirsjáanlegt. Ég spái 1-1 jafntefli. Og Sturridge meiðist í upphitun.

  21. Thusund thakkir fyrir frabæra upphitun!

    Er alltaf smeykur vid thysk lid enda eru thau oftast vel øgud og sterk EN eg ætla ad leyfa mer ad vera bjartsynn og spai 0-1 sigri i frekar rolegum leik.

    Origi skorar a 56.min.

    KOMA SVO!!!

  22. Eftir svona pistil er ekki hægt annað en að ná leiknum.

    Mér finnst alltaf þegar ég sé evrópuleiki, hvort sem er í meistaradeild eða evrópudeild að öll lið hlaupi meira og hlaupi hraðar og hamist meira en okkar menn gera venjulega.

    Kannski út af því að það eru nokkrir í okkar ástkæra liði sem vilja klappa boltanum of mikið.
    Kannski út af því að það eru of margar þversendingar milli miðjumanna eða milli varnarmanna eða jafnvel milli sóknarmanna 😀

    Sjálfsagt er til einhver mæling á þessu hjá statistics sérfræðingum.

    Vonandi förum við að verða beinskeittari og hraðari uppá við aftur, annars bara þolinmæði og brjóta þjóðverjana smátt og smátt á bak aftur … og aftur.

    1-2

    YNWA

  23. Frábær pistil um Augsburg en með óþarfa og endalausu röfli um gríðalega orku Liverpool liðsins sem farið hefur til spillis í hinum og þessum keppnum vegna þess að hún sé ekki endurnýtanleg og ekki sjálfbær!!

    En takk fyrir LiverpoolFC að sjá ykkur enn og aftur spila í kvöld. 1-4 með vindinn í bakið.

    Slakað á í næsta leik og vinna svo Man. City í keppni sem skiptir engum máli, eða þannig. ;(

  24. Sterkt lid!

    Liverpool team v Augsburg: Mignolet, Clyne, Toure, Sakho, Moreno, Can, Henderson, Milner, Coutinho, Firmino, Sturridge

  25. Frábær upphitun sem endranær.
    Vissulega megum við ekki vanmeta Augsburgar liðið, en með þessari liðsuppstillingu aukast líkurnar á hagstæðum úrslitum. Eina spursmálið er Kolo Toure, en 4 dagar +ferðalag er örugglega of mikið fyrir” þann gamla” 😉
    Spái 1-3 eftir barning þar sem úrslitin ráðast á síðasta korterinu.

Joel Matip til Liverpool í sumar (staðfest!)

Liðið gegn Augsburg